Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-104

Arion banki hf. (Ívar Pálsson lögmaður)
gegn
Magnúsi Pétri Hjaltested (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður) og dánarbúi Þorsteins Hjaltested (enginn)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Nauðungarsala
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. júlí 2024 leitar Arion banki hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að kæra úrskurð Landsréttar 26. júní sama ár í máli nr. 279/2024: Magnús Pétur Hjaltested gegn Arion banka hf. og dánarbúi Þorsteins Hjaltested. Gagnaðili Magnús Pétur Hjaltested leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um nauðungarsölu á 24 lóðum við Vatnsendablett í Kópavogi á grundvelli fjárnáms. Gerðarþoli við fjárnámið var Þorsteinn Hjaltested en dánarbú hans er þinglýstur rétthafi lóðanna.

4. Með úrskurði héraðsdóms var felld úr gildi ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 8. desember 2023 um að endursenda beiðni leyfisbeiðanda um nauðungarsöluna og lagt fyrir sýslumann að taka beiðnina fyrir. Landsréttur felldi úrskurðinn úr gildi og taldi að sýslumaður hefði réttilega endursent beiðnina. Í úrskurði Landsréttar var vísað til þess að í beiðni um nauðungarsöluna hefði gagnaðili Magnús Pétur Hjaltested einn verið tilgreindur sem gerðarþoli en jafnframt hafi í sviga fyrir neðan verið tilgreint dánarbú Þorsteins Hjaltested. Samkvæmt því lagði Landsréttur til grundvallar að beiðninni hefði ekki jafnframt verið beint að dánarbúinu sem gerðarþola. Hefði héraðsdómi því ekki verið rétt að tilgreina dánarbúið til varnar ásamt gagnaðila Magnúsi Pétri Hjaltested og einungis borið að leysa úr því hvort nauðungarsölubeiðni hefði verið réttilega beint að honum sem gerðarþola í skilningi laga nr. 90/1991.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi almenna þýðingu og fordæmisgildi. Dómstólar hafi ekki áður fjallað um það með beinum hætti hver skuli teljast gerðarþoli nauðungarsölu þegar fyrir liggur að annar aðili er eigandi eignar sem krafist er nauðungarsölu á en sá sem er þinglesinn eigandi. Leyfisbeiðandi telur mikilvægt að fá úrlausn um það hvernig sýslumaður eigi að haga athugun sinni á því hver sé eigandi andlags nauðungarsölu og þar með gerðarþoli. Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu Landsréttar efnislega ótæka og ranga og geta leitt til réttarspjalla fyrir raunverulega eigendur slíkra eigna sem fengju þá ekki vitneskju um fram komna kröfu um nauðungarsölu. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að niðurstaða málsins hafi grundvallarþýðingu fyrir framhald máls leyfisbeiðanda.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um að hverjum beiðni um nauðungarsölu verði beint og hvernig sýslumaður skuli haga málsmeðferð sinni eftir að slík beiðni berst honum. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.