Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2009


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. október 2009.

Nr. 259/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.)

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.

réttargæslumaður)

 

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni með því að hafa í mörg skipti haft samræði og önnur kynferðismök en samræði við hana. Þótti það hafið yfir skynsamlegan vafa að X hefði haft önnur kynferðismök við telpuna en samræði, en læknir sá er skoðaði hana, taldi útilokað að um samræði hefði verið að ræða. Var X því, þrátt fyrir neitun hans, fundinn sekur um að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við dóttur sína á tímabili frá september 2007 til nóvember 2008. Töldust brot hans varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að kynferðisbrot X hefðu beinst að barnungri dóttur hans, sem hann einn hefði haft forsjá með, og hefðu staðið í rúmt ár. Þau hefðu verið ítrekuð, alvarleg og til þess fallin að hafa mikil og varanleg áhrif á telpuna. Vegna þessa og með vísan til forsendan héraðsdóms að öðru leyti var refsing X hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Miskabætur til telpunnar voru ákveðnar 1.500.000 krónur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2009 og krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða en refsing hans þyngd.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða. Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að kynferðisbrot ákærða beindust að barnungri dóttur hans, sem hann einn hafði forsjá með, og stóðu í rúmt ár. Þau voru ítrekuð, alvarleg og til þess fallin að hafa mikil og varanleg áhrif á telpuna. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Miskabætur til telpunnar verða ákveðnar 1.500.000 krónur. Þær bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. nóvember 2008 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði greiði A 1.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til 11. janúar 2009, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 604.892 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur og Hjördísar Harðardóttur hæstaréttarlögmanna, 62.250 krónur í hlut hvorrar.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. febrúar 2009.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 19. janúar sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 19. desember 2008 á hendur X, kt. [...], [...] , [...], „fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, A, kennitala [...], með því að hafa í mörg skipti á tímabilinu frá sumri 2006 fram til nóvember 2008, haft samræði og önnur kynferðismök en samræði við A með því meðal annars að sleikja kynfæri barnsins. Brotin áttu sér stað á heimili þeirra í  [...],[...] og [...].

Telst þetta varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A er krafist miskabóta úr hendi ákærða að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. október 2008 til 11. janúar 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.“

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara er krafist vægustu refsingar og að bótafjárhæð verði lækkuð. Málsvarnarlauna er krafist.

I.

Fram hefur komið í málinu að ákærði og B höfðu búið saman í nokkur ár er þeim fæddist dóttirin A þann 13. maí 2005. Þau bjuggu fyrst í [...] á þremur stöðum uns þau fluttu til [...] í desember 2006. Þau giftu sig þar í febrúar 2007 en skildu í maí sama ár. B  dvaldi áfram hjá ákærða fram í júní 2007 en flutti þá upp á land. Ákærði dvaldi áfram í [...] með barnið, sem hann hafði fengið forsjá yfir, uns hann flutti til [...] í febrúar 2008. Þar dvaldi ákærði fram í september 2008 er hann flutti til [...]. Hann var að flytja til unnustu sinnar í [...] er hann var handtekinn.

Allt frá því að A fæddist voru ákærði og B  skjólstæðingar félagsmálayfirvalda en þau eru bæði öryrkjar og hafa ekki stundað vinnu. Strax eftir fæðingu barnsins var talin ástæða til þess að hafa eftirlit með því hvernig barninu vegnaði sökum þess að báðir foreldrar höfðu átt við mikil vandamál að stríða um margra ára skeið. Þann 8. júní 2005 þurfti lögreglan að hafa afskipti af foreldrum A og í kjölfarið var sálfræðingur fenginn til að meta forsjárhæfni þeirra. Meginniðurstöður hans voru þær að hann taldi stefnuleysi, geðsjúkdóma og ýmsa andlega bresti einkenna líf þeirra og hugsun þeirra væri of óskýr og dómgreind slök, ekki síst í tengslum við framtíð barnsins og uppeldi þess. Taldi sálfræðingurinn nauðsyn á miklum og langvarandi stuðningi við fjölskylduna. Barnaverndarnefnd [...] höfðaði mál 20. febrúar 2007 á hendur ákærða og B þar sem gerð var sú krafa að þau yrðu svipt forsjá yfir barninu. Krafan mun ekki hafa náð fram að ganga.

A var í daggæslu hjá dagmæðrum í [...] frá 8. janúar 2007 til 1. júní 2007. Í vottorði dagmæðra segir að A hafi alltaf verið vel búin, snyrtileg og hrein. Hún hafi yfirleitt verið brosmild og glöð en átt erfitt með að hlýða og verið óstýrilát við móður. A fór síðan á leikskóla í [...] og segir m.a. í umsögn leikskólastjóra, dags. 7. janúar 2008, að hún sé nokkuð óróleg og einbeiting slök.

Eftir að ákærði flutti til [...] var hann boðaður þrisvar sinnum í viðtal hjá barnaverndarnefnd [...] á tímabilinu 30. apríl til 8. júlí 2008 en mætti ekki. Þann 11. júlí 2008 tilkynnti starfsmaður barnaverndarnefndar [...] starfsbróður sínum í [...] að ákærði hafi haft samband við starfsmann félagsmálayfirvalda í [...] og óskað eftir að tala um málefni dóttur sinnar. Hann hafi sagt að A sýndi kynferðislega hegðun og er hann hafi verið spurður um hvort margir fullorðnir umgengust barnið hafi hann sagt að hann sæi einn um uppeldi þess. Í framhaldi af þessu var barnaverndarmálið sent barnaverndarnefnd [...] en ákærði flutti lögheimili sitt í [...] 15. ágúst 2008.

A byrjaði í leikskóla í [...] 10. apríl 2008 og kom fram í framburði starfsmanns leikskólans að ekki hafi orðið vart við kynferðislega hegðun stúlkunnar meðan hún dvaldi þar en þann 1. september það ár byrjaði A í leikskóla í [...]. Fram kemur í yfirlýsingu leikskólastjóra leikskólans [...] í [...] að frá upphafi skólagöngu hafi A sýnt mikið óöryggi og vanlíðan. Fljótlega eftir að A byrjaði hafi ákærði sagt starfsmanni leikskólans að hún ætti það til að sýna kynferðislega hegðun á dúkkum.

Þann 23. október 2008 fór [...], félagsráðgjafi frá félagsþjónustu [...] í leikskólann og átti samtal við A. Hún sýndi henni bókina „Þetta er líkaminn minn“ og fljótlega nefndi A orðið „tyggja“. Þegar henni voru afhentar tvær dúkkur, annars vegar stelpudúkka og hins vegar strákadúkka, afklæddi hún þær og lét kynfæri þeirra snertast aftan frá. Aðspurð um hvernig stelpunni liði sagði hún að henni væri illt í pjöllunni og tók krem og makaði á kynfæri stelpudúkkunnar. Síðan klæddi hún sig úr að neðan og tók stelpudúkkuna og setti milli fóta sér og hreyfði sig með kynferðislegum mjaðmahnykkjum. Kallaði hún þessa athöfn að ,,tyggja“.

Í framhaldi af þessu var barninu komið fyrir í neyðarvistun. Hún fór í tvö könnunarviðtöl í Barnahúsi 24. og 27. október 2008 og styrktist þá grunur félagsmálayfirvalda um að barnið hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Ákærði var handtekinn 5. nóvember 2008 og gerð húsleit hjá honum, bæði að [...],[...], en þangað var hann að flytja búslóð sína og hefja sambúð með unnustu sinni, svo og á heimili hans að [...],[...]. Jafnframt var krafist gæsluvarðhalds yfir ákærða og hefur hann setið í gæsluvarðhaldi frá 6. nóvember 2008.

Við húsleit fundust kynlífshjálpartæki bæði hjá ákærða og föðurömmu barnsins en hún hefur mikið gætt barnsins undanfarin ár. Lífsýni voru tekin úr A og ákærða og haldlagðir munir rannsakaðir án þess að sú rannsókn leiddi til einhverrar sérstakrar niðurstöðu. A fór í læknisrannsókn í Barnahúsi og segir í umsögn læknisins að ytri kynfæri séu eðlileg en meyjarhaft opnist áberandi auðveldlega og meyjarhaftsröndin sé lítt áberandi og þunn. Meyjarhaftsopið sé því nokkuð opið miðað við aldur stúlkunnar. Ekkert annað óeðlilegt hafi komið í ljós.

Geðrannsókn fór fram á ákærða og í mati [...] geðlæknis segir að ákærði sé sakhæfur en eigi við blandaða persónuleikaröskun að stríða og sé hún mjög alvarleg.

Í gögnum málsins kemur fram að A greindist með sveppasýkingu innan á skapabörmum og fékk hún smyrsli við því.

Við upphaf rannsóknar málsins beindist grunur aðallega að ákærða en jafnframt að föðurömmunni, C og hálfbróður ákærða, D, enda hafði A nefnt þau öll þrjú í sambandi við að ,,tyggja“. C er 65 ára gömul, fjögurra barna móðir, sem býr ein. Við húsleit á heimili hennar fundust kynlífshjálpartæki og tveir geisladiskar með klámefni. Jafnframt fannst í stofu hjá henni myndbandsspóla, væntanlega frá syninum D, sem sýnir hann í kynmökum við óþekkta konu. Fram hefur komið í málinu að A dvaldi mikið hjá C allt frá fæðingu. C neitaði staðfastlega að hafa brotið gegn stúlkunni en stúlkan nefndi hana einu sinni í yfirheyrslu í sambandi við að ,,tyggja“ en gaf ömmu sinni að öðru leyti gott orð. Lögreglan taldi ekki koma fram neitt í málinu sem styrkti grunsemdir í garð C. Niðurstaða DNA-rannsóknar var neikvæð, þ.e. ekkert sýni af haldlögðum munum á heimili hennar samsvaraði samanburðarsýni A.

Rannsókn lögreglu leiddi til þess að ekki var talið líklegt að D hefði umgengist stúlkuna á þeim tíma er hún var í [...] og fyrst varð vart við kynferðislega hegðun hennar. D mun þó hafa dvalið á heimili móður sinnar um tíma og þá hugsanlega getað umgengist stúlkuna. C hefur borið að hún hafi gætt þess sérstaklega að stúlkan væri aldrei ein með D. D mun hafa farið til [...] um 4. júní 2008 og dvelur þar enn. Hann var því ekki yfirheyrður vegna málsins.

Þegar leið á rannsóknina beindist grunur því æ sterkar að ákærða og að lokum að honum einum. Hann hefur hins vegar staðfastlega neitað sök.

II.

Eins og að framan greinir var A komið fyrir í neyðarvistun og hefur hún búið hjá þremur fósturforeldrum frá því í byrjun nóvember 2008.

Sálfræðingarnir [...] og [...] voru fengnir til þess að gera sálfræðimat á A í nóvember 2008 en þá var hún þriggja og hálfs árs gömul. Fram kemur m.a. í mati sálfræðinganna að málskilningur hennar virðist vera slakur. Hún hafi oft gripið orð úr spurningum með setningum og endurtekið þau sem sitt svar. Máltjáning hennar hafi verið takmörkuð og hún átt erfitt með að skilja fyrirmæli og spurningar. Almennt hafi A þurft mikla stýringu í prófinu. Í einu viðtali hafi hún fiktað í öllu sem hún gat náð í og ekki hlýtt beiðnum um að hætta og þannig viljað stjórna öllu sjálf. Þegar hún hafi verið beðin um að teikna hafi hún stoppað við í nokkrar sekúndur. Hún hafi lítið talað af fyrra bragði nema um það sem hún vildi og því sýnt litla gagnkvæmni í samskiptum. Hún hafi ekki alltaf svarað  þegar á hana var yrt og svo hafi virst sem hún annað hvort skildi ekki spurningar eða vildi ekki skilja. Hún hafi ekki getað nefnt nöfn annarra barna í leikskólanum. Próf hafi verið lögð fyrir stúlkuna til að meta vitsmunaþroska. Í heild hafi niðurstöður sýnt að vitsmunaþroski hennar væri seinkaður miðað við jafnaldra. Orðskilningur hennar hafi mælst verulega neðan meðalgetu jafnaldra. Prófið hafi sýnt að hún ætti erfitt með að meðtaka fyrirmæli og spurningar og geta hennar til að skilja og tjá sig í orðræðu hafi reynst slök. Niðurstöður prófanna hafi sýnt að vitsmunaþroski A sé verulega seinkaður miðað við jafnaldra. Mikill misstyrkur hafi komið fram í þroska sem birst hafi í miklu misvægi í frammistöðu hennar á einstökum þáttum prófsins. Greinilega hafi komið fram að A eigi í erfiðleikum með tengslamyndun. Hún tengist yfirborðslega, myndi ekki djúp tengsl við þá sem annast hana og sýni ekki eftirsjá eða söknuð gagnvart þeim sem fara frá henni. Hún minnist nánast ekkert á kynforeldra sína og föðurömmu sem áður voru henni náin. Tengslin séu ennfremur hömlulaus sem erfitt sé að setja í samhengi við raunverulegar aðstæður. Slíkt gæti bent til misnotkunar eða vanrækslu. Barn sem leiti til foreldris til að fá tilfinningalegt öryggi en sé í staðinn misnotað missi hæfileikann til að greina á milli eðlilegra og óeðlilegra tengsla. Þá hafi A sýnt endurtekin og ofsafengin hræðsluviðbrögð við ákveðnar aðstæður sem tengist myrkri og óútskýrðum hugmyndum hennar um eitthvað sem sé ógnvænlegt. Þessi ótti komi fram í svefni þegar hún fái martraðir. Þá hafi A sýnt kynferðislega hegðun. Hún frói sér, sýni kynfærum annarra óeðlilegan áhuga, leiki kynferðislega leiki með dúkkum og noti eigin orð yfir kynferðisathafnir. Leiða megi líkur að því að þessi hegðun komi fram þegar henni líður illa eða er kvíðin. Tilfinningalegur óstöðugleiki birtist m.a. í því að miklar sveiflur séu á líðan A. Áberandi séu miklar tilfinningasveiflur þar sem hún geti verið allt frá því að vera mjög glöð og yfir í mikinn mótþróa og reiði. Einnig geti hegðun hennar einkennst af mjög barnalegum viðbrögðum upp í undirförula eða lúmska hegðun sem erfitt sé að átta sig á. Þessi viðbrögð geti skýrst af kvíða og því að leiðbeiningar um hegðun hafi verið mjög mótsagnakenndar í hennar uppeldi.

A fór í tvö könnunarviðtöl í Barnahúsi 24. október og 27. október 2008. Þessi könnunarviðtöl leiddu til þess að ákveðið var að taka af henni dómskýrslu í Barnahúsi. Fyrri skýrslan var tekin 6. nóvember 2008 og seinni 18. sama mánaðar. Nokkuð illa gekk að yfirheyra hana þar sem hún svaraði ekki alltaf spurningum og virtist stundum ekki skilja þær.

Þann 24. október 2008 fór fram könnunarviðtal við A í Barnahúsi. Þar sagði hún m.a. að hún ,,tyggi“ með pabba sínum og sýndi hvað hún ætti við með því að leggja tússpenna undir rassinn og notaði annan tússpenna til að sýna hvernig hann fer fram og aftur hjá kynfærum hennar.

Þann 27. október 2008 var tekið annað könnunarviðtal við A í Barnahúsi. Hún vildi teikna typpi og þegar hún var spurð hver ætti typpið sagði hún að pabbi sinn ,,gera það“. Hún var spurð hvernig hún ,,tyggi“ með pabba sínum og vildi hún sýna það. Hún fór úr öllum fötum nema nærfötum og fékk viðtalandann niður á fjóra fætur og ætlaði því næst að fara að afklæða viðtalandann en var stoppuð í því. Hún var þá spurð hvernig hún ,,tyggi“ og tók A þá niður nærbuxurnar, settist á gólfið og ætlaði að stinga fingrum í kynfæri sín en var þá stoppuð.

Þann 6. nóvember 2008 fór fram dómsyfirheyrsla yfir A í Barnahúsi. Hún var spurð hvað hún og pabbi hennar gerðu saman og sagði A að pabbi hennar sé að ,,tyggja“ með henni. Hún var þá beðin um að útskýra hvað hún meinti með því að tyggja og hristi A sig þá og tók nærbuxurnar niður og benti framan á klofið á sér og rassinn. Einnig spurði hún af hverju pabbi hennar væri að ,,tyggja“. A var spurð hvort einhver hafi snert pjölluna á henni og svaraði hún: ,,Hann bara tyggja hana á mér“. A var spurð hver væri að tyggja með henni og svaraði hún: ,,Pabbi“. A var þá spurð með hverju pabbi hennar tyggur hana og svaraði hún þá: ,,Hér“ og hossaði sér í sófanum. Hún var spurð með hverju maður tyggur og sagði hún: ,,Hér í rassinum“ og hossaði sér. Hún var spurð hvort einhver hafi snert pjölluna eða rassinn á henni og svaraði hún: ,,Rassinn“. Hún var spurð hver hefi snert rassinn og svaraði hún: ,,Typpið“. Hún benti á klofið á dúkku og sagði: ,,Tyggja hér“ og hristi dúkkuna upp og niður þegar hún var að sýna það. Þá vildi A setja krem á pjölluna á dúkkunni. Þegar leið á viðtalið fór A úr nærbuxum. Tók hún svo bangsa og setti ofan á sig og aftan við beran rassinn og sagði: ,,Svona þetta fín“. Hún var spurð hvað hún og pabbi hennar gerðu saman og lét hún þá bangsann ofan á sig og sagði: ,,Ég skal tyggja með bangsanum“. A var spurð hvort hún eigi frænda sem heitir D og svaraði hún því að D væri að ,,tyggja“ hana og amma C hafi einnig verið að ,,tyggja“ hana.

Þann 18. nóvember fór fram önnur dómsyfirheyrsla yfir A í Barnahúsi. Mjög fljótlega í viðtalinu fór A úr að neðan. Hún var spurð hvort hún og amma hennar væru að gera eitthvað skemmtilegt saman og svaraði hún: ,,Nei, bara tyggja mig“. A var spurð hvort pabbi hennar væri góður við hana og hún svaraði nei og nuddaði bangsanum við rassinn á sér. Því næst setti hún bangsann ofan á dúkku og hristi hana. A var spurð hvað hún og pabbi hennar væru að gera saman og sagði hún að þau væru ,,tyggja“ saman. Einnig lagðist hún á magann og lét bangsann á rassinn á sér. Hún var spurð hvort einhver hafi sleikt pjölluna á henni og sagði hún að pabbi sinn hefði gert það og hann mætti það. Einnig sagði hún: ,,Ég skal tyggja svona“ og lét bangsann í klofið á sér og lét svo sem hún hefði munnmök við bangsann. Hún var þá spurð hvort hún hafi einhvern tímann sleikt typpið og svaraði hún: ,,Ég bara núna“. Hún var þá spurð hver hafi sleikt pjölluna hennar og svaraði hún: ,,Ég bara núna“ og hristi bangsann við pjölluna á sér og sagðist vera að ,,tyggja“ sig. A var spurð hvað pabbi hennar geri og sagði hún: ,,Svona“ og hristi bangsann við pjölluna. Hún var þá spurð hvað pabbi hennar væri þá að gera og svaraði hún: ,,Tyggja“. Hún var þá spurð hvort pabbi hennar væri góður við hana og sagði hún: ,,Hann er bara að tyggja hér“ og benti á klofið á sér. A var spurð hver sé með typpi og svaraði hún: ,,Ég“. Hún var þá spurð hver hafi gefið henni typpið og svaraði hún: ,,Pabbi“. Hún var  spurð hvar typpið væri og sagði hún: ,,Hérna“ og benti á klofið. Hún var þá spurð hvort hún væri með typpið þegar hún væri hjá pabba og sagði hún þá: ,,Svona“ og hossaði sér.  A var spurð hver hafi verið að ,,tyggja“ með henni og sagði hún: ,,Pabbi minn“. Hún var þá spurð hvort einhver annar hafi verið að tyggja með henni og svaraði hún því neitandi. A var spurð hvað pabbi hennar segði við hana þegar hann væri að ,,tyggja“ hana og svaraði hún: ,,Hér“ og benti á klofið og settist á bangsann.

III.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 6. nóvember 2008. Hann sagði að A ætti það til að sýna af sér kynferðislega hegðun og hafi það fyrst gerst í mars eða apríl 2008. Hún hafi kallað það að tyggja. Hún hafi einnig notað bangsa eða kanínur og ávallt farið undir sæng þegar hún hafi gert þetta. Hann taldi að þetta hefði gerst í fjögur skipti og þá hafi hann og móðir hans komið að henni undir sæng þar sem hún hafi verið búin að klæða sig úr fötum. Svo hafi hún oft verið að fikta í kynfærum sínum út af sveppasýkingu sem hún hafi verið með. Hann hafi þurft að bera krem á kynfæri hennar næstum því daglega vegna þess. Þá hafi hann einnig oft sett stíl í endaþarm hennar ef hún hafi verið með hita. Ákærði kvaðst hafa farið með Atil læknis í [...] vegna þessarar kynferðislegu hegðunar og eins hafi hann leitað til félagsmálayfirvalda í [...] til þess að fá aðstoð. Ekki kvaðst ákærði vita um ástæður þess að barnið hagaði sér svona en taldi líklegast að hún hafi séð ákærða stunda kynlíf með móður hennar eða öðrum kvenmanni. Aðspurður um hvort einhver annar gæti hugsanlega hafa brotið gegn A kynferðislega svaraði ákærði því til að enginn annar hafi getað komið nálægt henni, allavega ekki á heimili þeirra. Eini staðurinn sem honum detti í hug sé leikskólinn en hann kvaðst treysta fóstrunum til að vera ekki að snerta börnin. Ákærði sagði að A hafi oft verið í pössun hjá ömmu sinni C. Hálfbróðir ákærða sammæðra, D, hafi stundum verið heima hjá móður þeirra þegar A hafi verið í pössun. Ákærði sagði að þessi bróðir hans væri kynferðisafbrotamaður sem núna búi í [...]. Ákærði sagði að bróðir hans sé eini karlmaðurinn sem hafi þannig verið í kringum A. Þó kvaðst ákærði halda að hann hafi ekki verið einn með A nema kannski stutta stund þegar móðir þeirra hafi skroppið frá.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 7. nóvember 2008 sagði ákærði m.a. að hann hafi orðið fyrir miklu einelti í grunnskóla. Þegar hann hafi búið með B, barnsmóður sinni, hafi hann halað niður miklu magni af ,,simulation rape“ þar sem þau hafi notað það mikið í sínu kynlífi að binda hvort annað og einnig notað kæfingar. Þá hafi hann halað niður miklu af ,,kynlífs hlutverkaleikjum“. Ákærði sagði að samband hans við móður sína hafa verið gefandi, hjálpsamt og ástríkt. Samband hans við A sé þannig að hún sé hans stoð og stytta og hafi bjargað honum frá þunglyndi. A væri 8 klukkustundir á dag í leikskóla og á sama tíma legði hann sig í um 3-4 klukkustundir en hann hafi verið öryrki frá 18 ára aldri vegna andlegs ástands. A sé hins vegar bæði líkamlega og andlega heilbrigð. Hún hafi byrjað að fikta í kynfærum sínum þegar hún hafi fengið sveppasýkingu vegna mataræðis eins og hálfs árs gömul. Hún hafi byrjað að nota orðið tyggja þegar hún hafi verið tveggja ára og þriggja mánaða og þá hafi hún verið hjá ömmu sinni í [...]. Hann kvaðst tengja þetta sérstaklega við þennan aldur þar sem A hafi þá verið nýbyrjuð í leikskóla og þetta hafi verið þremur mánuðum eftir afmælið hennar. Hún hafi verið í pössun hjá ömmu sinni C og hafi hún hringt í ákærða og sagt honum að A hafi bent á dúkku og sagt: ,,Má ég tyggja“. A hafi þá tekið karlkynsdúkku og farið undir sæng, klætt sig úr öllum fötum svo og dúkkuna og nuddað sér upp við typpi dúkkunnar. Ákærði kvaðst hafa drifið sig til móður sinnar en þá hafi móðir hans verið búin að klæða A. Ákærði kvaðst hafa verið að horfa á teiknimynd með A um tveimur vikum síðar og beðið A um að fara inn í herbergi og sækja teppi. Þegar hún hafi ekki komið til baka hafi hann farið að gæta að og þá séð að hún lá undir teppinu fullklædd með kanínudúkku. Ákærði kvaðst hafa spurt A hvað hún væri að gera og hún svarað: ,,Ég er að fara að tyggja hana“. Ákærði kvaðst hafa bannað henni þetta og hafi hún þá hætt því. Ákærði sagði að meðan þau hafi búið í [...] hafi A tvisvar sinnum til viðbótar sagt orðið tyggja. Eitt tilfelli hafi verið á meðan hann hafi verið að baða A og þrífa hana að neðan en þá hafi hún sagt: ,,Ertu að tyggja mig pabbi“. Annað tilfelli hafi verið er A hafi bent á dúkku og sagt: ,,Má ég tyggja hana?“ Hann hafi þá sagt í höstum tón að svona mætti ekki tala og hafi hann ekki heyrt hana tala með þessum hætti eftir þetta. Hann hafi þó heyrt að hún hafi stundum talað svona í leikskólanum. Þá sagði ákærði ennfremur í þessari yfirheyrslu að honum væri illa við barnanekt og þess vegna láti hann A baða sig sjálfa í freyðibaði því að hann vilji ekki sjá hana nakta. Þegar hann þurfi samt að þvo henni noti hann þriggja sekúndna reglu, þ.e. snerti hana ekki lengur en 3 sekúndur um kynfærin. Ákærði kvaðst aldrei hafa gert neitt við A sem hún hafi getað túlkað sem kynferðislegt.

Í yfirheyrslu hjá lögreglu 10. nóvember 2008 sagði ákærði m.a. að hann telji að hann sé eini karlmaðurinn sem hafi umgengist A. Þess vegna detti honum einungis í hug að hún hafi verið misnotuð á leikskólanum. A hafi stundum skriðið upp í til hans á næturnar, líklegast í um fjögur skipti, en þá hafi hann ávallt verið klæddur í náttbuxur. Hann kvaðst halda að mögulegt sé að D  hafi gert A eitthvað eða hún hafi séð ákærða og B u stunda kynlíf. Hún hafi sofið í sama herbergi og þau til að byrja með en eftir að hún varð eins og hálfs árs gömul hafi hún sofið í sérherbergi.

Í yfirheyrslu 14. nóvember 2008 kom m.a. fram hjá ákærða að hann ætti það til að ljúga ef hann væri undir einhvers konar álagi. Hann taldi að hann væri undir álagi við að sitja undir þessum spurningum í yfirheyrslunni. Hann hafi bloggað ýmislegt á netið um sjálfan sig en það væri mest allt tilbúningur. Hann kvaðst hafa séð í auglýsingu á internetinu að ein af hverjum þrettán barnapíum misnotuðu börn kynferðislega. Hann hafi haft 15 barnapíur í æsku þannig að hann hafi talið líklegt að hann hafi verið misnotaður þó hann muni ekki eftir því. Spurður um cd-disk, sem fannst á heimili hans og inniheldur tónlist og texta sem fjalla um kynferðisbrot, kvaðst hann hafa hlustað á þennan disk en ekki velt textanum fyrir sér.

Þann 20. nóvember 2008 var ákærði yfirheyrður í síðasta skipti af lögreglu. Hann sagði að það hafi gerst einu sinni að A hafi togað í typpið á honum þegar hann var að pissa en hann hafi sagt henni að gera þetta ekki

Fyrir dómi skýrði ákærði svo frá að móðir hans hafi mikið passað A og á köflum hafi barnið mestmegnis verið hjá henni. Hann taldi að enginn annar karlmaður en hann hafi umgengist A. Hann taldi engar líkur á að hálfbróðir hans D hafi misnotað A. Hann kvað móður sína fyrst hafa tekið eftir kynferðislegri hegðun hjá A en þá hafi þau verið í [...] og fjórir til sex mánuðir liðnir frá því að hún hafi byrjað í leikskóla. Þessi kynferðislega hegðun hafi lýst sér þannig að hún hafi nuddað sér upp við dúkku. Þegar hún hafi gert þetta að honum ásjáandi hafi hann tekið hana rækilega í gegn og sagt henni að þetta mætti ekki gera. Hún hafi þá gert þetta einu sinni aftur og hafi það atvikast þannig að hún hafi staðið við rúmið þar sem tuskukanína lá og sagt: ,,Má ég tyggja“. Hann kvaðst hafa skammað hana aftur og eftir það hafi ekki borið á þessu. Hann kvaðst hafa haft samband við félagsmálayfirvöld í [...] og óskað eftir hjálp út af þessu. Honum hafi verið sagt að þetta gæti verið eðlileg hegðun. Á þessum tíma hafi barnið mest verið hjá ömmu sinni. Þegar hann var fluttur aftur á [...] hafi mamma hans sagt honum frá því að A hafi sagt við hana: ,,Ætlar þú að sleikja mig?“ Mamma hans hafi kallað á hann og þau hafi spurt A hver væri að sleikja hana. Hún hafi svarað að pabbi gerði það. Hann gat ekki gefið aðra skýringu á hegðun barnsins en að hún hafi séð þau hjónin einhvern tímann stunda kynlíf.

IV.

Vitnið C, móðir ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi annast A mikið, nánast frá því að hún fæddist. Hún sagði að A hafi búið hjá foreldrum sínum fyrsta árið en þegar móðir hennar hafi fengið köst hafi A farið til hennar. Þá hafi hún stundum dvalið hjá henni frá tíu dögum allt upp í einn mánuð. Þegar ákærði og fjölskylda hans hafi flutt til [...] í desember 2006 kvaðst C  hafa leigt íbúð sína út í [...] og fengið leigða íbúð í sömu blokk á hæðinni fyrir ofan ákærða og fjölskyldu hans. Hún hafi gert þetta til að styðja þau. Í [...] hafi B stundum fengið köst og barnið þá dvalið hjá henni. Þá hafi B stundum farið upp á land í meðferðir og komið síðan heim á milli. C var spurð hvernig samskiptum D  og A hafi verið háttað. Hún sagði að A dýrki hann. Hann hafi leikið við hana og verið góður við hana en hún passi alltaf vel upp á A þegar karlmenn séu í kringum hana vegna fyrri reynslu sinnar er hún var ung. D hafði búið í [...] og verið í fangelsi í eitt ár. Hann hafi farið til [...]4. júní 2008 og ekki komið til Íslands eftir það. Hann hafi búið í íbúð hennar í [...] þegar hún hafi verið í [...] en D  hafi aldrei gist eða búið í hennar íbúð á sama tíma og A hafi verið þar. Hún var þess fullviss að þau hafi aldrei sofið undir sama þaki næturlangt. C kveðst hafa tekið eftir skrýtinni hegðun hjá A í [...]. Hún hafi verið að nota orðið tyggja og hafi henni skilist að hún notaði það orð yfir typpi. Hún sagði að fyrir u.þ.b. einum mánuði, í byrjun október, hafi A verið heima hjá henni ásamt ákærða og fleira fólki. Hún hafi verið nýbúin að taka A úr baði og fært hana inn í svefnherbergi til að klæða hana í. A hafi verið í rúminu og allsber í handklæðinu. C kveðst hafa ætlað að blása á magann á henni en þá hafi A stoppað hana og sagt: ,,Nei, ekki sleikja pjölluna“. C kveðst hafa kallað á ákærða sem hafi sagt að þetta gengi ekki lengur. Hann yrði að láta athuga þetta. Hann hafi verið að vísa til þess sem gerst hefði í [...]. Hún kveðst hafa heyrt A í fyrsta skipti segja tyggja í [...] en næst í september 2008. Eftir það hafi það gerst nokkrum sinnum á kvöldin er A hafi verið heima hjá henni. Nokkrum sinnum hafi hún komið að A þar sem hún hafi verið með bangsa undir teppi og klemmt bangsann milli lappanna við kynfærin. Síðan hafi hún lyft sér upp og niður og sagt á sama tíma: ,,Hún er að tyggja“. C kvaðst hafa spurt ákærða beint út hvort hann hafi gert eitthvað kynferðislegt við A en hann hafi sagt að hann myndi aldrei gera nokkuð slíkt. Í eitt skipti hafi A staðið upp við borð í stofunni hjá henni og setið á horni borðsins með rassinn á horninu og snúið fram. Síðan hafi hún hreyft mjaðmirnar fram og til baka og C spurt hana hvað hún væri að gera. Hún hafi þá svarað: ,,Ég er að tyggja“.

E og F tóku A í neyðarvistun í ellefu daga, frá 23. október til 3. nóvember. E sagði að A hafi sofið illa á nóttunni og vaknað með martraðir. Hún hafi tekið honum vel og verið hændari að honum en F. Hann hafi einu sinni séð hana fara með hönd sína inn fyrir nærbuxur sínar og fróað sér. Hún hafi gert þetta eins og henni hafi verið kennt það. Þá sagði E að A hafi strax farið að kalla þau pabba og mömmu.

F sagði að A hafi strax og hún kom inn um dyrnar hlaupið í fang hennar og kallað hana mömmu. Hún hafi á sama hátt hlaupið til E er hann kom og kallað hann pabba. Einu sinni hafi hún komið að A þar sem hún hafi legið í rúmi sínu með fæturna í sundur og verið að fróa sér. Þegar A hafi verið búin að vera nokkra daga á heimili þeirra hafi hún séð frekari kynferðislega hegðun hjá henni. Hún hafi byrjað að fróa sér mörgum sinnum á dag með fingrum og svo þefað af fingrunum á sér. Henni hafi virst sem A hafi notað fróun sem tæki til að róa sig.

G hafði A í fóstri frá 3. til 18. nóvember. Hún kvað A hafa verið eirðarlausa og mikið á flökti. Hún hafi mikið talað um typpi þegar hún hafi farið í sturtu eða farið í sundlaug. Þá hafi hún séð hana fróa sér. Einu sinni hafi hún séð hana nota dúkku til að fróa sér en hún hafi bannað henni það. Henni hafi virst sem að A þekkti ekki hugtakið mamma og pabbi því að hún hafi kallað fólk úti í búð þeim nöfnum.

H og I eru núverandi fósturforeldrar A og hafa haft hana í fóstri frá 17. nóvember 2008. H sagði að er A hafi eitt sinn verið í sturtu hafi A spurt hana hvort hún vildi sleikja sig. Hún hafi þá sagt við A að það gerði hún ekki. Þá hafi A spurt: ,,Má þá bara D sleikja mig?“ Eins hafi hún spurt hvort að hún vildi ,,tyggja“ sig. H sagði að það þurfi að standa yfir henni þegar hún fari í sturtu því að hún vilji troða öllu lauslega inn í kynfæri sín. Þá hefði hún einnig séð hana fróa sér í sturtu. Hún hafi eitt sinn glennt sig út fyrir framan hana og spurt hvort hún vildi ekki ,,tyggja hana“.

I sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að A hafi í fyrstu ekki farið að fyrirmælum og verið í andstöðu við allt. Einu sinni haft hún spurt hann er hún hafi legið uppi í rúmi: ,,Ætlarðu að tyggja mig?“. Eitt sinn hafi hann komið með hana á  snyrtistofu þar sem hafi hangið á vegg mynd af nakinn konu sem lá útaf með óræðan svip. Þá hafi A sagt: ,,Pabbi hennar er að tyggja hana“.

[...] félagsráðgjafi hjá [...] gaf skýrslu fyrir dómnum. Hún sagði frá heimsókn sinni í leikskóla A þar sem hún tók viðtal við hana sem var upphaf þessa máls. Skýrði hún á sama veg frá og fram kemur í skýrslu hennar sem rakin er hér að framan.

[...], leikskólastjóri í leikskólanum [...] í [...], sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að A hafi byrjað í leikskólanum 1. september 2008. Hún sagði að föðuramma A, C, hafi ávallt komið með A í leikskólann og sótt hana aftur í lok skóladags. [...] sagði að eftir að A hafi komið í leikskólann hafi fóstrurnar veitt athygli afbrigðilegri hegðun hennar. Ávallt er hún hafi fengið dúkku í hendurnar hafi hún athugað fyrst hvort kynið væri með því að skoða þar sem kynfæri áttu að vera. Þetta hafi þeim fundist sérkennileg hegðun hjá þriggja ára gömlu barni. A hafi ekki mikið leikið sér með dúkkurnar en þegar hún hafi verið með þær, hafi hún klætt þær úr til þess að skoða kynfærin. [...] sagðist hafa verið viðstödd þegar [...] félagsráðgjafi kom í heimsókn 23. október 2008 og tók viðtal við A. Skýrði hún á sama veg frá og fram kemur í skýrslu [...].[...] kvaðst hafa 20 ára reynslu sem starfsmaður á leikskóla en hún hafi aldrei orðið vitni að öðru eins.

[...]er deildarstjóri á leikskólanum [...]. Hún sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að ákærði hafi sagt við hana, eftir að A byrjaði á leikskólanum að þegar hún léki sér með dúkku þá líti hún á kyn dúkknanna og ef dúkkan væri karlkyns þá klæddi hún dúkkuna úr fötunum og léki sér að dúkkunni á kynferðislegan hátt. Ákærði hafi ekki útskýrt þetta nánar en sagt að þau hafi búið í [...] og það búi mikið af Pólverjum í [...] og ,,maður veit ekki hvað þeir hafi verið að gera“. Ákærði hafi ekki skýrt þetta frekar út. [...] sagði jafnframt að henni hafi virst sem A skildi ekki orðin mamma og pabbi því að hún hafi notað þau orð við hvern sem var.

[...], starfsmaður leikskólans [...] í [...], sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að A hafi dvalið hjá þeim í leikskólanum frá 10. apríl 2008 til 1. september sama ár. Hún kvaðst ekki hafa orðið vör við óeðlilega hegðun hjá A af kynferðislegum toga.

B, fyrrverandi eiginkona ákærða, sagði fyrir dómi að C hefði komið að máli við hana þegar A hafi verið u.þ.b. eins og hálfs árs gömul og sagt við hana að sér fyndist fæðingarvegur A vera of stór. Roði hafi verið á kynfærum A og hafi hún fengið krem sem hún hafi borið á hana reglulega og þá hafi roðinn farið eftir eina viku eða svo. Hún sagði að þar sem enginn hafi umgengist barnið nema hún, C og ákærði, hafi hún spurt C hvort hún hefði misnotað barnið kynferðislega. C hafði þá brotnað niður og farið að hágráta og sagt að það gæti hún aldrei gert barninu. B kvaðst hafa beðið C afsökunar. B kvaðst hafa flutt til [...] eftir að þau slitu samvistum í júní 2007. Eftir að ákærði og A voru flutt til [...] hafi hún dvalið um mánaðartíma hjá þeim en þá hafi hún verið húsnæðislaus. Þá hafi hún fyrst heyrt A tala um að tyggja. Ákærði hafi sagt henni að A ætti það til að skaka sér á dúkkum. Hún kvaðst hafa séð þetta einu sinni og spurt A hvað hún væri að gera. Hún hafi sagt: ,,Ég er að tyggja“. B kvaðst hafa sagt henni að þetta mætti hún ekki gera. Ákærði hafi sagt henni að hann hafi talað við félagsmálayfirvöld í [...] vegna þessarar hegðunar A. B taldi það ólíklegt að A hafi séð hana og ákærða stunda kynlíf. Þau hafi alltaf passað upp á að það gerðist ekki enda hafi A verið með sérherbergi og sofið þar á nóttunni.

J er móðurafi A. Hann sagði m.a. í skýrslu sinni fyrir dómi að B og ákærði hafi ekki verið hæf til að ala upp barn og hafi hann haft áhyggjur af uppeldinu og velferð barnsins. Þess vegna hafi hann sett sig í samband við barnaverndarnefnd fljótlega eftir fæðingu barnsins. Ákærði hafi alveg stjórnað B og komið í veg fyrir að hann hefði eðlileg samskipti við A. J sagðist einu sinni hafa orðið vitni að því er A hafi leikið sér að dúkkum á kynferðislegan hátt. Það hafi verið í júní eða júlí 2008 og einnig eitt skipti um veturinn 2008. A hafi þá verið að skaka sér á dúkkum og m.a. sett dúkkuna aftan á sig.

K er eiginkona J og hefur verið í sambúð með J frá 1999. K starfar sem dagmamma og var með A í pössun á tímabili. K sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að barninu hafi verið komið í pössun hjá henni á vegum félagsmálayfirvalda þegar það hafi verið um eins árs gamalt. Þá sagði K að hún hafi stundum tekið A til sín þar sem hún hafi ekki treyst ákærða og B fyrir uppeldinu. Föðuramma A, C, hafi einnig verið að passa A. C hafi einu sinni komið að máli við K og sagt við hana að sér fyndist fæðingarvegur A of stór. K hafi farið að athuga þetta og hafi verið sama sinnis. A hafi á þessum tíma verið um eins og hálfs árs gömul. C hafi sett sig í samband við [...] hjá barnaverndarnefnd [...] og K kvaðst hafa spurt [...] hvort hún mætti ekki fara með A til læknis án þess að foreldrarnir vissu af því. [...] hafði þá sagt að það mætti ekki án vitundar foreldra. K kvaðst hafa hugsað sér að fara samt með barnið til læknis en ekkert hafi orðið úr því vegna þess að stuttu síðar hafi A og fjölskylda hennar flutt til [...]. Eftir að ákærði var fluttur frá [...] um einu og hálfu ári síðar og sestur að í [...] hafi C stundum komið með A heim til K og J. Í eitt skiptið hafi C sagt K að hún hafi tekið allar dúkkurnar af A þar sem hún væri farin að haga sér svo undarlega með dúkkurnar. Þetta hafi verið í mars eða apríl 2008. K kvaðst hafa hvatt C til að hafa samband við Barnahús vegna þessa. K sagðist einu sinni hafa heyrt A segja: ,,Það má ekki tyggja mig”. C hafi þá verið búin að segja henni frá hegðun A og hvað þetta orð þýddi.

L kvaðst hafa kynnst ákærða á einkamal.is á netinu 15. september sl. og þau hist á kaffihúsi tveimur dögum síðar. L sagði ákærða vera æðislegan í alla staði og ekki setja fyrir sig að hún ætti tvö börn, stúlkur sem væru tveggja og sjö ára. Yngri stúlkan sé mjög hænd að ákærða og sæki jafnvel frekar í hann en hana. Ákærði hafi sagt henni að A hafi byrjað að segja orðið tyggja þegar hún hafi verið eins og hálfs árs. Hann hafi jafnframt sagt henni að A eigi það til að leggjast undir teppi með dúkkum og sé með þeim eins og karl og kona.

[...] barnalæknir sagði að meyjarhaftsop A hafi opnast greiðlega sem sé sjaldgæft á svona ungu barni en hins vegar væri opið víðara ef karlmaður hefði haft samfarir við stúlkuna. [...] sagði að A hafi kallað sig pabba þegar hann var að skoða hana.

[...], forstöðumaður Barnahúss, hefur tekið A í meðferð og hitt hana tvisvar sinnum. Hún sagðist hafa látið hana hafa fjórar dúkkur, tvær fullorðins dúkkur af sitt hvoru kyni og tvö börn, einnig af sitt hvoru kyni. A hafi leikið sér með þær á eðlilegan máta til að byrja með en síðan viljað baða þær. Hún hafi byrjað að klæða þær úr fötum og er hún hafi séð kynfæri þeirra hafi hún bókstaflega umturnast. Hún hafi lagt stúlkuna og mömmuna á fjórar fætur og karldúkkurnar aftan á og hreyft dúkkurnar fram og til baka og sagt að nú væru þær að ,,tyggja“. Síðan hafi hún sagt að hún ætlaði líka að ,,tyggja“ og rifið síg úr öllum fötum nema nærbol. [...] sagðist hafa reynt að halda aftur af henni en hún ekki hlýtt. Þá hafi hún lagst á fjórar fætur og sett karldúkkuna aftan á sig og hreyft sig fram og til baka. Síðan hafi hún sett dúkkuna í klofið á sér og sagt að nú væri hún að sleikja hana. Hún hafi spurt [...] hvort hún vildi sleikja sig. [...] sagðist aldrei áður hafa séð svona sterka kynferðislega hegðun hjá svona ungu barni.

Auk framangreindra vitna komu fyrir dóminn og gáfu skýrslu M, móðir B, [...] læknir, sem rannsakaði ákærða eftir handtöku hans, [...] sálfræðingur, sem staðfesti sálfræðimat sitt, og dr. Jón [...] sálfræðingur, sem gaf skýrslu um afskipti sín af ákærða er hann var 17 ára.

V.

Eins og að framan er rakið voru ákærði og þáverandi eiginkona hans, B, skjólstæðingar félagsmálayfirvalda áður en barnið A fæddist. Eftir fæðingu barnsins fylgdust barnaverndaryfirvöld í [...] með heimilinu og tóku síðan ákvörðun um að gera kröfu um að foreldrarnir yrðu sviptir forsjá barnsins. Sú krafa náði ekki fram að ganga fyrir dómi. Frá upphafi passaði föðuramma barnsins, C, það mikið og þegar fjölskyldan flutti til [...], í desember 2006, flutti C með og leigði sér íbúð í sama húsi og ákærði og fjölskylda hans. Ákærði og B slitu samvistum í júní 2007 og fluttist B þá frá [...] en ákærði fékk forsjá barnsins. C hefur lýst því að það hafi verið í september 2007 í [...] sem hún hafi fyrst heyrt A segja orðið tyggja og virtist henni hún nota það yfir typpi. Ákærði segir að hann hafi fyrst orðið var við kynferðislega hegðun hjá A um svipað leyti og hafi hann leitað til félagsmálayfirvalda í [...] vegna þess en engin gögn eru í málinu sem staðfesta þá frásögn ákærða. C segir að eftir að ákærði og A voru flutt til [...] í febrúar 2008 hafi fyrst farið að bera á kynferðislegri hegðun hjá A með þeim hætti að hún hafi nokkrum sinnum, er hún hafi legið uppi í sófa með bangsa undir teppi, sett bangsann á kynfæri sín og síðan hreyft mjaðmirnar eins og um samfarir væri að ræða. Hafi hún þá sagt að hún væri að ,,tyggja“. Hún hafi spurt ákærða út í þetta sem hafi sagt að hann hefði einnig tekið eftir þessu heima hjá sér. Í september 2008 hafi það gerst að A hafi viðhaft samfarahreyfingar er hún hafi staðið við borðstofuborð heima hjá C og sagst vera að ,,tyggja“. Ákærði hringdi í félagsmálayfirvöld í [...] 11. júlí 2008 og tilkynnti um þessa hegðun stúlkunnar.

Hér að framan er því lýst hvernig A viðhafði samfarahreyfingar við dúkkur í Barnahúsi í nokkrum kynferðislegum stellingum. Hún lék sér með dúkkur á þann hátt að hún klæddi þær úr öllum fötum, klæddi sjálfa sig úr að neðan og nuddaði dúkkunum við kynfæri sín, bæði í þeirri stellingu að hún lá útaf á bakinu og eins á þann hátt að hún lagðist á fjóra fætur og setti dúkkuna aftan á rassinn á sér. Hún stillti dúkku sitjandi upp, glennti sundur fætur hennar og lagðist sjálf á fjóra fætur fyrir framan hana og sleikti klof dúkkunnar. Hún bauð yfirheyranda að gera slíkt hið sama við sig. Hún talaði um í þessu sambandi að hún væri að ,,tyggja“ og að láta sleikja pjölluna á sér. Þá lagðist hún á bakið og fróaði sér. Fósturforeldrar hennar lýstu því fyrir dómi hvernig þau urðu vitni að svipaðri hegðun og þá hefur [...], forstöðumaður Barnahúss, sem hefur tekið stúlkuna í meðferð, lýst hegðun hennar á sama hátt. Sagðist [...] ekki áður hafa séð svona sterka kynferðislega hegðun hjá svona ungu barni.

Að framansögðu telur dómurinn útilokað að stúlkan hafi tileinkað sér þessa hegðun af því einu að hafa orðið vitni að kynlífsathöfnum fullorðins fólks eins og ákærði hefur haldið fram. Hegðunin bendir til margendurtekinnar upplifunar og virkar bæði sterk og sönn. Það er því mat dómsins að hegðun A bendi eindregið til þess að hún hafi orðið fyrir kynferðislegi reynslu enda talar hún um að ,,tyggja mig“ og ,,sleikja pjölluna mína“. Það er því niðurstaða dómsins að brotið hafi verið gegn stúlkunni á alvarlegan hátt og hún ítrekað misnotuð kynferðislega. Er það í samræmi við álit sálfræðinganna tveggja sem unnu að sálfræðimati að ýmislegt bendi til þess að hún hafi verið misnotuð. Það sé t.d. algengt hjá börnum, sem hafi verið misnotuð, að þau séu hrædd við skrímsli, sofi illa og fái martraðir. A hefur sýnt endurtekin og ofsafenginn hræðsluviðbrögð við ákveðnar aðstæður sem tengjast myrkri. Þá sé það einnig einkenni á barni sem hafi verið misnotað að það missi hæfileikann til að greina milli óeðlilegra og eðlilegra tengsla en A er hömlulaus í þeim efnum.

Ákærði hefur haft stúlkuna í sinni umsjá frá því að hann og B slitu samvistum í júní 2007. B  var ekki í samvistum við barnið frá þeim tíma þar til ákærði og A fluttu til [...] í febrúar 2008. Fram hefur komið hjá ákærða að hann telur líklega skýringu á hegðun stúlkunnar vera þá að hún hafi einhvern tímann séð til foreldra sinna í samförum. B þvertók hins vegar fyrir það í skýrslu sinni fyrir dómi og sagði barnið hafa haft sérherbergi frá því þau fluttu til [...] og hafi sofið þar á nóttunni. Í einni yfirheyrslu hjá lögreglu taldi ákærði hugsanlegt að hálfbróðir hans sammæðra, D, ætti hlut að máli en féll frá þeirri tilgátu síðar. A var aðeins eins og hálfs árs þegar hún flutti með foreldrum sínum til [...] í desember 2006 og dvaldi þar til tæplegra þriggja ára aldurs. Samkvæmt gögnum málsins hitti D stúlkuna ekki fyrr en hún flutti til [...] í febrúar 2008 en samkvæmt framburði ákærða og móður hans varð vart við kynferðislega hegðun stúlkunnar meðan þau dvöldu í [...]. D mun hafa hitt stúlkuna á heimili C en samkvæmt framburði hennar var hann aldrei einn með henni. D flutti af landi brott 4. júní 2008. Fram hefur komið í gögnum málsins að ákærði var vinafár, heimilið einangrað og lítill umgangur annarra en heimilisfólks. A virðist því nær eingöngu hafa umgengist ákærða og ömmu sína frá því vart varð við kynferðislega hegðun hennar um haustið 2007. Það er því ekki öðrum karlmönnum en ákærða til að dreifa sem gætu hafa brotið gegn stúlkunni en ótrúverðug er sú skýring ákærða að brotið hafi verið gegn henni í leikskólanum og styðst sú skýring ekki við nein gögn.

Framburður ákærða hefur verið reikull og  ótrúverðugur. Hefur hann gefið ýmsar skýringar á hegðun stúlkunnar eins og að Pólverjar hafi átt hlut að máli er þau bjuggu í [...], að hálfbróðir hans eða móðir hafi  hugsanlega misnotað stúlkuna, sem hann taldi síðar af og frá, og loks að fóstrur í leikskólanum ættu hlut að máli, sem hann taldi þó ólíklegt. Þá hefur ákærði viðurkennt að hann eigi það til að segja stundum ósatt, sérstaklega þegar hann er undir álagi eins og í yfirheyrslu hjá lögreglu. Loks hafði ákærði ríka tilhneigingu til að fegra sjálfan sig í yfirheyrslum hjá lögreglu og fyrir dómi.

Skoðun [...] barnalæknis leiddi ekki í ljós líkamlega áverka eða að karlmaður hefði haft kynmök við stúlkuna en útilokar ekki að hún hafi orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi.

Þegar allt framangreint er virt í heild þykir það hafið yfir skynsamlega vafa að ákærði hafi haft önnur kynferðismök við A en samræði, en læknir sá, er skoðaði stúlkuna, telur útilokað að um samræði hafi verið að ræða. Verður ákærði því, þrátt fyrir neitun hans, fundinn sekur um að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við dóttur sína á tímabili frá september 2007 til nóvember 2008. Teljast brot hans varða við 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum en brotin teljast framin eftir að lög nr. 61/2007 tóku gildi 4. apríl 2007.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingu. Brot ákærða eru alvarleg og beinast að dóttur hans sem honum var trúað fyrir. Með hliðsjón af þessu og með vísan til 1. tl. og 7. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing hans ákveðin fangelsi í 2 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. nóvember 2008 kemur til frádráttar refsingu.

Af hálfu brotaþola hafa verið settar fram miskabótakröfur eins og að framan greinir. Ljóst er, að brot þau sem sakfellt er fyrir í málinu, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum og á stúlkan því rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Í málinu liggja ekki fyrir sérstök gögn um líðan og hagi stúlkunnar utan framangreint vottorð tveggja sálfræðinga. Á grundvelli þessa þykir rétt að ákveða bætur til A að fjárhæð 900.000 krónur. Bera þær vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til 11. janúar 2009 en ákærða var kynnt bótakrafan 11. desember 2008. Frá 11. janúar 2009 til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað samkvæmt 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað er heildarsakarkostnaður 726.286 krónur að viðbættum reikningi vegna DNA-rannsóknar frá háskólanum í Osló, sem lagður var fram við aðalmeðferð málsins, að fjárhæð 345.342 krónur. Ekki er unnt að taka til greina kostnað vegna ritvinnslu og ekki þykir hafa verið þörf á að ákærði sætti geðrannsókn. Hins vegar fellur undir sakarkostnað réttarfræðileg rannsókn að fjárhæð 60.000 krónur, læknisvottorð að fjárhæð 5000 krónur og áðurnefnd DNA-rannsókn að fjárhæð 345.342 krónur eða samtals 410.342 krónur. Að auki greiði ákærði málsvarnarlaun verjanda síns, 1.400.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og þóknun réttargæslumanns brotaþola,  240.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, eða samtals 2.050.342 krónur.

Héraðsdómararnir Gunnar Aðalsteinsson, Arnfríður Einarsdóttir og Ragnheiður Bragadóttir kveða um dóm þennan.

Dómsorð

 Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 6. nóvember 2008 kemur til frádráttar refsingu.

Ákærði greiði A 900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. október 2008 til 11. janúar 2009 en frá þeim degi til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr.

Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, 2.050.342 krónur, þ.m.t. málsvarnarlaun Unnars Steins Bjarndal hdl., 1.400.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 240.000 krónur.