Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-83
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnsýsla
- Útlendingur
- Stjórnvaldsákvörðun
- Hafnað
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldssson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 26. júní 2024 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 357/2023: A og B gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en dregur þó í efa að fullnægt sé lagaskilyrðum til að fallast á hana.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að ógiltur verði úrskurður kærunefndar útlendingamála 6. júlí 2022 þess efnis að hafna efnislegri meðferð á umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd hér á landi og endursenda þau til Síle.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Landsréttur vísaði til þess að leyfisbeiðendur, sem eru venesúelskir ríkisborgarar, hefðu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi í lok árs 2021. Þau hefðu komið hingað frá Síle eftir nokkurra ára dvöl þar í landi. Með umsóknum sínum framvísuðu þau dvalarleyfisskírteinum sem báru með sér að þau væru handhafar ótímabundins dvalarleyfis þar í landi. Af gögnum málsins yrði ráðið að aðstæður í Síle og sú vernd sem flóttamönnum stæði þar til boða væri í fullu samræmi við þau viðmið sem Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefði sett í tengslum við reglu um fyrsta griðland. Þá yrði í ljósi lögskýringargagna og orðalags a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, eins og ákvæðið hljóðaði er úrskurður í málum leyfisbeiðenda gekk, að skýra það á þann veg að synjun um að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar samkvæmt 37. gr. laganna réðist meðal annars af því hvort umsækjandi hefði getað óskað eftir að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður í viðtökuríki og að beiting ákvæðisins hefði þannig ekki verið undir því komin að hann hefði óskað eftir að fá slíka stöðu þar.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og að dómur í því sé fordæmisgefandi um túlkun á þágildandi ákvæði a-liðar 36. gr. laga nr. 80/2016 enda bíði fleiri sams konar mál úrlausnar. Samkvæmt ákvæðinu skyldi taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar nema „umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna“. Leyfisbeiðendur telja að umrætt ákvæði hafi verið afar óskýrt og benda á að því hafi nú verið breytt og sé nú skýrt um að það taki meðal annars til þeirra tilvika þar sem umsækjendur hafi haft viðkomu í öðrum ríkjum og hafi við þau tengsl, til að mynda dvalarleyfi. Leyfisbeiðendur telja allar viðeigandi lögskýringarreglur leiða til þess að tilvik þeirra falli ekki innan gildissviðs þágildandi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna. Ákvæðið feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að taka skuli umsóknir um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Að lokum telja leyfisbeiðendur að beiting ákvæðisins í þessu tilviki hafi falið í sér ólögmæta breytingu á stjórnsýsluframkvæmd og að dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Í því tilliti er þess að gæta að þótt málið varði mikilvæga hagsmuni þeirra þá háttar svo almennt til í málum sem lúta að alþjóðlegri vernd. Þá verður ekki séð að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng. Beiðninni er því hafnað.