Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-22

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Björgvin Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Brot í nánu sambandi
  • Líkamsárás
  • Hótun
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. janúar 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. desember 2024 í máli nr. 680/2023: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot í nánu sambandi með því að hafa slegið dóttur sína í andlitið og sparkað í ofanverðan búk hennar. Jafnframt var hann sakfelldur fyrir að hafa hótað dóttur sinni og syni ofbeldi. Brotin gagnvart dótturinni voru talin varða við 1. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brotið gagnvart syninum við 233. gr. sömu laga. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin átta mánaða fangelsi og var hún bundin skilorði til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða brotaþolum miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi fellir sig við dóm Landsréttar hvað varðar brot gegn syni sínum en óskar eftir leyfi til að áfrýja dóminum hvað varðar brot gegn dótturinni. Hann byggir á því að hann hafi verið yfirheyrður hjá lögreglu í fyrsta og eina skiptið rúmlega tveimur árum eftir að ætluð brot áttu sér stað. Þar hafi hann fengið þær upplýsingar að sakarefnið væri ætlað brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins varði brot gegn því sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum en allt að ári sé háttsemin sérlega vítaverð. Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. laganna fyrnist sök á tveimur árum, þegar ekki liggi þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi. Í dómaframkvæmd hafi ákvæðið verið skýrt svo að fyrningarfrestur sé rofinn þegar sakborningur gefi fyrst skýrslu hjá lögreglu. Skýrslutaka hjá lögreglu hafi átt sér stað þegar meira en tvö ár voru liðin frá brotinu og því hafi heimfærsla til refsiákvæða mikla þýðingu fyrir hann. Þá mótmælir leyfisbeiðandi því að ætluð brot hans séu heimfærð til 1. mgr. 218. b almennra hegningarlaga og telur málið hafa fordæmisgildi um heimfærsluna enda hafi málum þar sem ákært sé fyrir slík brot fjölgað mikið síðustu ár.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggist jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðninni er því hafnað.