Hæstiréttur íslands
Mál nr. 609/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gagnaöflun
- Sönnunargögn
|
|
Miðvikudaginn
3. október 2012. |
|
Nr. 609/2012. |
Ákæruvaldið (Finnur Þór Vilhjálmsson
saksóknarfulltrúi) gegn X
og Y
ehf. (Sveinn Jónatansson hdl.) |
Kærumál.
Gagnaöflun. Sönnunargögn
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar
sem lagt var fyrir ákæruvaldið að leggja fram tiltekna samantekt saksóknara sem
hann hafði ritað fyrir yfirmann sinn. Hæstiréttur taldi að ákæruvaldinu bæri
ekki að leggja samantektina fram og felldi hinn kærða úrskurð úr gildi. Meðal
annars var vísað til þess að skjalið væri ekki sönnunargagn um atvik máls
heldur hugleiðing saksóknara við mat á því hvort rannsókn væri lokið eða hvort
ákveða skyldi að frekari rannsókn færi fram.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson,
Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til
Hæstaréttar með kæru 21. september 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum
24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september
2012, þar sem sóknaraðila var gert að leggja fram tiltekna „samantekt
saksóknara“. Um kæruheimild er vísað til p. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði
úrskurður verðir felldur úr gildi. Til vara er þess krafist að einungis verði
lagt fyrir ákæruvaldið að leggja fram þann hluta samantektar saksóknara er
varðar framgang rannsóknar málsins.
Varnaraðilar krefjast þess aðallega
að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði
staðfestur. Þá er krafist kærumálskostnaðar.
I
Kröfu sína um frávísun málsins reisa
varnaraðilar í fyrsta lagi á því að sóknaraðili og verjandi varnaraðila hafi
við meðferð málsins fyrir héraðsdómi lagt það í hendur dómara að taka ákvörðun
um hvort sóknaraðila bæri að leggja skjalið fram. Hafi sóknaraðili þar með
fallist á þau málalok að ákvörðun dómara skyldi ráða því hvort svo yrði gert.
Hann geti ekki á síðari stigum krafist úrskurðar um sama atriði og verði því að
bera hallann af því að hafa ekki strax og tilefni gafst til krafist úrskurðar
dómara um ágreiningsefnið. Í 1. mgr.
181. gr. laga nr. 88/2008 er kveðið á um að mæli lögin ekki á annan veg og
ágreiningur sé ekki uppi taki dómari afstöðu til atriða er varða rekstur máls
með ákvörðun, sem eftir atvikum verði skráð í þingbók. Í 2. mgr. greinarinnar
segir á hinn bóginn að dómari leysi úr öðrum atriðum, sem ráða þurfi til lykta
fyrir dómtöku máls, með úrskurði. Í endurriti þinghalds í málinu 3. september
2012 var bókuð áskorun varnaraðila um að sóknaraðili legði fram umrætt skjal,
en að því væri hafnað af hálfu hins síðarnefnda þar sem það væri ekki hluti af
rannsóknargögnum málsins, heldur vinnugagn saksóknara. Þá er bókað: ,,Sækjandi
og verjandi krefjast ákvörðunar dómara um framlagningu. Dómari leggur fyrir
sækjanda að afla umbeðinna gagna og leggja þau fram í málinu.“ Í endurriti
næsta þinghalds 17. september 2012 kemur fram að sóknaraðili hefði lagt fram
bókun og í framhaldi af því óskað eftir úrskurði um skyldu til að leggja
skjalið fram. Hvað sem líður sameiginlegri kröfu í þinghaldi 3. september 2012
um ákvörðun dómara um hvort leggja skyldi skjalið fram er ljóst að ágreiningur
var með aðilum um það atriði. Hefur sóknaraðili samkvæmt þessu ekki fyrirgert
rétti sínum til þess að krefjast þess að dómari úrskurðaði um ágreininginn eins
og boðið er í 2. mgr. 181. gr. laga nr. 88/2008. Verður þessari röksemd fyrir
frávísun málsins því hafnað.
Í öðru lagi reisa varnaraðilar
frávísunarkröfuna á því að sú afstaða sóknaraðila að umrætt skjal sé ekki
sönnunargagn leiði til þess að kæruheimild sé ekki fyrir hendi í p. lið 1. mgr.
192. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem ekki sé í öðrum ákvæðum 1. mgr. greinarinnar
að finna kæruheimild hljóti framangreind afstaða sóknaraðila að fela í sér að
ekki sé um kæruheimild að ræða í þessu tilviki. Með hinum kærða úrskurði er
lagt fyrir sóknaraðila að leggja fram skjal, ,,samantekt saksóknara“.
Niðurstaða héraðsdóms er reist á 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008, en í því felst
að til grundvallar niðurstöðunni liggur sú afstaða héraðsdómara að skjalið sé
sönnunargagn. Verður í ljósi þess fallist á með sóknaraðila að kæruheimild sé
fyrir hendi í tilgreindum staflið 1. mgr. 192. gr. laganna.
Þá telur varnaraðili að varakrafa
sóknaraðila fyrir Hæstarétti, sem lúti að því að einungis verði lagt fyrir
sóknaraðila að leggja fram þann hluta skjalsins sem varðar framgang
rannsóknarinnar, hafi ekki verið gerð fyrir héraðsdómi svo sem sjá megi af
hinum kærða úrskurði. Þess vegna beri að vísa henni frá Hæstarétti. Í 2. mgr.
193. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að sá sem kæra vill úrskurð
héraðsdómara, og lýsi því ekki yfir á dómþingi við uppkvaðningu úrskurðar,
skuli afhenda dómaranum skriflega kæru þar sem meðal annars skal tilgreina
,,kröfu um breytingu á honum“. Varakrafa sóknaraðila rúmast innan þessarar
reglu og verður henni því ekki vísað frá Hæstarétti.
II
Í VII. kafla laga nr. 88/2008 er að
finna almennar reglur um rannsókn sakamála. Markmið slíkrar rannsóknar er
samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að
ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar
svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Samkvæmt 2.
mgr. 53. gr. hvíla skyldur á þeim sem rannsaka mál að vinna að því að hið sanna
og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og
sektar. Önnur ákvæði þessa kafla lúta meðal annars að skyldu þeirra sem
rannsaka mál til að afla allra tiltækra gagna um hið ætlaða brot, leita hins
grunaða og finna vitni og leita að munum, sem þýðingu geta haft og öðrum
sýnilegum sönnunargögnum. Í 1. mgr. 57. gr. laganna er mælt fyrir um að þegar
lögregla telur að rannsókn máls sé lokið sendi hún ákæranda rannsóknargögn,
nema lögreglustjóri megi sjálfur höfða mál samkvæmt 1. og 4. mgr. 24. gr.
laganna. Með rannsóknargögnum skuli lögregla senda skýrslu um rannsóknina
samkvæmt 1. mgr. 56. gr. Að fengnum þeim gögnum, sem nefnd eru í 1. mgr. 57.
gr., getur ákærandi samkvæmt 2. mgr. greinarinnar mælt fyrir um frekari
rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu ef hann telur þess þörf. Ella, eða að
lokinni frekari rannsókn, tekur hann ákvörðun um hvort höfða skuli sakamál,
sbr. 145. gr. laganna. Sé mál höfðað með útgáfu ákæru sendir ákæruvaldið hana til
héraðsdóms ásamt þeim sýnilegu sönnunargögnum, sem ákæruvaldið hyggst leggja
fram í málinu, sbr. 154. gr. laganna.
Af framangreindu leiðir að það er almennt á
forræði ákæruvaldsins hvaða gögn það leggur fram til þess að fullnægja
sönnunarbyrði sinni samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um sekt ákærða og atvik,
sem telja má honum í óhag. Ákærði getur sjálfur aflað sönnunargagna telji hann
ástæðu til, sbr. 1. mgr. 110. gr. laganna. Þá getur dómari samkvæmt 2. mgr.
þeirrar greinar beint því til ákæranda að afla gagna um tiltekin atriði máls og
er í ákvæðinu, eins og áður er fram komið, átt við sönnunargögn.
Skjal það sem hinn kærði úrskurður
lýtur að hefur af hálfu sóknaraðila verið lagt fyrir Hæstarétt. Skjalið er
samið af saksóknara við embætti sérstaks saksóknara sem fengið hafði málinu
úthlutað, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara.
Í skjalinu er einkum að finna hugleiðingar saksóknarans um málið, ítarlega
lýsingu hans á atvikum þess, hver hin ætlaða refsiverða háttsemi sé og hvaða
refsiákvæði kunni að hafa verið brotin, framburði grunaðra og vitna hjá
lögreglu, hvað þurfi að rannsaka frekar og hvaða gagna þurfi að afla og loks
hugleiðingar um hverja séu rök til að ákæra í málinu. Eins og fram er komið
fylgdi skjalið, sem merkt er sem innanhússkjal og trúnaðarmál, bréfi
saksóknarans til sérstaks saksóknara 11. nóvember 2011. Skjalið er ekki
sönnunargagn um atvik máls heldur hugleiðing saksóknara við mat á því hvort
rannsókn sé lokið eða hvort ákveða skuli á grundvelli 2. mgr. 57. gr. laga nr.
88/2008 að frekari rannsókn skuli fara fram. Skjalið er ekki meðal þeirra gagna
sem ákæruvaldinu ber að leggja fram í málinu. Verður því að fella hinn kærða
úrskurð úr gildi og hafna kröfu varnaraðila um framlagningu skjalsins.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr.
3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19.
september 2012.
Með ákæru sérstaks saksóknara,
útgefinni 16. apríl 2012, var höfðað mál á hendur ákærðu, X og Y ehf., á hendur
ákærða X fyrir fjársvik, til vara fyrir skilasvik, en á hendur ákærðu Y ehf.
til upptöku ávinnings af meintu broti ákærða X. Í þinghaldi 29. maí sl. óskaði
verjandi ákærðu eftir því að skila greinargerð í málinu og var honum veittur frestur
til 2. júlí sl. Frestur verjanda til að skila greinargerð var síðar framlengdur
og var hún lögð fram í þinghaldi 3. september sl. Jafnframt lagði verjandi fram
afrit af bréfi Hólmsteins Gauta Sigurðssonar saksóknara til Ólafs Þórs
Haukssonar, sérstaks saksóknara, dagsettu 11. nóvember 2011, þar sem vitnað er
til samantektar saksóknarans um rannsókn málsins. Krafðist verjandi þess í
þinghaldinu að sækjandi legði það skjal fram í málinu, en sækjandi hafnaði því
og kröfðust sakflytjendur ákvörðunar dómara þar um. Dómari lagði fyrir sækjanda
að afla umbeðinna gagna og leggja þau fram í málinu og var sú ákvörðun færð í
þingbók. Í þinghaldi 17. september sl. krafðist sækjandi þess að dómari
úrskurðaði um framlagningu og lagði fram bókun þess efnis. Verjandi áréttaði
kröfu um framlagningu hins umþrætta skjals.
Af hálfu ákærðu hafa verið
gerðar athugasemdir við rannsókn og ákærumeðferð málsins við efnahagsbrotadeild
ríkislögreglustjóra og síðar embætti sérstaks saksóknara. Í greinargerð
verjanda ákærðu er því haldið fram að við rannsókn málsins og ákvörðun um
saksókn hafi ekki verið gætt meginreglna um hlutlægni, sbr. 3. mgr. 18. gr. og
2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, svo sem nánar er rakið. Í
framangreindu bréfi til sérstaks saksóknara hafi saksóknari sá er fór með málið
við embættið lýst því yfir að hann teldi veigamikla hnökra á upphaflegri
sakargreiningu og lögreglurannsókn. Hafi hann krafist frekari rannsóknar í
samræmi við samantekt sem fylgdi bréfinu, greiningu á sakarefni og tillögu að
næstu skrefum. Gögnin sem vísað sé til í bréfinu, þ.e. samantekt saksóknara,
sakargreining og tillaga að næstu skrefum, liggi ekki fyrir í málinu, en að
mati verjanda geti þau varpað mikilvægu ljósi á framgang málsins og stutt við
þær athugasemdir sem ákærðu hafa gert við rannsókn þess og saksókn.
Af hálfu ákæruvaldsins er því
haldið fram að samantekt saksóknara teljist ekki til skjala eða annarra
sýnilegra sönnunargagna í skilningi laga nr. 88/2008. Um sé að ræða
innanhússkjal, sem beri með sér samskipti starfsmanna embættis sérstaks
saksóknara, enda sé það merkt „INNANHÚSSKJAL TRÚNAÐARGAGN” og ritað hálfu ári
áður en ákæra var gefin út. Á þeim tíma hafi farið fram frekari rannsókn
málsins eins og mælt var fyrir um í nefndu bréfi saksóknara, sem liggur fyrir í
málinu. Sé það mat ákæruvaldsins að það sé „óeðlilegt og án fordæma“ að beina
þeim tilmælum til ákæruvaldsins með ákvörðun að afla slíks gagns um
innanhússamskipti milli starfsmanna í tengslum við vinnu lögreglu og ákæruvalds
til framlagningar við meðferð sakamáls fyrir dómi. Meginefni samantektarinnar
sé álit og athugasemdir saksóknarans við sakargreiningu í málinu á því stigi,
sönnunaratriði og sönnunarstöðu, stöðu rannsóknarinnar, þátt einstakra
sakborninga í ætluðum brotum og ítarleg lagaleg umfjöllun um ýmsa þætti
málsins. Við þá umfjöllun komi á stöku stað fram ábendingar og fyrirmæli
saksóknarans um tilteknar rannsóknaraðgerðir. Samantektin feli að mjög
óverulegu leyti í sér rannsóknarfyrirmæli. Að mati ákæruvaldsins geymi
samantektin upplýsingar um starfshætti ákæruvalds og fyrirhugaðar aðgerðir í
þágu rannsóknar í skilningi 4. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið telji
þannig efni samantektarinnar háð þagnarskyldu samkvæmt því lagaákvæði. Er þess
farið á leit að dómari endurskoði ákvörðun sem tekin var í þinghaldi 11.
september sl. þannig að því verði ekki beint til ákæranda að afla umrædds gagns
og leggja það fram í málinu.
Niðurstaða
Meðal gagna málsins er bréf
saksóknara við embætti sérstaks saksóknara til yfirmanns síns, dagsett 11.
nóvember 2011, þar sem kemur fram að mælt sé fyrir um frekari
rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu vegna máls ákærðu, sbr. 2. mgr. 57. gr.
laga nr. 88/2008. Kemur fram að bréfinu fylgi „samantekt saksóknara þar sem
málavextir eru raktir í samræmi við það sem fyrir liggur, nánari greining
sakarefnis og tillögur að næstu skrefum rannsóknar eru settar fram“. Af hálfu
ákæruvalds hefur verið upplýst að frekari rannsókn hafi farið fram í málinu í
samræmi við framangreindar tillögur. Ákærðu telja samantekt saksóknara hafa
þýðingu fyrir málsvörn sína, enda veiti hún upplýsingar um framgang rannsóknar
málsins, sem síðar leiddi til ákæru. Samkvæmt því, og með vísan til 2. mgr.
110. gr. laga nr. 88/2008, er lagt fyrir ákæranda að leggja fram í málinu
skjalið sem um ræðir. Stendur 4. mgr. 18. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi,
enda hafa rannsóknaraðgerðir sem skjalið lýtur að þegar farið fram.
Ragnheiður Harðardóttir
héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Lagt
er fyrir sérstakan saksóknara að leggja fram framangreinda samantekt
saksóknara.