Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-124

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Hótanir
  • Miskabætur
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. apríl 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar sama ár í málinu nr. 528/2019: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómur Landsréttar var birtur leyfisbeiðanda 15. mars 2021.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir nauðgun og brot gegn blygðunarsemi með því að hafa á tímabilinu frá mars 2015 til byrjunar árs 2017 sýnt af sér lostugt athæfi og sært blygðunarsemi brotaþola er hann beitti hana blekkingum og nýtti sér villu hennar um að hann væri annar maður í samskiptum þeirra á milli á samfélagsmiðlinum Snapchat í þeim tilgangi að eiga í kynferðislegum samskiptum við hana og brjóta gegn henni með nánar tilgreindum hætti. Voru brotin talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var meðal annars sérstaklega litið til þess hver framganga og háttsemi leyfisbeiðanda hefði verið þann langa tíma sem brot hans áttu sér stað. Annars vegar hefði hann í samskiptum við brotaþola blekkt hana með því að telja henni trú um að hann væri annar maður sem hann vissi að hún var hrifin af og hins vegar hefði hann átt í samskiptum við hana sem hann sjálfur sem trúnaðarvinur hennar. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í fjögur ár og honum gert að greiða brotaþola miskabætur.

4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Hann telur að Landsrétti hafi borið að vísa málinu frá héraðsdómi þar sem málið hafi ekki verið nægilega rannsakað af hálfu lögreglu en hún hefði meðal annars ekki aflað gagna eða skoðað samskipti leyfisbeiðanda og brotaþola á samfélagsmiðlum. Þá telur leyfisbeiðandi að 2. töluliður ákærunnar uppfylli ekki þau skilyrði sem gera verði til skýrleika ákæru. Þar sé hann ákærður fyrir nauðgun með því að hafa á tilteknu tímabili þvingað brotaþola meðal annars til þess að hafa samræði við aðra karlmenn án nánari afmörkunar á fjölda umræddra karlmanna, tímasetningum, dagsetningum eða staðsetningu. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð í Landsrétti hafi brotið gegn meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í greinargerð hans fyrir Landsrétti hafi þess verið krafist og það talið nauðsynlegt að leyfisbeiðandi og brotaþoli kæmu fyrir Landsrétt til skýrslugjafar svo að rétturinn gæti metið trúverðugleika framburðar þeirra af eigin raun í samræmi við fyrrnefnda meginreglu. Þrátt fyrir þá kröfu og þá staðreynd að ákæruvaldið mótmælti henni ekki tók Landsréttur þá ákvörðun að hafna því að brotaþoli kæmi fyrir réttinn til skýrslugjafar. Með sama hætti hafi Landsréttur ákveðið að frekari skýrslutökur af vitnum eða spilun á upptökum af framburði þeirra í héraði, að undanskilinni spilun á upptökum af framburði leyfisbeiðanda og brotaþola, hefðu enga þýðingu við úrlausn málsins. Hins vegar telur leyfisbeiðandi að ekki verði annað ráðið af dómi Landsréttar en að framburður brotaþola og þessara vitna hafi haft lykilþýðingu um sakfellingu hans.

5. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðni um áfrýjunarleyfi. Að mati ákæruvaldsins var tilhögun aðalmeðferðar fyrir Landsrétti í málinu í samræmi við þau ákvæði laga nr. 88/2008 sem fjalli um sönnunarfærslu þar fyrir dómi og ekki á það fallist að brotið hafi verið gegn reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að úrlausn réttarins um þau atriði sem leyfisbeiðnin er reist á myndi hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.