Hæstiréttur íslands
Mál nr. 4/2003
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 8. maí 2003. |
|
Nr. 4/2003. |
Ákæruvaldið(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn X(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Miskabætur.
X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn þremur stúlkum. Í héraðsdómi var framburður stúlknanna lagður til grundvallar og talið sannað þrátt fyrir eindregna neitun X að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var ákærður fyrir. Var X því sakfelldur fyrir brot gegn fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna tveggja stúlknanna en síðari málslið sömu greinar vegna þeirrar þriðju. Hins vegar var hann sýknaður af refsikröfu vegna síðast nefnda brotsins þar sem sök hans var fyrnd. Var dómur héraðsdóms um 18 mánaða fangelsi, skilorðsbundið að hluta, og miskabætur til stúlknanna staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 27. desember 2002 að ósk ákærða en einnig af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að greiða miskabætur, 1.000.000 krónur til Y, 350.000 krónur til Z og 700.000 krónur til Þ.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds og frávísunar bótakrafna, en til vara að refsing hans verði milduð og öll höfð skilorðsbundin og fjárhæð skaðabóta lækkuð.
Málavöxtum er ítarlega lýst í héraðsdómi. Í forsendum hans er tekið fram, að vafi leiki á því hversu oft ákærði hafi misnotað Þ með þeim hætti, sem hún hefur lýst og hve langt hann hafi gengið með háttsemi sinni. Engu að síður telur dómurinn sannað, að ákærði hafi í fleiri en eitt skipti sett getnaðarlim sinn að hluta inn í fæðingarveg telpunnar með þeim afleiðingum, að meyjarhaft hennar rofnaði, og fái það stoð í niðurstöðu læknisrannsóknar og vitnisburði læknisins fyrir dómi.
Þegar litið er til framburðar Þ fyrir dómi, sex árum eftir að atvik gerðust, verður að telja óvarlegt að fullyrða að sannað sé að ákærði hafi sett getnaðarlim sinn að hluta inn í fæðingarveg hennar. Brot ákærða varðar engu að síður við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
Að öðru leyti en að framan greinir er, með vísan til forsendna héraðsdóms, fallist á sakarmat hans og færslu til refsiákvæða. Þá þykir einnig mega staðfesta refsiákvörðun héraðsdóms með skírskotun til forsendna hans svo og skilorðsbindingu hennar að hluta.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings 30. apríl 2003 vegna Y. Niðurstöður þess eru þær, að hún hafi orðið fyrir alvarlegu áfalli vegna þess kynferðislega ofbeldis, sem hún sætti af hálfu ákærða, og greinist hún með áfallaröskun og þunglyndi. Megi ætla að þetta hafi haft varanleg áhrif á persónuleika hennar og félagsmótun. Ekki sé unnt að meta að hve miklu leyti henni takist að vinna bug á þeim afleiðingum. Í héraðsdómi er lýst vitnisburði Áskels Arnar Kárasonar sálfræðings, sem hafði stúlkuna í viðtalsmeðferð í desember 2001 og janúar 2002, en hann taldi, að hún hefði orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli vegna atferlis ákærða, en jafnframt hefðu fleiri atriði mótað skapferli hennar allt frá unga aldri og stuðlað að lágu sjálfsmati og ákveðinni vanlíðan, sem hún búi enn við. Fyrir Hæstarétt hafa verið lögð ný vottorð Vigdísar um Z og Þ. Ákvörðun héraðsdóms um miskabætur til stúlknanna þykir mega staðfesta.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Y, Z og Þ, Sifjar Konráðsdóttur hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. nóvember 2002.
Málið höfðaði ríkissaksóknari með ákæru útgefinni 16. september 2002 á hendur ákærða, X, til refsingar fyrir ætluð kynferðisbrot framin á árunum 1992 til 1999, sem hér segir:
A. Brot gegn Y, fæddri árið 1982.
1. Með því að hafa frá árinu 1992 til september 1996 á heimili stúlkunnar að Æ margoft káfað á kynfærum hennar og farið með fingur inn í þau.
2. Með því að hafa frá árinu 1997 til ágúst 1999 á heimili stúlkunnar Ö margoft káfað á kynfærum hennar og sett fingur inn í þau.
Telst brot samkvæmt 1. tölulið varða við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og brot samkvæmt 2. tölulið við 209. gr. sömu laga.
B. Brot gegn Z, fæddri 1989.
Með því að hafa á tímabilinu frá október 1994 til júlí 1995 á heimili stúlkunnar [...] í nokkur skipti lagst ofan á hana og viðhaft samfarahreyfingar.
Telst þetta varða við síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
C. Brot gegn Þ, fæddri 1987.
Með því að hafa á sex til átta mánaða tímabili á árinu 1995, á heimili stúlkunnar [...] margoft afklætt stúlkuna að neðan, káfað á kynfærum hennar og átt við hana kynferðismök með því að setja lim sinn við eða inn í kynfæri hennar.
Telst þetta varða við fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum.
Af hálfu ákæruvalds var fallið frá lið A.2. í ákæru við munnlegan málflutning og ákærunni breytt til samræmis við það. Er þannig á því byggt í málinu að ætluð brot hafi verið framin á tímabilinu frá 1992 til 1996, en ekki 1992 til 1999, eins og áður greinir.
Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður, skipaður réttargæslumaður ætlaðra brotaþola, gerir í málinu svofelldar bótakröfur á hendur ákærða:
1. Að hann verði dæmdur til að greiða Y miskabætur að fjárhæð krónur 1.800.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
2. Að hann verði dæmdur til að greiða Z miskabætur að fjárhæð krónur 800.000 með sömu dráttarvöxtum frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
3. Að hann verði dæmdur til að greiða Þ miskabætur að fjárhæð krónur 1.500.000 með sömu dráttarvöxtum frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
Þá krefst lögmaðurinn þóknunar vegna réttargæslustarfa í þágu stúlknanna þriggja við rannsókn og meðferð málsins.
Vilhjálmur Þórhallsson hæstaréttarlögmaður, skipaður verjandi ákærða, krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, en ellegar dæmdur til vægustu refsingar, sem lög leyfa. Jafnframt er framlögðum bótakröfum mótmælt og þess krafist aðallega að þeim verði vísað frá dómi. Til vara er krafist sýknu af bótakröfum stúlknanna þriggja, en til þrautavara að dæmdar bætur verði að miklum mun lægri en krafist er. Í öllum tilvikum er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun verjandans.
I.
Við lýsingu málsatvika hér á eftir verður fjallað um sakarefni í sömu röð og gert er í ákæru. Þannig verður atvikalýsingu skipt í þrjá meginkafla, en í lok hvers kafla er að finna röksemdir dómsins um niðurstöðu varðandi viðkomandi sakarefni. Áður þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir forsögu málsins og upphafi lögreglurannsóknar.
Ákærði, sem er fæddur 1976, ólst upp á [...] og bjó þar hjá móður sinni til haustsins 1991 er hann flutti til ömmu sinnar og stjúpafa í Q og settist þar í 10. bekk grunnskóla. Faðir ákærða bjó á sama tíma að [...] og var í sambúð með A. Á sambúðartímanum eignuðust þau þrjú börn, Y, fædda 1982, sem er ætlaður brotaþoli í málinu, B, fædda 1984 og C, fædda 1986. Mun sambúð þeirra hafa lokið á árinu 1996 og flutti A þá í annað húsnæði með börnin. Samkvæmt búsetuvottorði áttu þau skráð lögheimili [...] til 5. október sama ár.
Móðir ákærða og fósturfaðir, D, fluttu til Q vorið 1992 ásamt börnum sínum, [...], fæddum 1980, F, fæddri 1983 og [...], fæddri 1992. Þar búa einnig tvær systur D, E og G. E er móðir Z, fæddrar 1989, ætlaðs brotaþola í málinu. G er móðir Þ, fæddrar 1987, sem einnig er ætlaður brotaþoli.
Upphaf máls þessa má rekja til þess er Þ greindi vinkonum sínum og umsjónarkennara frá því 20. nóvember 2001 að „frændi“ hennar, ákærði í málinu, hefði misnotað hana kynferðislega þegar hún hefði verið 7 ára. Málinu var vísað til barnaverndarnefndar [...] daginn eftir og óskaði hún eftir lögreglurannsókn 26. sama mánaðar. Um svipað leyti tilkynnti móðir Z barnaverndarnefndinni um ætlaða misnotkun ákærða á dóttur sinni, sem hefði átt sér stað þegar stúlkan var 5 ára. Var því máli einnig vísað til lögreglunnar [...] 26. nóvember. Jafnframt var í báðum tilvikum óskað eftir liðsinni Barnahúss. Þórdís Bjarnadóttir héraðsdómslögmaður var tilnefndur réttargæslumaður Z 28. nóvember og tveimur dögum síðar var hún tilnefnd til réttargæslu fyrir Þ.
Áður hafði það gerst hinn 28. nóvember að Y kom á lögreglustöðina [...] í fylgd móður sinnar og lagði fram kæru á hendur hálfbróður sínum, ákærða í málinu, vegna ætlaðra kynferðisbrota. Með henni mætti einnig Þórdís Bjarnadóttir og var hún samdægurs tilnefnd til réttargæslu fyrir kæranda. Y greindi frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega frá 6 ára aldri hennar og fram á 17. aldursár. Brotin hefðu verið framin á heimili hennar í [...], á Æ og síðar á heimili hennar í Ö, en ákærði hefði komið á þessa staði í heimsókn og til umgengni við sameiginlegan föður þeirra. Við málsatvikalýsingu hér á eftir verður þó eingöngu greint frá ætlaðri háttsemi ákærða frá ársbyrjun 1992, í samræmi við ákæru, en Y var þá á 10. aldursári og nýlega flutt að Æ. Miðast umrædd afmörkun í ákæru við sakhæfisaldur ákærða, sem varð 15 ára í desember 1991.
Ákærði var handtekinn á heimili sínu í Q að morgni 29. nóvember 2001 og færður í fangageymslu. Þann dag var hann yfirheyrður vegna kærumálanna þriggja að viðstöddum verjanda og neitaði öllum ásökunum um kynferðislega misnotkun. Honum var sleppt úr haldi síðdegis. Fjöldi vitna voru yfirheyrð við rannsókn málanna og skýrslur teknar í Barnahúsi af Z og Þ. Verður nú vikið nánar að hverjum ákærukafla fyrir sig.
A. Ætluð brot gegn Y.
Atvikalýsing.
Y greindi frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu 28. nóvember 2001 að eftir að hún hefði flutt að Æ hefði ákærði líkt og áður komið í heimsókn til umgengni við föður sinn. Sem fyrr hefði hann leitað á hana eftir að hún hefði verið farin að sofa, káfað á kynfærum hennar og sett fingur inn í leggöngin. Stundum hefði hann einnig lagst ofan á hana og hreyft sig. Y kvaðst ávallt hafa verið klædd nærbuxum og taldi að ákærði hefði verið það einnig. Aðspurð kvaðst hún ekki geta sagt til um hversu oft þetta hefði gerst, en þegar ákærði hefði verið hjá þeim hefði það gerst á hverju kvöldi. Á tímabili hefði hann búið hjá þeim í 3-4 mánuði og taldi Y að ákærði hefði á því skeiði komið til hennar á hverju kvöldi og misnotað hana með greindum hætti. Y var spurð hvenær hún héldi að ákærði hefði síðast brotið gegn henni og svaraði því til að þá hefði hún verið tæplega 17 ára. Hún hefði þá búið að Ö og ákærði komið í heimsókn að næturlagi og fengið að gista eina nótt. Móðir hennar hefði sett dýnu á gólfið fyrir hann, inni í svefnherbergi hennar og hefði hann þá gert það sama og venjulega; káfað á kynfærum hennar og sett fingur inn í leggöngin. Y kvaðst fyrst hafa greint fyrrverandi kærasta sínum, T, frá hátterni ákærða. Í framhaldi hefði hún leitað til Stígamóta og einnig sagt nokkrum vinkonum frá þessu í trúnaði. Þá hefði hún nýlega greint foreldrum sínum og „stjúpmóður“ frá þessu. Hún kvaðst loks hafa ákveðið að kæra hálfbróður sinn eftir að hún hefði uppgötvað að hann hefði einnig misnotað C systur þeirra. Hefði það mál nú verið kært til barnaverndarnefndar í [...].
Y bar fyrir dómi að á meðan hún hefði búið að Æ hefði ákærði oft komið þangað í heimsókn til umgengni við föður þeirra og stundum gist á heimilinu. Í þau skipti hefði hann yfirleitt komið inn í svefnherbergi hennar að næturlagi, klæddur nærbuxum einum fata og misnotað hana kynferðislega. Hann hefði yfirleitt byrjað með því að þreifa hendi yfir sængina og fundið hvernig hún lægi í rúminu. Í framhaldi hafði hann farið undir sængina, þreifað á kynfærum hennar, innan nærbuxna og farið með fingur inn í leggöngin. Þetta hefði yfirleitt staðið yfir í skamman tíma. Því næst hefði hann yfirleitt tekið sængina af henni og lagst ofan á hana og nuddað sér lengi fram og til baka. Y kvaðst ekki muna hversu gömul hún hefði verið þegar umrædd misnotkun hefði átt sér stað, en sagði hana þó örugglega hafa byrjað fyrir fermingu. Ákærði hefði einnig á tímabili búið hjá þeim í Æ og hefði hann þá haldið uppteknum hætti og misnotað hana á nær hverju kvöldi. Y kvaðst í framangreind skipti yfirleitt hafa þóst vera sofandi, en minntist þess að hafa að minnsta kosti einu sinni reynt að stjaka við ákærða eftir að hann hefði lagst ofan á hana. Hún kvað ákærða einnig í einhver skipti hafa misnotað hana að degi til þegar hann hefði verið í heimsókn og enginn annar hefði verið heima. Í þau skipti hefði hann lagst ofan á hana og hreyft sig fram og til baka. Fram kom í vætti Y að eftir að fjölskyldan hefði flutt að Ö hefði ákærði í eitt skipti komið þangað að næturlagi og fengið að gista á dýnu inni í herbergi hennar. Hún hefði verið sofnuð, en vaknað við það að ákærði hefði verið að nudda henni gegnum sængina, á kynfærastað. Hún hefði beðið hann að hætta, slegið til hans og hann þá ekki áreitt hana frekar. Y var í ljósi þessa vitnisburðar kynntur framburður hennar hjá lögreglu um sama atriði og leiðrétti hún þá frásögn til samræmis við dómsframburð sinn. Sem fyrr kvaðst Y fyrst hafa greint fyrrverandi kærasta sínum, T, frá atferli ákærða [...]. Síðar hefði hún sagt vinkonu sinni S frá þessu og hefði S farið með henni til Stígamóta. Hún hefði síðan ekki aðhafst frekar í málinu fyrr en yngri systir hennar, C, hefði sagt henni í bréfi, í byrjun nóvember 2001, að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Þá hefði Y ákveðið að leggja fram kæru á hendur ákærða. Á þeim tímapunkti hefði hún ekki haft hugmynd um að ákærði væri grunaður um kynferðisbrot gegn fleiri stúlkum. Fram kom hjá Y að á því tímabili, sem ákærði hefði misnotað hana, hefði henni þótt ákaflega vænt um hann „á daginn en ekki á kvöldin“. Aðspurð kvaðst hún telja að ákærði hefði í heildina misnotað hana kyn-ferðislega 50-200 sinnum og giskaði á að hann hefði í um 150 skipti farið með fingur inn í leggöng hennar. Í framhaldi kvaðst hún í raun ekki hafa tölu yfir fjölda slíkra tilvika, en þau hefðu skipt tugum.
S bar fyrir dómi að hún hefði hitt Y á þorrablóti í [...] í febrúar 2001 og þær tekið tal saman. Y hefði þá skyndilega sagt henni að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Hún hefði grátið á meðan á frásögninni stóð og sagst ætla að fyrirfara sér. Y hefði ekki lýst atvikum nákvæmlega, en þó hefði komið fram að þetta hefði gerst oftar en einu sinni. S kvaðst hafa viljað hjálpa henni og því sagt henni að hringja fljótlega í sig. Skömmu síðar hefði Y haft samband og þær farið saman til Stígamóta.
Díana Sigurðardóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, bar fyrir dómi að Y hefði komið í þrjú viðtöl hjá Stígamótum á tímabilinu frá 15.-29. mars 2001 og greint frá kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Y hefði sagt að sér liði afar illa og hefði svo verið í langan tíma. Hún hefði sagt ákærða hafa misnotað hana frá því að hún hefði verið 6 eða 7 ára, þegar hann hefði komið í heimsókn á heimili hennar. Hún hefði lýst því þannig að í fyrstu hefði ákærði káfað á henni utanklæða, en síðan hefði þetta aukist og hann farið að koma inn í herbergi hennar um helgar, lagst ofan á hana og káfað á kynfærum hennar og brjóstum. Að hennar sögn hefði ákærði síðan flutt inn á heimili hennar þegar hann hefði verið 16 eða 17 ára gamall og þá hefði þetta aukist til muna og hann komið svona fram við hana nánast á hverju kvöldi, þ.e. káfað á kynfærum hennar og brjóstum innanklæða. Díana bar að hún hefði ráðlagt Y að segja foreldrum sínum frá þessu, sérstaklega vegna grunsemda hennar um að ákærði hefði leitað á yngri systur þeirra. Y hefði þótt slíkt óhugsandi á þessum tíma, en síðan hefði hún komið í viðtal 6. desember 2001 og þá greint frá því að hún væri búin að upplýsa foreldra sína um þetta og kæra ákærða til lögreglu. Jafnframt hefði hún þá sagst vita að ákærði hefði misnotað yngri systur þeirra kynferðislega og hefði hún komist að því með bréfaskriftum systranna í milli.
Y býr hjá föður ákærða og O, en stúlkan vísaði til hennar sem „stjúpmóður“ við skýrslugjöf hjá lögreglu. O bar fyrir dómi að Y hefði verið í heimsókn hjá henni að kvöldlagi um mánaðamót október-nóvember 2001. Henni hefði liðið afar illa og þegar á leið nóttina farið að tala um að hún hefði leitað sér ráðgjafar hjá Stígamótum. Í framhaldi hefði hún sagt að hún hefði verið misnotuð kynferðislega þegar hún hefði verið yngri og hefði það byrjað um 7 ára aldur. Y hefði í fyrstu ekki nafngreint viðkomandi. O hefði því spurt um einstaka fjölskyldumeðlimi og Y nefnt aðra og útilokað þá jafnharðan, en að lokum nafngreint ákærða. Í sömu andrá hefði hún brotnað niður og síðan grátið meira og minna alla nóttina, en þær hefðu talað saman fram undir morgun. O kvaðst strax hafa ákveðið að spyrja hana ekki frekar um misnotkunina, enda hefði henni fundist það algjört aukaatriði á þeim tímapunkti.
R, móðir Y, bar fyrir dómi að dóttir hennar hefði hringt heim frá vinkonu sinni að kvöldi 19. nóvember 2001 og beðið hana að koma og hitta sig. Y hefði í framhaldi greint frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega og sagt að hann hefði einnig misnotað C systur þeirra. Að sögn R hefði hún ekki viljað spyrja nánar út í misnotkunina, en nokkrum dögum síðar hefðu þær mægður farið saman á lögreglustöðina í [...] og Y lagt fram kæru. R bar að ávallt hefði ríkt mikill kærleikur og væntumþykja milli Y og ákærða og hefði henni fundist samband þeirra vera afar gott og ekki verða breyting á því á meðan hún og Y hefðu búið að Æ. R gat þess í framhaldi að eftir að fjölskyldan hefði flutt að Ö hefði ákærði í eitt skipti komið þangað drukkinn og beðist gistingar. Hún hefði lagt dýnu á gólf fyrir hann í herbergi Y og hann sofið þar. Aðspurð hvort ákærði hefði á einhverju tímabili búið á heimili hennar í Æ skýrði R frá því að veturinn 1993 eða 1994 hefði ákærði verið á haustönn í [...]. Þá hefði hann búið hjá þeim í um það bil 4 mánuði og haft sérherbergi til afnota. Fram kom hjá R að hana hefði ekki grunað að ákærði hefði misnotað dætur hennar tvær kynferðislega fyrr en Y hefði skýrt henni frá því í nóvember 2001. Hún sagði að umgengni ákærða við föður sinn hefði ekki verið í föstum skorðum á meðan fjölskylda hennar hefði búið í Æ. Ákærði hefði á þeim tíma unnið með föður sínum og oft komið í heimsókn. Hún kvaðst ekki muna hvort ákærði hefði gist hjá þeim, en það hefði hann nær örugglega gert af og til.
Ákærði gaf sem fyrr segir framburðarskýrslu hjá lögreglu 29. nóvember 2001. Fyrir dómi skýrði hann frá og svaraði spurningum á sama veg í öllum meginatriðum. Hann kannaðist við að hafa oft komið sem gestur inn á heimili Y að Æ, einkum í því skyni að eiga umgengni við föður sinn, en einnig til að hitta Y og hin hálfsystkini sín. Þá hefði hann búið þar tímabundið í nokkra mánuði á meðan hann hefði verið í [...]. Fyrir dómi kvaðst ákærði halda að þetta hefði verið veturinn 1994-1995, en í lögregluskýrslu hafði hann talað um 6 mánaða búsetu á heimilinu á árunum 1993 eða 1994. Ákærði kvaðst einnig mörgum sinnum hafa komið á heimili Y að Ö á því tímabili, sem ákæra tekur til og hefði hann í nokkur skipti fengið næturgistingu. Hann kvaðst hins vegar ekki muna eftir að hafa sofið á dýnu inni í herbergi Y þegar hún hefði verið heima. Ákærði aftók með öllu að hafa nokkru sinni áreitt hana kynferðislega og sagði ekkert kynferðissamband hafa verið þeirra í milli. Á hinn bóginn hefði systkinasamband þeirra verið afar gott, en þó hefði það minnkað eftir að hann hefði byrjað á föstu með núverandi sambýliskonu sinni í ágúst 1998. Hann sagðist ekki hafa fundið viðhorfsbreytingu hjá Y eftir það, en kærasta hans hefði haft á orði að sér finndist Y vera afbrýðisöm. Aðspurður kvaðst ákærði ekki kunna neina skýringu á sakargiftum hálfsystur sinnar.
Niðurstöður.
Ákærða er gefið að sök að hafa frá árinu 1992 til september 1996, á heimili Y að Æ, margoft káfað á kynfærum hennar og farið með fingur inn í þau. Er óumdeilt að Y hafi búið þar á greindu tímabili, ásamt móður sinni, föður ákærða og tveimur hálfsystrum sínum og að ákærði hafi verið tíður gestur á heimilinu. Kom þar bæði til umgengni við föður og náið samband við systur sínar, einkum Y, en ákærða og vitnum ber saman um að miklir kærleikar hafi verið með þeim. Mun ákærði í einhver skipti hafa gist á heimilinu, en óljóst er af gögnum málsins hversu oft það hafi verið. Einnig liggur fyrir að ákærði flutti á tímabili inn til fjölskyldunnar, að loknu grunnskólanámi og bjó hjá henni í 3-4 mánuði á meðan hann sótti nám á haustönn í [...]. Ekki hefur verið aflað staðfestingar um innritun ákærða í [...], en með hliðsjón af framburði ákærða og vitnisburði móður Y fyrir dómi, þykir mega við það miða að ákærði hafi flutt inn á heimilið haustið 1993. Fær sú ályktun einnig stoð í vætti Díönu Sigurðardóttur, ráðgjafa hjá Stígamótum, sem bar fyrir dómi að Y hefði greint frá því í viðtalsmeðferð hjá Stígamótum að ákærði hefði verið 16 eða 17 ára þegar hann bjó að Æ.
Ákærði hefur staðfastlega neitað ásökunum Y um kynferðislega misnotkun. Hann kveðst ekki kunna neina skýringu á nefndum sakargiftum og sagði fyrir dómi að samband þeirra systkina hefði ávallt verið afar gott þótt dregið hefði úr samskiptum þeirra eftir að hann hefði stofnað til sambands við núverandi sambýliskonu sína haustið 1998.
Samkvæmt vitnisburði Y fyrir dómi greindi hún fyrst fyrrverandi kærasta sínum, T, frá ætluðum kynferðisbrotum ákærða. Í framhaldi hefði hún sagt nokkrum vinkonum sínum frá háttsemi hans, þar á meðal S. Samkvæmt vitnisburði S fyrir dómi heyrði hún af þessu í febrúar 2001 og fór skömmu síðar með Y til Stígamóta. Díana Sigurðardóttir bar fyrir dómi að Y hefði í viðtölum hjá Stígamótum í mars 2001 skýrt frá kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða, sem átt hefði sér stað þegar hann hefði komið í heimsókn til fjölskyldu hennar. Ákærði hefði komið inn í herbergi hennar um helgar, lagst ofan á hana og káfað á kynfærum hennar og brjóstum. Á því tímabili sem hann hefði búið á heimili hennar hefði þetta aukist til muna og hann misnotað hana með greindum hætti á nánast hverju kvöldi. Díana bar að hún hefði hvatt stúlkuna til að segja foreldrum sínum frá þessu. O, sem býr með föður ákærða og Y, bar fyrir dómi að Y hefði um mánaðamót október-nóvember 2001 sagt henni frá kynferðislegri misnotkun af hálfu ákærða. Í sömu andrá hefði hún brotnað niður og grátið lengi. Fram kom í vætti O að hún hefði þekkt Y í um það bil 2 ár og ætti trúnað hennar. Samkvæmt dómsvætti R, móður Y, sagði dóttir hennar frá því 19. nóvember 2001 að hún hefði verið misnotuð kynferðislega af ákærða.
Þegar horft er til framburðar nefndra vitna og þess að miklir kærleikar voru með Y og ákærða á því tímabili, sem ákæran tekur til, er vandséð af hvaða hvötum stúlkan gæti hafa tekið upp á því að bera rangar sakir á bróður sinn. Sú skýring þykir ekki nærtæk að afbrýðisemi í garð kærustu ákærða hafi haft þau áhrif. Bar Y fyrir dómi að hún hefði verið því fegin þegar þau byrjuðu saman og hún alið þá von í brjósti að ákærði myndi þá hætta að áreita hana kynferðislega. O og Díana Sigurðardóttir, sem unnið hefur með unglingum síðastliðin 13 ár, báru fyrir dómi að Y hefði liðið afar illa þegar hún greindi frá háttsemi ákærða. Díana kvað stúlkuna vera fremur lokaðan einstakling. Hún væri óörugg í framkomu, feimin og ætti almennt erfitt með að tjá sig. Áskell Örn Kárason sálfræðingur var með Y í viðtalsmeðferð í desember 2001 til janúar 2002 vegna kynferðislegrar misnotkunar. Hann kvað hafa komið skýrt fram hjá stúlkunni að hálfbróðir hennar hefði misnotað hana kynferðislega. Sálfræðingurinn lýsti Y sem hlédrægri ungri stúlku, með lágt sjálfsmat, sem virtist gjörn á að láta eigin þarfir víkja fyrir þörfum annarra.
Þegar framangreind atriði eru virt telur dómurinn ekkert fram komið í málinu, sem bendir til þess að annarlegar hvatir hafi búið að baki kæru Y eða að hún hafi haft nokkurt tilefni til að bera á ákærða rangar og upplognar sakir. Er þekkt að sumir þolendur kynferðisafbrota beri harm sinn í hljóði um árabil, einkum þegar um börn er að ræða og að slíkt komi upp á yfirborðið þegar viðkomandi kemst til manns.
Með framanritað í huga er það álit dómsins að vitnisburður Y fyrir dómi sé trúverðugur um að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega á því tímabili, sem ákært er fyrir í kafla A.1. ákæru. Þykir engu breyta í því sambandi þótt hún hafi breytt framburði sínum varðandi sakargiftir samkvæmt kafla A.2. ákærunnar á þann veg, sem áður greinir, en leiðréttan framburð stúlkunnar að þessu leyti telur dómurinn fremur bera vott um heiðarleika hennar og vilja til að hafa frásögn sína um atburði rétta. Þá telur dómurinn að frásögn hennar fyrir dómi um að hún hafi í eitt skipti sætt kynferðislegri misnotkun af hálfu annars aðila þegar hún var 12-13 ára skipti ekki máli við mat á trúverðugleika og sé máli þessu óviðkomandi, enda ekkert sem bendir til þess að sú lífsreynsla hafi mótað vitnisburð hennar gegn ákærða.
Með hliðsjón af öllu því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn, þrátt fyrir eindregna sakarneitun ákærða, að leggja beri til grundvallar vitnisburð Y fyrir dómi um að ákærði hafi misnotað hana kynferðislega á heimili hennar að Æ á því tímabili, sem tilgreint er í kafla A.1. ákæru og með þeim hætti, sem þar er lýst. Samkvæmt því er sannað að ákærði hafi margoft káfað á kynfærum Y og farið með fingur inn í leggöng hennar. Eins og sakargögnum er farið verður þó engu slegið föstu um það hvenær umrædd misnotkun byrjaði og hvenær henni lauk. Þá telur dómurinn að gjalda beri varúð við því að miða fjölda brotanna við vitnisburð stúlkunnar fyrir dómi, enda var hún óviss í þeim framburði. Ber hér að hafa í huga að langt er um liðið frá framningu brotanna og að hún samkvæmt eigin framburði hefur reynt að afmá þessar minningar úr huga sér. Dómurinn telur engu að síður sannað að brotin hafi verið mörg og að þau hafi flest verið framin á því tímabili, sem ákærði bjó á heimili hennar haustið og veturinn 1993. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot á fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
B. Ætluð brot gegn Z.
Atvikalýsing.
Með bréfi barnaverndarnefndar [...] til lögreglunnar í Q 26. nóvember 2001 var óskað eftir rannsókn vegna tilkynningar E um að ákærði hefði misnotað dóttur hennar, Z, þegar hún hefði verið 5 ára. Ákærði hefði þá verið að passa hana í nokkur skipti og við slíkt tækifæri losað um buxur sínar, lagst ofan á stúlkuna og gefið frá sér einhver hljóð. Þá hefði hann í eitt skipti lagt hendur á læri hennar í bílskúr hjá afa hennar og ömmu og spurt hvort hann mætti leggjast ofan á hana aftur. Að sögn E hefði Z sagt henni frá þessu á sínum tíma og E þá látið G systur sína vita af því, en ekki aðhafst frekar í málinu. Þegar dóttir G hefði síðan greint frá því nokkrum dögum áður að ákærði hefði misnotað hana á sama tímabili hefði E fundist nauðsynlegt að fram færi opinber rannsókn. Málið sætti lögreglurannsókn og voru skýrslur teknar af ákærða og vitnum. Sem fyrr segir neitaði ákærði ásökunum stúlkunnar við skýrslugjöf hjá lögreglu 29. nóvember 2001 og kvaðst ekkert kannast við umrædd atvik.
Z gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 6. desember 2001 og 31. maí 2002; þá 12 ára gömul. Í upphafi fyrri skýrslugjafar var kannað ítarlega hvort hún þekkti muninn á réttu og röngu og hún í framhaldi spurð hvort hún þekkti muninn á því að segja satt og ósatt. Z svaraði því svo: „Ef að maður segir ósatt þá er ekki hægt að treysta viðkomandi.“ Hún lofaði að segja bara sannleikann og sagði, aðspurð um tilefni þess að hún væri stödd í Barnahúsi, að „frændi“ hennar, ákærði í málinu, hefði verið að passa hana þegar hún hefði verið 5 ára og hefði lagst ofan á hana og gert eitthvað, sem hún myndi ekki alveg hvað væri. Á þeim tíma hefði hún átt heima í blokk [...] í Q. Hún sagði þetta hafa gerst í sófa í stofunni heima hjá henni þegar móðir hennar hefði ekki verið heima, en ákærði hefði stundum passað hana á kvöldin þegar móðir hennar hefði farið út. Z sagði aðspurð að þetta hefði gerst oftar en einu sinni og bætti því við „ég man ekki alveg hvað mörgum sinnum.“ Aðspurð um „síðasta skiptið“ sagðist hún ekki muna hvort hún hefði verið í náttfötum, en ákærði hefði verið í gallabuxum, hneppt þeim frá og lagst ofan á hana og hreyft sig fram og til baka og gefið frá sér hljóð, „svona eins og fólk gefur frá sér þegar það er að, svona njóta ásta.“ Z var nánar spurð út í umrædd hljóð og kvaðst hún hafa lært um þetta í skólanum árið áður. Nánar aðspurð um fjölda framangreindra tilvika svaraði hún því til að þetta hefði gerst oftar en einu sinni og að hún héldi að tvilvikin hefðu verið fleiri en tvö. Í framhaldi var hún spurð hvort hið sama hefði gerst í hvert skipti og svaraði hún því svo: „Ég held að það hafi verið það sama, samt man ég ekki alveg.“ Hún nefndi síðan annað tilvik, þar sem hún hefði verið stödd í bílskúr heima hjá afa sínum og ömmu. Ákærði hefði verið á staðnum, strokið henni um lærin og spurt hvort hann mætti „gera þetta aftur“. Z hefði svarað því neitandi. Hún kvaðst hafa orðið hrædd þegar hann hefði gert svona við hana og stundum fengið tár í augun. Eftir síðasta tilvikið hefði hún sagt móður sinni frá þessu, en síðan ekki hugsað meira um þetta fyrr en hún hefði séð móður sína lesa blaðagrein um Barnahús í DV. Móðir hennar hefði þá spurt hvort hún þekkti einhvern, sem orðið hefði fyrir kynferðislegri misnotkun og hún þá minnt hana á fyrri frásögn sína um ákærða. Móðir hennar hefði þá sagst ætla að gera eitthvað í þessu. Z kvaðst aldrei hafa sofið hjá strák „eða neitt“ og aldrei hafa lent í neinu líku því sem hún hefði upplifað með atferli ákærða.
E bar fyrir dómi að ákærði hefði stundum passað Z þegar stúlkan hefði verið 5 ára gömul og í þau skipti hlaupið í skarðið fyrir hálfsystur sína, F, sem mjög oft hefði passað Z á þeim tíma. E hefði þá búið ein með dóttur sinni og hún yfirleitt verið sofnuð þegar ákærði hefði komið heim til þeirra. Eftir eina slíka pössun hefði Z sagt frá því að ákærði hefði lagst ofan á hana kvöldið áður, hneppt buxum sínum frá og gefið frá sér hljóð. Vonda lykt hefði lagt frá vitum hans. E kvaðst á þeim tíma hafa trúað dóttur sinni og eftirleiðis ekki hafa beðið ákærða um pössun. Hún hefði greint G systur sinni frá þessu, en ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu. Þær mæðgur hefðu svo ekki rætt þetta aftur fyrr en árið 2001 þegar Z hefði séð hana lesa grein í DV um Barnahús. Hún hefði útskýrt fyrir dóttur sinni hvaða starfsemi færi þar fram og spurt hvort hún þekkti til einhvers, sem hefði lent í slíkum málum. Z hefði þá minnt hana á eigin reynslu af framferði ákærða. E kvaðst hafa brotnað niður við þau ummæli. Einum til tveimur dögum síðar hefði G systir hennar komið til hennar og sagt henni að dóttir hennar, Þ, hefði sakað ákærða um kynferðislega misnotkun. Hún hefði þá sagt G frá reynslu Z og í framhaldi kært málið til barnaverndaryfirvalda í Q.
G bar fyrir dómi að E systir hennar hefði talað um að Z hefði sagt frá því þegar hún hefði verið lítil að ákærði hefði „lagst hjá henni“ þegar hann hefði verið að passa hana. Að sögn G hefði henni ekki fundist þetta vera neitt tiltökumál á þeim tíma, en sagðist nú ekki vita af hverju hún hefði ekki hlustað betur á þetta þá.
P er stjúpfaðir Z. Hann bar fyrir dómi að hann hefði stofnað til sambands við móður Z í júlí 1995. Eftir það hefði E, einhverju sinni fyrir árið 1997, minnst á framferði ákærða, þ.e. að hann hefði verið að passa Z þegar hún hefði verið 5 ára gömul og þá lagst ofan á hana og gefið frá sér skrýtin hljóð.
F bar fyrir dómi að hún hefði oft passað Z á kvöldin þegar stúlkan hefði verið lítil. F kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hefði stundum hlaupið í skarðið fyrir hana, en sagði móður sína hafa minnt sig á þetta og sagt að ákærði hefði stundum passað Z.
Þóra F. Fischer kvensjúkdómalæknir bar fyrir dómi að hún hefði skoðað Z 12. desember 2001 í þágu rannsóknar málsins. Hún staðfesti efni læknisvottorðs frá 4. janúar 2002 þess efnis að skoðun hefði leitt í ljós að meyjarhaft stúlkunnar hefði verið órofið, en mjúkt og eftirgefanlegt. Niðurstaða skoðunar gæfi vissan grun um að innþrenging hefði átt sér stað, svo sem eftir fingur, en skoðun sannaði ekkert í því sambandi.
Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss bar fyrir dómi að hún hefði haft Z í viðtalsmeðferð í Barnahúsi á tímabilinu frá 17. desember 2001 til 8. apríl 2002 vegna ætlaðra kynferðisbrota af hálfu ákærða. Þær hefðu hist átta sinnum á tímabilinu og sagði Vigdís að meðferðinni væri ekki lokið þótt engin ákvörðun hefði verið tekin um fleiri viðtöl. Vigdís bar að Z hefði þótt niðurstaða framangreindrar læknisskoðunar þungbær og hefði það valdið henni áhyggjum að vera ekki lengur „hrein mey“. Þá hefði það valdið henni áhyggjum að muna ekki betur hvað hefði gerst í samskiptum hennar við ákærða í æsku. Í viðtölum við Z hefði einnig komið fram að framferði ákærða væri henni hugleikið og að hún hugsaði um það oft á dag hvaða afleiðingar háttsemin hefði fyrir hana og fjölskyldu hennar. Stúlkan hefði þjáðst af sektarkennd og fundist sem hún hefði veitt samþykki fyrir því að ákærði kæmi svona fram við hana. Að mati Vigdísar hefði dregið úr þessum og öðrum einkennum við meðferðina. Einkennin væru þó ekki horfin, en þau valdi henni nú ekki teljandi vandkvæðum í daglegu lífi. Aðspurð kvaðst Vigdís á meðferðartímanum hafa spurt Z út í áhyggjur hennar almennt, í því skyni að kanna hvort einhverjar aðrar kreppur í lífi hennar gætu skýrt þau einkenni, sem fundist hefðu hjá stúlkunni. Ekkert slíkt hefði komið fram.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann vissi ekki hvað Z væri að bera um og sagðist aldrei hafa áreitt hana kynferðislega. Hann kannaðist við að hafa passað hana að kvöldlagi í einhver skipti á tímabilinu frá október 1994 til júlí 1995, en sagði ekkert hafa gerst í leik þeirra eða öðrum samskiptum, sem mætti misskilja með greindum hætti. Ákærði kvaðst ekki kunna skýringu á því af hverju stúlkan bæri á hann sakir.
Niðurstöður.
Í málinu liggur fyrir að Z hafi búið [...] í Q á tímabilinu frá október 1994 til júlí 1995 og er óumdeilt að ákærði hafi þá í einhver skipti passað hana að kvöldlagi þegar móðir hennar var ekki heima. Z er fædd í október 1989 og var því 5 ára á greindu tímabili. Samkvæmt vitnisburði hennar fyrir dómi, sem samrýmist vætti móður hennar, skýrði Z fá því, 5 ára gömul, að ákærði hefði leitað á hana kvöldið áður með því að leggjast ofan á hana og gefa frá sér annarleg hljóð. Þessa frásögn endurtók Z við skýrslugjöf í Barnahúsi mörgum árum síðar og gat þess einnig að ákærði hefði á meðan hreyft sig fram og til baka. Z var óviss í frásögn sinni um fjölda slíkra tilvika, en gat þess með nokkurri nákvæmni að ákærði hefði í að minnsta kosti eitt skipti hneppt frá gallabuxum sínum, lagst ofan á hana í sófa, hreyft sig fram og til baka og gefið fá sér hljóð eins og fólk geri þegar það nýtur ásta, svo notuð séu orð Z. Hún kvaðst aldrei hafa upplifað nokkuð þessu líkt, hvorki fyrr né síðar og sagði að hún hefði orðið hrædd við framferði ákærða og stundum fengið tár í augun. Eftir umrætt atvik mun ákærði ekki hafa passað Z oftar.
Dómurinn hefur hlýtt á framburð ákærða og vitna og skoðað myndbandsupptökur af vitnisburði Z í Barnahúsi. Þótt langt sé um liðið frá greindum atburðum telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi áreitt Z kynferðislega með þeim hætti, sem lýst er í ákæru, þrátt fyrir eindregna neitun hans, enda er framburður Z án ofhermis og þykir trúverðugur að mati dómsins, svo langt sem hann nær og er að auki studdur vætti móður hennar um að stúlkan hafi greint frá framferði ákærða þegar á 5 ára aldri. Ekkert er fram komið í málinu, sem gefur tilefni til að ætla að Z hafi af einhverjum ástæðum viljað koma ákærða í vandræði með rangri frásögn í æsku eða að hún hafi, mörgum árum síðar, haft tilefni til að klekkja á honum með röngum sakargiftum. Þykir því rétt að leggja framburð stúlkunnar til grundvallar við úrlausn þessa sakarefnis. Z hefur ekki getað borið með neinni vissu að ákærði hafi áreitt hana í fleiri en eitt skipti á heimili hennar. Að því virtu þykir varhugavert að telja sannað að um fleiri en eitt tilvik hafi verið að ræða, þar sem ákærði hafi lagst ofan á hana og viðhaft samfarahreyfingar. Ákærði þykir engu að síður sannur að sök og varðar háttsemi hans samkvæmt framansögðu við síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
C. Ætluð brot gegn Þ.
Atvikalýsing.
Með bréfi barnaverndarnefndar [...] til lögreglunnar í Q 26. nóvember 2001 var óskað eftir opinberri rannsókn vegna tilkynningar G og H um að ákærði hefði ítrekað misnotað dóttur þeirra, Þ, kynferðislega þegar hún hefði verið 7 ára. Málið sætti lögreglurannsókn og voru skýrslur teknar af ákærða og vitnum. Ákærði neitaði staðfastlega ásökunum stúlkunnar og þvertók fyrir að hafa gert eitthvað á hennar hlut.
Þ gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi 6. desember 2001 og 31. maí 2002; þá 14 ára gömul. Í upphafi fyrri skýrslugjafar var kannað ítarlega hvort hún þekkti muninn á réttu og röngu og lofaði hún í framhaldi að skýra aðeins frá því, sem satt væri. Þ greindi því næst frá því að ákærði hefði „gert vont við hana“ þegar hún hefði verið 7 ára. Þetta hefði gerst í „svona tíu skipti“, á 6-8 mánaða tímabili og ávallt á heimili hennar [...] í Q. Aðspurð hvað þetta vonda hefði verið svaraði stúlkan: „Það var bara svona, bara reyndi að nauðga mér eða svona“. Hún kvað þetta ávallt hafa gerst að kvöldlagi inni í herbergi bróður síns, vinar ákærða, á meðan bróðirinn hefði verið að heiman. Foreldrar hennar hefðu hins vegar ávallt verið heima, en verið grunlaus inni í stofu eða frammi á gangi að horfa á sjónvarp. Sjálf hefði hún setið eða legið í rúmi bróður síns og verið að horfa þar á sjónvarp eða vídeó. Ákærði hefði komið inn í herbergið, til að fá lánaðar myndbandsspólur og lokað á eftir sér. Því næst hefði hann gengið til hennar, lagt hana á rúmið og án nokkurra orðaskipta dregið nærbuxur hennar og stundum buxur niður á hæla. Í framhaldi hefði hann rennt niður buxnaklauf sinni, káfað á kynfærum hennar og „síðan setti hann bara typpið inn í mig“, svo notuð séu orð Þ. Hún kvaðst að minnsta kosti halda að typpið hefði farið inn í hana „en ekki langt samt sko“. Ákærði hefði því næst hreyft sig „bara eins og hann væri að ríða mér eða eitthvað svona“. Aðspurð kvað hún ákærða oftast hafa borið sig að með nefndum hætti. Hún kvaðst hafa fundið til og sagði þetta hafa verið vont, en hún hefði ekki þorað að segja neitt meðan á þessu stóð. Þegar ákærði hefði verið búinn að þessu hefði hann tekið myndbandsspólu með sér út úr herberginu og sagt foreldrum hennar að hann væri að fara heim. Þ kvaðst á greindum tíma ekki hafa þorað að segja móður sinni frá framferði ákærða af ótta við að hún yrði reið við hana. Hún hefði síðan nýlega sagt tveimur vinkonum sínum frá þessu og hefðu þær hvatt hana til að segja kennaranum sínum frá. Aðspurð um ástæðu þess að hún hefði ákveðið að greina frá þessu svaraði Þ því til að hún hefði bara þurft að gera eitthvað í þessu. Hún væri búin að þaga yfir þessu allt of lengi. Aðspurð kvaðst Þ aldrei hafa lent í neinu öðru svona, hvorki fyrr né síðar og kvaðst ekki hafa öðlast kynlífsreynslu af neinu tagi með öðrum.
Þ var skoðuð í Barnahúsi 12. desember 2001 af Jóni R. Kristinssyni barnalækni og Þóru F. Fischer kvensjúkdómalækni. Í læknisvottorði þeirra, sem Þóra staðfesti fyrir dómi, segir meðal annars svo um niðurstöðu læknisskoðunar: „Skoðun á kynfærum sýnir að meyjarhaft er farið á þann hátt sem sést hjá konum sem hafa haft samfarir. ... Þannig er niðurstaða skoðunar að meyjarhaft er farið þannig að engin fyrirstaða er við skoðun í leggöng. Sterkur grunur er um innþrengingu (penetration), skoðun styður þannig frásögn stúlkunnar.“ Aðspurð fyrir dómi kvaðst Þóra geta útilokað að meyjarhaft stúlkunnar hefði getað rofnað með framangreindum hætti af völdum annars en innþrengingar og sagði að orðalagið „sterkur grunur“ í vottorðinu mætti allt eins orða svo, að full vissa væri fyrir því að innþrenging hefði átt sér stað.
J er æskuvinkona Þ og skólasystir hennar. Hún bar fyrir dómi að Þ hefði dag einn í skólanum sagt að hún þyrfti að segja henni svolítið. Síðar um daginn hefðu þær tvær og L verið á leið í sundtíma þegar Þ hefði greint frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega. Þær hefðu rætt betur saman eftir sundtímann og Þ þá sagt grátandi frá því að þetta hefði gerst oftar en einu sinni, á nokkurra mánaða tímabili og tiltók sem dæmi eitt tilvik, sem hefði átt sér stað í herbergi I bróður hennar. Hún hefði verið þar inni að borða Cocoa Puffs úr skál þegar ákærði hefði komið inn og lokað á eftir sér, tekið af henni skálina og misnotað hana. Að sögn Þ hefði ákærði káfað á henni, „puttað hana“ og haft við hana samfarir. J kvaðst ekki vita til þess að Þ hefði nokkurn tíma átt kærasta.
L er æskuvinkona Þ og skólasystir hennar. L bar fyrir dómi að hún hefði verið á leið í skólasund í nóvember 2001 ásamt Þ og J þegar Þ hefði sagt að hún hefði verið misnotuð kynferðislega. Að sögn L hefðu hún og Þ báðar „horft á“ í sundtímanum og Þ farið að gráta og greint nánar frá þessu. Fram hefði komið að ákærði hefði verið að passa Þ þegar hún hefði verið 7 ára og verið inni í herbergi bróður síns að horfa á vídeó. Ákærði hefði þar káfað á henni og „puttað“ hana og haft við hana samfarir. L kvaðst hafa hvatt Þ til að segja skólasálfræðingi frá þessu og einnig foreldrum sínum.
K er æskuvinkona Þ og skólasystir hennar. Hún bar fyrir dómi að Þ hefði dag einn að lokinni körfuboltaæfingu beðið hana að koma með sér upp í stúku því hún vildi segja henni frá alvarlegum hlut. K kvaðst hafa verið viðbúin þessu því vinkona þeirra, J, hefði fyrr um daginn sagt henni að Þ vildi segja henni frá einhverju. Þ hefði síðan greint frá því að ákærði hefði beitt hana kynferðislegu ofbeldi. K bar að hún myndi ekki nákvæmlega hvað ákærði átti að hafa gert og sagði Þ hafa átt erfitt með að greina frá því í smáatriðum. Hún hefði í fyrstu slegið inn upplýsingum í GSM síma sinn og afhent K til aflestrar og svo bætt inn í þá frásögn. K kvaðst þó muna að Þ hefði sagt að ákærði „hefði farið inn á hana og verið eitthvað að fikta við hana“. Í framhaldi var lesinn fyrir K framburður hennar um sama atriði í lögregluskýrslu frá 24. maí 2002 og staðfesti hún að sú frásögn væri rétt. Þar kemur fram að Þ hefði umrætt sinn sagt K frá því að ákærði „hefði nauðgað henni“ inni í herbergi I bróður hennar þegar hún hefði verið 7 ára. Ákærði hefði á þeim tíma oft komið í heimsókn og stundum verið að passa hana. Hún hefði oft haldið til inni í herbergi I og ákærði þá komið inn, sagst ætla að horfa á vídeó og lokað á eftir sér. Þetta hefði gerst jafnvel þegar foreldrar Þ hefðu verið heima og jafnvel þegar I hefði verið heima. K hafði við nefnda skýrslugjöf hjá lögreglu verið beðin að útskýra nánar hvað Þ hefði átt við með því að henni hefði verið nauðgað. Var sá vitnisburður K einnig lesinn fyrir henni og staðfesti hún fyrir dómi svohljóðandi endursögn á lýsingu vinkonu sinnar: „Mætta segir að Þ hafi sagt að X hafi sett alla vegana fingur inn í pjölluna á henni, káfað á henni þarna niðri og þannig. Mætta segir aðspurð að Þ hafi ekki talað um að X hafi sett typpið á sér inn í pjölluna á henni eða þannig en hún hafi þó ekki verið mjög skýr hvað það varðaði og segir mætta að sér hafi fundist á Þ að X hafi gert eitthvað verra við hana, eða meira, en mætta segir að sér hafi fundist á Þ að hún vildi ekki eða þætti það óþægilegt að segja frá öllu í smáatriðum. Mætta kveðst hafa gefið Þ það loforð að segja engum frá.“
M er umsjónarkennari Þ og hefur kennt henni frá 7 ára aldri. M bar fyrir dómi að hún hefði fyrst heyrt af málinu þegar Þ hefði komið inn á kennarastofu í [...] ásamt vinkonum sínum J og L og verið að leita að íslenskukennara sínum. Hann hefði ekki verið á staðnum og því hefði M spurt hvort stúlkurnar gætu rætt við hana í staðinn. Þær hefðu sagt að um mjög alvarlegt mál væri að ræða, sem varðaði Þ. Að sögn M hefði hún því ákveðið að bjóða stúlkunni að ræða þetta í einrúmi og þær í framhaldi sest niður í tónmenntastofu. Þar hefði Þ greint frá því að frændi hennar hefði misnotað hana kynferðislega og að það hefði átt sér stað á heimili hennar þegar hún hefði verið 7 ára, inni í einhverju herbergi þar sem myndbandsspólur hefðu verið geymdar. M bar að hún hefði spurt hvort viðkomandi hefði „farið alla leið“ og hefði stúlkan svarað því játandi. M kvað Þ hafa beðið hana um að segja móður hennar frá þessu, því hún þyrði ekki að gera það sjálf. Eftir viðræður við skólastjóra og skólasálfræðing hefði M boðað G móður hennar á fund í skólanum.
G bar fyrir dómi að kennari Þ og skólasálfræðingur hefðu greint henni frá því síðdegis á þriðjudegi að dóttir hennar hefði fyrr um daginn sagt frá því að hún hefði verið misnotuð kynferðislega. Í framhaldi hefði G farið heim, lagst upp í rúm með dóttur sinni og þær grátið saman. G bar að þær mæðgur hefðu í raun aldrei rætt um þetta frekar, en Þ hefði spurt „af hverju gerði hann þetta, ... hvað sá hann við mig“ og hefði G þá sagt henni að þetta væri bara brenglun í ákærða. G sagði að á sínum tíma, þegar ákærði hefði verið unglingur og nýfluttur suður, hefði fjölskyldan opnað heimili sitt fyrir honum, átt góð samskipti við hann og litið á hann sem góðan frænda. Hann hefði verið í vinfengi með I syni hennar og hefði hana aldrei grunað að ákærði kæmi svona fram við Þ. G kvaðst ekki muna sérstaklega eftir samskiptum ákærða og stúlkunnar á þessum tíma. Hún sagði leiðir þeirra þó oft hafa legið saman inni í herbergi I, en þar hefði Þ haldið mikið til og verið að horfa á barnaefni. Ákærði hefði átt það erindi inn í herbergið að ná í myndbandsspólur, sem hann hefði ætlað að fá lánaðar. Hann hefði oft komið heim til þeirra þegar I hefði verið að heiman og þá farið inn í herbergið til Þ og náð sér í spólur. G kvaðst ekki muna eftir neinu sérstöku tilviki, þar sem ákærði hefði lokað að sér og Þ inni í herberginu, en áréttaði að hún hefði verið með öllu grunlaus um að nokkuð væri að. Aðspurð kvaðst G halda að Þ hefði aldrei átt kærasta og sagði hana alltaf hafa sagt „það vill mig enginn, því ég er svo ljót, ég er svo feit“.
H, faðir Þ, bar fyrir dómi að ákærði hefði flutt sem unglingur suður til Q. Hann hefði verið utanveltu og þekkt fáa og I sonur H og G því tekið hann upp á arma sína. Ákærði hefði af þeim sökum verið heimagangur hjá þeim hjónum og margoft komið að [...] til að fá lánaðar myndbandsspólur. Líkti H heimili sínu við myndbandaleigu að þessu leyti; ákærði hefði gengið þar inn og út með spólur, óháð því hvort I hefði verið heima eða ekki. Hefði þetta verið hið besta mál, enda hefðu hjónin verið með öllu grunlaus um að nokkuð væri athugavert við heimsóknir hans. H kvað umræddar spólur hafa verið geymdar inni í svefnherbergi I og hefði ákærði því oft farið þangað inn. H sagðist ekki muna sérstaklega eftir samskiptum ákærða og Þ, en bar að hún hefði oft verið inni hjá I á kvöldin að horfa á myndefni. H fullyrti að ákærði og hún hefðu í fleiri en eitt skipti verið saman inni í herberginu og að dyrnar að herberginu hefðu þá verið lokaðar. Hann kvað dóttur sína aldrei hafa rætt um háttsemi ákærða við sig og hefði hann sjálfur ekki gengið eftir því við hana, heldur viljað bíða eftir því að hún leitaði til hans.
Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss bar fyrir dómi að hún hefði haft Þ í viðtalsmeðferð í Barnahúsi frá 17. desember 2001 vegna ætlaðra kynferðisbrota af hálfu ákærða og hefðu þær hist átta sinnum; síðast 16. september 2002. Vigdís kvað Þ aldrei hafa rætt um atburðina og sjálf hefði hún ekki viljað spyrja stúlkuna um þá. Fram hefði komið að Þ hefði létt verulega eftir að hún hefði greint frá framferði ákærða og að hún væri sátt við þann stuðning, sem hún fengi frá foreldrum sínum. Móðir hennar hefði sagt námsárangur dóttur sinnar hafa batnað í kjölfarið og geðslag hennar hafa orðið stöðugara. Að mati Vigdísar hefði framkoma stúlkunnar almennt verið í samræmi við þá lýsingu; hún hefði virst vera í ágætis jafnvægi að undanskildu viðtali 5. september síðastliðinn. Þann dag hefði líðan Þ virst slæm og hún sagst hugsa mikið um atburðina. Henni finndist sem eitthvað hefði verið skemmt, sem ekki væri unnt að laga. Segir um þetta í dagnótu Vigdísar frá viðtalinu: „Maður á að missa meyjarhaftið með kærasta og svo missti ég það með frænda mínum. Það er ógeðslegt“. Í viðtali 16. sama mánaðar hefði líðan Þ verið orðin betri á ný. Þrátt fyrir að framferði ákærða hefði verið stúlkunni erfið reynsla var það mat Vigdísar að afleiðingar þess veldu henni ekki erfiðleikum nú í daglegu lífi. Kæmi þar til að nokkuð langt væri liðið frá atburðum og að stúlkan hefði notið stuðnings foreldra sinna eftir að hún hefði greint frá atferlinu. Aðspurð kvaðst Vigdís á meðferðartímanum hafa spurt Þ út í áhyggjur hennar almennt, í því skyni að kanna hvort einhverjar aðrar kreppur í lífi hennar gætu skýrt þau einkenni, sem fundist hefðu hjá stúlkunni. Ekkert slíkt hefði komið fram.
Ákærði sagði fyrir dómi að vitnisburður Þ væri rangur og að ekkert væri hæft í ásökunum hennar á hendur honum. Hann hefði á greindum tíma átt mjög góð samskipti við fjölskyldu hennar og komið inn á heimilið að minnsta kosti annan hvern dag, yfirleitt um eða eftir kvöldmat. Þar hefði hann bæði hitt I bróður hennar og foreldra, en faðir Þ hefði eiginlega tekið hann að sér, enda ákærði þá verið nýfluttur til Q og hefði þekkt fáa. Ákærði sagði að þegar I hefði verið heima hefðu þeir tveir ýmist verið inni í herbergi hans eða setið frammi, en þegar I hefði verið að heiman hefði hann setið og spjallað við foreldra hans. Ákærði kvaðst ekki muna hvar Þ hefði verið á meðan, en líklega hefði hún verið úti að leika eða þá inni í sínu herbergi. Ákærði kvað rétt að hann hefði oft fengið lánaðar myndbandsspólur, en sagði þær hafa verið geymdar í skáp frammi í stofu. Hann kvaðst ekki hafa farið inn í herbergi I þegar I hefði verið að heiman og staðhæfði að hann hefði aldrei verið þar einn inni með Þ. Ákærði sagðist ekki kunna skýringu á því af hverju stúlkan bæri á hann svo alvarlegar sakir.
Niðurstöður.
Ákærða er gefið að sök að hafa á 6-8 mánaða tímabili á árinu 1995, á heimili Þ [...] í Q, margoft afklætt stúlkuna að neðan, káfað á kynfærum hennar og átt við hana kynferðismök, með því að setja lim sinn við eða inn í kynfæri hennar. Þ var þá 7 ára gömul. Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakargiftum við rannsókn og meðferð málsins. Hann kannast þó við að hafa á greindu tímabili komið inn á heimili Þ að minnsta kosti annan hvern dag og oft hafa fengið lánaðar myndbandsspólur. Samrýmist sá framburður ákærða vætti foreldra hennar fyrir dómi, en faðir hennar, H, bar að ákærði hefði verið heimagangur hjá þeim um tíma og líkti H heimilinu við myndbandaleigu að þessu leyti; svo oft hefði ákærði komið þangað og fengið lánaðar spólur. H og G , móðir Þ, hafa bæði borið að spólurnar hafi verið geymdar inni í svefnherbergi I sonar þeirra og að ákærði hafi oft komið þegar I hafi verið að heiman. Hann hafi farið inn í herbergið til að sækja og skila spólum og að í einhver skipti hafi Þ þá verið ein með honum í herberginu. Samrýmist sá vitnisburður frásögn Þ í Barnahúsi. Ákærði segir á hinn bóginn rangt að myndböndin hafi verið geymd inni hjá I og kannast hvorki við að hafa farið inn í herbergi I þegar hann hafi verið að heiman né heldur að hafa nokkru sinni verið þar einn með Þ.
Samkvæmt framansögðu er ljóst að ákærði hafi margoft komið inn á heimili Þ á því tímabili, sem ákæran tekur til. Er óumdeilt að hann hafi yfirleitt komið um eða eftir kvöldmat og oftar en ekki til þess að fá lánaðar myndbandsspólur. Dómurinn metur trúverðugan vitnisburð Þ og foreldra hennar um að spólurnar hafi verið geymdar inni í herbergi I, en frásögn þeirra er samhljóða og óhikuð um þetta atriði. Einnig telur dómurinn að leggja verði til grundvallar samhljóða og trúverðugan vitnisburð þeirra um að ákærði hafi í einhver skipti farið inn í herbergið þegar I hafi verið að heiman og verið þar einn með Þ, en framburður ákærða um þetta hvoru tveggja þykir með ólíkindablæ, meðal annars í ljósi þess að stúlkan hélt mikið til inni í herbergi bróður síns á kvöldin og að ákærði kom inn á heimilið nánast annan hvern dag. Samkvæmt framburði ákærða og vætti foreldra Þ höfðu þau opnað heimili sitt fyrir honum og tekið honum sem fjölskylduvini. Af þeim sökum kváðust hjónin ekki hafa grunað ákærða um neitt misjafnt og ekki hafa talið neitt óeðlilegt við það að hann væri einn með dóttur þeirra inni í herbergi I. Er þannig ljóst að áliti dómsins að ákærði hafði tækifæri, bæði í tíma og rúmi, til að misnota stúlkuna kynferðislega.
Þ bar fyrir dómi að ákærði hefði komið inn í umrætt herbergi í um tíu skipti þegar I hefði verið að heiman, lagt hana á rúm bróður síns og dregið nærbuxur hennar og stundum buxur niður á hæla. Því næst hefði hann káfað á kynfærum hennar, líklegast sett getnaðarlim sinn að hluta inn í fæðingarveg hennar og viðhaft samfarahreyfingar. Hún sagði að þetta hefði verið vont og að hún hefði fundið til á meðan hann hefði gert þetta. Hún notaði orðið nauðgun um háttsemina og sagði ítrekað aðspurð að ákærði hefði „bara riðið henni“. Þ bar að hún hefði hvorki fyrr né síðar öðlast kynlífsreynslu af neinu tagi með öðrum.
Fyrir liggur í málinu að Þ greindi fyrst þremur skólasystrum sínum og umsjónarkennara frá atburðum þriðjudaginn 20. nóvember 2001 eða um 6 árum eftir að ætluð brot voru framin. Hún gaf á þessu þá skýringu að hún hefði ekki getað þagað yfir þessu lengur og að á sínum tíma hefði hún ekki þorað að segja móður sinni frá framferði ákærða af ótta við að hún yrði reið við hana. Umræddar skólasystur, J, K og L, eru trúnaðarvinkonur Þ. Þær báru allar fyrir dómi að Þ hefði sagt þeim frá því að ákærði hefði misnotað hana kynferðislega inni í herbergi bróður síns þegar hún hefði verið 7 ára gömul. Frásögn stúlknanna þriggja af nánari atvikum er misjafnlega ítarleg, en J og L ber saman um að Þ hafi greint frá því að ákærði hefði káfað á kynfærum hennar og haft við hana samræði. K bar að Þ hefði í fyrstu sagt að henni hefði verið nauðgað, en síðan hefði hún virst draga aðeins úr og hefði talað um að ákærði hefði að minnsta kosti sett fingur inn í leggöng hennar. Að sögn K hefði henni fundist frásögn vinkonu sinnar vera óskýr hvað þetta varðaði og hefði hún haft á tilfinningunni að ákærði hefði gert eitthvað verra við hana. Samkvæmt vitnisburði M umsjónarkennara Þ greindi stúlkan frá því umræddan dag að „frændi“ hennar hefði misnotað hana kynferðislega þegar hún hefði verið 7 ára og hefði það gerst inni í einhverju herbergi þar sem myndbandsspólur hefðu verið geymdar. Aðspurð hvort frændinn hefði „farið alla leið“ hefði stúlkan svarað því játandi. Hún hefði beðið M að segja móður hennar frá þessu því hún þyrði ekki að gera það sjálf.
Sem fyrr segir var Þ tvívegis yfirheyrð í Barnahúsi. Dómurinn hefur skoðað myndbandsupptökur af vitnisburði hennar og er einhuga um að hann sé trúverðugur. Fær hann og stoð í vætti J, K, L og M, sem allar hlýddu á fyrstu frásögn Þ um greinda atburði. Þótt langt sé um liðið frá nefndum atburðum telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að stúlkan hafi greint hreinskilnislega frá atvikum fyrir dómi og að hún hafi aðeins skýrt frá því, sem hún hafi raunverulega orðið að þola af hálfu ákærða. Skýringar Þ á því af hverju svo langur tími leið frá atburðunum og þar til hún greindi fyrst frá þeim þykja eðlilegar, ekki síst í ljósi vensla hennar við ákærða, en hún leit á hann sem frænda sinn. Einnig er þekkt, eins og áður segir, að þolendur kynferðisafbrota beri harm sinn í hljóði um árabil, einkum þegar um börn er að ræða og að slíkt komi ekki upp á yfirborðið fyrr en löngu síðar.
Með hliðsjón af framansögðu er sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að hann hafi á umræddu tímabili misnotað Þ kynferðislega inni í herbergi bróður hennar að [...] í Q. Ákærði hefur lýst því yfir að hann kunni enga skýringu á framburði stúlkunnar. Er enda ekkert fram komið í málinu, annað en neitun ákærða, sem gefur tilefni til að ætla að frásögn hennar sé röng. Vitnisburður stúlkunnar er trúverðugur þótt vafi leiki á því hversu oft ákærði hafi misnotað hana með þeim hætti, sem hún hefur lýst og hve langt hann hafi gengið með háttsemi sinni. Engu að síður þykir lögfull sönnun fram komin um að ákærði hafi í allnokkur skipti afklætt hana að neðan og káfað á kynfærum hennar. Enn fremur þykir sannað með framburði Þ, sem stoð fær í niðurstöðu læknisrannsóknar og vitnisburði Þóru F. Fischer kvensjúkdómalæknis fyrir dómi, að ákærði hafi í fleiri en eitt skipti sett getnaðarlim sinn að hluta inn í fæðingarveg stúlkunnar með þeim afleiðingum að meyjarhaft hennar rofnaði. Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst sekur um brot á fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.
II.
Verjandi ákærða velti því upp við munnlegan málflutning hvort sök í málinu kynni að vera fyrnd að einhverju leyti eða öllu samkvæmt reglum 81. og 82. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Með 2. gr. laga nr. 63/1998 var fyrningarákvæði 1. mgr. 82. gr. almennra hegningarlaga breytt á þann veg að sakarfyrningarfrestur vegna brota samkvæmt 194.-202. gr. hegningarlaganna skuli eigi hefjast fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Fyrir gildistöku breytingarlaganna 18. júní 1998 gilti hins vegar sú regla að fyrningarfresturinn taldist frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Í athugasemdum með frumvarpi til nefndra breytingarlaga er sérstaklega tekið fram að lögin geri ráð fyrir því að brot, sem framin voru fyrir gildistöku laganna og voru ekki fyrnd við það tímamark, lúti hinum eldri fyrningarreglum. Er þetta í samræmi við ákvæði 2. gr. og 2. gr. a. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum og þær meginreglur, sem af þeim verða leiddar. Með lögum nr. 63/1998 voru gerðar fleiri breytingar á fyrningarreglum almennra hegningarlaga, meðal annars á 4. tölulið 1. mgr. 81. gr. laganna. Verður þeim lagareglum einnig aðeins beitt varðandi brot, sem framin voru eftir gildistöku breytingarlaganna.
Brot ákærða gagnvart stúlkunum þremur voru öll framin fyrir gildistöku laga nr. 63/1998. Brot hans gegn Y og Þ varða refsingu samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Getur refsing við slíkum brotum varðað fangelsi allt að 12 árum. Samkvæmt 4. tölulið 81. gr. almennra hegningarlaga, eins og sú lagagrein var orðuð fyrir gildistöku laga nr. 63/1998, fyrnist sök á 15 árum þegar þyngsta tímabundin refsing við broti er meiri en 10 ár. Ber samkvæmt framansögðu að beita hinum eldri fyrningarreglum og miða upphaf sakarfyrningarfrests við þann dag er refsiverðum verknaði lauk. Er því ljóst að brot ákærða gegn stúlkunum tveimur eru ófyrnd.
Brot ákærða gegn Z varðar refsingu samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992. Við slíku broti getur ekki legið þyngri refsing en 4 ára fangelsi og fyrnist því sök á 5 árum, sbr. 2. töluliður 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu hófst fyrningarfrestur nefndrar sakar aldrei síðar en í júlí 1995 og fyrntist sök ákærða því í síðasta lagi í júlí 2000. Ber af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af refsikröfu að því er varðar háttsemi hans gagnvart Z.
III.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu, svo kunnugt sé. Brot ákærða gegn Y og Þ, sem hann er nú sakfelldur fyrir, eru alvarleg og beinast að mikilvægum hagsmunum. Þau náðu yfir nokkurn tíma og voru framin á heimili stúlknanna, þar sem ákærði var heimilisvinur og naut óskoraðs trúnaðartrausts foreldra þeirra, annars vegar í skjóli sifjatengsla við Y og hins vegar í skjóli annarra vensla við Þ, sem leit á ákærða sem frænda sinn. Ákærði rauf þann trúnað ítrekað á svívirðilegan hátt og braut með háttsemi sinni gegn friðhelgi fjölskyldu og heimilis þegar stúlkurnar voru barnungar. Þykir ljóst af gögnum málsins að umræddir atburðir hafi orðið stúlkunum þungbærir. Á hinn bóginn verður ekki framhjá því litið að ákærði var á aldursbilinu 15-18 ára þegar hann framdi brotin. Ber að lækka refsingu með tilliti til þessa. Með framanritað í huga og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Ákærði hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi. Hann er nú tæplega 26 ára gamall og hefur verið í sambúð með konu um nokkurra ára skeið og á með henni barn, fætt [...] 2002. Að þessu virtu og með sérstakri hliðsjón af aldri ákærða þá er hann framdi brotin þykir mega skilorðsbinda refsinguna að hluta, þannig að fullnustu 15 mánaða af refsingunni skuli frestað og hún niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
IV.
Af hálfu Y og Þ hafa verið settar fram miskabótakröfur, sem reistar eru á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Með hliðsjón af sakfellingu ákærða fyrir hin alvarlegu kynferðisbrot eiga þær skýlausan rétt til bóta úr hendi hans, sbr. áður 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga að því er varðar Y og 1. og 2. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þá hefur einnig verið gerð krafa um miskabætur fyrir hönd Z. Þótt ákærði hafi á grundvelli sakarfyrningar verið sýknaður af refsikröfu vegna brots hans gagnvart Z er ljóst að hann hefur með ólögmætri meingerð einnig brotið gegn frelsi, friði og persónu hennar í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Er því bótakrafa stúlkunnar tæk til efnismeðferðar, sbr. 3. mgr. 172. gr. laga um meðferð opinberra mála.
Ljóst er að brot þau, sem ákærði er fundinn sekur um í málinu, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum.
Y hefur ekki notið langtímameðferðar í kjölfar atferlis ákærða og liggja því engar rannsóknir fyrir um andlega líðan hennar og hagi. Nýtur ekki annarra gagna í málinu um þessi atriði en dómsframburðar hennar sjálfrar, móður hennar og Áskels Arnar Kárasonar sálfræðings, sem hafði hana í viðtalsmeðferð á tímabilinu desember 2001 til janúar 2002. Y bar fyrir dómi að hún væri enn í dag hrædd og kvíðin og treysti engum í mannlegum samskiptum. Af vitnisburði sálfræðingsins má ráða að stúlkan hafi orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli vegna atferlis ákærða, en jafnframt hafi fleiri atriði mótað skapferli hennar allt frá unga aldri og stuðlað að hlédrægni, lágu sjálfsmati og ákveðinni vanlíðan, sem hún búi enn við. Þrjú framlögð bréf Y, sem hún ritaði ákærða frá hausti 1998, þykja renna stoðum undir þetta álit sálfræðingsins, en í þeim lýsir hún mikilli vanlíðan og verulegu óöryggi með félagslega stöðu sína. Rennir þetta stoðum undir þá ályktun dómsins að þeir erfiðleikar, sem stúlkan hefur átt við að etja undanfarin ár, stafi af fleiru en hinu alvarlega atferli ákærða. Með framangreind atriði öll í huga og með hliðsjón af því hversu oft ákærði braut gegn Y þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar krónur 700.000.
Í málinu liggja fyrir skýrslur Barnahúss, frá 26. september 2002 vegna Z og frá 11. október 2002 vegna Þ. Skýrslurnar eru undirritaðar af Vigdísi Erlendsdóttur forstöðumanni og hefur hún staðfest þær fyrir dómi. Er þar greint frá högum stúlknanna og látið í ljósi álit á líðan þeirra hvorrar um sig. Af skýrslunum og vitnisburði Vigdísar fyrir dómi má ráða að stúlkurnar hafi með sérfræðiaðstoð og góðum stuðningi foreldra sinna náð að vinna sig að verulegu leyti út úr þeirri sálarkreppu, sem ákærði olli þeim með atferli sínu og að það valdi þeim nú ekki lengur teljandi erfiðleikum í daglegu lífi. Að þessu virtu og með vísan til annars, sem að framan er rakið, þykja miskabætur til Z hæfilega ákveðnar krónur 200.000 og bætur til Þ 500.000 krónur.
Ákærða voru birtar miskabótakröfurnar 19. júní 2002. Þykir því rétt að þær beri hver fyrir sig dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
V.
Samkvæmt framangreindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 165. gr. og 1. mgr. 166. gr. laga um meðferð opinberra mála þykir rétt að skipta sakarkostnaði í málinu þannig að 1/3 hluti hans greiðist úr ríkissjóði og 2/3 hlutar af ákærða. Málið er umfangsmikið og verða málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun vegna starfa við rannsókn og meðferð málsins að taka mið af því. Þykja málsvarnarlaun Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða, þannig ákveðin í einu lagi krónur 600.000. Þótt réttargæslumenn hafi almennt ekki stóru hlutverki að gegna við rannsókn og meðferð kynferðisbrotamála er mál þetta sérstaks eðlis fyrir þær sakir að þolendur eru þrír. Rannsókn hvers þáttar var umfangsmikil og voru tvívegis teknar skýrslur í Barnahúsi af Z og Þ. Aðalmeðferð í málinu var lengri en almennt gerist og var háð í þrennu lagi. Af þessum sökum var réttlætanlegt að réttargæslumaður væri viðstaddur aðalmeðferðina í heild, en auk þess er ljóst að einhver tími hafi farið í undirbúning kröfugerðar fyrir stúlkurnar, viðtöl við foreldra þeirra og ýmsa fagaðila, sem komu að rannsókn málsins. Með hliðsjón af framangreindum atriðum þykir þóknun Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns stúlknanna þriggja hæfilega ákveðin í einu lagi krónur 450.000.
Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Jónas Jóhannsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir Ólöf Pétursdóttir dómstjóri og Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kváðu upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Y 700.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 200.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
Ákærði greiði Þ 500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júlí 2002 til greiðsludags.
Ákærði greiði 2/3 hluta alls sakarkostnaðar, en 1/3 hluti hans greiðist úr ríkissjóði. Eru þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, samtals krónur 600.000 og þóknun skipaðs réttargæslumanns stúlknanna þriggja, Þórdísar Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns, samtals krónur 450.000.