Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-136
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Landamerki
- Jörð
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 30. október 2024 leita Sigurður Haukur Greipsson, Hrönn Greipsdóttir, Þórir Sigurðsson ehf., Sigríður Vilhjálmsdóttir, Hótel Geysir ehf., Svava Loftsdóttir, Marta Loftsdóttir, Margrét Sigríður Pálsdóttir, Páll Gunnlaugsson, Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, Pétur Guðfinnsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Minningarsjóður Ársæls Jónassonar kafara leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. október 2024 í máli nr. 516/2022: Sigurður Haukur Greipsson, Hrönn Greipsdóttir, Þórir Sigurðsson ehf., Sigríður Vilhjálmsdóttir, Hótel Geysir ehf., Svava Loftsdóttir, Marta Loftsdóttir, Margrét Sigríður Pálsdóttir, Páll Gunnlaugsson, Anna Gyða Gunnlaugsdóttir, Pétur Guðfinnsson, Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Minningarsjóður Ársæls Jónassonar kafara gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að ágreiningi um landamerki milli annars vegar óskipts sameignarlands sem nefnist Haukadalstorfa í eigu leyfisbeiðenda og hins vegar Haukadals I í eigu gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var kröfum gagnaðila vísað frá dómi en gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðenda. Með héraðsdómi var gagnaðili sýknaður af kröfum leyfisbeiðenda í aðalsök en í gagnsök var viðurkennt að landamerki væru með þeim hætti sem gagnaðili krafðist. Jörð gagnaðila var seld árið 1938 og var vilji kaupanda að gefa landið til skógræktar. Kaupandi fól skógræktarstjóra að reisa girðingu sama ár. Eftir andlát kaupandans árið 1940 gáfu erfingjar hans jörðina til Skógræktar ríkisins. Leyfisbeiðendur byggðu á því að girðing sú sem reist var árið 1938 hefði verið ætlað að ráða mörkum jarðarinnar. Girðingin stendur enn uppi að hluta. Gagnaðili gerði ekki ágreining um að miða skyldi við að girðingin hefði legið eins og kröfulína leyfisbeiðanda var dregin upp og hnitsett en hafnaði því á hinn bóginn að hún hefði verið reist í mörkum jarðarinnar. Í dómi Landsréttar kom fram að frávik hefðu verið svo mikil milli annars vegar uppdráttar sem fylgdi afsölum frá árinu 1938 og sýndi mörk jarðarinnar og hins vegar þess uppdráttar sem skógræktarstjóri sagði sýna landið, sem friðað hefði verið, að draga yrði þá ályktun að ekki hefði verið girt á mörkum jarðarinnar. Var því ekki fallist á með leyfisbeiðendum að girðingin réði merkjum. Gagnaðili byggði á því í gagnsök að um mörk jarðarinnar færi samkvæmt markalínu sem dregin hefði verið á uppdrætti sem fylgdi afsölum frá árinu 1938 og gjafaafsali 1940 en gagnaðili hafði falið verkfræðistofu að varpa uppdrættinum yfir á nútímakort. Landsréttur tók fram að gagnaðili hefði átt þess kost að afla frekari sönnunargagna til stuðnings fullyrðingu sinni um að þær markalínur, sem fram komu á þeim uppdrætti, væru réttar, svo sem með matsgerð dómkvadds manns. Komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að hann hefði ekki lagt þann grundvöll að málsókn sinni að dómur yrði lagður á kröfur hans.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því reyni einkum á það álitaefni að landeigendur hafi með manngerðum framkvæmdum fest niður landamerki sem áður hafi stuðst við óljósar lýsingar í kaupsamningum og afsalsbréfum. Málið hafi því verulegt almennt gildi fyrir úrlausn ágreiningsmála þar sem hvorki liggi fyrir skýr uppdráttur af merkjum né lýsing í landamerkjabréfi. Málið hafi jafnframt fordæmisgildi fyrir aðstæður þar sem skýr og afmarkaður gjafatilgangur standi að baki því að fasteign sé keypt og henni síðan fljótlega í kjölfarið afsalað til endanlegs gjafþega. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.