Hæstiréttur íslands

Mál nr. 394/2002


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003.

Nr. 394/2002.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Gunnari Finni Egilson

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur.

G var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur stúlkum. Tekið var fram að héraðsdómur hefði metið framburð G ótrúverðugan en framburð stúlknanna og vinkvenna þeirra trúverðugan, og væru ekki efni til að vefengja það mat. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu G og heimfærslu brota hans til 1. málsl. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 staðfest. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að G, sem var 28 ára gamall, fékk fjórar 12-14 ára telpur til að koma með sér í íbúð, sem hann hafði tekið á leigu í fáa daga, undir því yfirskini, að hann ætlaði að taka af þeim kvikmynd, og myndu þær fá greitt fyrir. Þegar í íbúðina var komið lét hann X hafa við sig munnmök og hafði samfarir við Y, en báðar voru þær 13 ára. Það væri ljóst að telpurnar vissu að ákærði hafði eitthvað kynferðislegt í huga þegar þær fóru með honum inn í herbergið en ekki færi á milli mála að hann notfærði sér þroskaleysi þeirra sem höfðu komið sér í aðstæður sem þær réðu svo ekki við. Virt var G til þyngingar að hann var að afplána dóm fyrir kynferðisbrot, sem hann hlaut í maí 2001, er hann framdi þessi brot. Var G því gert að sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Engin sérfræðigögn voru lögð fram um líðan telpnanna nú og um hugsanleg varanleg áhrif verknaðarins á þær. Þó væri ljóst að slíkur verknaður og hér um ræddi væri til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir yrðu, sálrænum erfiðleikum og væri því rétt að dæma telpunum nokkrar bætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 17. júlí 2002 að ósk ákærða en einnig af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða, en að refsing hans verði þyngd og hann dæmdur til að greiða 1.000.000 krónur til X og Y hvorrar um sig, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2001 til greiðsludags.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds en til vara að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess, að bótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar.

Héraðsdómur hefur metið framburð ákærða fyrir dómi í heild sinni ótrúverðugan en framburð stúlknanna og vinkvenna þeirra trúverðugan, og eru ekki efni til að vefengja það mat. Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og heimfærslu brota til refsiákvæða.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess, að ákærði, sem var 28 ára gamall, fékk fjórar 12 - 14 ára telpur til að koma með sér í íbúð, sem hann hafði tekið á leigu í fáa daga, undir því yfirskini, að hann ætlaði að taka af þeim kvikmynd, og myndu þær fá greitt fyrir. Þegar í íbúðina var komið lét hann X, sem var 13 ára, hafa við sig munnmök og hafði samfarir við Y, sem einnig var 13 ára. Ákærði var að afplána dóm fyrir kynferðisbrot, sem hann hlaut 18. maí 2001, er hann framdi þau brot, sem hann er nú sakfelldur fyrir. Verður að virða þetta ákærða til þyngingar við refsiákvörðun, sbr. 5. og 6. tl. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð framangreinds dóms frá 18. maí 2001, og er skilorðshluti hans, 7 mánuðir, dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. laga nr. 19/1940. Það er ljóst, að telpurnar vissu að ákærði hafði eitthvað kynferðislegt í huga, þegar þær fóru með honum inn í herbergið, en ekki fer á milli mála, að hann notfærði sér þroskaleysi telpnanna, sem höfðu komið sér í aðstæður, sem þær réðu svo ekki við. Samkvæmt öllu framangreindu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Um andlega líðan telpnanna liggur fyrir framburður mæðra þeirra og vottorð læknis á neyðarmóttöku vegna nauðgunar að því er Y varðar. Engin sérfræðigögn hafa verið lögð fram um líðan þeirra nú og um hugsanleg varanleg áhrif verknaðarins á þær. Þó er ljóst, að slíkur verknaður og hér um ræðir, er til þess fallinn að valda þeim, sem fyrir verður, sálrænum erfiðleikum, og er því rétt að dæma telpunum nokkrar bætur, sem þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur til X og 300.000 krónur til Y með dráttarvöxtum eins og ákveðið var í héraðsdómi.

Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað. Dæma ber ákærða til greiðslu alls áfrýjunarkostnaðar málsins, svo sem mælt er fyrir um í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Finnur Egilson, sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

Ákærði greiði X 200.000 krónur í miskabætur.

Ákærði greiði Y 300.000 krónur í miskabætur.

Miskabæturnar skulu í báðum tilvikum bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. desember 2001 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns beggja brotaþola, 80.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2002.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 5. mars 2002 á hendur:  ,,Gunnari Finni Egilssyni, [...], fyrir kynferðisbrot gegn tveimur 13 ára stúlkum, X og Y, 29. júlí 2001, að [...], Reykjavík, með því að hafa látið S sjúga á sér getnaðarliminn og skömmu síðar haft samræði við H.

Telst þetta varða við 1. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu X er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 29. ágúst 2001 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

Af hálfu Y er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38, 2001 frá 29. ágúst 2001 til greiðsludags og kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.”

Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og jafnframt að refsing verði skilorðsbundin að öllu leyti eða að hluta. Aðallega er krafist frávísunar bótakrafna, en til vara að þær sæti verulegri lækkun. Krafist er réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.

Samkvæmt lögregluskýrslu, dagsettri 3. ágúst sl., hófst rannsókn máls þessa að kvöldi þess dags er Y, X, Z og Þ komu á lögreglustöðina í fylgd tveggja annarra stúlkna og tveggja karlmanna.  Stúlkurnar greindu frá því að maður, sem þær kölluðu Gunna, hefði komið að máli við X og Z, þar sem þær voru staddar á Hlemmtorgi sunnudaginn 29. júlí sl., og boðið þeim að taka þátt í kvikmynd, sem þær reyndust fúsar til.  Samkvæmt skýrslunni gaf Gunni stúlkunum upp símanúmer sitt og bað þær um að hringja í sig síðar sama dag.  Síðar höfðu stúlkurnar samband innbyrðis og hittust þær allar síðar sama dag á Lækjartorgi.  Z hringdi síðan í Gunna sem sótti þær og ók þeim í hús sem stúlkurnar töldu þá hafa verið við Sólheima en síðar kom í ljós að var [...].  Í skýrslunni er lýsing stúlknanna á íbúðinni, sem þær kváðu Gunna hafa sýnt sér.  Þá segir í skýrslunni að Gunni hafi viljað fá stúlkurnar til þess að eiga við sig munnmök og kynmök gegn greiðslu.  Þá segir að Gunni hafi sagt X að koma með sér inn í eitt herbergjanna og að hún hafi ekki þorað öðru.  Þar hafi hann fengið hana til að sjúga á sér liminn.  Hann hafi síðar fengið Y til þess að koma með sér inn í sama herbergi, þar sem hann hafi átt við hana kynmök. 

Stúlkurnar lýstu útliti Gunna. Leiddi lýsing þeirra og fleiri atvik til þess að böndin bárust að ákærða, sem var handtekinn kl. 23.00 sama kvöld.  Í skýrslutöku af ákærða daginn eftir lýsti hann samskiptum sínum og stúlknanna fjögurra.  Lögregluskýrsla þessi verður nánar rakin síðar, en í henni lýsti ákærði því meðal annars að X hefði átt við sig munnmök.  Þá hefði Y beðið hann um að koma með sér inn í herbergi, þar sem ákærði kvaðst hafa lagst ofan á hana eftir að hún hafði sett smokk á lim hans.  Hann kvaðst ekki hafa haft kynmök við hana.  Ákærði breytti síðar þessum framburði sínum og verður vikið að ástæðum þess síðar.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.

Ákærði neitar sök.  Aðspurður um kynni sín af stúlkunum Y, X, Z og Þ kvaðst ákærði hafa ekið framhjá Hlemmtorgi milli kl. 12.00 og 14.00 sunnudaginn 29. júlí sl.  Hann kvað margt fólk hafa verið á Hlemmi, en ákærði kvaðst þar hafa hitt þær Y og X.  Hann kvaðst hafa spurt þær hvort þær vissu um einhvern sem vatnaði farsíma, en hann kvaðst hafa haft þrjá til fjóra farsíma til sölu.  Hann kvaðst hafa gefið stúlkunum upp símanúmer sitt og beðið þær um að hringja og láta sig vita ef þær vissu um kaupanda.  Þær hafi hringt milli kl. 16.00 og 17.00 sama dag og kvaðst ákærði þá hafa tekið þær upp í bíl sinn og ekið einn til tvo rúnta um bæinn.  Hann kvaðst hafa látið stúlkurnar úr bílnum við Lækjartorg, þar sem þær hefðu ætlað að hitta vinkonur sínar.  Síðar í yfirheyrslunni kvað ákærði Z og Y hafa komið á Hlemm um það bil 15 mínútum síðar og hafi hann ekið öllum fjórum niður á Lækjartorg.  Hann kvaðst ekki hafa hitt þær eftir þetta.  Hann kvað kvikmyndagerð ekki hafa borið á góma er hann tók stúlkurnar upp í bíl sinn, en hann kvaðst hafa spurt þær að aldri og kvað hann Y hafa sagst vera 15 ára og X 16 ára.  Hann kvaðst hafa verið efins um að Y gæti verið 15 ára, en miðað við útlit taldi hann hana geta verið 14 ára gamla. 

Ákærði kvaðst hafa tekið íbúðina í [...] á leigu um þessa helgi.  Hann kvaðst hafa hringt í kunningja sinn, Æ, í kaffitíma sínum og beðið hann um að panta íbúðina fyrir sig, en ákærði kvaðst hafa verið önnum kafinn í vinnu og ekki geta sinnt þessu sjálfur.  Hann kvaðst ekki hafa símann á sér í vinnunni og því hafi hann hringt í Æ og beðið hann um að panta íbúðina fyrir sig.  Ákærði kvaðst hafa afhent Æ farsíma sinn í þessu skyni og þeir Æ hefðu síðan hist milli kl. 20.00 og 21.00 að kvöldi sama dags og þá hafi Æ afhent sér farsímann aftur.  Ákærði gat litla grein gert fyrir Æ, sem hann kvaðst hafa kynnst fyrir einum til tveimur mánuðum síðan.  Hann taldi Æ hafa farið úr landi þremur dögum síðar og kvaðst ákærði síðast hafa frétt af honum á S. 

Ákærði kvaðst hafa komið í íbúðina að [...] sunnudaginn 29. júlí sl. laust upp úr kl. 13.00 og verið þá einn á ferð.  Hann hafi stoppað þar stutt, eða tvær til þrjár mínútur, en hann kvaðst hafa skilið þar eftir föt, annað hvort af syni sínum, konu sinni eða af sjálfum sér.  Breyting hefði síðan orðið á áætlun hans og kvaðst hann hafa skilað lyklunum af íbúðinni án þess að sækja fötin.  Hjá lögreglunni kvaðst ákærði hafa fundið umbúðir utan af smokkum í íbúðinni.  Fyrir dómi staðfesti ákærði að hann hefði þann stutta tíma sem hann dvaldi í íbúðinni farið á efri hæðina og þar inn í herbergi og opnað náttborðsskúffu og þá fundið umbúðirnar. 

Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglunni 4. ágúst sl.  Þar greindi ákærði frá því að hann hefði hitt X og Z á Hlemmtorgi 29. júlí og spurt þær hvort þær vildu taka þátt í kvikmynd, sem ákærði kvaðst þá hafa hugleitt að taka ásamt kunningja sínum, Æ.  Þær hafi verið spenntar að taka þátt í kvikmyndinni, en ákærði kvaðst einnig hafa boðið þeim að kaupa farsíma.  Er hér var komið er bókað í lögregluskýrslunni að hlé hafi verið gert á skýrslutökunni að ósk ákærða, sem óskaði eftir því að ræða einslega við þáverandi verjanda sinn.  Gert var hlé á skýrslutökunni í 20 mínútur.  Eftir þetta greindi ákærði frá því að Z hefði hringt í sig um klukkan 11.30 sama dag og hefði hún sagt ákærða frá því að Z, X og Y og fjórða stúlkan vildu hitta hann.  Úr hefði orðið að ákærði hitti þær á Lækjartorgi og hefði hann boðið þeim að rúnta með þær, sem þær hefðu þegið.  Eftir að hafa ekið um bæinn kvaðst ákærði hafa ekið að [...] þar sem hann hefði sýnt þeim íbúð, sem hann hafði tekið á leigu.  Þarna kvaðst ákærði hafa rætt við stúlkurnar um hina fyrirhuguðu kvikmynd.  Eftir að þrjár stúlknanna hefðu farið fram í anddyrið hefði X verið ein eftir hjá honum.  Hún hefði skyndilega spurt hvort hann væri reiðubúinn að borga henni ef hún gerði eitthvað fyrir hann.  Hann kvaðst hafa orðið undrandi, en X hefði endurtekið spurninguna og kvaðst ákærði þá hafa gert sér grein fyrir því að hún væri að bjóða honum kynferðislegan greiða og hefði hann svarað játandi.  Ákærði lýsti því síðan að X hefði átt við hann munnmök eftir að hafa sett smokk á lim hans, en smokkin hefði hún haft í sínum fórum.  Hann kvaðst hafa fengið hana til að hætta, tekið af sér smokkinn og fleygt honum.  Síðar kvaðst hann hafa sest við eldhúsborðið ásamt stúlkunum fjórum.  Þar hefði hann spurt X hvað hún vildi fá greitt fyrir munnmökin og hún hefði nefnt upphæð í því sambandi.  Ákærði lýsti því síðan að Y hefði beðið sig um að koma með sér inn í svefnherbergi og tala við sig.  Hann kvaðst hafa gert það.  Hún hefði þá spurt hvað hann væri reiðubúinn að greiða fyrir að eiga við hana kynmök.  Hann kvað Y hafa verið klædda pilsi sem hún hefði lyft upp um leið og hún hefði girt niður um sig nærbuxurnar.  Hann kvaðst þá hafa sagt henni að hann myndi ekki þvinga hana til neins, hún gæti farið ef hún vildi.  Hún hefði þessu næst lagst á bakið í rúmið og beðið hann um að leggjast ofan á sig.  Hann kvaðst hafa tekið út á sér liminn og lagst fullklæddur ofan á Y en áður hefði hún sett smokk á lim hans.  Hann kvað sér ekki hafa risið hold og ekki hafa haft við Y kynmök.  Hann hefði síðan staðið upp og gengið fram í anddyrið, þar sem Y hefði sagt honum hvað hún vildi fá mikið greitt fyrir það sem gerðist í svefnherberginu.  Eftir þetta kvaðst ákærði hafa ekið stúlkunum niður á Lækjartorg, þar sem þær hefðu farið úr bifreið hans.

Með bréfi verjanda ákærða dags. 13. ágúst sl. var óskað eftir nýrri skýrslutöku og því lýst yfir að fyrri framburður ákærða um kynferðisbrot væri rangur.  Þremur og hálfum mánuði síðar var tekin skýrsla af ákærða, þar sem hann dró fyrri framburð sinn um kynferðisbrot til baka.  Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa hagað framburði sínum hjá lögreglunni 4. ágúst sl. eins og lýst var vegna þess að þáverandi verjandi hans hafi sagt að honum væri hollara að greina satt og rétt frá ella yrði hann dæmdur í þriggja eða fjögurra ára fangelsi.  Ákærði kvaðst hafa getað hagað framburði sínum á þennan hátt vegna þess að Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður hefði verið búinn að greina honum frá framburði stúlknanna ,,frá A – Ö”.

Skýrsla var tekin af X fyrir dómi 15. ágúst sl.  Skýrslan var tekin upp á myndband sem skoðað var undir aðalmeðferð málsins.  Viðtalið var á köflum óskýrt og því var nauðsynlegt að X kæmi fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins.  Sá vitnisburður verður nú rakinn auk vitnisburðar hennar fyrir dómi 15. ágúst sl.

X kvaðst hafa verið á Hlemmtorgi, en ráða má af gögnum málsins og af samhenginu að hún lýsir atburðarásinni sunnudaginn 29. júlí sl., ásamt Z vinkonu sinni, er maður hafi komið að máli við þær og spurt hvort þær vantaði vinnu.  Síðar kom í ljós að maður þessi var ákærði.  Hann hefði sagst vera lærður nuddari og kvikmyndagerðarmaður og hefði boðið þeim að leika í kvikmynd.  Þær hefðu sagt ákærða að þær væru að bíða eftir vinkonum sínum, en síðar sama dag hefðu þær hitt hann aftur á Lækjartorgi og lýsti hún því er þær Y, Z og Þ fóru með ákærða í bifreið hans í hús, sem síðar kom í ljós var [...].  Er þangað kom hefðu þau sest inn í eldhús, en ákærði hefði þá byrjað að reyna að fá þær með sér inn í herbergi.  Hún lýsti því síðan er ákærði fékk hana til að koma með sér í herbergi á efri hæðinni, en á leiðinni upp hefði ákærði greint henni frá því til hvers hann ætlaðist af henni.  Áður en X fór upp með ákærða kvaðst hún hafa rætt við Y og þá ákveðið að hún skyldi fyrst fara upp með ákærða, en Y síðar.  Hún sagði að á þeirri stundu hefðu þær báðar vitað að eitthvað kynferðislegt myndi eiga sér stað.  X greindi frá því á einum stað að hún hefði fengið smokk hjá Þ áður en hún fór upp með ákærða og að hún hefði látið hann fá smokkinn, þar sem hún hefði ekki viljað gera það sem hann bað hana um án þess að hann notaði smokk.  Á öðrum stað má ráða af vitnisburði hennar að ákærði hafi fengið smokk hjá Þ áður en hann fór upp með X.  Er inn í herbergið kom hefði ákærði farið úr buxunum og komið sér fyrir í rúminu.  Hann hefði síðan viljað að X setti á hann smokkinn, sem hún kvaðst hafa verið ófáanleg til, og hefði þá ákærði sett smokkinn sjálfur á sig.  Fyrst hefði ákærði viljað hafa samfarir við hana, sem hún kvaðst ekki hafa viljað.  Ákærði hefði síðan legið á bakinu og fengið hana til að sjúga á sér liminn.  Hún kvaðst síðan hafa séð er ákærða varð sáðfall.  Hún hefði þá hætt og farið í skóna og niður til stúlknanna sem þar voru.  Hún taldi sig hafa verið um 10 mínútur uppi með ákærða.  Hún kvað ákærða þá hafa beðið Y um að koma með sér, sem hún hefði gert og hafi Y dvalið með ákærða í herberginu í um það bil 5 mínútur, er hún hefði komið grátandi niður og hlaupið út úr húsinu.  Síðar greindi X svo frá að Y hefði dvalið uppi í um 15 mínútur.  X kvaðst eftir á hafa greint hinum þremur stúlkunum frá því að ákærði hefði látið hana totta sig. 

X kvað Y hafa greint sér frá því að ákærði hefði haft samfarir við hana.  Ákærði hefði greint þeim frá aldri sínum og spurt X um aldur og hún sagt honum að hún væri 13 ára og Z 13 ára.  Síðar hefði ákærða verið sagt frá því að Y og Þ væru 13 ára.  Samskiptum við ákærða hefði lokið er hann hefði ekið stúlkunum á Lækjartorg síðar sama dag.

Skýrsla var tekin af Y fyrir dómi 15. ágúst sl.  Skýrslan var tekin upp á myndband sem skoðað var undir aðalmeðferð málsins. Var ýmislegt í viðtalinu óskýrt og kom Y því fyrir dóminn undir aðalmeðferð málsins. Verður sá vitnisburður hennar nú rakinn auk vitnisburðar hennar fyrir dómi 15. ágúst sl.

Y kvaðst hafa hitt ákærða á Lækjartorgi 29. júlí sl., en hún hefði verið þar stödd ásamt vinkonum sínum, þeim Þ, X og Z.  Tvær hinar síðast greindu hefðu áður hitt ákærða á Hlemmtorgi, þar sem hann hefði boðið þeim að leika í kvikmynd.  Ákærði hefði farið með þær í [...]. Hún kvað erindið hafa verið að leika í kvikmynd, en ákærði hefði greint þeim frá því hvert þeirra hlutverk væri.  Er þær hefðu komið á staðinn hefði ákærði sagt þeim frá því að kvikmyndavélar væru í húsinu og hefði hann sýnt þeim myndbandstæki sem hann kvað tengjast kvikmyndagerðinni.  Ákærði hefði stöðugt reynt að fá hana til að koma með sér á efri hæðina, en hún hefði ekki verið fáanleg til þess.  X hefði þá farið með ákærða upp og dvalið stutt eða í um 5 mínútur.  Eftir að X hefði komið til baka hefði ákærði komið út úr herberginu og beðið hana um að koma með sér, sem hún kvaðst hafa gert að lokum, þótt hún hefði neitað í fyrstu.  Hún kvaðst hafa farið með ákærða upp í svefnherbergi á efri hæðinni.  Þar hefði ákærði sagt henni að fara úr jakka sem hún klæddist.  Hún hefði þá ætlað út en ekki getað opnað dyrnar er hún tók í hurðina, en hún kvaðst hafa getað opnað dyrnar er hún fór niður síðar.  Hún kvað ákærða hafa haft samræði við sig þarna í herberginu.  Hún kvaðst ekki vita hversu lengi það hefði staðið yfir, en hún hefði beðið ákærða um að hætta.  Hún kvað ákærða hafa haft orð á því að ef þær greindu ekki frá því sem hefði gerst myndi hann greiða þeim peninga fyrir og hefði Y átt að fá 130.000 krónur fyrir, en X 75 eða 80.000 krónur.  Hún kvað ákærða ekki hafa spurt hana um aldur og hún kvaðst ekki vita hvort aldur hinna þriggja stúlknanna hefði borið á góma.  Hún kvað ákærða síðar hafa ekið stúlkunum fjórum á Lækjartorg.

Z, 14 ára, kvaðst hafa verið stödd á Hlemmtorgi ásamt X vinkonu sinni 29. júlí sl., að bíða eftir vinkonum þeirra, Y og Þ.  Ákærði hefði þá komið og spurt hvort þær vildu leika í kvikmynd, sem þær hefðu viljað.  Síðar sama dag, eða upp úr kl. 16.00, hefði ákærði sótt allar fjórar er þær hefðu verið staddar á Lækjartorgi.  Ákærði hefði greint þeim frá því að hann væri að læra kvikmyndagerð.  Hann hefði tekið allar fjórar upp í bíl sinn og ekið þeim í [...], þar sem hann hefði sagt að fleiri krakkar væru fyrir.  Enginn hefði reynst vera þar, en ákærði hefði sagt krakkana rétt ókomna.  Hún lýsti íbúðinni.  Hún lýsti atriðum sem ákærði hefði greint frá og ættu að vera í kvikmyndinni.  Ákærði hefði síðan beðið hana um að færa í tal við X hvort hún vildi vera með í myndinni.  Hún hefði sagt honum að ræða þetta sjálfur við hana, sem hann hefði gert og farið með X í því skyni upp á efri hæð hússins.  Hún kvaðst hafa farið út eftir að X fór upp.  Hún lýsti því síðan að X hafi komið niður og minnti hana að hún hefði beðið Y um að fara upp.  Taldi hún að ákærði hefði ekki komið niður sjálfur.  Hún lýsti því síðan að Y hefði komið hlaupandi niður og út úr húsinu.  Hún hefði grátið og sagst vera hrædd.  Hún kvað Y hafa rætt eitthvað við X eftir á um það sem hefði gerst er Y og ákærði hefðu verið tvö í herberginu uppi, en Y hefði ekki rætt það við sig. Hún vissi því ekki hvað hefði gerst þar. Hún greindi þó frá því eftir Y að ákærði hefði sagt henni að klæða sig úr fötunum, sem hún hefði ekki viljað, og að hann hefði ekki leyft henni að fara út úr herberginu.  Þá hefðii Y haft orð á því að ákærði hefði gengið alla leið, það er haft samfarir við hana, en hún kvaðst ekki muna orðrétt hvað Y sagði.  Z kvað ekki hafa komið fram, áður en þær X og Y fóru upp með ákærða hvor í sínu lagi, hvert erindið þangað var. Áður en ákærði hefði ekið þeim niður í bæ hefði hann nefnt að ef þær greindu ekki frá því sem gerðist myndi hann borga þeim fyrir og hefðu ákveðnar fjárhæðir verið nefndar í þessu sambandi.  Hún kvað ákærða hafa ætlað að leggja inn á reikninga þeirra og hafi hann fengið fullt nafn þeirra og kennitölu, en Z kvaðst hafa gefið upp sitt nafn og kennitölu, þar sem X hefði ekki vitað hvort hún ætti bankareikning.  Z kvað þær X hafa greint ákærða frá réttum aldri sínum. Hún taldi að þær stúlkurnar hefðu dvalið lengi í [...], eða í eina eða tvær klukkustundir.

Þ, 13 ára, kvað X og Z hafa hitt ákærða á Hlemmtorgi en síðan hefði verið hringt í hana og þeim boðið að leika í kvikmynd.  Hún kvað þær X, Y og Z síðan hafa hist á Lækjartorgi, þangað sem ákærði kom og sótti þær, og hefði hann farið með þær í hús, sem ráða má af samhenginu að var [...].  Þar hefði ákærði sýnt þeim húsið og hefði hann sagt fleiri væntanlega þangað, en æfa hefði átt atriði í kvikmynd.  Ákærði hefði síðan spurt stúlkurnar hver vildi prófa fyrst, en allar hefðu neitað.  Hún kvað hafa verið ljóst að ákærði hefði eitthvað kynferðislegt í huga.  Að lokum hefði X haft orð á því að hinar stúlkurnar væru ,,djöfulsins aumingjar að þora þessu ekki” og hefði hún farið upp með ákærða, en áður kvaðst Þ hafa afhent X tvo smokka, en X hefði beðið um þá.  Þess vegna kvaðst hún telja að X hefði vitað er hún fór upp með ákærða að hann hefði eitthvað kynferðislegt í huga.  X hefði dvalið uppi í um 10 mínútur.  X hefði síðan sagt Y að fara upp, sem hún hefði gert.  Áður en Y fór upp hefði ákærði komið fram og spurt stúlkurnar hver vildi vera næst.  Y hefði síðan komið grátandi niður og hlaupið út.  Hún hefði ekki sagt hvað hefði gerst, en X hefði greint sér frá því að hún hefði ,,tottað” ákærða.  Þ lýsti því að ákærði hefði ætlað að greiða stúlkunum peninga, en hún kvaðst hafa talið það sem gerðist hafa verið prufu fyrir kvikmynd og þær fjárhæðir sem þær X og Y hefðu átt að fá hafi tekið mið af því sem þær gerðu með ákærða.  Þ kvað ákærða ekki hafa spurt sig að aldri og hún kvaðst ekki hafa heyrt hann spyrja hinar stúlkurnar um aldur.  Aðspurð kvaðst hún ekki átta sig á því hvers vegna þær stúlkurnar fóru ekki út úr húsinu og í burtu.  Ákærði hefði að lokum ekið þeim á Lækjartorg.

Ö, móðir Y, kvað lögreglu hafa hringt í sig og þannig hefði hún fengið vitneskju um málið.  Hún kvað Y hafa greint sér frá því að stúlkurnar fjórar hefðu farið með manni í hús í tengslum við kvikmyndagerð, en maðurinn hefði boðið Z og X að leika í kvikmynd.  Ö lýsti síðan frásögn dóttur sinnar og meðal annars því er X hefði farið upp með manninum og átt við hann munnmök og Y síðar, þar sem hann hafi neytt hana til kynmaka.  Hún kvað Y hafa verið hrædda og viljað segja nei, en ekki þorað.  Hún lýsti síðan breytingum í fari dóttur sinnar, sem hún taldi mega rekja til þess sem henti hana og lýst hefur verið.  Fram kom að Y á við misþroska og athyglisbrest að stríða.

Q, móðir X, greindi frá því er lögreglan hafði tal af henni er X var stödd á lögreglustöð, þar sem hún hafði greint frá ætluðu kynferðisbroti ákærða.  Hún kvaðst ekki hafa merkt breytingar í fari X fyrst á eftir, en lýsti því að sér fyndist þessi atburður hafa haft áhrif á hana síðar.  Hún kvaðst lítið hafa rætt við X um það sem gerðist, en hún hefði þó greint henni frá því að hún hafi átt munnmök við ákærða.

Ð lýsti því að amma hennar hefði flett sundur lökum, sem bárust frá gistiheimilinu að [...], en þetta hefði verið, að því er hún taldi, miðvikudag eða fimmtudag fyrir síðastliðna verslunarmannahelgi. Hún kvað tvo smokka hafa komið í ljós er amma hennar breiddi úr lakinu.  Ð kvaðst hafa hent smokkunum, en annar hefði verið rauður, en hinn húðlitaður.

W lýsti því hvernig hann fékk stúlkurnar til að greina sér frá því sem hefði gerst.  Stúlkurnar hefðu lýst því að tilgangurinn með því að fara með manninum hefði verið tengdur kvikmyndagerð.  W kvaðst hafa haft samband við barnaverndaryfirvöld, sem hefðu vísað á lögregluna.  Hann lýsti því að stúlkurnar hefðu sagt honum frá því að maðurinn hefði neytt X til munnmaka og Y til kynmaka. 

Kristján Ingi Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður greindi frá því er stúlkunar fjórar sem fóru með ákærða í [...] komu á lögreglustöð og sögðu frá kynferðisbroti sem tvær þeirra hefðu orðið fyrir.  Hann kvað hafa verið gott samræmi í frásögn stúlknanna af atburðum.  Hann skýrði frá gangi rannsóknarinnar, handtöku ákærða og fleiru varðandi rannsóknina. 

Kristján Ingi tók lögregluskýrslu af ákærða 4. ágúst sl., sem áður er vitnað til.  Kristján kvað ákærða hafa verið kynnt við upphaf skýrslutökunnar að hann væri grunaður um kynferðisbrot.  Ákærða hefði ekki verið gerð grein fyrir málinu í smáatriðum og ekki frá því í hverju hin ætluðu brot hans væru talin felast. Honum hefði heldur ekki verið gerð grein fyrir frásögn stúlknanna.  Frásögn ákærða í skýrslunni hefði verið sjálfstæð frásögn hans.

Björn Helgason rannsóknarlögreglumaður lýsti símtali sem hann átti við V, sem leigði út íbúðina í [...].  Hún kvað mann hafa hringt og kynnt sig sem [...] og hefði hann tekið íbúðina á leigu þann tíma sem í ákæru greinir, en húsnæðið hefði átt að nota til kvikmyndatöku.  Björn lýsti því er hann fann umbúðir utan af verju í hægri náttborðsskúffu, en húsnæðið var kannað eftir að næsti leigutaki á eftir ákærða skilaði húsnæðinu. 

[...] kom fyrir dóminn, en vitnisburður hans verður ekki rakinn þar sem hann hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. 

Dómurinn telur sannað með vitnisburði X, Y, Þ og Z að þær fóru allar með ákærða að [...] sunnudaginn 29. júlí 2001.

Við skýrslutöku hjá lögreglunni 4. ágúst sl. lýsti ákærði atburðum um flest efnislega á sama veg og X og Y, þótt ákærði hafi ekki játað samræði við Y.  Þessi framburður ákærða er einnig efnislega á sama veg og vitnisburður stúlknanna fjögurra um hina fyrirhuguðu kvikmyndagerð og vísast um þetta til vitnisburðar stúlknanna og framburðar ákærða hjá lögreglunni 4. ágúst sl., sem rakinn var að framan.  Framburður ákærða fyrir dómi um það hvernig hann fékk nafngreindan mann, sem ekki hefur tekist að hafa upp á, til að taka húsnæði að [...] á leigu er mjög ótrúverðugur.  Hið sama má segja um flest er varðar frásögn ákærða af samskiptunum við stúlkurnar fjórar, en fyrir dómi neitaði hann að þær hefðu komið með honum í [...].  Þá er mjög ótrúverðugur framburður ákærða um það, að hann hafi stoppað í 2 til 3 mínútur í [...], sunnudaginn 29. júlí sl., en á þeim tíma fundið umbúðir utan af verju, sem reyndust vera í náttborðsskúffu.  Dómurinn telur framburð ákærða fyrir dómi í heild ótrúverðugan. Skýringar ákærða á breyttum framburði, fyrst hjá lögreglu og síðar fyrir dómi, eru að mati dómsins fráleitar og ekki á þeim byggjandi.  Dómurinn telur því að leggja beri til grundvallar  niðurstöðu málsins framburð ákærða hjá lögreglunni 4. ágúst sl., enda fær sá framburður að mestu leyti stoð í vitnisburði X og Y, svo og í vitnisburði Z og Þ.  Dómurinn telur þannig sannað með vitnisburði X, sem fær stoð í vitnisburði hinna stúlknanna sem staddar voru í [...], sunnudaginn 29. júlí sl., og með framburði ákærða hjá lögreglu 4. ágúst sl., en gegn neitun ákærða fyrir dómi, að hann hafi látið X sjúga á sér getnaðarliminn eins og í ákærunni greinir. 

Í lögregluskýrslunni 4. ágúst sl. kvaðst ákærði ekki hafa haft kynmök við Y, en hún hefur borið að ákærði hafi haft við sig kynmök.

Vitnið X kvað Y hafa greint sér frá því samdægurs að ákærði hefði haft við hana kynmök. 

Vitnið Z kvað Y hafa greint sér frá því samdægurs að ákærði hefði haft við hana samfarir.

Ö, móðir Y, kvað hana hafa greint sér frá því að ákærði hefði neytt sig til kynmaka.

Þá má ráða af vitnisburði stúlknanna fjögurra sem fóru með ákærða í [...], að fyrir ákærða vakti fyrst og fremst að hafa kynferðislegt samneyti við stúlkurnar.  Þegar þessi vitnisburður er virtur í heild ásamt frásögn Y, sem fær að hluta stuðning af framburði ákærða hjá lögreglunni 4. ágúst sl., telur dómurinn sannað á þann hátt sem nú hefur verið rakið, en gegn neitun ákærða, að hann hafi haft samræði við Y, eins og ákært er fyrir. 

Stúlkurnar voru báðar 13 ára gamlar er þessi atburður átti sér stað og þótt nokkur tími sé liðinn frá atburðinum telur dómurinn að útlit stúlknanna svari til aldurs. Einnig mátti ráða um þetta af myndbandsupptöku af rannsóknarviðtölum sem fram fóru 15. ágúst 2001. X kvaðst hafa greint ákærða frá aldri sínum en hún kvað ákærða einnig hafa verið greint frá réttum aldri allra stúknanna sem fóru í [...] 29. júlí sl. Vitnisburður Z er á sama veg um þetta þótt hann sé ekki eins skýr og framburður X.

Ákærði kannaðist við að hann hafi rætt við stúlkurnar um aldur þeirra en hefur borið að þær hafi sagst vera 15 og 16 ára. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið og með hliðsjón af trúverðugum og nánast samhljóða framburði stúlknanna fjögurra og jafnframt afar ótrúverðugum framburði ákærða um flest atriði málsins, telur dómurinn sannað að ákærði hafi vitað um réttan aldur X og Y.

Brot ákærða eru samkvæmt þessu rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur frá árinu 1985 hlotið átta refsidóma fyrir þjófnað, skjalafals, fjársvik, kynferðisbrot, fyrir brot gegn 148. gr. almennra hegningarlaga og fyrir umferðarlagabrot.  Síðast hlaut ákærði dóm 18. maí 2001, 10 mánaða fangelsi fyrir brot gegn 195. gr. almennra hegningarlaga, þar af voru 7 mánuðir skilorðsbundnir í 3 ár. Með brotum sínum nú hefur ákærði rofið skilorð þessa dóms og er skilorðshluti hans dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Er ákærði framdi brot þau sem hann er nú sakfelldur fyrir var hann að afplána dóm fyrir kynferðisbrot. Ákærði hefur samkvæmt þessu ekki látið segjast við fangelsisrefsinguna og sýnt mikla forherðingu.  Dóminum þykir þetta bera vott um styrkan og einbeittan brotavilja ákærða og er það virt ákærða til þyngingar við refsiákvörðun, sbr. 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með brotum sínum nú hefur ákærði framið ítrekað kynferðisbrot. Ekki er í almennum hegningarlögum ítrekunarheimild vegna brota gegn 202. gr. Hins vegar er við refsiákvörðun höfð hliðsjón af 8. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga til þynginar.

Ráða má af vitnisburði X að hún vissi til hvers ákærði ætlaðist er hún fór með honum upp í herbergið og má um þetta vísa til vitnisburðar Þ, sem afhenti X smokkana, eins og lýst hefur verið.  Þ kvað einnig ljóst af samskiptum ákærða við stúlkurnar í [...], að hann hefði eitthvað kynferðislegt í huga.  Ekki er jafn ljóst að Y hafi fyrirfram vitað til hvers ákærði ætlaðist er hún fór með honum upp í herbergið, en ef tekið er mið af vitnisburði Þ, og að öðru leyti með vísan til þess sem fram fór í [...], telur dómurinn að Þ hafi mátt vera þetta ljóst er hún fór upp með ákærða.  Ákærði nýtti sér mikinn aldurs- og þroskamun í samskiptum sínum við stúlkurnar.

Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.

Ákærði hefur með háttsemi sinni bakað sér bótaskyldu gagnvart X og Y. Þótt ekki liggi fyrir með vissu hvað áhrif háttsemi ákærða hafði á stúlkurnar var háttsemi hans gagnvart þeim til þess fallin að valda þeim miska.

Bótakröfur beggja stúlknanna eru reistar á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þykja miskabætur til hvorrar stúlku um sig hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur sem beri vexti eins og greinir í dómsorði en upphafstími vaxta miðast við það er mánuður var liðinn frá því bótakröfurnar voru settar fram.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, og 100.000 krónur í þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X, og 100.000 krónur í þóknun til Guðrúnar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.

Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjón St. Marteinsson sem dómformaður, Auður Þorbergsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon

DÓMSORÐ:

Ákærði Gunnar Finnur Egilsson sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði X 300.000 krónur í miskabætur.

Ákærði greiði Y 300.000 krónur í miskabætur.

Miskabæturnar skulu í báðum tilvikum bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. desember 2001 til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur í þóknun til Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns X, og 100.000 krónur í þóknun til Guðrúnar Birgisdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns Y.