Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-145
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kærumál
- Vitni
- Matsgerð
- Skýrslugjöf
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 18. nóvember 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, til að kæra úrskurð Landsréttar 12. sama mánaðar í máli nr. 789/2024: A gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Kröfur leyfisbeiðanda í héraði eru reistar á því að gagnaðili hafi valdið leyfisbeiðanda miska með ólögmætri meingerð þar sem bótaskyldu vegna umferðarslyss í október 2019 hafi verið hafnað á grundvelli svonefndrar PC-Crash skýrslu sem leyfisbeiðandi telur meðal annars hafa verið falsaða. Leyfisbeiðandi höfðaði mál 12. júlí 2023 á hendur ökumanni bifreiðar sem lenti í árekstri við bifreið leyfisbeiðanda og gagnaðila, sem vátryggjanda fyrrgreindu bifreiðarinnar, til heimtu miskabóta og viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna varanlegrar örorku. Upphaflega krafðist leyfisbeiðandi einnig í því máli miskabóta úr hendi gagnaðila vegna höfnunar bóta. Gagnaðili krafðist frávísunar síðastgreindu kröfunnar þar sem skilyrði kröfusamlags og aðildar beggja varnaraðila væru ekki uppfyllt. Leyfisbeiðandi felldi þá kröfuna niður en höfðaði 14. desember 2023 það mál sem hinn kærði úrskurður er hluti af. Undir rekstri upphaflega málsins var B, prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands, dómkvaddur til að leggja mat á tæknileg atriði vegna árekstursins. Hann skilaði matsgerð í því máli eftir að leyfisbeiðandi hafði fallið frá kröfunni sem er til umfjöllunar í þessu máli. Ágreiningur aðila hér fyrir dómi snýr að því hvort heimila eigi leyfisbeiðanda að leiða B fyrir dóm til skýrslugjafar við aðalmeðferð þessa máls í héraði.
4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda um að B gæfi munnlega skýrslu við aðalmeðferð málsins í héraði. Landsréttur taldi að matsmaðurinn hefði ekki skynjað atvik máls þessa af eigin raun og gæti því ekki borið um málsatvik. Yrði hann því ekki leiddur fyrir dóm sem vitni á grundvelli VIII. kafla laga nr. 91/1991. Þá hefði hann ekki verið dómkvaddur sem matsmaður í málinu og yrði heimild til að leiða hann fyrir dóm til skýrslugjafar ekki reist á 1. mgr. 65. gr. laganna.
5. Leyfisbeiðandi byggir á að úrskurður Landsréttar sé augljóslega rangur að formi og efni. Hann telur umrædda matsgerð sýna fram á verulega annmarka PC-Crash skýrslunnar sem sé til umfjöllunar í báðum málum og bersýnilegt sé að vitnisburður B yrði ekki þýðingarlaus. Þá sé niðurstaða um kæruefnið til þess fallin að koma í veg fyrir að tveir dómar gangi á svipuðum tíma með ósamrýmanlegum eða illa samrýmanlegum úrslitum. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að niðurstaða Landsréttar fái ekki staðist meginreglur einkamálaréttarfars og reglur um réttláta málsmeðferð. Kæruefnið hafi almennt gildi þar sem notkun PC-Crash skýrslna í líkamstjónamálum sé í ákveðinni óvissu. Þannig hafi Persónuvernd fundið að framkvæmd við gerð slíkrar skýrslu. Hann byggir enn fremur á að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir rekstur málsins í héraði en meginmálsástæða hans sé að höfundur PC-Crash skýrslunnar hafi matað forritið sem liggi til grundvallar skýrslunni á röngum upplýsingum. Telur leyfisbeiðandi að matsgerðin staðfesti að svo hafi verið. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að einn dómenda í Landsrétti hafi verið vanhæfur til setu í dóminum, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991, vegna fyrri starfa sinna sem lögmaður fyrir gagnaðila.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.