Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Umferðarlagabrot
|
|
Fimmtudaginn 16. september 2010. |
|
Nr. 285/2010. |
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir settur saksóknari) gegn Jóni Þorra Jónssyni (Björgvin Jónsson hrl.) |
Líkamsárás. Umferðarlagabrot.
J var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og fíkniefna á X sem fór um á reiðhjóli. Féll X við það í götuna og hlaut margvíslega áverka af. J játaði umferðarlagabrot sitt. Með hliðsjón af þeirri hættulegu aðferð sem J beitti var brot hans einnig talið réttilega heimfært til framangreinds ákvæðis almennra hegningarlaga í héraðsdómi og refsing hans ákveðin tíu mánuðir auk ökuréttarsviptingar í þrjú ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Ingi Njálsson dómstjóri.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. apríl 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af ákæru um brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einvörðungu dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila fyrir brot gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaga nr. 50/1987. Til vara gerir hann þá kröfu að refsing hans verði milduð og skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu X verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að bætur verði lækkaðar.
X hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Er litið svo á að hann krefjist staðfestingar á ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og málskostnað sér til handa.
Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur ákærði hlotið tvo refsidóma. Þannig var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi 26. mars 2010 fyrir umferðarlagabrot, nytjastuld og gripdeild og í 60 daga fangelsi fyrir umferðarlagabrot með dómi 8. júlí 2010.
I
Í málinu er ákærði sóttur til saka fyrir að hafa brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa að morgni fimmtudagsins 11. júní 2009 ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna um Skógarlund á Akureyri og „á X sem þar fór um á reiðhjóli, með þeim afleiðingum að X féll í götuna og hlaut við það heilahristing, beinbrot á hægri úlnlið, yfirborðsáverka á vinstri öxl, á upphandlegg, á fótlegg, á mjöðm og á báðum lærum, ásamt tognun og ofreynslu á báðum úlnliðum, á hálsliðum og báðum þumalfingrum.” Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi, sem að mati héraðsdóms var réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Með áfrýjun málsins leitar ákærði endurskoðunar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir líkamsárás, refsingu og bætur til brotaþola.
II
Málsatvikum og framburði ákærða og vitna er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Svo sem þar kemur fram hefur ákærði viðurkennt að hafa tvívegis sveigt bifreiðinni að X, en hafnar því að hafa ekið á hann. Vitnisburður X og A er á hinn bóginn afdráttarlaus um það að um ákeyrslu hafi verið að ræða og að X hafi fallið af hjólinu við hana. Í ákæru er getið áverka sem X á að hafa hlotið við þetta og er sú tilgreining byggð á fyrirliggjandi læknisvottorðum. Í vitnisburði Ara H. Ólafssonar bæklunar- og handarskurðlæknis fyrir dómi kom fram að áverki á hægri úlnlið teljist liðbandsáverki en ekki beinbrot. Verður þetta mat læknisins lagt til grundvallar dómi. Þá verður við það að miða að X hafi fallið til jarðar til hliðar við akbrautina, en þar tekur fyrst við mjótt grasi vaxið svæði og síðan malbikuð gangstétt.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest. Telst þannig nægilega sannað að ákærði hafi auk umferðarlagabrots og með þeim hætti sem lýst er í ákæru gerst sekur um líkamsárás. Þá hafa nægar sönnur verið færðar fyrir því að afleiðingar hennar hafi orðið þær sem í ákæru greinir og að teknu tilliti til þess sem að framan segir um áverka á úlnlið. Vegna hinnar hættulegu aðferðar sem ákærði beitti er þetta brot hans réttilega heimfært til refsiákvæða í héraðsdómi.
III
Ákærði á sér engar málsbætur. Með vísan til þeirra atriða sem héraðsdómur tók að öðru leyti mið af við ákvörðun refsingar þykir rétt að staðfesta hana. Ekki eru efni til að skilorðsbinda hana í heild eða að hluta.
Krafa ákærða um frávísun bótakröfu er ekki studd haldbærum rökum og verður henni því hafnað. Er niðurstaða hins áfrýjaða dóms um bætur og málskostnað til handa X staðfest með vísan til forsenda hans. Ákvæði héraðsdóms um upphafstíma dráttarvaxta samræmist ekki endanlegri kröfugerð í héraði. Að þessu athuguðu fer um vexti svo sem í dómsorði greinir.
Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar er ekki til endurskoðunar og verður það staðfest.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða, Jóns Þorra Jónssonar, ökuréttarsviptingu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði X 333.190 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. desember 2009 til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, samtals 335.995 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 23. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 17. febrúar sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 14. október 2009, á hendur Jóni Þorra Jónssyni, kt. 061282-4409, nú til heimilis að Hafnarstræti 39, Akureyri;
„fyrir umferðarlagabrot og sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa fimmtudaginn 11. júní 2009, ekið bifreiðinni [...] um Skógarlund á Akureyri, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,31) og ávana- og fíkniefna (75 ng/ml af amfetamíni og 3,5 ng/ml tetrahýdrókannabínól í blóði) á X sem þar fór um á reiðhjóli, með þeim afleiðingum að X féll í götuna og hlaut við það heilahristing, beinbrot á hægri úlnlið, yfirborðsáverka á vinstri öxl, á upphandlegg, á fótlegg, á mjöðm og á báðum lærum, ásamt tognun og ofreynslu á báðum úlnliðum, á hálsliðum og báðum þumalfingrum.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45 gr. a og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102 gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu X, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu bóta að fjárhæð [kr. 783.190], auk dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða til greiðsludags auk þess sem ákærði verði dæmdur til greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að skaðlausu.“
Ákærði heldur uppi vörnum. Krefst verjandinn, Jón Höskuldsson hæstaréttarlögmaður, að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir brot gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaga, að ákærði verði sýknaður af broti gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en að öðrum kosti og til vara verði hann dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila. Verjandinn krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að miskabótaþáttur hennar verði lækkaður verulega. Loks krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
1. Samkvæmt frumskýrslu Guðna Antons Ingasonar lögreglumanns barst lögreglunni á Akureyri tilkynning fimmtudaginn 11. júní, kl. 07:52, um að fólksbifreið hefði ekið á hjólreiðamann á Skógarlundi, og að ökumaður bifreiðarinnar hefði ekið af vettvangi. Er lögreglumenn komu á vettvang hittu þeir fyrir hjólreiðamanninn X og vegfarandann A. Í skýrslunni er rakin frásögn þeirra að nokkru, þar á meðal að X hefði verið að hjóla á reiðhjóli sínu austur Skógarlund er gráleit Benz-fólksbifreið hefði í tvígang ekið upp að hlið hans, en í síðara skiptið hefði hann farið utan í bifreiðina og fallið til jarðar.
Í upplýsingaskýrslu sem nefndur lögreglumaður ritaði þann 12. nóvember 2009 segir m.a. frá því að hann hafi á vettvangi, þann 11. júní sl., tekið ljósmyndir af X og reiðhjóli hans. Er þess getið að hjólið hafi verið með sýnileg ákomumerki á framgjörð og er dregin sú ályktun að ekið hafi verið yfir hana. Þá segir í skýrslunni að X hafi verið íklæddur reiðhjólafatnaði, þ.e. hjólabuxum, hjólajakka, grifflum og með reiðhjólahjálm, en tekið er fram að ummerki hafi verið á vinstri öxl hans og á brjósti, þá hafi fatnaðurinn verið óhreinn eins og eftir byltu.
Samkvæmt rannsóknarskýrslum fór X af vettvangi í Skógarlundi í fylgd eiginkonu sinnar, og segir frá því að þau hafi farið á Sjúkrahúsið á Akureyri, en þar hafi hann verið starfandi sérfræðilæknir.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var, eftir fyrstu aðgerðir lögreglu á vettvangi í Skógarlundi, hafin leit að umræddri Benz-fólksbifreið. Leiddi það til þess að akstur ökumanns bifreiðarinnar [...], ákærða í máli þessu, var stöðvaður á Glerárgötu, rétt fyrir kl. 10:30. Segir frá því í skýrslunni að við fyrstu afskipti lögreglu hafi ákærði verið mjög æstur, en af þeim sökum hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð ásamt þeim farþegum sem þá voru í bifreiðinni. Á meðal þeirra var stúlkan B, sem fædd er árið 1990. Á lögreglustöð var ákærða tilnefndur verjandi, en í framhaldi af því gaf hann, að tilmælum lögreglu vegna rannsóknarhagsmuna, þvagsýni, kl. 11:08, og blóðsýni, kl. 11:15. Samkvæmt varðstjóraskýrslu, sem tekin var af ákærða kl. 11:43, játaði hann að hafa verið undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiðarinnar, en að lokinni skýrslutökunni var hann vistaður í fangaklefa. Ákærði var yfirheyrður aftur sama dag, kl. 17:35, og er þess getið að hann hafi þá svarað að eigin ósk beinum spurningum rannsakanda um kæruefnið, þ.e. um umferðaróhapp þar sem ekið var á hjólreiðamann í Skógarlundi. Í yfirheyrsluskýrslunni er haft eftir ákærða að hann hafi verið ökumaður fólksbifreiðarinnar [...] umræddan morgun og hafi verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá er skráð eftir ákærða að hann hafi átt í óvinsamlegum samskiptum við hjólreiðamann og að hann hafi eftir það ákveðið að aka bifreiðinni nálægt hjólreiðamanninum. Það hafi hins vegar ekki verið ásetningur hans að aka á hjólreiðamanninn: „aðeins sviga að honum“. Það hafi hann og gert, en hann hafi heldur ekki heyrt dynk eða með öðrum hætti orðið þess áskynja að hjólreiðamaðurinn færi utan í bifreiðina. Hann hafi aðeins veitt því eftirtekt að hjólreiðamaðurinn féll af hjóli sínu í greint sinn.
Af hálfu lögreglu var auk lýstra rannsóknaraðgerða tekin vitnaskýrsla af nefndri stúlku, B. Er haft eftir B að hún hafi verið ölvuð er ofangreind atvik gerðust, en hún hafi veitt því eftirtekt að ákærði átti í orðaskaki við hjólreiðamann. Þá hafi hún fylgst með því er ákærði ók á eftir hjólreiðamanninum, en um það er eftirfarandi skráð eftir henni: „Ég man bara að við ókum við hliðina á hjólreiðamanninum, hann var alveg upp við hlið bílsins svo leit ég undan í augnablik og það næsta sem ég sá í hliðarspeglinum var að hjólreiðamaðurinn lá í götunni.“
Stúlkan B kom ekki fyrir dóm við aðalmeðferð málsins eins og ráðgert hafði verið. Af því tilefni var því lýst yfir af hálfu ákæruvalds að fallið væri frá því að kalla hana fyrir dóm. Ekki voru hafðar athugasemdir við það af hálfu ákærða eða verjanda hans.
Við lögreglurannsókn málsins gáfu vitnaskýrslur þau X, A og C, líkt og við aðalmeðferð málsins.
2. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, Háskóla Íslands, reyndist alkóhól í fyrrnefndu blóðsýni ákærða 1,31, en í þvagsýninu 1,88. Samkvæmt matsgerð rannsóknastofunnar reyndist amfetamín í blóði ákærða 75 ng/ml, en tetrahýdrókannabínól í blóðinu mældist 3,5 ng/ml. Lokaorðin í matsgerðinni eru: „Amfetamín og tetróhýdrókannabínól eru í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á Íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin, sbr. 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum.“
Á meðal rannsóknargagna sem lögð voru fyrir dóminn eru áðurnefndar ljósmyndir lögreglumannsins Gústafs Antons Ingasonar, sem hann hafði tekið á vettvangi í Skógarlundi að morgni 11. júní 2009. Af hálfu ákæruvalds var við aðalmeðferð málsins ennfremur lögð fram loftmynd af hluta Lundarhverfis, en á henni má m.a. sjá akbrautirnar Skógarlund, Hjallalund og Hlíðarlund. Lögreglumaðurinn staðfesti myndir sínar fyrir dómi, en nefnd loftmynd hefur á hinn bóginn ekki verið staðfest af þeim aðila sem tók hana. Ákærði og sakflytjendur skoðuðu umræddar myndir í dóminum og gerðu ekki athugasemdir við þær. Verður því slegið föstu að myndirnar séu allar af brotavettvangi, en það er álit dómsins að þær sýni aðstæður glögglega.
3. Samkvæmt bráðasjúkraskrá Sigurbjargar Bragadóttur læknakandídats, sem dagsett er 11. júní 2009, kom X á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri þann dag, kl. 08:29. Í skránni segir m.a. að við komu hafi hann kvartað um verki í vinstra hné, vinstri öxl og um væga verki í báðum úlnliðum, stífni upp í háls og herðum vinstra megin, höfuðverk og svima. Við skoðun hafi eymslin í hægri úlnlið verið meiri, en einnig hafi verið yfirborðssár á hægra læri og litlir skurðir, hruflsár á vinstra hné og vinstri öxl svo og marblettir. Segir frá því að þrátt fyrir þetta ástand hafi X farið til vinnu sinnar á spítalanum, en þess getið að síðar um daginn hafi hann enn verið með umrædd einkenni frá höfði. Hafi af þeim sökum verið tekin röntgenmynd af hálshrygg hans, sem ekki hafi sýnt merki um brot.
Í gögnum sjúkrahússins, sem dagsett eru 14. júní 2009, segir frá því að X hafi þann dag komið á slysadeildina. Hafi þá verið gerð tölvusneiðmynd af höfði hans, sem ekkert hafi sýnt óeðlilegt. Þess er getið í gögnunum að hann hafi enn verið með höfuðverk og drunga yfir höfði og hafi það valdið skertu starfsþreki og einbeitingarleysi.
Í gögnum sjúkrahússins segir að X hafi komið í þriðja skiptið á slysadeildina þann 26. júní sama ár vegna viðvarandi verkja og stífleika í hægri úlnlið, sérstaklega við að beygja úlnliðinn. Hann hafi verið hvellaumur, en af þeim sökum hafi vaknað grunur um liðbandsáverka með broti á os triquetrum, miðhandarbeini í hægri úlnlið, en ekki hafi þótt ástæða til frekari meðferðar.
Í vottorði Ara H. Ólafssonar, yfirlæknis slysadeildar Sjúkrahússins á Akureyri, sem dagsett er 8. október 2009, er svofelld greining á þeim áverkum sem X varð fyrir þann 11. júní 2009: „Heilahristingur (S06.6), brot á öðrum úlnliðsbeinum (S62.1.), yfirborðsáverki á öxl og upphandlegg, ótilgreindur (S40.9), aðrir yfirborðsáverkar á fótlegg (S80,8), yfirborðsáverki á mjöðm og læri, ótilgreindur (S70,9), tognun og ofreynsla á úlnlið (S63), tognun og ofreynsla á bönd annarra og ótilgreindra hluta háls.“ Um tilurð vottorðsins segir að það hafi verið ritað að beiðni X, en til grundvallar hafi legið gögn slysadeildar, viðtöl og eigin skoðun læknisins. Segir frá því í vottorðinu að við röntgenmynd af úlnlið X og klíníska skoðun hafi verið staðfest afrifubrot á os triquetreum, þ.e. miðhandarbeini í hægri úlnlið. Þá segir að X hafi verið með dæmigerð einkenni heilahristings og hafi hann verið frá vinnu vegna þeirra í eina viku. Lokaorðin í vottorðinu eru: „Samantekið er því um að ræða yfirborðsáverka með sárum á ofannefndum stöðum. Heilahristing með dæmigerðum einkennum sem vörðu í a.m.k. þrjár vikur. Liðbandsáverki með broti á os triquetrum í hægri úlnlið. Áverki á hálshrygg með stífleika og verkjum sem hefur ekki að fullu gengið yfir. ... Einkenni heilahristings gengið til baka. Einkenni frá hægri úlnlið hafa að mestu gengið til baka en það er enn örlítill stirðleiki við vissar hreyfingar. Það eru enn ör eftir yfirborðssár á lærum og vinstra hné og óvíst að þau hverfi. Ennþá stirðleiki annað slagið í öxlum og hálshrygg.“
Nefndur yfirlæknir lét í té lokavottorð um meiðsli X. Það er dagsett 16. febrúar sl., en þar segir: „Við skoðun er ekkert athugavert að finna við hægri úlnlið, axlir eða hálshrygg, yfirborðssár eru gróin án öramyndunar.“
4. Ákærða var birt ákæruskjal máls þessa þann 2. nóvember sl. Hann lýsti afstöðu sinni til sakargifta á dómþingi þann 26. janúar sl., að viðstöddum skipuðum verjanda sínum. Ákærði játaði þá skýlaust að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og vímuefna, allt í samræmi við sakargiftir, en neitaði á hinn bóginn að hafa ekið á X í greint sinn og lýsti yfir sakleysi sínu að því er varðaði ætlað brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Við aðalmeðferð málsins tjáði ákærði sig nánar um sakarefnið, en þá gáfu einnig skýrslur, auk X, vitnin A, fædd 1982, og C, fædd 1957, en þær höfðu verið vegfarendur er atvik gerðust í Lundarhverfi þann 11. júní 2009. Þá gaf skýrslu vitnið D, fæddur 1988, en hann hafði verið farþegi í bifreið ákærða í umrætt sinn, líkt og stúlkan H hafði greint frá í skýrslu sinni hjá lögreglu við frumrannsókn málsins. Auk þess gáfu vitnaskýrslur yfirlæknirinn Ari H. Ólafsson, bæklunar- og handaskurðlæknir, Sigurbjörg Bragadóttir læknanemi og lögreglumennirnir Gústaf Anton Ingason og Kjartan Helgason.
II.
Ákærði skýrði frá því fyrir dómi að hann hefði aðfaranótt fimmtudagsins 11. júní 2009 verið að skemmta sér og fyrri hluta nætur drukkið mikið magn áfengis, en einnig neytt fíkniefna. Kvaðst hann hafa hætt áfengisdrykkjunni tiltölulega snemma og því ekki verið ofurölvi er leið að morgni, en hann hefði þá verið staddur í hófi í Skarðshlíð í Glerárhverfi. Er atvik þessi gerðust kvaðst hann hafa verið með bifreiðina [...] að láni, eins og svo oft áður mánuðina þar á undan, en vegna þessa hefði hann og verið vel kunnugur bifreiðinni. Ákærði kvaðst ekkert hafa sofið þessa nótt, og umræddan morgun hefði hann afráðið að aka kunningja sínum í fyrrnefndri bifreið til síns heima í Lundarhverfi. Hafi hann ekið bifreiðinni sem leið lá úr Glerárhverfinu og á Suður-Brekkuna, og þá m.a. um Skógarlundinn. Með í för hafi verið þrír farþegar, stúlkan B, sem setið hafi í framfarþegasæti, vitnið D, sem setið hafi í aftursætinu, líkt og kunninginn sem hann var að aka í Hjallalundinn. Á akstursleiðinni suður Skógarlund kvaðst ákærði hafa ekið fram hjá tveimur hjólreiðamönnum og þrátt fyrir að hafa ekki þekkt þá hefði hann kallað til þeirra, út um bílgluggann farþegamegin, rétt áður en hann sveigði inn í Hjallalundinn: „Finnst ykkur ekki bíllinn töff sem ég er á.“ Ákærði kvaðst hafa gert þetta í glensi og vegna þeirra vímuáhrifa sem hann fann þá fyrir, en einnig vegna þess að hann hafi á þeirri stundu haft vilja til að sýna fyrrnefndri stúlku ákveðinn töffaraskap. Ákærði kvaðst hafa stöðvað bifreiðina skömmu eftir nefnt atvik á bifreiðastæði við Hjallalund. Nefndur kunningi hans hefði farið út úr bifreiðinni, en um svipað leyti hefði hjólað þar að annar hinna fyrrnefndum hjólreiðamanna, X. Ákærði áréttaði að hann hefði ekkert þekkt til X er þetta gerðist, en bar að hann hefði strax borið fram þá spurningu hvort hann ætti við sig eitthvert erindi. Kvaðst ákærði hafa svarað spurningunni neitandi, en síðan endurtekið fyrri orð, þ.e. hvort að X fyndist ekki bifreiðin vera flott. Ákærði kvað X þá enn hafa spurt um erindi, en síðan svarað því til að hann myndi ekki láta sjá sig dauðan á slíkum bíl. Var það ætlan ákærða að þessi samskipti hefðu staðið yfir í um hálfa mínútu, og bar að engin alvara hefði legið fyrir af hans hálfu fyrr en undir lokin er X hefði látið einhver orð falla, sem hefðu gert hann reiðan. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir síðar kvaðst ákærði ekki hafa getað rifjað þau orð upp. Ákærði kvað X í beinu framhaldi af þessum orðum hafa stigið á bak hjóli sínu og haldið áfram för, og hjólað austur Hjallalund, suður Hlíðarlund og á ný inn á Skógarlundinn, en síðan þá akbraut til austurs. Ákærði kvaðst skömmu eftir að X hjólaði af stað hafa ekið bifreiðinni [...] þessa sömu leið, en vísaði til þess að í raun hefði vegalengdin verið stutt og því hefði X aðeins haft um 20-30 metra forskot. Þá vísaði ákærði til þess að þar sem bifreiðin [...] sé af svokallaðri sportgerð sé hún kraftmikil og með mjög snöggt viðbragð. Ákærði kvaðst hafa nýtt sér þessa eiginleika bifreiðarinnar, en staðhæfði að þrátt fyrir það hefði hann ekki ekið bifreiðinni umrædda akstursleið hraðar en 40-50 km/klst.
Ákærði kvaðst hafa séð til X þar sem hann hjólaði til austurs á syðri akrein Skógarlundar, um ½ til 1 metra frá steyptum kantsteini, en atvikum lýsti hann nánar þannig: „ og svo er ég kominn svona upp að honum og þá er ég svona að sveigja að honum með opinn gluggann, hann var þá á hægri akrein og var svona að gera sig líklegan til að fara upp á gangstétt sko. Ég giska á að ég sé svona ca. 1 meter, 1½ meter, frá honum þegar ég sveigi, og ég sveigi svona ca. hálfan meter að honum og ég geri þetta tvisvar sinnum. Sko ég sveigi að og fer frá og svo er ég að fara að sveigja aftur að og fer aftur til baka og ætla svo bara að halda áfram, ég fattaði hvað ég var að gera, en þá um leið og ég er að sveigja til baka þá dettur hann af hjólinu, þá bara - púff - þá hrynur hjólið, en það heyrist hvorki dynkur og maður finnur ekki neitt , en ég er náttúrulega ekki með augun í hliðinni á bílnum, og ég get ekki sagt fyrir víst hvort hann hafi farið á kantinn eða ekki, en í bílinn tel ég hann ekki hafa farið.“ Ákærði staðhæfði að er X féll hefði hann ekið bifreiðinni með sama hraða og hann hjólaði á og þeir því verið samsíða stutta stund. Ákærði staðhæfði og að hann hefði séð að X kom niður á graseyju sunnan akbrautarinnar, en hins vegar ekki veitt því eftirtekt hvað varð um reiðhjólið; „Þess vegna er ég að spá í hvort hann hafi hjólað á kantinn eða á stein eða eitthvað.“
Fyrir dómi áréttaði ákærði að hann hefði ekki ekið á X í greint sinn. Ákærði lýsti atvikum og hugrenningum sínum á þá leið, að vel gæti verið að X hefði við nefndar aðstæður reynt að hjóla upp á gangstéttina, en kannaðist ekki við að hann hefði verið að víkja sér undan bifreiðinni. Ákærði kvað nefnda atburðarás hafa gengið hratt fyrir sig og minntist þess að stúlkan B hefði hrópað upp er hann hafi ekið bifreiðinni við hlið reiðhjóls X. Ákærði kvaðst hafa haldið för sinni áfram á bifreiðinni eftir að X féll, enda séð í baksýnisspegli að hann stóð á fætur. Í því viðfangi vísaði ákærði einnig til þess að á nefndri stundu hefði hann m.a. verið undir áhrifum áfengis og því ekki talið vænlegt að bíða komu lögreglu. Ákærði kvaðst eftir þetta hafa haldið áfram akstri sínum um götur bæjarins, en staðhæfði að hann hefði ekki neytt frekara áfengis allt til þess tíma að lögreglan stöðvaði akstur hans í Glerárgötu um kl. 10:30 þennan morgun.
Ákærði staðfesti efni áðurrakinnar skýrslu sem hann hafði gefið hjá lögreglu síðdegis þann 11. júní sl., og bar að hann hefði þá verið allsgáður, en miður sín vegna kæruefnisins. Eftir skýrslugjöfina og er frá leið atburðinum kvaðst ákærði hafa hugleitt atburðarásina frekar og jafnframt reynt að rifja hana frekar upp. Einnig kvaðst hann hafa skoðað bifreiðina [...], rætt við eiganda hennar og við þá farþega sem með honum voru þennan morgun. Bar ákærði að í viðræðum sínum við vitnið D hefði hann komist að því að vitnið hefði fylgst með atburðarásinni í Skógarlundinum og heyrt frásögn hans um að hjólreiðamaðurinn hefði ekki farið utan í bifreiðina. Ákærði staðhæfði og að engin ákomumerki, rispa, far eða dæld, hefðu verið sýnileg á bifreiðinni, en það hefði og verið í samræmi við það að hann hefði engan dynk heyrt er atvik gerðust. Hann dró jafnframt í efa að hjól bifreiðarinnar hefðu farið yfir framhjól reiðhjólsins. Vegna þessa alls kvaðst ákærði hafa haft um það efasemdir að X hefði í raun farið utan í bifreiðina í umrætt sinn og orðaði hann hugrenningar sínar vegna þessa þannig fyrir dómi: „mig grunar helst að hann hafi farið utan í kant eða eitthvað, ég veit ekki hvað það var sko.“
Fyrir dómi kvaðst ákærði enga eðlilega skýringu hafa á því atferli sem hann hefði viðurkennt að hafa sýnt X á akbraut Skógarlundar í greint sinn. Hann nefndi í því sambandi þó helst þau samskipti sem þeir hefðu átt í skömmu áður á bifreiðastæðinu við Hjallalund og að X hefði undir lok þeirra sagt eitthvað við hann er hafi komið við kaunin á honum; „ég hlýt að hafa viljað svara fyrir mig það var eitthvað til þess að hræða hann eða til þess að þykjast vera meiri maður“. Ákærði bar að nefnd háttsemi hefði í raun verið ófyrirgefanleg, en hann hefði látið stjórnast af bráðlyndi og hvatvísi. Eftir atburðinn hefði hann einsett sér að ná tökum á þessum tilfinningum og af þeim sökum leitað sér aðstoðar sérfróðra aðila.
Vitnið X kvaðst umræddan morgun hafa verið á leið til vinnu sinnar á reiðhjóli og eins og svo oft áður hjólað suður/austur Skógarlundinn. Vitnið kvaðst hafa tíðkað þennan ferðamáta um langa hríð, en að auki væri þarna um áhugamál að ræða, en vitnið hefði m.a. hjólað erlendis, utan vegar og í skóglendi. Vitnið bar er atvik gerðust hefði verið blíðskaparveður, en samferða í fyrstu hefði verið annar hjólreiðamaður. Vitnið bar að er það hafi nálgast gatnamót Skógarlundar og Hjallalundar hefði bifreið ekið fram úr, en um leið hefði vitnið heyrt að einhver kallaði til þess. Kvaðst vitnið hafa veitt því eftirtekt að nefnd bifreið stansaði þarna skammt frá á bifreiðastæði við Hjallalundinn. Hefði vitnið því afráðið að hjóla þangað til að kanna hvort ökumaðurinn ætti við það eitthvert erindi. Vísaði vitnið í því sambandi til þess að það gerðist ekki ósjaldan að fólk tæki það tali á förnum vegi vegna starfs þess sem læknis. Vitnið kvaðst hafa veitt því athygli er það kom að bifreiðinni að auk ökumanns voru í henni farþegar, en vitnið kvaðst strax hafa spurt hvort einhver þeirra ætti við það erindi. Vitnið bar að ökumaðurinn, sem síðar hefði reynst vera ákærði í málinu, hefði strax orðið mjög æstur; „og hreytti í mig og spyr hvort ég hafi ekki efni á bíl og hvernig mér líki bíllinn sinn.“ Vitnið kvaðst hafa endurtekið eigin spurningu, en fljótlega veitt því eftirtekt að ákærði var í ankannalegu ástandi og raunar hefði það strax grunað að einhver lyf væru í spilinu. Í því sambandi vísaði vitnið til þess að ekki hefði farið fram eiginlegar samræður þeirra í millum, heldur hefðu orð ákærða verið samhengislaus og raunar hreint bull. Vegna þessa kvaðst vitnið hafa ákveðið að halda för sinni áfram, en ákærði þá komið út úr bifreiðinni og þeir þá um stund haldið áfram orðaskakinu; „ og svo sagði ég nú við hann: Vinur minn eða litli minn, ég hef nú ekki tíma í þetta því ég þarf að mæta í vinnu.“ Vitnið kvaðst ekki hafa ætlað að ögra ákærða með þessum orðum, enda um orðatiltæki af þess hálfu að ræða og það einungis haft vilja til slíta samræðunum. Kvaðst vitnið í beinu framhaldi af þessum orðum hafa haldið för sinni áfram, þrátt fyrir að ákærði kallaði eitthvað til vitnisins, og hjólað sem leið lá áfram austur Hjallalund, en síðan suður Hlíðarbraut og loks beygt við gatnamótin og hjólað austur Skógarlundinn. Var það ætlan vitnisins að ökuhraðinn hefði verið um 15-20 km/klst., sennilega nær 15 km/klst., en vísaði til þess að það hefði þurft að gæta að biðskyldu við gatnamót Hlíðarlundar, er það ók inn á Skógarlundinn. Vitnið bar að það hefði verið að hjóla austur Skógarlundinn er það hefði heyrt að bifreið var ekið á eftir því frá Hlíðarlundi og inn á Skógarlundinn. Kvaðst vitnið hafa litið við vegna þessa og þá séð að þar var á ferð bifreið ákærða, en atvikum máls lýst vitnið nánar þannig: „Og þá er hann á mjög miklum hraða, a.m.k. miðað við það að þetta er 90° beygja og það var svona næstum því að hjólin lyftust upp í beygjunni og ég sé bílinn halla mjög mikið svo keyrir hann að mér, ég hjóla bara á mínum hraða, ég var sem sagt á hægri akrein, hélt mig lengst til hægri, um 30-40 sm. frá kantsteini, maður hjólar svona í hægra hjólfari bíla í sömu akstursstefnu. Hann sem sagt kemur þarna og keyrir upp að mér og ég lít til hliðar og hann er mjög nálægt mér og þá sé ég að það er dökkhærð kona sem situr hægra megin, sem grípur fyrir andlit sér, og svo hefur hann sennilega hægt á sér og kemur svo aftur og þá skellur bíllinn á mér þannig að ég þeytist af hjólinu.“ Vitnið bar að þessi atburður hefði gerst á nefndri akbraut um miðja vegu á milli Hlíðarlundar og Heiðarlundar. Ítrekað aðspurt fyrir dómi staðhæfði vitnið að í fyrstu atrennu hefði ákærði ekið bifreiðinni mjög nálægt því og ætlaði að þá hefði verið minna en hálfur metri milli þess og bifreiðarinnar. Er þetta gerðist kvaðst vitnið hafa hugsað með sér að ökumaðurinn ætlaði að aka það niður, en lýsti hugrenningum sínum og atvikum nánar þannig: „Ég upplifði þetta sem ákeyrslu. Hann kemur á ofsahraða, hann kemur upp að mér, en fer síðan frá og í mínum skilningi til þess að hitta mig næst og svo skellur hann á mér og ég þeytist af hjólinu, ég dett ekki. Þetta er ekki fall, ég þeytist af hjólinu vegna þess að það er eitthvað sem hrindir mér af því.“ Vitnið bar að atburðarásin hefði verið hröð og því ætti það erfitt með að lýsa atvikum máls öllu nánar, en ætlaði að í síðara skiptið sem ákærði ók bifreiðinni að vitninu hefði ökuhraðinn með þeim verið svipaður, um 15-20 km/klst. Það var ætlan vitnisins að það hefði verið nálægt miðju bifreiðarinnar er það fékk höggið á sig, en treysti sér ekki til að segja til um hvort eitthvað hefði skollið á líkama þess eða á reiðhjólinu sjálfu. Vísaði vitnið í því sambandi til þess að líkami hjólreiðamanns stæði jafnan út fyrir hjólið, þ.e. olnbogi, axlir, mjaðmir og fætur. Vitnið andmælti á hinn bóginn alfarið frásögn eða hugrenningum ákærða um að það hefði fallið af hjólinu vegna einhvers hlutar á akbrautinni eða sökum þess að það hefði verið að reyna að hjóla upp á graseyju og við það rekist í kantsteininn. Vitnið staðhæfði að þvert á móti hefði það þeyst af hjólinu með áðurlýstum hætti, um 1½ til 2 metra, og lent á grasræmu á milli kantsteinsins og gangstéttarinnar, en hjólið þá orðið eftir á akbrautinni. Vitnið kvaðst hafa hugleitt það eftir á, vegna sýnilegra ummerkja, að það hefði fyrst komið niður á vinstri öxl, en síðan rúllað fram yfir sig og á hægri öxlina. Það kvaðst strax hafa kennt til í báðum úlnliðum. Af öðrum ummerkjum á vettvangi, m.a. legu hjólsins á akbrautinni og því að framgjörð þess var beygluð, kvaðst vitnið hafa ályktað, að afturhjól bifreiðarinnar hefði ekið yfir gjörðina, en þó án þess að fara yfir teinana. Vitnið kvað ákærða eftir ákeyrsluna hafa ekið bifreiðinni viðstöðulaust af vettvangi með miklum hraða; „hann greinilega gefur í.“ Vitnið kvað fljótlega hafa komið á vettvang vegfaranda, er hefði beðið hjá vitninu uns lögreglan kom þar að, en skömmu síðar kvaðst það hafa farið á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri í fylgd eiginkonu sinnar. Um líkamlega áverka vísaði vitnið til framlagðra læknisvottorða, en staðhæfði að þessi lífsreynsla hefði haft miður góð áhrif á andlega líðan þess. Hefði það sama gilt um fjölskyldu þess, eiginkonu og dætur.
Vitnið D kvaðst hafa verið farþegi í bifreið ákærða, umræddan morgun, en það kvaðst þá um nóttina hafa drukkið einn til tvo bjóra. Vitnið kvaðst hafa setið í aftursætinu er atvik gerðust, en í framfarþegasætinu hefði setið ung stúlka. Vitnið minntist þess að ákærði hefði kallað einhverjum orðum út um bílgluggann að hjólreiðamanni, sem þá hefði komið að bifreiðinni þar sem hún var kyrrstæð. Vitnið bar að hjólreiðamaðurinn hefði rifið kjaft við ákærða, sem hefði svarað fullum hálsi á móti og hefði sá fyrrnefndi þá horfið frá og hjólað hratt frá bifreið þeirra. Vitnið ætlaði að ákærði hefði í raun ekki verið að elta hjólreiðamanninn á bifreiðinni, heldur hefði hann farið sömu akstursleið, en lýsti atvikum nánar þannig: „Við vorum að keyra á eftir honum (hjólreiðamanninum) eitthvað smá. Við vorum að keyra út úr götunni en hann hélt að við værum að fara á eftir honum.“ Vitnið áréttaði að það hefði fylgst með atburðarásinni úr aftursæti bifreiðarinnar og ætlaði að um 5 til 10 metrar hefðu verið á milli bifreiðarinnar og reiðhjólsins þegar styst var; „og svo bara sáum við hann detta, og við vissum ekki neitt hvað gerðist.“ Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa talið að hjólreiðamaðurinn hefði ekið á kantstein við akbrautina og af þeim sökum fallið af hjólinu; „vegna þess að hann var að flýta sér eitthvað og hann hélt að við værum að elta sig og hann keyrði á kantinn og datt á hausinn.“ Vitnið staðhæfði að það hefði séð vel til er atvik gerðust. Það kannaðist ekki við að hafa séð ákærða sveigja bifreiðinni að hjólreiðamanninum og andmælti því að ákærði hefði ekið á hann í greint sinn. Eftir nefnt atvik kvað vitnið ákærða hafa ekið vitninu að dvalarstað þess í bænum, þar sem það hefði farið út úr bifreið hans.
Vitnið C kvaðst umræddan morgun hafa farið frá heimili sínu í Hjallalundi á reiðhjóli, en það hefði þá verið á leið til vinnu sinnar á Sjúkrahúsi Akureyrar. Vitnið kvaðst hafa verið að leggja af stað er það veitti því eftirtekt að á bílastæði við fjölbýlishús þar norðan við var X í viðræðum við einhvern aðila í grárri fallegri bifreið. Vitnið kvaðst hafa kannast við X, enda oft séð hann hjóla til vinnu sinnar á Skógarlundinum, en bar að vera hans þarna hefði því vakið athygli þess. Vitnið kvaðst ekki hafa gætt að þessu frekar, en haldið för sinni áfram og hjólað sem leið lá austur Hjallalund og suður Hlíðarlund, en við gatnamót þeirrar götu og Skógarlundar hefði það heyrt háreysti. Vitnið kvaðst hafa haldið för sinni áfram og hjólað austur Skógarlundinn, en nokkru fyrir sunnan gatnamót þeirrar götu og Grenilundar kvað vitnið bifreið með sama lit og það hafði áður séð á bifreiðastæðinu við Hjallalundinn hafa ekið fram úr því. Vitnið lýsti þessu nánar þannig: „ Þá kemur bíll á ofsaferð fram úr mér, þannig að mér bregður verulega og hann kemur það nærri mér að ég fann alveg hvininn frá honum og hann gerði mig það hrædda að mér datt í hug að kaupa mér hjálm, ég var alveg úti í kanti.“ Nánar aðspurt ætlaði vitnið að ökuhraði bifreiðarinnar hefði verið yfir 50 km/klst. og því óeðlilega mikill miðað við aðstæður, enda hámarkshraði á akbrautinni 30 km/klst.
Vitnið A kvaðst umræddan morgun hafa ekið á eigin bifreið frá bifreiðastæði leikskólans Lundarsels örstutta vegalengd að gatnamótum Hlíðarlundar og Hjallalundar. Vegna biðskyldu kvaðst það hafa gætt að umferð um Hjallalund og stöðvað bifreiðina þar eð það hefði á þeirri stundu veitt því eftirtekt að bifreið var ekið á mikilli ferð austur Hjallalund en síðan beygt inn á Hlíðarlund og ekið til suðurs að Skógarlundi. Vitnið kvað ökuhraða bifreiðarinnar hafa verið mikinn og nefndi í því sambandi 50-60 km/klst. Vitnið kvaðst hafa ekið á eftir bifreiðinni og því ekið stuttan spöl eftir Hlíðarlundi og að gatnamótunum við Skógarlund, en þá séð til ferða hjólreiðamanns, sem hefði hjólað austur Skógarlundinn og því verið á undan fyrrnefndri bifreið, er henni var ekið inn á þá akbraut. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð óeðlilegt við ferðir hjólreiðamannsins og ætlaði m.a. að ökuhraði hans hefði verið tíðkanlegur. Vitnið kvaðst hafa stansað í skamma stund vegna biðskyldu við nefnd gatnamót og fylgst með þeirri atburðarás sem þá varð á Skógarlundinum. Vitnið kvaðst hafa séð vel til enda hefði verið orðið bjart af degi og einungis örfáar bíllengdir skilið á milli. Vitnið kvaðst þannig hafa fylgst með því er ökumaður margnefndrar bifreiðar ók á eftir hjólreiðamanninum austur Skógarlundinn og séð að hann sveigði bifreiðinni að hjólreiðamanninum, en lýsti atvikum máls nánar þannig: „Og hann (hjólreiðamaðurinn) fer alveg upp að gangstéttinni og ég hugsa með mér, hann hlýtur að þekkja manninn og sé eitthvað að stríða honum. Það er eins og hann taki sveig í áttina að manninum, beygir að honum, ég veit ekki hvað var þá langt á milli bílsins og hjólreiðamannsins, því ég var hinum megin við götuna. Það var bara stutt. En hann tekur þannig sveig að það er eins og hann fari alveg upp að manninum frá mér séð, og hann keyrir ekki á hann þar, heldur er hjólreiðamaðurinn kominn alveg upp að gangstéttinni, hann beygir frá bílnum og heldur áfram. En svo sé ég að hann tekur aftur annan sveig, þá keyrir hann á hjólreiðamanninn og hann fellur í götuna, hann keyrir á hann með framhliðinni á bílnum, framhorninu. ... Ég sé náttúrulega að bíllinn er mín megin, en hann tekur annan sveig að honum og frá mér séð þá keyrir hann á hjólreiðamanninn.“ Vitnið kvað greindan atburð hafa gerst á hægri akrein Skógarlundar, um miðja vegu á milli Hlíðarlundar og Heiðarlundar, en vegna staðsetningar og aðstæðna hefði það séð á efri hluta hjólreiðamannsins. Vitnið staðhæfði að ökumaður bifreiðarinnar hefði dregið úr ökuhraða eftir að hann hafði sveigt að hjólreiðamanninum í fyrra skiptið og því ekið samhliða honum í stutta stund áður en hann sveigði bifreiðinni að honum í seinna skiptið, en er það gerðist kvaðst vitnið hafa verið að beygja inn á Skógarlundinn; „og þegar ég er búin að beygja þá er hann fallinn í götuna og ég sé bílinn keyra í burtu niður Skógarlund á mikilli ferð“. Vitnið ætlaði að hjólreiðamaðurinn hefði fallið á gangstéttina til hliðar við akbrautina. Það kvaðst hafa ekið bifreið sinni nokkrar bíllengdir austur Skógarlund, en stansað nálægt reiðhjólinu, sem legið hafi eftir á akbrautinni. Vitnið kvaðst ekkert hafa séð á akbrautinni, sem hefði getað hindrað hjólreiðamanninn og áréttaði jafnframt að ekkert óeðlilegt hefði verið að sjá við aksturslag hans fyrir greindan atburð. Vitnið kvaðst hafa beðið hjá hjólreiðamanninum eftir komu lögreglu og þá séð að reiðhjólið var allt beyglað. Kvaðst það hafa ályktað að skemmdirnar væru af völdum bifreiðarinnar.
Vitnið Sigurbjörg Bragadóttir læknakandídat staðfesti og útskýrði fyrir dómi efni áðurrakinnar bráðasjúkraskrár frá 11. júní 2009, sem það hafði ritað vegna komu X á slysadeild.
Vitnið Ari H. Ólafsson, yfirlæknir og sérfræðingur í bæklunar- og handarskurðlækningum, staðfesti efni læknisvottorða frá 8. október 2009 og 16. febrúar 2010. Vitnið áréttaði að til grundvallar þeim hefðu legið gögn slysadeildar svo og eigin viðtöl og skoðanir á X. Sérstaklega aðspurt um áverka hans á hægri úlnlið bar vitnið að festa á liðbandi hefði rifnað upp og þá þannig að liðbandið hefði slitnað frá beininu, en við það hefði smá beinflís fylgt með; „Það má kalla þetta afrifubrot eða raunar liðbandsáverka en um það má deila.“ Kvaðst vitnið hafa litið svo á að X hefði hlotið liðbandsáverka en ekki eiginlegt beinbrot.
Vitnið Gústaf Anton Ingason lögreglumaður staðfesti fyrir dómi efni og gerð rannsóknargagna, þ.m.t. fyrrnefndar ljósmyndir. Vitnið kvaðst á vettvangi hafa skráð hjá sér frásögn X, en við komu hefði það séð að reiðhjól hans lá á akbraut Skógarlundar. Vitnið kvaðst hafa veitt því eftirtekt að framgjörð reiðhjólsins var beygluð og orðaði það hugleiðingar sínar þar um; „eins og hún hefði lent fyrir einhverju, líklega lent undir hjólbarða bifreiðarinnar“. Af aðstæðum á vettvangi kvaðst vitnið hafa ætlað að atvik hefðu gerst um miðja vegu á milli Hlíðarlundar og Heiðarlundar. Vitnið kvaðst hafa handtekið ákærða við akstur bifreiðar á Glerárgötu síðar þennan morgun, um kl. 10:30. Vitnið kvaðst hafa skoðað bifreiðina lítillega á lögreglustöð, en ekki séð á henni ákomur.
Vitnið Kjartan Helgason kvaðst hafa tekið varðstjóraskýrslu af ákærða skömmu fyrir hádegi umræddan dag, en staðfesti að öðru leyti þau skjöl sem það hafði unnið að. Vitnið kvaðst hafa skoðað bifreið ákærða á lögreglustöðinni og staðhæfði að það hefði örugglega gert skýrslu ef eitthvað hefði sést á henni.
III.
Í máli þessu er ákærða m.a. gefið að sök að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna, eins og nánar er lýst í ákæruskjali, og með því brotið gegn tilgreindum ákvæðum umferðarlaganna.
Við alla meðferð málsins hefur ákærði skýlaust játað sakargiftir að þessu leyti. Ákærði skýrði skilmerkilega frá því að hann hefði neytt verulegs magns áfengis fyrrihluta nætur 11. júní 2009, en jafnframt játaði hann að hafa neytt fíkniefna, m.a. amfetamíns. Vegna neyslunnar hefði hann fundið til vímuáhrifa er hann hóf akstur bifreiðarinnar nokkru eftir kl. 07:00 og þá m.a. ekið frá Glerárhverfi og um Suður-Brekku, þar á meðal Skógarlund, á Akureyri. Ákærði staðhæfði að hann hefði ekki neytt áfengis eða vímuefna eftir þetta og allt þar til lögreglan hafði afskipti af akstri hans um kl. 10:30.
Játning ákærða samkvæmt framangreindu er í samræmi við rannsóknargögn. Telst því nægjanlega sannað að hann hafi gerst sekur um ölvunar- og fíkniefnaakstur og eru brot hans réttilega heimfærð til lagaákvæða í ákæruskjali.
Ákærða er í máli þessu einnig gefið að sök að hafa nefndan morgun ekið bifreiðinni [...] á X þar sem hann fór um Skógarlund á reiðhjóli, með þeim afleiðingum að hann féll á götuna og hlaut við það þá áverka sem lýst er í ákæruskjali.
Ákærði neitar sök að þessu leyti og staðhæfir jafnframt að hann hafi ekki haft ásetning til verknaðarins. Þá véfengir ákærði að X hafi hlotið alla þá áverka sem lýst er í ákæruskjali og hafnar bótakröfu.
Fyrir liggur að leiðir ákærða og X lágu saman á Skógarlundi umræddan morgun og að þeir áttu í framhaldi af því skammvinn samskipti á bifreiðastæði við fjölbýlishús í Hjallalundi. Er atburður þessi gerðist þekktust þeir ekkert og var tilefni samskiptanna því harla lítið og tilviljunarkennt. Hefur ákærði í því sambandi helst nefnt eigið ölvunarástand og mannalæti. Verður lagt til grundvallar að samskiptunum hafi lokið með því að X lét falla við ákærða þau fáu orð sem áður hafa verið rakin, en hélt síðan á reiðhjóli sínu sinn veg, austur Hjallalund, suður Hlíðarlund og austur Skógarlund. Ákærði hefur sagt að vegna þessara samskipta hafi honum runnið í skap.
Ákærði játar að hafa ekið bifreiðinni [...] á eftir X umrædda akstursleið með allákveðnum hætti og að hafa vegna ofanlýstra samskipta í bráðræði og til að hræða X ekið nærri honum í tvígang þar sem hann hjólaði á reiðhjóli sínu við hægri brún Skógarlundar, austan Hlíðarlunda, en akbrautin er þarna hallalaus og með bundið slitlag. Óumdeilt er að X féll af reiðhjólinu eftir að ákærði hafði í síðar skiptið ekið upp að hlið hans með lýstum hætti. Fyrir dómi lýsti ákærði atvikinu nánar þannig að X hefði ,,hrunið niður“ við nefndar aðstæður. Ákærði andmælir að öðru leyti verknaðarlýsingu ákæruskjals, og neitar sök eins og áður sagði.
Vitnið X hefur fyrir dómi lýst akstri ákærða ítarlega og staðhæft að um ákeyrslu hafi verið að ræða. Vitnisburður A styður að áliti dómsins framburð X að þessu leyti. Að mati dómsins er framburður þessara vitna trúverðugur, en hefur að auki nokkra stoð í frásögn vitnisins C. Verður í þessu viðfangi ekki framhjá því horft að er atvik gerðust var ákærði alls óhæfur til að stjórna akstri bifreiðarinnar [...] vegna ölvunar- og fíkniefnaáhrifa. Verður að þessu virtu fallist á með ákæruvaldi að leggja beri frásögn nefndra vitna til grundvallar við úrlausn málsins. Það er og álit dómsins að ákærða hafi ekki getað dulist miðað við aðstæður að háttsemi hans og aksturslag var til þess fallin að valda þeim afleiðingum sem raun varð á. Neitun ákærða og vitnisburður D hnekkja þessu ekki að áliti dómsins.
Að öllu ofangreindu virtu er að áliti dómsins ekki varhugavert að telja nægjanlega að sannað að ákærði sé sannur að sök og að hann hafi með háttsemi sinni gerst sekur um líkamsárás. Að virtum læknisvottorðum og vætti sérfræðivitna þykja afleiðingar árásarinnar hafa orðið þær sem í ákæruskjali greinir. Varðar greint brot ákærða því við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20, 1981.
IV.
Ákærði, sem er 27 ára, á samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins nokkurn sakaferil að baki. Hann var með dómi Hæstaréttar Íslands í júní 2005 dæmdur í fimmtán mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir rán. Þá var hann með tveimur héraðsdómum uppkveðnum í febrúar og júlí 2006 sakfelldur fyrir fjársvik og þjófnaðarbrot, en þar sem að brotin voru bæði framin fyrir uppkvaðningu hæstaréttardómsins var honum ekki gerð sérstök refsing vegna hegningaraukaáhrifa. Loks var ákærði þann 3. september 2009 sakfelldur í Héraðsdómi Suðurlands fyrir of hraðan akstur og fyrir að aka ökutæki undir áhrifum fíkniefna. Vegna þessa var hann dæmdur til að greiða 270.000 króna sekt til ríkissjóðs, en jafnframt sviptur ökurétti í tvö ár frá 17. september sama ár að telja. Sakaferill ákærða hefur að öðru leyti ekki áhrif í máli þessu.
Ákvarða ber refsingu ákærða með hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar verður til þess horft að atferli ákærða gagnvart hjólandi vegfaranda var mjög hættulegt og fallið til að valda þeim manni sem fyrir varð alvarlegum meiðslum svo sem hér varð og raunin. Var lán að ekki skyldi hljótast af enn alvarlegri áverkar. Vegna þessa ber m.a. að líta til ákvæða 1. og 3. tl. 1. mgr. 70. gr. hegningarlaganna. Ákærði játaði aftur á móti brot sín gegn umferðarlögum skilmerkilega og lýsti jafnframt yfir iðran vegna alls athæfisins. Ber að virða honum það til refsilækkunar.
Að öllu ofangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi, sem ekki þykir fært að skilorðsbinda.
Með vísan til tilvitnaðar ákvæða umferðarlaga í ákæru ber í samræmi við kröfu ákæruvalds að svipta ákærða ökurétti. Með hliðsjón af hinni vítaverðu háttsemi ákærða sem ökumanns, en einnig vegna hegningaraukaáhrifa 78. gr. hegningarlaganna, verður hann sviptur ökurétti í þrjú ár frá 17. september 2011 að telja, en þá rennur út ökuréttarsvipting hans samkvæmt eldri dómi.
Ingvar Þóroddsson héraðsdómslögmaður hefur fyrir hönd X haft uppi sundurliðaða skaðabótakröfu í málinu, sbr. ákvæði XXVI. kafla laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, samtals að fjárhæð 783.190 krónur. Krafist er dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38, 2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að krafan var kynnt ákærða og til greiðsludags. Þá er og krafist lögmannsþóknunar.
Ekki er ágreiningur um útlagðan kostnað bótakrefjanda vegna læknisskoðunar, að fjárhæð 19.440 krónur og vegna viðgerða á reiðhjóli að fjárhæð 13.750 krónur. Verða þeir liðir því teknir til greina. Um rökstuðning fyrir miskabótum að fjárhæð 750.000 krónur er af hálfu bótakrefjanda m.a. vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 og framlagðra læknisvottorða. Bótakrafan var rökstudd nánar við aðalmeðferð málsins af lögmanni bótakrefjanda, en hún var birt ákærða þann 2. september 2009, sbr. dskj. nr. 6.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir hættulega líkamsárs. Hefur hann með því framferði valdið bótakrefjanda miska. Þykja þær bætur að virtum gögnum eftir atvikum hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.
Ber ákærða samkvæmt framansögðu að greiða bótakrefjanda skaðabætur samtals 333.190 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði. Málskostnaður til handa bótakrefjanda ákveðst m.a. með hliðsjón af tímaskýrslu lögmanns og umfangi málsins 250.000 krónur, og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.
Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðast, m.a. með hliðsjón af tímaskýrslu, 312.500 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, en að auki skal ákærði greiða ferðakostnað 29.730 krónur. Þá verður ákærði dæmdur til að greiða annan sakarkostnað, sem samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti sækjanda er 208.394 krónur.
Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88, 2008 áður en boðað var til uppkvaðningar dóms.
Dóm þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Jón Þorri Jónsson, sæti fangelsi í 10 mánuði.
Ákærði greiði X 333.190 krónur í bætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 frá 2. október 2009 til greiðsludags og 250.000 krónur í málskostnað.
Ákæri er sviptur ökurétti í þrjú ár frá 17. september frá 2011 að telja.
Ákærði greiði 550.624 krónur í sakarkostnað, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns 312.500 krónur.