Hæstiréttur íslands
Mál nr. 452/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 18. ágúst 2006. |
|
Nr. 452/2006. |
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði(Arnþrúður Þórarinsdóttir fulltrúi) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Kröfu L um að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 var hafnað þar sem óútskýrður dráttur hafði orðið á því að ákæra væri gefin út á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Skilja verður kæru varnaraðila svo að hann krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að skotárás 21. júní 2006 við [...] í Hafnarfirði; frá 22. júní 2006 á grundvelli a. liðar 103. gr. laga nr. 19/1991, en frá 5. júlí 2006 á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laganna sbr. dóm Hæstaréttar 7. júlí 2006 í máli nr. 361/2006. Með þeim dómi var styttur sá gæsluvarðhaldstími sem héraðsdómur hafði ákveðið. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en taka hefði mátt ákvörðun um ákæru á þeim tíma sem þar var ákveðinn. Af hálfu sóknaraðila hefur ekki verið gefin skýring á þeim drætti sem orðið hefur á meðferð málsins að þessu leyti og þau rannsóknargögn sem aflað hefur verið á þessu tímabili, síðast 2. ágúst 2006, réttlæta hann ekki. Við svo búið verður ekki fallist á kröfu sóknaraðila um frekari framlengingu á gæsluvarðhaldi varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. ágúst 2006.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess með beiðni dagsettri í dag að X, [kt. og heimilsfang], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. september nk. kl. 16:00.
Vísað er til krafna lögreglustjórans í Hafnarfirði um gæsluvarðhald dags. 22., 28. júní sl. og 4. júlí sl., sbr. úrskurði í málum héraðsdóms Reykjaness R-112, 122 og 128/2006, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 347/2006 og 361/2006.
Við rannsókn málsins hefur grunur lögreglu um brot kærða enn styrkst. Þannig liggur nú fyrir skýrsla tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík um skotstefnu, fjarlægðir og dreifingu hagla í skotárásinni. Kemur framburður kærða um staðsetningu meðkærða í málinu, sem hann kveður hafa framið verknaðinn, engan veginn heim og saman við skýrslu tæknideildarinnar.
Rannsókn málsins er á lokastigi og verður málið sent Ríkissaksóknara að svo búnu.
Með vísan til framangreinds, raka í kröfu lögreglustjórans í Hafnarfirði dags. 4. júlí sl., sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjaness í máli R-128/2006 og dóm Hæstaréttar í máli nr. 361/2006, hjálagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er þess krafist að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi.
Kærði mótmælir kröfu lögreglustjóra.
Í málinu er fram komið að framburður kærða stenst ekki miðað við niðurstöðu skýrslu tæknisdeildar lögreglunnar í Reykjavík um skotstefnu, fjarlægðir og dreifingu hagla í skotárásinni og er því þörf frekari rannsóknar í málinu, en hún er samt á lokastigi og þykir úr þessu tíminn til 12. september nk. ekki óeðlilega langur til málshöfðunar og eftir atvikum uppkvaðningu dóms. Það þykir því mega fallast á það með lögreglustjóranum í Hafnarfirði að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi. Að þessu virtu og með vísan til ákvæða 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 þykir verða að taka kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald til greina.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 þriðjudaginn 12. september 2006.