Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-34

Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið (Gizur Bergsteinsson lögmaður)
gegn
Símanum hf. (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fjarskipti
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Stjórnvaldssátt
  • Stjórnvaldssekt
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 14. mars 2024 leita Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. febrúar 2024 í máli nr. 674/2022: Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið gegn Símanum hf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort gagnaðili hafi brotið gegn ákvæðum tveggja sátta sem hann gerði við leyfisbeiðanda Samkeppniseftirlitið á grundvelli 1. mgr. 17. gr. f. samkeppnislaga nr. 44/2005. Annars vegar greinir aðila á um hvort gagnaðili hafi brotið gegn 3. gr. sáttar 15. apríl 2015, sem birt var sem hluti ákvörðunar leyfisbeiðanda Samkeppniseftirlitsins 2. júlí sama ár nr. 20/2015. Hins vegar deila aðilar um hvort gagnaðili hafi brotið gegn 19. og 3. mgr. 20. gr. sáttar 23. janúar 2015, sem birt var sem hluti ákvörðunar leyfisbeiðanda Samkeppniseftirlitsins 4. júní 2015 nr. 6/2015 og hvort þau brot hafi verið nægilega rannsökuð. Laut málið einkum að því hvort gagnaðili hefði beitt ólögmætri samtvinnun sjónvarps- og fjarskiptaþjónustu við sölu á áskrift að útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem sýnd var á sjónvarpsrásinni Símanum Sport.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að fella úr gildi þá niðurstöðu áfrýjunarnefndar samkeppnismála að gagnaðili hefði brotið gegn 3. gr. sáttar 15. apríl 2015 og að honum bæri að greiða 200.000.000 króna stjórnvaldssekt. Leyfisbeiðandi íslenska ríkið var því dæmt til að endurgreiða gagnaðila þá fjárhæð með dráttarvöxtum. Þá var staðfest sú niðurstaða að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda um að gagnaðila yrði gert að greiða 500.000.000 króna sekt í ríkissjóð samhliða því sem ógilt yrði ákvæði í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að þeim hluta ákvörðunar leyfisbeiðanda Samkeppniseftirlitsins sem snéri að ætluðu broti gagnaðila á 19. og 20. gr. sáttar frá 23. janúar 2015 yrði vísað til nýrrar meðferðar og ákvörðunar leyfisbeiðanda Samkeppniseftirlitsins.

5. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að gagnaðili hefði ekki gert það berum orðum að skilyrði fyrir kaupum á fjarskiptaþjónustu sem hann veitti að einhver hluti þjónustu Skjásins skyldi fylgja með í kaupunum en óumdeilt var að Síminn Sport félli undir þá tilgreiningu. Þá hefði verið mögulegt að kaupa sjónvarpsrásina sérstaklega, óháð kaupum á fjarskiptaþjónustu. Samkvæmt því var ekki talið að gagnaðili hefði brotið gegn 1. málslið 3. gr. sáttar 15. apríl 2015. Varðandi það hvort gagnaðili hefði tvinnað saman í sölu fjarskiptaþjónustu fyrirtækisins og þjónustu Skjásins gegn verði eða viðskiptakjörum sem jafna mætti til slíks skilyrðis vísaði Landsréttur til þess að Heimilispakki gagnaðila væri samsettur með þeim hætti að í honum væri tvinnað saman fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu. Landsréttur leit til þess að áskrifendur gátu keypt alla þjónustuþætti í Heimilispakkanum staka, þar með talda sjónvarpsrásina Símann Sport og þá fjarskiptaliði sem pakkinn innihélt. Ljóst væri að gagnaðili hefði nýtt sér þá þjónustuþætti sem hann hefði yfir að ráða til að setja saman vöruna Heimilispakkann en hins vegar þótti ekki sýnt fram á að gagnaðili hefði, með því að gera Símann Sport að hluta Heimilispakkans, tvinnað saman í sölu fjarskiptaþjónustu fyrirtækis og sjónvarpsþjónustu þannig að jafnað yrði til umrædds skilyrði sáttarinnar 15. apríl 2015. Varðandi skilyrði 19. gr. sáttar 23. janúar 2015 tók Landsréttur fram að þegar horft væri til þeirra skýringa með greininni sem kæmu fram í ákvörðuninni yrði að telja að ekki yrði litið framhjá þeim orðum að tilgangur greinarinnar hefði meðal annars verið að koma í veg fyrir að beitt yrði samtvinnun á þeim mörkuðum þar sem gagnaðili og Míla ehf. væru í markaðsráðandi stöðu hverju sinni. Yrði samkvæmt því að liggja fyrir mat á því hvort félögin væru í markaðsráðandi stöðu á umræddum mörkuðum. Þá þótti verða að skýra inntak 3. mgr. 20. gr. sömu sáttar til samræmis við ákvæði 19. gr. þannig að rannsaka hefði þurft skilgreinda markaði málsins og taka afstöðu til þess hvort gagnaðili væri í markaðsráðandi stöðu á einhverjum þeirra áður en hægt væri að leggja mat á hvort hann hefði brotið gegn skilyrðum greinarinnar. Var dómkröfum leyfisbeiðenda því hafnað.

6. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu fyrir beitingu samkeppnisreglna og varði afar mikilvæga almannahagsmuni. Vísa þeir til þess að dómur Landsréttar dragi úr skilvirkri framkvæmd samkeppnisréttar og takmarki möguleika Samkeppniseftirlitsins til þess að gæta almannahagsmuna með gerð stjórnvaldssátta. Taka leyfisbeiðendur fram að ef ákvæði sáttar yrðu túlkuð með þeim hætti að sýna þurfi fram á sömu atriði og við beitingu 11. gr. samkeppnislaga myndi ekki þjóna neinum tilgangi að ljúka málum með sátt. Jafnframt telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni. Ákvæði sáttarinnar séu skýrð án tillits til forsögu, úrlausna Samkeppniseftirlitsins, áfrýjunefndar samkeppnismála og dómstóla. Enn fremur sé málsatvikalýsingu í dómi Landsréttar ábótavant og ekki tekin afstaða til fjölmargra málsástæðna leyfisbeiðenda og rökstuðningi dómsins því áfátt.

7. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi, einkum um réttaráhrif og túlkun stjórnvaldssátta á sviði samkeppnisréttar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.