Hæstiréttur íslands

Mál nr. 440/2005


Lykilorð

  • Jarðalög
  • Forkaupsréttur
  • Sveitarstjórn
  • Stjórnsýsla


Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. mars 2006.

Nr. 440/2005.

Húnavatnshreppur

(Már Pétursson hrl.)

gegn

Hauki Pálssyni

Oddnýju Maríu Gunnarsdóttur og

Víði Frey Guðmundssyni og

Guðmundi Ingvarssyni

til réttargæslu

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Jarðalög. Forkaupsréttur. Sveitarstjórn. Stjórnsýsla.

H krafðist viðurkenningar á rétti sínum til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Á með vísan til 30. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976, en ákvörðun H þess efnis hafði verið felld út gildi með úrskurði landbúnaðarráðuneytisins. Í héraðsdómi, sem staðfestur var með vísan til forsendna hans, var byggt á því að H hefði neytt forkaupsréttar að jörðinni í þeim eina tilgangi að selja hana aftur til E, eiganda nærliggjandi jarðar, til að skapa honum skilyrði til frekari skógræktar. Fyrir lá að HP, kaupandi jarðarinnar, hafði gert H grein fyrir því að hann hygðist stunda skógrækt á jörðinni. Talið var að H hefði borið að kanna nánar áform HP og hvort þau gætu farið saman við hagsmuni H af nýtingu jarðarinnar. Það gerði H ekki og var ekki sýnt fram á að lögmætum hagsmunum hreppsins hafi verið stefnt í hættu ef kaup HP á jörðinni næðu fram að ganga eða að hreppurinn hefði brýna hagsmuni af því að E stundaði skógrækt á jörðinni frekar en aðrir. Af þessum ástæðum og með hliðsjón af því að beiting forkaupsréttar var íþyngjandi fyrir HP og inngrip í samningsfrelsi var kröfu H hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2005. Hann krefst þess að viðurkenndur verði réttur sinn til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Húnavatnshreppi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem stefndu Oddnýju Maríu Gunnarsdóttur og Víði Frey Guðmundssyni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms sameinaðist stefnandi málsins í héraði, Svínavatnshreppur, þremur öðrum sveitarfélögum frá 1. janúar 2006 að telja og hefur sameinaða sveitarfélagið hlotið heitið Húnavatnshreppur. Það sveitarfélag hefur tekið við aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en um hann og gjafsóknarkostnað stefndu Oddnýjar Maríu og Víðis Freys hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Haukur Pálsson, Oddný María Gunnarsdóttir og Víðir Freyr Guðmundsson, eru sýkn af kröfu áfrýjanda, Húnavatnshrepps, um að viðurkenndur verði réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Húnavatnshreppi.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Áfrýjandi greiði málskostnað fyrir Hæstarétti til stefnda Hauks, 100.000 krónur, og 200.000 krónur, sem renni í ríkissjóð. Þá greiði áfrýjandi réttargæslustefnda, Guðmundi Ingvarssyni, 50.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu Oddnýjar Maríu og Víðis Freys fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 100.000 krónur vegna hvors.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. júlí 2005.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 22. júní sl., er höfðað af Svínavatnshreppi, Austur-Húnavatnssýslu með stefnu birtri 21., 22. og 27. janúar sl. á hendur Hauki Pálssyni, Röðli, Torfalækjarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, Oddnýju Maríu Gunnarsdóttur, Brekkubyggð 12, Blönduósi, Víði Frey Guðmundssyni, Akurgerði, Ölfusi og til réttargæslu Guðmundi Ingvarssyni, Akurgerði, Ölfusi.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi og að um leið verði hrundið úrskurði  landbúnaðarráðuneytisins í máli nr. LAN 03030078 er felldi úr gildi ákvörðun stefnanda um að neyta forkaupsréttar að nefndri jörð. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu. Ekki eru gerðar sjálfstæðar dómkröfur á hendur réttargæslustefnda.

Stefndu krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefndu Oddný María og Víðir Freyr hafa gjafsóknarleyfi og krefjast málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. 

II

Mál þar sem gerðar voru sömu dómkröfur á hendur stefndu Hauki og Oddnýju Maríu hefur áður verið rekið fyrir dóminum og var það dæmt 16. febrúar 2004. Hæstiréttur Íslands vísaði málinu frá héraðsdómi með dómi þann 18. nóvember sl. Í þessu máli eru lögð fram sömu gögn og í fyrra málinu að viðbættum þeim gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt. Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum vísað til héraðsdómsstefnu í fyrra málinu og byggir hann málatilbúnað sinn í raun á þeirri stefnu en áréttar eingöngu helstu atriði í stefnu máls þessa. Lögmenn aðila lýstu því yfir að framburð aðila og vitna sem gefinn var við flutning fyrra málsins skyldi leggja til grundvallar í þessu máli og því voru skýrslur af þeim ekki teknar við rekstur þessa máls nema að litlum hluta enda staðfestu aðilar og vitni skýrslur úr fyrra málinu.

III

Málavextir

Jörðin Ásar í Svínavatnshreppi Austur-Húnavatnssýslu telst til svokallaðra Bakásajarða en það eru þær jarðir í hreppnum kallaðar sem eiga land vestanmegin að Blöndu í Langadal. Jörðin var gerð að ættaróðali á árinu 1953. Á árinu 1986 tók Erlingur Ingvarsson við óðalinu af bróður sínum. Erlingur átti einnig og á enn í dag jörðina Hamar sem er næsta jörð norðan við Ása og nytjaði um tíma báðar jarðirnar.  Á árinu 1989 taldi Erlingur að hann gæti ekki lengur setið óðalið með sómasamlegum hætti og seldi hann þá bróður sínum Guðmundi Ingvarssyni jörðina enda lá þá fyrir að ekkert barna Erlings vildi taka við óðalinu. Á árinu 2000 seldi Guðmundur stefnda Hauki Pálssyni jörðina en sú sala náði ekki fram að ganga vegna ákvæða jarðalaga um óðul. Með kaupsamningi dagsettum 17. maí 2002 seldi Guðmundur syni sínum Víði Frey jörðina. Þann 12. desember 2002 leysti landbúnaðarráðherra jörðina úr óðalsböndum og sama dag gaf Guðmundur út afsal fyrir jörðinni til Víðis sonar síns. Í janúarmánuði 2003 seldi Víðir Freyr stefnda Hauki jörðina. Jörðin hafði þá verið í eyði í um árabil og byggingar allar í niðurníðslu en stefndi Haukur hafði í nokkur ár verið með jörðina á leigu til beitar fyrir hross.

Á fundi þann 17. febrúar 2003 ákvað sveitarstjórn stefnanda að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Á fundi sveitarstjórnarinnar var bókað að fyrir lægi bréf frá stefnda Hauki þar sem hann geri grein fyrir áformum sínum varðandi jörðina. Einnig að fyrirliggjandi væri bréf frá Erlingi Ingvarssyni, Hamri í Svínavatnshreppi sem óskaði eftir því að sveitarstjórn neytti forkaupsréttar að jörðinni með það í huga að endurselja honum jörðina til skógræktar.

Stefndi Haukur undi ekki þessari ákvörðun stefnanda og með bréfi dagsettu 11. mars 2003 til landbúnaðarráðuneytisins krafðist hann þess að ákvörðuninni yrði hnekkt. Með úrskurði ráðuneytisins uppkveðnum þann 4. júní 2003 var ákvörðun stefnanda um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum felld úr gildi.

Þann 28. júlí 2003 seldi stefndi Haukur stefndu Oddnýju Maríu jörðina og var samningur um kaupin sendur jarðanefnd stefnanda með bréfi dagsettu 30. júlí 2003.  Sama dag var kaupsamningurinn sendur sveitarstjórn stefnanda og þess óskað að stefnandi upplýsti hvort hann hygðist neyta forkaupsréttar.  Í bréfinu tók stefnda fram að hún ætlaði að stunda skógrækt á jörðinni. Nokkrum dögum síðar barst stefnda Hauki bréf frá lögmanni stefnanda dagsett 31. júlí þar sem upplýst er að stefnandi ætli að frá úrskurði ráðuneytisins hnekkt. Á fundi í sveitarstjórn þann 12. ágúst 2003 var erindi stefndu Oddnýjar Maríu tekið fyrir en afgreiðslu þess frestað án þess að afstaða væri tekin til forkaupsréttar. Stefnda Oddný María afhenti kaupsamninginn og afsalið til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Blönduósi þann 23. september 2003 og voru skjölin færð í þinglýsingabók þann 24. september 2003 með athugasemd um að mál hafi verið höfðað þar sem þess er krafist að viðurkenndur verði réttur sveitarfélagsins til að neyta forkaupsréttar að jörðinni.

IV

Málsástæður og lagarök

Stefnandi byggir á því að mál þetta snúist einkum um túlkun á 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Í nefndri grein segi að tilgangur laganna sé að tryggja að nýting lands utan skipulagðar þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Í þessari grein og 6. og 30. gr. laganna felist að sveitarstjórn sé falið að meta hvað sveitarfélaginu sé fyrir bestu. Í sveitarfélagi þar sem íbúar hafa viðurværi sitt af landbúnaði vegi landbúnaðarsjónarmið þyngra en nokkuð annað. Stefnandi heldur því fram að ákvæði 1., 6. og 30. gr. jarðalaga þrengi að samningsfrelsinu og hinni almennu jafnræðisreglu. Sveitarstjórn sé falið að stýra á grundvelli mats að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda. Til þess að víkja lagaákvæðum sem mæla skýrt á um tilteknar takmarkanir á samningsfrelsi til hliðar þurfi að liggja fyrir að ákvæðin séu brot á stjórnarskrá. Mat sem þetta verði alltaf huglægt en í jarðalögum séu engin huglæg skilyrði sett fyrir því að sveitarstjórn megi neyta forkaupsréttar.  Þvert á móti segi t.d. í 2. mgr. 6. gr. laganna svo: ,,Nú telja sveitarstjórn og jarðanefnd, að ráðstöfun fasteignar sé andstæð hagsmunum sveitarfélagsins, og er þá rétt að synja um áformaða ráðstöfun eignarinnar.”

Stefnandi hafnar því að meta þurfi hvort hagsmunir sveitarfélagsins að baki beitingu forkaupsréttarins hafi þurft að vera brýnir líkt og fullyrt sé í úrskurði ráðuneytisins. Ef svo sé þá liggi ekki fyrir hver eigi að meta hvort hagsmunir sveitarfélagsins séu brýnir eða ekki. Er það hlutverk sveitarstjórnar að meta þetta meðal þeirra þátta sem hún á mat um eða verður hún að sanna að aðili sá sem kaupir jörð sé verri kostur fyrir sveitarfélagið þegar fram líða stundir en einhver annar.  Þar fyrir utan séu hagsmunir sveitarfélags augljóslega brýnir af því að sem best sé búið á jörðum sem enn eru í byggð. 

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í úrskurði ráðuneytisins sé ranglega byggt á því að sveitarfélagið hafi tekið sérstakt tillit til hugsanlegs tjóns af völdum hrossa í eigu stefnda Hauks. Því er mótmælt af stefnanda að það sé ólögmætt sjónarmið að telja eina búgrein eiga betur við á tilteknum tíma á tiltekinni jörð en þetta sé eitt þeirra atriða sem sveitarstjórn megi meta. Þá bendir stefnandi á að hvergi komi fram í gögnum málsins að hrossaeign stefnda Hauks hafi skipt máli þegar ákveðið var að neyta forkaupsréttarins. Erlingur Ingvarsson hafi lýst áhyggjum sínum af ,,hrossaflota” og ,,hrossastóði” í bréfum sínum en sveitarstjórn nefni þetta ekki.  Þá bendir stefnandi á að fordómar gagnvart hrossarækt séu varla miklir hjá stefnanda enda séu óvíða fleiri hross á hverja bújörð en í Svínavatnshreppi. 

Af hálfu stefnanda er á því byggt að meðferð landbúnaðarráðuneytisins hafi ekki verið vönduð þar sem á því er byggt að ekki hafi verið lögð fram gögn um það að Erlingur Ingvarsson hafi gert tilraunir til að kaupa jörðina af seljanda. Telur stefnandi að ráðuneytinu hafi borið að kanna þetta atriði úr því að á því er byggt í úrskurðinum en það hafi ekki verið gert. Stefnandi telur að Guðmundur Ingvarsson hafi með málamyndagerningi selt syni sínum jörðina í þeim tilgangi einum að geta losað hana úr óðalsböndum líkt og gert var og þar með hafi Erlingi Ingvarssyni reynst ómögulegt að kaupa jörðina aftur. Er því haldið fram að Erlingur hafi reynt að kaupa Ása af bróður sínum en samningar hafi ekki tekist.

Stefnandi fellst ekki á það sjónarmið sem fram kemur í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins að ólögmætt sé að taka tillit til aldurs við mat á því hvor sé betur til þess fallinn að stunda skógrækt á Ásum, stefndi Haukur eða Erlingur Ingvarsson. Bendir stefnandi á í þessu sambandi að fjölmörg lagaákvæði mæli fyrir um að mönnum skuli mismunað eftir aldri.

Stefnandi heldur því fram að þegar fjallað sé um ógildingu stjórnvaldsathafnar þar sem ekki finnast gallar á undirbúningi eða gerð hennar þá standi málið og falli með því hvort ólögmætum sjónarmiðum hafi verið beitt. Stjórnvald þurfi ekki að færa fram tæmandi rökstuðning og óþarft sé að taka það fram sem allir viti og nægjanlegt sé fyrir stjórnvaldið að færa fram fullgildar málefnalegar ástæður. Í þessu tilfelli hafi slíkt verið gert í greinargerð stefnanda til ráðuneytisins. Heldur stefnandi því fram að í greinargerð hans til ráðuneytisins hafi einungis óbeint verið vikið að sameiningu bújarða en það sé mikilvægt atriðið fyrir sveitarfélög í dreifbýli. Á síðasta Búnaðarþingi hafi sameining bújarða verið rædd og m.a. talið að beita mætti forkaupsrétti sveitarfélaga til að auðvelda sameiningu. Stefnandi telur augljóst að þetta málefnalega atriði hafi verið meðal þeirra sem leiddu til þess að forkaupsrétti var beitt í því tilfelli sem hér um ræðir. Jarðirnar Ásar og Hamar liggi saman og þær báðar ákjósanlegar til skógræktar og því eðlilegt að þær verði sameinaðar. Bóndinn á Hamri sé langt kominn með að planta trjám í það land jarðar sinnar sem hentar til skóræktar og eðlilegt að hann haldi áfram skógrækt undir hatti Norðurlandsskóga með því að planta í land Ása. Það land sé svo mikið að honum endist ekki ævin til að planta í það allt. Á jörðunum sameinuðum sé unnt að stunda hefðbundinn búskap þó trjárækt sé á því landi sem hentar undir hana en það land Hamars sem ekki er undir skógrækt dugi hins vegar ekki til að þar sé rekinn hefðbundinn búskapur. Sameining þessara jarða sé því hagkvæm. 

Stefnandi bendir á að allt land í Svínavatnshreppi annað en það sem liggur vestanmegin í Langadal að Blöndu, sé 120 metrum yfir sjávarmáli eða meira. Því sé vesturhlíð Langadalsins besta skógræktarland í sveitarfélaginu.

Af hálfu stefndu er gerð athugasemd við málatilbúnað stefnanda og efast hann um að ákvæði e og f liða 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála sé uppfyllt með því að vísa til stefnu í fyrra málinu hvað varðar málsástæður og lagarök. Telja stefndu að þessi annmarki eigi að leiða til þess að málinu skuli vísa frá dómi án kröfu ella að ekki verði byggt á öðrum málsástæðum og lagarökum en fram koma í stefnu máls þessa.

Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að eftir að landbúnaðarráðuneytið felldi úr gildi ákvörðun stefnanda um að beita forkaupsrétti hafi stefnda Hauki verið heimilt að ráðstafa jörðinni. Hann hafi selt stefndu Oddnýju jörðina áður en mál þetta var höfðað en þau hafi bæði verið grandlaus um að slíkt stæði til. Stefnda Oddný María hafi þar með verið orðinn löglegur eigandi jarðarinnar og óbundin af ákvörðun um beitingu forkaupsréttar sem að auki var búið að fella úr gildi. Byggja stefndu og á því að þar sem stefnandi aðhafðist ekkert innan 30 daga eftir að honum var boðinn forkaupsréttur þegar stefndu Oddnýju Maríu var seld jörðin hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til að ganga inn í þann samning. Auk þessa hafi stefnanda ekki tekist að hnekkja úrskurði landbúnaðarráðuneytisins frá 4. júní 2003 og því standi hann óhaggaður.  

Af hálfu stefndu er ennfremur byggt á því að stefnandi hafi ekki beitt lögmætum sjónarmiðum og hann hafi ekki stefnt að lögmætu markmiði með þeirri ákvörðun sinni að ganga inn í kaup milli stefnda Víðis Freys og stefnda Hauks. Þá geti hagsmunir stefnanda ekki talist brýnir. Ekki verði annað ráðið en ákvörðun stefnanda hafi byggst á því einu að ganga erinda eins manns en hagsmunir sveitarfélagsins eða íbúa þess hafi ekki ráðið miklu. Að mati stefndu verður að líta til ákvæðist 1. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976 en þar segi ,,Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.” Tilgangur löggjafans hafi verið að veita byggðarlögum utan þéttbýlis meira áhrifavald um skipulag byggðar. Í þessu máli verði ekki séð að verið sé að hafa áhrif á skipulag byggðar heldur einungis verið að velja einn aðila fram yfir annan til að hafa eignarráðin á sinni hendi. Þó Erlingur Ingvarsson kunni að hafa getið sér gott orð fyrir skógrækt þá samrýmist það ekki nefndri 1. gr. að velja hann fram yfir stefndu. Því verði ekki annað ráðið en fyrst og fremst hafi verið að gæta hagsmuna Erlings með ákvörðuninni. Af stefnu í fyrra málinu megi ráða að Erlingur B. Ingvarsson telur sig hafa verið hlunnfarinn í viðskiptum með jörðina en hann hafi ákveðið að ,,fara hina mildari leið” eins og það er orðað í stefnu til að fá jörðina til sín og fá sveitarfélagið til að neyta forkaupsréttar í stað þess að hann höfðaði mál til að ógildingar á þeirri ákvörðun að leysa jörðina úr óðalsböndum. Stefndi mótmælir því að stefnandi blandi sér í ágreining sem þennan og dragi taum eins aðila, slíkt standist ekki lögmætisreglu. Stefnandi eigi ekki að blanda sér í deilur borgaranna.  

Stefndi telur að hugleiðingar stefnanda í stefnu um að Erlingur hafi að fullu nýtt það land sem hann á til skógræktar renni frekari stoðum undir það sem áður er sagt að stefnandi sé í raun að gæta hagsmuna Erlings en sveitarfélagið hafi lítilla sem engra hagsmuna að gæta. Heldur stefndi því fram að Erlingur eigi enn land ónýtt til skógræktar og telur  vandséð að afkoma hans sé undir kaupum á jörðinni komin.  Þar fyrir utan hljóti afkoma skógarbónda til lengri tíma að byggjast á nýtingu skógarins fremur en styrkjum til gróðursetningar. Þá benda stefndu á að gróðursetning og áburðargjöf taki eingöngu nokkra daga um sumar.

Stefndi kveðst ekki sjá að stefnandi hafi grundvallað ákvörðun sína um að neyta forkaupsréttar á kostum þess að sameina jarðir sem verði þá klæddar skógi eins og segi í fyrri stefnu málsins. Þessa sjónarmið sé ekki getið í bréfi stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 2003. Auk þess telur stefndi að hagsmunir stefnanda af slíku séu óljósir og á engan hátt brýnir.  Stefndu benda í þessu sambandi á að stefndi Haukur hafi ætlað að nýta jörðina til skógræktar líkt og stefnda Oddný María.

Stefndi telur að af bréfi stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins frá 10. apríl 2003 verði ekki annað ráðið en að forkaupsrétti sé beitt á þeirri forsendu að Erlingur Ingvarsson sé hæfari til að stunda skógrækt en stefndi Haukur. Stefndu mótmæla þessu mati stefnanda sem ólögmætu og órökstuddu. Þá mótmælir stefndi því að stefnandi hafi hagsmuni af því að velja með þessum hætti einn aðila umfram annan. Þá heldur stefndi því fram að stefnandi hafi óljósa hagsmuni af því að vel sé búið á jörðinni auk þess sem ekkert hafi komið fram í málinu sem leiði til þess að unnt sé að fullyrða að Erlingur Ingvarsson muni búa betur á jörðinni en hann. Þessu sjónarmiði stefnanda mómæla stefndu einnig sem ólögmætu og órökstuddu.

Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi á ólögmætan hátt gripið inn í samningsfrelsið. Þó svo forkaupsréttur sé í þessu tilfelli lögbundinn verði að beita honum af varúð og með málefnalegum hætti. Hagsmunir stefnanda þurfi að vera brýnir til að réttlæta slíkt inngrip en svo hátti ekki til í þessu tilfelli og því hafi verið óheimilt að skerða samningsfrelsið líkt og gert var. 

Stefndi heldur því einnig fram að þau ákvæði jarðalaga sem hér eiga við og beiting þeirra af hálfu stefnanda séu í andstöðu við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 og 40. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993  Um sé að ræða óhæfilega heftingu á mannréttindum miðað við markmið stefnanda.

Stefndu halda því fram að stefnandi hafi upplýst að hann hafi látið aldur stefnda Hauks hafa áhrif á ákvörðun sína. Sjónarmið þetta sé ólögmæt mismunun sem fari í bága við 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Í raun leiði þetta til þess að ákvörðun stefnanda er þegar af þessari ástæðu ógild.  Í þessu samhengi beri að líta til þess að Erlingur Ingvarsson, hverra hagsmuna stefnandi gengur, hafi ekki nema að hluta unnið að skógrækt að Hamri sjálfur.

Loks telja stefndu að stefnandi hafi með ákvörðun sinni brotið meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Ef það var markmið stefnanda að skógrækt yrði stunduð á eyðijörðinni Ásum, þá hefði átt að binda samþykki við sölu jarðarinnar við slíkt skilyrði með heimild í 6. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976.

Hvað lagarök varðar vísa stefndu til ákvæða jarðalaga einkum 1. og 6. gr. og IV. kafla. Einnig til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðallega 10. gr, 11. gr., 12. gr. og 15. gr. Þá vísa stefndu til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Einnig til laga um Evrópska efnahagsvæðið nr. 2/1993 og laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994. Hvað málskostnað varðar vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

V

Niðurstaða

Fallast verður á með stefndu að annmarkar séu á stefnu máls þessa. Stefnan uppfyllir ekki ákvæði e og f liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála. Hér verður að horfa til þess að samskonar mál hefur áður verið rekið fyrir dóminum en því var, eins og áður er getið, vísað frá héraðsdómi. Meðal gagna máls þessa er ágrip Hæstaréttarmálsins og þar er að finna öll gögn sem lögð voru fram í fyrra málinu þar með talin héraðsdómsstefnan. Stefnandi vísar í stefnu máls þessa aðallega til eldri stefnu sinnar. Þessi aðferð stefnanda er í andstöðu við nefnd ákvæði 80. gr. laga um meðferð einkamála. Hins vegar er alveg ljóst hvert sakarefnið er og þó svo að gallar hafi verið á eldri stefnunni líka er það mat dómsins að stefndu hafi af þessu sökum ekki orðið fyrir réttarspjöllum og að unnt sé að leysa úr ágreiningi þeirra með dómi. Málinu verður því ekki vísað frá dómi án kröfu.

Jarðalög nr. 65/1976 hafa nú verið felld úr gildi. Í nýjum jarðalögum hefur forkaupsréttarákvæði það sem byggt er á í þessu máli verið fellt út. Við úrlausn máls þessa verður engu að síður að byggja á þeim lögum sem í gildi voru þegar atvik máls áttu sér stað.

Ætla verður að stefnandi hafi horft til heimildar í 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976 þegar hann ákvað á fundi sínum þann 17. febrúar 2003 að ganga inn í kaupin á jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi en fundargerð ber þetta ekki með sér. Jörðin Ásar er utan þéttbýlis og þannig getur 30. gr. nefndra jarðalaga um forkaupsrétt sveitarfélaga átt við hana. Í fyrstu grein jarðalaga segir svo: ,,Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélag og þeirra, sem landbúnað stunda.” Af greinargerð, sem fylgdi frumvarpi að lögunum, má ráða að ætlun löggjafans var að veita byggðarlögum utan þéttbýlis meira áhrifavald um skipulag byggðar, styrkja stöðu bænda og sveitarfélaga til jarðakaupa.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 70/2002 er leyst úr ágreiningi varðandi forkaupsrétt sveitarfélags að jörð í dreifbýli. Í dóminum kemur m.a. fram að niðurstaða málsins ráðist af því hvort ákvörðun sveitarstjórnarinnar hafi stefnt að lögmætu markmiði. Þá verði einnig að hyggja að því hvort rökstuðningur sveitarfélagsins fyrir því að neyta forkaupsréttar síns hafi verið málefnalegur og því hvort hagsmunir sveitarfélagins af beitingu forkaupsréttarins hafi verið brýnir. Einnig að hafa verði í huga að ákvörðunin hafi verið íþyngjandi fyrir kaupanda jarðarinnar og til þess fallin að raska áformum hans. Þessi sömu sjónarmið eiga við hér. Er þeim málsástæðum stefnanda að hann eigi frjálst mat um það hvort hann beiti forkaupsrétti eða ekki, ef hann einungis gætir að formskilyrðum, því hafnað.

Jörðin Ásar hefur verið í eyði um árabil og byggingar jarðarinnar ónothæfar og ekki líkindi til þess að þar verði stundaður hefðbundinn búskapur í náinni framtíð. Virðist sem nýting jarðarinnar komi helst til með að felast í beit og skógrækt. Af gögnum málsins og framburði oddvita stefnanda fyrir dóminum verður ekki annað ráðið en stefnandi hafi neytt forkaupsréttar að jörðinni í þeim eina tilgangi að selja hana aftur til Erlings Ingvarssonar á Hamri til að skapa honum skilyrði til frekari skógræktar. Erlingur Ingvarsson kom fyrir dóminn og bar að hann væri langt kominn með að planta trjám í heppilegt land að Hamri en hann hafi á undanförnum árum plantað yfir 620.000 plöntum að Hamri og á næsta ári muni hann klára að planta í heppilegt skógræktarland að Hamri. Þá bar hann einnig að hann væri í nánast fullu starfi á Blönduósi fyrir utan skógræktina en tæplega sé hægt að hafa lífsviðurværi af því að planta trjám. Með endursölu jarðarinnar ætlaði stefnandi að tryggja Erlingi land til áframhaldandi skógræktar og taldi að með því væru líkur til þess að atvinna skapaðist af skógræktinni í sveitarfélaginu í framtíðinni.

Í bréfi dagsettu 5. febrúar 2003 gerði stefndi Haukur stefnanda grein fyrir því hvaða áform hann hefði varðandi nýtingu jarðarinnar og kvaðst hann ætla að stunda þar skógrækt. Í greinargerð stefnanda til landbúnaðarráðuneytisins kemur fram að stefnandi telur Erling Ingvarsson á Hamri líklegri en stefnda Hauk til þess að stunda skógrækt á jörðinni og þess jafnframt getið að ekki sjáist áhugi Hauks á skógrækt á þeim jörðum sem hann eigi nú þegar. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að stefnandi hafi kannað með hvaða hætti stefndi Haukur hygðist stunda skógræktina en ætla verður að það skipti einu hver það er sem stundar skógrækt á Ásum en atvinna af skógræktinni ætti að skapast burt séð frá því hver það er sem plantar trjánum.  Í þessu sambandi verður að taka tillit til þess ólíklegt er að Ásar verði nýttir fyrir annað en skógrækt og beit í náinni framtíð og þess að á Hamri er ekki stundaður hefðbundinn búskapur og sameining eða samnýting þeirra jarða því ekki til þess fallin að skjóta stoðum undir annan búskap að Hamri en skógrækt. Af gögnum þeim sem lögð hafa verið fyrir dóminn og framburði Erlings Ingvarssonar sem vinnur nánast fulla vinnu með sinni skógrækt verður ekki annað ráðið en að skógrækt á Ásum verði ekki full atvinna fyrir einn mann hvað þá fleiri auk þess sem plöntun trjáa fer einungis fram hluta úr ári. Stefnanda bar því að kanna áform stefnda Hauks nánar og kanna hvort þau gætu ekki farið saman við hagsmuni stefnanda af nýtingu jarðarinnar. Þetta gerði stefnandi ekki og honum hefur ekki tekist að sýna fram á að lögmætum hagsmunum hans hafi verið stefnt í hættu við það að kaup stefnda Hauks á jörðinni næðu fram að ganga. Auk þess hefur stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi af því brýna hagsmuni að Erlingur Ingvarsson stundi skógrækt að Ásum frekar en aðrir. Einnig verður að hafa í huga að beiting forkaupsréttar var íþyngjandi fyrir stefnda Hauk og inngrip í samningsfrelsi. Þegar af þeim ástæðum sem að framan eru raktar ber að hafna kröfum stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber að dæma stefnanda til að greiða stefndu og réttargæslustefnda málskostnað eins og í dómsorði greinir. Stefndu Oddný María og Víðir Freyr hafa fengið gjafsókn með bréfum dómsmálaráðuneytisins og skal gjafsóknarkostnaður þeirra því greiðast úr ríkissjóði og málskostnaður dæmdur þeim skal greiddur til ríkissjóðs.

Af hálfu stefnanda flutti málið Már Pétursson hæstaréttarlögmaður og af hálfu allra stefndu Bjarni Þór Óskarsson hæstaréttarlögmaður.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Kröfu stefnanda, Svínavatnshrepps, þess efnis að staðfestur verði með dómi réttur hans til að neyta forkaupsréttar að jörðinni Ásum í Svínavatnshreppi og að hrundið verði úrskurði landbúnaðarráðuneytis í máli nr. LAN03030078 Haukur Pálsson gegn hreppsnefnd Svínavatnshrepps uppkveðinn 4. júní 2003, er hafnað.

Stefnandi greiði stefnda Hauki Pálssyni 250.000 krónur, ríkissjóði 500.000 krónur og Guðmundi Ingvarssyni 50.000 krónur í málskostnað

Gjafsóknarkostnaður stefndu, Oddnýjar Maríu Gunnarsdóttur og Víðis Freys Guðmundssonar þar með talin þóknun lögmanns þeirra, Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur  greiðist úr ríkissjóði.