Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-23

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir (Magnús Óskarsson lögmaður)
gegn
Sveitarfélaginu Vogum (Ívar Pálsson lögmaður) og Landsneti hf. (Þórður Bogason lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Náttúruvernd
  • Umhverfisáhrif
  • Ráðgefandi álit
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 13. febrúar 2025 leita Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 1003/2024: Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Hraunavinir gegn Sveitarfélaginu Vogum og Landsneti hf. Gagnaðilinn Landsnet hf. leggst gegn beiðninni. Ekki barst umsögn frá gagnaðilanum Sveitarfélaginu Vogum.

3. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa kröfum leyfisbeiðenda á hendur gagnaðilum frá dómi. Upphaflegar dómkröfur leyfisbeiðenda voru um að ógilt yrði nánar tilgreint framkvæmdaleyfi gagnaðilans Sveitarfélagsins Voga og tilgreindur úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála. Fyrir Landsrétti var þess einnig krafist að aflað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins „um túlkun á þeim atriðum málsins sem varða skýringu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. 3. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið.“ Með úrskurði Landsréttar var úrskurður héraðsdóms staðfestur með vísan til forsendna. Jafnframt var vísað frá Landsrétti kröfu leyfisbeiðenda um að rétturinn leitaði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins enda væri krafan bæði óskýr og vanreifuð.

4. Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið varði mikilvæga almannahagsmuni og sé fordæmisgefandi um hvernig túlka beri aðild náttúruverndarsamtaka og alþjóðlegar skuldbindingar Íslands vegna þeirra. Þá telja leyfisbeiðendur mikilvægt að úrskurður Landsréttar fái endurskoðun þar sem niðurstaðan yrði ella fordæmisgefandi. Að lokum telja leyfisbeiðendur að hinn kærði úrskurður sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Þar sé engan rökstuðning að finna um þær fjölmörgu málsástæður sem leyfisbeiðendur tefldu fram í kæru til Landsréttar. Niðurstaða réttarins um að staðfesta frávísunarúrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna byggi á þeim misskilningi að leyfisbeiðendur hafi ekki átt aðild að því stjórnsýslumáli sem leiddi til útgáfu umrædds framkvæmdaleyfis og gætu því ekki byggt aðild sína á að þau hefðu verið aðilar að kærumáli vegna leyfisins fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá beri dómstólum jafnframt að taka tillit til þess að leyfisbeiðendur hafi ekki átt kost á að taka þátt í stjórnsýslumeðferð um framkvæmdaleyfið þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.