Hæstiréttur íslands
Mál nr. 613/2016
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Viðurkenningarkrafa
- Gjafsókn
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. september 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Í héraði bar áfrýjandi heitið X ehf. en nú Y ehf.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lenti stefndi í slysi að morgni miðvikudagsins 16. janúar 2013 þar sem hann var við járnskurð með rafsuðutæki í klefa á svonefndu gafflaverkstæði áfrýjanda á Reyðarfirði. Stefndi, sem var ófaglærður verkamaður og hafði ekki sérstök réttindi til slíkrar vinnu, tilkynnti verkstjóra strax um atvikið og var stefnda þegar í kjölfarið ekið til læknis. Hann kom aftur til vinnu á mánudegi 21. janúar og tilkynnti þá öryggissérfræðingi áfrýjanda um slysið. Engin vitni urðu að atvikinu. Stefndi hefur skýrt svo frá að er hann hagræddi eldvarnarhettu og hlífðarhjálmi, sem hann var búinn, til að þurrka svita af andlitinu hafi hann rekið rafsuðutöng í höfuð sér eða í málm. Við það hafi hann fengið raflost í höfuðið og vitað næst af sér þar sem hann stóð fyrir utan klefann. Eftir slysið leitaði hann alloft til lækna, einkum vegna höfuðverkja og sjóntruflana. Nokkur læknisvottorð hafa verið lögð fram í málinu um óvinnufærni stefnda eftir mitt ár 2013.
Í héraðsdómi er rakið hversu mjög skorti á að áfrýjandi hefði sinnt tilkynningar- og rannsóknarskyldu sinni vegna slyssins. Þar greinir einnig frá því að verkstjóri áfrýjanda og öryggissérfræðingur athuguðu vettvang nokkrum dögum eftir slysið, en ekki var gerð skýrsla um það fyrr en 5. desember 2013 þar sem sagði meðal annars: „Niðurstaða rannsóknar. Ekki rannsakað þar sem tilkynning kom dögum eftir að atvikið hafði átt sér stað.“ Áfrýjandi tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins heldur ekki um slysið fyrr en 10. desember 2013 sem samdægurs veitti þau skriflegu viðbrögð að vegna þess hve tilkynning hefði borist seint væri „ekki nokkur leið að rannsaka slysið.“
Meðal málsskjala eru leiðbeiningar Vinnueftirlits ríkisins nr. 2/1991 um öryggi við málmsuðu. Í 9. lið þeirra, sem fjallar um ýmsar varúðarráðstafanir við rafsuðu segir meðal annars: „Sviti og raki eykur hættu á raflosti. Þess vegna ætti jafnan að nota þurr föt og þurran fótbúnað við rafsuðu“. Verkstjóri áfrýjanda sem kom að stefnda fyrir utan málmsuðuklefann eftir slysið gaf skýrslu fyrir dómi. Meðal annars kom fram hjá honum að stefndi hafi verið „sveittur og svoleiðis“.
Að tilstuðlan aðila máls og réttargæslustefnda í héraði var C sérfræðingur í heila- og taugasjúkdómum fenginn til að meta heilsufarslegar afleiðingar slyssins. Var það niðurstaða hans að stefndi hafi hlotið „kröftugt rafmagnslost í höfuðið og varð mjög ringlaður á eftir og með svima, höfuðverk og sjóntruflanir.“ Þá sagði einnig í niðurstöðu matsgerðar hans: „Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga telur undirritaður ljóst að A hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna þess raflosts sem hann varð fyrir í slysinu þann 16. janúar 2013 með þeim einkennum sem lýst hefur verið hér að framan.“
Ekki er fallist á með áfrýjanda að héraðsdómur hafi farið út fyrir heimildir sínar samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með því að reisa niðurstöðu sína um sök áfrýjanda meðal annars á því að rými í klefa þeim sem um ræðir hafi verið of þröngt miðað við það verk sem stefnda var ætlað að vinna þar. Var málsókn stefnda í héraði meðal annars reist á þessu atriði.
Að gættum þeim atriðum sem að framan eru sérstaklega rakin verður ekki við annað miðað en að stefndi hafi í slysinu orðið fyrir raflosti líkt og hann sjálfur lýsir.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, er fallist á að áfrýjandi beri skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefndi varð fyrir umrætt sinn og að ekki séu skilyrði til þess að skipta sök. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Eftir þessum málsúrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti sem rennur í ríkissjóð eins og nánar greinir í dómsorði.
Gjafsóknarkostnaður stefnda hér fyrir dómi greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, svo sem nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Y ehf., greiði 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans 1.000.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Austurlands 7. júní 2016.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl 2016, höfðaði A, […], hinn 27. febrúar 2015 gegn X ehf., […], og til réttargæslu á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns er stefnandi hlaut í vinnuslysi þann 16. janúar 2013 á gafflaverkstæði stefnda á Reyðarfirði. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, líkt og eigi væri um gjafsóknarmál að ræða.
Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að skaðabótaskylda stefnda verði aðeins viðurkennd að hluta. Þá er krafist málskostnaðar, en til vara þess að málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar en réttargæslustefndi tekur undir kröfur og málflutning stefnda.
Dómendur gengu á vettvang við aðalmeðferð málsins, ásamt lögmönnum aðila, stefnanda og B verkstjóra.
I
Helstu málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem verkamaður á starfsstöð hins stefnda fyrirtækis í Reyðarfirði. Samkvæmt ráðningarsamningi, dags. 2. maí 2012, hóf stefndi störf 7. s.m. og vann sem verkamaður við járnsmíði og viðhald. Óumdeilt er að stefndi varð fyrir slysi að morgni 16. janúar 2012 á gafflaverkstæði stefnda, þ.e. í fúguklefa í vinnusal hans, þótt engin vitni hafi orðið að atburðinum. Er slysið varð vann stefnandi við fúgun, þ.e. að nota suðutöng til að skera tinda af göfflum sem notaðir eru við álframleiðslu í álverinu í Reyðarfirði, en við slík störf hafði hann starfað um nokkurt skeið áður en slysið varð.
Upplýst er að tvenns konar aðstaða er til staðar hjá stefnda fyrir slík verk. Annars vegar í gámi, sem staðsettur er utandyra, og hins vegar í minna rými eða klefa í vinnusalnum. Samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð dómkvadds matsmanns, sem nánar verður vikið að síðar, er klefinn um 3,65 m á lengd og um 2,48 m á breidd, þrjár hliðar hans lokaðar með veggjum, en önnur langhliðin er stúkuð af með lausum skilrúmum.
Stefnandi kveðst alltaf hafa verið látinn fúga í litla rýminu en annar nafngreindur starfsmaður hafi nýtt hitt rýmið (gáminn) á slysdegi. Ástæða þess að minna rýmið sé lokað að miklu leyti sé að ella væri það til óþæginda fyrir aðra starfsmenn vegna þeirrar miklu birtu sem hljótist af fúguninni.
Stefnandi kveðst hafa verið klæddur hlífðarbúnaði umrætt sinn, m.a. þykkum rúskinnsjakka, rúskinnssvuntu, eldvarnarsíðbuxum, eldvarnarrúllukragabol, eigin buxum og peysu frá stefnda, eldtefjandi samfestingi, hönskum, eldvarnarhettu og hafi auk þess verið með suðuhjálm (ekki loftskiptahjálm). Auk þess hafi stefnandi verið í skóm. Hefur ekki annað komið fram en að þar eigi stefnandi við öryggisskó sem hann fékk afhenta hjá stefnda vegna starfans.
Stefnandi lýsir atvikum svo að hann hafi haldið á suðutöng og kveðst hann ekki átta sig á því hvort hann hafi rekið suðutöngina í málm, í höfuðið á sér eða hvað gerðist, en hann hafi verið rennblautur af svita og verið að hagræða hjálminum og hettunni til að þurrka svitann. Kveðst hann telja sig hafa fengið raflost í höfuðið sökum þess hve blautur hann var af svita. Hann hafi séð mikla birtu, blossa og fundið mikið högg í gegnum höfuðið. Eftir það muni hann ekki eftir sér fyrr en hann hafi staðið á miðju smiðjugólfi að leita að verkstjóra sínum. Kveðst hann ekki átta sig á hve langur tími hafi þá verið liðinn frá atburðinum.
Óumdeilt er að stefnandi lét verkstjóra sinn strax vita af því sem gerst hafði, þótt áhöld kunni að vera um það hve nákvæmlega hann skýrði þá frá atburðinum. Varð úr að annar samstarfsmaður hans ók honum á heilsugæslustöð á Reyðarfirði. Samkvæmt sjúkraskrá er koma stefnanda þangað skráð kl. 8.49. Slysið átti sér stað á miðvikudegi og var stefnandi frá vinnu á fimmtudegi og föstudegi, en hann mætti aftur til vinnu á mánudegi.
Stefnandi kveðst hafa mætt stopult eftir það vegna afleiðinga slyssins fram til 6. ágúst 2013, er hann hætti störfum. Stefndi kveðst þó ekki sammála því og telur mætingu stefnanda til vinnu hafa verið betri eftir slysið en fyrir það.
Í stefnu kemur fram að stefnandi glími við stöðuga og alvarlega höfuðverki, jafnvel með uppköstum og svima, sem og sjóntruflanir, rugling í fjarlægðarskyni, ljósfælni og önnur óþægindi sem nákvæmlega sé lýst í fyrirliggjandi læknisfræðilegum gögnum.
Réttargæslustefnda var tilkynnt um slysið með tjónstilkynningu sem undirrituð er af stefnanda og er dagsett 9. desember 2013. Tilkynning um slysið til Sjúkratrygginga Íslands er undirrituð af stefnanda og stefnda 11. og 12. desember 2013. Með bréfi, dags. 6. janúar 2014, féllust Sjúkratryggingar Íslands á að um bótaskyldan atburð væri að ræða og að stefnandi ætti rétt á bótum samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar.
Stefndi tilkynnti Vinnueftirlitinu um slysið með tilkynningu dags. 10. desember 2013. Með tölvubréfi Vinnueftirlitsins sama dag var upplýst að Vinnueftirlitið myndi ekki rannsaka slysið, sökum þess hve langt væri liðið frá því.
Fyrir liggur eigin skýrsla stefnda um slysið á til þess gerðu formi úr gæðakerfi stefnda, dags. 5. desember 2013. Í reit um niðurstöðu rannsóknar segir að slysið hafi ekki verið rannsakað „þar sem tilkynning kom dögum eftir að atvikið hafði átt sér stað“. Fram kemur að skráningin sé „kláruð í byrjun desember samkvæmt minnispunktum og drögum af skráningu“. Athugun á vinnuaðstæðum og búnaði hafi samkvæmt minnispunktum farið fram 23.–24. janúar, en þetta hafi verið „sjónskoðað“.
Afstaða réttargæslustefnda um að hafna kröfu stefnanda um bætur úr ábyrgðartryggingu stefnda lá fyrir með tölvubréfi 3. febrúar 2014. Kemur þar fram að réttargæslustefndi telji ekki slíkan vafa leika á um málsatvik að vanhöld stefnda á að hlutast til um rannsókn á slysinu leiði til þess að hann beri sönnunarhalla í málinu. Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum sé það mat félagsins að slysið verði alfarið rakið til vangár stefnanda sjálfs, sem sé vanur suðumaður en hafi farið að hagræða eða fjarlægja hlífðarbúnað á höfði án þess að leggja frá sér suðutöng eða slökkva á rafmagni eða yfirgefa að öðrum kosti rýmið um stundarsakir. Réttargæslustefndi samþykkti hins vegar sama dag að greiða bætur úr launþegatryggingu stefnda og fór fullnaðaruppgjör fram við stefnanda úr þeirri tryggingu 21. október 2014.
Framangreindri afstöðu réttargæslustefnda til kröfu um bætur úr ábyrgðartryggingu skaut stefnandi til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 359/2014 lá fyrir 22. janúar 2015, og var á þá leið að líkamstjón stefnanda skyldi bætast að fullu úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Í áliti úrskurðarnefndarinnar er vísað til skorts á rannsókn á slysinu. Taldi úrskurðarnefndin að stefnda hefði ekki tekist að sýna fram á að slysið yrði ekki rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna. Þá lægi ekkert fyrir í gögnum málsins um að slysið yrði rakið til háttsemi stefnanda sem metin yrði honum til stórkostlegs gáleysis þannig að réttur hans til skaðabóta skertist.
Í málinu liggja fyrir ýmis gögn frá læknum, s.s. læknisvottorð til atvinnurekanda vegna fjarvista og sjúkradagpeningavottorð. Þá stóðu réttargæslustefndi og stefnandi saman að matsbeiðni á árinu 2014 og liggur fyrir örorkumatsgerð C, sérfræðings í heila- og taugasjúkdómum og í mati á líkamstjóni (CIME), dags. 16. október sama ár.
Í niðurstöðukafla örorkumatsins kemur fram að lagt er til grundvallar að stefnandi hafi fengið kröftugt rafmagnslost í höfuðið við slysið. Er síðan lýst einkennum samkvæmt lýsingu stefnanda og umfjöllun í fræðiriti um áverka vegna rafmagns. Fram kemur að í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga telji matsmaður ljóst að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni vegna þess raflosts sem hann hafi orðið fyrir í slysinu 16. janúar 2013 og að tímabært sé að meta örorku vegna þess slyss. Teljist tímabundinn missir á starfsorku vera 50% frá slysdegi til 6. ágúst 2013, en varanleg örorka þyki hæfilega metin 10%.
II
Stefnandi kveðst byggja á því að tjón hans sé skaðabótaskylt samkvæmt almennu skaðabótareglunni og á grundvelli almennra reglna um vinnuveitendaábyrgð. Saknæm og ólögmæt háttsemi stefnda eða starfsmanna hans hafi valdið honum tjóni sem stefnda beri að bæta á grundvelli almennra skaðabótareglna og skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi hafi tekið ábyrgðartryggingu hjá réttargæslustefnda.
Ljóst sé að rannsóknir hafi ekki farið fram á slysi stefnanda nema að mjög takmörkuðu leyti, að undirlagi stefnda sjálfs, og þá sennilega ekki fyrr en tæplega ári eftir slysið, er fyrir lá að stefnandi hygðist kanna rétt sinn. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 beri stefnda að tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um slysið þar sem stefnandi hafi verið óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið hafi orðið. Væru líkur á því að stefnandi hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni hafi borið að tilkynna slysið innan sólarhrings, ella skriflega innan viku, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Hvorugt hafi verið gert og því hafi engin rannsókn farið fram á vegum Vinnueftirlitsins, sbr. staðfestingu embættisins, dags. 10. desember 2013.
Hvað varði rannsókn stefnda sjálfs sé ljóst að skýrsla hafi ekki verið unnin fyrr en 5. desember 2013. Þar komi fram að athugun á búnaði og vinnuaðstæðum hafi verið „sjónskoðað“ 23.–24. janúar 2013. Niðurstaða skýrslunnar sé að farið skuli yfir vinnuaðstöðu með tilliti til slyssins til að koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Af hálfu stefnanda sé því hafnað að þessi einhliða rannsókn, hafi hún yfir höfuð farið fram, teljist fullnægjandi rannsókn á vinnuslysinu eða aðstæðum í skilningi laga nr. 46/1980. Ástæður þess að slysið hafi ekki verið tilkynnt Vinnueftirliti séu í skýrslunni sagðar vera þær að það hafi ekki verið tilkynnt til öryggiseftirlits stefnda fyrr en nokkrum dögum eftir slysið. Stefnandi byggi á því að ekki verði gerðar ríkari kröfur til hans en að hann tilkynni sínum verkstjóra um slysið, sem liggi fyrir að hann gerði, sbr. m.a. bréf réttargæslustefnda, dags. 5. janúar 2015, og að starfsmaður á vegum stefnda hafi ekið honum til læknis, sbr. einnig skýrslu stefnda frá 5. desember 2013. Verkstjóra, sem stefndi beri ábyrgð á á grundvelli vinnuveitendaábyrgðar, hefði borið að koma tilkynningu áfram til öryggisfulltrúa og Vinnueftirlits, án tafar. Jafnvel þótt litið yrði svo á að stefnandi hafi ekki tilkynnt slysið fyrr en hann sneri aftur til vinnu fimm dögum síðar sé óskiljanlegt af hverju tilkynning til Vinnueftirlits hafi ekki verið send fyrr en tæplega einu ári síðar, enda hefðu á þeim tíma verið talsvert meiri líkur á því að aðstæður væru óbreyttar eftir slys, en að þær séu það í dag.
Í ljósi framangreinds skorts á rannsóknum á vinnuslysinu og í samræmi við dómvenju byggi stefnandi á því að stefndi beri við þessar aðstæður sönnunarbyrðina um það að slysið hafi borið að með öðrum hætti og það megi rekja til annarra atvika en stefnandi heldur fram.
Stefnandi telji að slys hans hafi verið að rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu, búnaðar og annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Telji hann að stefndi hafi vanrækt að framfylgja lögboðnum skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og orsakatengsl séu milli þessarar vanrækslu og slyss stefnanda. Megi þar nefna skyldu vinnuveitanda til að gæta fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, sbr. 13. gr. laganna, að gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu og sjá um að þeir fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af, sbr. 1. mgr. 14. gr., sambærilegar skyldur verkstjóra, sbr. 21. og 23. gr. laganna, skyldur til að haga vinnu þannig að fyllsta öryggis sé gætt, sbr. 37. gr., að vinnustaður sé þannig úr garði gerður að þar sé gætt fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta, sbr. 42. gr., og að lokum þannig að tæki og húshlutar séu einnig þannig úr garði gerðir, sbr. 46. gr. laganna. Með vísan til þessara afdráttarlausu lagafyrirmæla, hinna varhugaverðu vinnuaðstæðna, í ljósi þess að stefnandi sé ófaglærður og hafði ekki unnið lengi hjá stefnda, hafi hvílt sérstaklega rík skylda á stefnda að tryggja öryggi stefnanda, með því að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir slysahættu. Stefnandi telji einsýnt að stefndi hafi látið þetta undir höfuð leggjast, með þeim afleiðingum að stefnandi hafi slasast. Þar hafi stefndi m.a. brotið gegn eigin stefnu í öryggis, heilsu- og umhverfismálum, auk almennra fyrirmæla laga og reglna, og þannig sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.
Stefnandi byggi á því að slysið megi m.a. rekja til of mikils hita í vinnurými hans (fúguklefanum) sem hafi orsakað verulega svitamyndun hjá honum. Vinnuaðstaða hans hafi því verið ófullnægjandi og vanbúin að þessu leyti, sbr. m.a. 42. og 46. gr. laga nr. 46/1980. Orsakatengsl séu milli þess og slyss stefnanda, en það hafi bæði leitt til þess að honum hafi verið nauðsynlegt að hagræða búnaði sínum, auk þess sem sviti og raki auki hættu á raflosti, sbr. m.a. grein 9 í leiðbeiningum Vinnueftirlits ríkisins um öryggi við málmsuðu. Stefnandi hafi haldið því fram að í suðuklefanum myndist ofsahiti en réttargæslustefndi hafi f.h. stefnda haldið því fram að það gerist ekki, þótt hann viðurkenni í bréfi, dags. 5. janúar 2015, að það geti orðið heitt við framkvæmd vinnu stefnanda. Sérstaklega sé þó áréttað að þar virðist, eins og í höfnun réttargæslustefnda, dags. 3. febrúar 2014, mögulega vera lagt til grundvallar að stefnandi hafi verið í hinum fúguklefanum (gáminum). Þar sem engin rannsókn hafi farið fram á hitastigi og hitamyndun í vinnurými stefnanda telji stefnandi að ekki verði hægt að leggja annað til grundvallar en frásögn hans sjálfs um það að þar hafi myndast ofsahiti og að vinnuaðstæður hafi verið óforsvaranlegar. Sönnunarbyrði um annað hvíli á stefnda. Ofsahitinn hafi orðið til þess að stefnandi rennsvitnaði með framangreindum afleiðingum.
Stefnandi byggi einnig á að frásogsbúnaði hafi verið ábótavant í vinnuaðstöðu hans og því hafi ekki verið komið í veg fyrir þann ofsahita sem þar hafi myndast. Að sögn stefnanda muni frásogsbúnaðurinn í litla fúguklefanum sem hann hafi unnið í vera „kolólöglegur“ og ekki í samræmi við reglur Vinnueftirlits um varnir gegn loftmengun við málmsuðu. Hann sé fyrir ofan starfsaðstöðuna sem stefnandi vann í og sogi eiturefnin sem myndist við vinnsluna að og upp undir hjálm stefnanda áður en þau sogist út. Engin rannsókn hafi farið fram fyrir milligöngu stefnda á þessum búnaði og hvort hann hafi virkað sem skyldi þann dag sem slysið varð eða hvort hann hafi verið löglegur eða fullnægjandi. Einnig liggi ekkert fyrir um það að hann geri hitastigið í vinnuaðstöðunni viðunandi eða hvort einhver annar kælibúnaður hafi verið til staðar. Stefnandi byggi á að þessi búnaður hafi verið ófullnægjandi á slysdegi en viti ekki hvort gerðar hafi verið úrbætur á honum í dag. Stefndi verði að bera hallann af sönnunarskorti ef svo sé. Stefnandi byggi á að þessi ófullnægjandi búnaður hafi leitt til þess að stefnandi hafi verið svo rennandi blautur af svita að hann hafi fengið alvarlegt raflost. Það bendi eðli máls samkvæmt til þess að aðstæður á vinnustað stefnanda hafi verið óviðunandi og hiti of hár. Ekkert hafi komið fram í málinu sem bendi til að svitamyndun hjá stefnanda sem einstaklingi sé önnur en venjulegt sé.
Einnig byggi stefnandi á því að búnaður hans hafi verið ófullnægjandi og ekki staðist lagakröfur eða verið í samræmi við reglur um persónuhlífar eða leiðbeiningar Vinnueftirlitsins. Eigi það að mati stefnanda við skó hans, sem hann telji ekki hafa uppfyllt öryggiskröfur, en einnig um hjálm hans og höfuðbúnað. Þannig hafi bæði glerið í suðuhjálmi sem stefnandi bar verið of ljóst og ekki uppfyllt öryggiskröfur, svo að hann hafi oft þurft að nýta hlífðargleraugu undir hjálminum. Einnig byggi stefnandi á því að loftskiptahjálmur hefði getað skipt miklu um hita og einnig svitamyndun í litla rýminu sem stefnandi vann í og að óforsvaranlegt hafi verið að hafa ekki slíka hjálma í boði fyrir starfsmenn. Réttargæslustefndi hafi hafnað því og f.h. stefnda haldið því fram að loftskiptahjálmur valdi ekki kælingu, þó að það hafi ekki verið rannsakað í málinu, frekar en annað. Stefndi hafi þó fjárfest í slíkum hjálmum, sem stefnandi kveður nýtta fyrir ákveðna starfsmenn hans sem starfi í verktöku á vinnusvæði Alcoa Fjarðaáls sf. A.m.k. einn starfsmaður er starfi við fúgun á starfsstöðinni sem stefnandi starfaði á muni einnig hafa fengið slíkan hjálm eftir slys stefnanda til að nota við nákvæmlega sama starf og stefnandi hafi sinnt, sbr. m.a. framlagða ljósmynd. Einnig megi sjá umfjöllun um loftskiptahjálma í Norðurljósum, tímariti Norðuráls, sem hafi keypt 270 slíka hjálma fyrir starfsmenn sína, þar sem m.a. komi fram að búnaður í hjálminum haldi honum yfirþrýstum og tryggi stöðug loftgæði og loftflæði um höfuð og andlit. Í tímaritinu segi orðrétt: „Þetta loftstreymi veitir kælingu ásamt því að halda andlitshlífinni móðulausri.“ Því sé ekki haldið fram að hjá Norðuráli sé unnið við sömu aðstæður og hjá stefnda en bent sé á þessa umfjöllun til að sýna að loftskiptahjálmurinn eigi að geta kælt og minnkað raka. Engin haldbær gögn liggi því fyrir um það að loftskiptur hjálmur hefði ekki haft þýðingu til að draga úr svitamyndun og auka kælingu hjá stefnda og þvert á móti bendi ýmislegt til hins gagnstæða. Vegna þess hve vinnurými stefnanda hafi verið þröngt, heitt og illa loftræst og kælt, sbr. fyrri málsástæður þar um, hefði stefnda borið að tryggja stefnanda slíkan búnað. Áskilji stefnandi sér rétt til að leggja fram frekari gögn um loftskiptahjálma og nýtingu þeirra, gefi málatilbúnaður stefnda tilefni til.
Að lokum hafi engin rannsókn farið fram á því hvort þau fyrirmæli eða þær leiðbeiningar sem stefnandi hafi fengið frá yfirmönnum sínum um tilhögun verksins hafi verið forsvaranlegar í ljósi þess að hann hafi aldrei fengið réttindi sem suðumaður þrátt fyrir að starfa sem slíkur hjá stefnda. Að sögn stefnanda hafi eina kennslan sem hann fékk við upphaf starfs síns verið 15 mínútna sýnikennsla hjá einstaklingi sem hafi hvorki talað ensku né íslensku en hafi fyrst og fremst bent á fætur stefnanda. Öðru hafi stefnandi þurft að reyna að átta sig á sjálfur. Byggi stefnandi á því að kennsla og þjálfun hafi verið með öllu ófullnægjandi og ekki í samræmi við 13. gr. laga nr. 46/1980, þegar að því kom hvernig ætti að framkvæma störf á þann hátt að ekki stafaði hætta af. Engin kennsla hafi farið fram varðandi öryggis- og hlífðarbúnað eða hvernig væri best að haga starfinu og hvaða hættur bæri helst að forðast.
Stefnandi telji enga eigin sök vera sannaða hjá sér. Ekkert bendi til þess að hann hafi hagað sér óvarlega m.v. aðstæður á vinnustaðnum, reynslu sína eða í andstöðu við fyrirmæli verkstjóra eða annarra yfirmanna. Sönnunarbyrði um slíkt myndi alfarið hvíla á stefnda. Áskilinn sé réttur til að reifa þessa málsástæðu frekar ef stefndi hyggist reisa einhvern hluta málatilbúnaðar síns á henni.
Að svo stöddu krefjist stefnandi aðeins viðurkenningar á skaðabótaskyldu en hann geri ráð fyrir að geta náð sátt við stefnda og réttargæslustefnda um mat á líkamstjóni hans og uppgjör málsins að fenginni niðurstöðu dómstóla um bótaskyldu. Fyrir liggi að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni í kjölfar slyssins, sbr. mat C á læknisfræðilegri örorku, þótt ennþá hafi ekki farið fram mat á grundvelli laga nr. 50/1993.
Um varnarþing sé vísað til 41. gr. laga nr. 91/1991um meðferð einkamála. Um málskostnað sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt á lögmannsþóknun úr hendi stefnda.
Þá áskildi stefnandi sér í stefnu rétt til að breyta kröfugerð sinni hvað málskostnað varðar, fengi hann gjafsókn í málinu. Gjafsóknarleyfi stefnanda lá fyrir 9. apríl 2015.
III
Stefndi kveðst byggja dómkröfu um sýknu á því að það sé ósannað að óhapp stefnanda sé að rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefnda eða starfsmanna hans, eins og stefnandi haldi fram.
Í fyrsta lagi sé því hafnað að skort hafi á rannsókn stefnda á umræddu óhappi ellegar að meintur skortur á slíkri rannsókn skuli leiða til þess að stefndi skuli bera sönnunarbyrðina um að slysið hafi borið að með öðrum hætti og megi rekja til annarra atvika en stefnandi haldi fram.
Í öðru lagi byggi stefndi á því að ósannað sé að meint tjón stefnanda sé að rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu og búnaðar hjá stefnda.
Í þriðja lagi byggi stefndi á því að ósannað sé að tjón stefnanda sé að rekja til þess að fyrirmæli eða leiðbeiningar af hálfu stefnda hafi skort eða þær verið óforsvaranlegar.
Í fjórða lagi byggi stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps.
Í fimmta lagi sé byggt á því að stefnandi skuli bera allt tjón sitt sjálfur vegna eigin sakar.
Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir orsök tjóns síns og sé því mótmælt að hann hafi sannað að tjónið megi rekja til atvika sem stefndi skuli bera skaðabótaábyrgð á að lögum og verði felld undir ábyrgðartryggingu hans hjá réttargæslustefnda. Um slíka ábyrgð fari samkvæmt sakarreglu skaðabótaréttar ásamt reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefndi byggi á því að það sé ósannað að slys stefnanda sé að rekja til atvika sem stefndi eða starfsmenn hans beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Þannig telji stefndi ósannað að slys stefnanda verði rakið til vanrækslu á skyldum sem á vinnuveitanda hvíli samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglum sem settar séu með stoð í þeim lögum.
Í fyrsta lagi sé því hafnað að skort hafi á rannsókn stefnda á umræddu óhappi ellegar að meintur skortur á slíkri rannsókn skuli leiða til þess að stefndi skuli bera sönnunarbyrðina um að slysið hafi borið að með öðrum hætti og það megi rekja til annarra atvika en stefnandi haldi fram.
Að mati stefnda þurfi í þessu sambandi að líta til þess hvernig umrætt óhapp sé talið hafa borið að og hver atvik hafi verið í aðdraganda og kjölfar þess. Hér þurfi meðal annars að líta til þess að stefnandi hafi lýst því að óhappið hafi borið að um klukkan 8:30 að morgni 16. janúar 2013, eða rétt um 20 mínútum eftir að vinna hófst þann morgun. Vinna stefnanda hafi þar af leiðandi staðið mjög stutt yfir, sem aftur leiði líkur að því að ekki hafi verið um sérstaka hitamyndun að ræða í vinnurýminu eða vinnuaðstæður sem hafi verið frábrugnar því sem verið hafði.
Þá liggi fyrir að stefndi hafi skoðað aðstæður nokkrum dögum eftir að óhappið hafi orðið og hafi sú skoðun ekki leitt neitt óeðlilegt í ljós hvað varði aðstæður eða þann búnað sem notaður sé við suðuvinnuna. Í því sambandi beri að nefna að aðstæður séu óbreyttar í vinnurýminu og þar sé notast við bæði sama verklag og sömu tæki og þegar stefnandi varð fyrir umræddu óhappi.
Stefnandi hafi haldið því fram að óeðlilegur hiti í vinnurýminu og svitamyndun kunni að hafa orsakað óhapp hans umrætt sinn. Af þessu leiði að með öllu ómögulegt hefði verið að komast að því hvort hiti var óeðlilegur um leið og fúguklefinn var opnaður, skömmu eftir óhapp stefnanda. Að sama skapi sé með öllu ómögulegt að stefnda hafi borið skylda til að rannsaka svitamyndun stefnanda skömmu eftir óhappið. Allar slíkar rannsóknir hefðu enda verið ómarktækar þar sem aðstæður hvað þetta varði hefðu verið breyttar frá því óhappið átti sér stað.
Þá sé ljóst að viðbrögð og skýringar stefnanda skömmu eftir óhappið og dagana þar á eftir hafi ekki gefið stefnda tilefni til neinnar sérstakrar rannsóknar á vinnuaðstöðunni eða búnaðinum. Stefnandi hafi enda ekki gefið sérstakar skýringar á því hvers vegna hann hefði orðið fyrir höggi þegar hann ræddi við verkstjóra á slysdeginum. Þá beri að horfa til þess að stefnandi hafi verið nokkuð stopult við vinnu áður en óhappið varð og því skiljanlegt að stefndi hafi ekki gert sérstakar ráðstafanir þótt stefnandi hafi verið frá vinnu í tvo daga eftir óhappið.
Stefndi hafi látið skoða umrædda vinnuaðstöðu og búnaðinn eftir að stefnandi tilkynnti öryggisstjóra um atburðinn og gaf nánari skýringar á honum. Slík skoðun hafi hins vegar ekkert óeðlilegt leitt í ljós.
Í öðru lagi telji stefndi rangt og í öllu falli ósannað að meint tjón stefnanda sé að rekja til ófullnægjandi vinnuaðstöðu og búnaðar hjá stefnda. Stefndi mótmæli því að hann hafi ekki fullnægt þeim skyldum sem ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggi á hann. Þvert á móti telji stefndi að hann hafi uppfyllt allar skyldur sem lög og reglugerðir setji og verði því ekki talinn bera ábyrgð á slysi stefnanda.
Stefndi hafi í hvívetna uppfyllt þær lagakröfur sem á félaginu hvíli sem vinnuveitanda, s.s. samkvæmt ákvæði 13. gr. laga nr. 46/1980 um ábyrgð á framkvæmd vinnu og að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar. Í því sambandi sé rétt að fara nánar yfir þann búnað og vinnuaðstöðu sem hafi verið til staðar við vinnu stefnanda í fúguklefanum. Rétt sé að taka fram að vinnuaðstæður í fúguklefanum séu í dag með nákvæmlega sama móti og er hið meinta óhapp varð, sömu tæki séu notuð og aðbúnaður sé allur hinn sami. Þá sé rétt að nefna að þegar stefnandi sneri aftur til vinnu eftir hið meinta óhapp þá hafi hann farið beint til starfa í þessum sama fúguklefa, án athugasemda.
Vinnuaðstaða í fúguklefanum fullnægir ákvæðum laga og reglna
Vinnan sem um ræði sé framkvæmd inni í fúguklefanum á starfsstöð stefnda. Fúguklefinn sé starfsaðstaða sem sé lokuð með skilrúmum á þrjá vegu frá gólfi og upp í loft. Stærð þessara skilrúma sé 2,3 metrar á hæð og 3,6 metrar á breidd. Fjórða hliðin sé opin að öðru leyti en því að færanleg hlíf sé fyrir hluta hennar til varnar birtu frá verkinu. Þessi hlíf sé 1,8 metrar á hæð og 1,8 metrar á breidd og loki hún því klefanum ekki nema að litlu leyti. Í klefanum sé mjög kröftug vélræn loftræsing þar sem sé að finna afsogsblásara af gerðinni Euromate Fan 120 sem sogi út 11.000 m3/klst. Fullnægi slíkur afsogsbúnaður öllum þeim kröfum sem gerðar séu í ákvæðum laga nr. 46/1980 og þeim reglum sem settar hafi verið með stoð í þeim lögum. Í því sambandi vísist einkum til reglna nr. 491/1987 um varnir gegn loftmengun við málmsuðu þar sem í 3. gr. sé fjallað um loftræstiþörf eftir mismunandi reykflokkum.
Umræddur fúguklefi sé staðsettur við hlið útkeyrsluhurðar á verkstæði stefnda. Sú hurð sé jafnan höfð opin vegna starfseminnar sem fari fram bæði úti og inni. Það að hurðin sé opin eykur á loftræstingu á verkstæði stefnda.
Að sama skapi hafi stefndi látið framkvæma eftirlitsmælingar til að tryggja að starfsmenn verði ekki fyrir heilsuspillandi loftmengun eins og mælt sé fyrir um í 6. gr. reglnanna. Þá hafi stefndi tryggt reglulegt eftirlit og viðhald á umræddum búnaði í samræmi við 8. gr. reglnanna. Þá liggi fyrir að Vinnueftirlitið hafi ekki gert athugasemdir við aðbúnað eða aðstæður við umræddan fúguklefa.
Það sé því ekkert sem bendi til að umræddum frásogsbúnaði hafi verið ábótavant eða að hann hafi verið „kolólöglegur“ eins og stefnandi haldi fram. Þvert á móti uppfylli umræddur búnaður áskilnað laga og reglna sem gildi um slíka vinnuaðstöðu. Þá sé því mótmælt sem röngu, sem haldið sé fram í stefnu, að frásogsbúnaður í klefanum sogi eiturefni að og upp undir hjálm þess starfsmanns sem vinni við fúgun, áður en þau sogist út. Sé um að ræða algerlega órökstuddar fullyrðingar sem standist ekki nánari skoðun. Þvert á móti uppfylli loftræstingin skilyrði reglna með því að tryggja að öll loftmengun fjarlægist áður en hún nái vitum starfsmanna eins og mælt sé fyrir um í grein 4.1 í reglum nr. 491/1987 um varnir gegn loftmengun við málmsuðu. Þá sé rétt að taka fram að ekkert í málatilbúnaði stefnanda bendi til að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna mengunar við umrædda vinnu. Frásögn stefnanda af óhappi sínu í stefnu gefi ekkert slíkt til kynna en stefndi telji engu að síður rétt að taka það sérstaklega fram að ef málatilbúnaður stefnanda verði skilinn á þá lund, þá mótmæli stefndi öllum slíkum fullyrðingum sem röngum og órökstuddum.
Þá bendi stefndi á að suðuvélin sem notuð sé í fúguklefanum sé enn í notkun hjá stefnda. Um sé að ræða vél af tegundinni Master sem sé með aðskildum straumvöfum. Sá aðskilnaður tryggi að ekki sé bein tenging á milli vafa og því sé ekki möguleiki á því að skammhlaup verði á milli vafa. Spenna á forvafi vélarinnar sé 440V en á seinna vafi, sem starfsmaður nái tengingu við, sé hún 40/37,6V. Samkvæmt leiðbeiningu frá framleiðanda vélarinnar sé mesta spenna við rofið ástand straumrásar á eftirvafi 68V og afl <75W. Vélin sé CE merkt og uppfylli allar þær kröfur sem lög og reglugerðir geri um sambærilegar vélar.
Í stefnu sé því haldið fram að óhapp stefnanda megi rekja til of mikils hita eða „ofsahita“ í fúguklefanum umrætt sinn og að slíkur hiti hafi síðan orsakað verulega svitamyndun hjá stefnanda. Í stefnu sé því einnig haldið fram að stefnandi hafi rennsvitnað með þeim afleiðingum að óhappið hafi orðið. Af þessu tilefni vilji stefndi mótmæla því sérstaklega að í umræddum fúguklefa hafi myndast ofsahiti við vinnu stefnanda umrætt sinn. Í því sambandi sé rétt að taka fram að aðstæður séu með öllu óbreyttar frá því óhappið hafi orðið og því um að ræða sömu tæki og aðstæður. Hvorki fyrr né síðar hafi myndast slíkur hiti í fúgunarklefanum að starfsmönnum stafaði hætta af.
Hér skuli einnig áréttað að stefnandi hafi aðeins unnið við umrætt verk í stutta stund þann dag þegar hið meinta óhapp hafi orðið. Samkvæmt frásögn stefnda sjálfs hafi óhappið orðið um kl. 8:35 um morguninn þann 16. janúar 2013. Ljóst sé því að vinna hans við fúgun gafflanna hafi aðeins staðið yfir í um 20 mínútur sé tekið mið af því að starf hans hafi hafist kl. 8.
Varðandi hitamyndun í fúgunarklefanum þá hafi mælingar stefnda leitt í ljós að hitastig í klefanum þegar engin vinna eigi sér stað sé almennt í samræmi við útihita, en eins og fyrr segi standi útkeyrsludyr við hliðina á klefanum að jafnaði opnar. Slíkar mælingar hafi einnig leitt í ljós að hitamyndun inni í klefanum, þegar vinna eigi sér stað við fúgun, hafi aðeins leitt til hitaaukningar umfram útihita sem nemi 5 til 8°C. Þann 16. janúar 2013 hafi verið um 2°C meðalhiti yfir daginn samkvæmt veðurathugunarstöðinni að Kollaleiru. Að mati stefnda sé því ljóst að [ekki] geti hafa verið um að ræða neinn þann ofsahita sem stefnandi vilji vera láta. Aðrir starfsmenn stefnda sem hafi unnið sama starf í sama fúgunarklefa hafi hvorki kvartað undan mikilli eða óeðlilegri hitamyndun né lélegum loftgæðum. Vísist einnig til þess sem áður hafi verið rakið um gæði loftræstingar í rýminu. Stefndi telji þannig ekkert benda til þess að við vinnu stefnanda í fúgunarklefanum hafi myndast ofsahiti. Mælingar gefi til kynna að hitamyndun sé aðeins lítils háttar, jafnvel þegar mælt sé í nálægð við þann sem framkvæmi vinnuna. Þá sé ekkert sem bendi til þess að búnaður eða tæki við vinnuna hafi ekki virkað umrætt sinn, enda hafi þau verið notuð strax í kjölfar óhappsins og séu notuð enn þann dag í dag án nokkurra vandkvæða. Að auki sé rétt að benda á það sem áður hafi komið fram, að stefndi hafi engin tök haft á að framkvæma mælingu inni í rýminu ellegar gera könnun á svitamyndun stefnanda strax í kjölfar óhappsins enda aðstæður breyttar um leið og starfsmaðurinn hafi hætt að fúga og yfirgefið rýmið. Rýmið og búnaður hafi hins vegar verið skoðað af hálfu stefnda nokkrum dögum eftir hið meinta óhapp, eins og áður sé rakið.
Stefndi telji að fúgunarklefinn hafi hvorki verið heitur né ofsaheitur sem hafi aftur orsakað meint óhapp stefnanda. Mælingar stefnda bendi ekki til þess að slíkur hiti myndist við vinnuna eða að um sé að ræða vinnuaðstæður sem fari gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 eða reglugerðum settum með stoð í þeim lögum.
Persónuhlífar starfsmanna fullnægja ákvæðum laga og reglna
Stefndi vilji mótmæla því sem röngu, sem stefnandi haldi fram, að höfuðbúnaður og skór stefnanda hafi ekki uppfyllt reglur um persónuhlífar eða leiðbeiningar Vinnueftirlitsins. Stefndi úthluti öllum starfsmönnum sínum nauðsynlegar persónuhlífar sem uppfylli ákvæði laga nr. 46/1980, reglugerðir á grundvelli þeirra laga og leiðbeiningar Vinnueftirlitsins. Þá liggi fyrir að stefnanda hafi verið afhentar slíkar persónuhlífar.
Þeir skór sem starfsmenn fái úthlutað séu sérstaklega hannaðir með tilliti til rafmagnshættu og séu með 500V gegnumslagsvörn. Slíkir skór séu til þess gerðir að draga verulega úr hættu á raflosti, þ.e. með því að leiða rafmagn frá búk til jarðar í gegnum fætur.
Þá sé starfsmönnum úthlutað vinnufötum úr eldtefjandi efni, hlífðarsvuntu úr leðri fyrir búk og fætur auk þykkra leðurhanska. Allar slíkar persónuhlífar uppfylli þær öryggiskröfur sem hvíli á stefnda.
Á þeim tíma sem óhapp stefnanda varð hafi starfsmenn notað rykgrímur af gerðinni 3M við slík verk. Slíkar rykgrímur uppfylli einnig þær öryggiskröfur sem hvíli á stefnda, meðal annars samkvæmt 7. gr. reglna nr. 491/1987 og leiðbeiningum Vinnueftirlitsins.
Stefndi telji það rangt, en í öllu falli ósannað, að hjálmur og höfuðbúnaður stefnanda hafi ekki uppfyllt öryggiskröfur. Annars vegar vísi stefnandi til þess að glerið í suðuhjálminum hafi verið of ljóst þannig að hann hafi oft þurft að nota hlífðargleraugu undir hjálminum. Þá telji stefnandi að loftskiptahjálmur hefði getað skipt miklu máli um hita og svitamyndun. Af þessu tilefni telji stefndi rétt að taka fram að hann telji að hjálmur sá sem starfsmenn nýti til vinnu við fúgun uppfylli allar þær öryggiskröfur sem á stefnda hvíli. Sé um að ræða sömu hjálma og notaðir hafi verið þegar hið meinta óhapp hafi orðið. Um sé að ræða svokallaða Euromaska hjálma sem séu með plöstum en ekki glerjum. Nauðsynlegur styrkleiki glerja við fúgun sé din 11 en starfsmenn stefnda sem starfi við fúgun nota styrkleika din 13. Ekkert bendi til þess að gler í suðuhjálminum hafi verið of ljóst þannig að stefnandi hafi þurft að nota hlífðargleraugu undir hjálminum eins og haldið sé fram í stefnu. Þá hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn eða upplýsingar sem bendi til að svo hafi verið þann 16. janúar 2013 er hið meinta óhapp varð.
Stefndi kveðst mótmæla sem rangri, en í öllu falli ósannaðri, þeirri málsástæðu stefnanda að loftskiptahjálmur hefði getað skipt miklu um hita- og svitamyndun í rýminu. Loftskiptur hjálmur færi innöndunarstað frá höfuðhæð að mitti með rafknúnum mótor. Slíkur hjálmur fæði viðkomandi starfsmann þar af leiðandi með lofti úr sama rými og þegar hefðbundinn suðuhjálmur sé notaður, nema ekki í andlitshæð. Við notkun loftskiptahjálma sé þannig loftið tekið úr viðkomandi rými í gegnum síur og loftið hafi þar af leiðandi að geyma sama hitastig og fyrirfinnist í rýminu. Stefndi telji að vinna í umræddu rými kalli þar af leiðandi ekki á notkun loftskiptahjálma, enda séu loftskipti í rýminu sjálfu fullnægjandi. Þá mótmæli stefndi því sem röngu að slíkur loftskiptahjálmur kæli niður þann sem hann beri enda ljóst að um sé að ræða sama loft og fyrirfinnist í umræddu rými. Svokallaðir fersklofthjálmar kunni hins vegar að draga úr hitamyndun hjá starfsmönnum þar sem slíkur búnaður útvegi viðkomandi hreint loft frá fæðilögn. Slíkur búnaður sé hins vegar aðeins notaður þegar umhverfishiti sé verulega hár eða yfir 53°C. Að mati stefnda kalli aðstæður í fúguklefanum ekki á slíkan búnað, enda ekki um að ræða slíka hitamyndun í rýminu.
Suðuhjálmur sem stefnandi hafi notað við vinnu sína umrætt sinn, sem og aðrar persónuhlífar, hafi uppfyllt að öllu leyti ákvæði laga nr. 46/1980, reglur nr. 497/1994 um notkun persónhlífa og leiðbeiningar Vinnueftirlitsins.
Í þriðja lagi byggi stefndi á því að ósannað sé að tjón stefnanda sé að rekja til þess að fyrirmæli eða leiðbeiningar af hálfu stefnda hafi skort eða þær verið óforsvaranlegar.
Stefnandi hafi verið ráðinn til starfa hjá stefnda sem verkamaður og til að vinna við járnsmíði og viðhald. Stefnandi hafi haft þó nokkra reynslu úr sambærilegum störfum, s.s. sem verksmiðjustjóri í frauðplastverksmiðju um tveggja ára skeið og um nokkurra ára skeið hjá Hringrás, þar sem hann hafi bæði unnið á vinnuvélum og við logsuðuskurð. Þá hafi stefnandi upplýst um það í ráðningarviðtali að hann hefði talsverða reynslu af málmskurðartækjum. Þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda hafi hann því haft talsverða reynslu af þeim störfum sem honum hafi verið falin og ekkert hafi bent til þess að hann þyrfti sérstaka þjálfun, umfram hefðbundnar kynningar á öryggisreglum og búnaði stefnda.
Við upphaf starfs síns hjá stefnda hafi stefnandi fengið leiðsögn hjá nafngreindum starfsmanni sem unnið hafi við fúgun hjá stefnda í ríflega 5 ár. Hafi viðkomandi starfsmaður farið yfir framkvæmd slíkra verka með stefnanda bæði hvað varði öryggisreglur og rétta meðhöndlun tækja. Samkvæmt tímaskýrslum hafi stefnandi síðan unnið í samfleytt 10 daga við fúgun, eða frá 2. janúar 2013, áður en umrætt óhapp var.
Í þessu sambandi sé rétt að taka fram að engar sérstakar kröfur séu gerðar um fagréttindi við fúguvinnu heldur sé um nokkuð einhæft verkamannastarf að ræða sem ekki krefjist neinnar sérþekkingar. Að því er varði þá fyrirætlan stefnanda og stefnda að stefnandi myndi öðlast suðuréttindi, þá felist talsverður kostnaður í því fyrir stefnda og í ljósi þess að þeir sem veljist til þess þurfi að vera til taks með skömmum fyrirvara og þess að mætingasaga stefnanda hafi fljótt orðið nokkuð götótt, þá hafi þessar fyrirætlanir breyst.
Að mati stefnda hafi stefnandi fengið fullnægjandi leiðbeiningar um umrætt starf með hliðsjón af þekkingu hans og reynslu sem hann hafi haft af sambærilegum störfum. Þá sé umrætt starf hvorki flókið né krefjist sérstakra leiðbeininga hverju sinni umfram það sem felist í venjulegri verkstjórn á vinnustað auk þess að viðkomandi gæti viðhlítandi aðgæslu. Hafi stefndi því uppfyllt allar þær kröfur sem lög geri ráð fyrir við framkvæmd og verkstjórn í umrætt sinn, svo sem 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980. Stefnandi hafi enda ekki getað sýnt fram á vanrækslu við framangreint, en sönnunarbyrði um slíkt hvíli á honum.
Í fjórða lagi byggi stefndi á því að stefnanda hafi ekki tekist að sanna umfang meintra einkenna sinna eða að orsakatengsl séu milli þeirra og umrædds óhapps.
Ekki liggi fyrir nægjanlegar upplýsingar um hvert sé umfang tjóns stefnanda eða að óhappið þann 16. janúar 2013 hafi valdið honum varanlegu líkamstjóni. Læknisvottorð sem gefin hafi verið út til atvinnurekanda eftir að óhappið varð bendi mörg hver til þess að fjarvistir stefnanda stafi frá sjúkdómi. Þá bendi slík gögn einnig ítrekað til þess að einkenni stefnanda sé að rekja til þunglyndis, kvíða og persónulegra áfalla.
Af tímaskráningum stefnda megi ráða að stefnandi hafi sinnt vinnu sinni jafnvel betur eftir hið meinta óhapp en hann hafi gert áður en óhappið varð. Eftir óhappið hafi stefnandi verið í vinnu hjá stefnda í alls 28 vikur og á þeim tíma hafi hann tilkynnt veikindi í 16 daga og verið í fríi í 14 daga. Mætingarhlutfall stefnanda á þessum tíma hafi verið um 80% samanborið við um 76% í þær 38 vikur sem stefnandi hafi starfað fram að óhappinu.
Að öllu framanrituðu virtu mótmæli stefndi öllum kröfum og málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum. Stefnandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að meint líkamstjón hans, sem hann krefjist viðurkenningar á sem skaðabótaskyldu í máli þessu, megi rekja til atvika sem séu á ábyrgð stefnda eða starfsmanna þess félags. Skuli því þegar af þessari ástæðu sýkna stefnda.
Við munnlegan málflutning kom fram að stefndi telji framangreinda málsástæðu styðja aðrar málsástæður sem hann hefur uppi í málinu, en að því sé ekki andmælt að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af viðurkenningarkröfu sinni í málinu.
Í fimmta lagi byggi stefndi á því að stefnandi verði að bera fulla ábyrgð á tjóni sínu vegna eigin sakar. Af gögnum málsins megi ráða að orsök tjóns stefnanda hafi verið aðgæsluleysi hans sjálfs og ef til vill óhappatilviljun. Hér þurfi að líta til þess að gögn málsins beri með sér að stefnandi hafi tekið af sér suðuhjálminn og hafi verið að hagræða eldvarnarhettu þegar smellur og högg hafi komið á höfuðið. Að mati stefnda hafi stefnandi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að hagræða eldvarnarhettu sinni með þessum hætti inni í fúguklefanum og reka í kjölfarið suðutöngina í höfuð sér. Hafi stefnanda verið í lófa lagið að stöðva vinnuna um stund og fara út úr fúguklefanum ellegar taka straum af suðuvélinni.
Stefnandi hafði unnið hjá stefnda um níu mánaða skeið þegar óhappið varð og hlotið næga þjálfun til að sinna umræddu starfi. Þá hafi hann bæði haft reynslu af logskurði úr fyrri störfum, sem og margoft sinnt sama starfi áður hjá stefnda. Stefnandi hafi því mátt vita til hvers var ætlast af honum. Hafi hann haft góða undirstöðuþekkingu og reynslu á þessu sviði og þekkt vel til aðstæðna á starfsstöð stefnda og fengið nauðsynlegar leiðbeiningar um framkvæmd starfans.
Stefnandi þurfi því að bera tjón sitt að fullu vegna stórfellds aðgæsluleysis við framkvæmd vinnu sinnar umrætt sinn.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda byggi hann til vara á því að stefndi verði aðeins talinn bera ábyrgð á tjóni stefnanda að hluta. Byggi stefndi á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til óhappatilviks ellegar aðgæsluleysis hans sjálfs í umrætt sinn. Verði stefnandi því að bera tjón sitt að mestum hluta sjálfur vegna eigin sakar. Á stefnanda, líkt og öðrum starfsmönnum stefnda, hvíli að sýna tilhlýðilega aðgæslu og gæta ítrustu varúðar þegar unnið sé við fúguskurð í fúguklefa. Þá hafi stefnanda borið að gera viðeigandi varúðarráðstafanir við vinnuna, s.s. sýna ýtrustu varkárni þegar hann þurfti að hagræða eldvarnarhettu, s.s. með því að rjúfa áður straum af suðuvél ellegar fara út úr fúguklefanum. Vísist að öðru leyti eftir atvikum til umfjöllunar um aðalkröfu til stuðnings þess að varakrafa stefnda skuli ná fram að ganga.
Að því er varði umfjöllun um líkamstjón stefnanda, þá vilji stefndi mótmæla niðurstöðu læknisins C og áskilji sér allan rétt í því sambandi.
Í greinargerð skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram gögn um fyrra heilsufar sitt, s.s. upplýsingar úr sjúkraskrá. Varð stefnandi við þeirri áskorun.
Um lagarök kveðst stefndi einkum vísa til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, til gáleysis, óhappatilviljunar og eigin sakar tjónþola, auk skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999. Einnig sé vísað til ákvæða laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og til þeirra reglna og reglugerða sem settar hafi verið með stoð í þeim. Þá vísi stefndi til ákvæða laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004. Málskostnaðarkrafa stefnda sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Undir rekstri málsins fór stefndi þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til að svara 8 spurningum er allar lutu að hitamyndun í fúguklefa á gafflaverkstæði stefnda. Var D tæknifræðingur dómkvaddur til starfans og var matsgerð hans frá 29. september 2015 lögð fram á dómþingi 17. nóvember s.á. Með viðbótarmatsbeiðni sem lögð var fram á sama dómþingi veitti stefndi tilteknar upplýsingar um gólfhitakerfi, afköst blásara í þaki og yfir suðumönnum, rúmmál vinnusalar og um op á vinnusalnum. Fór stefndi fram á að matsmaðurinn svaraði því hvort þær upplýsingar breyttu niðurstöðu matsgerðarinnar frá 29. september 2015 og í hverju þær breytingar væru þá fólgnar. Var viðbótarmatsgerð matsmannsins, dags. 18. desember 2015, lögð fram á dómþingi 19. janúar 2016. Matsmaðurinn staðfesti báðar matsgerðirnar fyrir dómi við aðalmeðferð málsins og svaraði spurningum um efni þeirra.
Matsspurningarnar eru svohljóðandi:
„1. Hver er umhverfishiti sem myndast í fúguklefa matsbeiðanda á gafflaverkstæði á Reyðarfirði þegar unnið er við fúgun?
2. Hefur hitastig utandyra áhrif á hitamyndun í fúguklefanum þegar unnið er við fúgun?
3. Ef spurningu nr. 2 er svarað játandi er þess óskað að matsmaður geri grein fyrir hver áhrifin séu.
4. Hefur það áhrif á hitamyndun í fúguklefanum þegar unnið er við fúgun að útkeyrsludyr við hlið klefans eru opnar?
5. Ef spurningu nr. 4 er svarað játandi er þess óskað að matsmaður geri grein fyrir hver áhrifin séu.
6. Er umhverfishiti sem myndast í fúguklefanum mismunandi eftir því hversu nálægt fúgun hitamæling á sér stað?
7. Ef spurningu nr. 6 er svarað játandi er þess óskað að matsmaður framkvæmi mælingu á hita nálægt höfði/hjálmi starfsmanns á meðan hann vinnur við fúgun í fúguklefanum.
8. Hver er umhverfishiti sem myndast í fúguklefanum nálægt höfði/hjálmi starfsmanns sem vinnur við fúgun í 20 mínútur að því gefnu að loftræsting í fúguklefa sé í gangi, útkeyrsludyr opnar og viðkomandi starfsmaður viðhafi venjulegt og viðurkennt verklag við fúgun?“
Þess var óskað í matsbeiðni að matsmaður reyndi eftir fremsta megni að endurskapa þær aðstæður sem voru við vinnu á verkstæði matsbeiðanda þann 16. janúar 2013, er matsþoli varð fyrir óhappi við vinnu sína, eins og nánar var rakið í matsbeiðni og meðfylgjandi gögnum.
Niðurstaða matsmannsins samkvæmt matsgerðinni, dags. 29. september 2015, er svohljóðandi:
„1. Lofthiti í fúguklefa þegar unnið er við fúgun er um 2–3°C hærri en í vinnusal þegar unnið er við fúgun. Þegar hurð var opin var hiti í fúguklefa um 1,2 m frá þeim stað sem unnið var við fúgun um 15,5°C og þegar hurð var lokuð um 17,0–18,0°C. Þá var útihitastig við norðvesturhlið verkstæðis um 8,0°C.
2. og 3. Matsmaður telur að hitastig úti hafi áhrif á hitastig í fúguklefa þegar unnið er við fúgun. Ekki voru gerðar mælingar við mismunandi hitastig úti en telja má fullvíst að þar sem að vinnusalur er óupphitaður og allmikil loftskipti í honum vegna þess hvað mikið hurðir standa opnar og vegna þess að blásarar draga loft úr vinnusalnum og útiloft dregst inn í vinnusalinn í staðinn. Lofthiti í vinnusalnum og þar með fúguklefa fylgir lofthita úti en er hærri eins og fram kom við mælingar.
Hins vegar verður að ætla að varmi frá fúgun sé álíka hvert sem hitastigið í umhverfinu [er] en lofthiti verður mismunandi eftir því hvort að kalt er í veðri eða heitt. Af mælingum að dæma má ætla að lofthiti í fúguklefa geti verið um 6–7°C hærri en lofthiti úti.
4. og 5. Það hefur áhrif á hita í fúguklefanum hvort að fellihurð á norðvesturhlið vinnusalar er opin eða lokuð, sjá lið 1. Hitastig verður hærra þegar hurðinni er lokað og munar þar um 1,5–2,5°C.
6. og 7. Lofthiti í fúguklefanum þegar unnið er við fúgun er mismunandi eftir því hversu nálægt þeim stað sem unnið er á er mælt. Vísað er til fskj. 5 með matsgerð. Hitastig á nema sem var um 1,9 m frá var um 1,5°C lægri en á nema sem var í um 0,7 m fjarlægð og um 3°C lægri en á nema sem var framan á hjálmi starfsmanns.
8. Ákveðið var við vettvangsskoðun að mæla með lokaða hurð þar sem að matsþoli kvað hurð hafa verið lokaða þegar atvik sem fjallað er um varð.
Hitastig á nema framan á hjálmi starfsmanns var mestur um 21°C en minnstur um 14,5°C. Mestur var hitinn þegar unnið var samfellt við þrjá gaffla í röð og hurð á norðvesturhlið vinnusalar var lokuð en minnstur um 14,5°C þegar starfsmaður var í kaffihléi og hjálmur var í fúguklefanum. Þegar starfsmaður hóf vinnu eftir kaffihlé og vann í samfellu við fimm gaffla, þó með hléi eftir tvo gaffla þegar mælar 1 og 2 voru færðir inn í fúguklefann, hækkaði hitinn með hverjum gaffli sem unnið var við. Ætla má að hiti hækki einnig þegar hurð er opin en ekki að sama marki.“
Í niðurstöðukafla viðbótarmatsgerðar matsmannsins frá 18. desember 2015 kemur fram, varðandi matsspurningar nr. 4–8, að framkomnar upplýsingar breyti ekki niðurstöðu sem fram kom við mælingu.
Varðandi spurningu nr. 1 segir þar: „Lofthiti í fúguklefanum var mældur á staðnum. Miðað við að gólfhitakerfið hafi þá verið virkt breytir [sic] framkomnar upplýsingar ekki niðurstöðu. Það getur hins vegar skýrt að hiti í fúguklefanum hækkaði þegar hurð var lokað.“
Varðandi spurningar nr. 2 og 3 segir þar: „Framkomnar upplýsingar um gólfhitakerfi og þakblásara breyta niðurstöðu ekki í meginatriðum. Hins vegar hefur gólfhitakerfi áhrif á hita þess lofts sem dregið er úr fúguklefa og úr vinnusal. Inniloft sem dregið er út er sennilega um 3°C heitara vegna gólfhitakerfisins en það loft blandast við útiloft sem dregst inn um dyr. Það breytir ekki niðurstöðu sem kom fram við mælingu.“
V
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu. Þá gáfu skýrslu sem vitni tveir starfsmenn stefnda, B verkstjóri og E öryggissérfræðingur, auk hins dómkvadda matsmanns, eins og fyrr sagði.
Í máli þessu hefur stefnandi uppi kröfu um að viðurkennt verði með dómi að stefndi beri skaðabótaábyrgð á slysi sem hann varð fyrir á vinnustað sínum 16. janúar 2013. Óumdeilt er í málinu að stefnandi varð fyrir slysi umrætt sinn. Samkvæmt yfirlýsingu sem fram kom við munnlegan málfutning af hálfu stefnda er ekki deilt um það að stefnandi hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni við slysið til þess að hann teljist hafa lögvarða hagsmuni af slíkri kröfugerð, þótt stefndi geri fyrirvara við niðurstöðu fyrirliggjandi örorkumats.
Stefnandi lýsir atvikum svo að hann hafi séð blossa og fundið högg í gegnum höfuðið, er hann hagræddi hjálmi sínum og hettu vegna svita, án þess að leggja áður frá sér suðutöngina. Í stefnu kemur fram að stefnandi hafi haldið á suðutöng og átti sig ekki á því hvort hann hafi rekið suðutöngina í málm, í höfuðið á sér eða hvað gerðist. Við skýrslugjöf fyrir dómi kvaðst stefnandi telja að klefinn sé „allt of lítill“ og hann hafi of lítið rými haft til að athafna sig við fúgun á gaffaltindum inni í klefanum. Aðspurður taldi hann mögulegt að hann hafi rekið töngina í vegg klefans.
Við vettvangsgöngu kom í ljós, líkt og ráða má af ljósmyndum sem eru meðal málsgagna, að fúguklefinn í vinnusal stefnda er fremur lítill. Samkvæmt því sem greinir í matsgerð dómkvadds matsmanns er klefinn 3,65 m á lengd og um 2,48 m á breidd, lokaður á þremur hliðum en á annarri langhliðinni eru tvö færanleg skilrúm. Dómendur fylgdust með þegar unnið var við fúgun á gaffli. Sást þá að þegar gaffall sem unnið er við liggur á undirstöðum í klefanum vísa tindar hans að annarri skammhlið klefans, þeirri hlið sem er hægra megin í klefanum þegar horft er inn í hann inn um opna langhliðina. Veggur þessi er málmklæddur. Staðfesti stefnandi við vettvangsgöngu að gaffallinn hafi legið eins, og tindar hans vísað í sömu átt, er hann varð fyrir slysinu. Telur hann athafnarými sitt umrætt sinn hafa verið svipað því sem sást við vettvangsgöngu eða þrengra.
Dómurinn telur ljóst af gögnum málsins, og því sem fram kom við vettvangsgöngu, að það rými sem suðumaður hefur í klefanum við fúgun gaffals sé það lítið, og nálægðin við skammhlið klefans slík, að vel geti hugsast að reka megi suðutöngina í málmklæddan vegginn fyrir slysni. Ljóst er að slíkt getur valdið miklum blossa og höggi, einkum ef suðutöngin er rekin þannig í málm að hún dregst eftir honum.
Stefnandi telur víst að hann hafi fengið raflost. Við munnlegan málflutning af hálfu stefnda við aðalmeðferð málsins kom það fyrst skýrt í ljós að þessi staðhæfing stefnanda er umdeild.
Þess er að gæta að ekki hefur í málinu verið aflað matsgerðar um það hver sé líkleg orsök slyssins og liggur ekkert fyrir í málinu sem stutt getur þá fullyrðingu stefnanda að hann hafi fengið raflost. Sýnist sú staðhæfing þannig einvörðungu byggð á ágiskun stefnanda sjálfs og þá einkum vegna þess að hann var sveittur umrætt sinn. Þar á meðal verður engin ályktun um það dregin af fyrirliggjandi örorkumati C læknis hvort stefnandi hafi fengið raflost, enda virðist sú staðhæfing stefnanda gagnrýnilaust lögð þar til grundvallar niðurstöðu matsins.
Það er ekki hlutverk sérfróðra meðdómsmanna að leggja sjálfstætt mat á það, án þess að matsgerðar dómkvadds matsmanns hafi verið aflað, hvort stefnandi hafi í reynd orðið fyrir raflosti eða hvort blossi sá og högg sem stefnandi varð fyrir við slysið eigi sér aðrar skýringar, sem dómurinn telur vel hugsanlegt.
Eins og hér stendur á telur dómurinn ekki koma til greina að leggja staðhæfingu stefnanda um raflost til grundvallar með þeim rökum að sönnunarbyrði um annað hvíli á stefnda í ljósi skorts á tilkynningaskyldu til Vinnueftirlits ríkisins, skorts á rannsókn slyssins og þess hve andmæli við staðhæfingunni komu seint fram.
Engar athugasemdir hafa verið gerðar af hálfu stefnda við kröfugerð stefnanda í málinu. Eins og kröfugerð stefnanda er fram sett, og eins og gögnum málsins er háttað og í ljósi þeirra atvika sem óumdeild eru í málinu, telur dómurinn ekki nauðsynlegt að skera úr um hvort staðhæfing stefnanda um raflost teljist sönnuð, svo unnt sé að skera úr um viðurkenningarkröfu stefnanda. Telur dómurinn þannig nægar upplýsingar liggja fyrir um slysið sjálft og aðstæður á vettvangi til að unnt sé að svara því, þótt ekki sé vitað hvort um raflost hafi verið að ræða, hvort um bótaskyld atvik sé að ræða, með hliðsjón af ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglum settum samkvæmt þeim lögum. Í ljósi þess telur dómurinn ekki þörf á að neyta heimildar 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og beina því til aðila að afla matsgerðar um orsök slyssins. Verður það hvort um raflost var í reynd að ræða að vera úrlausnarefni aðila á síðari stigum, ef þörf krefur, verði á annað borð tekist á um það hverjar líkamlegar afleiðingar stefnanda séu af slysinu.
Eins og málið liggur fyrir bendir ekkert til þess að neitt hafi verið athugavert við þann öryggisbúnað sem stefnandi notaði við vinnu sína og stefndi skaffaði honum, þ.e. hlífðarfatnað, hjálm og öryggisskó, eða að sá búnaður hafi verið ófullnægjandi miðað við starfann. Þá er ekki á því byggt að suðuvélin af gerðinni Master hafi verið biluð eða henni áfátt. Með vísan til fyrirliggjandi matsgerðar, þar sem m.a. hefur verið tekið tillit til þeirra lítils háttar breytinga á aðstæðum í klefanum sem orðið hafa frá slysinu og matsþoli benti á á matsfundi, er ekkert fram komið sem bendir til þess að ofsahiti geti hafa myndast í klefanum umrætt sinn. Ekki verður þó í efa dregið að stefnandi geti vel hafa verið orðinn sveittur við vinnu sína í klefanum, íklæddur téðum hlífðarfatnaði, og að hann hafi haft ástæðu til að hagræða höfuðbúnaði sínum og þurrka af sér svitann, jafnvel þótt skammt hafi verið liðið á daginn. Í því efni telur dómurinn þá málsástæðu sem stefnandi teflir fram um kosti loftskiptahjálma ekki hafa verulega þýðingu. Sama á við um málsástæðu stefnanda um ófullnægjandi loftræstingu, sem ekki fær sérstaka stoð í gögnum málsins og virðist einungis teflt fram til stuðnings því að stefnandi hafi svitnað. Telur dómurinn vart hægt að forðast það algerlega við starf af því tagi sem hér um ræðir.
Fyrir liggur að stefnandi er ófaglærður, þótt óumdeilt sé að hann hafi haft nokkra reynslu af málmsuðu áður en hann hóf störf hjá stefnda. Málmsuða er sérgrein stálsmíði, sem er löggilt iðngrein. Ekki er þó að lögum gerð krafa um starfsréttindi við málmsuðu og er því unnt að fela ófaglærðum slík störf. Engu að síður er ljóst að störf við málmsuðu, hvort sem er við suðu eða skurð (fúgun), fela í sér ákveðnar hættur, þótt verulega megi draga úr hættueiginleikum starfsins með viðeigandi öryggisbúnaði, aðstæðum og aðgæslu. Bar stefnda, sem var ljóst að stefnandi var ófaglærður, að tryggja honum bæði forsvaranlegar vinnuaðstæður og fullnægjandi leiðbeiningar um þær hættur sem fylgdu starfinu í vinnuumhverfinu.
Ekki liggur fyrir í málinu hvort stefndi hafi látið gera sérstakt áhættumat í samræmi við skyldu sína samkvæmt ákvæðum 65. gr. a. laga nr. 46/1980, sbr. lög nr. 68/2003. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar lagagreinar ber atvinnurekandi ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumats skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna sé hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.
Hér að framan var lýst tilteknum þrengslum sem stefnandi þurfti að starfa við inni í fúguklefanum. Er t.d. að áliti dómsins augljóst að nálægðin við málmklæddan vegginn var slík að raunveruleg hætta var á því að suðutöngin gæti rekist í klefavegginn. Hefði að áliti dómsins a.m.k. verið nauðsynlegt við þessar aðstæður að vekja sérstaka athygli starfsmanns á þeirri hættu sem af þrengslunum stafaði, auk þess sem ætla má að úr þessum þrengslum hefði mátt bæta með einföldum hætti.
Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að stefnandi hafi fengið neina fræðslu um öryggismál og hættur samfara vinnu við málmsuðu, hvorki almennt né sérstakar hættur í því starfsumhverfi sem hann starfaði í, á starfstíma sínum hjá stefnda. Það stóð stefnda nær en stefnanda að sýna fram á hvert innihald þeirrar fræðslu og leiðbeininga var sem stefndi kveður stefnanda hafa fengið frá samstarfsmanni sínum í upphafi starfsins.
Eins og fyrr sagði liggur ekki fyrir að stefndi hafi uppfyllt skyldu sína til gerðar áhættumats vegna starfans. Verður ekki séð að hjá stefnda, þ.á m. verkstjóra og öryggissérfræðingi stefnda, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, hafi verið fyrir hendi meðvitund um þá hættu sem stafaði af þrengslum í rýminu. Í framburði verkstjórans kom fram að hann hafi ekki fylgst sérstaklega með þeim leiðbeiningum sem samstarfsmaður stefnanda veitti honum við upphaf starfsins en talið að árétting um að nota viðeigandi öryggisbúnað og leiðbeiningar um hvernig væri best að bera sig að fúgunina væru fullnægjandi til að afstýra hugsanlegum hættum.
Á þrengslunum í fúguklefanum, sem fólu að áliti dómsins í sér sérstaka hættu við starf stefnanda, og á skorti á leiðbeiningum til stefnanda um hættur af starfanum ber stefndi ótvírætt ábyrgð. Með því að tryggja ekki nægilegt rými og tryggja ekki ófaglærðum starfsmanni fullnægjandi fræðslu og leiðbeiningar um hættur í vinnuumhverfinu, var í starfsemi stefnda brotið gegn ákvæðum laga nr. 46/1980, einkum 13., 14., 21., 23., 37 og 42. gr. laganna. Telur dómurinn þessi atriði fela í sér saknæma vanrækslu, sem leiði til þess að stefndi verði að bera skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins sem hann varð fyrir í fúguklefanum 16. janúar 2013.
Í ljósi þeirra aðstæðna sem stefnanda voru búnar í fúguklefanum og sérstaklega í ljósi algjörs skorts á leiðbeiningum um hættur af starfanum í vinnuumhverfinu, þykir ekki unnt að leggja stefnanda það til lasts að hafa ekki lagt frá sér suðutöngina, áður en hann hagræddi hjálmi sínum og hettu til að þurrka af sér svitann. Skiptir í því efni engu hvort hann hagræddi einungis hjálminum eða tók hann af sér. Verður því ekki fallist á varakröfu stefnda um að stefnandi verði látinn bera ábyrgð á hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.
Samkvæmt framanrituðu er fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda eins og hún er fram sett.
Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt gjafsóknarleyfi frá 9. apríl 2015. Allur gjafsóknarkostnaður hans greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.150.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Verður stefnda, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, gert að greiða sömu fjárhæð í málskostnað, sem vegna gjafsóknar stefnanda skal renna í ríkissjóð.
Af hálfu stefnanda flutti málið Eva Dís Pálmadóttir hrl., en af hálfu stefnda Ingvi Snær Einarsson hdl. fyrir hönd Kristínar Edwald hrl.
Dómur þessi er kveðinn upp af Hildi Briem héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómsmönnunum Ásmundi Ingvarssyni byggingarverkfræðingi og Kristjáni Kristjánssyni iðnaðartæknifræðingi. Við uppsögu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en dómsuppsaga dróst vegna anna dómsins.
D ó m s o r ð :
Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, X ehf., vegna líkamstjóns er stefnandi, A, hlaut í vinnuslysi þann 16. janúar 2013 á gafflaverkstæði stefnda á Reyðarfirði.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Evu Dísar Pálmadóttur hrl., 1.150.000 krónur.
Stefndi greiði 1.150.000 krónur í málskostnað til ríkissjóðs.