Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-165
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Miskabætur
- Sveitarfélög
- Barnavernd
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 9. desember 2024 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 14. nóvember sama ár í máli nr. 456/2023: A og B gegn C. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðendur eigi rétt á bótum úr hendi gagnaðila vegna miska sem þau telja sig hafa orðið fyrir vegna málsmeðferðar barnaverndarnefndar gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var komist að þeirri niðurstöðu að ágreiningslaust væri að misbrestur hefði orðið á því að reglum barnaverndarlaga nr. 80/2022 hefði verið fylgt í hvívetna við meðferð máls leyfisbeiðenda. Að virtum gögnum málsins og að teknu tilliti til þess sem fram hefði komið í skýrslugjöf leyfisbeiðenda og vitna fyrir Landsrétti voru þó ekki talin efni til að hrófla við þeirri niðurstöðu héraðsdóms að saknæmisskilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 væru ekki uppfyllt. Var hinn áfrýjaði dómur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda því staðfestur með vísan til forsendna.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið hafi verulega almenna þýðingu. Í málinu liggi fyrir skýrsla Barnaverndarstofu sem staðfesti að málsmeðferð gagnaðila hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli laga. Þá liggi fyrir opinber afsökunarbeiðni fyrrverandi bæjarstjóra gagnaðila þar sem viðurkennd sé sök í málinu. Slíkar afsökunarbeiðnir hafi í dómum verið taldar hafa þýðingu. Þá telja leyfisbeiðendur að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra en þeir hafi mátt þola mikið óréttlæti af hálfu gagnaðila um árabil sem hafi markað allt þeirra líf. Að lokum vísa leyfisbeiðendur til þess að dómur Landsréttar sér bersýnilega rangur að efni til um að saknæmisskilyrði skaðabótalaga hafi ekki verið uppfyllt þótt gagnaðili hafi brotið málsmeðferðarreglur barnaverndarlaga.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.