Hæstiréttur íslands
Mál nr. 387/2001
Lykilorð
- Fiskeldi
- Orkuver
- Vatnsmiðlun
- Mengun
- Skaðabótaréttur
|
|
Fimmtudaginn 16. maí 2002. |
|
Nr. 387/2001. |
Norræna sjóeldið hf. (Garðar Briem hrl.) gegn Rafmagnsveitum ríkisins (Lárus L. Blöndal hrl.) og gagnsök |
Fiskeldi. Orkuver. Vatnsmiðlun. Mengun. Skaðabótaréttur.
Fyrirtækið N krafði R um skaðabætur fyrir tjón sem N taldi hafa orðið í fiskeldisstöð sinni vegna opnana R á botnloku stíflu í Fljótaá í Skagafirði í mars 1994 og júní 1995. R krafði N um greiðslu á rafmagnsreikningum í gagnsök. Fram hafði komið að við opnunina á botnlokunni vegna viðgerða í mars 1994 hljóp fram mikið efnismagn úr miðlunarlóni. Voru þá aðrir eigendur að fiskeldisstöðinni, en N keypti stöðina síðari hluta ársins 1994. Hafði bótakrafa fyrri eigenda ekki fylgt með í kaupunum og gerði N heldur ekki kröfur vegna hennar á hendur R. Reyndi því ekki á bótaskyldu R vegna affalla á fiski í stöðinni vorið 1994. Í apríl 1995 urðu enn töluverð afföll í stöðinni og taldi N þau stafa af framkvæmdum R árið áður. Afföll þessi voru rakin til eitrunar af völdum brennisteinsvetnis. Sýnt var að dæmi voru um að slík eitrun hafði myndast í vatninu sem fiskeldisstöðin stóð við, sökum náttúrulegra aðstæðna við vatnið, sérstaklega þegar ís og snjór lágu yfir líkt og var þegar eitrunin varð. Ekki hafði verið sýnt fram á að aðgerðir R hefðu getað valdið þessu tjóni N svo löngu síðar, eða um ári eftir að viðgerðin fór fram. Var N ekki talinn hafa sannað að tjón hans hafi mátt rekja til umræddra aðgerða R. N reisti kröfur sínar einnig á því að tjón af völdum nýrnaveiki í fiski í stöðinni í júní 1995 mætti rekja til þess að opnað hafi verið að nýju fyrir botnlokuna. Af gögnum málsins varð hins vegar ráðið að flóð höfðu orðið í Fljótaá af völdum mikilla vorleysinga það árið. Höfðu leysingarnar m.a. valdið því að á sem rann í miðlunarlón stíflunnar braut sér leið fram hjá stíflumannvirkjum með miklum framburði aurs og grjóts í ána neðan þeirra. Voru þetta atburðir sem voru ekki á valdi R og hann gat ekki borið ábyrgð á. Var R sýknaður af skaðabótakröfum N. N var gert að greiða R fyrir raforku samkvæmt varakröfu R í gagnsök.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 10. október 2001. Hann krefst þess aðallega að gagnáfrýjandi greiði sér 491.515.951 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu 489.147.103 króna með sömu dráttarvöxtum og til þrautavara annarrar og lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði 19. desember 2001. Hann krefst staðfestingar héraðsdóms með þeirri breytingu að aðaláfrýjandi greiði 3.836.926 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 241.952 krónum frá 3. janúar 1996 til 1. febrúar sama ár, af 991.988 krónum frá þeim degi til 12. sama mánaðar, af 994.968 krónum frá þeim degi til 1. mars sama ár, af 1.712.255 krónum frá þeim degi til 1. apríl sama ár, af 2.365.949 krónum frá þeim degi til 10. sama mánaðar, af 2.368.848 krónum frá þeim degi til 2. maí sama ár, af 2.981.368 krónum frá þeim degi til 3. júní sama ár, af 3.491.647 krónum frá þeim degi til 10. júlí sama ár, af 3.836.926 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Með lögum nr. 98/1935 um virkjun Fljótaár var bæjarstjórn Siglufjarðar heimilað að reisa og reka raforkustöð við Fljótaá í Skagafjarðarsýslu. Var orkuver reist við ána 1945. Fyrir mannvirkjagerðina hafði Fljótaá runnið eftir nokkuð sléttum dalbotni um tvö vötn og síðan eftir gili, sem stíflað var við gerð orkuversins, áfram nokkra vegalengd eftir dalnum og loks út í Miklavatn. Myndaðist við þessar framkvæmdir stórt miðlunarlón ofan stíflunnar, sem hefur fengið nafnið Stífluvatn. Meðalvatnsrennsli á ári í gegnum virkjunina er um 5 rúmmetrar á sekúndu. Virkjunin er tvískipt, annars vegar efri virkjun og hins vegar neðri virkjun. Milli virkjananna myndast lítið uppistöðulón. Er efri virkjunin 3,4 megawött en hin neðri 1,7. Hlutverk miðlunarlónsins er að safna vatni yfir sumarmánuðina svo að nota megi það til raforkuframleiðslu yfir veturinn. Lónið verður stórt þar sem nýta þarf leysingavatn sumarsins yfir vetrarmánuðina en þá rennur mjög lítið vatn í lónið. Hins vegar er sérstaklega snjóþungt í Fljótum, svo að mikið vatn getur safnast yfir sumarið. Við rekstur stöðvarinnar er af þessum sökum reynt að hafa lónið fullt að hausti. Á vatnsforðann gengur yfir veturinn og til vorleysinga, en eðlilega fer það þó nokkuð eftir veðurlagi.
Gagnáfrýjandi keypti orkuverið við Fljótaá 1991 af Sigulufjarðarkaupstað og hefur rekið það síðan. Eftir kaupin réðst hann í viðgerðir á stíflumannvirkjum. Meðal þess sem endurnýja þurfti var botnloka stíflunnar en til þess að koma fyrir nýrri loku var miðlunarlónið tæmt 21. mars 1994 og var gamla botnlokan opnuð. Sá tími á að hafa verið valinn því að þá hafi verið verulega gengið á vetrarforða Stífluvatns. Aðaláfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á því að við opnun botnlokunnar hafi gífurlegt magn leðju og aurs flætt niður Fljótaá, gömul setlög, dauður fiskur, jurtaleifar og önnur lífræn efni, sem safnast hefðu saman fyrir ofan stífluna í áranna rás. Hafi þessi framburður flætt allt út í Miklavatn og valdið tjóni á laxeldisstöð sem var um 5 kílómetrum frá ósum árinnar. Ágreiningur er með aðilum um magn þessa efnis og samsetningu þess. Telja starfsmenn gagnáfrýjanda að framburðurinn hafi fyrst og fremst verið til kominn vegna sets sem komið hafi vegna landrofs þegar farvegi Skeiðsár var breytt á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar þannig að áin félli í Stífluvatn. Aðaláfrýjandi heldur því fram að lónið hafi aldrei verið tæmt frá því að stíflan var reist en af hálfu gagnáfrýjanda er talið að það hafi verið algjörlega tæmt um 1960. Hugsanlega hafi botnlokan einnig verið lítillega opnuð af og til þegar mikið var í vatninu til að minnka yfirfall. Engin könnun fór fram á innihaldi og magni efnis þess sem hafði safnast við stífluna, áður en botnlokan var opnuð eða rannsókn gerð á því hvaða áhrif þessar framkvæmdir myndu hafa á lífríki vatnahverfisins neðan stíflunnar. Ekki var sótt um leyfi fyrir þeim til yfirvalda, en veiðifélagi Fljótaár var skýrt frá því hvað til stæði.
Haustið 1986 hafði Miklilax hf. hafið rekstur seiðaeldisstöðvar á jörðinni Lambanesreykjum við Miklavatn. Allur úrgangur frá seiðaeldisstöðinni fór í gegnum setþró og síðan út í vatn. Þurfti að hreinsa setþróna að minnsta kosti tvisvar á ári. Upphaflega var ætlunin að framleiða í stöðinni gönguseiði til útflutnings. Erlendir markaðir reyndust hins vegar ekki vera fyrir hendi þegar fyrstu gönguseiðin voru framleidd í stöðinni vorið 1988 og voru seiðin því alin áfram í kvíum í Miklavatni meðan reist var matfiskseldisstöð í landi jarðarinnar Hrauna, sem einnig er við vatnið. Næstu ár var sú tilhögun á eldinu að gönguseiði voru tekin úr seiðaeldisstöðinni seint í júní eða byrjun júlí og alin í kvíum í vatninu fram á haust er þau voru flutt í ker á Hraunum. Var þetta gert til ársins 1995, en það ár voru seiði flutt beint úr seiðaeldisstöðinni í eldisstöðina á Hraunum. Þannig var kvíaeldi stundað í Miklavatni 19871994 eða í átta ár. Flest árin voru um 300 400.000 fiskar í eldi.
Þannig hagar til í Miklavatni að sjór gengur inn í vatnið, en í mismiklum mæli og fer það eftir því hversu opinn ósinn er sjávarföllum og brimi. Léttara ferskvatnslag liggur ofan á sjónum í vatninu og er þykkt þess mismikil milli ára. Sé ferskvatnslagið ekki of þykkt og endurnýjun sjávarins ekki of mikil verða nokkurs konar gróðurhúsaáhrif í sjávarlaginu. Ljósgeislar sólar ná niður í seltuna og breytast þar í varmaorku, en vegna mikils munar á eðlisþyngd blandast ferskvatnslagið ekki sjónum, nema lagið sé mjög þunnt og vindur mikill, og virkar því einangrandi. Þannig getur myndast hitaforði í sjávarlaginu. Miklilax hf. ætlaði sér að byggja framhaldseldi sitt á Hraunum á þessu og taka vatn til eldisstöðvarinnar úr sjávarlaginu. Sú hætta gat þó verið þessu samfara að mjög gat gengið á súrefnisinnihald sjávarins einkum í skammdeginu þegar ís og snjór lá yfir, því að þá verður engin ljóstillífun í sjávarlaginu, einungis rotnun. Þegar súrefnið þverr myndast brennisteinsvetni við niðurbrot lífrænna efna, en brennisteinsvetni er mjög eitrað. Til að draga úr þessari hættu opnuðu starfsmenn eldisstöðvarinnar ós vatnsins á hverju vori. Ósinn grefur síðan niður í vorleysingum, en vill lokast aftur í brimi á veturna. Erfitt er við þessar aðstæður að hafa nákvæma stjórn á því hve mikil endurnýjun sjávar er í Miklavatni á hverju ári. Þurftu því starfsmenn eldisstöðvarinnar að finna bestu lausn hvað varðar sjótökuna. Því grynnra sem þeir tóku sjó úr Miklavatni því kaldari var hann og eftir því sem dýpið var meira því meiri hætta var á eituráhrifum vegna myndunar brennisteinsvetnis. Af gögnum málsins má ráða að þótt starfsmenn sýndu ítrustu varkárni gátu eiturverkanir vegna brennisteinsvetnis valdið usla og eru heimildir fyrir því frá árinu 1992. Hins vegar á ástandið að hafa verið orðið betra frá því ári en starfsmenn Vegagerðar ríkisins hófu þá malartöku í ósnum og aðstoðuðu þannig við opnun hans með stórvirkari vélum en áður höfðu verið notaðar til þess.
Vorið 1994 um líkt leyti og botnlokan var opnuð fór að bera á dauða í eldisstöðinni á Hraunum, en fyrir liggur að í kjölfar opnunarinnar komst mikið grugg inn í stöðina um vatnsinntak hennar. Um mánaðarmótin maí/júní það ár var staðfest að nýrnaveiki hafði brotist út í stöðinni, mest í fiski af norskum stofni. Nýrnaveiki sem og fleiri sjúkdómar geta leynst í fisknum, en hún brýst ekki út nema fisknum líði illa og hann sé undir álagi. Af gögnum málsins verður ekki að fullu ráðið hvaða áhrif framburður úr Stífluvatni kann að hafa haft á framrás nýrnaveikinnar og afföll af hennar völdum í eldisstöðinni á Hraunum 1994 en samkvæmt áliti vísindamanna, sem að þessu máli hafa komið, getur mikið grugg haft þessi áhrif. Til þess að slá þessu föstu hefðu þurft að fara fram miklu yfirgripsmeiri rannsóknir fyrir og eftir þessa aðgerð gagnáfrýjanda, en afföllin hafi orðið á þeim tíma sem vatnshiti í eldinu hafi verið lægstur, súrefnisinnihald sjávarins í Miklavatni hvað lægst og því mest hætta á eituráhrifum vegna myndunar brennisteinsvetnis. Afföllin í matfiskseldisstöð Miklalax hf. vorið 1994 urðu fyrirtækinu dýrkeypt og var það tekið til gjaldþrotaskipta 3. ágúst 1994.
NFO-Gruppen A/S keypti fisk í seiðiseldisstöðinni að Lambanesreykjum, fisk í sex sjóeldiskvíum í Miklavatni og allan fisk í matfiskseldisstöðinni að Hraunum 23. ágúst 1994 af þrotabúinu. Þegar aðaláfrýjandi, Norræna sjóeldið hf., var stofnað 29. ágúst sama ár var fiskurinn lagður fram sem hlutafé NFO-Gruppen í það félag og 16. janúar 1995 var undirritaður samningur um kaup hans á öðrum eignum, en hann hafði tekið við rekstrinum strax eftir kaupin á fisknum. Var reksturinn áfram undir framkvæmdarstjórn þess sem með hana hafði farið fyrir Miklalax hf. Aðaláfrýjandi fékk ekki framseldar hugsanlegar bótakröfur á hendur gagnáfrýjanda vegna affallanna vorið 1994 og samkvæmt yfirlýsingum hans fyrir Hæstarétti eru engar kröfur gerðar þeirra vegna.
Í apríl 1995 urðu enn tölverð afföll í stöðinni og voru þau rakin til eitrunar af völdum brennisteinsvetnis. Vill aðaláfrýjandi kenna því um að mikið lífrænt set hafi borist í vatnið þegar botnlokan var opnuð í mars 1994 og hafi rotnun setsins í Miklavatni veturinn 19941995 valdið myndun þess brennisteinsvetnis, sem barst í stöðina vorið 1995, og olli þar fiskdauða. Í júní 1995 greindist aftur nýrnaveiki í eldisfiski að Hraunum og urðu afföll vegna sjúkdómsins. Starfsmenn gagnáfrýjanda höfðu þá opnað aftur fyrir botnlokuna. Töldu þeir sig nauðbeygða til þess vegna gífurlegra leysinga en nauðsynlegt hafi verið að létta á stíflumannvirkjunum. Vatni hafi því verið hleypt úr miðlunarlóninu smátt og smátt til að “tempra toppinn” á leysingunum. Þá hafi leysingarnar verið það miklar að Skeiðsá, sem renna eigi í miðlunarlónið, hafi brotið sér leið fram hjá stíflumannvirkjunum og sameinast Fljótaá tölvert neðan við þau. Hafi þetta valdið miklu landrofi. Er þetta staðfest af Tuma Tómassyni fiskifræðingi, sem segist hafa kannað ástandið 13. júní 1995 og hafi Fljótaá þá verið mjög dökk og moldarlituð þar sem Skeiðsá féll í hana, en ofar hafi áin verið lítillega lituð vegna leysinganna.
Aðaláfrýjandi hætti allri starfsemi í Fljótum undir lok febrúar 1996 eftir viðræður við gagnáfrýjanda um bætur vegna tjóns, sem hann telur stafa af þessum tveimur síðasttöldu atvikum.
II.
Gagnáfrýjandi, Rafmagnsveitur ríkisins, starfar samkvæmt IX. kafla orkulaga nr. 58/1967 með áorðnum breytingum. Verkefni hans er að framleiða, dreifa og selja raforku. Áður en fyrirtækið reisir, kaupir eða leigir orkuver eða orkuveitu, eða eykur við það sem fyrir er, þarf að leggja fyrir ráðherra tillögur þar um og hann að leita heimildar Alþingis, sbr. 63. og 64. gr. orkulaga. Ákvæði VI. kafla vatnalaga nr. 15/1923 gilda um vatnsmiðlun. Sé vatnsmiðlunin til afnota handa orkuveri skal líta svo á að miðlunarfyrirtækið sé einn liður í orkuverinu, þannig að öll ákvæði V. kafla sömu laga, 58. 65. gr., nái til miðlunarfyrirtækisins að því leyti sem þau geta átt við, sbr. 70. gr. laganna. Þó skal ávallt þurfa leyfi til miðlunar. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. og 69. gr. laganna er ráðherra heimilt að gera, eða veita öðrum heimild til að gera, mannvirki og aðrar ráðstafanir til miðlunar á vatnsmagni í vatnsfalli til orkunýtingar og þegar ákveðið hefur verið að framkvæma miðlun hefur ráðherra heimild til lögnáms samkvæmt 55. gr. laganna eða til að heimila það öðrum. Í þeirri grein segir að landeigendur og leiguliðar á því svæði, sem mannvirkin eiga að ná yfir, séu skyldir að þola þau á löndum sínum og lóðum, svo og að láta af hendi land og mannvirki og að þola hvers konar afnot af landi, takmarkanir á umráðarétti og óþægindi, sem nauðsynleg eru vegna framkvæmdar verksins, viðhalds þess og starfsrækslu, gegn fullu endurgjaldi, sem skal ákveða með mati, ef samkomulag næst ekki. Samkvæmt 70. gr. þarf ávallt sérstakt leyfi til vatnsmiðlunar ef fyrirtækið getur haft í för með sér skaðleg áhrif á umferð um vatnsfall eða veiði eða notkun vatnsins til annars. Gildir þetta einnig um breytingar á eldri miðlunarmannvirkjum.
Ekki liggur annað fyrir en að gagnáfrýjandi hafi lagaheimild til reksturs orkuvers síns í Fljótum og hafði orkuverið og vatnsmiðlunin verið starfrækt þar lengi þegar seiða- og eldisstöðin var reist, sem aðaláfrýjandi eignaðist síðar. Af framangreindum lagaákvæðum verður hins vegar ráðið að gagnáfrýjanda var almennt rétt að óska eftir leyfi ráðherra ætti að ráðast í breytingar eða verulega endurnýjun á miðlunarmannvirkjunum, sérstaklega væri hætta á því að framkvæmdir gætu haft skaðleg áhrif á hagsmuni annarra. Ekki liggur fyrir að aðgerðir gagnáfrýjanda vorið 1994 hafi út af fyrir sig verið meiri en falli undir venjulegt viðhald. Hins vegar má af gögnum málsins ráða að verulegt set hafði myndast í lóninu. Var því rétt að kynna framkvæmdirnar vandlega með góðum fyrirvara svo að aðrir hefðu tækifæri til að draga sem mest úr hugsanlegu tjóni af þeim. Síðan bar að haga þeim á þann hátt að öðrum yrði af sem minnstur bagi, enda eru ákvæði vatnalaga á því reist að þeir sem vatns njóta taki fullt tillit til annarra við vatnsfallið, eftir því sem tök eru á.
III.
Fram er komið að við opnun botnlokunnar í mars 1994 og tæmingu Stífluvatns hljóp fram mikið efnismagn úr vatninu og hefur gagnáfrýjandi gert samkomulag við veiðiréttareigendur í Fljótaá um tjón, sem talið er að af hafi hlotist. Hann hefur aftur á móti ekki bætt tjón það sem eigendur Miklalax hf. töldu hafa orðið í matfiskseldistöðinni á Hraunum. Þegar aðaláfrýjandi keypti stöðina síðari hluta 1994 fylgdi bótakrafa fyrri eiganda ekki með í kaupunum og hefur aðaláfrýjandi heldur ekki gert kröfur hennar vegna á hendur gagnáfrýjanda. Reynir því ekki á bótaskyldu gagnáfrýjanda vegna affalla á fiski í stöðinni vorið 1994.
Í apríl 1995 eftir að aðaláfrýjandi eignaðist stöðina urðu þar enn töluverð afföll og svo sem að áður greinir telur aðaláfrýjandi þau stafa af framkvæmdum gagnáfrýjanda árið áður. Afföll þessi voru rakin til eitrunar af völdum brennisteinsvetnis. Að framan er því lýst að ekki var dæmalaust að slík eitrun myndaðist í vatninu vegna þess hvernig þar hagar til, sérstaklega þegar ís og snjór liggja yfir því, svo sem er eitrunin varð. Þegar þetta tjón bar að höndum var um ár liðið frá aðgerðum gagnáfrýjanda við stíflumannvirkin. Ítarleg vísindarannsókn hefur ekki farið fram á því hvort þær aðgerðir gátu að þeim tíma liðnum valdið tjóni aðaláfrýjanda. Verður að telja að aðaláfrýjandi hafi ekki fært nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir þessu tjóni vegna aðgerða gagnáfrýjanda í mars 1994.
Í júní 1995 varð enn tjón af völdum nýrnaveiki í eldisfiski að Hraunum. Vill aðaláfrýjandi, svo sem að framan er sagt, rekja það til þess að opnað hafi verið að nýju fyrir botnlokuna og það og aðrar aðgerðir gagnáfrýjanda við stífluna hafi valdið tjóni hans. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að flóð urðu í Fljótaá af völdum mikilla vorleysinga. Má af gögnum málsins ráða að starfsmenn gagnáfrýjanda hafi þurft að grípa til sérstakra ráðstafana þessa vegna. Leysingarnar urðu til þess að Skeiðsá braut sér leið fram hjá stíflumannvirkjunum og olli miklum framburði aurs og grjóts í Fljótaá neðan við stífluna, en þar fyrir ofan var litur árinnar eins og venjulega í leysingum. Verður að fallast á það með héraðsdómi að hér hafi orðið atburðir sem ekki voru á valdi gagnáfrýjanda og hann gat ekki borið ábyrgð á. Verður í þessu sambandi einnig að hafa í huga að orkumannvirki gagnáfrýjanda höfðu lengi verið starfrækt í Fljótaá þegar til fiskeldis var stofnað í og við Miklavatn. Við stofnun og starfrækslu þessa síðarnefnda fyrirtækis varð að taka tillit til eðlilegs atvinnureksturs þeirra sem þegar voru fyrir á vatnasvæðinu, og að þeir kynnu að þurfa að gera einhverjar ráðstafanir honum samfara við sérstakar aðstæður, svo sem þarna sköpuðust. Samkvæmt framansögðu ber að sýkna gagnáfrýjanda af kröfu aðaláfrýjanda.
IV.
Gagnáfrýjandi reisir kröfur sínar á reikningsyfirlitum yfir selda orku frá 1. febrúar 1996 til 31. maí sama ár. Fyrir liggur að aðaláfrýjandi hætti starfrækslu í lok febrúar 1996 og kveðst framkvæmdarstjóri fyrirtækisins hafa kynnt það munnlega réttum starfsmanni gagnáfrýjanda. Sá maður mun nú látinn en ljóst er að það gat ekki farið fram hjá starfsmönnum gagnáfrýjanda að fyrirtækið var hætt störfum. Ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms varðandi þessa kröfu gagnáfrýjanda með dráttarvöxtum frá birtingu stefnu, svo sem þar greinir.
V.
Af öllu framangreindu leiðir að rétt þykir að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. júlí 2001.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 17. maí sl., er höfðað af Rafmagnsveitum ríkisins, (RARIK) kt. 520269-2669, Rauðarárstíg 10, Reykjavík með stefnu þingfestri 2. september 1999 á hendur Norræna sjóeldinu hf. kt. 690894-2709, Lambanesreykjum, Fljótum, Skagafirði.
Í þinghaldi þann 9. nóvember 1999 skilaði gagnstefnandi greinargerð í málinu. Samhliða greinargerð sinni lagði gagnstefnandi fram gagnstefnu. Eftir að gagnstefnan kom fram krafðist gagnstefndi þess að gagnstefnanda yrði gert að setja tryggingu fyrir málskostnaði. Með úrskurði dómsins uppkveðnum þann 23. nóvember 1999 hafnaði dómurinn kröfunni. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar Íslands af gagnstefnda en rétturinn staðfesti úrskurðinn með dómi uppkveðnum 5. janúar 2000. Þann 25. febrúar 2000 lagði gagnstefndi fram greinargerð í gagnsök og þar kemur m.a. fram krafa um að gagnsök verði vísað frá dómi. Með úrskurði dómsins uppkveðnum 11. apríl 2000 var fallist á kröfur gagnstefnda og gagnkröfum vísað frá dómi. Gagnstefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar Íslands og með dómi sínum uppkveðnum þann 24. maí 2000 komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að aðalkröfum gagnstefnanda í gagnsök skyldi vísað frá dómi en lagði fyrir héraðsdóm að taka varakröfur gagnstefnanda til efnismeðferðar og er nú leyst úr þeim þætti málsins.
II.
Dómkröfur gagnstefnda í aðalsök.
Í aðalsök krefst gagnstefndi þess að gagnstefnanda verði gert að greiða honum skuld að fjárhæð 3.836.926 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 241.952 krónum frá 3. janúar 1996 til 1. febrúar 1996 en af 991.988 krónum frá þeim degi til 12. febrúar 1996 en af 994.968 krónum frá þeim degi til 1. mars 1996 en af 1.712.255 krónum frá þeim degi til 1. apríl 1996 en af 2.365.949 krónum frá þeim degi til 10 apríl 1996 en af 2.368.848 krónum frá þeim degi til 2. maí 1996 en af 2.981.368 krónum frá þeim degi til 3. júní 1996 en af 3.491.647 krónum frá þeim degi til 10. júlí 1996 en af 3.836.926 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Jafnframt krefst gagnstefndi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda að mati dómsins.
Dómkröfur gagnstefnda í gagnsök.
Í gagnsök krefst gagnstefndi þess aðallega að hann verið sýknaður af öllum kröfum gagnstefnanda og að gagnstefnanda verið gert að greiða málskostnað að mati réttarins en til vara að gagnkröfur verið lækkaðar verulega og að í því tilfelli verði málskostnaður látinn niður falla.
Dómkröfur gagnstefnanda í aðalsök.
Í aðalsök krefst gagnstefnandi aðallega sýknu af öllum kröfum gagnstefnda á grundvelli skuldajafnaðar en til vara krefst hann þess að honum verði ekki gert að greiða hærri fjárhæð en 2.368.848 krónur. Hann krefst og málskostnaðar úr hendi gagnstefnda samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök.
Aðalkröfu gagnstefnanda í gagnsök hefur eins og að framan er rakið verið vísað frá dómi. Endanlegar kröfur hans í gagnsök eru því þær að gagnstefnda verði gert að greiða honum 429.740.318 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Til vara er þess krafist, að gagnstefnda verði gert að greiða aðra lægri upphæð að mati dómsins með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 31. ágúst 1995 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati réttarins.
III.
Málavextir.
Með lögum frá árinu 1935 fékk Bæjarstjórn Siglufjarðar heimild til að reisa og reka raforkuver við Fljótá í Skagafirði og jafnframt var bæjarstjórn heimilað að reisa nauðsynleg mannvirki til að koma orkunni til Siglufjarðar. Fljótlega var ráðist í að reisa þessi mannvirki og eru stíflan og miðlunarlónið, sem koma við sögu í þessu máli því um 60 ára gömul mannvirki. Fljótá heitir áin sem rennur úr Stífluvatni og fellur hún í Miklavatn og þaðan til sjávar. Á árinu 1991 keypti gagnstefndi mannvirkin af Siglufjarðarkaupstað.
Miðlunarlónið sem myndaðist við stíflugerðina er nefnt Stífluvatn. Hlutverk lónsins er að safna vatni yfir sumarmánuðina og miðla því áfram til raforkuframleiðslu yfir veturinn. Þessi virkjun þarf hlutfallslega stórt lón því hún byggir á því að nýta leysingarvatn sumarsins yfir vetrarmánuðina en á vetrum rennur mjög lítið vatn í lónið. Við rekstur virkjunarinnar er því er reynt að hafa lónið fullt að hausti og tæma það yfir vetrarmánuðina með því að hleypa vatni í gegnum virkjunina og framleiða um leið raforku.
Á árunum 1988 til 1989 byggði fyrirtækið Miklilax hf. seiðaeldisstöð og matfisksstöð á jörðunum Lambanesreykjum og Hraunum í Fljótum en aðstæður þóttu góðar til laxeldis við Miklavatn. Bú Miklalax hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 3. ágúst 1994. Tuttugu dögum síðar seldi búið allan fisk í eigu þess til NFO gruppen A/S. Í janúar 1995 keypti gagnstefnandi fasteignir og nánast allt lausafé í eigu þrotabúsins.
Á árinu 1994 réðst gagnstefndi í viðamiklar viðhaldsviðgerðir á stíflumannvirkjum. Meðal þess sem endurnýja átti var botnloka í stíflunni og til að koma fyrir nýrri botnloku taldi gagnstefndi nauðsynlegt að tæma miðlunarlónið og var það gert með því að gamla botnlokan var opnuð. Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að við þetta hafi gífurlegt magn af leðju og aur, gömul setlög, dauður fiskur, jurtaleifar og önnur lífræn efni sem safnast höfðu fyrir ofan við stífluna í áranna rás flætt niður Fljótá og út í Miklavatn. Gagnstefndi heldur því hins vegar fram að magnið hafi verið margfalt minna en gagnstefnandi telur.
Þann 1. apríl 1995 varð mikill fiskadauði í laxeldisstöð gagnstefnanda að Hraunum og telur gagnstefnandi að tjónið sem af því hlaust megi rekja til brennisteinsvetnis sem komið hafi í stöðina gegnum inntaksrör úr Miklavatni. Lífrænu efnin sem bárust í vatnið og áður er getið hafi aukið á rotnun sem með tímanum hafi myndað gas og eiturverkanir sem drepið hafi fiskinn í stöðinni. Í byrjun júnímánaðar á þessu sama ári hafi gagnstefndi aftur opnað fyrir botnloka stíflumannvirkisins með þeim afleiðingum að aftur barst mikið magn af leir og drullu í mannvirki stöðvarinnar sem leiddi til þess að mikið magn fiskjar drapst. Gagnstefndi heldur því hins vegar fram að vegna mikilla snjóa veturinn áður og gríðarlegra leysinga um vorið hafi verið nauðsynlegt að létta á stíflumannvirkjum og því hafi vatni verið hleypt smátt og smátt úr miðlunarlóninu til að tempra toppinn á leysingunum. Leysingarnar hafi verið það miklar að Skeiðsá sem alla jafna renni í Stífluvatn hafi brotið sér nýjan farveg og fallið eftir hlíðinni meðfram Fljótá og sameinast henni töluvert fyrir neðan virkjunina. Kveður gagnstefndi Fljótá hafa verið lítillega litaða frá virkjuninni og þar til árnar komu saman en þar fyrir neðan hafi hún verði mjög dökk og moldarlituð.
Gagnstefnandi kveðst hafa hætt allri starfsemi í Fljótum undir lok febrúarmánaðar 1996 eftir að viðræður við gagnstefnda um bætur vegna tjónsins hafi reynst árangurslausar. Frá þeim tíma hafi nýtt fyrirtæki, Stormøllen, tekið við rekstrinum.
Undir rekstri málsins kom fram hjá vitnum að vatn í eldisker Miklalax hf. hafi verið tekið inn í stöðina með þeim hætti að sett voru rör út í vatnið með inntaksopum með reglulegu millibili og á misjöfnu dýpi. Það fór síðan eftir því hversu mikil selta var og hvert hitastigið í vatninu var hvaða lokar voru opnir til að taka vatn í stöðina. Mælar voru notaðir til að fylgjast með þessu en breyting frá degi til dags hafi verið mjög lítil og því hafi ekki þurft að vakta þetta allan sólarhringinn. Einnig kom fram að affall af eldisstöðinni að Hraunum hafi farið beint út í sjó en ekki í Miklavatn. Úrgangur frá seiðaeldisstöðinni hafi farið í gegnum setþró og þannig hafi affallið af henni hreinsast. Fleiri en eitt vitni báru að setþróin hafi verið tæmd reglulega.
Fram kom í máli vitna að Fljótin séu snjóþung sveit og því séu leysingar þar algengar. Veturinn 1994 til 1995 hafi verið snjóþungur í meira lagi og í miklum leysingum hafi Skeiðsá brotist úr þeim farvegi sem veitti henni í Stífluvatn og farið í sinn gamla farveg og runnið út í Fljótá. Það hafi í raun ekki komið neinar vorleysingar enda vorið kalt og í byrjun júní hafi komið asahláka bæði á há og láglendi.
IV.
Framburður fyrir dómi.
Jim Rodger Nordly stjórnarformaður gagnstefnanda gaf skýrslu fyrir dóminum. Hann kvaðst nú starfa, eins og á árunum 1994 til 1996, við sölu og framleiðslu og á lyfjum fyrir fiskeldisstöðvar svo og annað sem að heilbrigði fiska kemur.
Jim Roger kvaðst hafa komið í heimsókn til Íslands í þeim tilgangi að skoða laxeldisstöð á Suðurlandi. Hann hafi séð að áhugavert væri að stunda fiskeldi hér á landi sérstaklega ef fjármagnskostnaður væri ekki mikill. Hann hafi síðar frétt af stöðinni í Miklalaxi og jafnfram að til hafi staðið að slátra öllum fiski í stöðinni en ef hann ætlaði að kaupa stöðina hefi hann þurft að bregðast skjótt við. Það hafi hann gert og komið til Íslands á miðviku- eða fimmtudegi. Farið norður í Fljót og skoðað stöðina en á mánudeginum á eftir hafi staðið til að slátra fiskinum. Jim Rodger bar að þó hlutir gangi hratt fyrir sig á Íslandi sé ómögulegt að stofna fyrirtæki á einum degi og þar sem mikið lá á hafi NFO gruppen A/S keypt fiskinn af Búnaðarbankanum en stofnfé Norræna sjóeldisins sé það sama og greitt fyrir fiskinn og því sé það félag raunverulegur eigandi fiskjarins.
Jim Rodger bar að þeir hafi vitað að í stöðinni hafði verið nýrnaveiki, kýlaveiki og vibriur. Við skoðun á stöðinni hafi komið í ljós að fiskurinn á Hraunum hafi verið mikið sýktur af nýrnaveiki. Næstu tvær kynslóðir á eftir sem voru í kvíum í Miklavatni og í seiðaeldisstöðinni á Lambanesreykjum hafi aftur á móti vegar verið í góðu ásigkomulagi. Hann hafi vegna reynslu sinnar af fiskisjúkdómum vitað að hægt væri að komast hjá kýlaveiki og vibrium. Að hans sögn var þeim skýrt frá því að nýrnaveikin stafaði af framkvæmdum við virkjunina vorið 1994 en jafnframt verið tjáð að slíkt yrði ekki gert aftur. Hann bar að þeir hafi deilt á þrotabúið fyrir að láta þá ekki vita af leðjunni á botninum og þrotabúið hafi vitað að vatnið var ekki eins gott og það átti að vera. Hann kvaðst ekki muna hvort gagnstefnandi gerði formlega kröfur á hendur þrotabúinu vegna tjóns sem þeir urðu fyrir.
Jim Rodger kvaðst, eftir að þeir voru búnir að kaupa bæði fiskinn og stöðina, hafa farið á fund í Reykjavík með Eiríki Briem og Lárusi Blöndal og þriðja manni hvers nafn hann man ekki. Þessi fundur hafi átt sér stað eftir að þeir fengu upplýsingar frá kafara um að leðja væri á botni vatnsins en þeir hafi óttast að það mundi leiða til þess að brennisteinseitrun kæmi fram seinna. Hann hafi viljað benda RARIK á leiðir til að hreinsa vatnið og bent þeim á norskan aðila sem gæti gert slíkt. Hann kvaðst hafa upplýsingar um að tæknilega hafi verið hægt að hreinsa vatnið en hann viti ekki hvað það hefði kostað. Tilgangur fundarins hafi verið að ræða hreinsun Miklavatns þó Eiríkur Briem hafi eingöngu viljað ræða um rafmagnsreikninga. Áður hafi RARIK lofað heimamönnum að bæta þann skaða sem fyrirtækið ylli. Hann kvaðst hafa verið í þeirri trú að RARIK ætlaði að grípa til einhverra aðgerða en þeir hafi ætlað að skoða málið betur.
Jim Rodger kvaðst hafa vitað af því að nýrnaveiki væri vandamál í íslensku fiskeldi en fram að þessum tíma hafði kýlaveiki og vibriur verið meira vandamál og þannig hafi málum verið háttað í Miklalaxi. Það vandamál hafi þeir getað ráðið við með bólusetningu. Allur fiskur nema sá sem var mikið veikur af nýrnaveiki hafi verið bólusettur gegn þessum sjúkdómum. Eftir þetta hafi engin vandamál komið upp vegna þessara sjúkdóma, aftur á móti sé enn sé ekki til bóluefni við nýrnaveiki. Þeir hafi komið upp góðum sóttvörnum í stöðinni og átt gott samstarf við dýralækni í þeim tilgangi að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma.
Jim Rodger bar að erfiðleikar í rekstri stöðvarinnar hafi verið vegna þess að brennisteinseitrun kom upp í apríl 1995 svo og vegna þess að nýrnaveiki kom aftur upp eftir opnunina í júní 1995. Að hans mati er ómögulegt, nema vatnið verði hreinsað, að stunda laxeldi í Miklavatni. En virkjunin sé þarna og það virðist sem þeir taki ekki nægilegt tillit til umhverfisins. Starfsmenn hafi gefið loforð um að ekki yrði opnað aftur en það hafi þeir gert strax árið eftir. Hann bar að starfsemi gagnstefnanda hafi lokið í Fljótum um mánaðarmótin febrúar mars 1996.
Jim Rodger bar að hægt hefði verið að framleiða mörg þúsund tonn í stöðinni á Hraunum en þar séu 18.500 rúmmetara af eldisrými. Krafan miði við að framleidd hefðu verið 750 tonn á ári en það magn sé varlega áætlað og að þá sé þéttleiki á fiskinum ekki mikill.
Mætti upplýsti að við kröfugerð hafi verið notaðar upplýsingar frá Kontani Analysi en það félag geri skýrslur um og vinni tölulegar upplýsingar um fiskeldi í Noregi og víðar. Félagið noti gögn frá fiskimálastofnun í Noregi og vinni þannig upplýsingar um framleiðslukostnað í Noregi. Einnig sé tekið mið af verði sem fáist fyrir eldislax í Noregi. Þar sé miðað við fob verð og um raunverð sé að ræða unnið út frá upplýsingum sem útflutningsráð í Noregi og samtök fiskeldisstöðva í Noregi láti í té en einnig sé horft til verða frá öðrum löndum Mætti taldi að þessar tölur megi í stórum dráttum yfirfæra á framleiðsluna í Miklalaxi. Í nokkrum liðum hafi verið dýrara að framleiða fisk í Miklalaxi en á móti hafi nokkrir liðir verið með minni kostnaði og það jafnist nokkurn veginn út. Þá bendir hann á að í þessu tilfelli hafi enginn fjárfestingarkostnaður verið því stöðin hafi verið keypt fyrir lítið verð. Hann hafi í raun gert ráð fyrir að hagnaður hefði verið aðeins meiri en tölur frá Kontani Analysis geri ráð fyrir. Tölur um verð fyrir framleiðsluna séu byggðar á heimsmarkaðsverði og því nánast um fast verð að ræða. Jim Rodger kvaðst hafa gert áætlun í samvinnu við norskan félaga sinn um það hversu miklu fé hafi þurft að eyða áður en peningar færu að berast til baka af framleiðslunni og taldi að áætlunin hafi verið varleg.
Jim Rodger bar að þeir hafi flutt inn fóður handa fiskinum frá Noregi vegna þess að þeir hafi viljað vera vissir um gæði fóðursins. Þetta innflutta fóður hafi verið svolítið dýrara en innlent. Norska fóðrið hafi þeir fengið nokkurn veginn á sama verði og fiskeldisstöð í Noregi. Flutningskostnaður frá Bergen til Íslands sé svipaður og norður til Finnmerkur t.d. Tollar séu ekki greiddir af fiskifóðri og virðisaukaskattur fáist endurgreiddur. Kostnaður við framleiðslu seiða hafi verið minni á Íslandi vegna heita vatnsins en á móti hafi komið meiri kostnaður við dælingu vatns. Þess vegna sé framleiðslukostnaður svipaður hér og í Noregi. Hann kvaðst hafa fengið sama verð fyrir fiskinn héðan og fyrir fisk frá Noregi.
Vitnið Jón Kristjánsson, fiskifræðingur kvaðst hafa verið starfsmaður Veiðimálastofnunar þegar Miklilax hf. var stofnaður. Hann hafi komið að ráðgjöf þegar stöðin var byggð og hafi fylgst með því sem gerðist í framhaldinu. Hann kvaðst hafa verið kallaður til af Trausta Sveinssyni til að skoða ummerki efir að hleypt hafði verið úr Stíflulóni vorið 1994. Hann hafi komið á vettvang tveimur dögum eftir að hleypt var úr lóninu. Þá hafi hann tekið myndir og veitt seiði til skoðunar. Á þessum tíma hafi verið mikill snjór og augljóst að mikið vatn og aur hafði farið niður ána. Greinilegt hafi verið að miklar hamfarir hafi átt sér stað. Vitnið taldi ómögulegt að mæla hversu mikið magn af seti hafi farið niður ána en hann hafi áætlað að það hafi verið um milljón rúmmetrar. Hann sagði útreikninga sína byggja á því sem fram kom hjá kafara sem upplýsti að 10 til 15 cm lag hafi verið á botni vatnsins. Hann taldi að efnið hafi verið blanda af lífrænu og ólífrænu efni en ómögulegt sé að segja til um samsetninguna nema með mælingum. Vitnið sagði að ætla megi að lífrænt efni hafi einnig borist niður ána þegar hleypt var úr lóninu 1995.
Vitnið kvaðst engar rannsóknir hafa gert á Stífluvatni og kvaðst ekki vita til þess að rannsóknir hafi farið fram þar.
Vitnið bar að haldinn hafi verið fundur í veiðifélaginu sem hann sótti, einnig hafi Tumi Tómasson verið þar svo og fulltrúi frá RARIK. Þá hafi hann verið beðinn um að gera skýrslu um það hvernig hægt væri að bæta skaðann sem orðið hafið í ánni en hann hafi talið að nánast hafi orðið altjón á seiðum við þessa atburði. Um þetta hafi allir verið sammála. Vitnið kvað að hann og Tumi Tómasson hafi í skýrslu lagt til að bæta seiðin sem áttu að ganga til sjávar 1994 með því að sleppa 1000 gönguseiðum í ána sem kæmu í stað þeirra. Einnig hafi verið lagt til að sumaröldum seiðum yrði sleppt í Fljótá. Vitnið sagði að ekki hefði verið lagt til að sumaröldum seiðum yrði sleppt ef fyrir hefði legið að aftur yrði hleypt úr lóninu ári síðar.
Vitnið taldi að RARIK hefði sem framkvæmdaraðili átt að leita eftir áliti á því hvernig þeir ættu að standa að því að tæma lónið ef þeir hefðu á annað borð fengið leyfi til þess. Í þessu tilfelli hefði mátt hugsa sér að láta þetta fara fram á öðrum tíma árs eða að láta þetta taka lengri tíma en spurningum sem þessum hefði verið unnt að svara með umhverfismati. Vitnið bar að þegar horft er til sögu Miklavatns, um súrefnislaust botnlag, brennisteinsvetni, mismikla seltu, mismikinn styrk súrefni o.m.fl. hefði átt að mæla ástand þess áður en í þessar framkvæmdir var ráðist. Sagan segi okkur að Miklavatn hafi drepið af sér fisk og fyrr á öldinni hafi komið ýsa og þorskur í stað silungs. Hann hafi lagt til að ástand fiskjar í Miklavatni yrði kannað eftir þessar úrhleypingar.
Vitnið sagði viðurkennt að nýrnaveiki fari af stað af utanaðkomandi áreiti eða stressi. Hann sagðir að sýkill sem veldur nýrnaveiki sé til staðar í náttúrunni en sjúkdómurinn komi ekki fram þar. Taldi hann að nýrnaveiki hafi komið upp í stöðinni 1994 vegna gruggugs vatns. Taldi vitnið augljóst að mikið af aur hafi borist í vatnið sem dælt var í kerin því það hafi ekki sést í fiskinn í stöðinni vegna þess hversu gruggugt vatnið var.
Að sögn vitnisins drapst fiskurinn 1. apríl 1995 vegna þess að hann varð fyrir brennisteinseitrun. Taldi hann að lífræn efni sem bárust í vatnið frá Stífluvatni vorið 1994 hafi rotnað og sú rotnun hafi valdið myndun brennisteinsvetnis og það síðan valdið brennisteinseitruninni. Þetta sé þó ekki hægt að fullyrða því hugsanlega hafi aðstæður verið fyrir með þeim hætti að brennisteinseitrun hefði komið upp án þess efnis sem kom frá Stífluvatni. Vitnið taldi að úrgangur frá seiðaeldisstöðinni að Lambanesreykjum hafi ekki valdið þessari brennisteinseitrun og það sama megi segja um kvíarnar enda hafi eldi þar ekki staðið í mörg ár og einungis að sumri til. Þá bendir hann á að sjór streymir inn í vatnið og fer þá með botninum og getur lyft brennisteinsvetninu upp þ.a. alda geti rifið það upp. Hins vegar hafi verið ís á Miklavatni þegar þessi atburður átti sér stað og því gat alda ekki hafa komið yfirborðinu á hreyfingu.
Vitnið tók ekki undir þau sjónarmið sem fram koma í skýrslu Tuma Tómassonar þess efnis að Skeiðsá hafi átt mikinn þátt í að koma nýrnaveikinni af stað 1995.
Vitnið Gunnar Reynir Pálsson var framkvæmdastjóri gagnstefnanda meðan hann var með starfsemi í Fljótum en hann hætti þar störfum í janúar 1996. Vitnið kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri Miklalax hf. frá upphafi. Eftir að Miklilax varð gjaldþrota hafi hann unnið fyrir Búnaðarbankann um nokkurra vikna skeið og í framhaldi af því hafi hann tekið við starfi hjá gagnstefnanda.
Vitnið bar að fyrst í stað hafi Miklilax hf. átt í erfileikum með kýlaveiki í íslenskum fiski sem upphaflega var hjá fyrirtækinu. Til að komast hjá kýlaveikinni hafi verið tekinn inn í stöðina norskur lax sem þoldi kýlaveikibakteríuna betur. Nýrnaveiki hafi ekki komið upp í stöðinni fyrr en á árinu 1994, staðfest í byrjun júní það ár. Vitnið bar að Gísli Jónsson, dýralæknir hafi starfað með félaginu og lagt sig fram um að vinna með þeim. Hann bar að á árinu 1993 hafi þeir byrjað að bólusetja gegn kýlaveiki og náð góðum tökum á henni. Ekki hafi verið til bóluefni gegn nýrnaveiki.
Að sögn vitnisins var öllum fiski sem kominn var á legg og gagnstefnandi keypti slátrað. Hann kvaðst ekki hafa verið á staðnum þegar brennisteinseitrunin kom upp í stöðinni 1995. Hann hafi komið á staðinn daginn eftir. Mikill dauði hafi verið í einum tanki en einnig nokkur í tveimur öðrum. Hann sagði að strax hafi verið ljóst að um eitrun var að ræða.
Vitnið kvaðst hafa gert rekstraráætlun í samstarfi við Jim Rodger og taldi að áætlunin sé raunhæf. Tölur í áætluninni hafi verið eins og þeir vissu best á þeim tíma.
Vitnið kvaðst ekki hafa, sem framkvæmdastjóri Miklalax hf. hafa verið varaður við áður en hleypt var úr Stíflulóni vorið 1994. Hann hafi orðið þess áskynja að búið var að hleypa úr lóninu þegar hann sá að eldisvatnið í stöðinni varð mjög dökkt, grá svart. Hann eða aðrir forsvarsmenn gagnstefnanda hafi ekki verið varaðir við vorið 1995. Hann kvaðst hins vegar hafa verið í veiðifélagi Miklavatns og Fljótár sem einn eigenda Fljótár og muna eftir því að fyrirhugaðar framkvæmdir RARIK hafi verið kynntar á fundi í veiðifélaginu í febrúar 1994. Hann kvaðst ekki muna til þess að nákvæmlega hafi verið gerð grein fyrir því hvað til stóð.
Vitnið bar að ef hann hefði vitað af opnuninni með góðum fyrirvara þá hefði verið hægt að taka sjó utan við sjávarkambinn á meðan en það hefði kostað mikla peninga. Vitnið greindi frá því að við seiðaeldið á Lambanesreykjum hafi verið notuð 12 til 14 tonn á ári af fóðri og af því megi gera ráð fyrir að úrgangur sé um 5%. Vitninu fannst ekki líklegt að úrgangur frá seiðaeldinu eða kvíunum hafi getað leitt til myndunar brennisteinseitrunar. Hann bendir á að Miklavatn sé gjöfult frá náttúrunnar hendi og þar komi sjór inn þegar ósinn er í eðlilegu ástandi. Því sé umtalsver magn af náttúrulegum úrgangi í vatninu. Vitnið bar að af hálfu Miklalax hf. hafi verið gerðar rástafanir til að halda ósi vatnsins opnum því selta vatnsins minnkaði ef ósinn lokaðist. Af þessum sökum hafi þeir notað gröfu allt frá árinu 1992 til að sjá um þetta.
Vitnið kvaðst hafa selt RARIK seiði en ætlun þeirra hafi verið að nota þau sem bætur til veiðifélagsins vegna opnunarinnar 1994.
Vitnið sagði að þann 13. apríl 1994 hafi starfsmenn séð grunsamleg einkenni í fiski. Þegar drullan sem barst í Miklavatn úr Stíflulóni og þaðan í ker stöðvarinnar var farin úr kerjunum og starfsmenn sáu fiskinn aftur hafi komið í ljós að hann var veikur. Fram að þessum tíma hafi verið fylgst vel með fiskinum í stöðinni og sýni send á hverju ári að Keldum til rannsóknar en aldrei fyrr hafi borið á nýrnaveiki.
Vitnið bar að breytilegt hafi verið frá ári til árs hversu mikið magn var af seiðum í kvíum í vatninu en sennilega að meðaltali 300.000 seiði frá því seinnipartinn í júní fram í miðjan október árin 1987 til 1994.
Vitnið kvaðst hafa kynnt sér sem leikmaður magn framburðar vorið 1994 og taldi að útreikningar verkfræðinga sem liggja frammi í málinu geti alls ekki staðist.
Vitnið bar að það hafi liðið lengri tími 1994 frá opnun og fram að því að fiskur tók að veikjast en vorið 1995 og taldi að hitastig hafi haft áhrif þar á.
Vitnið sagði að Norræna sjóeldið hafi ekki keypt ný seiði til eldis og því ekki bætt við nýjum kynslóðum. Slátrun á nýrnaveikum fiski sem var á Hraunum hafi lokið undir jól 1994. Næsta kynslóð sem var í kvíum í Miklavatni hafi þá verið færð að Hraunum og alin þar. Sá fiskur hafi verið kominn í stöðina áður en slátrun á elsta fiskinum var lokið. Vitnið sagði að gagnstefnandi hafi selt nánast allan sinn fisk til Evrópu, mest til Frakklands. Yngsta kynslóðin sem enn var í seiðastöðinni hafi ekki verið sett í Miklavatn heldur beint í eldisstöðina að Hraunum. Vitnið taldi að kvíar í Miklavatni hafi verið 2,5 km frá inntaksrörunum.
Vitnið Hjálmar Jónsson, bóndi kvaðst hafa verið sláturhússtjóri hjá Miklalaxi vorið 1995. Hann hafi verið kallaður til seinni part dags og séð að fiskurinn var veikur. Settir hafi verið loftsteinar í kerin til að auka súrefni en ekki hafi sést til botns í kerjunum vegna þess hversu gruggugt vatnið var. Um kvöldið hafi verið byrjað að slátra fiski til að bjarga því sem bjargað varð. Hann kvaðst hafa unnið við að hreinsa eitt ker en það hafi verið mikil drulla eða leðja á botninum á því sem safnast hafi saman í litla hóla sem mest voru 10 um cm á hæð. Vitnið kvaðst áður hafa hreinsað ker en hann hafi ekki áður séð svo mikla drullu. Vitnið kvaðst ekki muna eftir neinu atviki þessu líku vorið 1994.
Vitnið Stefán Benediktsson, bifreiðastjóri hefur búið í Fljótum alla sína tíð. Vitnið kvaðst vita til þess að í vor og síðasta vor hafi verið hleypt úr Stífluvatni en áður hafi verið grafið upp úr lóni við stöðvarhúsið í þeim tilgangi að safna þar framburði sem kæmi úr vatninu. Vitnið kvaðst hafa séð þegar loka var tekin úr þessu lóni árið 1994. Þá hafi lónið verið fullt af drullu og við þetta hafi áin orðið mjög dökk. Vitnið kvaðst muna eftir því að Skeiðsá hafi einu sinni farið úr farvegi sínum og taldi að það hafi verið vorið 1995. Vitnið sagði að ekki komi miklar leysingar í Fljótá á vorin því vatnið safnist saman í Stífluvatni sem þá er tómt. Þá bar vitnið að eftir að Skeiðsá var veitt inn í Stífluvatn séu vatnavextir enn minni í Fljótá en Skeiðsá geti orðið mikil á vorin.
Vitnið Sigríður Björnsdóttir verslunarmaður starfaði sem stöðvarstjóri yfir áframeldinu að Hraunum. Vitnið bar að hún hafi verið á vakt fyrri part dags 1. apríl 1995 en um kvöldið hafi verið hringt í hana og henni tjáð að sérkennilegt vatn væri komið inni í stöðina. Þegar hún kom á staðinn hafi verið mikið af dauðum fiski í þeim tanki sem vatn kom fyrst í og hún hafi fundið brennisteinslykt. Hún kvaðst hafa látið taka vatn úr ánni sem rennur við stöðina til að reyna að hreinsa vatn í stöðinni en það hafi verið of lítið og of seint.
Vitnið bar að hún hefði ekki sérmenntun varðandi fiskeldi og kvaðst ekki hafa unnið hjá Miklalaxi vorið 1994 þegar hleypt var úr Stífluvatni en hún hafi verið þar vorið 1995. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið niðurstöður úr sýni af drullu á botni vatnsins sem sent var til rannsóknar að Keldum.
Vitnið Trausti Sveinsson, ferðaþjónustubóndi er fæddur og uppalin í Fljótum. Vitnið sagði að mikið af drullu hafi farið niður árfarveginn vorið 1994 en það sem var eftir við virkjunina hafi einungis verið brot af því sem hleypt var úr lóninu en að sögn vitnisins var ekki mikil lykt af þessari drullu. Vitnið bar að framburður Skeiðsár hafi runnið niður að stíflumannvirkinu eftir að ánni var veitt inn í lónið. Þá bar vitnið að Skeiðsá hafi farið tvisvar úr farvegi sínum frá árinu 1994 og raunar hafi alltaf verið vandamál með ána eftir að henni var veitt með skurði í Stífluvatn.
Vitnið taldi að starfsmenn RARIK hafi ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið magn af drullu myndi fara úr lóninu þegar botnlokan væri opnuð þó að þeir hefðu átt að gera það. Vitnið bar að hann hafi frétt að botnlokna hafi verið opnuð 1958 en þá hafi verið nauðsynlegt að hleypa út jarðvegi sem borist hafði niður að stíflunni og raunar hafi þurft að pjakka hann niður í Fljótá. Upp úr þessu hafi sprottið skaðabótamál vegna spjalla.
Vitnið sagði að drulla frá árinu 1994 hafi að einhverju leyti verið eftir í árfarveginum þegar hleypt var úr lóninu 1995. Hann hafi verið með ána á leigu og veiðimenn hafi kvartað allt sumarið og fram á haust 1994. Hann hafi vegna þessara framkvæmda orðið fyrir miklu tjóni í ljósi þess hvernig veiðin gekk þetta ár. Að sögn vitnisins var gerð grein fyrir því hvað til stóð á fundi í veiðifélaginu og taldi vitnið að menn hafi átt að átta sig á því hverjar afleiðingar yrðu og því hefði stjórn veiðifélagsins átt að bregðast við.
Vitnið sagði að samkvæmt munnmælum sé veturinn 1994 til 1995 sá snjóþyngsti á öldinni. Vitnið kvaðst hafa gagnrýnt miðlun vatnsins þegar leysingar byrjuðu mjög snögglega 8. júní 1995 en þá hafi lónið verið nánast fullt og því hafi virst sem starfsmenn virkjunarinnar hafi ekki reiknað með því að leysingar væru væntanlega. Hann sagði að óvarlega hafi verið opnað fyrir botnloku en hún hafi verið höfð opin að fullu í viku. Það hafi legið fyrir að leysingar væru væntanlegar og þær hafi ekki komið neinum á óvart. Hann kvaðst hafa fengið upplýsingar frá starfsmanni RARIK þess efnis að ekki hafi mátt fylla lónið alveg upp vegna þess hversu stíflugarðurinn var orðinn lélegur. Vitni sagði að þau miklu flóð sem urðu þegar hleypt var úr lóninu hafi valdið verulegum skemmdum á árfarveginum.
Vitnið Sigurbjörg Bjarnadóttir, kvaðst búa rétt við Fljótá og hafa orðið vör við þegar hleypt var úr Stífluvatni vorið 1994. Þá hafi verið snjór yfir öllu en áin verið uppi og svört að lit og meðfram bökkum hennar hafi komið svartar rendur. Hún bar að allir í Fljótum hafi vitað af því að til stóð að hleypa úr lóninu. Hún sagði að síðar um vorið hafi komið í ljós hversu mikil spjöllin voru. Þau hafi reynt að hreinsa ána fyrir sínu landi en þetta hafi komið henni og eiginmanni hennar illa því þau hafi tekið ána á leigu til þriggja ára þetta vor. Vegna drullu hafi veiðimönnum litist illa á ána og því hafi sala veiðileyfa verið treg. Veiðimenn hafi sagt þeim að dauð seiði hafi verið um alla á og í hvert sinn sem óx eitthvað í ánni hafi hún orðið gruggug.
Vitnið bar að veturinn 1995 hafi verið mikill snjór og vorið kalt en leysingar hafi byrjað 10. júní og orðið mjög miklar. Hún og eiginmaður hennar hafi kvartað undan því að botnlokan hafi verið opnuð of mikið. Þau hafi einnig spurt hvort ekki hefði verið unnt að tempra rennslið en verið tjáð að ekki hafi verið hægt að fylla lónið því stífluveggurinn hafi verið orðinn lélegur. Að sögn vitnisins var áin svartari vorið 1994 heldur en 1995. Vitnið kvaðst hafa heyrt að 1958 eða 1959 hafi botnlokan verið opnuð.
Vitnið bar að RARIK og áður Rafveita Siglufjarðar hafi reynst þeim erfiðir í samskiptum og valdið miklu tjóni í Fljótum fyrr og síðar og ekki hugsað út í umhverfisárhrif. Vitnið sagði að vorið 1996 hafi verið lítill snjór og þá hafi öllu vatni verið safnað í lónið og rennsli árinnar verið í algjöru lágmarki.
Vitnið Tumi Tómasson, fiskifræðingur taldi ósannað að tengsl séu á milli opnunar botnlokunnar 1994 og tjóns þess sem varð í stöðinni 1995 vegna brennisteinseitrunar. Vitnið sagði að starfsmenn laxeldisstöðvarinnar hafi tjáð honum að ekki hafi verið nein lykt af því efni sem hreinsað var úr stöðinni og það bendir til þess að ekki hafi verið mikið magn af súrefnissnauðum efnum í því.
Vitnið sagði að nýrnaveiki sé útbreidd í íslenskri náttúru en fiskurinn virðist ekki líða fyrir það. Verði aðstæður fisksins hins vegar slæmar brjótist veikin út. Stress sé líklegt til að veikja mótstöðuafl fisksins. Vitnið taldi miklu líklegara að veikin hafi verið í fiskinum áður en hleypt var úr lóninu heldur en að veikin hafi borist úr Stífluvatni.
Vitnið kvaðst ekki hafa komið að Miklalaxi vorið 1994 en komið þar um sumarið og þá séð ummerkin eftir tæmingu lónsins og hugsanlega einnig ljósmyndir. Vitnið kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna eigendum stöðvarinnar var ekki sýnd skýrsla sem hann gerði enda hafi hann unnið skýrsluna fyrir RARIK og þeir greitt fyrir hana.
Vitnið sagði það ekki ólíklegt að nýrnaveiki brjótist út þegar vatn verður mjög gruggugt í stöðinni. Hann sagði að vorið 1995 hafi Skeiðsá brotist út úr farvegi sínum og mikið rof hafi myndast þannig að sennilega sé mesti framburðurinn úr henni það vor en ekki vegna opnunar lokunnar.
Vitnið sagði að vegna fiskeldis í 8 ár við Miklavatn hafi ótiltekið magn af lífrænum efnum borist í vatnið. Bóndi á Lambanesreykjum hafi lýst þykku lagi við seiðaeldisstöðina en einnig hafi verið eldi í kvíum. Taldi hann ekki ólíklegt að þetta lífræna efni frá eldinu geti valdið brennisteinseitrun og kvaðst hafa bent á að betur hefði þurft að rannsaka hvaða efni bárust úr lóninu og hversu mikið af þeim.
Vitnið Alfreð Gestur Símonarson vann sem kafari við að opna og loka lokum á inntaksrörum í eldisstöðina á Hraunum. Vitnið bar að 10 til 15 cm lag hafi verið á botni Miklavatns þ.e. ofan á inntaksrörunum. Þetta hafi hann mælt með því að stinga hendi í drulluna en hann hafi ekki kannað drullulag annarstaðar en við inntaksrörin. Vitnið kvaðst einnig hafa séð hvíta flekki við inntaksrörin. Vitnið sagði að vorið 1994 hafi komið svört drulla upp um vakir sem voru á ísnum á Miklavatni og í eldistanka stöðvarinnar. Hann hafi kafað í eldistankana en ekki séð neitt vegna þess hversu vatnið var gruggugt. Á þessum tíma hafi opin verið neðarlega á inntaksrörunum en í kringum þau hafi botn vatnsins verið sendinn. Vitnið kvaðst aldrei hafa orðið var við fóðurflekki við eldiskvíarnar.
Vitnið sagði að við inntaksrörin hafi áður verið gróður en hann hafi allur drepist eftir þetta. Vitnið segist ekki hafa sérfræðiþekkingu á líffræði.
Vitnið Kristján Ólafsson, hæstaréttarlögmaður var skipaður skiptastjóri þrotabús Miklalax hf. 3. ágúst 1994. Vitnið kvað helstu eignir búsins hafa verið eldisker og búnað til fiskeldis ásamt fiski í kerjum að Hraunum, seiðaeldisstöð að Lambanesreykjum og lausafé tengt starfseminni. Búnaðarbanki Íslands hafi átt veð í fiskinum en Byggðastofnun átt veð í öðrum eignum. Vitnið bar að þrotabúið hafi þann 23. ágúst 1994 selt allan fisk í eigu búsins, í seiðaeldisstöð, kvíum og að Hraunum, í samvinnu við veðhafa. Kaupandi hafi verið NFO gruppen A/S og Jim Rodger Nordly hafi skrifað undir samninginn fyrir hönd kaupanda. Þann 16. janúar 1995 hafi síðan verið undirritaður samningur um sölu á seiðaeldisstöð og matfiskeldisstöð og ýmsu lausafé. Í þeim samningi hafi Norræna sjóeldið hf. verið kaupandi.
Vitnið sagði að fljótlega eftir að hann tók við stjórn þrotabúsins hafi verið komið að máli við hann og honum gerð grein fyrir því að hugsanlega mætti rekja veiki sem upp kom í stöðinni til þess að hleypt var úr Stífluvatni. Þetta hafi verið mikið rætt og áhugi hjá mönnum fyrir norðan að gera eitthvað í þessu máli. Til skiptafundar hafi verið boðað 26. júní 1996 í þeim tilgangi að kanna viðhorf kröfuhafa til málssóknar á hendur RARIK vegna meints tjóns í fiskeldisstöð Miklalax hf. af völdum framkvæmda við Skeiðsfossvirkjun síðla vetrar 1994. Eftir ítarlega umræðu hafi niðurstaðan orðið sú að þrotabúið færi ekki í mál við RARIK en skiptastjóri hafi gefið Búnaðarbankanum heimild til að höfða mál í eigin nafni og á eigin kostnað vegna veðkrafna bankans í fiskinum í stöð Miklalax hf. Undir endurrit af fundinum hafi ritað, hann sem skiptastjóri, Hallgrímur Ásgrímsson vegna Búnaðarbankans, Garðar Briem, hdl., Karl F. Jóhannsson, vegna Byggðastofnunar og Friðrik Arngrímsson hdl. vegna Fljótahrepps. Vitnið sagði að í hans huga hafi aldrei komið til greina að þessi krafa hafi verið seld Norræna sjóeldinu hf. og hún sé ekki á meðal þess sem Norræna sjóeldið keypti af þrotabúinu. Hann hafi túlkað framsalið til Búnaðarbankans sem svo að aðrir hafi ekki viljað eiga við þessa kröfu en bankinn hafi getað farið í mál sér til hagsbóta. Vitnið sagði að honum hafi verið kunnugt um veikina í stöðinni enda hafi hún orðið til þess að félagið fór í þrot eftir allmikla endurskipulagningu. Vitnið bar að forsvarsmaður Norræna sjóeldisins hafi vitað af því sem gerst hafði í stöðinni og hann hafi farið norður til að kynna sér ástandið og verið í sambandi við Reyni Pálsson.
Vitnið bar að illa hafi gengið að innheimta kaupverð fasteignanna sem endað hafi með því að kaupsamningi hafi verið rift með dómi
Vitnið bar að tímapressa hafi verið nokkur þegar forsvarsmenn Norræna sjóeldisins komu að málinu en þá hafi legið fyrir að Búnaðarbankinn hafi viljað láta slátra öllum fiski í stöðinni.
Vitnið Steinar Friðgeirsson, raforkuverkfræðingur og starfsmaður gagnstefnda, bar að margþættar ástæður hafi verið fyrir viðgerð á stíflumannvirki vorið 1994. Rágjafar hafi unnið tillögur fyrir RARIK 1992 og 1993 og lagt fram tillögur um aðgerðir. Meðal annars hafi verið talið nauðsynlegt að endurnýja botnloku og gera við steypu innan á stífluveggnum. RARIK hafi talið að nauðsynlegt væri að framkvæma þessar aðgerðir og raunar hafi verið reiknað út hvort þær svöruðu kostnaði. Að sögn vitnisins er best að gera við botnloku seinni part vetrar þegar lítið vatn er í lóninu og áður en vorleysingar byrja. Vitnið taldi að nauðsynlegt hafi verið að tæma lónið áður en í endurnýjunina var ráðist en gamla botnlokan hafi verið orðin mjög léleg og viðgerð hafi staðið yfir í rúman mánuð. Vitnið taldi að tæma hefði þurft lónið til að koma fyrir plankaloku sem er fyrir framan botnlokuna. Vitnið kannast ekki við að eigendur virkjana þurfi sérstakt leyfi til að tæma lón og veit ekki til annars en að í þessu tilfelli hafi aðgerðir verið löglegar og ekki þurfi leyfi ráðherra. Gerðar séu framkvæmdaáætlanir sem sendar eru iðnaðarráðuneyti og því hafi þeim verið kunnugt um það sem til stóð. Að sögn vitnisins var heimamönnum tilkynnt um fyrirhugaða opnun 1994 á fundi í veiðifélaginu og þar hafi verið farið nokkuð ítarlega í gegnum þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru. Vitnið taldi að lónið hafi ekki verið tæmt í rúma þrjá áratugi og því hafi verið vitað að saman hafði safnast leir og framburður.
Vitnið skýrði frá því að Tumi Tómasson hafi gert skýrslu um ástand árinnar og hann hafi metið það svo að röskun hafi orðið vegna framburðar efst í ánni. Af þessum sökum hafi RARIK komið til móts við veiðifélagið með því að sleppa seiðum. Árið 1994 hafi verið sleppt 1000 gönguseiðum, 1995 8.000 gönguseiðum og 10.000 sumaröldum seiðum og loks árið 1996 7.000 sumaröldum seiðum. Vitnið taldi að ekki hafi orðið skaði af opnuninni nema efst í ánni og byggir það mat á niðurstöðu Tuma Tómassonar.
Vitnið bar að vorið 1995 hafi myndast mikil flóð og þá hafi botns- og yfirfallslokur verið notaðar til að koma í veg fyrir að vatn flæddi yfir stífluna. Vitnið sagði það eitt af hlutverkum botnloku að mæta flóðum sem eru væntanleg eða þegar skollin á. Þessi ákveðna botnloka geti hleypt í gegnum sig 50 rúmmetrum á sekúndu en þarna hafi komið flóð sem var 67 rúmmetarar á sekúndu. Meðalrennsli árinnar sé hins vegar 7,4 rúmmetrar á sekúndu. Vitnið sagði að botnloku þurfi að hreyfa reglulega en sjaldan þurfi að tæma lón algerlega. Síðastliðið vor hafi lónið verið tæmt vegna viðgerða. Vitnið kvaðst ekki vita hvort tilkynnt var um opnunina 1995 en hún hafi verið hluti af rekstri virkjunarinnar.
Vitnið Gísli Jónsson, dýralæknir fisksjúkdóma sagði að árið 1991 hafi komið upp kýlaveikibróðir í Miklalaxi og bólusetning gegn honum hafi hafist í nóvember 1993. Síðan hafi engin vandræði verið í stöðinni fyrr en nýrnaveikin kom upp 1994. Vitnið bar að bólusetningu hafi verið haldið áfram eftir að nýir aðilar tóku við rekstrinum í ágúst 1994 enda hafi þeir lagt áherslu á það. Að sögn vitnisins voru tekin sýni úr öllum hrygnum sem voru notaðar til seiðaeldis haustið 1993 og engin þeirra hafi reynst með nýrnaveiki.
Vitnið sagði að hluti fisksins hafi verið svo illa veikur af nýrnaveiki sumarið 1994 að hann hafi ráðlagt að honum yrði slátrað einkum hafi hann átt við ungan fisk sem hann taldi ekki geta braggast. Vitnið taldi að drulla eins og sú sem barst í Fljótá geti orðið þess valdandi að nýrnaveiki blossi upp. Hann sagði að ekki sé ólíklegt að fyrir í stöðinni hafi verið dulið smit og þegar vatn gruggast svo mikið að ekki sést í fiskinn svo dögum skiptir séu verulegar líkur á að slíkt valdi streitu sem aftur framkalli nýrnaveikina.
Vitnið sagði að hann hafi grunað að leynt smit hafi verið í seiðastöðinni á Labmanesreykjum því skammur tími hafi liðið frá því að fiskurinn var fluttur þaðan í stöðina að Hraunum. Vísaði vitnið til skýrslu sem hann gerði árið 1999. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að seiðaeldisstöðin hafi reynst laus við smit svo og sá fiskur sem fluttur var þaðan í sjókvíar. Aftur á móti hafi seiði sem flutt voru að Hraunum fljótlega sýkst af nýrnaveiki.
Vitnið taldi eftir á að hyggja að nýrnaveikin hafi borist inn í stöðina með sjó enda hafi sýni sem tekin voru í seiðaeldisstöðinni alltaf reynst smitlaus. Hann kvaðst hafa gaumgæfilega farið í gegnum allan fisk í nóvember 1993 og þá hafi ekkert fundist. Það er síðan í apríl 1994 að veikin greinist og þá hafi smitið borist í stöðina á þessu tímabili. Þá bar vitnið að nokkurn tíma taki að framkalla einkenni nýrnaveiki en þegar mikið áreiti er þá geti liðið stuttur tími frá smiti og þar til einkenni koma fram kannski fáar vikur. Almennt megi hins vegar búast við að það líði nokkrir mánuðir. Vitnið kaðst ekki geta fullyrt neitt um það hvenær smit barst í stöðina.
Vitnið sagði að ekki sé unnt að fyrirskipa förgun á fiski þegar nýrnaveiki greinist í stöð heldur sé farið yfir stöðu mála og hvað unnt sé að gera. Hins vegar ráðleggi þeir alltaf að á einhverjum tímapunkti þurfi að skera niður, sótthreinsa og byrja upp á nýtt. Þegar skorið sé niður vegna nýrnaveiki séu stöðvar hafðar þurrar í þrjá mánuði. Vitnið sagði að nýrnaveikibakterían geti lifað utan hýsils í langan tíma a.m.k. í nokkrar vikur. Vitnið sagði að bakterían geti borist í hrogn og þegar þéttni fiska sé mikil í kerjum berist hún auðveldlega á milli fiska en það gerist miklu síður í náttúrunni þar sem þéttleiki er lítill. Raunar geti fiskur lifað góða æfi smitaður nýrnaveiki án þess að einkenni komi fram og þannig plagi bakterían hann í raun ekkert.
Vitnið taldi að aðstæður í Miklavatni séu um margt erfiðar til fiskeldis en þó geti vel verið að þar sé hægt að stunda eldi með góðri vöktun. Vatnið í Miklavatni sé hins vegar á stundum gruggugt og þá erfitt að fylgjast með fiski sem er í eldi í keri. Vitnið taldi að vatnið sé óhentugt fyrir fisk frá náttúrunnar hendi þar sem það sé viðkvæmt og ástand í því geti auðveldlega orðið slæmt.
Vitnið kvaðst hafa fengið sýni af vatni og fiski úr stöðinni í apríl 1995. Hann hafi útilokað þörungablóma og komist að þeirri niðurstöðu að um bráðadauða hafi verið að ræða. Hann segist ekki hafa fengið sýni af drullunni sem var á botni kerjanna eða botni vatnsins. Vatnið í sýninu hafi verið svart og í tálknum á fiskinum hafi verið svart yfirborð og lyktað af brennisteinskeim. Vitnið fullyrti að það hafi verið brennisteinseitrun sem olli dauða fisksins. Þá kvað hann útilokað að um þörungablóma hafi verið að ræða enda snemma vors og hitastig vatnsins lágt.
Vitnið Kristján Sigtryggsson, hefur verið starfsmaður Skeiðfossvirkjunar frá því 1981 og stöðvarstjóri síðan 1989. Vitnið bar að nauðsynlegt hafi verið að gera við botnlokuna sem farin var að leka enda frá árinu 1945 og því orðin gömul. Að sögn vitnisins var sett ný botnloka 1994 og taldi hann nauðsynlegt að tæma lónið til að unnt væri að setja nýja loku. Vitnið kannaðist ekki við að afla þyrfti sérstaks leyfis áður en uppistöðulón eru tæmd.
Vitnið bar að í leysingunum 1995 hafi á tveggja til þriggja daga tímabili runnið mun meira í lónið en úr því. Hann hafi þá tekið þá ákvörðun að jafna rennslið með því að opna botnlokuna. Taldi hann að yfirfallið hefði ekki ráðið við þetta flóð og ef beðið hefði verið með opnunina þá hefði flóðið orðið enn meira. Raunar taldi vitnið að ef botnlokan hefði ekki verið opnuð hefði grafist frá virkjuninni vegna þess að yfirfallið hefði ekki ráðið við svona mikið flóð. Hann kvaðst hafa metið það svo frá snjó í fjöllum og leysingum að þessi aðgerð hafi verið nauðsynleg. Vitnið sagði að einu sinni eftir 1995 hafi verið gripið til þess að opna botnloku vegna svipaðra aðstæðna.
Vitnið segist ekki vita til þess að forsvarsmönnum Norræna sjóeldisins hafi verið gert viðvart um opnunina 1995.
Vitnið bar að vorið 1994 hafi ekki verið framleitt rafmagn í virkjuninni í nokkurn tíma. Tíu metar löngum göngum sem liggja að botnlokunni hafi verið lokað með plönkum meðan unnið var að endurnýjun hennar. Vitnið taldi að þegar lónið er sé í lægstu stöðu sé hugsanlegt að kafari geti komið plankalokunni fyrir.
Vitnið kaðst ekki vita til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á Stífluvatni áður en ráðist var í þessar framkvæmdir.
Vitnið sagðir að meðalrennsli í gegnum virkjunina á ári sé um 5 rúmmetarar á sekúndu. Hann sagði virkjunina tvískipta en efri virkjunin sé 3,4 MW en sú neðri 1,7 MW. Ársframleiðslan sé 20 til 26 GWh. Vitnið sagði að þegar botnlokan var opnuð 1995 hafi hann í fyrstu opnað frekar lítið en þegar lónið var orðið fullt að þremur fjórðu hlutum hafi hann opnað töluvert meira og raunar hafi bæst í lónið allt til þess að botnlokan var nánast fullopnuð.
Að sögn vitnisins er lónið sjálft nánast tómt þegar staða þess við stífluvegginn er komin niður undir neðri brún inntakslokunnar og þá megi sjá gömlu vötnin og ána sem rann í dalnum fyrir daga stíflunnar. Þannig sé nánast ekkert vatn eftir þegar búið er að keyra út það vatn sem nýtanlegt er.
Vitnið sagði að nokkur drulla hafi borist í lón neðan stöðvarinnar vorið 1994 og einnig hafi nokkuð farið í ána. Þegar svo hleypt var úr lóninu vorið 1995 hafi verið búið að hreinsa þetta lón og það hafi þá fyllst af möl og sandi. Mikill munur hafi verið á framburði þessi vor. Það hafi komið drulla vorið 1994 en möl og sandur 1995. Vitnið sagðist hafa leigt gröfu vorið 1994 til að moka drullu upp úr þessu lóni en drullu sem kom úr skurði sem er þarna fyrir neðan hafi verið komið fyrir við hliðina á skurðinum og kvað ekki mögulegt að þessi drulla hafi borist í ána í leysingunum 1995.
Vitnið Eiríkur Briem, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs RARIK, kvaðst hafa verið á fundi með forsvarsmönnum gagnstefnanda, Jim Rodger Nordly og öðrum til. Þeir hafi rætt orkukaup Miklalax en hann muni ekki hvenær þessi fundur átti sér stað. Vitnið taldi að norðmaðurinn hafi á þessum tíma verið að kaupa stöðina. Þá taldi vitnið hugsanlegt að hann hafi setið annan fund með Jim Rodger. Vitnið kannaðist ekki við að RARIK hafi á fundi fallist á að kanna möguleika á því að hreinsa setlög á botni Miklavatns og fallist á að bera kostnað af því. Eitthvað þessu líkt hafi hugsanlega komið til tals en fráleitt sé að RARIK hafi samþykkt að ráðast í slíka aðgerð. Vitnið kvaðst eingöngu hafa komið að málum sem snertu sölu á rafmagni til gagnstefnanda en ekki að málum er varða mengun í Miklavatni eða einhverju því tengdu.
Vitnið Kristján Már Sigurjónsson, verkfræðingur hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen vann fyrir RARIK ráðgjafastörf varðandi viðgerðir og betrumbætur á Skeiðsfossvirkjun. Vitnið bar að jafnframt því að skipta um botnloku í stíflunni hafi farið fram endurnýjun á rafbúnaði og tækjum inni í virkjuninni sjálfri. Vitnið sagði að endurnýjun sú sem fram fór hafi verið nauðsynleg. Vitnið kvaðst ekki hafa verið á vettvangi þegar hleypt var úr lóninu en komið þar að þegar lónið var tómt og tekið myndir af því. Bar vitnið að lónið hafi verð tómt í þrjá til fjóra sólarhringa meðan verið var að koma lokunni fyrir. Vitnið staðfesti útreikninga sína sem liggja frammi í málinu þess efnis að setþykkt í Miklavatni hafi verið nálægt 1 millimetra, miðað við að lagið sé þurrt, en þetta sé mat en ekki byggt á mælingum. Mat þeirra hafi miðast við þekktar stæðir úr öðrum ám og jafnframt hafi matið stuðst við þá geil sem kom í ljós á botnseti í lóninu sjálfu. Vitnið sagði að það fái ekki staðist að í mars 1994 að 10 til 15 sentimetra lag hafi sest á botn Miklavatns. Það sé ljóst að talsvert magn settist til í ánni á leiðinn niður í vatnið. Mokað hafi verið upp úr ánni 9.000 rúmmetrum og hann taldi útilokað að milljón rúmmetara hafi sest til í Miklavatni. Vitnið sagði að í mati sínu hafi hann notað 10 kíló í rúmmetara af aur en það sem verulega meira magn en nokkur sinni hafi mælst í nokkurri á, jökulám þar með taldar, á Íslandi. Vitnið taldi það litlu skipta varðandi magn framburðar hvort hleypt hafi verið úr lóninu snöggt eða yfir lengri tíma. Vitnið sagði að hluti af framburðinum hafi verið mjög dökkur sem skýra megi með því að lífrænt efni hafi safnast á botninn. Vitnið bar að heildarrúmmál lónsins sé 30 gígalítrar (Vatnsinnihald lóna er mælt í Gígalítrum.1 Gl = 1.000.000.000 l.) og taldi að einn gígalítri hafi verið eftir í lóninu þegar hleypt var úr því í þetta sinn. Vitnið vissi ekki til þess að rannsóknir hafi verið gerðar á botni vatnsins áður en hleypt var úr því eða sýni tekið úr því.
Vitnið Heiðar Albertsson, vélstjóri var stöðvarstjóri Skeiðfossvirkjunar frá því í ágúst 1975 og fram til ársins 1989. Síðan var hann vélstjóri hjá Miklalaxi hf. frá 1990 til 1994. Að sögn vitnisins er tilgangur botnloku sá að hleypa út vatni. Vitnið kvaðst þekkja hvernig land var þar sem nú er Stífluvatn. Þar hafi áður verið tvö vötn í dalnum sem nú eru undir vatni og rann á á milli þeirra. Vitnið kvaðst ekki af eigin raun geta lýst því hvernig framkvæmdir voru við stífluna vorið 1994. Hann kvaðst fyrst hafa orðið var við að botnlokan hafi verið opnuð þegar svartir flekkir komu á ísinn á Miklavatni. Fljótlega eftir það hafi vatnið í stöðinni litast mikið og fiskur farið að drepast. Vitnið kvaðst hafa vitað að til stóð að opna botnlokuna en ekki vitað hvenær. Vitnið sagði að Miklilax hf. hafi lánað gröfu sem félagið átti upp að Skeiðsfossi og þegar hann kom þar að hafi grafan verið að moka drullu upp úr lóni fyrir neðan stöðina. Drullan hafi verið svört eða svarblá að lit efst uppi við virkjunina en síðan hafi hún blandast vatninu og komist inn í tanka í Miklalaxi. Vitnið taldi að ekki hafi þurft að tæma lónið til að gera við botnlokuna. Í stað þess að tæma lónið hefði verið unnt að nota plankaloku sem er fyrir framan botnlokuna sjálfa og þar með hefði verið unnt að laga botnlokuna. Að sögn vitnisins var plankalokunni lokað 1969 þegar einhver viðgerð fór fram á botnlokunni en þá hafi kafari unnið verkið sem hann geti án þess að setja sig í sérstaka hættu. Vitnið sagði að til þess að gera við steypuskemmdir neðst á stíflumannvirkinu verði að hleypa vatni um botnlokuna. Vitnið taldi að ekki hafi verið neinar skemmdir á stífluveggnum neðar en þar sem alltaf liggur vatn að. Vitnið taldi að unnt hefði verið að moka drullunni sem er við stífluna burt eða að safna henni í rotþró.
Vitnið kvaðst hafa séð gögn er varða opnunina 1995. Vitnið sagði að þá hafi ekki verið nauðsynlegt að opna fyrir botnlokuna. Vatn hafi ekki verið byrjað að flæða um efri gáttina þegar botnlokan var opnuð. Vitnið kvaðst ekki sjá neinn tilgang með þessari opnun því yfirfallið hefði getað tekið við þessu vatni. Vitnið sagði að um botnlokuna hafi farið skítugra vatn en það sem hefði runnið yfir yfirfallið. Vitnið sagði að Skeiðsá hafi nokkrum sinnum brotið sér leið úr farvegi sínum meðan hann var stöðvarstjóri. Vitnið sagði að lónið sé 30 gígalítrar að stærð.
V.
Málsástæður og lagarök gagnstefnda í aðalsök.
Gagnstefndi heldur því fram að reikningar hans séu vegna rafmagnsnotkunar gagnstefnanda að Lambanesreykjum í Fljótum og séu gjalddagar frá 3. janúar til 3. júní 1996 í vanskilum samtals að fjárhæð 3.836.926 krónur en gagnstefnandi hafi ekki fengist til að greiða fyrir notkunina. Gagnstefndi styður kröfur sínar í aðalsök við almennar reglur samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti byggir hann á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 en kröfu um málskostnað styður hann við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í aðalsök.
Gagnstefnandi byggir sýknukröfu sýna í aðalsök á skuldajöfnuði. Gagnstefndi hafi með vítaverðu gáleysi valdið gagnstefnanda tjóni sem hafi haft þær afleiðingar að rekstrargrundvöllur fyrir starfsemi hans hafi brostið. Taldi gagnstefnandi að gagnstefnda hafi mátt vera ljóst að þau skaðlegu efni sem bárust í Miklavatn þegar hleypt var úr Stífluvatni hefðu áhrif á umhverfið. Gagnstefnda hafi af þessum sökum borið skylda til, áður en hleypt var úr vatninu, að kanna áhrif sem slíkt hefði á umhverfið og hreinsa burt öll skaðleg efni með sogtækjum sem hönnuð eru til slíkra verka. Gagnstefndi hafi með háttsemi sinni brotið lög og bakað sér bótaábyrgð samkvæmt almennu skaðabótareglunni. Gagnstefnandi vísar til gagnstefnu varðandi sundurliðun á því tjóni sem hann varð fyrir en sú krafa sé langtum hærri en krafa gagnstefnda.
Varakröfu sína í aðalsök byggir gagnstefnandi á því, að honum beri ekki að greiða fyrir rafmagnsnotkun lengur en til febrúarloka 1996. Á þeim tíma hafi framkvæmdastjóri gagnstefnanda tilkynnt gagnstefnda að félagið væri að hætta rekstri og því beri ekki að greiða fyrir raforku eftir þann tíma. Telur gagnstefnandi það viðtekna venju að eigendaskipti að fasteignum eða félögum séu tilkynnt gagnstefnda símleiðis í því skyni að gerð verði breyting á nafni orkunotanda. Þessi venja sé almennt viðurkennd og ekki tíðkist að tilkynna slíkar breytingar skriflega. Þá bendir gagnstefnandi á að engir reikningar hafi verið lagðir fram er varði orkunotkunina heldur einungis yfirlit og telur gagnstefnandi að þetta geri málatilbúnað gagnstefnda tortryggilegan og með öllu ófullnægjandi.
Gagnstefnandi kvaðst hafa beint kröfum að gagnstefnda strax og ljóst varð hvert tjón hans varð og hafi gagnstefndi móttekið bréf vegna þessa. Gagnstefndi hafni hins vegar bótaábyrgð og geri kröfu um dráttarvexti en kröfu um greiðslu þeirra er sérstaklega mótmælt. Gagnstefnandi kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um kröfuna fyrr en við birtingu stefnu enda hafi greiðsluáskorun sem lögð hefur verið fram ekki komist til gagnstefnanda. Hann hafi verið í þeirri trú að gagnstefndi myndi ekki krefjast greiðslu fyrir þessa rafmagnsnotkun enda hafi aðilar átt í samningaviðræðum varðandi bótagreiðslu gagnstefnda. Af þessu sökum sé krafa um dráttarvexti bersýnilega ósanngjörn.
Hvað lagarök varðar vísar gagnstefnandi til almennu skaðabótareglunnar, sakarreglunnar og til reglna um skuldajöfnuð. Kröfu um málskostnað byggir hann á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök.
Gagnstefnandi byggir gagnsakarkröfur sínar á því að opnun botnlokans hafi valdið honum gífurlegu tjóni og af þeim sökum hafi hann orðið að hætta rekstri. Raunar hafi opnun botnlokans valdið því að ekki er lengur unnt að nota vatn úr Miklavatni til venjulegs fiskeldis.
Á því er byggt að forsvarsmönnum gagnstefnda hafi verið fullkomlega ljóst það magn leðju, drullu og lífrænna efna sem var á botni Stífluvatns enda hafi þeir hæglega getað aflað sér upplýsinga um þetta. Þeim hafi borið skylda til að kanna afleiðingar sem losun þessara skaðlegu efna hefði á lífríkið ef þeim yrði hleypt niður árfarveginn í Miklavatn. Þeim hafi verið skylt að fjarlægja efnin með sogtækjum og koma þeim með einhverjum hætti á brott áður en hafist var handa við viðgerð á stíflumannvirkjunum. Hafi þeir verið í vafa um magn efnanna eða eiginleika þeirra hafi þeim verið skylt að láta meta hvaða áhrif losun efnanna hefði á umhverfið áður en ákvörðun var tekin um að hleypa þeim niður ána.
Gagnstefnandi byggir á því að rotnun lífrænna efna í drullulagi því sem barst á botn Miklavatns hafi valdið eitrun í vatninu. Eitrunin hafi borist inn í laxeldisstöðina gegnum inntaksmannvirki í Miklavatni og valdið verulegum fiskdauða. Gasmyndun vegna drullunnar hafi orðið viðvarandi vandamál allt frá því að hún barst í vatnið og hafi leitt til þess að æ síðan var yfirvofandi hætta á að fá eitrun inn í stöðvarnar, sem leitt hafi til þess að ekki reyndist grundvöllur fyrir rekstri þeirra til frambúðar.
Gagnstefnandi heldur því fram að gagnstefnda hafi í maí og júní 1995 verið kunnugt um afleiðingar opnunarinnar frá því árið áður. Þá hafi einnig verið ljóst að veturinn hafði verið snjóþungur og mikill snjór í fjöllum. Af þeim sökum hafi gagnstefnda borið að hafa yfirborð Stífluvatns lágt til að mæta yfirvofandi leysingarvatni. Starfsmenn gagnstefnda hafi hins vegar sofið á verðinum og vegna skyndilegrar hláku hafi þeir gripið til þess ráðs að opna aftur fyrir botnlokuna og þannig hafi þeir komið í veg fyrir tjón hjá gagnstefnda. Þetta hafi þeir þó gert án þess að huga að umhverfisáhrifum hvað ána og Miklavatn varðaði. Afleiðingin hafi orðið sú að í Miklavatn barst aftur talsverð drulla og aur sem gruggaði vatnið, streituáhrif hafi orðið hjá fiskinum en hann sé viðkvæmur fyrir öllum breytingum og fiskur hafi drepist í stórum stíl úr nýrnaveiki.
Gagnstefnandi byggir kröfur sínar í gagnsök ennfremur á því að í hvorugt skiptið hafi verið tilkynnt að til stæði að opna fyrir botnlokuna og forráðamönnum fiskeldisstöðvanna hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig fyrirfram um þessar áætlanir. Gagnstefnandi bendir á að þegar fiskeldisstöðvarnar voru reistar hafi virkjunin starfað í fjölda ára og menn hafi treyst miðlunargildi hennar fyrir vatnasvæðið og jafnframt hafi verið horft til þessa sem öryggisþáttar þegar fiskeldisstöðvarnar voru reistar. Fram að þessum tíma hafi ekki verið nein vandkvæði á vorin vegna leysinga.
Gagnstefnandi bendir á að fiskeldisstöðin að Hraunum geti ekki sótt vatn annað en í Miklavatn en Hrauná sé svo vatnslítil að hún sjái stöðinni engan veginn fyrir vatni. Auk þess verði að blanda sjó í vatnið.
Gagnstefnandi reisir kröfur sínar einnig á því að með framferði sínu hafi gagnstefndi á ólögmætan hátt framið stórkostlega spjöll á íslenskri náttúru, gagnstefnanda og öðrum til verulegs fjárhagslegs tjóns. Gagnstefndi hafi með háttsemi sinni brotið gegn IX. kafla vatnalaga nr. 15/1923 um óhreinkun vatna. Ekki sé vitað til þess að ráðherra hafi veitt gagnstefnda heimild til opnunarinnar í samræmi við 2. tl. 83. gr. laganna eða yfirleitt til þessa að breyta vatnsyfirborðinu í Stífluvatni eins og áskilið er í 133. gr. laganna 1. tölulið. liðum a., d. og e. Vísar hann ennfremur til víðtæks bótaákvæðis sem finna má í 136. gr. vatnalaga varðandi framkvæmdir sem unnar eru án leyfis.
Gagnstefnandi byggir á því að sönnuð tengsl séu milli opnana stíflulokans og dauða fiskjar í fiskeldisstöðinni með vísan til skýrslna sérfræðinganna Jóns Kristjánssonar og Gísla Jónssonar sem lagðar hafi verið fram í málinu. Í ljósi skýrra brota gagnstefnda á nefndum ákvæðum vatnalaga beri hann sönnunarbyrgði fyrir því að opnunin hafi ekki haft áhrif á sjúkdómsferli í fiskeldisstöðinni sem orsökuðu dauða fiskjar í stórum stíl. Í þessari öfugu sönnunarbyrgði felist einnig að gagnstefndi verði að sanna að tjón gagnstefnanda sé minna en fram komi í gangstefnu. Þá bendir gagnstefnandi á að vegna þess mikla fjárhagstjóns sem hann hafi orðið fyrir sé honum ómögulegt að láta fara fram umfangsmikla og kostnaðarsama úttekt á lífríki Miklavatns.
Gagnstefnandi kveðst vita til þess að gagnstefndi hafi látið fara fram athugun á umhverfisáhrifum opnunarinnar árið 1994 á lífríki Fljótár og í ljósi þeirrar niðurstöðu hafi verið gert samkomulag við veiðiréttareigendur um greiðslu bóta. Gagnstefnandi heldur því fram að hann hafi ekki fengið að sjá þessa skýrslu og að gagnstefndi hafi einnig látið reikna út það magn efna sem fór niður í Miklavatn en skýrslan hafi ekki verið sýnd honum. Þá bendir gagnstefnandi á að framkvæmdastjóri gagnstefnda hafi í fjölmiðli gefið út yfirlýsingu sem skilja megi þannig að nákvæm úttekt yrði gerð á öllum umhverfisáhrifum opnunarinnar og að allt tjón af hennar völdum yrði bætt. Þá bendir gagnstefnandi á að í fundargerð vegna fundar í veiðifélagi Miklavatns og Fljótár sé bókað að nafngreindur starfsmaður gagnstefnda hafi fullyrt að ekki þyrfti að opna botnlokann næstu 20 árin og að gagnstefndi hefði boðist til að bæta tjón vegna opnunarinnar.
Gagnstefnandi byggir á því að gagnstefndi sé skaðabótaskyldur, á grundvelli nefndrar bótareglu vatnalaga og almennu skaðabótareglunnar, gagnvart sér vegna þess tjóns sem gagnstefndi olli en gagnstefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við opnun botnlokans. Tjónið felist í miklum fiskdauða í stöðinni, sem annarsvegar megi rekja til eitrunarinnar í byrjun apríl 1995 og hins vegar til nýrnaveiki sem blossaði upp í kjölfar opnunarinnar í júní 1995. Auk þess sé verulegt tjón vegna þess að rekstrargrundvöllur stöðvarinnar brast.
Við útreikning á tjóni sínu leggur gagnstefnandi eftirfarandi forsendur til grundvallar.
a) Skráningargögn frá fiskeldisstöðvum við Miklavatn um magn fiskjar í kerjum á hverjum tíma.
b) Gögn um verð og framleiðslukostnað fiskjar frá Kontali Analysa A/S. Það fyrirtæki sérhæfi sig í skýrslugerð, áætlunum og markaðsrannsóknum á fiski og sjávarafurðum. Vinna fyrirtækisins byggist á skýrslum sem norskum framleiðendum í fiskiðnaði er lögskylt að senda til stofnunar sem samsvari Fiskistofu hér á landi.
c) Upplýsingar frá forsvarsmönnum gagnstefnanda um áætlaðan líftíma fjárfestingar í greininni og áætlaðan byggingarkostnað stöðvar á öðrum stað.
Aðalkrafa gagnstefnanda nú miðar við að framleiðsla hefði haldist óbreytt í fram til ársins 2004, sundurliðast þannig:
Tjón ársins 1995.
Skráður fiskadauði var sem hér segir: Frá apríl til miðs júní 1995 26.560 fiskar, meðalþyngd 532 gr. Frá miðjum júní til nóvember 41.400 fiskar, meðalþyngd 400 gr.
samtals 67.960 fiskar. Áætlaður fjöldi fiska sem lifði en náði ekki frekari þyngdaraukningu 10.000 fiskar samtals 77.960 fiskar. Gagnstefnandi miðar við að fiskurinn sem drapst hefði verið alinn í sláturstærð sem er 3,5 kg. og telur rétt að draga kostnað við að ala þá í þá þyngd frá. Reiknar hann því tjón sitt þannig:
77.960 fiskar. x 3,5 kg. x NOK 29,58 pr. kg. samtals NOK 8.071.199
Frá dregst 77.960 fiskar x 3,5 kg. x (17,60-2,50) NOK 15.10 pr. kg. NOK 4.120.186
Tjón vegna fiskadauða samtals NOK 3.951.013
Tjón vegna vaxtartaps fiskjar á árinu 1995:
200.000 kg. x (29,58-15,10) NOK 14,48NOK 2.896.000
Samtals tjón á árinu 1995NOK 6.847.013
Miðað við gengi ísl. kr. 2. október 1995 10.304IKR 70.551.621
Áætlað tjón á árinu 1996.
Söluverð fiskjar NOK 26,51
Eldiskostnaður í sláturstærðNOK 19,56
Hagnaður pr. kílóNOK 6,95
Áætlað heildar framleiðslumagn 750.000 kg. x 6,96NOK 5.212.500
Miðað við gengi ísl. kr. 1. október 1996 10.2990IKR 53.683.537
Áætlað tjón á árinu 1997
Söluverð fiskjar NOK 26,31
Eldiskostnaður í sláturstærðNOK 19,67
Hagnaður pr. kílóNOK 6,64
Áætlað heildar framleiðslumagn 750.000 kg. x 6,64NOK 4.980.000
Miðað við gengi ísl. kr. 1. október 1997 9.992IKR 49.760.160
Samtals tjón áranna 1995,1996 og 1997IKR 173.995.318
Samkvæmt þessu sé ljóst að arðsemi reiknist u.þ.b. NOK 5.000.000 á ári. Líftími stöðvar sem þessarar er 15 ár þannig að álykta má að árið 2004 hefði hún þurft fullkominnar endurnýjunar við.
7 ár (1997-2004) x NOK 5.000.000NOK 35.000.000
Miðað við gengi ísl. kr. 22. október 1997 9,107ÍKR 318.745.000
Heildartjón, sem er krafa gagnstefnanda, nemi því ÍKR 492.740.318
Hvað lagarök fyrir gagnkröfum sínum varðar vísar gagnstefnandi til vatnalaga nr.15/1923 og almennu skaðabótareglunnar. Varðandi dráttarvexti vísar hann til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 en um málskostnað vísar hann til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök gagnstefnda í gagnsök.
Gagnstefndi byggir á því að Miklilax hf. hafi verið eigandi stöðvarinnar þegar hleypt var úr Stífluvatni vorið 1994. Bú Miklilax hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og við sölu á eignum þess seinni hluta ársins 1994 til gagnstefnanda hafi legið fyrir að stöðin var sýkt af nýrnaveiki. Þegar sýktur fiskur og aðrar eignir búsins voru seldar hafi þetta legið ljóst fyrir. Gagnstefndi kveðst hafa munnlegar upplýsingar, frá skiptastjóra þrotabúsins, fyrir því að mögulegar bótakröfur á hendur gagnstefnda hafi ekki verið seldar gagnstefnanda. Á þeim tíma sem salan fór fram hafi legið fyrir að Miklilax hf. hafði áskilið sér allan rétt gagnvart gagnstefnda vegna hugsanlegra skaðabóta. Því sé það þrotabú Miklalax sem eigi bótarétt, ef hann sé til staðar, en ekki gagnstefnandi enda hafi bótakrafan ekki verið framseld til gagnstefnanda. Af þessu megi ráða að sýkna beri gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 16. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Gagnstefndi byggir sýknukröfu sína ennfremur á því að 136. gr. vatnalaga eigi ekki við í þessu máli eins og gagnstefnandi heldur fram. Þá sé skilyrðum almennu skaðabótareglunnar, einkum er varðar ólögmæti og orsakatengsl, ekki uppfyllt og að auki sé tjón gagnstefnanda með öllu ósannað. Gagnstefndi bendir á að IX. kafli vatnalaga eigi við um iðjuver en ekki orkuver eins og það sem hann reki. Skilgreiningu á þessum hugtökum sé að finna í 1. gr. vatnalaga en gerður sé greinarmunur á iðjuveri og orkuveri. Gagnstefndi kveður að horfa beri til VI. kafla vatnalaga varðandi vatnsmiðlanir. Í 73 gr. komi fram að gagnstefnda hafi ekki einungis verið heimilt að halda mannvirkjum sínum við heldur hafi honum beinlínis verð skylt að gera það. Gagnstefndi byggir ennfremur á því að hann hafi leyfi til að reka umrædda virkjun og að viðgerðir þær sem fram fóru á árinu 1994 hafi verið óumflýjanlegar og nauðsynlegar til að tryggja öryggi mannvirkjanna og þar með hafi háttsemi hans hvorki verið saknæm né ólögmæt.
Gagnstefndi byggir ennfremur á því að engar sannanir liggi fyrir um orsakatengsl milli háttsemi hans og þess tjóns sem gagnstefnandi telur sig hafa orðið fyrir. Raunar telur gagnstefndi sannað að engin tengsl séu þarna á milli. Ekkert liggi fyrir um það að nýrnaveikismitið sem kom upp í fiskeldisstöðinni sé af orsökum sem hann beri ábyrgð á. Þvert á móti bendi gögn málsins til þess að smitið hafi verið komið upp í stöðinni löngu áður en atvik þau sem þetta mál fjallar um áttu sér stað. Orsakir smitsins megi fyrst og fremst rekja til seiðaeldisstöðvarinnar. Gagnstefndi telur að samkvæmt skýrslu dýralæknis fisksjúkdóma, sem liggur fyrir í málinu, megi ráða að nýrnaveikismit var komið í stöðina 13. apríl 1994 en sjúkdómurinn hafi langan meðgöngutíma. Af þessu megi ráða að nýrnaveikin var komin í stöðina áður en miðlunarlónið var tæmt vorið 1994. Eins og áður er getið vissi gagnstefnandi af því að nýrnaveiki hafði komið upp í stöðinni þegar hann keypti hana ásamt fiski og því tók hann á sig áhættu sem því var samfara. Í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar beri gagnstefnanda að bera tjón sitt sjálfur enda liggi ekki fyrir orsakatengsl milli tjóns hans og háttsemi gagnstefnda.
Að mati gagnstefnda ber ekki að skilja viðtal við forsvarsmann gagnstefnda, það, sem gagnstefnandi hefur vísað til, svo að hann hafi lýst því yfir að allt tjón yrði bætt. Forsvarsmaðurinn hafi einungis lýst því yfir að kannað yrði hvaða áhrif tæming lónsins hafi haft. Í framhaldi af slíkri athugun yrði skoðað með greiðslu bóta. Yfirlýsingin hafi að sjálfsögðu grundvallast á þeirri forsendu að bótaskylda samkvæmt lögum væri fyrir hendi.
Varðandi lagarök fyrir kröfu sinni vísar gagnstefndi til almennra reglna íslensks skaðabótaréttar, til skilyrða almennu skaðabótareglunnar svo til tilvitnaðra ákvæða vatnalaga nr. 15/1923. Þá er og vísað til laga nr. 91/1991 varðandi aðildarskort. Bæði í aðal- og varakröfu er gerð krafa um málskostnað úr hendi gagnstefnanda. Krafan byggir á XXI. kafla laga um meðferð einkamála. Loks bendir gagnstefndi á að gagnsökin nái ekki til virðisaukaskattskyldrar starfsemi gagnstefnda og því verði að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.
Varakrafa gagnstefnda.
Gagnstefndi byggir á því að ekki sé unnt að leggja dómkröfur gagnstefnanda til grundvallar verði talið að hann eigi bótarétt á annað borð. Því verði að dæma lægri bætur að álitum. Gagnstefnandi beri sjálfur áhættuna af ýmsum þeim þáttum sem sannað er að hafa valdið nýrnaveikinni, svo sem mikil lífræn mengun í Miklavatni sem stafar af sjálfri eldisstarfseminni auk ýmissa annarra áhættuþátta.
Vararaðili hafi keypt stöðina seinnipart árs 1994. Nýrnaveiki hafi verið staðfest í stöðinni 7. júní það ár og tilkynnt Miklalaxi hf. með bréfi 13. júní 1994. Þannig hafi gagnstefnanda verið ljóst að fiskur sem þeir keyptu hafði smitast af nýrnaveiki. Þegar kaupin áttu sér stað hafi verið búið að hleypa úr lóninu vegna viðgerða á botnlokunni. Þannig gat gagnstefnanda ekki dulist sú áhætta sem fólgin var í kaupum á þessari eign. Jafnframt verði að benda á að fyrrverandi framkvæmdastjóri Miklalax hf. varð framkvæmdastjóri gagnstefnanda. Gagnstefnandi hafi auk þessa rekið áhættusaman rekstur við vatn og vatnsfall þar sem gagnstefndi hafði áratugum saman haft leyfi til reksturs vatnsaflsvirkjunar.
VI.
Niðurstaða.
Aðalsök.
Í aðalsök byggir gagnstefndi kröfur sínar á reikningsyfirlitum sem frammi liggja í málinu. Ekki er um það deilt að gagnstefnandi keypti raforku af gagnstefnda. Sýknukrafa gagnstefnanda byggist á skuldajöfnuði en krafa hans á hendur gagnstefnda er til úrlausnar í gagnsök. Forsvarsmaður gagnstefnanda, vitnið Gunnar Reynir Pálsson bar fyrir dóminum að hann hafi í lok febrúar 1996 tilkynnt gagnstefnda að félagið væri hætt rekstri og að nýtt félag, Stormøllen, væri tekið við. Fallast verður á með gagnstefnanda að almennt tíðkist að orkukaupendur tilkynni orkuseljendum símleiðis að þeir séu hættir orkukaupum og seljandi skipti þá um nafn á kaupanda ef nýr kaupandi tekur við á sama stað. Maður sá sem vitnið Gunnar Reynir kvað hafa tekið við tilkynningu hans er nú látinn og verður því byggt á fullyrðingu vitnisins Gunnars Reynis. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að reikningsyfirlit gagnstefnda sé rétt og verður krafa hans vegna raforkusölu því tekin til greina, svo sem fram kemur í varakröfu gagnstefnanda, að fjárhæð 2.368.848 krónur. Ætla verður að forsvarsmönnum gagnstefnanda hafi verið kunnugt um skuld sína við gagnstefnda og þó þeir telji sig eiga kröfu til skuldajafnaðar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að gangstefndi hafi fallist á að fella skuldina niður vegna tjóns sem hann olli gagnstefnanda. Hins vegar lét gagnstefndi ekki birta greiðsluáskorun fyrir forsvarsmönnum gagnstefnanda en það mátti hæglega gera þó þeir séu búsettir í Noregi. Raunar verður ekki séð að hann hafi aðhafst annað en að reyna að birta greiðsluáskorun á heimili gagnstefnanda í Fljótum fyrr en með útgáfu stefnu. Þá hefur gagnstefndi ekki lagt fram afrit reikninga fyrir kröfu sinni þrátt fyrir að tilefni hafi gefist til þess eftir að greinargerð gagnstefnanda kom fram. Verður krafa um dráttarvexti á fjárhæðina því tekin til greina frá birtingu stefnu eins og nánar greinir í dómsorði.
Gagnsök.
Af gögnum málsins má ráða að gagnstefnandi skiptir meintu tjóni sínu fyrst og fremst í þrjá þætti. Í fyrsta lagi á því að nýrnaveiki hafi komið upp í stöðinni vorið 1994 og staðfest var 7. júní það ár. Í öðru lagi á eitrun af völdum brennisteinsvetnis 1. apríl 1995. Í þriðja lagi á dauða fiskjar í framhaldi af opnun botnloku í júní 1995. Verður leyst úr hverjum þessara þátta sérstaklega.
Nýrnaveiki sem upp kom í laxeldisstöðinni vorið 1994.
Gagnstefnandi keypti nánast allar eignir þrotabús Miklalax hf. í tvennu lagi. Fyrst keypti hann allan fisk í stöðinni og síðan fasteignir og ýmislegt lausafé. Kaupsamningar vegna þessa hafa ekki verið lagðir fram í málinu. Að frama er rakinn framburður Jim Rodger Nordly en hann bar að gagnstefnandi hafi verið raunverulegur kaupandi fiskjarins þó svo að kaupin hafi farið fram í nafni NFO gruppen A/S. Fallast verður á þessa fullyrðingu enda ljóst að skammur tími var til stefnu til að stofna félag á Íslandi sem yrði aðili að kaupunum og verður ekki betur séð en að Norræna Sjóeldið hf. hafi verið stofnað án tafar eftir að kaupin voru gerð. Af þessum sökum verður á því byggt að gagnstefnandi hafi a.m.k. eignast rétt yfir fiskinum sem NFO gruppen A/S átti en NFO gruppen A/S átti allt hlutafé í Norræna sjóeldinu hf.
Gagnstefnandi byggir á því að sú framkvæmd gagnstefnda að hleypa úr Stíflulóni snemma vors 1994 hafi leitt til þess að nýrnaveiki kom upp í stöðinni þetta sama vor. Þegar gagnstefnandi keypti fiskinn af þrotabúi Miklalax hf. þann 23. ágúst 1994 hafði þessi aðgerð þegar gengið um garð og þá lá fyrir að nýrnaveiki var komin upp í stöðinni. Vitnið Kristján Ólafsson, hæstaréttarlögmaður og skiptastjóri í þrotabúi Miklalax hf. bar að fljótlega eftir að hann tók við skiptastjórn hafi honum verið gerð grein fyrir því að hugsanlega mætti rekja veiki sem upp kom í stöðinni til þess að hleypt var úr Stífluvatni. Hann sagði að á skiptafundi sem sérstaklega var boðað til til að taka afstöðu til málssóknar á hendur gagnstefnda vegna þessa hafi sú ákvörðun verið tekin að þrotabúið höfðaði ekki mál. Búnaðarbankana Íslands hafi aftur á móti verið gefin heimild til að höfða mál vegna þessa í eigin nafni og á eigin kostnað. Þá bar hann einnig að hugsanleg krafa vegna þessa hafi ekki verið framseld til gagnstefnanda. Að þessu virtu liggur fyrir að gagnstefnandi á ekki aðild að málssókn út af hugsanlegu tjóni sem varð áður en hann keypti fiskinn í stöðinni enda hefur hann ekki fengið kröfu vegna þessa framselda til sín. Sökum þessa aðildarskorts verður ekki fjallað um málsástæður gagnstefnanda sem reistar eru á því, að komast hefði mátt hjá því að tæma lónið vorið 1994 þó svo skipt væri um botnloku, að forsvarsmönnum gagnstefnda hafi verið ljóst að mikið magn af drullu og lífrænum efnum bærist í Miklavatn, að þeim hafi verið skylt að láta meta áhrif aðgerðarinnar á umhverfið áður en hleypt var úr lóninu, að brotið hafi verið gegn ákvæðum IX. kafla vatnalaga, að gagnstefndi hafi framið skaðabótaskyld spjöll á íslenskri náttúru, að gagnstefndi hafi þurft leyfi til að ráðast í þessa aðgerð svo og að forsvarsmönnum gagnstefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig áður en opnað var.
Tjón sem varð í stöðinni vegna eitraðs brennisteinsvetnis 1. apríl 1995.
Hvað þetta tjón varðar byggir gagnstefnandi á því að mikið magn lífrænna efna hafi borist niður í Miklavatn úr Stífluvatni þegar hleypt var úr því vorið 1994, sem síðan hafi rotnað og valdið dauða fiskjar í stöðinni.
Vitnið Alfreð Gestur Símonarson kafari bar fyrir dóminum að á inntaksröri stöðvarinnar hafi verið 10 til 15 cm lag af drullu. Í skýrslu sem vitnið staðfesti fyrir dóminum kemur fram að 10 til 15 cm drullulag hafi sest á leirbotn vatnsins. Út frá þesum upplýsingum reiknaðist vitninu Jóni Kristjánssyni til að um ein milljón rúmmetrar af seti hafi borist í Miklavatn. Vitnið Kristján Már Sigurjónsson verkfræðingur taldi hins vegar að magnið hafi verið nærri 10.000 rúmmetrum að hámarki 30.000 rúmmetrar. Af mælingum frá vatnamælingum Orkustofnunar sem liggja frammi í málinu má sjá að dagana 21. til 23. mars, en það eru fyrstu þrír dagarnir sem lokan var opnuð, runnu 658.368 rúmmetarar í gegnum botnlokuna. Samkvæmt dagbók stöðvarinnar fór rennslið þann 21. mars mest upp í 8 rúmmetara á sekúndu og var lónið tómt strax þann 22. mars. Dagana 22. til 25 mars hélst rennslið nokkuð jafnt að meðaltali 1,5 rúmmetrar á sekúndu. Í dagbókinni er tekið fram að fyrstu dagana hafi verið mikill framburður af leir og grjóti. Ljóst er að umtalsvert magn af lífrænum efnum rann niður ána en það magn var hins vegar hvergi nærri eins mikið og gagnstefnandi heldur fram og byggir á heldur mun nær því sem fram kemur í útreikningum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Með hliðsjón af þessu og því að mest af aurnum hefur farið strax eftir að lokan var opnuð svo og því að mikill aur hefur sest til í Fljótá er óhugsandi að meira en 50.000 rúmmetrar hafi farið í Miklavatn úr Stífluvatni vorið 1994. Einnig ber að hafa í huga að frá ósum Fljótár að inntaksrörum laxeldisstöðvarinnar eru u.þ.b. 5 km og á þeirri leið hefur mikið magn framburðar fallið til botns. Hér ber einnig að horfa til þess að hvorugur aðila lét gera mælingar eða rannsóknir á botni Miklavatns eða straumum í vatninu fyrir og eftir opnun botnlokunnar 1994.
Fram kom hjá vitnum að Miklavatn er viðkvæmt frá náttúrunnar hendi. Þar séu náttúrulegar sveiflur miklar og vatnið hafi drepið af sér fisk og þorskur og ýsa komið í stað silungs. Í þessu sambandi má nefna að fram kemur í skýrslu vitnisins Jóns Kristjánssonar að heimamenn hafi tjáð honum að 1983 hafi fundist brennisteinslykt og dauður fiskur í vatninu. Þessa sama tilfellis er einnig getið í skýrslu Tuma Tómassonar.
Hér ber og að líta til þess að forsvarsmenn gagnstefnanda þeir Jim Rodger Nordly og síðar Gunnar Reynir Pásson vissu, þegar gagnstefnandi keypti eignir þrotabúsins af þessari opnun og því að aur og lífræn efni höfðu borist inn í stöðina vorið 1994. Ber gagnstefnandi því áhættuna af því að hafa ekki kynnt sér ástand Miklavatns.
Þegar allt þetta er virt er ósannað að opnun botnlokunnar vorið 1994 og sá aur sem barst í Miklavatn í tengslum við þá opnun hafi valdið eitrun vegna brennisteinsvetnis í vatninu 1. apríl 1995.
Dauði fiskjar í stöðinni í júní til nóvember 1995.
Af framburði vitna má ráða að veturinn 1994 til 1995 var óvenju snjóþungur í Fljótum og sennilega einn sá snjóþyngsti á öldinni. Vorið var líka kalt þannig að leysingar á láglendi voru litlar. Það gerðist síðan þann 8. júní að mikil hlýindi byrjuðu með þeim afleiðingum að asahláka varð bæði á há- og láglendi. Öllum var ljóst að snjór myndi einhvern tíma bráðna þetta sumar en það eina sem starfsmenn gagnstefnda gátu gert var að hafa lítið í Stíflulóni.
Af gögnum Vatnamælinga Orkustofnunar má ráða að þann 1. júní 1995 voru 4 gígalítrar í lóninu, sem er lítið miðað við árstíma. Innrennsli í lónið í júnímánuði var samkvæmt sömu gögnum rúmir 86 gígalítar sem er nærri þrefalt rúmtak lónsins (30 Gl). Mesta fimm daga meðaltalsinnrennsli í júní var dagana 11. til 15. var það 62,7 rúmmetrar á sekúndu. Þessa daga runnu hins vegar að meðaltali 43,4 rúmmetrar úr lóninu á sekúndu. Að kvöldi 12. júní braust Skeiðsá úr farvegi sínum og hætti að renna í lónið og var því ekki hægt að miðla rennsli hennar. Ljóst er að með þeim aðgerðum sem starfsmenn gagnstefnda gripu til hafi þeir komið í veg fyrir enn meira flóð. Þessar leysingar voru því svo miklar að þrátt fyrir opnun botnloku streymdi meira í lónið en úr því. Af þessum sökum ber gagnstefndi ekki ábyrgð á því að Miklavatn varð svo gruggugt sem raun varð á. Var í þessu tilfelli ekki ástæða fyrir gagnstefnda að vara sérstaklega við þessum flóðum enda voru þau af náttúrunnar hendi.
Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið rakið hefur ekkert það komið fram í málinu sem leiðir til þess að gagnstefndi hafi með háttsemi sinni orðið þess valdandi að gagnstefnandi gæti ekki lengur ræktað fisk í laxeldisstöð sinni við Miklavatn í Fljótum. Hefur gagnstefnandi ekki sýnt fram á að gagnstefndi beri ábyrgð á því tjóni sem hann telur sig hafa orðið fyrir og er gagnstefndi sýknaður af gagnkröfum gagnstefnanda.
Með hliðsjón af málavöxtum öllum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu bæði í aðal og gagnsök.
Dóminn kveða upp Halldór Halldórsson, dómstjóri ásamt meðdómsmönnunum Eymundi Sigurðssyni, rafmagnsverkfræðingi og Höllu Jónsdóttur, fisksjúkdómafræðingi. Dómsuppsaga hefur dregist vegna orlofs og anna dómsformanns en sakflytjendur hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins.
DÓMSORÐ
Gagnstefnandi, Norræna sjóeldið hf. greiði gagnstefnda, Rafmagnsveitum ríkisins, 2.368.848 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 19 ágúst 1999 til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í aðal og gagnsök fellur niður.