Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Réttarsátt
  • Fjárnám


         

Mánudaginn 10. september 2007.

Nr. 456/2007.

Svanur K. Kristófersson

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

gegn

Sparisjóði Húnaþings og Stranda

(Sveinn Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Réttarsátt. Fjárnám.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu S, um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði hjá S 4. maí 2007 í eignarhluta hans í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. ágúst 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 15. ágúst 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði hjá sóknaraðila 4. maí 2007 í eignarhluta hans í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að framangreint fjárnám verði fellt úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu í héraði.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði fellur niður.

Sóknaraðili, Svanur K. Kristófersson, greiði varnaraðila, Sparisjóði Húnaþings og Stranda, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 20. ágúst 2007.

Mál þetta var þingfest 7. júní 2007 og tekið til úrskurðar 9. ágúst sama ár. Sóknaraðili er Svanur K. Kristófersson, Hellu í Snæfellsbæ, en varnaraðili er Sparisjóður Húnaþings og Stranda, Hvammstangabraut 5 á Hvammstanga.

Sóknaraðili krefst þess að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði hjá sóknaraðila 4. maí 2007 í eignarhluta hans í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hrundið og að fjárnámsgerð sýslumanns standi óhögguð. Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað.

I.

Hinn 4. apríl 1995 gaf Gunnar Már Kristófersson út skuldabréf til Kjartans Þórs Ársælssonar að fjárhæð 1.250.000 krónur. Bréfið var bundið vísitölu og átti að bera meðaltalsvexti banka og sparisjóða sem Seðlabanki Íslands reiknaði út á hverjum tíma. Greiða átti bréfið á þremur árum með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. ágúst 1995. Sóknaraðili er bróðir útgefanda bréfsins og gekkst hann í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar greiðslu þess. Einnig gengust í slíka ábyrgð Auður Jónsdóttir, eiginkona Gunnars, og Kristófer Snæbjörnsson, faðir þeirra bræðra. Kröfuhafi bréfsins framseldi það síðan varnaraðila og tókst á herðar sjálfskuldarábyrgð á greiðslu þess.

Greiðsluskilmálum bréfsins var breytt 21. janúar 1998 en þá námu eftirstöðvar þess 1.217.782,80 krónum miðað við 15. sama mánaðar. Samkvæmt þeim skilmálum átti að greiða bréfið á sex árum með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. mars 1998. Við skilmálabreytinguna kom nýr ábyrgðarmaður fyrir skuldinni, Þröstur Kristófersson, sem kom í stað föður síns sem var látinn. Eftir skilmálabreytinguna var ekkert greitt af bréfinu.

Hinn 30. september 1998 gaf varnaraðili út stefnu á hendur aðalskuldara bréfsins og ábyrgðarmönnum. Því máli lauk með réttarsátt 3. apríl 1999 gagnvart skuldurum bréfsins öðrum en Kjartani Þór Ársælssyni, upphaflegum kröfuhafa. Samkvæmt sáttinni gengust stefndu, að sóknaraðila meðtöldum, undir að greiða skuldina með þremur greiðslum, samtals að fjárhæð 1.608.508 krónur, sem greiða átti með þessum fjárhæðum á eftirtöldum gjalddögum: 500.000 krónur 1. maí 1999, 500.000 krónur 1. júní sama ár og 608.508 krónur 1. júlí sama ár.

Í kjölfar réttarsáttarinnar fóru fram viðræður milli aðila um uppgjör skuldarinnar. Af því tilefni samdi lögmaður varnaraðila drög að skuldabréfi með Auði Jónsdóttur sem útgefanda. Einnig var gert ráð fyrir að bréfið yrði tryggt með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila og Þrastar Kristóferssonar, auk þess sem settar yrðu að veði fasteignirnar Hraunás 1 og Hella í Snæfellsbæ. Samkvæmt drögunum átti fjárhæð bréfsins að nema 2.477.207 krónum og var miðað við að hún yrði greidd á 15 árum með mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 15. apríl 2001. Þá átti bréfið að vera bundið vísitölu og bera kjörvexti sparisjóðanna á hverjum tíma frá 1. mars 2001. Varnaraðili heldur því fram að drögin hafi verið send skuldurum til undirritunar en bréfið hafi aldrei verið útgefið og þinglýst og endursent varnaraðila.

Lögmaður varnaraðila samdi ný drög að skuldabréfi sem var efnislega samhljóða fyrri drögum að öðru leyti en því að fjárhæð bréfsins nam 2.774.215 krónum, reikna átti vexti frá 1. október 2001 og gert var ráð fyrir að fyrsta afborgun félli í gjalddaga 15. nóvember sama ár. Varnaraðili heldur því fram að þessi drög hafi einnig verið send skuldurum en þetta bréf hafi heldur ekki verið gefið út. Þessu mótmælir sóknaraðili og heldur því fram að skuldabréf hafi verið gefið út 2. september 2002.

Samkvæmt yfirliti úr greiðslukerfi varnaraðila var skuldabréf það sem sóknaraðili var í ábyrgð fyrir og gekkst undir að greiða með réttarsáttinni gert upp 2. september 2002. Einnig liggur fyrir yfirlit úr greiðslukerfi varnaraðila þar sem fram kemur að afborgun á gjalddaga 15. ágúst 2002 af skuldabréfi útgefnu af Auði Jónsdóttur hafi verið greidd 28. sama mánaðar með 256.826 krónum að meðtöldum vöxtum frá 1. október 2001 og kostnaði. Samkvæmt yfirlitinu var um að ræða fyrstu af mánaðarlegum afborgunum af skuldabréfi til 15 ára. Þá liggur fyrir yfirlit varnaraðila til sóknaraðila um ábyrgðir í árslok 2006 þar sem fram kemur að hann standi í ábyrgð fyrir greiðslu þessa bréfs.

II.

Með aðfararbeiðni 2. október 2006 fór varnaraðili þess á leit að gert yrði fjárnám hjá sóknaraðila til fullnustu réttarsáttarinnar frá 3. apríl 1999. Við fyrirtöku aðfararbeiðninnar hjá sýslumanninum í Stykkishólmi 4. maí 2007 mætti sóknaraðili og mótmælti framgangi gerðarinnar þar sem skuldin hefði að fullu verið greidd með skuldabréfi útgefnu 2. september 2002. Af hálfu varnaraðila var hins vegar fullyrt við gerðina að bréfið hefði aldrei verið gefið út. Sýslumaður tók ekki til greina andmæli sóknaraðila og var gert fjárnám í eignarhluta hans í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ fyrir samtals 3.482.562 krónum auk áfallandi dráttarvaxta og kostnaðar.

Með bréfi 24. maí 2007, sem barst réttinum 29. sama mánaðar, krafðist sóknaraðili úrlausnar dómsins um gildi aðfarargerðarinnar. Málið var síðan þingfest 7. júní sama ár, eins og áður getur.

III.

Sóknaraðili reisir málatilbúnað sinn á því að krafa varnaraðila, sem fjárnámið fór fram fyrir, hafi verið greidd með skuldabréfi útgefnu 2. september 2002. Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til yfirlits úr greiðslukerfi varnaraðila, þar sem fram komi að upphaflega skuldabréfið hafi verið greitt, og yfirlits úr sama kerfi þar sem fram komi upplýsingar um síðara bréfið og greiðslu afborgunar af því 28. ágúst 2002. Einnig bendir sóknaraðili á að honum hafi borist yfirlit frá varnaraðila um ábyrgðir í árslok 2006 en þar sé síðara bréfið tilgreint. Með þessu telur sóknaraðili nægjanlega leitt í ljós að skuldabréfið hafi verið gefið út en með því hafi skuldin við varnaraðila verið gerð upp. Verði vafi hins vegar talinn leika á því hvort bréfið hafi verið gefið út beri að virða hann sóknaraðila í hag með hliðsjón af þeim ríku kröfum um vönduð vinnubrögð sem gera verði til lánastofnana.

Einnig bendir sóknaraðili á að því hafi fyrst verið hreyft við fárnámið 4. maí 2007 að skuldabréfið sem varnaraðili hafi fengið sem greiðslu hafi í raun aldrei verið gefið út. Telur sóknaraðili að þetta tómlæti hafi áhrif við sönnunarmatið honum í hag, enda hafi varnaraðila verið í lófa lagið að koma fyrr með þessa viðbáru gegn skuldabréfi sem gefið var út 2. september 2002.

Sóknaraðili heldur því fram að með síðara bréfinu hafi stofnast ný krafa á hendur sóknaraðila sem ábyrgðarmanni en aðfararheimildar hafi ekki verið aflað á þeim grundvelli.

Samkvæmt framansögðu heldur sóknaraðili því fram að grundvöllur réttarsáttarinnar sem aðfararheimildar gagnvart honum hafi brostið og því beri að ógilda fjárnámið.

IV.

Varnaraðili andmælir því að krafa samkvæmt réttarsáttinni frá 3. apríl 1999 hafi verið greidd með skuldabréfi. Hins vegar hafi aðilar rætt um að skuldin yrði gerð upp með því móti og hafi drög að skuldabréfi tvívegis verið send Þresti Kristóferssyni, bróður sóknaraðila, án þess að útgefið skuldabréf hafi verið endursent varnaraðila. Aftur á móti kannast varnaraðili við að óútgefið skuldabréf hafi verið skráð í greiðslukerfi varnaraðila en það hafi verið gert að beiðni skuldara bréfsins eftir að greiðsla barst sem nam fyrsta gjalddaga auk vaxta og kostnaðar miðað við þá greiðsluskilmála sem gert var ráð fyrir að bréfið hefði að geyma. Tilgangurinn með þessu hafi verið að setja innheimtukerfið í gang til að aðalskuldarar, hjónin Gunnar Kristófersson og Auður Jónsdóttir, gætu farið að greiða skuldina í samræmi við efni bréfsins sem gefa átti út.

Til stuðnings því að skuldabréfið hafi aldrei verið gefið út bendir varnaraðili á að setja hafi átt að veði tvær fasteignir til tryggingar skuldinni en engu skuldabréfi til varnaraðila hafi verið þinglýst á þessar eignir. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að fram hafi komið í viðræðum við skuldara að stimpilgjald og kostnaður við þinglýsingu hamlaði að gengið yrði frá skuldabréfinu.   

Varnaraðili bendir á að það hafi vitanlega verið forsenda fyrir því að réttarsáttin yrði gerð upp með veðskuldabréfi að það bærist varnaraðila útgefið og þinglýst. Þá fyrst yrði réttarsáttin felld niður með því að ný krafa stofnaðist. Í þessu tilliti breyti engu skráning í greiðslukerfi varnaraðila sem hafi farið fram að beiðni skuldara til að komast hjá vanskilum og auðvelda aðalskuldurum að standa í skilum.

Verði talið, þrátt fyrir það sem hér hefur verið rakið, að skuldin hafi verið greidd með veðskuldabréfi bendir varnaraðili á að engar greiðslur hafi borist ef frá er talin innborgun sem svaraði til fyrsta gjalddaga auk vaxta og kostnaðar. Því hafi fyrra skuldarsamband samkvæmt réttarsáttinni aftur orðið virkt þegar greiðslur bárust ekki. Sáttin hafi því verið viðhlítandi aðfararheimild gagnvart sóknaraðila.

V.

Sóknaraðili krefst þess að hnekkt verði fjárnámi sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði hjá honum 4. maí 2007 að kröfu varnaraðila. Fjárnámið fór fram á grundvelli réttarsáttar frá 3. apríl 1999 en sáttin var gerð vegna máls sem varnaraðili höfðaði til heimtu skuldabréfs frá 4. apríl 1995 með sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila.

Með réttarsáttinni aflaði varnaraðili sér aðfararheimildar á hendur sóknaraðila. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að skylda samkvæmt sáttinni hafi fallið niður með skuldabréfi útgefnu 2. september 2002. Í samræmi við almennar reglur hvílir sönnunarbyrðin um efndir á sóknaraðila. 

Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið vefengt að skuldabréf það sem hann heldur fram að hafi verið gefið út 2. september 2002 hafi að efni til verið samhljóða þeim drögum að skuldabréfum sem lögmaður varnaraðila samdi og kom áleiðis til skuldara. Samkvæmt þessum drögum er gert ráð fyrir að tvær fasteignir verði settar að veði til tryggingar bréfinu en fyrir liggur að slíku veðskuldabréfi hefur ekki verið þinglýst á þær eignir. Hefur því ekki verið gengið endanlega frá bréfinu með venjulegri tryggingarráðstöfun hafi það á annað borð verið gefið út. Þá hefur sóknaraðili hvorki lagt fram kvittun frá varnaraðila fyrir móttöku bréfsins né afrit af bréfinu undirrituðu af skuldurum og útgefnu til varnaraðila. Að þessu gættu verður ekki talið að sóknaraðili hafi sannað að skylda sú sem hann gekkst undir gagnvart varnaraðila með réttarsáttinni hafi fallið niður með því að varnaraðili samþykkti að taka við veðskuldabréfi sem greiðslu. Þá verður engu talið breyta í þessu tilliti þótt varnaraðili hafi skráð í greiðslukerfi sitt skuldabréf efnislega samhljóða þeim drögum sem fyrir liggja í málinu, enda þykir varnaraðili hafa gefið viðhlítandi skýringar á því. Verða heldur ekki taldar skipta máli tilkynningar sem sendar eru skuldurum sjálfvirkt í kjölfar slíkrar skráningar.

Samkvæmt framansögðu verður ekki tekin til greina krafa sóknaraðila um að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði að kröfu varnaraðila 4. maí 2007 í eignarhluta sóknaraðila í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ. Fjárnámsgerðin stendur því óhögguð.

Eftir þessum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Svans K. Kristóferssonar, um að fellt verði úr gildi fjárnám sem sýslumaðurinn í Stykkishólmi gerði hjá sóknaraðila 4. maí 2007 í eignarhluta hans í fasteigninni Hellu í Snæfellsbæ að kröfu varnaraðila, Sparisjóðs Húnaþings og Stranda.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.