Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-63

Finnbogi Kristjánsson (Guðmundur Ágústsson lögmaður)
gegn
Önnu Guðnýju Gunnarsdóttur (Eva Dís Pálmadóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldamál
  • Endurkrafa
  • Sönnunarbyrði
  • Málsástæða
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 26. apríl 2022 leitar Finnbogi Kristjánsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 150/2021: Anna Guðný Gunnarsdóttir gegn Finnboga Kristjánssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsaðila lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um endurgreiðslu á uppgreiðsluvirði láns sem leyfisbeiðandi hefði tekið yfir með munnlegu samkomulagi.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður af kröfum gagnaðila. Með dómi Landsréttar var hins vegar fallist á kröfur gagnaðila um að leyfisbeiðandi greiddi henni fjárhæð sem næmi andvirði lánsins við uppgreiðslu þess. Í dómi Landsréttar kom fram að gagnaðili hefði selt fasteign árið 2001 með aðstoð leyfisbeiðanda, sem er löggiltur fasteignasali, og fallist á beiðni leyfisbeiðanda um að hann yfirtæki lánið gegn því að andvirði þess rynni til hans við sölu á fasteigninni. Fasteign í eigu tengdaforeldra gagnaðila og þáverandi tengdaforeldra leyfisbeiðanda hafi í kjölfarið verið sett að veði í staðinn. Síðar hafi komið í ljós að lánveitandi heimilaði ekki yfirtöku leyfisbeiðanda á láninu og hafi þá komist á það fyrirkomulag að leyfisbeiðandi hafi skráð sig sem umboðsmann vegna lánsins, fengið senda greiðsluseðla og greitt af því en gagnaðili áfram verið skráður skuldari. Við skipti á dánarbúi tengdaföður gagnaðila hafi leyfisbeiðandi hafnað allri ábyrgð á greiðslu lánsins og hætt að greiða af því. Gagnaðili og eiginmaður hennar hafi þá samþykkt að lánið yrði greitt upp með því að draga andvirði þess frá arfshlut eiginmannsins í dánarbúinu.

5. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að málsástæða leyfisbeiðanda um sýknu vegna aðildarskorts teldist of seint fram komin við meðferð málsins í héraði. Þá taldi Landsréttur sannað að með aðilum hefði komist á munnlegur samningur um að leyfisbeiðandi héldi gagnaðila skaðlausri af endurgreiðslu lánsins. Með því að hætta að greiða af láninu hefði leyfisbeiðandi vanefnt samning aðila með þeim afleiðingum að gagnaðili hefði neyðst til að greiða lánið upp til að forðast frekari innheimtuaðgerðir.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um gildi munnlegs samkomulags, sönnun um atvik og jafnframt reglur um tómlæti og skyldur aðila til athafna. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína þar sem það varði bæði fjárhagslega hagsmuni sem og æru hans og starfsheiður. Loks telur hann að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og vísar meðal annars til þess að röng sé niðurstaða réttarins um að málsástæða hans um sýknu á grundvelli aðildarskorts hafi verið of seint fram komin. Þá hafi Landsréttur ranglega snúið við sönnunarbyrði í málinu og leggi til grundvallar rangar forsendur.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.