Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-128

Seðlabanki Íslands (Steinar Þór Guðgeirsson lögmaður)
gegn
Þorsteini Má Baldvinssyni (Magnús Óskarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Matsbeiðni
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 11. október 2024 leitar Seðlabanki Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 30. september sama ár í máli nr. 528/2024: Þorsteinn Már Baldvinsson gegn Seðlabanka Íslands. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu gagnaðila um að dómkvaðningu matsmanns.

4. Með úrskurði héraðsdóms var því hafnað að forsendur eða lagaskilyrði væru til þess að dómkveðja matsmann samkvæmt beiðni gagnaðila. Landsréttur felldi úrskurð héraðsdóms úr gildi og lagði fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmann í samræmi við matsbeiðni með þeirri breytingu að felldur var brott áskilnaður í matsbeiðni um að leyfisbeiðandi fengi ekki aðgang að þeim gögnum sem matsmaður kynni að afla, enda væri sá áskilnaður í andstöðu við 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Í úrskurði Landsréttar kom meðal annars fram að þótt með matsbeiðninni væri meðal annars leitað álits á þáttum sem öðrum þræði snertu lagaleg atriði, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, myndi niðurstaða þar um í matsgerð ekki binda hendur dómara eða þrengja svigrúm hans eða skyldu til að meta þau endanlega. Jafnframt var talið að leit að upplýsingum á hörðum tölvudiskum hlyti að kalla á sérstaka tæknikunnáttu sem dómari byggi tæplega yfir og ætti það við um allar matsspurningar. Auk þess var ekki talið að þau atriði sem leyfisbeiðandi vildi sanna með matsbeiðninni skiptu ekki máli eða væru tilgangslaus til sönnunar. Þá bæri matsbeiðandi áhættu af því að sönnunarfærslan nýttist honum.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi fordæmisgildi um það hvernig túlka beri meginreglur einkamálaréttarfars. Í málinu sé tekist á um hvort gagnaðili geti undir rekstri málsins óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að finna hugsanleg sönnunargögn til stuðnings kröfum sínum og til að undirbyggja málatilbúnað sinn eftir að leyfisbeiðandi hafi lagt fram greinargerð. Að mati leyfisbeiðanda felur úrskurður Landsréttar það í sér að stefnandi í dómsmáli geti höfðað mál án þess að leggja fram nokkur sönnunargögn en aflað þeirra síðar með matsgerð eftir að stefndi hafi lagt fram greinargerð. Sú niðurstaða sé í ósamræmi við meginreglur einkamálaréttarfars. Að lokum telur leyfisbeiðandi úrskurð Landsréttar bersýnilega rangan að formi og efni til enda uppfylli spurningar í matsbeiðni ekki formskilyrði laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.