Hæstiréttur íslands
Mál nr. 661/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Vextir
- Viðbótarkrafa
- Fullnaðarkvittun
- Endurgreiðsla ofgreidds fjár
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2014. |
|
Nr. 661/2013. |
Lýsing hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Gísla J. Friðjónssyni (Benedikt Ólafsson hrl. Magnús H. Magnússon hdl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Lánssamningur. Gengistrygging. Vextir. Viðbótarkrafa. Fullnaðarkvittun. endurgreiðsla ofgreidds fjár.
Aðilar deildu um það hvort L hf. hefði krafið G um of háa vexti við endurútreikning lánssamnings sem aðilar gerðu sín á milli á árinu 2007. Var lánið að fullu greitt af hálfu G á árinu 2008, en á grundvelli þess að í samningnum hefði verið mælt fyrir um ólögmæta gengistryggingu þess endurreiknaði L hf. lánið á árinu 2011 og miðaði við að lánið skyldi bera vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 463/2013 var ekki fallist á með L hf. að almennar reglur um skilyrði fyrir endurheimt ofgreidds fjár stæðu því í vegi að fallist yrði á kröfu G, enda hefði félagið átt frumkvæði að því að taka skuldasamband aðila upp að nýju með því að endurgreiða G þá fjárhæð sem það taldi nema inneign hans vegna ólögmætrar gengistryggingar og þannig viðurkennt í verki að G ætti rétt á endurheimt ofgreidds fjár. Þá var ekki fallist á það með G að vextir af láninu skyldu reiknaðir miðað við LIBOR vexti af tveimur tilgreindum myntum með 1,95% álagi, eins og um hafði verið samið í lánssamningnum og var um það m.a. vísað til dóms réttarins í máli nr. 471/2010. Var því næst leyst úr því hvort L hf. hefði verið heimilt að krefja G um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem hann hafði þegar greitt af láninu og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Um það álitaefni vísaði Hæstiréttur til dóma réttarins í málum nr. 600/2011, 464/2012, 50/2013, 337/2013 og 430/2013 og þeirra sjónarmiða sem þar komu fram um heimild til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um að kröfuhafi, sem hefur fengið hefði minna greitt en hann hefði átt rétt til, ætti kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefði verið. Yrði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Heildarmat þyrfti að eiga sér stað í slíkum tilvikum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari væru rökin til að víkja frá meginreglunni. Taldi Hæstiréttur ljóst að G hefði verið í góðri trú um að greiðslur hans hefðu falið í sér fullar efndir. Þá hefði aðstöðumunur verið með aðilum og því staðið L hf. nær að gæta þess að samningurinn væri í samræmi við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001. Hins vegar var það mat Hæstaréttar að ekki hefði verið komin á slík festa á framkvæmd lánssamningsins að réttlætt gæti frávik frá meginreglunni. Þá þótti verða að líta til þess að fjárhæð viðbótarkröfu L hf. var óveruleg miðað við höfuðstól lánsins auk þess að G hefði þegar greitt kröfuna, en L hf. hefði haft hana uppi án ástæðulauss dráttar þegar hann dró hana frá við útreikning á inneign G. Með vísan til þessa voru ekki talin skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Var L hf. sýknaður af aðal- og varakröfu G, en ýtrustu varakröfu þess síðarnefnda var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2013. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 17. október 2013. Hann krefst þess aðallega að viðurkennt verði að eftirstöðvar skuldar sinnar við aðaláfrýjanda samkvæmt lánssamningi 22. nóvember 2007 hafi fyrir greiðslu hennar 27. nóvember 2008 verið með áföllnum vöxtum 34.415.689 krónur. Einnig krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 47.573.149 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2008 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 11. ágúst 2011 að fjárhæð 53.538.097 krónur. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um viðurkenningu á fjárhæð eftirstöðva skuldar hans við aðaláfrýjanda á áðurgreindu tímamarki. Verði aðaláfrýjanda jafnframt gert að greiða sér 46.437.313 krónur, aðallega með dráttarvöxtum eins og í aðalkröfu greinir en til vara með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008 til 11. ágúst 2011 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, í báðum tilvikum að frádreginni sömu innborgun og í aðalkröfu greinir. Að öllu þessu frágengnu krefst hann þess að aðaláfrýjanda verði gert að greiða sér 235.300 krónur með dráttarvöxtum svo sem í aðalkröfu greinir. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Málsaðilar gerðu samning 22. nóvember 2007, þar sem kveðið var á um að aðaláfrýjandi lánaði gagnáfrýjanda 37.092.732 krónur „í tveimur gjaldmiðlum“ þannig að helmingur lánsins væri í japönskum jenum og helmingur í svissneskum frönkum. „Samningstími“ lánsins skyldi vera frá 21. desember 2007 til 20 desember 2014 og höfuðstóll þess þá greiddur að fullu, en gagnáfrýjanda var þó heimilt að greiða inn á höfuðstólinn á vaxtagjalddögum ef hann tilkynnti um það með tíu daga fyrirvara. Vextir af láninu áttu að vera breytilegir og miðast við sex mánaða LIBOR vexti auk 1,95% álags. Skyldu þeir reiknast frá 21. desember 2007 og greiðast eftir á með sex mánaða millibili þannig að vaxtagjalddagar yrðu 14 talsins.
Lánið var greitt út 23. nóvember 2007 og stóð gagnáfrýjandi 20. desember sama ár skil á vöxtum af því fyrir tímabilið frá útborgun þess til 19. desember 2007, en þeir námu samkvæmt útreikningi aðaláfrýjanda 109.928 krónum. Gagnáfrýjandi greiddi því næst 20. júní 2008 vexti af láninu samkvæmt útreikningi aðaláfrýjanda vegna tímabilsins 20. desember 2007 til 19. júní 2008 að fjárhæð 900.917 krónur, svo og 2.901.509 krónur í afborgun af höfuðstól lánsins. Gagnáfrýjandi greiddi síðan lánið að fullu 27. nóvember 2008 með samþykki aðaláfrýjanda, en samkvæmt útreikningi hans voru áfallnir vextir af láninu þann dag 1.360.301 króna og eftirstöðvar höfuðstóls 80.628.536 krónur. Aðaláfrýjandi gaf út kvittanir fyrir þessum greiðslum.
Í dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 var komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Í dómi réttarins 16. september sama ár í máli nr. 471/2010 var dæmt að slíkar skuldbindingar bæru vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Óumdeilt er að áðurnefndur samningur aðila hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum sem á ólögmætan hátt var bundin við gengi erlendra gjaldmiðla.
Í kjölfar framangreindra dóma og setningar laga nr. 151/2010, sem meðal annars breyttu 18. gr. laga nr. 38/2001, endurreiknaði aðaláfrýjandi lán sitt til gagnáfrýjanda. Samkvæmt þeim útreikningi hafði gagnáfrýjandi greitt 20. júní og 27. nóvember 2008 af höfuðstól lánsins samtals 83.530.045 krónur eða 46.437.313 krónur umfram upphaflega fjárhæð þess. Frá þeirri ofgreiðslu var dreginn munurinn annars vegar á reiknuðum vöxtum á lánstímanum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, 6.523.464 krónum, og hins vegar þeim vöxtum sem gagnáfrýjandi hafði í raun greitt, 2.371.146 krónum, eða 4.152.318 krónur. Taldist hann samkvæmt þessu hafa ofgreitt aðaláfrýjanda 42.284.995 krónur. Þessi útreikningur var miðaður við 14. apríl 2011 og taldist aðaláfrýjanda svo til að vextir af ofgreiddu fé úr hendi gagnáfrýjanda væru 10.707.794 krónur þannig að inneign hans væri samtals 52.992.789 krónur. Gagnáfrýjandi óskaði eftir því 11. ágúst 2011 að þessari inneign, sem þá nam með vöxtum 53.889.250 krónum, yrði ráðstafað með nánar tilgreindum hætti til greiðslu skuldar samkvæmt kaupleigusamningum tveggja félaga sem hann mun hafa verið í forsvari fyrir. Gagnáfrýjandi, sem telur aðaláfrýjanda hafa krafið sig um of háa vexti með framangreindum útreikningi, höfðaði mál þetta 7. janúar 2013.
II
Gagnáfrýjandi hagar kröfugerð sinni í aðalkröfu og varakröfu með þeim hætti að annars vegar leitar hann viðurkenningar á því að eftirstöðvar skuldar sinnar við aðaláfrýjanda samkvæmt lánssamningi þeirra hafi numið tiltekinni fjárhæð á greiðsludegi lánsins og hins vegar krefst hann greiðslu tiltekinna fjárhæða auk vaxta en að frádreginni innborgun. Fyrri hluti kröfugerðarinnar um viðurkenningu á fjárhæð eftirstöðva skuldarinnar er í eðli sínu málsástæða fyrir fjárkröfunum í seinni hluta dómkrafnanna, en í munnlegum málflutningi gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti kom fram að hann hafi ekki sjálfstæða hagsmuni af því að fá dóm um þessar viðurkenningarkröfur. Í héraði hefði því að réttu lagi átt að vísa þeim frá dómi. Það var ekki gert, heldur tók héraðsdómur til greina varakröfu gagnáfrýjanda um viðurkenningu á fjárhæð eftirstöðva skuldarinnar á greiðsludegi hennar, en sýknaði aðaláfrýjanda af fjárkröfu sem reist var á þeirri viðurkenningu. Líta verður svo á að í héraðsdómi felist að aðaláfrýjandi hafi í raun verið sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.
III
Gagnáfrýjandi leitar í málinu endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt aðaláfrýjanda vegna ólögmætra ákvæða um bindingu fjárhæðar skuldar sinnar við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla í lánssamningi þeirra 22. nóvember 2007. Lán þetta var sem áður segir endurgreitt að fullu 27. nóvember 2008 og var skuldasambandi aðila á grundvelli samningsins þar með lokið. Aðaláfrýjandi heldur því fram að við þessar aðstæður standi almennar reglur kröfuréttar því í vegi að fallist verði á kröfu gagnáfrýjanda. Í því efni verður til þess að líta að aðaláfrýjandi átti sjálfur frumkvæði að því að taka skuldasamband aðila upp að nýju með því að endurgreiða gagnáfrýjanda það sem hann taldi nema inneign gagnáfrýjanda vegna ólögmætra ákvæða í lánssamningnum um gengistryggingu og viðurkenna þar með í verki að sá síðarnefndi ætti rétt á endurheimt ofgreidds fjár. Getur aðaláfrýjandi að þessu gættu ekki borið því við að almennar reglur um skilyrði fyrir endurheimt ofgreidds fjár standi því í vegi að gagnáfrýjandi leiti nú úrlausnar um það hvort aðaláfrýjandi hafi beitt röngum aðferðum við útreikning vaxta við þá endurgreiðslu eða ranglega dregið frá óréttmæta viðbótarkröfu um vangreidda vexti af láninu, sbr. dóm Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013.
Aðalkröfu sína reisir gagnáfrýjandi á því að þrátt fyrir að gengisviðmiðun í lánssamningnum teljist ólögmæt skuli vextir af ógengistryggðum höfuðstól lánsins reiknaðir eins og um var samið eða sem LIBOR vextir af skuld í japönskum jenum og svissneskum frönkum með 1,95% álagi. Í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var talið að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæðis samnings um gengistryggingu skuldar sem talin var ólögmæt og fyrirmæla þar um vexti, en af þeim sökum væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði fram hjá ákvæðinu um vexti og miða þess í stað við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Að þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu aðaláfrýjanda af aðalkröfu gagnáfrýjanda staðfest með vísan til forsendna hans.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu varðandi reglur um endurheimt ofgreidds fjár snýst ágreiningur aðila um varakröfu gagnáfrýjanda í eðli sínu um hvort aðaláfrýjanda hafi eftir almennum reglum kröfuréttar verið heimilt að krefja gagnáfrýjanda um viðbótargreiðslu vegna mismunar á umsömdum vöxtum sem hann hafði greitt af láni í íslenskum krónum með ólögmætu ákvæði um gengistryggingu og þeim vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001. Þessi ágreiningur er því í grundvallaratriðum hliðstæður þeim sem kom til úrlausnar meðal annars í dómum Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013 og 12. desember 2013 í máli nr. 430/2013.
Eins og rakið er í áðurgreindum dómum er meginreglan sú að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni eru þó undantekningar, meðal annars að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu, en tilkalli hans um viðbótargreiðslu verður þó einungis hafnað við sérstakar aðstæður. Að baki undantekningunum búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum og að það geti haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegri stöðu skuldara að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð þvert á væntingar sínar.
Við mat á því hvort svo standi á að efni séu til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu hefur í fyrsta lagi verið litið til þess hvort skuldari hafi verið í góðri trú og þannig hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans væri ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Ljóst er að aðilar gengu út frá því í þau þrjú skipti sem greiðslur voru inntar af hendi af láninu að ákvæði lánssamningsins um gengistryggingu höfuðstóls þess væru gild. Gagnáfrýjandi var því í góðri trú um að greiðslur hans fælu í sér fullar efndir.
Þá hefur í annan stað verið litið til þess hvort sá munur hafi verið á aðstöðu aðila að það réttlæti að hafna viðbótarkröfu og í framhaldi af því hvorum þeirra stæði nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiddu til þess að vangreitt var. Í þeim efnum hefur einkum verið litið til þess hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími hafi liðið frá því að mistök komu fram þar til krafa var höfð uppi, hvorum aðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssamband sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Öll eru þessi atriði ásamt öðrum til viðmiðunar og ekkert eitt þeirra getur ráðið úrslitum um hvort vikið skuli frá meginreglunni um að kröfuhafi eigi rétt til viðbótargreiðslu. Þar ræður heildarmat, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.
Þótt ekki njóti í málinu gagna um reynslu gagnáfrýjanda af viðskiptum eða umsvif hans á þeim vettvangi verður að líta svo á að aðstöðumunur hafi verið með aðilum með því að aðaláfrýjandi var fjármálafyrirtæki. Vegna þessa stóð það jafnframt aðaláfrýjanda nær að gæta þess að ekki væru í samningi aðila skilmálar sem stönguðust á við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 38/2001. Á hinn bóginn er til þess að líta að gagnáfrýjandi greiddi lánið upp rétt rúmu ári eftir að það var veitt, löngu fyrir umsaminn gjalddaga. Höfðu áður tvívegis verið greiddir af því vextir og einu sinni afborgun af höfuðstól. Fer því fjarri að slík festa hafi verið komin á framkvæmd lánssamningsins að réttlætt geti frávik frá meginreglunni, sbr. dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2013 í máli nr. 337/2013. Viðbótarkrafa aðaláfrýjanda vegna vaxta við endurreikning lánsins nam samkvæmt framansögðu 4.152.318 krónum. Er sú fjárhæð að vísu veruleg ef litið er til hennar sem hlutfalls af greiddum vöxtum en á hinn bóginn óverulegur hluti, eða einungis um 11%, af höfuðstól lánsins, sem taka verður mið af í þessu tilviki vegna hins skamma lánstíma. Þá verður við mat á því hversu mikla röskun á fjárhagslegri stöðu gagnáfrýjanda viðbótarkrafan veldur að líta til þess að hann hefur í raun þegar greitt hana. Loks hafði aðaláfrýjandi viðbótarkröfuna uppi án ástæðulausra tafa þegar hann dró hana frá við útreikning á inneign gagnáfrýjanda 14. apríl 2011. Að öllu þessu gættu eru ekki skilyrði til að víkja frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu. Aðaláfrýjandi verður því sýknaður af varakröfu gagnáfrýjanda.
IV
Í héraðsdómsstefnu hafði gagnáfrýjandi uppi ýtrustu varakröfu um greiðslu á 1.160.798 krónum ásamt dráttarvöxtum. Var krafan skýrð þannig í stefnu að hún væri reist á útreikningi Talnakönnunar hf. sem væri miðaður við að reikna bæri vexti af láni því sem málið varðar samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, en vextir sem gagnáfrýjandi greiddi af láninu komi til frádráttar. Útreikningurinn miðist við 14. apríl 2011, en krafan væri mismunur á niðurstöðum þessa útreiknings Talnakönnunar hf. og niðurstöðu aðaláfrýjanda um inneign gagnáfrýjanda þann dag. Við þingfestingu málsins var lagt fram bréf Talnakönnunar hf. 16. júní 2011 ásamt útreikningi sem vísað var til í stefnu. Við aðalmeðferð málsins í héraði lögðu aðilar fram sameiginlega bókun. Samkvæmt henni breytti gagnáfrýjandi ýtrustu varakröfu sinni í þá mynd sem hún er höfð uppi hér fyrir dómi og krafðist greiðslu á 235.300 krónum auk dráttarvaxta. Ekki fylgdu útreikningar eða skýringar breyttri kröfugerð aðrar en þær að aðilar lýstu því sameiginlega yfir að ekki væri ágreiningur um útreikning kröfunnar og væru þeir sammála um „að hin umkrafða fjárhæð endurspegli viðbótarofgreiðslu stefnanda miðað við réttan endurútreikning lánsins á grundvelli 4. gr. sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 ... sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 50/2013.“ Fyrir Hæstarétti hafa málsaðilar ítrekað þetta. Aðaláfrýjandi krefst þó sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og sýnist að þessu leyti reisa þá kröfu meðal annars á því að leggja beri til grundvallar útreikningsaðferð sem leiði af ákvæðum laga nr. 151/2010, sem þó er ekki útskýrð nánar af hans hálfu. Engin frekari gögn eða skýringar liggja til grundvallar ýtrustu varakröfu gagnáfrýjanda eins og hún er nú sett fram og er því ófært að sjá í hverju ágreiningur um aðferð við útreikning hennar liggur. Er því óhjákvæmilegt að vísa þessari kröfu frá héraðsdómi.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Lýsing hf., er sýkn af aðalkröfu og varakröfu gagnáfrýjanda, Gísla J. Friðjónssonar.
Ýtrustu varakröfu gagnáfrýjanda er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. október 2013.
Mál þetta, sem var dómtekið 23. september 2013, að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af Gísla Friðjónssyni, Ljárskógum 27, Reykjavík 19. desember 2012 gegn Lýsingu hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að viðurkennt verði að eftirstöðvar skuldar hans við stefnda samkvæmt lánssamningi 22. nóvember 2007 hafi á greiðsludegi lánsins, en fyrir greiðslu þess 27. nóvember 2008, verið samtals 34.416.049 krónur með áföllnum vöxtum. Jafnframt er þess krafist að stefndi greiði stefnanda 47.572.789 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. nóvember 2008 til greiðsludags, allt að frádeginni innborgun stefnda að fjárhæð 53.538.097 krónur hinn 11. ágúst 2011. Til vara er þess krafist að viðurkennt verði að eftirstöðvar samkvæmt lánssamningnum hafi á sama tímamarki verið 34.191.223 krónur auk áfallinna vaxta frá 19. júní 2008. Jafnframt er þess þá krafist að stefndi greiði stefnanda 46.437.313 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008 til greiðsludags, allt að frádeginni innborgun stefnda að fjárhæð 53.538.097 krónur hinn 11. ágúst 2011. Til þrautavara er höfð uppi sama viðurkenningarkrafa og í varakröfu en þess krafist að stefndi greiði stefnanda 46.437.313 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008 til 11. ágúst 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 11. ágúst 2011 til greiðsludags, allt að frádeginni innborgun stefnda að fjárhæð 53.538.097 krónur hinn 11. ágúst 2011. Til enn frekari vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði 235.300 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008 til greiðsludags. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.
Við meðferð málsins hefur verið tekið tillit til fyrirmæla laga nr. 80/2013 um breytingu á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, með síðari breytingum, á þá leið að hraða skuli meðferð dómsmála sem lúta að lögmæti þess að binda fjárskuldbindingu við gengi erlendra gjaldmiðla eða vísitölu eða að uppgjöri slíkra skuldbindinga.
Málsatvik
Málið er höfðað vegna lánssamnings sem stefnandi og stefndi gerðu með sér 22. nóvember 2007. Samkvæmt lánssamningnum tók stefnandi að láni 37.092.732 krónur. Lánsfjárhæðin var að hálfu bundin við gengi japanskra jena og að hálfu við gengi svissneskra franka á gildistíma samningsins, frá 21. desember 2007 til 20. desember 2014, en þá skyldi lánið greitt að fullu. Gjalddagar skyldu vera 14. Stefnanda var heimilt að greiða inn á höfuðstól lánsins á vaxtagjalddögum sem voru, samkvæmt greiðsluáætlun, á 6 mánaða fresti, þ.e. 20. júní og 20. desember ár hvert, í fyrsta sinn 20. desember 2008. Vextir skyldu reiknast frá 21. desember 2007, vera breytilegir og miðast við 6 mánaða LIBOR-vexti japanskra jena og svissneskra franka auk 1,95% álags. Vextir skyldu þó greiddir af láninu 20. desember 2007 fyrir tímabilið frá 23. nóvember 2007 til 20. desember 2007. Lánsfjárhæðin, 37.092.372 krónur, var greidd stefnanda 23. nóvember 2007.
Stefnandi greiddi vexti af láninu 20. desember 2007 fyrir tímabilið frá 23. nóvember 2007 til 19. desember 2007. Vextirnir voru samkvæmt útreikningi stefnda 109.928 krónur. Stefnandi greiddi á ný áfallna vexti 20. júní 2008 fyrir tímabilið frá 20. desember 2007 til 19. júní 2008. Vextirnir voru samkvæmt útreikningi stefnda 900.917 krónur. Sama dag greiddi stefnandi 2.901.509 krónur í afborgun af höfuðstól lánsins samkvæmt því sem fram kemur á greiðsluseðli. Með samþykki stefnda ákvað stefnandi að greiða lánið að fullu 27. nóvember 2008. Samkvæmt útreikningum stefnda voru eftirstöðvar lánsins þann dag annars vegar áfallnir vextir 1.360.301 króna og hins vegar eftirstöðvar höfuðstóls að fjárhæð 80.628.537 krónur eða samtals 81.988.838 krónur. Fyrir framangreindum greiðslum gaf stefndi út kvittanir til stefnanda.
Í stefnu er gerð grein fyrir dómum Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 og þeirri meginniðurstöðu í þeim málum að óheimilt væri að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá er einnig gerð grein fyrir dómum réttarins 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og 14. febrúar 2011 í máli nr. 604/2010. Segir í stefnu að í kjölfar á framangreindum dómum hafi stefndi endurreiknað lán sitt til stefnanda.
Viðmiðunardagur endurútreiknings stefnda sem liggur fyrir í málinu er frá 14. apríl 2011. Í útreikningi stefnda er gengið út frá því að lánið hafi frá stofndegi borið vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Niðurstaða útreiknings stefnda er að stefnandi hafi verið ofkrafinn um 52.992.789 krónur og að stefnda beri að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð.
Með yfirlýsingu 11. ágúst 2011 óskaði stefnandi eftir því við stefnda að inneign hans vegna ofgreiðslu lánsins yrði ráðstafað til innborgunar á lánum vegna tilgreindra kaupleigusamninga Hópbíla hf. og Hagvagna hf. við stefnda. Stefndi greiddi stefnanda samkvæmt þessu 53.538.097 krónur 11. ágúst 2011. Sú fjárhæð var samkvæmt útreikningum stefnda fyrrgreind inneign, 52.992.789 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. apríl 2011 til 11. ágúst 2011.
Í stefnu er vísað til dóma Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 þar sem niðurstaðan varð sú að vextir af skuldbindingu samkvæmt skuldabréfum í íslenskum krónum með ólögmætri gengistryggingu teldust fullgreiddir samkvæmt fullnaðarkvittun kröfuhafa. Vísar stefnandi til þess að hann hafi talið að eftirstöðvar lánsins 27. nóvember 2008 hafi verið lægri en samkvæmt endurútreikningi stefnda og eins talið vaxtaútreikning stefnda rangan. Hafi hann ítrekað reynt að fá leiðréttingu mála sinna hjá stefnda en án árangurs.
Ekki var um að ræða skýrslutökur við aðalmeðferð málsins.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að gengistrygging framangreinds láns milli málsaðila hafi verið ólögmæt og að stefndi hafi með ólögmætum hætti krafið hann um hærri fjárhæð en honum hafi borið að greiða af láninu. Stefnandi eigi því rétt á endurgreiðslu. Stefndi hafi viðurkennt að svo sé og hafi endurreiknað greiðslur samkvæmt lánssamningnum í samræmi við að lánið hafi verið gengistryggt með ólögmætum hætti.
Við endurútreikning sinn á láninu hafi stefndi beitt þeirri aðferð að í stað hinna umsömdu erlendu vaxta hafi verið reiknaðir vextir á lánsfjárhæðina allan lánstímann samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, að teknu tilliti til innborgana. Stefnandi hafnar þessari reikningsaðferð stefnda enda hafi hann greitt lánið að fullu með umsömdum vöxtum og fengið fullnaðarkvittun fyrir greiðslu þess ásamt vöxtum. Vaxtaákvörðun verði því ekki endurskoðuð en reikna beri vexti af réttum höfuðstól lánsins.
Með aðalkröfu sinni krefst stefnandi þess að vextir séu reiknaðir á höfuðstól lánsins án gengistryggingar en að öðru leyti eins og um hafi verið samið, þ.e., með LIBOR-vöxtum með 1,95% álagi. Með varakröfu og þrautavarakröfu krefst stefnandi þess, með vísan til niðurstöðu og forsendna í dómum Hæstaréttar Íslands 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og 18. október 2012 í máli nr. 464/2012, að litið sé svo á að hann hafi greitt vexti af skuldinni að fullu á lánstímanum í samræmi við fullnaðarkvittanir kröfuhafa þar um. Vextir hafi verið greiddir að fullu á gjalddögum í samræmi við kvittanir. Afborganir sem hafi verið greiddar hafi átt að koma að fullu til greiðslu inn á höfuðstól lánsins og lækkunar á honum. Útborgun lánsins og endurgreiðsla þess hafi samkvæmt þessu verið með eftirfarandi hætti:
|
Dags. |
Greiddir vextir |
Greidd afborgun |
Skuld eftir greiðslu |
|
23. nóv. 2007 |
|
|
37.092.732 krónur |
|
20. des. 2007 |
109.928 krónur |
|
37.092.732 krónur |
|
20. júní 2008 |
900.917 krónur |
2.901.509 krónur |
34.191.223 krónur |
|
27. nóv. 2008 |
1.360.301 króna |
80.628.536 krónur |
(46.437.313 krónur) |
Stefnandi vísar til þess að hann hafi greitt skuld sína við stefnda að fullu 27. nóvember 2008. Þá hafi stefndi talið eftirstöðvar höfuðstóls vera 80.628.536 krónur og áfallna vexti 1.360.301 krónu, eða samtals 81.988.838 krónur sem stefnandi hafi greitt. Með þessari fullnaðargreiðslu lánsins hafi stefnandi, samkvæmt aðalkröfu, verið krafinn um 47.573.149 krónur umfram það sem hann hafi skuldað stefnda. Stefnandi eigi lögvarða kröfu til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt dráttarvöxtum til greiðsludags. Samkvæmt varakröfu og þrautavarakröfu sé fjárhæð þessi 46.437.313 krónur. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda sé krafist endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar ásamt vöxtum svo sem í dómkröfum greini.
Stefndi hafi endurgreitt stefnanda 11. ágúst 2011 þá fjárhæð sem hann hafi talið að stefnandi ætti inni hjá sér vegna ofgreiðslu lánsins, 53.538.097 krónur. Krafa stefnanda þann dag hafi hins vegar verið mun hærri en greiðsla stefnda. Stefnandi krefst þess að litið sé svo á að þessari innborgun á kröfuna sé ráðstafað til að greiða fyrst áfallna vexti en síðan til greiðslu höfuðstóls, en fyrir þeirri tilhögun sé langvarandi venja og dómafordæmi.
Krafa um dráttarvexti í aðalkröfu og varakröfu er á því reist að stefndi hafi með ólögmætum hætti krafið stefnda um fé sem sem stefnanda hafi verið óskylt að greiða. Stefnandi hafi hins vegar, vegna vanþekkingar sinnar og vegna yfirburðastöðu stefnda, sem sé fjármálafyrirtæki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, greitt þá fjárhæð sem stefndi hafi krafið hann um. Því beri stefnda að greiða dráttarvexti á ofkrafða fjárhæð frá 27. nóvember 2008, sem hljóti að teljast gjalddagi kröfunnar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Síðasta varakrafa stefnanda er reist á framlögðum endurútreikningi Talnakönnunar hf. á láninu frá 16. júní 2011. Útreikningurinn er gerður á þeim forsendum að gengistrygging lánsins hafi verið ólögmæt og að reikna beri vexti af láninu allan lánstímann samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001. Þeir vextir sem stefnandi hafi greitt af láninu komi til frádráttar. Útreikningurinn miðast við 14. apríl 2011, sama dag og endurútreikningur stefnda á láninu miðist við. Niðurstaða Talnakönnunar hf. sé hins vegar sú að þann dag hafi inneign stefnanda verið 54.153.587 krónur í stað 52.992.789 krónur, eins og stefndi hafi talið inneign stefnanda vera. Mismunurinn sé 1.160.798 krónur og sé krafist dráttarvaxta á þá fjárhæð frá viðmiðunardegi útreiknings eða 14. apríl 2011.
Stefnandi vísar um kröfur sínar til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna, og til frumvarps laganna og athugasemda við fyrrnefndar lagagreinar. Um gildi samningsins og heimild til að víkja ákvæðum hans til hliðar vísar stefnandi til III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga, einkum 36. gr. laganna með síðari breytingum. Stefnandi styður kröfu um vexti og dráttarvexti við ákvæði laga nr. 38/2001. Þá er vísað til fordæmisgildis dóma Hæstaréttar Íslands sem tilgreindir eru hér að framan. Loks er vísað til reglna íslensks kröfuréttar um loforð og réttar efndir samninga. Endurútreikningur stefnda og greiðsla hans til stefnanda sé talin fela í sér loforð um réttar efndir á endurgreiðslu ofborgaðs fjár.
Málsástæður og lagarök stefnda
Við aðalmeðferð málsins lögðu aðilar fram sameiginlega bókun þar sem fram kom að stefndi félli frá málsástæðum um að umrætt lán hefði verið lögmætt erlent lán, að endurkrafa stefnanda væri fyrnd og að bann við gengistryggingu bryti í bága við EES-reglur. Einnig var fallið frá kröfu um frávísun málsins.
Samkvæmt framangreindu byggir stefndi nú sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að endurútreikningur stefnda, sem sendur hafi verið stefnanda 14. apríl 2011, hafi verið réttur og raunar umfram skyldu miðað við lög nr. 151/2010 og dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Stefndi byggir jafnframt á því að dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012 hafi ekki fordæmisgildi um þessa tegund lánssamninga, það er ádráttarlán til skamms tíma. Í dómunum hafi verið kveðið á um undantekningu, frá þeirri meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem ekki hafi fengið kröfu að fullu greidda geti gert viðbótarkröfu um það sem vangreitt sé, á grundvelli fullnaðarkvittunar. Svo mikill eðlismunur sé á lánssamningi aðila þessa máls og þeim langtímalánssamningum sem fjallað sé um í framangreindum dómum að ekki geti komið til álita að beita þeirri undantekningarreglu sem þar sé kveðið á um, í þessu máli.
Lengd lánstíma sé eitt af fjórum atriðum sem Hæstiréttur Íslands hafi litið til við mat á því hvort beita eigi undantekningu frá framangreindri meginreglu kröfuréttar. Það sé mat stefnda að þetta tiltekna atriði hafi ráðið miklu um það að rétturinn hafi ákveðið að beita undantekningarreglunni í fyrrgreindum málum. Það að lánin hafi verið um 20 og 30 ára langtímalán hafi haft þau áhrif, sé gengið út frá því að þau hafi verið jafngreiðslulán, að fyrri hluta lánstímans hafi vaxtahluti greiðsluseðils verið hár en afborgunarhlutinn lágur. Það hafi þýtt að vegna lánstímans hefði viðbótarvaxtakrafa kröfuhafa haft íþyngjandi áhrif á skuldarana í fyrrgreindum málum hefði Hæstiréttur Íslands ekki beitt framangreindri undantekningarreglu. Þessu sé öðruvísi farið varðandi stutt ádráttarlán líkt og það sem sé til umfjöllunar í þessu máli. Lánið hafi upphaflega verið veitt til sjö ára en hafi verið greitt upp af stefnanda þegar rúmlega 11 mánuðir hafi verið liðnir af lánstímanum. Þegar lánstíminn sé svo stuttur séu áhrif vaxtaendurútreiknings mun minni en í langtímalánum enda hafi stefnandi ekki þurft að standa stefnda skil á umtalsverðum viðbótarvaxtagreiðslum fyrir liðna tíð. Þvert á móti hafi stefndi endurgreitt stefnanda 53.889.250 krónur og því hafi engin röskun orðið á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda líkt og hafi verið á hagsmunum skuldara í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Dómarnir geti ekki verið fordæmisgefandi fyrir stutta lánssamninga, eins og samningur aðila þessa máls sé, og því telji stefndi að sýkna beri hann af dómkröfum stefnanda.
Sýknukrafa stefnda er í öðru lagi byggð á því að fjárhæð viðbótarkröfu um vexti samkvæmt endurútreikningi frá 14. apríl 2011 sé ekki umtalsverð í samræmi við niðurstöðu dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/211 og nr. 464/2012. Í niðurstöðukafla dóms Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 skýri rétturinn það hvernig reikna eigi hlutfall viðbótarkröfunnar, miðað við þá kröfugerð sem liggi fyrir í málinu, sem sé svo notað við mat á umfangi viðbótarkröfunnar. Það eigi að gera með því að bera saman mismun á endurreiknaðri fjárhæð láns, í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 og breytingarlög nr. 151/2010, og stöðu höfuðstóls lánsins, miðað við upphaflegar forsendur og fjölda greiddra afborgana, við upphaflegan höfuðstóls lánsins. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 hafi þetta hlutfall verið 34,3% og í máli nr. 464/2012 hafi það verið 28,2% samkvæmt útreikningi stefnda. Stefndi vísar hins vegar til þess að í málinu sé hlutfall viðbótarkröfunnar neikvætt um 142,87% og sé hlutfallið því umtalsvert lægra en í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Í ljósi þess að hlutfall viðbótarkröfu stefnda í þessu máli sé neikvætt þá telji stefndi að ekki séu uppfyllt skilyrði til þess að beita margnefndri undantekningarreglu. Engin röskun hafi enda orðið á fjárhagslegum hagsmunum stefnanda og því telji stefndi að sýkna beri hann af dómkröfum stefnanda.
Sýknukrafa stefnda er í þriðja lagi byggð á því að ekki sé tilefni til þess að beita margnefndri undantekningu frá meginreglu kröfuréttar, um fullar efndir, þar sem aðilar hafi samið um lánveitinguna á jafnræðisgrundvelli. Atvik hafi ekki verið með þeim hætti að stefndi hafi notið yfirburðarstöðu við samningsgerðina. Eins og fram hafi komið hafi varnaraðilinn í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 verið fjármálafyrirtæki og hafi hann samið einhliða staðlaða skilmála lánssamningsins sem hafi verið til umfjöllunar í því máli. Hafi þetta verið ein meginástæða þess að undantekningarreglunni hafi verið beitt í málinu. Stefndi telur atvik þessa máls vera með öðrum hætti og þar af leiðandi sé engin ástæða til þess að beita undantekningarreglunni. Í því sambandi bendir stefndi á að lánveitingin hafi verið mjög sérstök. Sérsniðinn lánssamningur hafi verið útbúinn að þörfum stefnanda vegna hlutabréfakaupa hans. Samið hafi verið um óveðtryggt ádráttarlán með 14 vaxtagjalddögum og valkvæðum afborgunum af höfuðstól. Öðrum viðskiptavinum stefnda hafi að jafnaði ekki boðist sambærileg lánakjör. Ástæða hinna hagstæðu lánakjara hafi verið sú að fyrirtæki stefnanda, Hagvagnar hf. og Hópbílar hf., hafi átt í áralöngu viðskiptasambandi við stefnda og því hafi stefnandi sjálfur notið góðs lánstrausts hjá stefnda. Stefndi telur að þegar metið sé hvort ástæða sé til þess að beita margnefndri undantekningarreglu þá verði að líta til tilurðar lánveitingarinnar, stöðu samningsaðila og atvika við samningsgerðina.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fjórða lagi á því að ekki sé tilefni til þess að beita undantekningarreglunni frá meginreglu kröfuréttar um fullar efndir í þessu tilviki vegna atvika almennt, sem í þessu máli séu með öðrum hætti en málsatvik í dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012. Í þeim málum hafi atvik verið með þeim hætti að lánveitendur hafi krafið lántaka um umtalsverðar fjárhæðir vegna liðinnar tíðar en lántakendur hafi verið taldir í góðri trú um að greiðslur þeirra af lánssamningunum fælu í sér fullar og réttar efndir. Því hafi fjárkröfur lánveitendanna vegna liðinnar tíðar ekki komist að. Í þessu máli séu atvik hins vegar þannig að stefndi hafi aldrei krafið stefnanda um fjármuni vegna liðinnar tíðar heldur hafi hann þvert á móti endurgreitt stefnanda 53.538.097 krónur vegna lánssamnings aðila. Þar af leiðandi sé ekki hægt að beita undantekningarreglunni frá meginreglu kröfuréttar um fullar efndir. Því til stuðnings sé jafnframt vísað til þess að samkvæmt réttarheimildafræði beri að túlka undantekningarreglur afar þröngt. Dómafordæmi sýni einnig að rík tilhneiging sé til að skýra þröngt reglur sem mæli fyrir um undantekningar frá almennum reglum. Í því sambandi vísist til dæmis til dóms Hæstaréttar í dómasafni 1982, bls. 1045.
Stefndi mótmælir upphafsdegi vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 í öllum liðum dómkrafna stefnanda á þeirri forsendu að stefnandi geti ekki krafist dráttarvaxta frá því áður en hann hafi haft uppi lögmæta greiðslukröfu gagnvart stefnda og stefndi haft tækifæri til þess að fara yfir forsendur kröfunnar og taka afstöðu til hennar. Stefnandi hafi aldrei sent stefnda innheimtubréf vegna fjárkröfunnar og hafi stefnda fyrst verið kunnugt um kröfu stefnanda þegar lögmanni stefnda hafi verið birt stefna málsins 7. janúar 2013. Því beri að sýkna stefnda af dráttarvaxtakröfum stefnanda eins og þær séu settar fram þar sem dráttarvextir geti aldrei reiknast á kröfur stefnanda fyrr en í fyrsta lagi frá dómsuppsögu. Stefndi krefst sýknu af vaxtakröfu stefnanda samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 á sömu rökum.
Telji dómurinn að stefnandi geti krafið stefnda um dráttarvexti eða vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008, sbr. aðal-, vara- og þrautavarakröfu stefnanda, þá byggir stefndi á því að kröfur um vexti vegna tímabilsins frá 27. nóvember 2008 til 7. janúar 2009 séu fyrndar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 3. gr. brottfallinna laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda.
Fallist dómurinn á einhverja af fjárkröfum stefnanda og telji að krafan eigi að bera vexti frá því tímamarki sem sett sé fram í dómkröfunum þá er, með vísan til röksemda og sjónarmiða í greinargerð með frumvarpi til breytingalaga nr. 151/2010, byggt á því af hálfu stefnda að hin dæmda krafa geti aldrei borið dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, heldur aðeins vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laganna. Stefndi byggir kröfu um sýknu af dómkröfum stefnanda á almennum reglum fjármuna-, kröfu- og samningaréttar.
Niðurstaða
Í endanlegum málatilbúnaði stefnda er ekki borið við reglum um fyrningu eða því haldið fram að reglur EES-réttar standi endurgreiðslukröfu stefnanda í vegi. Þá er ekki deilt um tölulegan útreikning á fjárhæðum í varakröfum stefnanda.
A
Í máli þessu er óumdeilt að lán það sem stefnandi tók hjá stefnda 22. nóvember 2007, og greiddi að fullu upp 27. nóvember 2008, fól í sér ólögmæta gengistryggingu. Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, eins og greininni var breytt með 1. gr. laga nr. 151/2010, skal upphaflegur höfuðstóll skuldar ólögmæts gengisláns vaxtareiknaður þannig að miðað sé við að lán beri vexti samkvæmt 1. málsl. 4. gr. laganna. Fyrirmæli ákvæðisins eiga rætur að rekja til dóms Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 þar sem talið var að órjúfanleg tengsl væru á milli gengisviðmiðunar og vaxtaákvörðunar við þær aðstæður að lán hefði verið bundið ólögmætri gengistryggingu. Væri því óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðis um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samnings um vaxtahæð. Samkvæmt þessu fær aðalkrafa stefnanda, um að miða hafi átt endurútreikning láns hans við LIBOR-vexti japanskra jena og svissneskra franka samkvæmt ákvæðum lánssamningsins 22. nóvember 2007, hvorki stoð í fyrirmælum laga nr. 38/2001 né fordæmisrétti. Verður stefndi því sýknaður af aðalkröfu stefnanda.
B
Svo sem áður greinir liggur fyrir endurútreikningur stefnda 14. apríl 2011 vegna fyrrgreinds láns stefnanda. Miðast endurútreikningurinn við að lánið í heild sinni sé endurreiknað með vöxtum samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 í samræmi við fyrirmæli fyrrgreindrar 5. mgr. 18. gr. laganna.
Í endurútreikningi stefnda 14. apríl 2011 felst efnislega að litið er svo á að hinn 20. desember 2007 hafi vextir að fjárhæð 454.901 króna verið fallnir á lán stefnanda og því hafi vextir að fjárhæð 344.973 krónur verið ógreiddir eftir að stefnandi hafði reitt innborgun sína að fjárhæð 109.928 krónur af hendi. Eins er litið svo á í endurútreikningi að hinn 20. júní 2008 hafi stefnanda borið að greiða 3.190.524 krónur í vexti í stað 900.917 króna sem hann greiddi í vexti. Er afborgun stefnanda af höfuðstól miðað við þennan dag skert í samræmi við það í endurútreikningnum. Sömuleiðis miðast endurútreikningur stefnda við að stefnanda hafi borið að greiða 2.878.039 krónur í vexti við uppgreiðslu lánsins 27. nóvember 2008 í stað 1.360.301 krónu.
Óumdeilt er að þær fjárhæðir sem stefnandi greiddi stefnda í vexti og afborganir af höfuðstól á fyrrgreindum dögum voru tilgreindar á greiðsluskjölum útgefnum af stefnda. Er og ekki um það deilt að þessi greiðsluskjöl og fyrirvaralaus móttaka á greiðslum samkvæmt þeim hafi jafngilt fullnaðarkvittun vegna greiðslnanna, þ.m.t. greiðslu á samningsvöxtum. Lýtur meginágreiningur aðila, að slepptri aðalkröfu stefnanda, þannig að því hvort við útreikning á endurkröfu stefnanda hafi verið heimilt að líta fram hjá umræddum fullnaðarkvittunum fyrir greiðslu samningsvaxta.
C
Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að stefnandi hafi greitt þá vexti sem tilgreindir voru á greiðsluskjölum stefnda í góðri trú um lögmæti lánsins og þá einnig um það að greiðslur fælu í sér réttar og fullar efndir af hans hálfu. Að mati dómsins er jafnframt ljóst að aðstöðumunur var með aðilum þar sem stefndi er fjármálafyrirtæki sem starfar á lánamarkaði og hafði þar boðið viðskiptavinum sínum upp á lán með ólögmætri gengistryggingu. Stóð það því stefnda almennt nær að gæta að því að lánssamningar væru í samræmi við lög og bera áhættuna af því ef svo væri ekki. Að lokum verður að líta til þess að þeir viðbótarvextir sem stefndi taldi stefnanda til skuldar með endurútreikningi sínum námu 2.634.580 krónum. Er sú fjárhæð umtalsverð ef litið er til heildarvaxtagreiðslna af umræddu láni.
Með vísan til þeirra viðmiða sem fram koma í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012 er það niðurstaða dómsins að það standi stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem hlaust af ólögmætri gengistryggingu á framangreindum vaxtagjalddögum lánsins. Getur það ekki haft þýðingu um þetta atriði að um var að ræða svonefnt ádráttarlán þar sem skuldara var heimilt að greiða lánið upp samkvæmt nánari skilmálum lánssamnings.
Í samræmi við fyrrgreind fordæmi Hæstaréttar geta ákvæði laga nr. 151/2010 ekki haggað þessari niðurstöðu. Gat stefndi því ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna þeirra vaxta sem þegar höfðu verið greiddir. Að mati dómsins myndi það hins vegar jafngilda því að slík krafa stefnda til viðbótarvaxta væri viðurkennd ef honum væri allt að einu heimilt að reikna endurkröfu stefnanda með vísan til þess að lánið hefði átt að bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 án tillits til fullnaðarkvittana stefnanda. Eru forsendur dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 ekki nægilega fortakslausar til að hagga þeirri niðurstöðu.
Samkvæmt framangreindu verður fallist á að stefndi hafi að fullu greitt samningsvexti umrædds láns. Sem fyrr segir leiðir af þeirri niðurstöðu að við endurútreikning lánsins var óheimilt að skerða þær greiðslur stefnanda sem ráðstafað hafði verið inn á höfuðstól lánsins samkvæmt greiðsluskjölum. Verður því fallist á málsástæðu stefnanda þess efnis að eftirstöðvar skuldar samkvæmt lánssamningnum 22. nóvember 2007 hafi eftir innborgun stefnanda 20. júní 2008 verið 34.191.223 krónur.
Stefnandi hefur kosið að haga kröfugerð sinni á þá leið að hann krefst viðurkenningar á tilteknum eftirstöðvum skuldar stefnanda miðað við þann dag sem hann greiddi lánið upp, þ.e. 27. nóvember 2008, að meðtöldum „áföllnum vöxtum“. Í málatilbúnaði stefnanda er ekki nánar skýrt til hvaða vaxta er vísað í þessu sambandi. Að mati dómsins verður að túlka þessa kröfugerð stefnanda, sem stefndi hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við, á þá leið að áfallnir vextir á umræddum degi svari til vaxta samkvæmt samningi aðila sem stefnandi greiddi stefnda sama dag en ekki vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001. Er þá litið til þess að stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að hann hafi fullnaðarkvittun fyrir greiðslu allra vaxta af umræddu láni og sé því engin heimild til til þess að reikna vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 af láninu. Með þessari athugasemd verður fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda eins og hún er fram sett og nánar greinir í dómsorði.
D
Varakrafa stefnanda byggist á því að reikna beri dráttarvexti af endurgreiðslukröfu stefnanda samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. nóvember 2008, þegar stefnandi greiddi lánið upp, til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun stefnda 11. ágúst 2011. Önnur varakrafa stefnanda byggist hins vegar á því að miða beri við vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 frá og með sama tímamarki, en dráttarvexti frá 11. ágúst 2011.
Af ákvæðum 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 verður dregin ályktun um að stefnanda hafi borið að krefja stefnda um endurútreiknings láns síns ef hann taldi sig eiga endurgreiðslukröfu gegn honum. Hvíldi þannig engin skylda á stefnda að eiga frumkvæði að endurútreikningi lánsins, sbr. hins vegar bráðabirgðaákvæði 2. gr. b laga nr. 151/2010 sem tók einungis til húsnæðislána. Í málinu liggja engin gögn fyrir um að stefnandi hafi krafist endurútreiknings eða sett fram ákveðna endurgreiðslukröfu fyrr en hann óskaði eftir því, með yfirlýsingu 11. ágúst 2011, að inneign hans vegna ofgreiðslu lánsins yrði ráðstafað til innborgunar á tilteknum lánum fyrirtækja tengdum stefnanda. Er þannig ekki fram komið að skilyrðum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 sé fullnægt til að dæma dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna fyrir tímabilið frá 27. nóvember 2008 til 11. ágúst 2011.
Ljóst er að endugreiðslukröfur stefnanda byggjast á reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár og fær því krafa stefnanda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 ekki stoð í samningi aðila. Þá er til þess að líta að þótt endurútreikningur stefnda 14. apríl 2011 hafi miðast við að endurgreiðslukrafa stefnanda bæri vexti frá því að krafan stofnaðist með uppgreiðslu lánsins 27. nóvember 2008 byggðist sá útreikningur stefnda á þeirri forsendu að heimilt væri að fylgja til hlítar ákvæðum 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og líta fram hjá fullnaðarkvittunum stefnanda vegna vaxtagreiðslna. Gegn mótmælum stefnda hefur stefnandi ekki fært að því haldbær rök að stefndi hafi skuldbundið sig til greiðslu vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 frá og með 27. nóvember 2008 eða að slík niðurstaða leiði af venju. Þá er því ekki haldið fram í málinu að ákvæði IV. kafla laga nr. 38/2001, eða fyrirmæli laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, eigi við um kröfu stefnanda samkvæmt efni sínu eða lögjöfnun, enda er í kröfugerð stefnanda vísað til 3. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt framangreindu telur dómurinn ljóst að með greiðslu stefnda 11. ágúst 2011, að fjárhæð 53.538.097 krónur, hafi endurgreiðslukrafa stefnanda verið að fullu greidd. Frá því tímamarki átti stefnandi því ekki frekari fjárkröfu á hendur stefnda og kemur því ekki til skoðunar hvort stefnandi átti rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 30 dögum eftir að hann gerði kröfu um endurgreiðslu, sbr. 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu eru heldur ekki skilyrði til að fallast á síðustu varakröfu stefnanda. Verður stefndi því sýknaður af öllum greiðslukröfum stefnanda.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Benedikt Ólafsson hrl.
Af hálfu stefnda flutti málið Jóhannes Sigurðsson hrl.
Dóminn kveður upp Skúli Magnússon héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð:
Viðurkennt er að eftirstöðvar skuldar stefnanda, Gísla J. Friðjónssonar, við stefnda, Lýsingu hf., samkvæmt lánssamningi 22. nóvember 2008, hafi á greiðsludegi lánsins, en fyrir greiðslu þess 27. nóvember 2008, verið 34.191.223 krónur auk áfallinna vaxta frá 19. júní 2008.
Stefndi er sýkn af öðrum kröfum stefnanda.
Málskostnaður fellur niður.