Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2011
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lán
- Innstæða
- Skuldskeyting
- Fjármálaeftirlit
- Stjórnvaldsákvörðun
- Skaðabætur
- EFTA-dómstóllinn
- Evrópska efnahagssvæðið
- Ráðgefandi álit
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 17. janúar 2013. |
|
Nr. 169/2011.
|
Aresbank S.A. (Baldvin Björn Haraldsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Erlendur Þór Gunnarsson hrl. Grímur Sigurðarson hdl.) Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Lán. Innstæða. Skuldskeyting. Fjármálaeftirlit. Stjórnvaldsákvörðun. Skaðabætur. EFTA-dómstóllinn. Evrópska efnahagssvæðið. Ráðgefandi álit. Aðfinnslur.
Spænski bankinn A höfðaði mál gegn L hf. til innheimtu fjárkröfu, en beindi til vara skaðabótakröfu gegn F og Í. Ágreiningur málsaðila var í aðalatriðum þríþættur og laut í fyrsta lagi að því hvort það fé sem A átti hjá L hf. í byrjun október 2008, sem átti rætur að rekja til svonefnds millibankaláns, hefði verið innstæða í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og í öðru lagi hvort sú innstæða hefði með ákvörðunum F 9. október 2008 og 11. nóvember sama ár, á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008, flust til L hf. og honum væri því skylt að standa A skil á endurgreiðslu fjárins, en krafa A á hendur L var reist á því. Færi svo að L hf. yrði sýknaður af kröfu A var í þriðja lagi ágreiningur um hvort A ætti rétt til skaðabóta úr hendi F og Í á þeim grundvelli að þeir hefðu með ólögmætum og saknæmum hætti valdið því að A hefði orðið fyrir bótaskyldu tjóni þar sem hann hefði orðið af greiðslum innstæðna sinna frá L hf. Með dómi héraðsdóms voru L hf., F og Í sýknaðir af kröfum A, sem áfrýjaði við svo búið málinu til Hæstaréttar. Rétturinn kvað að eigin frumkvæði upp úrskurð um að leitað skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum, einkum um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, þar sem skýring þess hugtaks gæti haft þýðingu við úrlausn um hvort það fé sem A átti hjá L hf. í október 2008 teldist innstæða í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Að virtu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins og atvikum málsins taldi Hæstiréttur að það fé, sem A átti hjá L hf. í október 2008, teldist innstæða í svonefndri rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunar 94/19/EB. Við úrlausn þess hvort í fyrrgreindum ákvörðunum F hefði falist að allt fé sem gæti talist innstæða í merkingu laga nr. 98/1999 skyldi flytjast frá L hf. til N hf. eða hvort í ákvörðununum hefðu falist takmarkanir þar á, vísaði Hæstiréttur til þess að virða bæri ákvarðanirnar í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi voru við setningu laga nr. 125/2008, sbr. og dóm réttarins 28. október 2011 í máli nr. 340/2011. Eins og atvikum málsins var háttað lagði Hæstiréttur til grundvallar að það fé, sem A átti hjá L hf. í október 2008 og var til komið vegna millibankaláns, hefði ekki flust yfir til N hf. Þá var A ekki talinn hafa sýnt fram á að F hefði hvorki við töku ákvarðana sinna farið út fyrir valdheimildir sem stjórnvaldinu voru fengnar í hendur, né leitt rök að því að ákvarðanirnar hefðu verið teknar með ólögmætum og saknæmum hætti. Voru L hf., F og Í því sýknaðir af kröfum A.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2011. Hann krefst þess aðallega að stefnda Landsbankanum hf. verði gert að greiða sér 30.000.000 evrur með 5,18% vöxtum af 15.000.000 evrum frá 6. júní 2008 til 10. desember sama ár og með 5,02% vöxtum af 15.000.000 evrum frá 7. ágúst 2008 til 12. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.000.000 evrum frá 12. nóvember 2008 til 10. desember sama ár og af 30.000.000 evrum frá þeim degi til greiðsludags. Verði stefndi Landsbankinn hf. sýknaður af þessari kröfu krefst áfrýjandi til vara að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta óskipt úr hendi stefndu Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins að fjárhæð 30.000.000 evrur með 5,18% vöxtum af 15.000.000 evrum frá 6. júní 2008 til 10. desember sama ár og með 5,02% vöxtum af 15.000.000 evrum frá 7. ágúst 2008 til 12. nóvember sama ár, svo og að fjárhæð 7.000.000 bresk pund með 6,20% vöxtum frá 16. september 2008. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Ágreiningur málsaðila er í aðalatriðum þríþættur. Í fyrsta lagi er deilt um hvort fé það sem áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. í byrjun október 2008 hafi verið innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í öðru lagi, og tengt hinu fyrsta, hvort sú innstæða hafi með ákvörðunum stefnda Fjármálaeftirlitsins 9. október og 11. nóvember 2008 flust til aðalstefnda og honum því skylt að standa áfrýjanda skil á endurgreiðslu fjárins. Er krafa áfrýjanda á hendur aðalstefnda Landsbankanum hf. á þessu tvennu reist. Fari á hinn bóginn svo að aðalstefndi verði sýknaður af kröfu áfrýjanda er í þriðja lagi ágreiningur um hvort áfrýjandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefndu Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins. Er krafa áfrýjanda á hendur þeim á því reist að þeir hafi með ólögmætum og saknæmum hætti valdið því að áfrýjandi hafi orðið af greiðslum innstæðna sinna frá Landsbankanum hf. og áfrýjandi þannig orðið fyrir bótaskyldu tjóni.
II
Eins og greinir í úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 í máli þessu er áfrýjandi spænskur banki í eigu seðlabanka Líbýu. Hann hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt spænskum lögum, en vegna ákvæða í samþykktum sínum tekur hann þó ekki við innlánum frá almenningi. Starfar hann á svokölluðum millibankamarkaði og aflar fjár til þeirrar starfsemi með framlögum frá eiganda sínum og útgáfu fjármálagerninga.
Lögskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. fóru fram fyrir milligöngu miðlara og gerðust með þeim hætti að áfrýjandi greiddi til bankans 15.000.000 evrur 6. júní 2008, aftur 15.000.000 evrur 7. ágúst sama ár og loks 7.000.000 bresk pund 16. september sama ár. Með aðilum samdist svo að Landsbanki Íslands hf. endurgreiddi umræddar fjárhæðir með nánar tilgreindum vöxtum á fyrirfram ákveðnum gjalddögum. Í gögnum málsins er að finna svokallaðar SWIFT tilkynningar um viðskipti áfrýjanda og bankans. Um viðskipti þeirra 6. júní 2008 kemur fram að áfrýjandi hafi boðist til að lána bankanum 15.000.000 evrur til sex mánaða með 5,2% vöxtum, sbr. orðin: „WE CAN LEND U IN 6MTH EUR 15 MIOS AT 5.20 IF SUIT FOR U FRIEND.“ Af hálfu bankans var gert gagntilboð um 5,17% vexti, sbr. orðin: „CAN WE MEET AT 5.17?“ Aðilum samdist loks um 5,18% vexti, sbr. orðin: „OK I LEND U EUR 15 MIOS AT 5.18 FM 10/06 TILL 10/12/08.“
Næstu viðskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. áttu sér stað 7. ágúst 2008 þegar áfrýjandi bauð bankanum „3 MTH EUR DEPO“ að fjárhæð „EUR 15 MIO“, eða 15.000.000 evrur til þriggja mánaða. Af hálfu bankans var því svarað með boði um 5,0% vexti. Því svaraði áfrýjandi með eftirfarandi orðum: „I HAVE 15 MIO FOR U AT 5.02 IF IT SUITS U.“ Aðilum viðskiptanna samdist því svo að Landsbanki Íslands hf. tæki við 15.000.000 evrum 11. ágúst 2008 en endurgreiddi þá fjárhæð ásamt 5,02% vöxtum 12. nóvember sama ár. Þriðju viðskiptin áttu sér stað 16. september 2008 og fóru fram á spænsku. Bauðst áfrýjandi þá til að lána bankanum 7.000.000 bresk pund með 6,2% vöxtum frá 18. september 2008 til 18. mars 2009, sbr. orðin: „7.000.000 STG AT 6.20 DEL 18/9/2008 AL 18/3/2009.“ Fram kom að endurgreiða bæri fjárhæðina til nánar tilgreinds banka í London.
Alþingi samþykkti 6. október 2008 frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var stefnda Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Fyrrgreint lagaákvæði heimilaði Fjármálaeftirlitinu einnig að framselja öll réttindi fjármálafyrirtækis að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Þá var kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fara skyldi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Með 6. gr. laganna var bætt við nýrri 1. mgr. í 103. gr. laga nr. 161/2002 sem hljóðaði svo: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“
III
Stefndi Fjármálaeftirlitið beitti 7. október 2008 heimild samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og tók yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna, sem bar nafn eldri bankans en með viðbótinni „Nýi“ fremst í nafninu. Sá banki er aðalstefndi í málinu, en hann ber nú heitið Landsbankinn hf. Fjárhagslegur grundvöllur nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna til hans úr eldri bankanum, en einnig með framlögum úr ríkissjóði. Á móti því tók nýi bankinn yfir tilteknar skuldbindingar þess eldri sem fyrst og fremst voru innlán í bankanum hér á landi. Um sama leyti greip Fjármálaeftirlitið til sambærilegra aðgerða gagnvart Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. Í framhaldinu var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var bankinn tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði bankanum slitastjórn 29. sama mánaðar. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Fjölmargir lýstu kröfum af því tilefni og er áfrýjandi á meðal þeirra.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi tók stefndi Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 9. október 2008 að Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi meðal annars yfirtaka skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum, en skilgreindi ekki hvað átt væri við með orðinu innlán. Í 7. tölulið ákvörðunarinnar sagði: „Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtekur Nýi Landsbanki Íslands hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.“ Í 8. tölulið sagði meðal annars: „Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl.“
Í niðurlagi framangreindrar ákvörðunar sagði að hún byggði á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Ef hún reyndist byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti stefndi Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta. Í viðauka sem fylgdi ákvörðuninni sagði meðal annars að eftirtaldar „eignir og skuldir Landsbanka Íslands hf. verða ekki framseldar til Nýja Landsbanka Íslands hf.: I. Skuldir a. Öll verðbréfaútgáfa og önnur lántaka.“ Í samantekt vegna stofnefnahagsreiknings sem dagsett er 8. október 2008 sagði svo í lið 4.1.: „Öll innlán hjá móðurfélagi á Íslandi og íslenskum útibúum eru flutt yfir í nýja bankann á bókfærðu verði. Peningamarkaðslán frá fjármálastofnunum fara ekki í nýja bankann.“ Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 19. október 2008, um aðra breytingu á ákvörðun eftirlitsins 9. október 2008, segir að nánari sundurliðun sé í stofnefnahagsreikningi og skýringum með honum í sérstakri samantekt. Þá segir að ákvörðunin taki þegar gildi og skuli hún, ásamt breytingaákvörðun frá 12. október 2008, vera bindandi í lögskiptum aðila frá 9. sama mánaðar í samræmi við áorðnar breytingar.
Með bréfi til Landsbanka Íslands hf. 11. nóvember 2008 tilkynnti stefndi Fjármálaeftirlitið að samkvæmt ábendingu hefði stjórn þess tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á tiltekna fjármögnun þessara fyrirtækja, nánar tiltekið þegar um væri að ræða „svokölluð peningamarkaðslán/innlán“ frá fjármálafyrirtækjum. Aflað hefði verið „ýmissa gagna frá bönkunum og endurskoðendum þeirra um meðferð þessarar fjármögnunar á starfsemi bankanna.“ Því næst sagði að á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins sama dag hefði verið „ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir.“ Væri því beint til endurskoðenda sem önnuðust gerð stofnefnahagsreikninga nýju bankanna að huga sérstaklega að þessu og „jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.“ Loks sagði í bréfi Fjármálaeftirlitsins að rétt væri að taka fram að „almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna“ flyttust yfir til nýju bankanna eins og aðrar innstæður.
Áfrýjandi ritaði stefnda Fjármálaeftirlitinu bréf 19. nóvember 2008 þar sem óskað var eftir rökstuðningi fyrir því að stjórn stofnunarinnar hefði lagt til að svokölluð peningamarkaðsinnlán skyldu ekki flytjast yfir til nýju bankanna. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. nóvember 2008 til áfrýjanda var ítrekuð sú afstaða stofnunarinnar að skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. gagnvart áfrýjanda flyttust ekki yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf.
IV
Áður er gerð grein fyrir lögskiptum áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. og því lýst á hvaða grundvelli áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefndu. Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og greinin var fyrir þá breytingu sem á henni var gerð með 5. gr. laga nr. 79/2012, ræddi meðal annars um skyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild sjóðsins, þegar aðildarfyrirtæki væri að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, sem viðskiptavinur hafði krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er giltu. Í 3. mgr. sömu lagagreinar sagði síðan: „Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.“
Eins og greinir í úrskurði Hæstaréttar 15. desember 2011 voru lög nr. 98/1999 einkum sett til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr. tilskipanir 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB er hugtakið „deposit“ skilgreint sem: „any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“ Í íslenskri þýðingu tilskipunarinnar hljóðar 1. mgr. 1. gr. hennar svo: „„innlán“: innstæða sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningnum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa.“
Í úrskurðinum 15. desember 2011 vísaði Hæstiréttur til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skuli skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Af málatilbúnaði áfrýjanda leiði að við úrlausn þess ágreinings sem uppi sé milli málsaðila reyni á skýringu hugtaksins innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Með vísan til þessa og að virtu öðru því er greini í úrskurðinum þætti rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB og var þeim þremur spurningum, sem ákveðið var að leita ráðgefandi álits um, hagað á þann veg sem nánar greindi í úrskurðarorði.
V
Inntak fyrstu spurningarinnar sem Hæstiréttur beindi til EFTA-dómstólsins er hvort fé (á ensku funds) sem ein fjármálastofnun afhendir annarri geti talist innstæða (deposit) í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB þótt féð hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum viðtakandans, það hafi ekki verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni þess er féð afhenti, engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku fjárins og ekki hafi verið greitt af því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.
Í svari EFTA-dómstólsins við fyrstu spurningunni kemur fram að hugtakið innstæða sé skilgreint í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Samkvæmt skilgreiningunni geti innstæða verið tilkomin vegna eins af þrennu. Í fyrsta lagi vegna fjár sem lagt sé inn á reikning og myndi þar inneign (any credit balance which results from funds left in an account) sem lánastofnun beri að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Í öðru lagi vegna inneignar (credit balance) sem sé tilkomin vegna tímabundinna aðstæðna sem leiði af hefðbundinni almennri bankastarfsemi (which results from temporary situations deriving from normal banking transactions) og lánastofnun beri að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Í þriðja lagi vegna skuldar sem staðfest hafi verið með viðurkenningu lánastofnunar (any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution). Þá segir í svarinu að þar sem fram komi í beiðni Hæstaréttar um ráðgefandi álit, að ekki hafi verið gefin út sérstök skilríki fyrir móttöku fjárins og að það hafi ekki verið lagt inn á reikning á nafni þess er afhenti, þurfi að meta hvort féð verði talið inneign (credit balance) sem sé tilkomin vegna tímabundinna aðstæðna sem leiði af hefðbundinni almennri bankastarfsemi.
Í framhaldinu segir að hugtakið inneign (credit balance) sé ekki skilgreint í tilskipuninni. Hins vegar bendi orðalag 1. mgr. 1. gr. hennar til þess að hugtakið nái yfir fé sem veitt sé móttaka í formi láns. Í því sambandi geti engu skipt hvort féð hafi verið fært sem innstæða (deposit) í bókum viðtakandans, enda færi slíkt gegn markmiðum tilskipunarinnar sem samkvæmt skýringargögnum byggi á því að líta beri á hugtakið innstæðu frá sjónarhorni innstæðueiganda. Þá segir að tilskipunin skilgreini heldur ekki hvað átt sé við með tímabundnum aðstæðum sem leiði af hefðbundinni almennri bankastarfsemi (temporary situations deriving from normal banking transactions). Þrátt fyrir það verði að telja að fjáröflun með hefðbundnum skammtímalánum (ordinary short-term loans) sé bæði tímabundin aðgerð og hefðbundinn þáttur í almennri bankastarfsemi.
Enn segir að þrír tilgreindir aðilar málsins fyrir EFTA-dómstólnum hafi haldið því fram að millibankalán geti ekki talist innstæða (deposit) í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Því sé til að svara að orðalag tilskipunarinnar bendi ekki til þess að það að innstæðueigandi sé lánastofnun eigi að hafa nokkur áhrif á hvort féð skuli teljast innstæða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar sé það svo að eðli innstæðueiganda geti haft áhrif á hvort innstæða fullnægi skilyrðum tryggingarverndar samkvæmt tilskipuninni, því í 2. gr. hennar sé skýrlega kveðið á um þá meginreglu að innstæður annarra fjármálastofnana í eigin þágu séu undanskildar endurgreiðslu úr innstæðutryggingakerfum. Af þessu leiði að þar sem tilskipunin takmarki berum orðum gildissvið meginreglunnar um rétt til endurgreiðslu innstæðna og nefni í því sambandi meðal annars lán milli lánastofnana, verði að líta svo á að viðskipti (transactions) eins og þau sem lýst sé í spurningu Hæstaréttar rúmist innan þeirrar skilgreiningar á hugtakinu innstæða sem fram komi í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Loks er tekið fram að það sé ekki skilyrði þess að féð teljist innstæða í skilningi tilskipunarinnar að greitt hafi verið af því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.
Í álitinu segir að af öllu framangreindu leiði að fé sem millifært sé frá einni lánastofnun til annarrar á grundvelli lánasamnings teljist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar þrátt fyrir að það hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum lántaka, það hafi ekki verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni lánveitanda, engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku þess og ekki hafi verið greitt af því iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Af 2. gr. tilskipunarinnar leiði hins vegar að þótt fé sem fari milli lánastofnana samkvæmt lánssamningi rúmist tæknilega séð innan innstæðuhugtaksins, þá teljist slíkt fé ekki til innstæðna sem fullnægi skilyrðum tilskipunarinnar fyrir endurgreiðslu. Samkvæmt þessu megi með vísan til 1. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr., tilskipunarinnar, gera greinarmun á þrengri skilgreiningu innstæðuhugtaksins (functional definition) sem taki til tryggðra innstæðna samkvæmt tilskipuninni og rýmri skilgreiningu þess (technical definition) sem taki einnig til innstæðna sem ekki njóti tryggingarverndar. Það sé hlutverk landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvorri skilgreiningunni eigi að beita í sambandi við þær reglur landsréttar sem um ræði í málinu.
Í öðru lagi óskaði Hæstiréttur eftir áliti EFTA-dómstólsins á því hvort máli skipti þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort heimaríki þess banka sem lánið fékk hafi nýtt sér heimild samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðuvernd. Svar EFTA-dómstólsins er efnislega á þann veg að þegar skorið sé úr um hvort lán milli tveggja lánastofnana innan EES teljist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, skipti ekki máli hvort heimaríki bankans sem lánið fékk nýtti sér heimild 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja tryggingarvernd. Í þriðja lagi beindi Hæstiréttur þeirri spurningu til EFTA-dómstólsins hvort máli skipti þegar fyrstu spurningunni er svarað, að bankinn sem lánið veiti, nýti sér ekki þá heimild sem hann hafi samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi, en fjármagni starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga. Svarið við þessari spurningu er að þetta atriði skipti ekki máli varðandi það hvort millibankalán sem ein lánastofnun veitir annarri flokkist sem innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, nema leyfi lánveitanda til að stofna og reka lánastofnun hafi verið afturkallað af lögbærum yfirvöldum.
VI
Eins og áður er rakið reisir áfrýjandi kröfu sína á hendur aðalstefnda á því að fé það, sem áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. í október 2008 og um ræðir í málinu, sé innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og hafi hún með þeim ákvörðunum stefnda Fjármálaeftirlitsins sem áður greinir flust yfir til aðalstefnda sem samkvæmt því beri að standa áfrýjanda skil á endurgreiðslu fjárins ásamt vöxtum. Varnir aðalstefnda eru á hinn bóginn á því reistar að umrætt fé sé ekki innstæða í skilningi fyrrnefnds lagaákvæðis og hafi ekki flust til hans með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins.
Þess er áður getið að lög nr. 98/1999 voru einkum sett til að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum og leiða í lög hér á landi efni tilskipana 94/19/EB og 97/9/EB. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Af þessu leiðir eins og áður greinir að skýring hugtaksins „innstæða“ í tilskipun 94/19/EB getur haft þýðingu þegar skorið er úr um hvort fé það sem áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. í október 2008 teljist innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kemur fram að færsla fjár, sem fer fram með þeim hætti sem varð frá áfrýjanda til Landsbanka Íslands hf. umrædd skipti, feli í sér lánveitingu frá einni fjármálastofnun til annarrar á millibankamarkaði. Fé sem svo hagi til um falli undir hugtakið inneign í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB, en í því ákvæði er vísað til inneignar sem til er komin vegna tímabundinna aðstæðna sem leiða af hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Slík inneign telst samkvæmt álitinu innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunarinnar og skiptir í því sambandi ekki máli þótt um millibankalán hafi verið að ræða. Hins vegar getur samkvæmt áliti EFTA-dómstólsins eðli lánveitanda sem lánastofnunar valdið því að innstæður hans hjá annarri lánastofnun njóti ekki tryggingarverndar samkvæmt tryggingakerfi tilskipunarinnar. Vísar EFTA-dómstóllinn í því sambandi til 2. gr. tilskipunarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að innstæður annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu sjálfkrafa og almennt undanskildar endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum. Í þessu felst samkvæmt hinu ráðgefandi áliti að þótt tiltekið fé geti talist innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunarinnar þurfi hið sama fé ekki að vera innstæða í þrengri merkingu þess.
Samkvæmt svari EFTA-dómstólsins við fyrstu spurningunni skiptir ekki máli við úrlausn um það hvort fé eins og áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. teljist „innstæða“ í skilningi tilskipunar 94/19/EB, að það hafi ekki verið fært sem innstæða í bókum viðtakandi banka heldur sem lán. Þá hefur ekki þýðingu í því sambandi að féð hafi ekki verið lagt inn á sérstakan reikning á nafni lánveitandans í viðtakandi banka, að sá banki hafi ekki gefið út sérstök skilríki til lánveitandans fyrir móttöku fjárins og að ekki hafi verið greitt iðgjald af því í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Ekki skiptir heldur máli eins og fram kemur í svari EFTA-dómstólsins við annarri spurningunni, að þegar efni tilskipunar 94/19/EB var tekið upp í rétt heimaríkis lántakans nýtti það sér ekki heimild samkvæmt 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar, sbr. 1. tölulið I. viðauka, til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd. Loks skiptir ekki máli, eins og fram kemur í svarinu við þriðju spurningunni, við mat á því hvort millibankalán sem ein lánastofnun veitir annarri flokkist sem innstæða, að lánveitandinn fjármagni starfsemi sína ekki með móttöku innlána frá almenningi, eins og hann hafi heimild til, heldur með framlögum frá eiganda sínum og útgáfu fjármálagerninga.
Með hliðsjón af því sem hér var rakið úr áliti EFTA-dómstólsins og að virtum atvikum málsins verður lagt til grundvallar að fé það, sem áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. í október 2008 og tilkomið er með þeim hætti sem áður er lýst, teljist innstæða í rýmri merkingu innstæðuhugtaks tilskipunar 94/19/EB. Lög nr. 98/1999 voru eins og áður er rakið einkum sett til þess að leiða í lög hér á landi efni tilskipunarinnar. Að því gættu og með vísan til 3. gr. laga nr. 2/1993 verður lagt til grundvallar að það eitt að þetta sama fé sé tilkomið vegna millibankaláns útiloki ekki að það geti talist innstæða í skilningi 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og það ákvæði var fyrir breytingu með 5. gr. laga nr. 79/2012. Kemur þá þessu næst til úrlausnar hvort í þeim ákvörðunum stefnda Fjármálaeftirlitsins sem um ræðir í málinu hafi falist að allt fé sem gæti talist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 skyldi flytjast frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti aðalstefnda, eða hvort í þeim ákvörðunum hafi falist takmarkanir og þá af hvaða toga.
Í kafla III hér að framan er orðrétt tekið upp efni 7. og 8. töluliða ákvörðunar stefnda Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Þar var í 7. tölulið kveðið á um að aðalstefndi tæki yfir skuldbindingar vegna „innlána frá fjármálafyrirtækjum“ og í 8. tölulið að innlendar „innstæður“ við Landsbanka Íslands hf. flyttust yfir til hins nýja banka. Efni og orðalag þessara töluliða eitt og sér sker því ekki úr um hvort fé í formi millibankalána eins og þeirra sem áfrýjandi veitti Landsbanka Íslands hf. skyldi flytjast yfir til hins nýja banka. Hins vegar var í bréfi Fjármálaeftirlitsins til Landsbanka Íslands hf. 11. nóvember 2008 fjallað um „svokölluð peningamarkaðslán/innlán“ frá fjármálafyrirtækjum og áréttað með afdráttarlausum hætti að „skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar yfir til ... Nýja Landsbanka Íslands hf. ... með þeim ákvörðunum sem um ræðir.“
Þegar lagt er mat á það sem felst í framangreindum ákvörðunum stefnda Fjármálaeftirlitsins er fyrst til þess að líta að lög nr. 125/2008 voru sett við aðstæður í fjármála- og efnahagslífi íslensku þjóðarinnar sem eiga sér enga hliðstæðu í sögu lýðveldisins, og er nánari grein gerð fyrir því í forsendum dóms Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 340/2011. Með setningu laganna voru gerðar ýmsar veigamiklar lagabreytingar og stjórnvöldum, þá fyrst og fremst Fjármálaeftirlitinu, veittar umfangsmiklar valdheimildir sem ekki eru dæmi um að íslensku stjórnvaldi hafi áður verið fengnar í hendur. Markmið þessa var eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 fyrst og fremst að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu með því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því og koma í veg fyrir að „bankarnir loki, greiðslukerfið frjósi eða hrynji og verði ekki virkt“, en með þeim víðtæku valdheimildum sem Fjármálaeftirlitinu voru veittar skyldi tryggja hagsmuni almennings og endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Mat Hæstiréttur það svo í dóminum að löggjafinn hefði ríkt svigrúm við mat á því hvaða leiðir skyldu farnar til að bregðast við því flókna og hættulega ástandi sem upp var komið og ógnað gat tilvist alls samfélagsins vegna keðjuverkandi áhrifa falls stærstu viðskiptabankanna sem endað gat með hruni alls efnahagslífs í landinu. Taldi Hæstiréttur að við þær aðstæður sem ríktu hafi löggjafanum ekki aðeins borið réttur heldur fyrst og fremst stjórnskipuleg skylda „til að gæta velferðar almennings og fjárhagslegt uppgjör vegna falls bankanna hlaut fyrst og fremst að verða innbyrðis milli þeirra, sem áttu beinna hagsmuna að gæta gagnvart þeim“ eins og orðrétt segir í dóminum. Í þessu ljósi verður að virða þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem um ræðir í málinu og leggja til grundvallar að í þeim hafi falist að nýju bankarnir sem reistir voru á grunni þeirra föllnu tækju yfir innstæðuskuldbindingar gömlu bankanna gagnvart almenningi og almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna, en ekki inneign sem stafaði af slíkri lánveitingu á millibankamarkaði sem um ræðir í málinu. Eru þegar af þessari ástæðu ekki efni til í málinu að taka afstöðu til þess hvort umrædd lánveiting geti í skilningi laga nr. 98/1999 talist innstæða í merkingu þess hugtaks.
Í annan stað ber að hafa í huga að í niðurlagi ákvörðunar stefnda Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var sá fyrirvari gerður að hún væri tekin á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og gagna. Jafnframt kom þar fram að reyndist ákvörðunin byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta. Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 156/2011 var það samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði á þessum tíma, á valdi Fjármálaeftirlitsins að taka ákvarðanir eins og þær sem um ræðir í málinu svo bindandi yrði fyrir eldri bankana, þá yngri og viðsemjendur þeirra, svo og að breyta slíkum ákvörðunum. Hafi að mati áfrýjanda einhver vafi verið í upphafi um hvort umrædd krafa hans hafi flust yfir til hins nýja banka eða átt að flytjast þangað, þá var þeim vafa í öllu falli eytt ekki síðar en í fyrrgreindu bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008.
Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið verður lagt til grundvallar að með ákvörðunum stefnda Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 og 11. nóvember sama ár hafi fé það, er áfrýjandi átti hjá Landsbanka Íslands hf. í byrjun október 2008 og til var komið vegna millibankaláns, ekki flust yfir til hins nýja banka, nú aðalstefnda í málinu, Landsbankans hf. Ber því að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu aðalstefnda af kröfu áfrýjanda.
Ákvarðanir þær sem stefndi Fjármálaeftirlitið tók og um ræðir í málinu voru teknar á grundvelli þeirra valdheimilda sem stofnuninni voru fengnar í hendur með lögum nr. 125/2008. Hæstiréttur hefur eins og fram kemur í dómi réttarins 28. október 2011 í máli nr. 340/2011 þegar staðfest að lögin standist ákvæði stjórnarskrárinnar að því marki sem þar á reyndi. Samkvæmt því og þar sem áfrýjandi hefur hvorki sýnt fram á að Fjármálaeftirlitið hafi við töku ákvarðana sinna farið út fyrir valdheimildir þær sem því voru fengnar í hendur, né leitt annars að því rök að þær ákvarðanir hafi verið teknar með ólögmætum og saknæmum hætti ber að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sýknu varastefndu af kröfu áfrýjanda í málinu.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Það athugist að engin efni voru til að beina kröfu að stefnda Fjármálaeftirlitinu samhliða íslenska ríkinu. Þá er og aðfinnsluvert að áfrýjandi lagði fyrir Hæstarétt sem fylgigagn með nýjum gögnum skjal sem hafði að geyma athugasemdir við greinargerðir stefndu en slíkur skriflegur málflutningur er andstæður lögum. Áfrýjandi hefur auk þessa, meðal annars eftir að fresti til gagnaöflunar lauk, lagt fram í Hæstarétti aragrúa nýrra skjala sem ekkert gildi hafa fyrir úrlausn málsins.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal óraskaður.
Áfrýjandi, Aresbank S.A., greiði stefndu, Landsbankanum hf., íslenska ríkinu og Fjármálaeftirlitinu, hverjum fyrir sig 3.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
|
|
DÓMUR DÓMSTÓLSINS
22. nóvember 2012[1]
(Tilskipun 94/19/EB Tilskipun 2000/12/EB Tilskipun 2006/48/EB Spurningar tækar til efnismeðferðar Reglur landsréttar byggðar á EES-rétti sem eiga við í aðstæðum innanlands Hugtakið innlán Millibankalán Gagnkvæm viðurkenning á leyfisveitingu til stofnunar og reksturs lánastofnana Gildissvið ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar)
Mál E-17/11,
BEIÐNI, samkvæmt 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins, frá Hæstarétti Íslands, í máli sem þar er rekið
Aresbank SA
gegn
Landsbankanum hf., Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu
varðandi túlkun á hugtakinu „innlán“ í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi.
DÓMSTÓLLINN,
skipaður dómurunum Carl Baudenbacher, forseta, Per Christiansen, framsögu-manni og Páli Hreinssyni,
dómritari: Skúli Magnússon,
hefur, með tilliti til skriflegra greinargerða frá:
- Stefnanda, Aresbank SA (Aresbank), í fyrirsvari er Bjarki H. Diego, hrl.;
- Stefnda, Landsbankanum hf. (Landsbankinn), í fyrirsvari er Borgar Þór Einarsson, hdl., og Grímur Sigurðarson, hdl.;
- Stefndu, Fjármálaeftirlitinu (FME) og íslenska ríkinu, í fyrirsvari er Jóhannes Karl Sveinsson, hrl.;
- Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Xavier Lewis, framkvæmdastjóri lögfræði- og framkvæmdasviðs, og Florence Simonetti, aðstoðarframkvæmdastjóri á lögfræði- og framkvæmdasviði;
- Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (Framkvæmdastjórnin), í fyrirsvari sem umboðsmenn eru Enrico Traversa, lögfræðilegur ráðgjafi, og Albert Nijenhuis, hjá lagaskrifstofu framkvæmdastjórnarinnar.
með tilliti til skýrslu framsögumanns,
og munnlegs málflutnings umboðsmanns Aresbanka, Baldvins Björns Haraldssonar, umboðsmanna Landsbankans, Borgars Þórs Einarssonar og Gríms Sigurðarsonar, umboðsmanna Fjármálaeftirlitsins, Jóhannesar Karls Sveinssonar, Þóru Margrétar Hjaltested og Arnars Þórs Sæþórssonar, fulltrúa ESA, Xavier Lewis og Florence Simonetti, og fulltrúa Framkvæmdastjórnarinnar, Enrico Traversa og Albert Nijenhuis, sem fram fór 20. júní 2012,
kveðið upp svofelldan
Dóm
I Löggjöf
EES-réttur
Tilskipun 94/19/EB
1 Tilskipun ráðsins 94/19/EB um innlánatryggingakerfi (tilskipunin eða tilskipun 94/19) (OJ 1994 L 135, bls. 5) var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/94 frá 28. október 1994 og breytir IX. viðauka EES-samningsins. Ákvörðunin öðlaðist gildi 1. júlí 1995.
2 Í 1. gr. tilskipunarinnar segir:
Í tilskipun þessari er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. „innlán“: innstæða sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa.
Aðildarríkin skulu við útreikning á innstæðu styðjast við þær reglur og forskriftir fyrir skuldajöfnuð og gagnkröfur er felast í skilmálum um innlán samkvæmt lögum eða samningum.
4. „lánastofnun“: fyrirtæki með starfsemi er felst í því að taka á móti innlánum frá almenningi eða öðru fé, er skal endurgreiða, og veita lán fyrir eigin reikning.
3 Í 2. gr. tilskipunarinnar segir:
Eftirfarandi telst ekki til innlána sem má endurgreiða í gegnum tryggingakerfi:
- innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.,
4 Í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar segir:
Aðildarríkin geta ákveðið að vissir innstæðueigendur eða viss innlánsform séu undanskilin tryggingakerfinu eða hin tryggða fjárhæð lægri. Skrá yfir þessi frávik er í I. viðauka.
5 Í I. viðauka tilskipunarinnar segir:
Innlán sem má undanskilja samkvæmt 2. mgr. 7. gr.
1. Innlán frá fjármálastofnunum, sbr. 6. mgr. 1. gr. í tilskipun 89/646/EBE.
Tilskipanir 2000/12/EB og 2006/48/EB
6 Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2001 frá 28. febrúar 2001 (OJ 2001 L 117, bls. 13) ( ákvörðun 15/2001), var tilskipun 89/646/EBE felld úr gildi með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana (OJ 2000 L 126, bls. 1) (tilskipun 2000/12). Ekki var kveðið á um nein stjórnskipuleg skilyrði og ákvörðun 15/2001 tók gildi 1. mars. 2001.
7 Tilskipun 2009/12 EB var felld úr gildi innan Evrópubandalagsins með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana (endursamin) (OJ 2006 L 177, bls. 1) (tilskipun 2006/48). Tilskipun 2006/48 tók gildi tuttugu dögum eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, 30. júní 2006.
8 Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2008 frá 6. júní 2008 (OJ 2008 L 257, bls. 27) (ákvörðun 65/2008) var tilskipun 2000/12 felld úr gildi með tilskipun 2006/48. Stjórnskipuleg skilyrði voru tilgreind og ákvörðun 65/2008 tók gildi 1. nóvember 2010. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum á heimasíðu EFTA-skrifstofunnar tilkynnti ríkisstjórn Íslands, 17. febrúar 2009, um frestun, með vísan til sex mánaða frestsins sem tiltekinn er í 2. mgr. 103. gr. EES-samningsins.
9 Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12 og a-liðs 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48 er lánastofnun:
fyrirtæki með starfsemi sem felst í að taka á móti innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu og veita lán fyrir eigin reikning.
10 Í 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12 og 5. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48 er „fjármálastofnun” skilgreind svo:
fyrirtæki sem er ekki lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja eða alla þá starfsemi sem um getur í 2. til 12. lið I. viðauka.
11 Samkvæmt 3. gr. tilskipunar 2000/12 og 5. gr. tilskipunar 2006/48 skulu aðildarríki banna einstaklingum eða fyrirtækjum sem eru ekki lánastofnanir að taka við innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu. Samkvæmt 4. gr. tilskipunar 2000/12 og 6. gr. tilskipunar 2006/48 skulu aðildarríki krefjast þess af lánastofnunum að þær afli sér leyfis áður en þær hefja starfsemi sína. Samkvæmt 8. gr. tilskipunar 2000/12 og 7. gr. tilskipunar 2006/48, skulu aðildarríki setja það skilyrði að með umsókn um leyfi fylgi lýsing á starfseminni þar sem fram kemur, meðal annars, hvers konar rekstur er fyrirhugaður og hvernig stofnunin verður skipulögð.
12 Í 1. mgr. 14. gr. tilskipunar 2000/12 og 1. mgr. 17. gr. tilskipunar 2006/48 segir:
Lögbærum yfirvöldum er því aðeins heimilt að afturkalla leyfi, sem veitt hefur verið lánastofnun, ef slík stofnun:
a) nýtir ekki leyfið innan 12 mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði, hafi hlutaðeigandi aðildarríki ekki gert ráð fyrir að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum;
b) hefur fengið leyfi á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt;
c) uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem leyfisveitingin er
háð;
d) á ekki lengur nægilegt eigið fé eða er ekki lengur treystandi til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart lánardrottnum og sérstaklega ef stofnunin tryggir ekki lengur öryggi þess fjár sem henni er treyst fyrir;
e) fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis.
13 Bæði I. viðauki tilskipunar 2000/12 og I. viðauki tilskipunar 2006/48 heimila starfsemi lánastofnana, sem háð er gagnkvæmri viðurkenningu. Listarnir eru samhljóða í báðum tilskipunum. Liðir 2 til 12 eiga jafnframt við um fjármálastofnanir.
Landsréttur
Lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta
14 Tilskipun 94/19 var innleidd í íslenska löggjöf með lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
15 Í 2. gr. laga nr. 98/1999 segir að sérstök stofnun er nefnist Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (sjóðurinn) fari með tryggingar samkvæmt lögunum. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun og starfar í tveimur sjálfstæðum deildum með aðskilinn fjárhag og reikningshald, innstæðudeild og verðbréfadeild.
16 Í 3. gr. laganna er kveðið á um hvaða fyrirtæki skulu eiga aðild að sjóðnum. Samkvæmt greininni skulu viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafa staðfestu á Íslandi, eiga aðild að sjóðnum. Hið sama gildir um útibú þessara aðila á Evrópska efnahagssvæðinu.
17 Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 segir:
Nú er aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda. Er þá sjóðnum skylt að greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækis andvirði innstæðu úr innstæðudeild og andvirði verðbréfa og reiðufjár í tengslum við viðskipti með verðbréf úr verðbréfadeild. Greiðsluskylda sjóðsins verður einnig virk ef bú aðildarfyrirtækis er tekið til gjaldþrotaskipta í samræmi við lög um viðskiptabanka og sparisjóði og lög um verðbréfaviðskipti.
18 Í 3. mgr. 9. gr. laganna segir:
Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum.
19 Í 6. mgr. 9. gr. laganna segir:
Undanskilin tryggingu skv. 1. mgr. eru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja [sjóðsins]... .
Lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki
20 Með 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem bætt var við með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., er Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Ákvæðið veitir Fjármálaeftirlitinu einnig heimild til að ráðstafa öllum réttindum eftir því sem nauðsynlegt þykir í slíkum tilvikum.
21 Samkvæmt 1. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, eins og þeim var breytt með lögum nr. 125/2008, skulu kröfur vegna innstæðna samkvæmt lögunum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta teljast til forgangskrafna við slit fjármálafyrirtækja.
II Málavextir og meðferð málsins
22 Árið 2008 millifærði Aresbank, spænsk lánastofnun, samtals 30.000.000 evrur og 7.000.000 sterlingspund til Landsbanka Íslands hf. (Landsbankinn). Bönkunum tveimur samdist svo um, að Landsbankinn skyldi endurgreiða þessa fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum á fyrirfram ákveðnum gjalddögum.
23 Samið var um umrædd lán í gegnum SWIFT-kerfið. Um fyrsta lánið var samið 6. júní 2008 og skyldi lánstíminn vera frá 10. júní 2008, frá þeim degi sem fjármunirnir voru millifærðir til Landsbankans, til 10. desember 2008. Um annað lánið var samið 7. ágúst 2008 og skyldi lánstíminn vera frá 11. ágúst 2008, frá þeim degi sem fjármunirnir voru millifærðir til Landsbankans, til 12. nóvember 2008. Um þriðja lánið var samið 16. september 2008 og skyldi lánstíminn vera frá 18. september, frá þeim degi sem fjármunirnir voru millifærðir, til 18. mars 2009.
24 Samkvæmt beiðninni um ráðgefandi álit voru fjármunir þeir sem Aresbank millifærði til Landsbankans ekki lagðir inn á sérstakan reikning í nafni Aresbank. Landsbankinn gaf ekki út sérstök skilríki til Aresbank fyrir móttöku fjárins og ekki var greitt iðgjald af því í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Fjármunirnir voru færðir sem lán í bókum Landsbankans.
25 Í máli því sem rekið er fyrir landsdómstólnum krefst Aresbank endurgreiðslu á lánum þeim sem samið var um 6. júní og 7. ágúst 2008.
26 Í september og október 2008 áttu sér stað miklar hræringar á alþjóðafjármálamörkuðum sem höfðu mikil áhrif á starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Fór svo að þrír stærstu viðskiptabankar landsins, Landsbankinn, Glitnir banki hf. og Kaupþing banki hf. reyndust ófærir um að takast á við þann vanda sem steðjaði að þeim.
27 Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna: Nýi Landsbanki Íslands hf. Nafni þess banka var síðar breytt í Landsbankinn hf. og hann er stefndi í máli því sem rekið er fyrir landsdómstólnum. Fjárhagslegur grundvöllur nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna til hans úr eldri bankanum, en einnig með fjárveitingu úr ríkissjóði.
28 Sama dag tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi yfirtaka skuldbindingar „í útibúum Landsbanka Íslands hf. vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum“. Í ákvörðun sinni skilgreindi Fjármálaeftirlitið ekki hvað átt væri við með orðinu „innlán“.
29 Með bréfi til Landsbankans 11. nóvember 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið að stjórn þess hefði tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir um ráðstöfun eigna og skulda Landsbankans, Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á tiltekna fjármögnun þessara fyrirtækja, nánar tiltekið þegar um peningamarkaðsinnlán/innlán frá fjármálafyrirtækjum væri að ræða. Samkvæmt bréfinu hafði ýmissa gagna verið aflað frá bönkunum og endurskoðendum þeirra um áhrif þessarar fjármögnunar á starfsemi bankanna. Því næst sagði að á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins sama dag hefði verið „ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum væru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. [sem varð að Landsbankanum, sem fyrr greinir] og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir.“ Loks sagði í bréfi Fjármálaeftirlitsins að „almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna“ flyttust yfir til nýju bankanna eins og aðrar innstæður.
30 Aresbank ritaði Fjármálaeftirlitinu bréf 19. Nóvember 2008, þar sem óskað var eftir rökstuðningi fyrir því að stjórn stofnunarinnar hefði lagt til að peningamarkaðsinnlán skyldu ekki flytjast yfir til nýju bankanna þriggja.
31 Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins, dagsettu 21. nóvember 2008, segir að í tilviki peningamarkaðsinnlána hafi verið ákveðið að flokka slíkar yfirfærslur sem innstæður, nema í þeim tilvikum þar sem mótaðili bankans væri fjármálastofnun. Í þeim tilvikum væri litið á slíkar færslur sem lán frá fjármálafyrirtækjum sem skilin voru eftir í gömlu bönkunum. Í bréfinu var gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ákvörðunin var byggð á og raktir þeir þættir sem taldir voru sérstaklega mikilvægir í því sambandi.
32 Aresbanki stefndi í kjölfarið Landsbankanum, Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu til endurgreiðslu fjármunanna sem hann hafði millifært árið 2008. Aresbanki byggði aðalkröfu sína á því mati sínu, að peningamarkaðsinnlánin að upphæð 30.000.000 evra sem hann millifærði til Landsbanka Íslands hf. í tveimur hlutum árið 2008 hafi verið færðir, eða hefðu átt að færast, til Landsbankans eftir hrun íslensku bankanna í október 2008. Þar af leiðandi hefðu fjármunirnir, sem Aresbank telur að hafi verið innlán en ekki lán, átt að vera lausir til útborgunar 12. nóvember 2008 og 10. desember 2008.
33 Aresbank byggði kröfu sína, að hluta, á ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 7. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., með vísan til 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sem kvað á um að Nýi Landsbanki Íslands skyldi yfirtaka skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Aresbank hélt því fram, að samkvæmt 8.-lið ákvörðunarinnar hafi innlánin verið flutt til Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbankinn hf., frá og með kl. 9.00 þann 9. október 2008.
34 Í dómi sínum 22. desember 2012 komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu, að millifærslur fjármuna frá Aresbank til Landsbankans yrðu að teljast skammtímamillibankalán, ekki innlán. Þar af leiðandi hafnaði héraðsdómur kröfu Aresbank.
35 Aresbank áfrýjaði þeim dómi til Hæstaréttar. Í áfrýjunarstefnu óskaði áfrýjandi eftir því við Hæstarétt að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu „innstæða“ í tilskipuninni. Áfrýjandi dró þá beiðni síðar til baka.
36 Hæstiréttur ákvað 15. desember 2011, að eigin frumkvæði, að beina eftirfarandi spurningum til dómstólsins:
1. Geta fjármunir sem bankinn A afhendir bankanum B og B ber að endurgreiða A á fyrirfram umsömdum degi ásamt vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, talist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, þótt fjármunirnir hafi hjá B ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni A, B hafi ekki gefið út sérstök skilríki til A fyrir móttöku þeirra, ekki hafi verið greitt af fjármununum iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og fjármunirnir ekki færðir sem innstæða í bókum B? Við það er miðað í spurningunni að bankarnir A og B hafi starfsleyfi sem viðskiptabankar hvor í sínu ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu.
2. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort heimaríki bankans B hefur nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sbr. 1. tölulið I. viðauka tilskipunarinnar, til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd?
3. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað, hvort bankinn A, sem hefur leyfi til að starfa sem viðskiptabanki samkvæmt lögum þess samningsaðila þar sem hann starfar, nýtir ekki þá heimild sem hann hefur samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi, en fjármagnar starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, og endurlánar síðan það fé á svokölluðum millibankamarkaði?
37 Vísað er til skýrslu framsögumanns um frekari lýsingu löggjafar, málsatvika, meðferðar málsins og skriflegra greinargerða sem dómstólnum bárust, sem verða ekki nefnd eða rakin nema að því leyti sem forsendur dómsins krefjast.
III Spurningar tækar til efnismeðferðar
Athugasemdir bornar fram við EFTA-dómstólinn
38 Við munnlegan málflutning lýstu Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórn Íslands efasemdum sínum um að dómstóllinn hefði lögsögu til að úrskurða um spurningarnar sem beint var til hans. Þau héldu því fram að kjarni hinnar lagalegu deilu, nánar tiltekið stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins, hafi ekki byggst á löggjöf um innlánatryggingar, heldur á 100. gr. a. íslenskra laga nr. 161/2002. Það ákvæði tengist ekki EES-rétti. Að mati Fjármálaeftirlitsins og ríkisstjórnar Íslands mun ráðgefandi álit í máli þessu ekki hafa nein áhrif á einsleita beitingu EES-réttar.
39 ESA bendir á að málarekstur fyrir landsdómstólnum eigi ekki rætur sínar að rekja til beitingar EES-réttar. Spurningin sem bíði úrlausnar Hæstaréttar snýst um það hvort lán sem Aresbank hafi veitt Landsbankanum séu innlán samkvæmt íslenskum rétti. Hæstiréttur hafi beint spurningunum til dómstólsins vegna þess að almenn skilgreining innláns samkvæmt íslenskum rétti svipi til skilgreiningar tilskipunarinnar. Í þessu samhengi tekur ESA fram að samkvæmt dómvenju sé heimilt að leita eftir ráðgefandi áliti í tilvikum þar sem ákvæði landsréttar sé byggt á, eða vísi með einhverjum hætti til EES-réttar eða ESB-réttar.
40 Framkvæmdastjórnin heldur því fram að það sé í samræmi við dómvenju, að þegar reglur landsréttar sem einungis eiga við aðstæður innanlands byggjast á sömu lausnum og fram koma í ESB-rétti, í þeim tilgangi að forðast röskun á samkeppni, skuli, til að koma í veg fyrir ólíka túlkun í framtíðinni, gæta samræmis við túlkun reglna eða hugtaka sem fengin eru úr ESB-rétti, óháð þeim aðstæðum sem þau eiga við um.
41 Framkvæmdastjórnin telur að þessi rök eigi einnig við um þetta mál, þar sem reglur landsréttar vísi til hugtaks úr EES-/ESB-rétti við stjórn málefna sem falla ekki beinlínis undir EES-/ESB-rétt. Það er EES og Evrópusambandinu í hag að sjá til þess að samræmis sé gætt við túlkun þessara hugtaka.
Álit dómstólsins
42 Málið sem rekið er fyrir Hæstarétti Íslands snýst um það hvort lánin sem Aresbank veitti Landsbankanum falli undir ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 8. október 2008 og þar af leiðandi hvort þau hefðu átt að vera hluti af þeim eignum og skuldum sem færðar voru yfir til Landsbankans. Hæstiréttur Íslands leitast í grundvallaratriðum við að ákvarða hvort umrædd lán teljist innlán frá fjármálafyrirtækjum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og í skilningi laga nr. 98/1999 sem innleiddu tilskipun 94/19.
43 Í þessu sambandi verður í fyrsta lagi að hafa í huga að samkvæmt því fyrirkomulagi um samstarf dómstóla sem kveðið er á um í 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, er það landsdómstólsins, sem málið hefur verið lagt fyrir og axla verður ábyrgð á eftirfarandi dómsniðurstöðu, að meta bæði þörfina á ráðgefandi áliti til að hann geti kveðið upp dóm og mikilvægi spurninganna sem hann vísar til EFTA-dómstólsins í ljósi þeirra tilteknu aðstæðna sem uppi eru í hverju máli (mál E‑13/11 Granville Establishment, óbirtur dómur frá 25. apríl 2012, 18. mgr., og E-18/11 Irish Bank, óbirtur dómur frá 28. september 2012, 55. mgr.)
44 Af þessu leiðir að almennt verður að ganga út frá því fyrirfram að spurningar landsdómstóls um EES-rétt eigi erindi til dómstólsins. Dómstólnum ber því að kveða upp úrskurð þegar spurningarnar sem beint er til dómstólsins varða túlkun EES-réttar, nema bersýnilegt sé að slík túlkun tengist ekki aðalatriðum málarekstursins eða tilgangi hans, spurning er sett fram sem fræðileg tilgáta, eða ef dómstólinn hefur ekki tök á að kynna sér staðreyndir eða lögskýringargögn, sem nauðsynlegt væri til að geta gefið gagnleg svör við þeim spurningum sem til hans er beint (sjá áður tilvitnað mál Granville Establishment, 19. og 20. mgr.).
45 Þess ber einnig að geta að þegar reglur landsréttar, sem einungis eiga við um aðstæður innanlands, byggjast á sömu eða svipuðum lausnum og EES-réttur, í þeim tilgangi að forðast röskun á samkeppni, er það EES-samstarfinu í hag að komið sé í veg fyrir ólíka túlkun í framtíðinni. Af þeim sökum verður því að gæta samræmis við túlkun reglna eða hugtaka sem fengin eru úr EES-rétti, óháð þeim aðstæðum sem þau eiga við um. Þar sem lögsaga dómstólsins er einvörðungu bundin við skoðun og túlkun ákvæða EES-réttar er það landsdómstólsins eins að meta að hvaða marki vísað er til EES-réttar í landsrétti (sjá, til samanburðar, mál C-126/10 Foggia, óbirtur dómur frá 10. nóvember 2011, 21. og 22. mgr. og tilvitnaðra mála).
46 Af framansögðu leiðir að spurningarnar sem Hæstiréttur Íslands hefur beint til dómstólsins, varðandi túlkun á tilskipun 94/19, eru tækar til efnismeðferðar.
IV Spurningarnar sem beint var til dómstólsins
47 Inntak fyrstu spurningar landsdómstólsins er í aðalatriðum hvort lán sem ein fjármálastofnun, viðskiptabanki samkvæmt orðalagi landsdómstólsins, veitir annarri geti talist innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19 jafnvel þótt; (i) fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innstæða í bókum bankans sem lánið fékk; (ii) fjármunirnir hafi ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni bankans sem lánið veitti; (iii) engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku fjármunanna, og (iv) ekki hafi verið greitt af fjármununum iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda.
48 Inntak annarrar og þriðju spurningar landsdómstólsins er í aðalatriðum hvort máli skipti hvort lán milli fjármálastofnana teljist innlán; (i) að heimaríki bankans sem lánið fékk hafi nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19 til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd; og (ii) að bankinn sem lánið veitti nýti ekki þá heimild sem hann hefur samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi.
Fyrsta spurningin
49 Aresbank, ESA og framkvæmdastjórnin leggja til að fyrstu spurningunni verði svarað játandi, nánar tiltekið að millifærslan skuli teljast innlán. Að þeirra mati getur lánastofnun tekið við innláni frá annarri. Framkvæmdastjórnin telur jafnframt, að þótt millifærslan flokkist tæknilega sem innlán í skilningi tilskipunar 94/19, falli slíkt innlán ekki undir innlánatryggingakerfi þeirrar tilskipunar. Að mati framkvæmdastjórnarinnar verður að greina á milli virkrar skilgreiningar hugtaksins í samræmi við tilgang tilskipunar 94/19, annars vegar, og hreinnar tæknilegrar skilgreiningar, hins vegar.
50 Landsbankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórn Íslands leggja til að spurningunni skuli svarað neitandi. Að mati Landsbankans uppfyllir millifærslan ekki öll upptalin skilyrði sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19. Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórnin halda því fram að umrædd viðskipti geti ekki flokkast sem innlán, úr því að ekki er um millifærslur í hefðbundinni almennri bankastarfsemi að ræða, í skilningi þess ákvæðis.
51 Það er ljóst af beiðni Hæstaréttar að bæði Aresbank og Landsbankinn hafi leyfi til að starfa sem lánastofnanir innan EES.
52 Tvíþætt markmið tilskipunarinnar er sett fram í fyrsta lið hennar og segir þar að samkvæmt markmiðum EES-samningsins skuli stefnt að samræmdri þróun lánastofnana innan alls EES, með því að fjarlægja allar takmarkanir á staðfesturétti og frelsi til að veita þjónustu og auka um leið festu í bankakerfinu og vernda hag sparifjáreigenda.
53 Innlánshugtakið er skilgreint í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Innlán getur verið (i) innstæða sem er tilkomin vegna fjármuna sem lagðir eru inn á reikning, (ii) innstæða sem er tilkomin vegna millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, eða, (iii) kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa, eða skuld sem staðfest hefur verið með annars konar skilríkjum.
54 Af orðalagi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar leiðir, öndvert staðhæfingu Landsbankans, að tilskipunin kveður ekki á um þrjú nauðsynleg skilyrði sem öll þurfa að vera uppfyllt til að fjármunir teljist innlán. Þvert á móti geta innlán í skilningi tilskipunarinnar tekið á sig þrenns konar mynd.
55 Samkvæmt beiðni Hæstaréttar til dómstólsins, voru ekki gefin út sérstök skilríki fyrir móttöku fjárins. Enn fremur, voru hinir millifærðu fjármunir ekki lagðir inn á sérstakan reikning í nafni bankans sem lánið veitti. Fjármunirnir voru þar af leiðandi ekki lagðir inn á reikning. Því verður að meta, hvort fjármunir, eins og þeim sem lýst er í beiðninni, verði taldir innstæða sem sé tilkomin vegna millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi.
56 Hugtakið innstæða er ekki skýrt í tilskipuninni. Hins vegar bendir orðalag 1. mgr. 1. gr. hennar til þess að í hugtakinu felist að fjármunum sé veitt móttaka sem lán. Að þessu leyti getur ekki skipt máli hvort fjármunirnir hafi verið færðir sem innlán í bókum bankans sem lánið fékk. Það væri andstætt markmiði tilskipunarinnar ef vernd samkvæmt henni væri komin undir flokkun lánastofnunarinnar sem veitir fjármununum móttöku. Sú túlkun á sér stoð í lögskýringargögnum tilskipunarinnar. Í greinargerð með upprunalegu frumvarpi framkvæmdastjórnarinnar (COM (92) 188 final) segir að líta beri á hugtakið innlán í 1. mgr. 1. gr. frá sjónarhorni innstæðueiganda. Innstæðueigandi á innstæðu eða kröfu, en hún birtist sem skuld eða lán í bókhaldi bankans sem tekur við fjármununum.
57 Í tilskipuninni er heldur ekki skilgreint hvað átt sé við með millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi. Hins vegar verður að telja að fjáröflun með hefðbundnum skammtímalánum, líkt og þau sem um ræðir í máli þessu, sé bæði tímabundin aðgerð og hefðbundin almenn bankastarfsemi, í venjubundinni merkingu þess hugtaks.
58 Spurning Hæstaréttar varðar millibankalán milli lánastofnana. Lánastofnanir eru skilgreindar í 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, sem „fyrirtæki með starfsemi er felst í því að taka á móti innlánum frá almenningi eða öðru fé, er skal endurgreiða, og veita lán fyrir eigin reikning“.
59 Landsbankinn, Fjármálaeftirlitið og ríkisstjórn Íslands hafa haldið því fram að millibankalán geti ekki talist innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Orðalag tilskipunarinnar bendir hins vegar ekki til þess að sú staðreynd að innstæðueigandi sé lánastofnun hafi nokkur áhrif á það hvort fjármunir skuli teljast innlán í skilningi ákvæðisins.
60 Eðli innstæðueiganda kann aftur á móti að hafa áhrif á það hvort innlán uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar. Í 2. gr. tilskipunarinnar er kveðið skýrlega á um þá meginreglu að innlán annarra fjármálastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu sjálfkrafa og almennt undanskilin endurgreiðslu úr innlánatryggingakerfum.
61 Úr því að tilskipunin undanþiggur sérstaklega lán milli lánastofnana frá meginreglunni um endurgreiðslu vegna innlána, verður að telja að millifærslur eins og þær sem lýst er í fyrstu spurningu landsdómstólsins falli innan skilgreiningarinnar sem sett er fram í 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
62 Loks ber að geta þess, að engin krafa er gerð um að greitt hafi verið iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta af fjármununum til að þeir teljist innlán í skilningi tilskipunarinnar.
63 Af öllu framansögðu leiðir að fjármunir sem millifærðir eru frá einni lánastofnun til annarrar í samræmi við lánasamning , líkt og um ræðir í máli því sem rekið er fyrir landsdómstólnum, teljast innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar, þrátt fyrir að; (i) fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innlán í bókum lántakanda; (ii) fjármunirnir hafi ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning í nafni lánveitanda; (iii) engin sérstök skilríki hafi verið gefin út fyrir móttöku fjármunanna; og (iv) ekki hafi verið greitt af þeim iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.
64 Í samræmi við 2. gr. tilskipunarinnar teljast þó fjármunir sem millifærðir eru frá einni lánastofnun til annarrar samkvæmt lánasamningi, líkt og um ræðir í málinu sem rekið er fyrir landsdómstólnum, ekki til innlána sem uppfylla skilyrði tilskipunarinnar fyrir endurgreiðslu, þótt þeir falli tæknilega undir innlánahugtakið, eins og minnst var á í 60. málsgrein hér að framan. Þar af leiðandi má gera greinarmun á virkri skilgreiningu tryggðra innlána samkvæmt tilskipuninni, sem byggir á 1. mgr. 1. gr. að teknu tilliti til 2. gr., og tæknilegri skilgreiningu sem tekur einnig til innlána sem ekki falla undir innlánatryggingakerfi sem kveðið er á um í tilskipuninni og eru því ekki endurgreiðslukræf samkvæmt þeim.
65 Eins og tekið er fram í 45. málsgrein hér að framan er það landsdómstólsins að meta að hvaða marki reglur landsréttar vísa til EES-réttar, þegar reglur landsréttar, sem einungis stjórna aðstæðum innanlands, byggjast á sömu eða sambærilegum lausnum og EES-réttur. Samkvæmt því er það landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort beita beri tæknilegri eða virkri skilgreiningu innlánahugtaksins í sambandi við þær reglur landsréttar sem um ræðir í máli þessu.
66 Því verður að svara fyrstu spurningunni með eftirfarandi hætti:
- 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19 verður að skýra með þeim hætti að fjármunir sem lánastofnun afhendir annarri, sem lán er endurgreiða ber á fyrirfram umsömdum degi ásamt vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, skuli teljast innlán í skilningi ákvæðisins. Þetta á við þótt fjármunirnir hafi ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni lánastofnunarinnar sem lánið veitti og þótt lánastofnunin sem lánið fékk hafi ekki gefið út sérstök skilríki fyrir móttöku þeirra, hafi ekki greitt iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innlán í bókum hennar.
- Fjármunir, sem millifærðir eru með þessum hætti frá einni lánastofnun til annarrar í samræmi við lánasamning, teljast þó ekki til innlána sem njóta tryggingarverndar samkvæmt tilskipun 94/19. Slíkir fjármunir uppfylla því ekki skilyrði tilskipunarinnar fyrir endurgreiðslu. Þar af leiðandi má gera greinarmun á virkri skilgreiningu tryggðra innlána samkvæmt tilskipuninni, sem byggir á 1. mgr. 1. gr. að teknu tilliti til 2. gr., og tæknilegri skilgreiningu, sem tekur einnig til innlána sem ekki falla undir innlánatryggingakerfi samkvæmt tilskipun 94/19 og eru því ekki kræf til endurgreiðslu samkvæmt þeim. Það er landsdómstólsins að ákveða hvort beita skuli tæknilegri eða virkri skilgreiningu innlánahugtaksins samkvæmt reglum landsréttar í máli þessu.
Önnur spurningin
67 Með annarri spurningunni spyr Hæstiréttur hvort máli skipti þegar skorið er úr um hvort lán milli tveggja lánastofnana innan EES teljist innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, hvort heimaríki bankans sem lánið fékk hafi nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd?
68 Allir aðilar sem skiluðu skriflegum greinargerðum í máli þessu eru sammála um að þessari spurningu skuli svarað neitandi. Þeir hafa byggt svör sín á tilskipun 2006/48. Í meginatriðum telja þeir hvorki stöðu né starfsemi innstæðueiganda hafa áhrif á það hvort millifærsla flokkist sem innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, en telja þau atriði einungis áhrif á það hvort innlánin njóti tryggingarverndar.
69 Til þess að veita landsdómstólnum gagnlegt svar við spurningunni, mun dómstóllinn leggja mat á það hvort tilskipun 2006/48 eigi við í máli þessu.
70 Tilskipun 2006/48, sem kom í stað tilskipunar 2000/12, var samþykkt 14. júní 2006 og tók gildi tuttugu dögum eftir birtingu hennar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, 30. júní 2006.
71 Tilskipun 2006/48 var tekin upp í EES-samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2008 frá 6. júní 2008. Með þeirri ákvörðun kom tilskipun 2006/48 í stað tilskipunar 2000/12.
72 Í ákvörðun sinni benti sameiginlega EES-nefndin á að gerðir hefðu verið fyrirvarar við að stjórnskipuleg skilyrði væru uppfyllt. Sex mánaða tilkynningarfresturinn samkvæmt 103. gr. EES-samningsins rann út 6. desember 2008.
73 17. febrúar 2009 tilkynnti ríkisstjórn Íslands um frestun á grundvelli 103. gr. EES-samningsins.
74 Síðasta tilkynningin barst 8. september 2010 og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tók gildi 1. nóvember 2010.
75 Þar af leiðandi hélt tilskipun 2000/12 gildi sínu innan EES til 6. desember 2008.
76 Frá 7. desember 2008 var tilskipun 2006/48 í gildi til bráðabirgða. Tilkynning ríkisstjórnar Íslands um frestun fær engu þar um breytt. Það er ljóst af orðalagi 2. mgr. 103. gr. EES-samningsins að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar skuli gilda til bráðabirgða hafi tilkynningin ekki átt sér stað innan sex mánaða tilkynningarfrestsins. Tilkynningin var skráð 17. febrúar 2009 og barst því nokkru eftir síðasta dag frestsins sem heimilaður er í 103. gr. EES-samningsins.
77 Í þessu sambandi bendir dómstóllinn á að tilkynning sem berst að sex mánaða frestinum liðnum, samkvæmt 2. mgr. 103. gr. EES-samningsins, geti ekki haft áhrif á gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar til bráðabirgða. Ef samningsaðila væri heimilt að afturkalla einhliða gildi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar til bráðabirgða, á einhverjum tímapunkti að sex mánaða frestinum liðnum, gengi slíkt þvert á skýrt orðalag 103. gr. EES-samningsins og væri þar af leiðandi andstætt meginreglunni um réttarvissu.
78 Í málinu sem til meðferðar er hjá landsdómstólnum var fyrsti samningurinn gerður 6. júní 2008 og síðasta afborgun hefði átt að greiðast 18. mars 2009. Engu að síður, úr því að málið varðar hvort umrædd viðskipti flokkist sem innlán, verður að miða við dagsetningu millifærslu fjármunanna til Landsbankans samkvæmt lánasamningunum.
79 Upphafstímar samninganna þriggja, sem málið fyrir landsdómstólnum snýst um, voru 6. júní 2008, 7. ágúst 2008 og 16. september 2008. Fjármunirnir voru í samræmi við samningana millifærðir 10. júní 2008, 11. ágúst 2008 og 18. september 2008. Úr því að fjármunirnir voru millifærðir áður en ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tók gildi, verður að svara annarri spurningunni með hliðsjón af tilskipun 2000/12.
80 Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. og 1.-lið I. viðauka tilskipunar 94/19, mega EES-ríki ákveða að innlán fjármálastofnana, eins og þær eru skilgreindar í 6. mgr. 1. gr. tilskipunar 89/646/EBE á þeim tíma sem um ræðir var 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12 komin í stað hennar skuli undanskildar tryggingarvernd eða njóta minni verndar.
81 Það leiðir af 5. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/12 að fjármálastofnun er fyrirtæki sem ekki er lánastofnun. Af málsgögnum má hins vegar ráða að viðskiptin í máli þessu varða lánastofnanir. Það skiptir því ekki máli þegar skorið skal úr um hvort slík millifærsla teljist innlán í skilningi tilskipunar 94/19 hvort heimaríki bankans sem lánið fékk hafi nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd.
82 Annarri spurningunni verður, þar af leiðandi, að svara með þeim hætti að ekki skipti máli þegar skorið er úr um hvort lán milli tveggja lánastofnana innan EES teljist innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, hvort heimaríki bankans sem lánið fékk hafi nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd.
Þriðja spurningin
83 Í þriðju spurningunni spyr Hæstiréttur, í meginatriðum, hvort sú staðreynd að lánastofnun nýti ekki heimild sem hún hefur samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi, en fjármagni starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, þýði að hún skuli ekki teljast lánastofnun í skilningi 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
84 Í þessu sambandi bendir dómstóllinn á að ef Hæstiréttur ákveður að beita virkri skilgreiningu innlánahugtaksins, gæti hann þurft að leggja mat á það hvort Aresbank skuli teljast lánastofnun í skilningi 4. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
85 Allir aðilar sem skiluðu skriflegum greinargerðum í máli þessu eru sammála um að spurningunni skuli svarað neitandi. Þeir byggja svör sín á tilskipun 2006/48. Í greinargerðum sínum hafa þeir beitt svipuðum rökstuðningi og varðandi aðra spurninguna. Allir aðilar telja, í meginatriðum, að hvorki staða né starfsemi innstæðueiganda hafi áhrif á það hvort millifærsla fjármuna flokkist sem innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, en þessi atriði hafi einungis vægi varðandi tryggingarvernd fjármunanna. ESA og framkvæmdastjórnin bæta því við, að fyrirtæki sem hafi heimild til að veita móttöku innlánum frá almenningi en taki ekki við slíkum innlánum og veiti einungis öðrum bönkum lán, teljist engu að síður lánastofnun.
86 Skilgreiningin á lánastofnun í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19 er samhljóða skilgreiningunni í 1. gr. tilskipunar 2000/12 og 4. gr. tilskipunar 2006/48. Jafnframt er í formálsorðum tilskipunar 94/19 vísað til kerfis sem byggir á allsherjarleyfi fyrir sérhverja lánastofnun og eftirlit með þeim af hálfu yfirvalda í heimaríki þeirra.
87 Þessu kerfi um veitingu allsherjarleyfis er viðhaldið í tilskipun 2000/12, sem dómstóllinn hefur þegar kveðið á um (sjá 75. mgr. þessa úrskurðar) að hafi verið hluti af EES-rétti til bráðabirgða í heimaríki Landsbankans á þeim tímapunkti sem fjármunirnir voru millifærðir í samræmi við lánasamningana.
88 Í ljósi skýrrar tilvísunar í tilskipun 94/19 til kerfis um veitingu allsherjarleyfis, sem síðan hefur haldist í tilskipun 2000/12, og þeirrar staðreyndar að skilgreiningin á „lánastofnun” sem finna má í 1. gr. tilskipunar 2000/12 er samhljóða skilgreiningunni í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, er viðeigandi að síðara ákvæðið sé túlkað með hliðsjón af markmiði og almenns fyrirkomulags tilskipunar 2000/12.
89 3. gr. tilskipunar 2000/12 kveður á um að EES-ríki skuli banna einstaklingum eða fyrirtækjum sem eru ekki lánastofnanir að taka við innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu. Enn fremur skulu EES-ríki krefjast þess af lánastofnunum að þær afli sér leyfis áður en þær hefja starfsemi sína, í samræmi við 4. gr. tilskipunarinnar.
90 Í samræmi við 18. gr. tilskipunar 2000/12 skulu EES-ríki sjá til þess að stunda megi þá starfsemi sem talin er upp í I. viðauka á yfirráðasvæðum þeirra í samræmi við 1. til 6. mgr. 20. gr., 1. og 2. mgr. 21. gr. og 22. gr., hvort sem um er að ræða stofnun útibús eða þjónustustarfsemi á vegum lánastofnunar sem hefur leyfi frá lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki og er undir eftirliti þeirra í samræmi við þessa tilskipun svo fremi leyfið nái til þessarar starfsemi.
91 Nánari útskýringar á þessu er að finna í 5., 6., 7. og 14.-lið formálsorða tilskipunarinnar.
92 Samkvæmt 5.-lið formálsorða tilskipunar 2000/12 er með henni stefnt að samræmingu starfsskilyrða lánastofnana og verður hún að taka til þeirra allra svo að unnt verði að vernda sparifé og jafna samkeppnisstöðu. Samkvæmt 6.-lið formálsorðanna þarf samræming þessi að vera eins víðtæk og unnt er og ná til allra stofnana sem stunda þá starfsemi að veita viðtöku fé frá almenningi til endurgreiðslu, hvort heldur um er að ræða innlán eða önnur innlánsform, svo sem með útgáfu markaðsskuldabréfa og annarra sambærilegra verðbréfa og með lánveitingu fyrir eigin reikning.
93 Samkvæmt 7.- lið formálsorða tilskipunar 2000/12 er markmið úrræða hennar að ná aðeins fram nauðsynlegri og nægilegri lágmarkssamræmingu til að tryggja gagnkvæma viðurkenningu á leyfum og varúðareftirlitsfyrirkomulagi, sem gerir það að verkum að nóg er að gefa út eitt leyfi sem er viðurkennt í öllu bandalaginu og beitingu meginreglunnar um varúðareftirlit heimaaðildarríkis. Í 14.-lið segir nánar, að aðferðin sem valin hefur verið geri lánastofnunum, sem leyfi hafa í sínu heimaaðildarríki, kleift, í krafti gagnkvæmrar viðurkenningar, að stunda alls staðar innan EES einhverja eða alla þá starfsemi sem talin er upp í I. viðauka með því að stofna útibú eða veita þjónustu.
94 Það leiðir af 3., 4. og 18. gr. tilskipunar 2000/12 að með skilyrðum fyrir leyfisveitingu og varúðareftirliti varðandi stofnun og rekstur lánastofnana er leitast við að tryggja að lánastofnun sem hefur starfsleyfi til að stunda þá starfsemi sem talin er upp í I. viðauka tilskipunar 2000/12 og er undir eftirliti yfirvalda í einu EES-ríki, geti stundað þá starfsemi í öðru EES-ríki, svo framarlega sem starfsleyfið nær til starfseminnar.
95 Í samræmi við 1. og 2.- lið I. viðauka lýtur bæði móttaka innlánsfjár og annars fjár til endurgreiðslu og útlánastarfsemi reglum um gagnkvæma viðurkenningu samkvæmt tilskipun 2000/12, að því marki sem starfsleyfið nær til þessarar starfsemi.
96 Í málum þar sem lánastofnun nýtir ekki heimild sem hún hefur samkvæmt útgefnu starfsleyfi sínu kveður 14. gr. skýrlega á um að lögbærum yfirvöldum sé heimilt að afturkalla leyfið. Lögbærum yfirvöldum er þó, samkvæmt ákvæðinu, aðeins heimilt að afturkalla leyfið ef slík stofnun nýtir ekki leyfið innan 12 mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði, hafi hlutaðeigandi aðildarríki ekki gert ráð fyrir að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum.
97 Ekki er því hægt að skýra 4. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19 með þeim hætti að hún útiloki að lánastofnun, sem hlotið hefur leyfi frá lögbærum yfirvöldum til að stunda starfsemi eins og að taka við innlánsfé og öðru fé til endurgreiðslu og útlánastarfsemi innan marka tilskipunarinnar, á grundvelli þess eins að umrædd lánastofnun nýti ekki leyfi sitt í raun. Slík túlkun væri andstæð markmiði og almennu fyrirkomulagi tilskipunar 2000/12.
98 Það er landsdómstólsins að meta hvort starfsleyfi Aresbank taki til þeirrar starfsemi sem nefnd er í I. viðauka tilskipunar 2000/12. Ef svo er, verður að viðurkenna leyfi Aresbank til að stofna og reka lánastofnun á Íslandi í samræmi við tilskipun 2000/12, nema leyfið hafi verið afturkallað af lögbærum yfirvöldum á þeim tíma sem um ræðir.
99 Samkvæmt framansögðu, verður að svara þriðju spurningunni með eftirfarandi hætti:
Þegar lánastofnun sem lánar fé á millibankamarkaði hefur heimild til að veita móttöku innlánum frá almenningi, skiptir ekki máli varðandi það hvort millibankalán sem sú stofnun veitir annarri lánastofnun flokkist sem innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, að stofnunin veiti ekki slíkum innlánum móttöku, en fjármagni starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, og endurláni síðan það fé á millibankamarkaði, nema leyfi stofnunarinnar til að stofna og reka lánastofnun hafi verið afturkallað af lögbærum yfirvöldum.
V Málskostnaður
100 ESA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sem skilað hafa greinargerðum til EFTA-dómstólsins skulu hvor bera sinn málskostnað. Þar sem um er að ræða mál sem er hluti af málarekstri fyrir Hæstarétti Íslands kemur það í hlut þess dómstóls að kveða á um kostnað málsaðila.
Með vísan til framangreindra forsenda lætur,
DÓMSTÓLLINN
uppi svohljóðandi ráðgefandi álit um spurningar þær sem Hæstiréttur Íslands beindi til dómstólsins:
1. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 94/19/EB um innlánatrygginga-kerfi verður að skýra með þeim hætti að fjármunir sem lánastofnun afhendir annarri, sem lán er endurgreiða ber á fyrirfram umsömdum degi ásamt vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, skuli teljast innlán í skilningi ákvæðisins. Þetta á við þótt fjármunirnir hafi ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni lánastofnunarinnar sem lánið veitti, og þótt lánastofnunin sem lánið fékk hafi ekki gefið út sérstök skilríki fyrir móttöku þeirra, hafi ekki greitt iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og fjármunirnir hafi ekki verið færðir sem innlán í bókum hennar.
Fjármunir, sem millifærðir eru með þessum hætti frá einni lánastofnun til annarrar í samræmi við lánasamning, teljast þó ekki til innlána sem njóta tryggingarverndar samkvæmt tilskipun 94/19. Slíkir fjármunir uppfylla því ekki skilyrði tilskipunarinnar fyrir endurgreiðslu. Þar af leiðandi má gera greinarmun á virkri skilgreiningu tryggðra innlána samkvæmt tilskipun 94/19, sem byggir á 1. mgr. 1. gr., að teknu tilliti til 2. gr., og tæknilegri skilgreiningu, sem tekur einnig til innlána sem ekki falla undir innlánatryggingakerfi samkvæmt tilskipun 94/19 og eru því ekki kræf til endurgreiðslu samkvæmt þeim. Það er landsdómstólsins að ákveða hvort beita skuli tæknilegri eða virkri skilgreiningu innlánahugtaksins samkvæmt reglum landsréttar í máli þessu.
2. Ekki skiptir máli þegar skorið er úr um hvort lán milli tveggja lánastofnana innan EES teljist innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, hvort heimaríki bankans sem lánið fékk hafi nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19 til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd.
3. Þegar lánastofnun sem lánar fé á millibankamarkaði hefur heimild til að veita móttöku innlánum frá almenningi, skiptir ekki máli varðandi það hvort millibankalán sem sú stofnun veitir annarri lánastofnun flokkist sem innlán í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19, að stofnunin veiti ekki slíkum innlánum móttöku, en fjármagni starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, og endurláni síðan það fé á millibankamarkaði, nema leyfi stofnunarinnar til að stofna og reka lánastofnun hafi verið afturkallað af lögbærum yfirvöldum.
|
|
Fimmtudaginn 15. desember 2011. |
|
Nr. 169/2011. |
Aresbank S.A. (Bjarki H. Diego hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu (Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) |
EFTA-dómstóllinn. Evrópska efnahagssvæðið. Ráðgefandi álit.
Spænski bankinn A höfðaði mál gegn L hf. til innheimtu fjárkröfu, en beindi til vara skaðabótakröfu gegn F og Í. Héraðsdómur sýknaði L hf., F og Í af kröfum A, en hann áfrýjaði málinu þá til Hæstaréttar, sem kvað að eigin frumkvæði upp úrskurð um að leitað skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á nánar tilgreindum atriðum, einkum um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi.
Úrskurður Hæstaréttar.
Mál þetta úrskurða hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2011. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2010, þar sem stefndu voru sýknaðir af kröfum áfrýjanda. Í áfrýjunarstefnu fór áfrýjandi þess á leit við Hæstarétt að óskað yrði eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um innstæðuhugtak tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og boðaði að lagðar yrðu fram tillögur að spurningum í greinargerð hans hér fyrir dómi. Áfrýjandi féll síðar frá þessari beiðni.
Að eigin frumkvæði boðaði Hæstiréttur aðila málsins til þinghalds 14. desember 2011, þar sem þeim var gefinn kostur á að tjá sig um hvort afla skyldi ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Áfrýjandi ítrekaði þar þá afstöðu sína að ekki væri tilefni til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins vegna ágreinings aðila. Hæstiréttur hefði í nýlegum dómum sínum skýrt merkingu hugtaksins innstæða í fyrrgreindri tilskipun, sú skýring hefði þýðingu við úrlausn ágreinings aðila í máli þessu og af þeirri ástæðu væri ekki þörf á að leita álits EFTA-dómstólsins.
Stefndu lýstu þeirri afstöðu sinni að ekki væri þörf á að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins í málinu, þar sem hugtakið innstæða í merkingu fyrrgreindrar tilskipunar hefði ekki þýðingu við úrlausn ágreinings aðila.
I
Forsaga máls þessa er sú að í september og október 2008 áttu sér stað miklar hræringar á fjármálamörkuðum erlendis, sem höfðu mikil áhrif á starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja. Fór svo að þrír stærstu viðskiptabankar landsins reyndust ófærir um að takast á við þann vanda sem steðjaði að þeim fyrstu dagana í október 2008. Meðal annars í tilefni þessa samþykkti Alþingi að kvöldi 6. október 2008 frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var stefnda Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild sinni, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki.
Fyrrgreint lagaákvæði heimilaði stefnda Fjármálaeftirlitinu einnig að framselja öll réttindi að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Þá var kveðið á um að stefnda væri heimilt, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fara skyldi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga. Í 6. gr. laganna var bætt við nýrri 1. mgr. í 103. gr. laga nr. 161/2002 sem hljóðaði svo: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“
II
Samkvæmt gögnum málsins er áfrýjandi spænskur banki í eigu seðlabanka Líbýu. Hann hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt spænskum lögum, en í samræmi við samþykktir hans tekur hann ekki við innlánum frá almenningi. Starfar hann á svokölluðum millibankamarkaði og aflar fjár til þeirrar starfsemi með framlögum frá eiganda sínum og útgáfu fjármálagerninga.
Áfrýjandi átti fjármuni hjá Landsbanka Íslands hf. sumarið og haustið 2008. Þau lögskipti gerðust með þeim hætti að áfrýjandi greiddi til Landsbanka Íslands hf. 15.000.000 evrur 6. júní 2008, 15.000.000 evrur 7. ágúst sama ár og loks 7.000.000 sterlingspund 16. september sama ár. Með aðilum samdist svo að Landsbanki Íslands hf. endurgreiddi umræddar fjárhæðir með nánar tilgreindum vöxtum á fyrirfram ákveðnum gjalddögum. Í gögnum málsins er að finna svokallaðar SWIFT tilkynningar (Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunication) um viðskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. Um viðskipti þeirra 6. júní 2008 kemur fram að áfrýjandi hafi boðist til að lána Landsbanka Íslands hf. 15.000.000 evrur til sex mánaða með 5,2% vöxtum, sbr. orðin: „WE CAN LEND U 6MTH EUR 15 MIOS AT 5.20 IF SUIT FOR U FRIEND.“ Af hálfu Landsbanka Íslands hf. var gert gagntilboð sem nam 5,17% vöxtum fyrir sama tímabil, sbr. orðin: „CAN WE MEET AT 5.17?“ Aðilum samdist loks um 5,18% vexti, sbr. orðin: „OK I LEND U EUR 15 MIOS AT 5.18 FM 10/06 TILL 10/12/08.“
Næstu viðskipti áttu sér stað 7. ágúst 2008 þegar áfrýjandi bauð Landsbanka Íslands hf. „3 MTH EUR DEPO“ að fjárhæð „EUR 15 MIO.“, það er 15.000.000 evrur til þriggja mánaða. Af hálfu Landsbanka Íslands hf. var því svarað að greiddir yrðu 5,0% vextir. Þessu tilboði svaraði fulltrúi áfrýjanda með eftirfarandi orðum: „I HAVE 15 MIO FOR U AT 5.02 IF IT SUITS U.“ Aðilum samdist því svo að Landsbanki Íslands hf. tæki við 15.000.000 evrum 11. ágúst 2008 en endurgreiddi þá fjárhæð ásamt 5,02% vöxtum 12. nóvember sama ár. Þriðju viðskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. áttu sér stað 16. september 2008 og fóru samskiptin fram á spænsku. Bauðst áfrýjandi þá til að lána Landsbanka Íslands hf. 7.000.000 sterlingspund með 6,2% vöxtum frá 18. september 2008 til 18. mars 2009, sbr. orðin: „7.000.000 STG AT 6.20 DEL 18/9/2008 AL 18/3/2009.“ Fram kom að greiða bæri fjárhæðina til nánar tilgreinds banka í London.
Samkvæmt því sem fram er komið í málinu voru fjármunir áfrýjanda hjá Landsbanka Íslands hf. ekki lagðir þar inn á sérstakan reikning á nafni áfrýjanda. Landsbanki Íslands hf. gaf ekki út sérstök skilríki til áfrýjanda fyrir móttöku fjárins og ekki var greitt iðgjald af því í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Fjármunirnir voru færðir sem lán í bókum Landsbanka Íslands hf. Af gögnum málsins verður ráðið að sending fjárins frá áfrýjanda til Landsbanka Íslands hf. hafi farið fram fyrir milligöngu annarra erlendra banka.
III
Hinn 7. október 2008 beitti stefndi Fjármálaeftirlitið valdi sínu samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og tók yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf.. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna, sem bar nafn eldri bankans en með viðbótinni „Nýi“ fremst í nafninu. Sá banki er stefndi í málinu, en hann ber nú heitið Landsbankinn hf. Fjárhagslegur grundvöllur nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna til hans úr eldri bankanum, en einnig með fjárveitingu úr ríkissjóði. Á móti því tók nýi bankinn yfir tilteknar skuldbindingar þess eldri, sem fyrst og fremst voru innlán í bankanum hér á landi.
Um sama leyti greip stefndi Fjármálaeftirlitið til sambærilegra aðgerða gagnvart Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. Í framhaldinu var Landsbanka Íslands hf. veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002, var bankinn tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Fjölmargir lýstu kröfum af því tilefni og er áfrýjandi á meðal þeirra.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 9. október 2008 að Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi meðal annars yfirtaka skuldbindingar „í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Í ákvörðun sinni skilgreindi Fjármálaeftirlitið ekki hvað átt væri við með orðinu „innlán“.
Með bréfi til Landsbanka Íslands hf. 11. nóvember 2008 tilkynnti stefndi Fjármálaeftirlitið að samkvæmt ábendingu hefði stjórn hans tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á tiltekna fjármögnun þessara fyrirtækja, nánar tiltekið þegar um væri að ræða „svokölluð peningamarkaðsinnlán/innlán“ frá fjármálafyrirtækjum. Aflað hefði verið „ýmissa gagna frá bönkunum og endurskoðendum þeirra um meðferð þessarar fjármögnunar á starfsemi bankanna.“ Því næst sagði að á stjórnarfundi Fjármálaeftirlitsins sama dag hefði verið „ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir.“ Væri því beint til endurskoðenda sem önnuðust endanlegan frágang stofnefnahagsreikninga að huga sérstaklega að þessu og „jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.“ Loks sagði í bréfi Fjármálaeftirlitsins að rétt væri að taka fram að „almennar innstæður fjármálafyrirtækja á hlaupa- og sparireikningum í kerfum bankanna“ flyttust yfir til nýju bankanna eins og aðrar innstæður.
Áfrýjandi ritaði Fjármálaeftirlitinu bréf 19. nóvember 2008 þar sem óskað var eftir rökstuðningi fyrir því að stjórn stofnunarinnar hefði lagt til að svokölluð peningamarkaðsinnlán skyldu ekki flytjast yfir til nýju bankanna þriggja, sbr. eftirfarandi orðalag í bréfinu: „... the basis upon which it appears that the FME Board has proposed that obligations in relation to money market deposits will not be taken over by the New Banks (I.E., New Landsbanki, New Kaupthing and New Glitnir).“ Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. nóvember 2008 til áfrýjanda kom fram sú afstaða stofnunarinnar að ekki væri rétt að skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. gagnvart áfrýjanda flyttust yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf.
IV
Áfrýjandi höfðaði mál þetta 26. og 27. febrúar 2009. Hann stefnir aðallega Landsbankanum hf. til greiðslu þeirra fjárhæða sem hann samkvæmt framansögðu greiddi til Landsbanka Íslands hf. Til vara gerir áfrýjandi kröfur á hendur stefndu Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu um greiðslu sömu fjárhæða, fari svo að aðalstefndi verði sýknaður af kröfu hans. Er varakrafan á því byggð að áfrýjandi eigi skaðabótakröfu á hendur varastefndu þar sem áfrýjandi hafi vegna aðgerða þeirra orðið „af greiðslum innstæðna frá aðalstefnda.“
Í samræmi við dóm Hæstaréttar 13. október 2009 í máli nr. 472/2009 voru í héraðsdómi dómkvaddir tveir menn 15. febrúar 2010 til að láta í té skrifleg og rökstudd svör við tíu nánar tilgreindum spurningum um innstæðuviðskipti, peningamarkaðsinnlán og millibankalán. Var matsgerð þeirra lögð fram í héraðsdómi 23. apríl 2010. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms var sú að þau viðskipti áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. sem áður er lýst væru viðskipti tveggja banka í formi millibankaláns en teldust ekki innstæðuviðskipti í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Stefndu voru samkvæmt því sýknaðir af kröfum áfrýjanda.
V
Að framan er gerð grein fyrir lögskiptum áfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. og því lýst á hvaða grundvelli áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefndu. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 segir: „Með innstæðu skv. 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.“ Lög nr. 98/1999 voru einkum sett í því skyni að fullnægja þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr. tilskipanir 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og 97/9/EB um tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Í 1. mgr. 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar 94/19/EB er skilgreint hugtakið „deposit“ sem: „any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Af málatilbúnaði áfrýjanda leiðir að við úrlausn þess ágreinings sem uppi er milli málsaðila reynir á skýringu hugtaksins innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Með vísan til þess og að virtu öðru því er að framan greinir er rétt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og verður spurningum hagað á þann veg sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Málskostnaður dæmist ekki í þessum þætti málsins.
Úrskurðarorð:
Leitað er ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins á eftirfarandi:
1. Geta fjármunir sem bankinn A afhendir bankanum B og B ber að endurgreiða A á fyrirfram umsömdum degi ásamt vöxtum sem sérstaklega hefur verið samið um, talist innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, þótt fjármunirnir hafi hjá B ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning á nafni A, B hafi ekki gefið út sérstök skilríki til A fyrir móttöku þeirra, ekki hafi verið greitt af fjármununum iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og fjármunirnir ekki færðir sem innstæða í bókum B? Við það er miðað í spurningunni að bankarnir A og B hafi starfsleyfi sem viðskiptabankar hvor í sínu ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu.
2. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað hvort heimaríki bankans B hefur nýtt heimild í 2. mgr. 7. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sbr. 1. tölulið I. viðauka tilskipunarinnar, til að undanþiggja innstæður fjármálafyrirtækja innstæðutryggingarvernd?
3. Skiptir máli þegar fyrstu spurningunni er svarað, hvort bankinn A, sem hefur leyfi til að starfa sem viðskiptabanki samkvæmt lögum þess samningsaðila þar sem hann starfar, nýtir ekki þá heimild sem hann hefur samkvæmt starfsleyfi sínu til að veita móttöku innlánum frá almenningi, en fjármagnar starfsemi sína með framlögum frá eiganda sínum og með útgáfu fjármálagerninga, og endurlánar síðan það fé á svokölluðum millibankamarkaði?
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 24. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Aresbank, Castellana, 257 Madrid, Spáni, aðallega á hendur NBI hf., Austurstræti 11, Reykjavík en til vara Fjármálaeftirlitinu, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík og íslenska ríkinu, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 26. og 27. febrúar 2009.
Dómkröfur stefnanda eru þær að aðalstefndi, NBI hf. verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 30.000.000 evra með 5,18% vöxtum af 15.000.000 evra frá 6. júní 2008 til 10. desember 2008 og með 5,02% vöxtum af 15.000.000 evra frá 7. ágúst 2008 til 12. nóvember 2008. Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 15.000.000 evra frá 12. nóvember 2008 til 10. desember 2008 en af 30.000.000 evra frá þeim degi til greiðsludags.
Varaaðild
Verði stefndi NBI hf. sýknaður er kröfum til vara beint að íslenska ríkinu og Fjármálaeftirlitinu og þess krafist að viðurkenndur verði réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi varastefndu, íslenska ríkisins og Fjármálaeftirlitsins, þar sem hann varð af greiðslum innstæðna frá aðalstefnda að fjárhæð 30.000.000 evra með 5,18% vöxtum af 15.000.000 evra frá 6. júní 2008 til 10. desember 2008 og með 5,02% vöxtum af 15.000.000 evra frá 7. ágúst 2008 til 12. nóvember 2008 og að fjárhæð 7.000.000 breskra punda með 6,20% vöxtum frá 16. september 2008.
Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur aðalstefnda, NBI hf., eru þær að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar mati dómsins.
Dómkröfur varastefndu, Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins eru þær að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að varastefndu reka ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
Málsatvik
Stefnandi er spænskur banki í eigu Libyan Foreign Bank sem er í eigu Seðlabanka Líbýu. Sumarið 2008 og fram á haust það ár, á tímabilinu frá 6. júní 2008 til 26. september 2008, lagði stefnandi níu sinnum inn upphæðir hjá bönkum á Íslandi, hjá Kaupþingi banka hf., Glitni banka hf. og Landsbanka Íslands hf. Um var að ræða svonefnd peningamarkaðsinnlán samtals 120.000.000 evra auk 7.000.000 breskra punda. Þrjú af þessum innlánum voru lögð inn hjá Landsbanka Íslands hf., fyrst 15.000.000 evra þann 6. júní 2008 en sú innstæða var bundin til 10. desember 2008 og bar 5,02% vexti. Síðan var sama fjárhæð, 15.000.000 evra, lögð var inn 7. ágúst 2008, hún var bundin til 12. nóvember 2008 og bar 5,18% vexti. Loks voru lagðar inn 7.000.000 breskra punda þann 16. september 2008 en sú fjárhæð átti að vera laus til greiðslu 18. mars 2009 og bar 6,20% vexti.
Íslenskt bankakerfi hrundi til grunna í október árið 2008. Þrír stærstu viðskiptabankarnir stóðust ekki þá alþjóðlegu lausafjárkreppu sem skók efnahagskerfi heimsins. Eftir að fjármögnunarvandræði Glitnis banka hf. komust í hámæli í lok septembermánaðar lækkaði lánshæfismat íslensku bankanna og íslenska ríkisins svo mikið að nánast allar bjargir voru þeim bannaðar á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum. Um leið hrundi gengi íslensku krónunnar.
Með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, sem birt var á vef forsætisráðuneytisins þann 6. október 2008, var áréttað að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Tekið var fram að með innstæðum væri átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tæki til.
Með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi 6. október 2008 og fólu meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, voru Fjármálaeftirlitinu (FME) meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði, sbr. 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki, eins og þeim var breytt með lögum nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið gat því tekið yfir vald hluthafafundar, vikið stjórn fjármálafyrirtækis frá störfum og skipað skilanefnd og/eða tekið yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, var tilteknum eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., ráðstafað til Nýja landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., eins og nánar greinir í ákvörðuninni með síðari breytingum. Í 7. tl. ákvörðunar þessarar segir svo:
„Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtekur Nýi Landsbanki Íslands hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.“
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 12. október 2008, var fyrrnefndri ákvörðun frá 9. október 2008 breytt, en þar með var 2. ml. 7. tl. ákvörðunarinnar er laut að afleiðusamningum felldur úr gildi.
Á fundi sínum 11. nóvember 2008 fjallaði stjórn Fjármálaeftirlitsins um það hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis Banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum. Ákvað stjórn Fjármálaeftirlitsins á þessum fundi að árétta að allar skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum væru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Kaupþings banka og NBI hf.
Með bréfi stefnanda til Fjármálaeftirlitsins, dags. 19. nóvember 2008, var óskað eftir því að fá skriflegar staðfestingar á því að stjórn FME hefði lagt til að skuldbindingar í tengslum við peningamarkaðsinnlán (money market deposits) yrðu ekki yfirteknar af nýju bönkunum. Í bréfinu voru tíunduð sérstaklega þau atriði sem stefnandi taldi vera til stuðnings því að lán þessi skyldu flutt yfir til nýju bankanna.
Í svarbréfi Fjármálaeftirlitsins, dags. 21. nóvember 2008, segir að í tilviki peningamarkaðsinnlána hafi verið ákveðið að flokka slíkar yfirfærslur sem innstæður, nema í þeim tilvikum þar sem mótaðili bankans væri fjármálastofnun. Í þeim tilvikum væri litið á slíkar færslur sem lán frá fjármálafyrirtækjum sem skilin voru eftir í gömlu bönkunum. Í bréfinu var gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem ákvörðunin var byggð á og raktir þeir þættir, sem taldir voru sérstaklega mikilvægir í því sambandi.
Stefnandi svaraði þessu bréfi 26. nóvember 2008 og ítrekaði sjónarmið sín.
Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 3. desember 2008, var vísað til fyrra bréfs FME um túlkun ákvörðunarinnar og jafnframt tekið fram að málinu væri lokið af hálfu FME.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Aðild
Dómkröfum stefnanda í máli þessu er aðallega beint á hendur stefnda NBI hf., en til vara á hendur stefnda Fjármálaeftirlitinu og stefnda íslenska ríkinu. Sé þessi háttur hafður á í samræmi við heimild til þess í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 og er á því byggt af hálfu stefnanda að skilyrði varaaðildar sé uppfyllt í máli þessu enda megi rekja dómkröfur stefnanda á hendur aðalstefnda og varastefndu til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.
Málsástæður fyrir dómkröfu á hendur aðalstefnda
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að samkvæmt skýru orðalagi 7. tl. ákvörðunar varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, hafi aðalstefndi tekið við skuldbindingum Landsbanka Íslands hf. í útibúum bankans á Íslandi, meðal annars vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum og þar með talið innlánum stefnanda. Enn fremur sé á því byggt að með 8. tl. ákvörðunarinnar hafi innlán stefnanda flust yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) frá og með kl. 9:00 þann 9. október 2008, sbr. 5. tl. ákvörðunarinnar og því sé aðild aðalstefnda að máli þessu ótvíræð.
Þessi ákvörðun varastefnda hafi verið í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands, dags. 6. október 2008. Með þeirri yfirlýsingu hafi íslenska ríkið skuldbundið sig til að tryggja allar innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi. Ákvarðanir varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, hafi þannig í raun falið í sér framkvæmd þeirrar yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands að tryggja allar innstæður í viðskiptabönkunum þremur. Þessi ákvörðun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi, hvað innstæður snertir, ekki verið afturkölluð eða henni breytt ólíkt því sem við eigi um afleiðusamninga en fallið var formlega frá ákvörðun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, um að flytja slíka samninga yfir til aðalstefnda þann 12. október 2008. Því hvíli ótvíræð skylda á aðalstefnda að greiða út innstæður stefnanda enda hafi þær innstæður sem mál þetta varðar átt að vera lausar til útborgunar þann 12. nóvember 2008 og 10. desember 2008.
Fyrrgreind yfirlýsing ríkisstjórnarinnar skilgreini innstæður sem allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs taki til. Meðal annars til þess að ná framangreindu markmiði ríkisstjórnar Íslands um að tryggja innstæður í íslenskum bönkum hafi Alþingi samþykkt hinn 6. október 2008 lög nr. 125/2008 sem veittu fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimild til að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Á grundvelli fyrrgreindra laga birti varastefndi, Fjármálaeftirlitið, ákvörðun sína, en með henni sé ótvírætt kveðið á um það að skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. gagnvart stefnanda séu yfirteknar af stefnda og þær fluttar yfir til hans. Yfirlýsing þessi hafi verið áréttuð hinn 3. febrúar 2009 af hálfu ríkisstjórnar Íslands með enn afdráttarlausari hætti. Þar komi fram að markmiðum um að tryggja innstæður væri náð.
Ótvírætt sé að innlán stefnanda falli undir ákvörðun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, þar sem stefnandi sé fjármálafyrirtæki og að um innlán er að ræða. Hafi ætlun ríkisstjórnar Íslands verið sú að undanskilja tiltekna tegund innstæðna frá tilteknum innstæðueigendum hefði það verið tekið fram í yfirlýsingunni. Slík undanþága eða þrenging á ábyrgð ríkisins sé hins vegar ekki gerð, heldur eingöngu gerður áskilnaður um að viðkomandi innstæða sé í innlendum banka og að trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda taki til þeirra. Á sama hátt og í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands séu engar innstæður undanskildar í ákvörðun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins. Þar séu ekki tilteknar tegundir innstæðna eða innstæður frá fjármálafyrirtækjum undanskildar. Þvert á móti sé sérstaklega tekið fram í ákvörðuninni að hún taki til innstæðna frá fjármálafyrirtækjum, svo fremi sem þau séu í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi. Innstæður stefnanda falli hér ótvírætt undir enda voru þær lagðar inn í banka á Íslandi.
Lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem varastefndi íslenska ríkið hafi vísað til, feli í sér lögfestingu á efnisreglum tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19/EC. Í 1. grein tilskipunarinnar sé hugtakið innlán (e: Deposit) skilgreint með eftirfarandi hætti:
„any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“
Í tilskipuninni sé kveðið á um heimild í 2. málsgrein 7. greinar, sbr. viðauka I, til að undanþiggja innstæður frá fjármálastofnunum vernd Tryggingasjóðs innstæðueigenda. Slíkt hafi verið gert víða í Evrópu við innleiðingu tilskipunarinnar. Þessi heimild til að undanþiggja innstæður frá fjármálastofnunum vernd samkvæmt tryggingakerfinu hafi hins vegar ekki verið nýtt við lögfestingu efnisatriða tilskipunarinnar í íslenskan rétt með lögum nr. 98/1999. Þar sé eingöngu gerð undanþága varðandi skuldabréf, víxla eða aðrar kröfur sem útgefnar séu af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 en ljóst sé að engin þessara undanþága eigi við um innstæðu stefnanda. Því séu ekki rök fyrir þeirri niðurstöðu varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, að peningamarkaðsinnlán séu innstæður nema í þeim tilvikum sem þau komi frá fjármálafyrirtækjum. Engin lagastoð sé til slíkrar mismununar innstæðueigenda. Sú túlkun sé mun nærtækari að löggjafinn hafi ætlað innstæðum frá fjármálafyrirtækjum vernd fyrst þau voru á engan hátt útilokuð frá tryggingaverndinni sem þó hefði verið heimilt að gera samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.
Beinlínis komi fram í skilgreiningu á innstæðu í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, að um sé að ræða innstæðu, sem til sé komin „vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum.“
Þá segir einnig í frumvarpi til laga nr. 98/1999 í athugasemdum með 9. grein:
„Verðbréf teljast ekki til innstæðu samkvæmt þessari grein og er það í samræmi við innstæðutryggingatilskipunina sem heimilar aðildarríkjunum að undanþiggja tryggingunni ýmis innlán, sem og útgefin verðbréf.“
Ofangreind ummæli í athugasemdum með 9. grein frumvarpsins gefi það glöggt til kynna að ætlun löggjafans hafi verið að undanþiggja lán í formi verðbréfa frá tryggingunni en ekki „ýmis innlán“, þ.m.t. innlán frá fjármálafyrirtækjum.
Í ljósi framangreinds sé á því byggt af hálfu stefnanda að innstæður hans hjá aðalstefnda falli ótvírætt undir skilgreiningu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Eðli málsins samkvæmt beri að túlka lagaákvæðið til samræmis við skilgreiningu tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19/EC enda fól lagasetningin í sér innleiðingu tilskipunarinnar. Þessi skilningur stefnanda eigi sér meðal annars stoð í svari Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Stefnandi byggir á því að með ákvörðun varastefnda hafi innstæður stefnanda verið færðar yfir til aðalstefnda samkvæmt skýru orðalagi ákvörðunarinnar.
Rök varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, fyrir því að peningamarkaðsinnlánin séu ekki innlán fái ekki staðist.
Grundvallarmunur sé á hefðbundnum millibankalánum og þeim peningamarkaðsinnlánum sem hér um ræðir. Nær undantekningarlaust sé gengið frá millibankalánum milli tveggja eða fleiri banka með ítarlegum og undirrituðum lánasamningum sem yfirleitt séu til lengri tíma og telji tugi ef ekki hundruð blaðsíðna. Í slíkum samningum sé ítarlega kveðið á um tryggingar, vanefndaúrræði, skilyrði, forsendur, kvaðir og fleiri atriði. Almennt séu peningamarkaðsinnlán hins vegar eingöngu staðfest með svokallaðri SWIFT kvittun (Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunications) sem sé í samræmi við almennar viðskiptavenjur banka um heim allan. Peningamarkaðsinnlán séu almennt veitt án veða eða trygginga annarra en gjaldfærni viðkomandi bankastofnana. Þannig fáist sú framsetning varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, að enginn eðlismunur sé á peningamarkaðsinnlánum stefnanda og millibankalánum ekki staðist. Peningamarkaðsinnlán séu nauðsynlegur hluti af bankakerfi heimsins og bankar treysti á að farið sé með slíka gerninga sem innlán. Á þann hátt beri að meðhöndla slíka gerninga samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðum (IAS og IFRS) sbr. bréf PriceWaterhouseCoopers á Spáni til stefnanda, dags. 5. janúar 2009.
Þeir gerningar sem hér um ræðir hafi verið innlán með einungis þriggja til rúmlega sex mánaða binditíma sem afgreidd hafi verið án nokkurra undirritaðra samninga. Falli þeir því algerlega að hugtaksatriðum skilgreiningar Seðlabanka Íslands á innlánum sem fram koma í reglum nr. 373/2008 um bindiskyldu. Af hálfu stefnanda og Landsbanka Íslands hf. hafi verið gengið frá samkomulagi um peningamarkaðsinnlánin með fjarskiptabúnaði, þ.e. svo kölluðu point-to-point kerfi, og millifærslurnar síðar staðfestar með einföldum SWIFT kvittunum. Hvergi í þeim gögnum sem búi að baki þessum millifærslum sé kveðið á um þau atriði sem almennt einkenna hefðbundin millibankalán og engin framseljanleg skuldaskjöl hafi verið gefin út í tengslum við viðskiptin.
Staðhæfingar varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, um að það leiði til þess að flokka beri þessa gerninga sem lán, að millifærslurnar séu þáttur í hefðbundinni starfsemi stefnanda sem viðskiptabanka stangist beinlínis á við skilgreiningu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 á innstæðu sem að framan sé rakin.
Landsbanka Íslands hf. hafi borið skylda til að færa þessa gerninga til bókar sem innlán samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS-International Financial Reporting Standards). Stefnandi geti ekki borið ábyrgð á færslu bókhalds Landsbanka Íslands hf. né heldur borið hallann af hugsanlegum rangfærslum í bókhaldinu. Hvorki aðal- né varastefndu geti unnið rétt gagnvart stefnanda vegna slíkra mistaka í færslu bókhalds. Staðhæfingar varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, í þessum efnum eigi því hvorki við nokkur rök að styðjast né séu þær í samræmi við markaðsvenjur.
Á því sé byggt að tryggingavernd Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta nái til peningamarkaðsinnlána stefnanda enda fullnægi þau innlán hugtaksskilyrðum laganna, eins og staðfest hafi verið af hálfu sjóðsins. Sú skylda hvíli á aðildarfyrirtækjum, meðal annars Landsbanka Íslands hf., að greiða til sjóðsins upphæð sem samsvari tilteknu hlutfalli innstæðna viðkomandi aðildarfyrirtækis. Það breyti ekki eðli innlánanna þó að Landsbanki Íslands hf. hafi hugsanlega látið undir höfuð leggjast að fullnægja skyldum sínum að þessu leyti. Það sé að auki lögbundið hlutverk varastefnda, Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum nr. 98/1999 að hafa eftirlit með starfsemi sjóðsins og tryggja að starfsemi hans sem og greiðslur aðildarfyrirtækja fari fram í samræmi við lög að viðlögðum starfsleyfismissi, sbr. meðal annars 8. gr. laga nr. 98/1999. Aðalstefndi geti ekki unnið rétt í máli þessu vegna vanrækslu varastefnda að þessu leyti. Ótækt sé að stefnandi beri hallann af aðgerðarleysi varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, og sjóðsins vegna vanefnda Landsbanka Íslands hf. á greiðslum af þessari tegund innlána til sjóðsins.
Stefnandi byggir loks á því að mismunandi rafræn meðferð Landsbanka Íslands hf. á eins innlánum stefnanda annars vegar og innlendra fjármálafyrirtækja og seðlabanka hins vegar geti ekki leitt til þess að innstæður stefnanda geti ekki talist innlán í skilningi ákvörðunar varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, og laga. Slíkt feli í sér ólögmæta mismunun sem þar að auki byggi á atvikum sem stefnandi geti ekki haft nein áhrif á. Slík rafræn meðferð breyti ekki eðli hinna undirliggjandi viðskipta sem innlána. Það geti ekki ráðið úrslitum í þessum efnum hvort upphæðirnar sem millifærðar eru séu færðar á tiltekna tegund reiknings, t.d. á reikninga sem skráðir séu hjá Reiknistofu bankanna.
Málsástæður fyrir dómkröfu stefnanda á hendur varastefndu
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda sé byggt á því að með því að hafa komið í veg fyrir að innstæður stefnanda yrðu greiddar út séu nægjanlegar líkur leiddar að því að varastefndu, Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkið, hafi valdið stefnanda fjártjóni þótt umfang þess liggi ekki enn ljóst fyrir þar sem bú Landsbanka Íslands hf. hafi ekki enn verið gert upp. Krafist sé viðurkenningar á skaðabótaskyldu varastefndu, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Á því sé byggt að varastefnda, Fjármálaeftirlitinu sé réttilega stefnt í máli þessu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, þar sem hann hafi sjálfstætt aðildarhæfi, sbr. meðal annars II. kafla laga nr. 87/1998 sem og dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands. Varastefndi, Fjármálaeftirlitið, beri skaðabótaábyrgð á fyrirsjáanlegu tjóni stefnanda á grundvelli sakarreglunnar enda hafi varastefndi valdið tjóni sem stefnandi muni fyrirsjáanlega verða fyrir með saknæmum og ólögmætum hætti. Varastefnda, íslenska ríkinu, sé stefnt til viðurkenningar á skaðabótaskyldu vegna húsbóndaábyrgðar á verkum varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, og vegna saknæms tjóns sem hafi hlotist af því að íslenska ríkið hafi ekki staðið við eigin ábyrgðaryfirlýsingar. Ljóst sé að stefnandi hafi þegar orðið fyrir fjárhagslegu tjóni af þessum sökum og þá hafi orðspor stefnanda að sama skapi skaðast.
Stefnandi byggir á því að varastefndu hafi valdið saknæmu tjóni með því að hafa komið í veg fyrir að innstæður stefnanda yrðu færðar til aðalstefnda, sé sú raunin. Teljist það upplýst að innstæður stefnanda hafi færst yfir til aðalstefnda en varastefndi, Fjármálaeftirlitið, komið í veg fyrir útborgun þeirra með bréfi sínu, dags. 11. nóvember 2008 leiði það á sama hátt til bótaskyldu varastefndu enda slíkt til þess fallið að valda saknæmu tjóni. Háttsemi varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, hafi leitt til þess að stefnandi hafi ekki fengið innstæður sínar greiddar þrátt fyrir ótvíræðan rétt til þess.
Varastefndu hafi borið að sjá til þess að allar, en ekki aðeins útvaldar, innstæður í innlendum bönkum og útibúum þeirra á Íslandi yrðu færðar yfir til aðalstefnda og þar með lausar til útgreiðslu á greiðsludögum. Varastefndu séu þannig bótaskyldir vegna þess tjóns sem röng túlkun og röng framkvæmd varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, á yfirlýsingum ríkisstjórnar Íslands, lögum nr. 98/1999 og á eigin ákvörðun frá 9. október 2008 hafi haft og muni hafa í för með sér fyrir stefnanda.
Í þessu sambandi skipti ekki máli hvort talið sé að upphafleg ákvörðun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, frá 9. október 2008, hafi falið í sér að peningamarkaðsinnlán stefnanda hafi átt að verða um kyrrt í Landsbanka Íslands hf. og að bréf hans frá 11. nóvember 2008 hafi raunverulega falið í sér ítrekun á þessu eða hvort peningamarkaðsinnlán hafi á síðari stigum verði flokkuð af hálfu varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, sem hefðbundið lán sem leitt hafi til þess að þau yrðu ekki greidd út. Í hvorugu tilvikinu sé framkvæmd varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands, en sú fyrri hafi verið útfærð í lögum nr. 125/2008. Hvort sem er feli í sér ólögmæta mismunun sem varðar varastefndu skaðabótaskyldu.
Framsetning varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, eigi sér enga skírskotun til ábyrgðaryfirlýsinga ríkisstjórnar Íslands eða ákvörðunar varastefnda sjálfs frá 9. október 2008. Í þessum yfirlýsingum sé ekki að finna neina tilvísun eða vísbendingu um þann skilning sem fram komi í bréfi varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, dags. 11. nóvember 2008, varðandi undantekningu þegar komi að innlánum frá fjármálafyrirtækjum. Sú yfirlýsing varastefnda og eftirfarandi framkvæmd hans hafi falið í sér ólögmæta mismunun sem baki varastefndu skaðabótaskyldu.
Bréfið sem varastefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi sent nýju bönkunum þann 11. nóvember 2008, sé dagsett einum degi áður en fyrstu peningamarkaðsinnlán stefnanda hafi átt að vera laus til útborgunar. Í því kveðst þessi varastefndi vera að ítreka fyrri ákvörðun sína um að peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum væru ekki færð til nýju bankanna og hafi jafnframt fyrirskipað endurskoðendunum sem báru ábyrgð á að útbúa stofnefnahagsreikning aðalstefnda, skilanefndum gömlu bankanna og stjórnum þeirra, að líta á peningamarkaðsinnlán sem „lán“. Ábyrgð varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, á þessum gjörningi, að undanskilja innlán stefnanda, sé því ótvíræð.
Flokkun sú sem varastefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi viðhaft á peningamarkaðsinnlánum stefnanda, að flokka þau sem hvert annað millibankalán, eigi ekki við nein haldbær rök að styðjast. Varastefndi, Fjármálaeftirlitið, sem eftirlitsaðili með fjármálafyrirtækjum, þar með talið viðskiptabönkunum samkvæmt lögum nr. 161/2002, sé það stjórnvald sem beri skylda til að rannsaka og greina réttilega hvað teljist innstæður í skilningi laga. Sú greining hafi misfarist hjá varastefnda með bótaskyldum hætti sem þannig hafi brugðist hlutverki sínu samkvæmt rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Varastefndu sé skylt að fylgja viðteknum reglum á sviði framkvæmdar opinberrar stjórnsýslu þótt aðstæður haustið 2008 hafi leitt til þess að þörf hafi verið á að undanskilja ákvarðanir þeirra málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ljóst sé að þær ákvarðanir sem teknar voru í október og nóvember af varastefnda, Fjármálaeftirlitinu, varð að taka með hraði. Hitt blasir við að á varastefnda, Fjármálaeftirlitinu, hvíli skylda til að rannsaka með viðhlítandi hætti og meta hvað teljist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 enda sérstaklega skilgreint lögbundið hlutverk varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, að hafa eftirlit með réttri framkvæmd þeirra laga. Þetta virðist varastefndi, Fjármálaeftirlitið, ekki hafa gert. Varastefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi þó haft allar forsendur til þess að taka sérstaklega fram í ákvörðun sinni, dags. 9. október 2008, að ekki væri ætlunin að flytja yfir tilteknar innstæður frá fjármálafyrirtækjum. Það hafi ekki verið gert, heldur tekið sérstaklega fram að aðalstefndi yfirtaki skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum. Ekkert í þeirri ákvörðun renni stoðum undir síðari túlkun og eftir á skýringar og „ítrekanir“ varastefnda sem fram koma í yfirlýsingu frá 11. nóvember 2008 þess efnis að tilteknar tegundir innstæðna fjármálafyrirtækja ættu ekki að flytjast yfir á grundvelli ákvörðunarinnar, dags 9. október 2008.
Á tímabilinu frá 9. október 2008 til 11. nóvember 2008 virðist sem innstæður ýmissa aðila á Íslandi, einstaklinga, fyrirtækja, seðlabanka og annarra fjármálastofnana, þar á meðal peningamarkaðsinnlán, hafi verið færðar yfir til nýju bankanna. Í mörgum tilvikum hafi lögskiptin að baki slíkum innstæðum verið þau sömu og hjá stefnanda, þ.e. innlögn peninga án undirritaðs lánasamnings, sem bundin hafi verið til skamms tíma gegn endurgreiðslu að þeim tíma liðnum með tilteknum vöxtum. Það að innstæður stefnanda hafi fyrst verið lausar til útborgunar 12. nóvember feli ekki í sér viðmið sem varastefndi, Fjármálaeftirlitið, geti byggt rétt á. Stefnandi hafi átt lögvarinn rétt á því að njóta sömu réttinda og aðrir innstæðueigendur sem falla að hugtaksskilyrðum laga nr. 98/1999. Gegn því hafi varastefndi Fjármálaeftirlitið brotið.
Ótvírætt sé að mati stefnanda að sá mismunur sem gerður sé á innstæðum stefnanda og fullkomlega sambærilegum innstæðum innlendra fjármálastofnana og seðlabanka, sbr. meðal annars röksemdir varastefnda í bréfi, dags. 21. nóvember 2008, feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sem og grundvallarreglu 65. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, um jafnræði. Samkvæmt 65. gr. skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Þá feli umrædd mismunun að mati stefnanda einnig í sér brot á 14. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur var á Íslandi með lögum nr. 62/1994.
Það feli einnig í sér brot gegn jafnræðisreglum stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar, að mati stefnanda, að mismuna innstæðueigendum meðal annars á þeim grundvelli að innstæður þeirra hafi hlotið mismunandi rafræna meðferð meðal annars með því að innstæður innlendra aðila hafi verið lagðar á reikninga sem skráðir séu hjá Reiknistofu bankanna en erlendar innlagnir hafi hlotið aðra rafræna meðferð innan bankans. Á slíkri ólögmætri mismunun beri varastefndu ótvíræða skaðabótaábyrgð vegna þess tjóns sem af þess háttar háttsemi hljótist.
Að sama skapi brjóti það gegn þessum grundvallarréttindum að mismuna aðilum, sem séu í sömu aðstöðu og hafi gert fullkomlega sambærilega gerninga, eftir því hvaða starfsemi þeir hafi með höndum nema sérstök heimild sé til þess í lögum er byggist á málefnalegum sjónarmiðum. Sú órökstudda staðhæfing varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, að peningamarkaðsinnlán séu innlán, nema þegar gagnaðili viðkomandi banka sé fjármálafyrirtæki, eigi sér enga lagastoð og feli í sér saknæma og ólögmæta mismunun.
Sú ranga og ólögmæta framkvæmd varastefnda á eigin ákvörðun sem og ábyrgðaryfirlýsingum ríkisstjórnar Íslands sem að framan sé lýst, hafi valdið stefnanda tjóni sem varastefndi, Fjármálaeftirlitið, beri ábyrgð á, á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar. Ekki þurfi að velkjast í vafa um að orsakatengsl séu á milli hinna ólögmætu aðgerða varastefnda og þeirra afleiðinga að stefnandi geti ekki sótt innstæður sínar til aðalstefnda eins og aðrir innstæðueigendur hjá aðalstefnda.
Sérstaklega sé á því byggt af hálfu stefnanda að varastefndi, íslenska ríkið, beri fulla ábyrgð á athöfnum og athafnaleysi Fjármálaeftirlitsins og starfsmanna þess á grundvelli reglu skaðabótaréttarins um húsbóndaábyrgð. Yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008 og 3. febrúar 2009 kveði á um ábyrgð ríkisins á innstæðum í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum. Varastefndi, íslenska ríkið, beri skaðabótaábyrgð á því að varastefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi ekki hrint þessari ákvörðun réttilega í framkvæmd.
Á því sé jafnframt byggt að íslenska ríkið hafi gefið út ábyrgðaryfirlýsingu um að tryggja allar innstæður í bönkum á Íslandi sem nytu verndar samkvæmt lögum nr. 98/1999 og að lög nr. 125/2008 hafi meðal annars verið sett til að veita lagaheimild fyrir úrræðum til að ná framangreindu markmiði. Á grundvelli þessarar ábyrgðar sé íslenska ríkið ábyrgt fyrir tjóni sem innstæðueigendur í bönkum á Íslandi hljóti óháð athöfnum eða athafnaleysi varastefnda, Fjármálaeftirlitsins.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til laga nr. 161/2002, laga nr. 98/1999, sbr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19/EC, laga nr. 125/2008, stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, laga nr. 62/1994 um lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. sérstaklega 14. grein viðauka 1 við lögin, meginreglna kröfuréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga, reglna stjórnsýsluréttar, sérstaklega rannsóknarreglunnar og jafnræðisreglunnar samanber stjórnsýslulög nr. 37/1993.
Krafan um málskostnað að skaðlausu byggir á 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé stefnanda því nauðsynlegt að fá virðisaukaskatt dæmdan úr hendi stefnda.
Málsástæður og lagarök aðalstefnda NBI hf.
Af hálfu aðalstefnda er tekið fram um málsatvik að 7. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið þá ákvörðun á grundvelli 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að taka yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. og víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum. Skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a. laga um fjármálafyrirtæki.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, hafi Nýi Landsbanki Íslands hf., nú NBI hf., aðalstefndi í máli þessu, verið stofnaður og til hans ráðstafað eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf., eins og nánar greinir í ákvörðuninni með síðari breytingum. Aðalstefndi mótmælir þeirri meginmálsástæðu stefnanda að peningamarkaðslán hans í Landsbanka Íslands hf. hafi flust yfir til aðalstefnda frá og með 9. október 2008 samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 9. október 2009.
Á fundi sínum, dags. 11. nóvember 2008, hafi stjórn Fjármálaeftirlitsins, í kjölfar ábendinga, fjallað um það hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., Glitnis Banka hf. og Kaupþings banka hf. hefðu á svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum. Ákvað stjórn Fjármálaeftirlitsins á þessum fundi að árétta að allar skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum væru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Kaupþings banka og NBI hf. Þessi árétting hafi verið tilkynnt skilanefnd Landsbanka Íslands hf. með bréfi samdægurs.
Fjármálaeftirlitið hafi ekki breytt þessari afstöðu sinni og hafi peningamarkaðslán stefnanda í Landsbanka Íslands hf. sem vísað sé til í stefnu og í skrá yfir innstæður stefnanda í íslenskum bönkum aldrei verið flutt yfir í NBI hf. Það sé því ekki á hans færi að efna þær skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. gagnvart stefnanda sem vísað sé til og séu grundvöllur máls þessa. Þessu til stuðnings vísar aðalstefndi til yfirlýsingar skilanefndar Landsbanka Íslands hf., dags. 5. maí 2009, þar sem fram komi að peningamarkaðslán stefnanda séu skráð í bókum Landsbanka Íslands hf. og hafi aldrei verið flutt til aðalstefnda.
Sýknukrafa aðalstefnda byggir aðallega á því að dómkröfu stefnanda sé ranglega beint að aðalstefnda. Þær skuldbindingar sem dómkrafa stefnanda byggir á hafi ekki verið fluttar frá Landsbanka Íslands hf. til aðalstefnda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun á eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. og sérstakri áréttingu stjórnar Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi, dags. 11. nóvember. Sé aðalstefndi því ekki sá aðili sem beri þá skyldu við stefnanda sem sé grundvöllur máls þessa. Beri af þessari ástæðu að sýkna aðalstefnda af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Krafa aðalstefnda um málskostnað byggir á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Aðalstefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnanda.
Málsástæður og lagarök varastefndu, Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins
Varastefndu krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Krafa stefnanda á hendur varastefnda, Fjármálaeftirlitinu, virðist byggja á því að ef niðurstaða dómsins verði sú að kröfur stefnanda hafi ekki flust til NBI hf. með títtnefndum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins, beri eftirlitið skaðabótaábyrgð á því á grundvelli sakarreglunnar. Stefnandi rökstyður þá ábyrgð í meginatriðum með fjórum málsástæðum sem nánar sé vikið að hér á eftir, hverri fyrir sig. Málsástæður sínar um ábyrgð íslenska ríkisins byggi stefnandi á reglum skaðabótaréttar um húsbóndaábyrgð.
Ekkert hald sé í þessum málsástæðum stefnanda og skilyrði fyrir skaðabótaskyldu Fjármálaeftirlitsins samkvæmt reglum skaðabótaréttar fráleitt uppfyllt. Meginatriði málsins sé að með lögum nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitinu verið veittar víðtækar heimildir til að grípa inn í rekstur fjármálafyrirtækja í vanda. Samkvæmt 3. og 5. mgr. 5. gr. þeirra laga (sem varð að gr. 100. a. í lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002) sé gert ráð fyrir því að eftirlitið geti við þessar aðstæður ráðstafað eignum og skuldbindingum fjármálafyrirtækja. Ekki sé um það deilt að heimilt var samkvæmt áðurnefndum lagaákvæðum að ráðstafa tilteknum eignum og skuldbindingum Landsbanka Íslands hf., enda var hann kominn í greiðsluþrot. Ekki hafi verið sýnt fram á neins konar orsakasamband á milli ákvarðana Fjármálaeftirlitins og þess tjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna greiðsluþrots Landsbankans.
Fjármálaeftirlitið hafi beitt heimildum laganna í því skyni að vernda mikilvæga kerfislega hagsmuni á ögurstundu og hafi flutt innlán í íslenskum útibúum bankanna og það sem tengdist þeim rekstri til nýs lögaðila. Stefnandi hafi hins vegar gert samning við Landsbanka Íslands hf. um lánveitingu og eigi væntanlega kröfu á hendur bankanum vegna þess. Hann geti undir slitameðferð bankans, sem nú þegar sé hafin á grundvelli laga nr. 44/2009, fengið skorið úr því hvort krafa hans njóti forgangsréttar við skiptin á grundvelli 6. gr. laga nr. 125/2008.
Ekkert réttarsamband sé því á milli stefnanda og varastefndu, hvorki á grundvelli samnings né nokkurs konar skaðabótaskyldrar athafnar varastefndu gagnvart stefnanda.
1) Meint hindrun greiðslna til stefnanda.
Kröfur stefnanda hafi ekki verið færðar til aðalstefnda með skuldaraskiptum. Enginn vafi sé á því að í þeim efnahagsreikningi sem sé hluti af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdar hennar sé ekki gert ráð fyrir því að kröfur vegna peningamarkaðsviðskipta flytjist yfir til aðalstefnda. Eins og fram komi í bréfi frá 11. nóvember 2008 hafi Fjármálaeftirlitið áréttað þetta við endurskoðendur og skilanefndir sem sáu um framkvæmd ákvarðana eftirlitsins í samræmi við 5. gr. laga nr. 125/2008 en spurningar um þetta höfðu risið hjá starfsmönnum bankanna. Ítarlegustu útfærsluna á hinni eiginlegu yfirfærslu sé að finna í bráðabirgðaefnahagsreikningi og samantekt með honum þar sem gerð sé nánari grein fyrir einstökum liðum. Samkvæmt honum hafi krafa stefnanda alls ekki verið flutt yfir til aðalstefnda og Fjármálaeftirlitið því ekki komið í veg fyrir greiðslu kröfunnar. Meginmálsástæða stefnanda eigi sér því ekki stoð í staðreyndum málsins.
2) Fjármálaeftirlitið átti að sjá til þess að allar innstæður samkvæmt skilgreiningu stefnanda á því hugtaki, flyttust til aðalstefnda.
Engin slík lagaskylda hafi hvílt á Fjármálaeftirlitinu og auk þess telji eftirlitið að Landsbanki Íslands hf. hafi tekið lán hjá stefnanda sem sé lánastofnun. Viðskipti stefnanda og Landsbankans séu alls eðlisólík innlánum í hefðbundinni bankastarfsemi. Fjármögnun á peningamarkaði eigi lítið ef nokkuð hliðstætt með innlánum viðskiptamanna bankanna. Það sjáist greinilega á þeim samningum sem stefnandi og Landsbanki Íslands hafi gert með sér að litið var á gerningana sem lánveitingu. Í samningum stefnanda við Landsbanka Íslands hf. virðist vera kveðið á um að lánsfjárhæðin verði greidd til þriðja aðila Fortis banka í Brussel sem sýni best að gerningar stefnanda eigi ekkert skylt við innlán í hefðbundinni bankastarfsemi. Landsbanki Íslands hf. hafi hagað greiðslu iðgjalds til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem um lántöku væri að ræða, eins og gögn málsins beri með sér. Heildarskuldir Landsbankans í formi millibankalána hafi verið um 190 milljarðar í árslok 2007 og séu öll lán á borð við það sem stefnandi veitti færð þar undir í bókum bankans. Innlán séu færð undir öðrum liðum og megi þar glöggt sjá að litið sé á umrædd viðskipti sem lántöku. Framkvæmd ákvarðana FME sé í samræmi við það.
Meginatriðið sé þó hér að stefnandi bendi ekki á neinar lagaheimildir eða efnisreglur sem geti skapað skyldu hjá Fjármálaeftirlitinu og því síður skaðabótaábyrgð vegna þess að þær skyldur hafi ekki verið uppfylltar. Stefnandi sé óánægður með niðurstöður Fjármálaeftirlitsins og finnist þær ósanngjarnar. Það geti aldrei eitt sér bakað hinu opinbera skaðabótaskyldu. Við það bætist að staða stefnanda hafi ekki verið gerð verri en hún var áður með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Hann hafi ekki verið sviptur neinum réttindum og geti þess vegna fráleitt krafist skaðabóta fyrir að verða ekki betur settur en hann sé. Í þá stöðu hafi stefnandi komið sér sjálfur með samningi við Landsbanka Íslands hf.
3) Meint röng túlkun varastefnda, Fjármálaeftirlitsins, á yfirlýsingu ríkistjórnarinnar frá 6. október 2008 og eigin ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2009.
Yfirlýsing ríkisstjórnar Íslands sé ekki þáttur í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og túlkun á réttaráhrifum yfirlýsingarinnar sé óviðkomandi þeirri ákvörðun sem Fjármálaeftirlitið tók á sínum tíma um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Sú ákvörðun hafi byggt á sjálfstæðu mati á aðstæðum á grundvelli laga nr. 125/2008. Nánari framkvæmd á ákvörðun eftirlitsins hafi farið fram í samræmi við tilgang hennar sem áður hafi verið ítarlega lýst.
4) Meint brot gegn jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og reglunni um málefnalegar forsendur.
Varastefndi, Fjármálaeftirlitið, hafi ekki brotið gegn jafnræðisreglu með ákvörðunum sínum og framkvæmd þeirra. Það sé beinlínis rangt sem haldið sé fram í stefnu að mismunur hafi verið gerður á innstæðum stefnanda og fullkomlega sambærilegum innstæðum innlendra fjármálastofnana og seðlabanka. Engar kröfur sem tengdust viðskiptum við lánastofnanir á peningamarkaði, hvort sem um var að ræða innlenda eða erlenda aðila, hafi flust yfir til aðalstefnda. Íslenskar fjármálastofnanir séu í nákvæmlega sömu stöðu og stefnandi að þessu leyti en þó sé staða hinna íslensku aðila hugsanlega verri vegna aðildar þeirra að Tryggingasjóði innstæðueigenda og fjárfesta.
Stefnandi haldi því jafnframt fram að mismunun hafi átt sér stað vegna mismunandi rafrænnar meðferðar innlagna og geri sér það í hugarlund að innstæður innlendra aðila hafi verið lagðar á reikninga hjá Reiknistofu bankanna en erlendar innlagnir hafi hlotið aðra rafræna meðferð „innan bankans“. Þetta sé rangt. Engin viðskipti á peningamarkaði fari inn í kerfi Reiknistofu bankanna og breyti þjóðerni viðsemjandans engu. Ef erlendar lánastofnanir hafi átt fé inni á bankareikningum Landsbanka Íslands, sparireikningum, veltureikningum eða svokölluðum vostro-reikningum, fluttust allar slíkar innstæður til aðalstefnda. Aðdróttanir um mismunun á grundvelli þjóðernis séu því tilhæfulausar.
Þá byggir stefnandi á því að ólögmæt mismunun hafi átt sér stað vegna þess að gert sé upp á milli aðila á grundvelli þess hvaða atvinnustarfsemi þeir stundi, þ.e. lánastofnanir njóti annarrar og verri stöðu en aðrir sem lögðu bönkunum til fé. Hér sé ekki um brot gegn jafnræðisreglu að ræða. Viðskipti á millibankamarkaði séu alls eðlisólík innstæðum annarra viðskiptamanna bankanna hjá þeim. Um sé að ræða þátt í aðalstarfsemi viðkomandi stofnana en ekki vörslu á rekstrar- eða sparifé þeirra. Það hefði þvert á móti brotið gegn jafnræði ef stefnanda hefði verið veitt betri aðstaða en öðrum fjármálastofnunum sem lánuðu Landsbanka Íslands peninga. Aðstaða stefnanda og þeirra stofnana sé miklu sambærilegri en þær aðstæður sem stefnandi beri saman í því skyni að rökstyðja brot gegn jafnræðisreglu.
Ákvarðanir Fjármáleftirlitsins hafi byggt á ríkum málefnalegum forsendum sem stefnandi hafi ekki hrakið með neinum efnislegum rökum. Fjármálaeftirlitið hafi kannað sérstaklega stöðu þeirra gerninga sem um ræðir í þessu máli, m.a. hvernig hefði verið háttað færslum í bækur og ársreikninga bankanna, hvort greitt hefði verið af þeim iðgjald í tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta svo og það form sem haft var á viðskiptunum, eins og framlögð gögn beri með sér. Niðurstaða eftirlitsins hafi verið sú að kröfur fjármálafyrirtækja af þessum toga ættu ekki að flytjast til aðalstefnda. Því mati hafi ekki verið hnekkt. Eins og fram komi í ákvæðum 8. mgr. 5. gr. laga nr. 125/2008 gildi ákvæði IV.-VII. kafla stjórnsýslulaga ekki um málsmeðferð og ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins í þessu máli. Lagareglan helgist af þeirri brýnu þörf sem hafi verið á skjótum úrlausnum og því hafi ekki verið lagaskylda til ítarlegs rökstuðnings fyrir þeim ákvörðunum sem um ræðir auk þess sem takmarkanir á heimildum til að breyta ákvörðunum giltu ekki.
Að mati varastefndu sé fráleitt að fyrir hendi sé einhvers konar sakarábyrgð, þ.e. starfsmenn hafi sýnt af sér gáleysi eða ásetning með því að ákveða ekki að réttur stefnanda yrði gerður betri en hann var þegar Landsbankinn komst í greiðsluþrot. Engri lagareglu sé fyrir að fara sem skyldar Fjármálaeftirlitið til þess að flytja einstakar skuldbindingar bankanna yfir til annarra lögaðila. Vegna fjármálastöðugleikasjónarmiða og almannaheilla borgara landsins hafi hins vegar verið nauðsynlegt að flytja hefðbundin innlán (smásöluinnlán). Þess megi geta að með nákvæmlega sama hætti hafi innlán í breska bankanum Bradford & Bingley, sem kominn var í rekstrarþrot, flutt yfir til Abbey National bankans þann 29. september 2008. Kröfur vegna viðskipta á peningamarkaði voru þar skildar eftir.
Í lok málsástæðukafla í stefnu sé vikið að því að íslenska ríkið beri beina skaðabótaábyrgð vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 6. október 2008 og að lög nr. 125/2008 hafi verið sett „til að veita lagaheimild fyrir úrræðum til að ná framangreindu markmiði“. Af því sé svo dregin sú ályktun að íslenska ríkið sé ábyrgt fyrir tjóni sem innstæðueigendur í bönkum á Íslandi hljóti „óháð athöfnum eða athafnaleysi ... Fjármálaeftirlitsins“. Þessi málsástæða sé haldlaus. Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu geti ekki byggst á því sem stefnandi telur vera ábyrgðaryfirlýsingu. Skaðabótaskylda geti eingöngu byggst á saknæmri athöfn eða athafnaleysi í beinu orsakasambandi við tjón. Röksemdafærsla stefnanda gangi því engan veginn upp enda sé ekki bent á neina athöfn eða athafnaleysi íslenska ríkisins sem gæti talist saknæm í skilningi reglna skaðabótaréttarins.
Dómur geti ekki gengið um viðurkenningu á skaðabótaskyldu varastefnda fyrr en ljóst verði hvort stefnandi verði fyrir einhverju tjóni af viðskiptum sínum við Landsbanka Íslands. Hann haldi því sjálfur fram að krafa hans sé forgangskrafa samkvæmt 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Allt tjón sem leiði af því að hann lýsir ekki þeirri kröfu við slitameðferð bankans verður á hans eigin ábyrgð og áhættu.
Varastefndi byggir jafnframt á því að stefnandi hafi tekið á sig áhættu af viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. sem hann verði sjálfur að bera. Stefnandi sé sérfræðingur á þeim markaði sem um ræðir en virðist hafa haldið áfram að lána Landsbanka Íslands fé fram á síðustu daga bankans án trygginga og aðgæslu í skjalagerð. Á því geti Fjármálaeftirlitið ekki borið ábyrgð og í því sambandi sé vísað til reglna skaðabótaréttar um áhættutöku og eigin sök.
Um heimildir Fjármálaeftirlitsins til að taka þær ákvarðanir sem um ræðir sé vísað til 5. gr. laga nr. 125/2008. Krafa um málskostnað sé studd við 129.-131. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Stefnandi byggir aðalkröfu sína í málinu á því að svonefnd peningamarkaðsinnlán að fjárhæð 30.000.000 evra sem hann lagði inn hjá Landsbanka Íslands hf. í tveimur áföngum árið 2008 hafi verið flutt eða átt að flytjast yfir í Nýja Landsbanka Íslands hf., nú NBI hf., eftir hrun íslensku bankanna í október 2008. Því hafi fjármunirnir, sem stefnandi byggir á að séu innstæður en ekki lán, átt að vera lausir til útborgunar þann 12. nóvember 2008 og 10. desember 2008.
Stefnandi byggir kröfur sínar að þessu leyti á hendur aðalstefnda á því að það felist í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. á grundvelli 100. gr. a. laga nr. 161/2002, þar sem tekið var fram í 7. tl. að Nýi Landsbanki Íslands yfirtaki skuldbindingar í útibúum, Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Enn fremur er á því byggt að samkvæmt 8. tl. ákvörðunarinnar hafi innlán stefnanda flust yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.) frá og með kl. 9:00 þann 9. október 2008.
Málsástæður stefnanda að þessu leyti eru einnig þær að fyrrnefnd ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands frá 6. október 2008, þar sem áréttað var að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi yrðu tryggðar að fullu. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tekið fram að með innstæðum sé átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs tekur til. Stefnandi heldur því fram að íslenska ríkið beri ábyrgð á því að Fjármáleftirlitið hafi ekki hrint þessari ákvörðun réttilega í framkvæmd og enn fremur beri íslenska ríkið ábyrgð á grundvelli yfirlýsingarinnar á tjóni sem innstæðueigendur í bönkum á Íslandi hafi hlotið óháð athöfnum eða athafnaleysi varastefnda, Fjármálaeftirlitsins.
Við úrlausn þessa ágreinings reynir á skýringu hugtaksins innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta en hugtakið er skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laganna. Þar segir að með innstæðu sé átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Lög nr. 98/1999 voru sett til að lögfesta efnisreglur tilskipunar Evrópusambandsins nr. 94/19/EC. Í 1. grein tilskipunarinnar er hugtakið innlán (e: Deposit) skilgreint með eftirfarandi hætti: „any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“ Í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „þá merkir hugtakið „innlán“ hvers konar inneign sem verður til við það að fjármagn er látið standa eftir inni á bankareikningi eða vegna tímabundinna aðstæðna sem stafa af almennum bankaviðskiptum og sem innlánsstofnun skal endurgreiða í samræmi við þar að lútandi laga- og samningsskilmála, og hvers konar skuld sem viðurkennd er með vottorði, útgefnu af innlánsstofnun.“
Við mat á því hvort fjármunirnir sem stefnandi afhenti Landsbanka Íslands hf. tímabundið til ráðstöfunar sé „innstæða“ í skilningi laga nr. 98/1999 reynir einkum á eðli viðskiptanna. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um það á fundi sínum 11. nóvember 2008 hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda hinna föllnu banka hefðu á tiltekna fjármögnun þeirra, nánar tiltekið þegar um er að ræða svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum. Samkvæmt bréfi stjórnar Fjármálaeftirlitsins sama dag til Landsbanka Íslands hf. ákvað stjórnin enn fremur að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum yrðu ekki fluttar til nýju bankanna.
Undir rekstri málsins aflaði stefnandi matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Í skýrslu þeirra er gerður greinarmunur á peningamarkaðsinnlánum og millibankalánum og eðlismun þeirra lýst. Fram kemur að munurinn felst aðallega í mismunandi skilgreiningum og hverjir séu aðilar að viðskiptum. Hefðbundið millibankalán (e. Interbank loan) er skammtíma peningamarkaðslán á milli tveggja fjármálafyrirtækja. Peningamarkaðsinnlán hafa víðtækari merkingu þar sem aðilar viðskipta geta verið aðrir en bankar og önnur fjármálafyrirtæki. Þó er það undantekning ef annar aðilinn í slíkum viðskiptum er ekki banki eða fjármálastofnun. Þegar talað er um peningamarkaðsviðskipti á millibankamarkaði (e. Interbank market) er átt við inn- og útlánaviðskipti banka sín á milli og yfirleitt til skemmri tíma en 12 mánaða. Þessi viðskipti byggjast yfirleitt á fyrir fram gefnum heimildum eða „línum“ og er yfirleitt látið duga að staðfesta þau í Swift samskiptakerfinu (,Society for Worldwide Interbank Financial Telecommunication). Báðar tegundir framangreindra lána eru skammtímalán, það er lán til fjármögnunar til skemmri tíma en 12 mánaða. Slík skammtímalán eru oftast skilgreind sem „Money Market“ eða „Deposit“. Þegar lánað er til lengri tíma er almennt talað um bankalán, sem geta verið milli tveggja banka (e. Bil-latteral) og hóplán (e. Syndication). Slík lán tengjast með engum hætti millibankalánum. Venja starfsmanna í fjárstýringu banka er að líta á peningamarkaðsinnlán svipuðum augum, það er sem lán, enda gera þeir ekki greinarmun á þessari tegund fjármögnunar og annarri fjármögnun á millibankamarkaði. Samkvæmt matsgerðinni er fremur horft á peningamarkaðsinnlán annarra aðila en fjármálafyrirtækja sem innlán fyrst og fremst vegna þess að aðalstarfsemi slíkra aðila felist ekki í að lána út fjármuni heldur að ávaxta laust fé sitt tímabundið. Þá kemur fram í skýrslu matsmanna að peningamarkaðsinnlán eru ekki skráð á sérstaka innlánsreikninga í kerfi Reiknistofu bankanna heldur eingöngu fjárstýringakerfi fjármálafyrirtækjanna.
Fram er komið að millibankalán er lán á milli tveggja fjármálastofnana. Peningamarkaðslán er millibankalán samkvæmt skilgreiningu matsmanna. Þegar um er að ræða peningamarkaðsinnlán eru skilin ekki jafn skýr þar sem fyrirtæki og einstaklingar eru annar samningsaðilinn. Peningamarkaðslán hafa verið lögð inn á reikning fjárstýringar viðkomandi lántaka samkvæmt samþykktum skilmálum lánveitanda og lántaka. Slík lán hafa ekki verið skráð inn á innstæðureikninga og bókhaldsleg skilgreining í ársreikningum íslensku bankanna samræmist því að um lán en ekki innstæður sé að ræða. Þá liggur fyrir að enginn íslensku bankanna þriggja greiddi iðgjöld af peningamarkaðsinnlánum þegar fjármálafyrirtæki voru lánveitendur.
Í skýrslu stjórnarformanns stefnanda fyrir dómi, Juan Carlos Montanola, kom fram að stefnandi hefði haft umframfjármagn sem bankinn notaði til að leggja inn (deposits) til íslenskra banka. Eftir að hafa farið yfir áhættuna (deep study) í rekstri Landsbanka Íslands hafi stefnandi lagt inn/veitt lán til bankans. Það hafi verið gert eftir athugun á því hvaða fjármálastofnun bauð bestu vaxtakjörin. Gengið hafi verið frá samningum á nokkrum mínútum í gegnum viðskiptakerfið (dealing system). Þá kom fram að um þriðjungur eigin fjár stefnanda hafi verið lánaður til íslenskra banka eftir skoðun stefnanda á íslensku efnahagslífi og bönkunum. Lánalínur stefnanda til Íslands voru hækkaðar í febrúar 2008.
Viðskipti stefnanda og Landsbanka Íslands hf., sem hér um ræðir, fóru fram í gegnum SWIFT-samskiptakerfið. Í texta SWIFT-skeytis um þessi viðskipti frá 6. júní 2008 segir:
WE CAN LEND U 6MTH EUR 15 MIOS AT 5.20 IF SUIT FOR U FRIE
sem þýðir: „Við getum lánað þér 15 milljónir evra í sex mánuði á 5.20 (5.2% vöxtum) ef það hentar þér.“
Í sama SWIFT-skeyti kemur fram að samkomulag hafi tekist um 15 milljónir evra á 5.18: OK I LEND U EUR 15 MIOS AT 5.18 FM 10/6 TILL 10/12/08
Viðskipti af þessu tagi eru venjubundnir samningar á millibankamarkaði og texti skeytisins bendir til þess að um lán hafi verið að ræða.
Samkvæmt gögnum máls og framansögðu verður að telja umrædda yfirfærslu fjármuna frá stefnanda til Landsbanka Íslands hf., skammtímalán á milli tveggja banka, nánar tiltekið millibankalán. Hvergi kemur fram að Landsbanki Íslands hf. hafi gefið út innstæðuskírteini fyrir þessum innborgunum eða þess hafi verið óskað af hálfu stefnanda. Þá liggur ekki fyrir að stefnandi hafi haft reikning hjá Landsbanka Íslands hf. Fram kemur að samið var sérstaklega um vaxtakjör og lánstíma, enda breytast vaxtakjör í samræmi i við lengd lána. Þegar einnig er litið til þess að hér var um að ræða viðskipti milli tveggja banka, millibankalán, verður lagt til grundvallar að um peningamarkaðslán hafi verið að ræða en ekki peningamarkaðsinnlán.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að lán stefnanda til Landsbanka Íslands hf. geti ekki talist innstæða, sem skilgreind er sem upphæð sem stendur inn á reikningi í banka, sparisjóði eða annars konar viðskiptastofnun (e. balance). Af því leiðir að krafan verður ekki talin innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Samkvæmt því fólst hvorki í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins skylda til að flytja umræddar skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. gagnvart stefnanda til Nýja Landsbanka Íslands hf. (nú NBI hf.), né hefur stefnandi sýnt fram á að skuldbindingarnar hafi nokkurn tímann verið færðar. Ber því að sýkna aðalstefnda, NBI hf., af kröfum stefnanda á hendur honum í málinu.
Framangreind niðurstaða í málinu leiðir einnig til þess að ekki verður fallist á kröfur stefnanda á hendur varastefndu í málinu. Fjármálaeftirlitið hefur ekki með saknæmum hætti komið í veg fyrir að krafa stefnanda yrði greidd út eða færð til aðalstefnda. Í samræmi við þá niðurstöðu að um sé að ræða lán en ekki innstæðu verður ekki fallist á að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi falið í sér brot gagnvart stefnanda á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár. Sú málsástæða stefnanda að íslenska ríkið beri sjálfstæða ábyrgð á grundvelli yfirlýsingarinnar frá 6. október 2008 kemur að sama skapi ekki til álita. Aðrar málsástæður stefnanda á hendur varastefndu eiga heldur ekki við haldbær rök að styðjast.
Ber því að sýkna varastefndu, Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkið, af kröfum stefnanda á hendur þeim.
Eftir þessari niðurstöðu málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað, sem eftir atvikum þykir hæfilega ákveðinn 1.500.000 krónur til stefndu hvers um sig. Ekki er tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Áslaugu Björgvinsdóttur héraðsdómara og Má Wolfgang Mixa fjármálafræðingi.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, NBI hf., Fjármálaeftirlitið og íslenska ríkið, skulu vera sýknir af kröfum stefnanda, Aresbank, í máli þessu.
Stefnandi greiði stefndu, hverjum um sig 1.500.000 krónur í málskostnað.