Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-19
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Nauðgun
- Sönnun
- Skýrslugjöf
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðnum 8. janúar 2025 leita Ásbjörn Þórarinn Sigurðsson og Bessi Karlsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 5. desember 2024 í máli nr. 845/2023: Ákæruvaldið gegn Ásbirni Þórarni Sigurðssyni og Bessa Karlssyni. Dómur var birtur leyfisbeiðendum 12. desember 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðnunum.
3. Leyfisbeiðendum er gefin að sök nauðgun með því að hafa á þáverandi heimili leyfisbeiðandans Ásbjörns, með ofbeldi og ólögmætri nauðung, í félagi haft önnur kynferðismök en samræði við brotaþola. Með héraðsdómi voru þeir sýknaðir. Með dómi Landsréttar voru þeir hins vegar sakfelldir og brot þeirra talið varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing hvors um sig var ákveðin fangelsi í þrjú ár.
4. Leyfisbeiðandinn Ásbjörn vísar til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk hans um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji augljóst að áfrýjun muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar. Leyfisbeiðandinn telur að með dómi Landsréttar hafi freklega verið brotið gegn grundvallarsjónarmiðum um sönnun í sakamálum og vísar um það til 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Leyfisbeiðandi hafi staðfastlega allt frá upphafi neitað sök í málinu og telur það ranglega metið hjá Landsrétti að innra eða ytra ósamræmi sé að finna í afstöðu hans til sakargifta. Að lokum vísar hann til þess að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til og tilefni kunni að vera til að ómerkja hann. Í því sambandi er meðal annars vísað til þess að brotaþoli hafi gefið skýrslu í gegnum fjarfundarbúnað fyrir Landsrétti gegn andmælum verjenda leyfisbeiðenda. Landsréttur hafi ákveðið að skýrslutakan skyldi fara fram að viðstöddum ræðismanni Íslands erlendis. Þegar að skýrslutöku hafi komið hafi brotaþoli hins vegar verið á hótelherbergi.
5. Leyfisbeiðandinn Bessi byggir beiðni sína í meginatriðum á sömu atriðum og leyfisbeiðandinn Ásbjörn. Hann telur málið hafa verulegt fordæmisgildi og með dóminum víki Landsréttur frá dómaframkvæmd Hæstaréttar um að ekki nægi til sakfellingar gegn neitun sakaðs manns framburður brotaþola sem ekki hafi stoð í skýrslum annarra vitna eða hlutrænum sönnunargögnum. Hann gerir auk þess að athugasemd við að Landsréttur byggi niðurstöðu um sakfellingu á upptöku úr búkmyndavél lögreglu af samtali við vitni sem hafi verið undir áhrifum vímuefna.
6. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu í tilviki leyfisbeiðenda verða beiðnir þeirra samþykktar.