Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-116
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp
- Tilraun
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Ákvörðun refsingar
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 26. júlí 2024 leitar Skúli Helgason leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í máli nr. 386/2023: Ákæruvaldið gegn Skúla Helgasyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 1. júlí 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir tilraun til manndráps samkvæmt 211., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa ítrekað lagt til brotaþola með vasahnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut fimm stunguáverka, þar af einn sem náði inn í kviðarhol og í gegnum milta svo fjarlægja þurfti miltað og annan sem olli loftbrjósti. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að leyfisbeiðandi hefði veist að brotaþola með þeim hætti sem lýst væri í ákæru og honum hefði hlotið að vera ljóst að langlíklegast væri að bani hlytist af atlögunni. Þá féllst Landsréttur á það með héraðsdómi að verknaðurinn gæti ekki helgast af neyðarvörn. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi dæmdur í þriggja ára og sex mánaða fangelsi en með dómi Landsréttar var refsing hans þyngd og ákveðin fangelsi í fimm ár. Þótt leyfisbeiðandi hefði framið verknaðinn í tengslum við átök við aðra taldi Landsréttur ekki efni til að beita ákvæði 3. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Horfði rétturinn þá til þess að leyfisbeiðandi hefði beitt hnífi við verknaðinn og stungið brotaþola ítrekað. Þá leit Landsréttur til 1., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng enda málsmeðferð fyrir dómi stórlega ábótavant. Enn fremur lúti áfrýjun að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu og varði rétt manna til að verja sig fyrir ólögmætum árásum annarra. Lúti málið þannig meðal annars að túlkun á hinum hlutrænu efnisþáttum 12. gr. almennra hegningarlaga. Leyfisbeiðandi finnur að auki verulega að því að atriði sem horfðu til refsileysis hans, og þá jafnframt til sakfellingar árásarmanna hans, hafi ekki verið rannsökuð í þaula. Gefa verði neyðarvarnarsjónarmiðum meiri gaum og gera ítarlega grein fyrir þeim í heildarmati í niðurstöðu dóms. Þá verði að taka sérstaklega til skoðunar 2. mgr. 12. gr. almennra hegningarlaga. Loks gerir leyfisbeiðandi athugasemdir við að ekki hafi verið tekið tillit til dráttar á málinu við ákvörðun refsingar og hvorki litið til 2. mgr. 20. gr. né 3. mgr. 218. gr. c almennra hegningarlaga.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. greinarinnar. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.