Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-93

Stefán Erlendsson (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Starfsumsókn
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 28. júní 2024 leitar Stefán Erlendsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. sama mánaðar í máli nr. 289/2023: Stefán Erlendsson gegn íslenska ríkinu og gagnsök. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfur leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila vegna ráðningar í stöðu kennara við Menntaskólann við Sund. Staðan var auglýst í júní 2020. Leyfisbeiðandi var ekki boðaður í atvinnuviðtal þar sem hann naut skertrar kennsluskyldu vegna aldurs. Í nóvember 2021 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að skólinn hefði brotið gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkað. Fyrir Landsrétti var annars vegar deilt um hvort fyrir hendi væri skaðabótaskylda vegna ætlaðs fjártjóns leyfisbeiðanda þar sem hann fékk ekki stöðuna og hins vegar um fjárhæð miskabóta vegna framgöngu skólans í ráðningarferlinu.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila af kröfu um skaðabætur vegna fjártjóns. Þá var niðurstaða héraðsdóms um greiðslu miskabóta staðfest en með hliðsjón af dómaframkvæmd taldi Landsréttur þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur en í héraði höfðu þær verið dæmdar 1.000.000 króna. Um fjártjón leyfisbeiðanda sagði í dómi Landsréttar að hann hefði ekki sýnt fram á að borið hefði að ráða hann í umrædda kennarastöðu umfram aðra umsækjendur þótt meðferð á umsókn hans hefði verið lögmæt. Um miskabótakröfu leyfisbeiðanda lét Landsréttur þess getið að í málinu væri ekki deilt um að Menntaskólinn við Sund hefði brotið gegn 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018. Landsréttur taldi að skólayfirvöldum hefði mátt vera fyllilega ljóst að meðferð þeirra á umsókn leyfisbeiðanda færi í bága við fyrrnefnt ákvæði laganna en vísaði að öðru leyti til forsendna héraðsdóms um miskabótakröfuna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi. Hann vísar til þess að málið snúist um hvort sá sem beittur sé rangindum við meðferð umsóknar um stöðu hjá ríkinu þurfi að þola svo óbærilegar sönnunarkröfur og sönnunarbyrði að rétti hans verði aldrei komið fram og varnaðaráhrif skaðabótalaga þar með gerð að engu. Leyfisbeiðandi telur að atvik máls séu upplýst en að sönnunarkröfur og sönnunarbyrði í dómi Landsréttar hafi verið óraunhæfar. Þá telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi vikið frá dómafordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum og einnig frá meginreglum réttarfars um sönnun orsakasambands í skaðabótamálum. Þá telur leyfisbeiðandi að lækkun miskabóta í Landsrétti samræmist ekki þeim miska sem hann varð fyrir.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.