Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-75

B og C (Baldvin Hafsteinsson lögmaður)
gegn
A (Sigurbjörn Þorbergsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Faðerni
  • Mannerfðafræðileg rannsókn
  • Börn
  • Friðhelgi einkalífs
  • Stjórnarskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. júní 2023 leita B og C leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 26. maí 2023 í máli nr. 282/2023: A gegn B og C á grundvelli 15. gr. barnalaga nr. 76/2003, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að gerð verði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr E, látnum föður þeirra, séu þau til, og eftir atvikum þeim sjálfum ef þörf krefur vegna sönnunarfærslu í máli sem leyfisbeiðendur reka á hendur gagnaðila til vefengingar á faðerni sonar hennar. Styðja þau kröfu sína við seinni málslið 1. mgr. 21. gr. barnalaga svo sem greininni var breytt með lögum nr. 92/2018.

4. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á kröfu leyfisbeiðenda en þeirri niðurstöðu var snúið við með úrskurði Landsréttar. Landsréttur vísaði til þess að þegar svo háttaði til sem í þessu máli yrði að gera þá kröfu að sýnt væri fram á að ástæða kynni að vera til að vefengja skráð faðerni barns. Fullyrðingar leyfisbeiðenda um hvað faðir þeirra hafi sagt þeim yrðu ekki taldar sýna fram á að ástæða kynni að vera til að vefengja faðerni sonar gagnaðila. Í ljósi 71. gr. stjórnarskrárinnar yrði að telja hagsmuni drengsins af því að njóta friðhelgi um faðerni sitt eins og það hefði verið skráð frá upphafi, mun ríkari en hagsmuni leyfisbeiðenda af því að fá úr faðerninu skorið með mannerfðafræðilegri rannsókn.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að málið varði mikilsverða almannahagsmuni og hafi fordæmisgildi um samspil 71. gr. stjórnarskrárinnar við 21. og 15., sbr. 22. gr. barnalaga. Löggjafinn hafi metið það svo að brýn nauðsyn sé til þess að játa erfingjum látins manns rétt til að vefengja faðerni hálfsystkina sinna. Standi niðurstaða Landsréttar óbreytt sé komin upp réttaróvissa um hvort heimild barnalaga til höfðunar vefengingarmáls sé raunhæft úrræði fyrir erfingja. Þá vísa leyfisbeiðendur til þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Ekki hafi verið horft til þeirra gagna sem leyfisbeiðendur lögðu fram máli sínu til stuðnings.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn um kæruefnið geti haft fordæmisgildi um skýringu seinni málsliðar 1. mgr. 21. gr. barnalaga í ljósi ákvæða 71. gr. stjórnarskrárinnar þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um kæruleyfi er því samþykkt.