Hæstiréttur íslands
Mál nr. 190/2017
Lykilorð
- Sjálfskuldarábyrgð
- Ógilding samnings
- Sératkvæði
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir, Helgi I. Jónsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2017. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerði María Dungal, sem er dóttir stefndu og fædd árið 1972, umsókn 25. mars 2010 til áfrýjanda um námslán vegna fyrirhugaðs meistaranáms í viðskiptafræði við nánar tilgreindan erlendan háskóla. Í umsókninni, sem virðist hafa verið færð inn á rafrænt eyðublað frá áfrýjanda, voru óverulegar upplýsingar um fjárhag og aðstæður Maríu, en þó kom fram að hún ætti nafngreindan maka og tvö börn, hún hafi verið í fullu starfi á árinu 2009 og áætlaði að laun fyrir það hafi numið um 8.000.000 krónum. Þá var þess getið að stefnda yrði umboðsmaður Maríu gagnvart áfrýjanda, en í umboðinu fælist heimild til að annast lántöku, undirrita skuldabréf fyrir láni, útvega ábyrgðarmann og taka við lánsfé.
Vegna þessarar umsóknar ritaði áfrýjandi bréf 25. maí 2010 til stefndu sem umboðsmanns Maríu, þar sem fram kom að eftir úthlutunarreglum hans yrði lánþegi að vera í skilum við hann og mætti hvorki vera til gjaldþrotaskipta né teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántaki. Nafn Maríu væri að finna á tiltekinni vanskilaskrá og væri því ekki að svo stöddu unnt að veita henni námslán, en hafi skuld, sem valdið hafi færslu á þeirri skrá, verið greidd eða færslan stafað af mistökum yrði að leita til nafngreinds fyrirtækis, sem héldi um skrána. Bent var á að umsækjandi um lán í þessari aðstöðu ætti kost á að leita eftir undanþágu frá úthlutunarreglum að þessu leyti með því að leggja fram ábyrgð, sem áfrýjandi teldi viðunandi. Í tengslum við það sagði einnig: „Tekið skal fram að ábyrgðarmaður mun verða upplýstur um greiðslugetu þína skv. lögum nr. 32/2009. Þær upplýsingar verða í formi stöðu skv. vanskilaskrá“. Þetta ítrekaði áfrýjandi í öðru samsvarandi bréfi til stefndu 16. júlí 2010. Í málinu liggja ekki fyrir upplýsingar um hvað hafi nánar komið fram um Maríu á vanskilaskrá, en áfrýjandi kveðst ekki varðveita gögn um slíkt með tilliti til persónuverndar.
Í framhaldi af þessu sendi María tölvubréf til áfrýjanda 19. ágúst 2010, þar sem sagði meðal annars: „Ég er með umsókn um námslán hjá ykkur og er að vinna í því að skila inn þeim gögnum sem vantar. Ég fékk bréf um daginn þar sem fram kom að þar sem ég er á vanskilaskrá þá fái ég ekki lán hjá ykkur. Ég er að vinna í því að klára að greiða þennan reikning sem kom mér á skrána, en vildi spyrja ykkur ... varðandi þetta: 1. Fæ ég námslán þrátt fyrir að vera á vanskilaskrá, ef ég skila inn nafni á ábyrgðarmanni? 2. Ef það tekur mig nokkra mánuði að ná mér af skránni, mun ég samt geta séð lánsáætlun ... sem miðar þá við að ég sé komin af skrá (eða með ábyrgðarmann) og fái námslán?“ Í tölvubréfi áfrýjanda til Maríu 25. sama mánaðar var fyrri spurningunni svarað á þann hátt að yrði hún komin af vanskilaskrá eða skráður hafi verið ábyrgðarmaður fyrir hana stæði henni til boða lán, enda hefðu þá einnig borist gögn um tiltekin önnur atriði, sem ekki er ástæða til að lýsa hér frekar. Af þessu tilefni sendi María tölvubréf til áfrýjanda síðastnefndan dag, þar sem þess var getið að stefnda yrði ábyrgðarmaður fyrir láni til hennar.
Áfrýjandi ritaði bréf til stefndu 1. september 2010, þar sem sagði meðal annars: „Þú hefur verið tilefndur sem ábyrgðarmaður fyrir námsmann sem hefur óskað eftir námsláni hjá LÍN. Skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 ber LÍN að senda öllum ábyrgðarmönnum meðfylgjandi upplýsingar. Meðfylgjandi er m.a. greiðslusaga námsmannsins skv. Lánstrausti en þar sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er litið svo á að þessar upplýsingar séu fullnægjandi. Athygli er vakin á því að þar sem endurgreiðsla á námsláninu hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok mun greiðslugeta námsmannsins verða önnur til framtíðar.“ Fyrir liggur að með þessu bréfi til stefndu hafi fylgt skjal frá áfrýjanda með fyrirsögninni: „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“. Þar var að finna stutta rakningu á reglum um sjálfskuldarábyrgð, tekið var fram að fyrirhuguð ábyrgð ætti að hámarki að ná til skuldar Maríu að fjárhæð 7.000.000 krónur, sem bundin yrði vísitölu neysluverðs miðað við tiltekna grunntölu, og myndi ábyrgðin standa þar til skuldin yrði að fullu greidd. Næði ábyrgðin auk annars til innheimtukostnaðar. Einnig var þess getið að unnt yrði að bera ágreining um ábyrgðina undir málskotsnefnd áfrýjanda eða dómstóla. Þá kom eftirfarandi fram í skjalinu: „LÍN hefur upplýst undirritaðan um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali. Frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakanda er ekki að fá. Vakin er athygli á því að umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á m. greiðslugeta.“ Í bréfi áfrýjanda, sem þetta skjal fylgdi, var óskað eftir að stefnda undirritaði skjalið og endursendi honum. Við því varð stefnda 15. desember 2010.
María gaf út skuldabréf vegna námsláns frá áfrýjanda 1. desember 2010. Ofan við meginmál skuldabréfsins var tilgreint að stefnda væri umboðsmaður Maríu og jafnframt ábyrgðarmaður fyrir skuldinni. Fjárhæð skuldar var ekki færð inn í viðeigandi eyður í skuldabréfinu, heldur tekið fram að lántaki veitti áfrýjanda heimild til að fylla það að þessu leyti út við námslok með því að setja þar heildarfjárhæð skuldar miðað við þágildandi vísitölu neysluverðs. Í skilmálum bréfsins var meðal annars lýst lánskjörum, endurgreiðslum og vanefndaúrræðum, en að auki var þar eftirfarandi yfirlýsing, sem stefnda undirritaði: „Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o. fl. atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á höfuðstól allt að neðangreindri fjárhæð ásamt vöxtum, verðbótum og dráttarvöxtum og öllum kostnaði ef vanskil verða, tekst ég undirritaður á hendur sjálfskuldarábyrgð á láni þessu in solidum. Höfuðstóll ábyrgðar, tilgreindur fyrir framan undirskrift mína, breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs. Fyrir gjaldfallinni fjárhæð má gera fjárnám til tryggingar fullnustu skuldarinnar án undangengins dóms eða réttarsáttar samkvæmt 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 hjá aðalskuldara eða sjálfskuldarábyrgðarmönnum.“ Við undirskrift stefndu var tiltekið að fjárhæð ábyrgðar hennar næmi allt að 7.000.000 krónum, sem bundin væri vísitölu neysluverðs með grunntölunni 363,8. Í framhaldi af útgáfu skuldabréfsins sendi áfrýjandi til stefndu bréf 5. janúar 2011 með yfirskriftinni: „Staðfesting á sjálfskuldarábyrgð.“ Þar var getið um nafn aðalskuldara, númer skuldabréfs og fjárhæð ábyrgðar stefndu, en jafnframt bent á að fjallað væri um ábyrgð á námslánum, réttindi ábyrgðarmanna og skyldur þeirra í tilteknum ákvæðum úthlutunarreglna áfrýjanda, sem birtar væru á vefsíðu hans.
Í gögnum málsins er ekki að finna heildstæðar upplýsingar um lánveitingar áfrýjanda til Maríu, sem falla áttu undir fyrrgreint skuldabréf, en á hinn bóginn liggja fyrir yfirlit um stöðu lánsins, sem áfrýjandi sendi stefndu sem ábyrgðarmanni árlega frá 2012 til 2016. Samkvæmt yfirliti 30. janúar 2012 var „upprunalegur höfuðstóll“ lánsins á þeim tíma 2.653.688 krónur, en í yfirliti 4. febrúar 2013 var sá höfuðstóll sagður nema 4.064.507 krónum. Var þess getið í báðum tilvikum að um væri að ræða „opið lán“, sem ætla verður að hafi merkt að María teldist ekki hafa lokið námi og skuldabréfið því ekki enn verið fyllt út að því er fjárhæð varðaði. Af yfirliti 13. febrúar 2014 virðist á hinn bóginn mega ráða að náminu hafi þá verið lokið og höfuðstóll skuldabréfsins orðinn 4.026.086 krónur með grunnvísitölu 398,2 stig, en lánið væri í vanskilum. Samkvæmt yfirlitum 23. febrúar 2015 og 29. mars 2016 var lánið í skilum á báðum dögum, en skuldin á þeim síðari sögð 3.872.789 krónur. Í málflutningi fyrir Hæstarétti kom fram að skuldin hafi nú verið í vanskilum frá hausti 2017 og gjaldfelld af þeim sökum.
II
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna er það hlutverk áfrýjanda að tryggja þeim, sem falla undir lögin, tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í 2. mgr. 1. gr. og 2. gr. laganna er afmarkað til hvers konar náms áfrýjandi veiti lán í þessu skyni, en eftir 1. mgr. 6. gr. þeirra skal það ekki gert fyrr en námsmaður hefur afhent vottorð um tilskilda skólasókn og námsárangur. Einnig er sett að skilyrði í 4. mgr. 6. gr. að námsframvinda sé með eðlilegum hætti. Stjórn áfrýjanda er falið í 7. mgr. sömu lagagreinar að ákveða hvaða skilyrðum lántakar þurfi að öðru leyti að fullnægja, en um það, svo og önnur atriði varðandi svonefnda útfærslu á lögunum, á stjórnin að setja árlegar úthlutunarreglur, sem skulu staðfestar af ráðherra, sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna. Eins og lög nr. 21/1992 hljóðuðu í upphafi var að auki tiltekið í 5. mgr. 6. gr. þeirra að námsmenn, sem fengju lán frá áfrýjanda, skyldu undirrita skuldabréf við lántöku og leggja fram yfirlýsingu minnst eins manns um að hann tæki að sér sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu þess ásamt vöxtum og verðtryggingu allt að tiltekinni hámarksfjárhæð. Með 1. gr. laga nr. 78/2009, sem tóku gildi 31. júlí 2009, var 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 breytt í núverandi horf, en samkvæmt því ákvæði geta námsmenn, sem teljast lánshæfir samkvæmt reglum stjórnar áfrýjanda, fengið frá honum lán gegn útgáfu skuldabréfs og er þar ekki áskilið að sett sé nokkur ábyrgð. Námsmaður, sem fullnægir á hinn bóginn ekki skilyrðum um lánshæfi, getur allt að einu fengið lán gegn því að leggja fram ábyrgð, sem áfrýjandi telur viðunandi, en hún getur meðal annars falist í yfirlýsingu ábyrgðarmanns um sjálfskuldarábyrgð á námsláni ásamt vöxtum og verðbótum allt að tiltekinni fjárhæð. Samkvæmt grein 5.1.8. í úthlutunarreglum áfrýjanda, sem voru í gildi þegar María Dungal gaf út fyrrgreint skuldabréf til hans, taldist námsmaður ekki lánshæfur ef hann var í vanskilum við áfrýjanda, bú hans var til gjaldþrotaskipta eða hann taldist af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggur lántaki, sbr. auglýsingu mennta- og menningarmálaráðherra nr. 533/2010 um staðfestingu úthlutunarreglna Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir skólaárið 2010-2011. Í málinu hefur ekki verið vefengt að áfrýjandi hafi mátt líta á Maríu sem bersýnilega ótryggan lántaka í þessum skilningi sökum vanefnda, sem vanskilaskrá hafi leitt í ljós að hún hafi staðið í við annan eða aðra lánardrottna, og að áfrýjandi hafi af þeim sökum haft fullnægjandi stoð í 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 fyrir því að setja það skilyrði fyrir lánveitingu til Maríu að ábyrgð yrði lögð fram fyrir efndum hennar á þeirri skuldbindingu við hann.
Áður en framangreind breyting var gerð á lögum nr. 21/1992 með 1. gr. laga nr. 78/2009 höfðu lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn tekið gildi 4. apríl 2009. Í 1. mgr. 2. gr. síðastnefndu laganna er berum orðum tekið fram að þau nái meðal annars til lánveitinga áfrýjanda í tilvikum, þar sem annar maður gengst í ábyrgð til að tryggja efndir lántaka. Í lögum nr. 32/2009 er ekki mælt fyrir um nokkra sérstöðu áfrýjanda meðal lánveitenda með tilliti til einstakra skyldna þeirra gagnvart ábyrgðarmönnum. Af þessum sökum ná til áfrýjanda ákvæði 1. mgr. 4. gr. laganna um skyldu lánveitanda til að meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán í greiðslumati, sem ber að byggja á viðurkenndum viðmiðum, sbr. og reglugerð nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat, sem sett var á grundvelli heimildar í þeirri málsgrein. Af sömu ástæðu ná einnig til áfrýjanda ákvæði 2. mgr. 4. gr. laganna um skyldu lánveitanda til að ráða manni skriflega frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til að lántaki muni ekki geta efnt skuldbindingar sínar.
Í málinu er óumdeilt að áður en stefnda gekkst 1. desember 2010 í sjálfskuldarábyrgð fyrir væntanlegum námslánum Maríu lagði áfrýjandi ekki annað mat á greiðslugetu þeirrar síðarnefndu en það, sem fólst í mati á því hvort hún teldist lánshæf í skilningi áðurnefndrar greinar 5.1.8. í þágildandi úthlutunarreglum hans. Í ljósi 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992 verður að líta svo á að slíku mati áfrýjanda á lánshæfi sé ætlað að ráða niðurstöðu um greinarmun á umsækjendum, sem geta annars vegar fengið frá honum námslán án nokkurrar tryggingar eða ábyrgðar af hendi annarra, og þeim, sem hins vegar geta ekki fengið slíkt lán nema trygging eða ábyrgð sé sett fyrir endurgreiðslu þess. Falli umsækjandi í fyrrnefnda hópinn geti áfrýjandi veitt honum námslán gegn útgáfu skuldabréfs án þess að hafast nokkuð frekar að við könnun á getu hans til að endurgreiða lánið. Falli á hinn bóginn umsækjandi í síðarnefnda hópinn og hafi hann í hyggju að uppfylla skilyrði fyrir námsláni með því að fá annan mann til að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri skuldbindingu sinni verði áfrýjandi að fara eftir fyrirmælum laga nr. 32/2009, þar á meðal með því að meta hæfi umsækjandans til að standa í skilum með lánið, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.
Þótt annað sé ekki sagt í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 um hvers efnis greiðslumat skuli vera en að það eigi að byggja á viðurkenndum viðmiðum verður að gæta að því að í starfsemi fjármálafyrirtækja og ýmissa annarra lánveitenda hafa slík möt verið gerð um langt árabil í tengslum við lánveitingar til einstaklinga og er það nú að auki í ýmsum tilvikum skylt, sbr. 10. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán. Má í því ljósi slá föstu að fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 hafi verið fyrir hendi viðteknar venjur um á hvaða grundvelli mat væri byggt á getu lántaka til að standa við greiðslur samkvæmt lánssamningi. Er og ljóst að inntak þeirra venja birtist nú í 1. mgr. 6. gr. áðurnefndrar reglugerðar nr. 920/2013. Verður að líta svo á að þetta séu þau viðurkenndu viðmið, sem skírskotað er til með orðum 2. málsliðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009.
Mat áfrýjanda á lánshæfi umsækjanda um námslán eftir fyrrnefndu ákvæði úthlutunarreglna hans er sem áður segir bundið við athugun á því hvort umsækjandinn sé í vanskilum við áfrýjanda vegna eldra láns, hvort bú umsækjandans sé til gjaldþrotaskipta og hvort hann geti af öðrum sökum talist bersýnilega ótryggur lántaki. Áfrýjandi hefur ekki gert grein fyrir því hvort könnun á síðastnefnda atriðinu taki til nokkurs annars en athugunar á vanskilaskrá. Sé lagt til grundvallar að ekki sé gætt að öðru í tengslum við það skilyrði fer því fjarri að mat áfrýjanda á lánshæfi sé reist á upplýsingum meðal annars um áætlaðar tekjur umsækjanda á endurgreiðslutíma láns, aðrar skuldir hans og endurgreiðslur af þeim, eignir hans og áætlaðan framfærslukostnað, svo sem gera verður við greiðslumat eftir viðurkenndum viðmiðum í fyrrgreindum skilningi. Verður og að gæta að því að atriði, sem valdið gætu að umsækjandi um námslán teldist ekki fullnægja skilyrðum áfrýjanda um lánshæfi, svo sem vanskil á afborgun af eldra láni frá áfrýjanda eða færsla á vanskilaskrá vegna vanefnda á skuldbindingu við annan lánardrottin, þyrftu ekki um leið að valda því að umsækjandinn teldist að gerðum útreikningi ófær í framtíðinni um að endurgreiða lán frá áfrýjanda og stæðist þar með ekki greiðslumat. Þótt aðstæður umsækjenda um lán frá áfrýjanda kunni í mörgum tilvikum að vera með þeim hætti vegna ungs aldurs þeirra og takmarkaðrar þátttöku á vinnumarkaði að örðugt sé að koma við mati af framangreindum toga á greiðslugetu þeirra í framtíð, sem á þó ekki við um það tilvik sem mál þetta varðar, getur áfrýjandi ekki á þeim grunni látið gagnvart skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 með öllu ógert að gera slíkt mat, þótt á takmörkuðum forsendum yrði byggt, og stuðst þess í stað eingöngu við lánshæfismat sitt.
Að virtu framangreindu verður að leggja til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki réttilega uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 til að leggja mat á getu Maríu til að endurgreiða námslán, sem hún sótti um 25. mars 2010, áður en stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld hennar við áfrýjanda. Að fenginni þeirri niðurstöðu getur ekki reynt á hvort áfrýjandi hafi jafnframt brotið gegn skyldu samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar til að ráða stefndu skriflega frá því að gangast undir þessa ábyrgð, svo sem stefnda hefur einnig borið fyrir sig, enda getur ekki komið til slíkrar skyldu nema greiðslumat hafi verið gert og það bendi til að lántaki muni ekki geta efnt skuldbindingar sínar.
Um afleiðingar þess að áfrýjandi hafi með áðurgreindum hætti vanrækt gagnvart stefndu skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 er þess að gæta að hvergi er í þeim lögum kveðið á um hverju það geti varðað. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur ítrekað verið slegið föstu að ógilding ábyrgðarskuldbindingar vegna atvika sem þessara geti því aðeins komið til álita að þeirri afleiðingu verði fundin stoð í almennum reglum samningaréttar og þá einkum ákvæðum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Því til samræmis verður að taka afstöðu til þeirrar málsástæðu stefndu að efni séu til að víkja til hliðar skuldbindingu hennar við áfrýjanda með stoð í 36. gr. síðastnefndra laga. Við mat á því hvort það geti talist ósanngjarnt af áfrýjanda í skilningi þess lagaákvæðis að bera fyrir sig yfirlýsingu stefndu 1. desember 2010 um sjálfskuldarábyrgð á skuld Maríu við hann er til þess að líta að ekkert liggur fyrir í málinu um fjárhag þeirrar síðarnefndu, efnahag hennar eða tekjur, hvorki nú né þegar stefnda tók þessa skuldbindingu á sínar herðar, og verður því ekkert ráðið um hvað kynni að hafa verið leitt í ljós með réttilega gerðu mati á greiðslugetu Maríu. Þótt ætla verði að almennt hljóti ábyrgðarmaður í þeim fjölskyldutengslum við lántaka, sem stefnda er við Maríu, að búa yfir nokkurri vitneskju um aðstæður hans og fjárhag er ófært að byggja á því að greiðslumat hefði ekki í þessu tilviki getað leitt í ljós atriði, sem áhrif gætu haft á töku ákvörðunar um hvort stofna ætti til ábyrgðarskuldbindingar. Þegar af þessum ástæðum er því óhjákvæmilegt að láta vanrækslu áfrýjanda valda því að yfirlýsingu stefndu um sjálfskuldarábyrgð verði vikið til hliðar og staðfesta þar með niðurstöðu hins áfrýjaða dóms.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lánasjóður íslenskra námsmanna, greiði stefndu, Auði Dungal Jónsdóttur, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Viðars Más Matthíassonar
I
Stefnda höfðaði mál þetta fyrir héraðsdómi 30. september 2016 og gerir þá kröfu að felld verði úr gildi sjálfskuldarábyrgð sem hún gekkst í 1. desember 2010 á námsláni nr. G-114035 sem áfrýjandi veitti dóttur hennar, Maríu Dungal. Ábyrgðin nam allt að 7.000.000 krónum, sem taka skyldi breytingum til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs frá grunntölunni 363,8.
Áður en málið var höfðað beindi María Dungal því til áfrýjanda í bréfi 24. október 2015 að sjálfskuldarábyrgð stefndu á áðurnefndu námsláni sínu yrði felld niður. Ástæðu þess að fella skyldi sjálfskuldarábyrgðina niður tilgreindi María að áfrýjandi hefði vanrækt að meta greiðslugetu hennar sem lántaka samkvæmt b. lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Í bréfinu var fullyrt að sjálfskuldarábyrgð stefndu væri ógild þar sem ,,ófrávíkjanlegum skilyrðum 4. og 5. gr. laga um ábyrgðarmenn“ hefði ekki verið fullnægt.
Í stefnu til héraðsdóms reisti stefnda ógildingarkröfu sína á framangreindri röksemd og jafnframt þeirri að áfrýjandi hefði ekki, í ljósi þess að hann taldi Maríu ekki lánshæfa samkvæmt reglum stjórnar sjóðsins, farið að fyrirmælum 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og ráðið stefndu með skriflegri tilkynningu frá því að gangast í ábyrgð á námsláninu til dóttur hennar. Í stefnunni var á hinn bóginn hvergi byggt á þeirri málsástæðu að ef stefnda hefði fengið slíka skriflega tilkynningu hefði það leitt til þess að hún hefði ekki gengist í sjálfskuldarábyrgðina.
Í héraðsgreinargerð áfrýjanda var því á hinn bóginn haldið fram að af atvikum málsins yrði ekki annað ráðið en að stefnda ,,hefði undirgengist ábyrgðina þótt lántakinn hefði, til viðbótar við að standast ekki lögbundið mat [áfrýjanda] á hæfi til að standa í skilum og teljast þannig ólánshæfur, ekki staðist annars konar mat.“ Af gögnum málsins og endurritum þinghalda í héraði kemur hvergi fram að stefnda hafi andmælt þeirri málsástæðu áfrýjanda að hún hefði gengist undir sjálfskuldarábyrgðina á láni dóttur sinnar óháð niðurstöðu um lánshæfi eða greiðslumat. Því var ekki haldið fram af hálfu stefndu að tilkynning samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 hefði einhverju breytt um þessa afstöðu hennar. Í reifun héraðsdóms á málsástæðum og lögfræðilegum rökum málsaðila kemur heldur ekki fram að stefnda hafi reist mál sitt á þessari málsástæðu.
Þrátt fyrir að framangreindri málsástæðu hafi þannig ekki verið teflt fram af hálfu stefndu fyrir héraðsdómi reisir dómurinn niðurstöðu sína á henni. Í dóminum segir að margt bendi til að vilji stefndu hafi staðið til þess að tryggja dóttur sinni námslán án tillits til raunverulegrar greiðslugetu hennar. Ekkert verði þó um það fullyrt ef áfrýjandi, sem opinber lánastofnun, hefði með skriflegum hætti ráðið henni frá slíkri ábyrgð með vísan til þess að greiðslumat fyrirhugaðs lántaka samkvæmt viðurkenndum viðmiðum hefði reynst neikvætt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Eins og málið horfi við taldi dómurinn því ekki unnt að leggja til grundvallar að áfrýjanda ,,hafi tekist sönnun þess að áðurlýst brot hafi ekki haft þýðingu um þá ákvörðun stefnanda að takast á hendur hina umdeildu sjálfskuldarábyrgð.“ Var þegar af þessum ástæðum fallist á ógildingu yfirlýsingar stefndu um sjálfskuldarábyrgðina.
Eins og rakið er að framan reisti stefnda málatilbúnað sinn í héraði ekki á þeirri málsástæðu að ef hún hefði fengið skriflega tilkynningu frá áfrýjanda samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 þar sem henni var ráðið frá því að gangast í ábyrgð á námsláni dóttur sinnar, þá hefði hún ekki gert það. Héraðsdómi var því samkvæmt 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki heimilt að byggja niðurstöðu sína á þessari málsástæðu. Áfrýjandi hafði, í ljósi þess hvernig stefnda hagaði málatilbúnaði sínum, ekkert tilefni til þess að krefjast sönnunarfærslu um það hvaða áhrif slík skrifleg tilkynning hefði haft. Var sem endranær ekkert tilefni til að freista þess að sanna atvik sem ekki voru umdeild með aðilum. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur það almennt leitt til ómerkingar héraðsdóms sé hann reistur á málsástæðum sem málsaðilar hafa ekki teflt fram, sbr. til dæmis dóma réttarins 14. apríl 2011 í máli nr. 560/2010, 10. nóvember 2011 í máli nr. 330/2011, 1. desember 2016 í máli nr. 186/2016 og 26. apríl 2018 í máli nr. 411/2017.
Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að ómerkja beri hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til munnlegs flutnings og dómsálagningar á ný.
Að fenginni slíkri niðurstöðu tel ég rétt að fella niður málskostnað fyrir Hæstarétti.
II
Samkvæmt 6. málslið 2. mgr. 189. gr. laga nr. 91/1991 ber mér einnig að greiða atkvæði um efni málsins.
Ég er sammála reifun meirihluta dómenda á atvikum í I. kafla dómsins og mestum hluta þess sem fram kemur í II. kafla hans til og með þeirri ályktun að leggja verði til grundvallar að áfrýjandi hafi ekki réttilega uppfyllt skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 til að meta getu Maríu Dungal til að endurgreiða námslán, sem hún sótti um 25. mars 2010, áður en stefnda gekkst í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuld hennar við áfrýjanda. Ég tel á hinn bóginn að við þær aðstæður hefði áfrýjandi, þótt hann teldi sig ranglega ekki þurfa að framkvæmda sérstakt mat á ætlaðri greiðslugetu Maríu heldur látið nægja að telja hana ekki lánshæfa samkvæmt eigin reglum, borið að senda stefndu skriflega tilkynningu samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009, þar sem sjóðurinn réði henni frá því að gangast í sjálfskuldarábyrgðina.
Eins og rakið er í I. kafla þessa sératkvæðis byggði stefnda ekki á því í málatilbúnaði sínum fyrir héraðsdómi að slík tilkynning hefði haft einhver áhrif á ákvörðun hennar um að gangast í sjálfskuldarábyrgðina. Er ekki heldur að sjá í gögnum málsins að málsástæðu áfrýjanda, um að engu hefði skipt um ákvörðunina hvort María hefði ekki talist lánshæf eða ekki staðist lögboðið greiðslumat, hafi verið mótmælt. Þvert á móti var eingöngu byggt á því af hálfu stefndu í héraði að brot áfrýjanda á 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 ættu ein og sér að leiða til ógildingar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur því ítrekað verið hafnað að ógilda löggerninga sem falið hafa í sér sjálfskuldarábyrgð eða veitingu veðleyfis af hálfu löggerningsgjafa, þrátt fyrir að lánveitandi hafi ekki farið að reglum um greiðslumat eða sinnt upplýsingaskyldu við öflun ábyrgða eða veðleyfa, ef sannað þykir eða ella óhætt að leggja til grundvallar dómi að það hefði engu breytt um hvort ábyrgð eða veðleyfið var veitt. Má um þetta meðal annars vísa til dóma réttarins 21. október 2010 í máli nr. 116/2010 og 19. febrúar 2015 í máli nr. 481/2014.
Eins og málatilbúnaði aðila var háttað í héraði tel ég að leggja verði til grundvallar að eiginlegt greiðslumat og tilkynning samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 hefði engu breytt um þá ákvörðun stefndu að gangast í sjálfskuldarábyrgð fyrir námsláni dóttur hennar. Þess vegna komi ekki til álita að ógilda yfirlýsingu hennar um ábyrgð á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.
Samkvæmt öllu framansögðu tel ég að efnisleg niðurstaða eigi að vera sú að áfrýjandi verði sýknaður af kröfu stefndu.
Í þessu tilvik tel ég rétt, með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2017.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 30. september 2016 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. febrúar 2017. Stefnandi er Auður Dungal Jónsdóttir, Stjörnugróf 27, Reykjavík. Stefndi er Lánasjóður íslenskra námsmanna, Borgartúni 21, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að „felld verði úr gildi sjálfskuldarábyrgð sú sem hún veitti, með undirritun á skuldabréf vegna námsláns, númer G-114035, útgefnu af Maríu Dungal, kt. [...], upphaflega að fjárhæð 7.000.000 kr., til stefnda, dags. 1.12.2010“. Hún krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika
Efnislegur ágreiningur aðila snýr að sjálfsskuldarábyrgð sem stefnandi tókst á hendur gagnvart stefnda með undirritun yfirlýsingar þess efnis á skuldabréf sem dóttir hennar, María, gaf út 1. desember 2010 vegna námsláns sem hún hafði sótt um hjá stefnda. Atvik málsins eru ágreiningslaus.
Fyrrnefnd dóttir stefnanda sótti um námslán hjá stefnda í mars 2010 vegna náms í viðskiptafræði í erlendis. Á umsókninni var stefnandi tilgreind sem umboðsmaður lántaka með fullt og ótakmarkað umboð. Jafnframt fólst í umboðinu heimild til að útvega lántaka ábyrgðarmann. Dóttir stefnanda taldist ekki lánshæf samkvæmt reglum stefnda og var því gerð krafa um viðunandi ábyrgð með bréfi 25. maí 2010 til stefnanda. Þar sagði meðal annars: „Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur yfirfarið umsókn þína um námslán. Samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins, grein 5.1.8, verða lánþegar að vera í skilum við sjóðinn og bú þeirra mega ekki vera til gjaldþrotameðferðar eða þeir teljast af öðrum ástæðum bersýnilega ótryggir lántakendur. [/] Nafn þitt er á vanskilaskrá Lánstrausts hf. og því að svo stöddu ekki hægt að afgreiða til þín fyrirhugað námslán. Hafir þú gert upp eða leiðrétt þau mál sem valda því að nafn þitt er á skránni ertu vinsamlegast beðinn að hafa samband við Lánstraust hf. [...] Teljist námsmaður ótryggur lántakandi skv. ofangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda sýni hann fram á annað, eða leggi fram ábyrgðir sem sjóðurinn telur viðunandi. Tekið skal fram að ábyrgðarmaður mun verða upplýstur um greiðslugetu þína skv. lögum nr. 32/2009. Þær upplýsingar verða í formi stöðu skv. vanskilaskrá Lánstrausts hf.“ Samhljóða bréf var sent stefnanda sem umboðsmanni lántakans 16. júlí 2010. Samkvæmt greinargerð stefnda var kennitölu námsmannsins flett upp á vef Creditinfo Lánstrausts hf. þann dag og staðfest að hún væri á vanskilaskrá.
Hinn 19. ágúst 2010 sendi dóttir stefnanda starfsmanni stefnda tölvuskeyti, þar sem hún óskaði eftir leiðbeiningum, þar á meðal hvort hún gæti fengið lán ef hún aflaði ábyrgðarmanns. Með tölvuskeyti 25. sama mánaðar svaraði starfsmaður stefnda og upplýsti að námslán yrði væntanlega afgreitt, að öðrum skilyrðum uppfylltum, ef lántakinn væri kominn af vanskilaskrá eða ábyrgðarmaður skráður. Sama dag svaraði dóttir stefnanda tölvuskeyti stefnda og upplýsti að ábyrgðarmaður hennar vegna lánsins yrði stefnandi. Hinn 1. september 2010 mun kennitölu námsmannsins aftur hafa verið flett upp á vef Creditinfo Lánstrausts hf. og staðfest að hún væri skráð á vanskilaskrá. Þennan sama dag var stefnanda sent bréf, þar sem upplýst var formlega um tilnefningu hennar sem ábyrgðarmanns. Í bréfinu sagði orðrétt: „Þú hefur verið tilnefndur sem ábyrgðarmaður fyrir námsmann sem hefur óskað eftir námsláni hjá LÍN. Skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 ber LÍN að senda öllum ábyrgðarmönnum meðfylgjandi upplýsingar. Meðfylgjandi er m.a. greiðslusaga námsmannsins skv. Lánstrausti en þar sem ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um greiðslugetu hans til framtíðar er litið svo á að þessar upplýsingar séu fullnægjandi. Athygli er vakin á því að þar sem endurgreiðsla á námsláninu hefst ekki fyrr en tveimur árum eftir námslok mun greiðslugeta námsmannsins verða önnur til framtíðar.“ Ekki er um það deilt að með bréfinu fylgdi útprent af stöðu lántaka á vanskilaskrá samkvæmt Creditinfo Lánstrausti hf. Jafnframt fylgdi yfirlýsing með fyrirsögninni „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“ sem stefndi óskaði eftir að yrði undirrituð og send stefnda.
Hinn 1. desember 2010 gaf stefnandi út skuldabréf vegna námsláns fyrir hönd dóttur sinnar. Jafnframt undirritaði hún yfirlýsingu um sjálfsskuldarábyrgð fyrir 7.000.000 króna að hámarki, bundinni vísitölu neysluverðs. Sú yfirlýsing sem stefnandi undirritaði var svohljóðandi: „Ábyrgðarmaður hefur verið upplýstur um greiðslugetu lántaka o.fl. atriði skv. 5. gr. laga nr. 32/2009 og staðfest það með undirritun sinni á sérstaka yfirlýsingu þar að lútandi sem skoðast sem hluti þessa skuldabréfs.“
Hinn 15. sama mánaðar, eða um tveimur vikum eftir útgáfu skuldabréfsins, undirritaði stefnandi fyrrgreinda yfirlýsingu með fyrirsögninni „Upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“. Í yfirlýsingunni segir meðal annars: „LÍN hefur upplýst undirritaðan um greiðslusögu lántakanda í samræmi við 4. gr. laga nr. 32/2009 eins og fram kemur á meðfylgjandi fylgiskjali. Frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakanda er ekki að fá. Vakin er athygli á því að umrætt lán mun ekki greiðast fyrr en 2 árum eftir að námi lýkur og þá verða aðstæður lántakanda aðrar en í dag, þ.á.m. greiðslugeta.“ Hinn 5. janúar 2011 var stefnanda send staðfesting á sjálfskuldarábyrgðinni. Í bréfinu segir orðrétt: „Öllum sem ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir námslán hjá LÍN er sent bréf sem þetta til staðfestingar á ábyrgð þeirra. Fjallað er um ábyrgð námslána, réttindi og skyldur ábyrgðarmanna í kafla 5.3. í úthlutunarreglum LÍN. Þær má m.a. nálgast á vef sjóðsins (www.lin.is).“
Stefnandi fékk send yfirlit sem ábyrgðarmaður frá stefnda 30. janúar 2012, 4. febrúar 2013, 13. febrúar 2014, 23. febrúar 2015 og 29. mars 2016. Á yfirlitinu 13. febrúar 2014 var tekið fram að skuldabréfið væri í vanskilum og staða ábyrgðar næmi 4.315.599 krónum. Með bréfi 24. október 2015 óskaði dóttir stefnanda eftir því að stefndi felldi niður ábyrgð stefnanda á námsláni hennar. Stefndi svaraði framangreindu erindi með bréfi 17. nóvember þess árs, þar sem beiðninni var hafnað.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að téð lán væri ekki í vanskilum að svo stöddu en engu að síður væri talið fyrirsjáanlegt að reyna kynni á ábyrgð stefnanda vegna lánsins.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfu sína á því að ábyrgð sú sem hún gekkst undir með undirritun sinni á skuldabréfið sé ógild þar sem stefndi hafi brotið með veigamiklum hætti gegn skráðum og óskráðum reglum, einkum 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eins og sú grein hafi verið skýrð í dómum Hæstaréttar þar sem skorið hafi verið úr gildi sjálfsskuldarábyrgðar. Stefnandi vísar til þess að greiðslumat hafi aldrei verið gert og stefnandi ekki upplýstur um þau atriði sem fram koma í 5. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi byggir á því að í bréfi stefnda, dags. 17. nóvember 2015, felist viðurkenning á því að ekkert greiðslumat hafi verið framkvæmt.
Stefnandi mótmælir þeirri afstöðu stefnda að þegar atvik málsins gerðust hafi ekki legið fyrir hvernig standa hafi átt að greiðslumati sökum þess að þá hafði ekki verið sett reglugerð um framkvæmd slíks mats. Telur stefnandi að stefnda hafi engu að síður borið að fylgja viðurkenndum aðferðum í þessu sambandi en slíkar aðferðir hafi legið fyrir og verið stefnda vel ljósar. Í hið minnsta sé ljóst að það að leggja fram eitt skjal, þ.e. útprentun um vanskil lántaka, geti undir engum kringumstæðum talist fullnægjandi greiðslumat í skilningi laga nr. 32/2009. Þessu til stuðnings er vísað til athugasemdar við 4. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 32/2009 þar sem segir meðal annars að aðalatriðið sé að matið sé forsvaranlegt og byggist á viðurkenndum viðmiðum. Um hinar viðurkenndu venjur vísar stefnandi meðal annars til núgildandi reglugerðar um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013, einkum 6.-8. gr. reglugerðarinnar. Stefnandi byggir á því að um fastmótaðar og vel þekktar venjur sé að ræða sem stefnda hafi borið að fylgja. Hafi stefnda samkvæmt þessu hið minnsta borið að reikna út kostnað við framfærslu lántaka í samræmi við grunnviðmið í íslenskum neysluviðmiðum auk áætlana um rekstrarkostnað bifreiða og húsnæðis, eins og við á.
Auk framangreinds byggir stefnandi á því að stefndi hafi brotið gegn 2. mgr. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Sú skylda hafi hvílt á stefnda að ráða stefnanda frá því með skriflegum hætti að gangast í ábyrgðina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. Sömu skyldu megi í raun leiða af 3. mgr. 4. gr., en þar segi að með sama hætti skuli lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Þar sem lántakinn hafi verið á vanskilaskrá verði að telja nokkuð ljóst að slíkar aðstæður voru til staðar hvað lántakann varðar. Það eina sem komi fram í gögnum stefnda sé að stefndi hafi upplýst stefnanda um greiðslusögu lántakandans og að frekari upplýsingar um greiðslugetu lántakans væri ekki að fá. Byggir stefnandi á því að hér sé um að ræða óundanþægar reglur um veitingu ábyrgðar sem fylgja ber þegar greiðslumat bendir til að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar, sbr. úrskurð Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki nr. 127/2012. Telur hann að ef stefnda yrði heimilað, bæði að láta hjá líða að framkvæma greiðslumat sem og að sleppa því að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð, sé ljóst að framangreind ákvæði 4. gr. laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, yrðu í raun dauð og ómerk og hefðu engin raunveruleg réttaráhrif.
Til viðbótar öllu framangreindu telur stefnandi að stefndi hafi ekki í hvívetna fylgt ákvæðum 5. gr. laga nr. 32/2009. Vísar hann einkum til þess að stefndi hafi ekki veitt stefnanda upplýsingar um „hvort ábyrgðarmaður geti orðið sér úti um ábyrgðartryggingu í stað ábyrgðar“, sbr. h-lið 1. mgr. greinarinnar. Einnig telur stefnandi ekki ljóst hvort stefnandi hafi uppfyllt skyldu sína til að senda tilkynningar á grundvelli 7. gr. laganna, m.a. áramótayfirlit sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr.
Samkvæmt öllu framangreindu verði að telja ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera fyrir sig samþykki stefnanda við því að gangast í framangreinda ábyrgð, þannig að uppfyllt séu skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Stefndi hafi haft mikla hagsmuni af því að ábyrgðin væri veitt og hún verið í hans þágu. Öll skjöl hafi verið samin af stefnda sem bjó yfir sérfræðiþekkingu á sviði fjármálaþjónustu. Hvað varðar efni samningsins og atvik við samningsgerðina er bent á að stefnandi naut einskis af láninu. Þvert á móti tók hún eingöngu áhættu með gerningum án nokkurs ávinnings. Stefnandi hafi ekki fengið þær upplýsingar eða aðvaranir sem stefnda bar að afhenda. Staða aðila hafi verið með þeim hætti að stefnandi sé einstaklingur með enga þekkingu á lánastarfsemi á meðan stefndi sé lánastofnun sem hafi á að skipa sérfróðum starfsmönnum með sérfræðiþekkingu á lánamarkaði. Á stefnda hafi hvílt ákveðnar skyldur sem hann hafi brotið. Séu því uppfyllt skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 til að víkja umræddri ábyrgð til hliðar.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir varnir sínar á því að umrædd ábyrgð sé ekki ógildanleg á grundvelli ógildingareglna laga nr. 7/1936. Það leiði ekki sjálfkrafa til þess að ábyrgðarsamningur verði ógiltur í heild eða að hluta að lánveitandi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum. Finna þurfi slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa eigi ábyrgðarmann undan skyldum sínum samkvæmt ábyrgðarsamningi. Öll sönnunarbyrði fyrir því að um ógilda ábyrgðarskuldbindingu sé að ræða hvílir á stefnanda en hún hefur í engu sýnt fram á að skilyrði til ógildingar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Þvert á móti hafi stefnandi uppi rangar og haldlausar staðhæfingar, svo sem að frumkvæði ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi verið hjá stefnda og að stefnandi hafi ekki fengið upplýsingar er lúta að ábyrgðinni.
Stefndi vísar til þess að stefnanda hafi verið kunnugt um að lántaki stóðst ekki mat stefnda á hæfi lántakans til að standa í skilum og var á vanskilaskrá. Þá hafi stefnanda verið veittar þær upplýsingar sem kveðið er á um í 5. gr. laga nr. 32/2009. Stefnandi hafi einnig verið umboðsmaður lántaka og fengið öll samskipti í aðdraganda og í tengslum við veitingu lánsins og sjálfsskuldarábyrgðarinnar. Stefnanda hafi verið ljóst að lánið var ætlað til framfærslu lántaka, dóttur hennar, og veiting ábyrgðarinnar forsenda lánveitingarinnar. Ekki sé gerð krafa um ábyrgð af hálfu stefnda nema mat samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/2009 leiði til þeirrar niðurstöðu að lántaki sé ótraustur og bendi þar með til þess að hann geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Þrátt fyrir þessar upplýsingar hafi stefnandi ákveðið að undirgangast ábyrgðina.
Af framangreindu verði ekki annað ráðið en að stefnandi hefði undirgengist ábyrgðina þótt lántakinn hefði, til viðbótar við að standast ekki lögbundið mat stefnda á hæfi til að standa í skilum og teljast þannig ólánshæfur, ekki staðist annars konar mat. Er þessu til stuðnings vísað til tilgreindra dóma Hæstaréttar. Heildarmat á aðstæðum aðila samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 geti ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að sjálfsskuldarábyrgð stefnanda teljist gild. Þessu öllu til viðbótar liggi fyrir að stefndi fór í einu og öllu eftir lögum og reglum um stefnda og lögum um ábyrgðarmenn þegar stefnandi veitti þá sjálfsskuldarábyrgð sem hér um ræðir.
Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi staðfest sjálfsskuldarábyrgð sína með undirritun sinni á fyrrgreint skuldabréf. Þá hafi stefnandi ritað undir sérstaka yfirlýsingu af þessu tilefni. Samandregið hafi stefnandi, með undirritun sinni á nefnd skjöl, staðfest að hafa verið upplýst um greiðslugetu lántaka og önnur atriði samkvæmt 5. gr. laga nr. 32/2009 og að hafa fengið upplýsingar um greiðslusögu lántaka samkvæmt 4. gr. laganna, þ.e. skráningu á vanskilaskrá Creditinfo Lánstrausts hf. Sannað sé að stefnanda hafi verið ljóst að lántakinn var ekki metinn lánshæfur samkvæmt reglum stjórnar stefnanda eða henni hafi í öllu falli mátt vera þetta ljóst. Er vísað til þess að úthlutunarreglur stefnda séu settar af stjórn sjóðsins, staðfestar af ráðherra og birtar með auglýsingu í B-deild stjórnartíðinda og sé að auki að finna á heimasíðu stefnanda.
Stefndi vísar til þess að stefnandi hafi ekki á nokkrum tímapunkti sett sig í samband við stefnda og mótmælt gildi ábyrgðarinnar eða framkvæmd stefnda hvað hana varðar. Þvert á móti hafi stefnandi frá upphafi gegnt hlutverki umboðsmanns lántaka og þannig móttekið athugasemdalaust erindi og upplýsingar um stöðu lántakans í aðdraganda ábyrgðarveitingarinnar, upplýsingar um stöðu lánsins og ábyrgðarinnar. Þá hafi lántaki ekki gert tilraun til þess að sýna fram á að niðurstaða mats stefnda hafi verið röng, þ.e. sú niðurstaða að lántaki væri ótraustur. Málsástæður stefnanda, sem lúta að formskilyrðum laga um ábyrgðarmenn, verði að skoða í þessu ljósi.
Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og leggur áherslu á að með ákvæðinu hafi ekki verið slegið föstum nákvæmum viðmiðum um framkvæmd greiðslumats. Þvert á móti komi fram í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 32/2009 að talið hafi verið óþarft að slá föstum slíkum viðmiðum sem leggja beri til grundvallar greiðslumati enda geti framkvæmd í þeim efnum verið háð blæbrigðum lánveitanda. Stefndi bendir á að reglugerð um lánshæfis- og greiðslumat nr. 920/2013 eigi ekki við um stefnda og komi ekki til skoðunar í málinu. Þá sé fráleit tilvísun stefnanda til neysluviðmiða Rágjafarstofu um fjármál heimilanna o.fl., sem sett sé fram án nokkurs rökstuðnings eða gagna.
Stefndi leggur áherslu á að sérlög gildi um starfsemi stefnda sem mæli skýrlega fyrir um hvernig beri að haga mati á því hvort námsmenn teljist traustir lántakar, sbr. 5. mgr. 6. gr. laga um nr. 21/1992, eins og greininni var breytt með lögum nr. 78/2009. Einnig er vísað til V. kafla úthlutunarreglna stefnda. Óumdeilt sé að stefndi hafi framkvæmt mat samkvæmt þessum reglum og niðurstaðan verið sú að lántakinn teldist ekki lánshæfur og þar með ótryggur lántaki. Telur stefndi að leggja verði það mat sem fram fór á grundvelli umræddra reglna að jöfnu við greiðslumat samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Önnur túlkun sé ekki tæk, enda hafi fyrrnefndar breytingar á lögum um stefnda verið bundnar í lög, eftir að lög um ábyrgðarmenn tóku gildi. Jafnframt beri að líta svo á að greiðslumat stefnda hafi samkvæmt þessu farið fram samkvæmt viðurkenndum viðmiðum í skilningi laganna.
Þá vísar stefndi til félagslegs hlutverks síns og telur að kröfur samkvæmt lögum nr. 32/2009 verði að túlka í því ljósi. Það leiði af eðli málsins að aðili sem þurfi lánsfé til framfærslu og sé í námi, hafi að jafnaði takmarkaðar eða engar tekjur. Endurgreiðsla námslána sé einnig háð tekjum og vextir á þeim niðurgreiddir. Stefndi telur ljóst að aðilar sem þurfi lán til eigin framfærslu standist ekki nokkurt greiðslumat ef fyrir liggi að þeir séu á vanskilaskrá og viðkomandi aðilar veiti engar upplýsingar til að hnekkja því mati. Framkvæmd einhvers konar greiðslumats, að fenginni þeirri niðurstöðu að viðkomandi sé á vanskilaskrá, sem felst í skoðun á neysluviðmiðum og rekstrarkostnaði bifreiða og húsnæðis svo sem stefnandi virðist leggja til, sé því bersýnilega tilgangslaust.
Stefndi mótmælir því að hafa brotið gegn 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 og vísar til allra þeirra upplýsinga sem stefnanda hafi verið veittar og þeirra yfirlýsinga sem hún hafi undirritað. Er bent á að engin gögn liggi fyrir sem sýni að stefnandi hafi ekki getað gert sér grein fyrir ábyrgð sinni eða annað sem hefði getað gefið stefnda vísbendingar um að aðstæður stefnanda væru með þeim hætti að tilefni væri til að ráða henni frá því að taka á sig ábyrgðina, sbr. ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga um ábyrgðarmenn. Í raun liggi ekki fyrir nein gögn um stöðu stefnanda að nokkru leyti og þegar af þeirri ástæðu sé útilokað að taka ógildingarkröfu hennar til greina.
Niðurstaða
Við aðalmeðferð málsins lýstu lögmenn aðila því yfir að fyrirsjáanlegt væri að áðurlýst sjálfsskuldarábyrgð stefnanda yrði virk. Að þessu virtu verður á það fallist með aðilum að stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr stefnukröfu sinni og kemur sjálfkrafa frávísun málsins því ekki til álita. Þá verður að skilja stefnukröfu á þá leið að þess sé krafist að viðurkennt verði að áðurlýst sjálfsskuldarábyrgð stefnanda sé ógild.
Svo sem áður greinir gekkst stefnandi í sjálfsskuldaábyrgð fyrir dóttur sína með undirritun yfirlýsingar þess efnis á skuldabréf vegna námsláns hinn 1. desember 2010. Þá ritaði stefnandi undir sérstakt skjal, „upplýsingar til ábyrgðarmanns skv. 5. gr. laga nr. 32/2009“, hinn 15. sama mánaðar. Liggur þannig fyrir að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sem tóku gildi 4. apríl þess árs, giltu um stofnun sjálfsskuldaábyrgðar stefnanda, en stefndi er sérstaklega talinn upp sem ein þeirra stofnana sem fellur undir gildissvið laganna, sbr. 1. mgr. 2. gr. þeirra. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna bar stefnda, sem lánveitanda, því að meta hæfi hlutaðeigandi lántaka til að standa í skilum með það lán sem stefnandi hugðist gangast í ábyrgð fyrir og skyldi greiðslumatið byggjast á viðurkenndum viðmiðum. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar bar stefnda, með skriflegum hætti, að ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat benti til þess að lántaki gæti ekki efnt skuldbindingar sínar.
Með lögum nr. 78/2009, sem tóku gildi 30. júlí 2009, var breytt 6. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með lögunum var afnumið það fyrirkomulag að námsmenn skyldu almennt leggja fram sjálfsskuldarábyrgð þriðja manns fyrir þeim námslánum sem þeir sæktu um. Þess í stað var kveðið á um að þeir námsmenn, sem ekki teldust lánshæfir samkvæmt reglum stefnda, gætu lagt fram ábyrgðir sem stefndi teldi viðunandi. Var tekið fram að þessar ábyrgðir gætu meðal annars verið sjálfsskuldarábyrgðir á endurgreiðslu námsláns ásamt vöxtum og verðtryggingu þess allt að tiltekinni fjárhæð. Af athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 78/2009 verður ráðið að í lögunum fólst ráðagerð um að hver námsmaður ætti almennt sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslu eigin námsláns. Í þágu námsmanna, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði, væri hins vegar viðhaldið þeim möguleika að láta ábyrgðarmann ábyrgjast endurgreiðslur námsláns eða þá að lögð væri fram bankatrygging eða veðtrygging.
Með hliðsjón af hlutverki stefnda samkvæmt 1. gr. laga nr. 21/1992 verður samkvæmt framangreindu að miða við að með fyrrgreindum lögum nr. 78/2009 hafi verið að því stefnt að námsmönnum, sem ekki uppfylltu lánshæfisskilyrði stefnda, yrðu veitt námslán að uppfylltum nánari skilyrðum um ábyrgðir í úthlutunarreglum stefnda, þ. á m. sjálfsskuldarábyrgðir. Þrátt fyrir þetta var í frumvarpi til laganna, eða lögunum sjálfum, í engu vikið að því hvernig haga bæri framkvæmd sjálfsskuldarábyrgða, sem stofnað yrði til á þessum grundvelli, með hliðsjón af lögum nr. 32/2009 sem þá höfðu tekið gildi. Í ákvæði til bráðabirgða við breytingarlögin nr. 78/2009 var tekið fram að stjórn stefnda skyldi vera bundin af þeim reglum sem fram kæmu í III. kafla laga nr. 32/2009. Að virtum athugasemdum við þá grein verður hins vegar ályktað að ákvæðinu hafi einungis verið ætlað að taka til lána sem veitt höfðu verið fyrir gildistöku laga nr. 32/2009 og skapa ábyrgðarmönnum þessara lána þannig ríkari rétt við innheimtu og mögulega gjaldfellingu.
Samkvæmt framangreindu verður ekki ráðið af lögum nr. 21/1992, eins og þeim var breytt með áðurnefndum lögum nr. 78/2009, að með þeim sé vikið frá fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Verður raunar gagnstæð ályktun dregin af fyrrgreindum athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 78/2009. Gildir þá einu þótt í athugasemdunum sé því ekki veitt athygli hvernig breyttar reglur um ábyrgðarmenn horfa við því hlutverki stefnda að tryggja námsmönnum tækifæri til náms án tillits til efnahags svo og áðurlýstri ráðagerð um að námsmenn, sem ekki uppfylla lánshæfismats, muni halda áfram að afla sjálfsskuldaábyrgðar þriðja manns eða annarra ábyrgða. Með hliðsjón af fortakslausu orðalagi 1. mgr. 2. gr. laga nr. 32/2009 verður því að miða við að fyrrgreindar reglur laganna um stofnun ábyrgðar hafi gilt fullum fetum um þá sjálfsskuldarábyrgð sem stefnandi tókst á hendur í desember 2009.
Í málinu liggur fyrir að stefndi gekk úr skugga um greiðslugetu hlutaðeigandi námsmanns með því að kanna hvort hann væri á svonefndri vanskilaskrá. Jafnframt er ekki um það deilt að stefnanda, sem fyrirhuguðum ábyrgðarmanni, voru kynntar þær upplýsingar. Þá bera gögn málsins með sér að stefnanda hafi verið kynnt sú afstaða stefnda að námsmaðurinn teldist af þessum ástæðum ekki uppfylla skilyrði lánshæfismats samkvæmt grein 5.1.8 í úthlutunarreglum stefnda, en af því mátti ráða að stefndi teldi hlutaðeigandi námsmann vera bersýnilega ótryggan lántakanda.
Ekki er um það deilt að á vegum stefnda fór ekki fram frekari könnun á greiðslugetu umrædds námsmanns en að framan er lýst. Var þannig ekki horft til tekna væntanlegs lántaka eða skulda- og eignastöðu, svo sem almennt er gert við greiðslumat, sbr. til hliðsjónar 6. gr. reglugerðar nr. 920/2013 um lánshæfis- og greiðslumat. Af hálfu stefnda er hins vegar á því byggt að fyrir hafi legið að hlutaðeigandi námsmaður hafi ekki talist uppfylla lánshæfisskilyrði samkvæmt því greiðslumati sem kveðið sé á um í úthlutunarreglum stefnda sem aftur byggist á 5. mgr. 6. gr. laga nr. 21/1992. Hafi það mat stefnda á greiðslugetu lántakans, sem fram fór á grundvelli téðra reglna, jafnast á við það mat sem fara eigi fram samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009, enda sé skýrlega tekið fram í athugsemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 32/2009 að greiðslumat geti ráðist af blæbrigðum hvers og eins lánveitanda.
Jafnvel þótt fallist yrði á það með stefnda að umrætt mat á greiðslugetu hlutaðeigandi lántaka hafi fullnægt kröfu 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 verður að túlka málatilbúnað stefnda á þá leið að þetta mat hafi bent til þess að lántakinn gæti ekki efnt skuldbindingar sínar að mati stefnda. Samkvæmt fortakslausu orðalagi 2. mgr. 4. gr. laganna bar stefnda því, við þessar aðstæður, að ráða stefnanda frá því, með skriflegum hætti, að gangast í ábyrgð fyrir viðkomandi lántaka. Fyrir liggur að slíkri ábendingu var ekki komið áleiðis til stefnanda þegar hún gekkst undir áðurlýsta sjálfsskuldarábyrgð vegna lánsins. Þá getur dómurinn ekki fallist á að þeim margvíslegu upplýsingum sem komið var áleiðis til stefnanda, bæði sem umboðsmanns lántakans og fyrirhugaðs ábyrgðarmanns, verði jafnað til slíkrar formlegrar ábendingar. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að við stofnun áðurlýstrar sjálfsskuldarábyrgðar stefnanda hafi stefndi brotið gegn þeirri ótvíræðu skyldu sinni að ráða stefnanda frá því, með skriflegum hætti, að gangast undir fyrirhugaða sjálfsskuldarábyrgð.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2009 eru lögin sett með það fyrir augum að draga úr vægi ábyrgða og stuðla að því að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu lántaka og hans eigin tryggingar. Í lögunum er ekki kveðið á um réttarfylgjur opinberréttarlegs eðlis, svo sem sektir eða réttindamissi lánveitanda. Þrátt fyrir þetta eru í lögunum engar reglur sem mæla fyrir um einkaréttarleg áhrif brota gegn lögunum, svo sem ógildi samnings, sbr. dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 213/2012. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum segir engu að síður um 5. gr. þeirra að vanræksla lánveitanda við samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður verði ekki bundinn við samning sinn. Kemur þar einnig fram að þetta eigi við ef vitneskja um atriði sem lánveitanda ber að upplýsa samkvæmt greininni hefði getað haft áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð. Segir enn fremur að sönnunarbyrðin um að vanræksla hafi engin áhrif haft á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgð hvíli á lánveitanda.
Samkvæmt framangreindu telur dómurinn að leggja verði til grundvallar að lögum nr. 32/2009 sé ætlað að vernda þá sem gangast í ábyrgðir fyrir lántaka með ófrávíkjanlegum reglum stofnun og fullnustu ábyrgðarsamninga. Með hliðsjón af því sem áður segir um efni laganna er enn fremur ljóst að réttaráhrif laganna takmarkast við einkaréttarleg áhrif, þ.á m. mögulegt ógildi ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað er til í andstöðu við fyrirmæli laganna. Svo sem slegið er föstu í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar getur brot gegn lögunum haft þýðingu við mat á því hvort samningur um ábyrgð teljist ógildur samkvæmt reglum III. kafla laga nr. 7/1936, sbr. einkum 36. gr. laganna eins og henni var breytt með 6. gr. laga nr. 11/1986. Að mati dómsins verður hins vegar einnig að miða við að brot gegn lögunum geti eitt og sér leitt til ógildis við þær aðstæður að fyrir liggur brot hefur haft möguleg áhrif á ákvörðun ábyrgðarmanns um að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingu. Myndi lögskýring í aðra átt jafngilda því að téðar laga nr. 38/2009 viðvíkjandi stofnun ábyrgðarskuldbindinga væru sviptar sjálfstæðum réttaráhrifum og sú vernd sem lögunum er ætlað að tryggja ábyrgðarmönnum gerð marklaus.
Að mati dómsins bendir margt til þess að vilji stefnanda hafi staðið til þess að tryggja dóttur sinni námslán án tillits til raunverulegrar greiðslugetu hennar. Engu að síður verður ekkert fullyrt um hvort stefnandi hefði verið reiðubúin að takast á hendur sjálfsskuldarábyrgð vegna lánsins við þær aðstæður að stefndi, sem opinber lánastofnun, hefði, með skriflegum hætti, ráðið henni frá slíkri ábyrgð með vísan til þess að greiðslumat fyrirhugaðs lántaka, samkvæmt viðurkenndum viðmiðum, hefði reynst neikvætt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Eins og málið horfir við er því ekki unnt að leggja til grundvallar að stefnda hafi tekist sönnun þess að áðurlýst brot hafi ekki haft þýðingu um þá ákvörðun stefnanda að takast á hendur hina umdeildu sjálfsskuldarábyrgð. Verður þegar af þessum ástæðum að fallast á kröfu stefnanda um að ógildi umrædds löggernings verði viðurkennt, svo sem nánar greinir í dómsorði. Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að taka málsástæður stefnanda byggðar á ógildingarreglum III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til sérstakrar skoðunar.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu stefnanda flutti málið Daníel Pedersen hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Þórir Júlíusson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að sjálfsskuldarábyrgð, sem stefnandi, Auður Dungal Jónsdóttir, veitti stefnda, Lánasjóði íslenskra námsmanna, með undirritun á skuldabréf vegna námsláns, númer G-114035, útgefið af Maríu Dungal hinn 1. desember 2010, sé ógild.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.