Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-40

Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf. (Heimir Örn Herbertsson lögmaður)
gegn
þrotabúi A (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Riftun
  • Ógjaldfærni
  • Endurgreiðsla
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 22. mars 2024 leitar Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. febrúar sama ár í máli nr. 24/2023: Þrotabú A gegn Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um riftun á greiðslu skuldar að fjárhæð 29.330.919 krónur í nóvember 2019 og að leyfisbeiðanda verði gert að greiða honum tilsvarandi fjárhæð. Þrotamaður var fyrirsvarsmaður félags sem átti í viðskiptum við leyfisbeiðanda og greiðslan var innt af hendi á grundvelli yfirlýsingar hans um sjálfskuldarábyrgð á skuldum tilgreindra félaga við leyfisbeiðanda. Bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta í október 2020. Krafa um riftun byggir á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

4. Í héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila en með dómi Landsréttar var fallist á kröfu um greiðslu fyrrgreindrar fjárhæðar. Landsréttur leit til þess að þrotamaður hafði átt í áralöngum viðskiptum við leyfisbeiðanda vegna atvinnureksturs síns og staðið í miklum persónulegum ábyrgðum. Þá hefði leyfisbeiðanda átt að vera kunnugt um mikla erfiðleika í rekstri þrotamanns og að félag hans hefði að mestu látið af starfsemi. Enn fremur lá fyrir að þrotamaður hafði nokkru áður greitt 9.000.000 króna viðskiptaskuld á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar vegna annars félags í hans eigu. Í dómi Landsréttar var lagt til grundvallar að þar sem leyfisbeiðandi hefði búið yfir vitneskju um framangreind atriði hefði honum borið að kanna stöðu þrotamanns áður en hann tók við hárri greiðslu úr hendi hans. Þótt þrotamaður hefði ekki verið á vanskilaskrá þegar hann innti greiðsluna af hendi hefði legið fyrir samkvæmt opinberum gögnum að hann var með öllu eignalaus og þá hefði hann nokkru áður ráðstafað verðmætustu eign sinni til sambýliskonu sinnar. Því taldi Landsréttur að leyfisbeiðandi hefði mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfun hans var ótilhlýðleg.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í því reyni á túlkun og beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá séu engin dæmi í dómaframkvæmd um sérstaka athafnaskyldu móttakanda greiðslu til að kanna stöðu þrotamanns við álíka aðstæður. Þessu til viðbótar reynir á réttmæti þess að innheimta skuld fyrirtækis hjá aðila sem gengist hafi undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu hennar. Slíkar ábyrgðir tíðkist í viðskiptum og miklu skipti að skýrt sé hvaða skyldur hvíli á skuldareiganda við álíka aðstæður. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Þá vísar hann til þess að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og að ekki hafi verið tekin fullnægjandi afstaða til málsástæðna í dómi Landsréttar.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu 141. gr. laga nr. 21/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.