Hæstiréttur íslands
Mál nr. 435/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta
|
|
Föstudaginn 20. ágúst 2010. |
|
Nr. 435/2010. |
Guðjón Bjarni Sigurjónsson (Ástráður Haraldsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G gegn Í var vísað frá dómi. Í málinu krafðist G viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í og jafnframt miskabóta vegna þess að brotinn hafi verið á honum réttur við umsókn hans um starf sem þyrluflugmaður hjá L. Þótti krafa hans um skaðabætur ekki uppfylla skilyrði 1. og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og jafnframt fara í bága við d- og e-liði 80. gr. sömu laga. Með dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um frávísun á máli G til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, enda yrði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans fælist og hver tengsl þess væru við atvik máls. Hvað varðaði kröfur G um miskabætur var talið að ekki væri unnt að fallast á með héraðsdómi að þar væri um að ræða annmarka á reifun kröfunnar sem valda ætti frávísun hennar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er kröfu G um miskabætur varðaði og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Til vara krefst hann þess að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Að þessu athuguðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur um frávísun á viðurkenningarkröfu sóknaraðila með vísan til forsendna úrskurðarins.
Í hinum kærða úrskurði er tekinn upp orðréttur kafli úr stefnu sóknaraðila sem varðar grundvöll kröfu hans um miskabætur. Ekki verður fallist á með héraðsdómi að þar sé um að ræða annmarka á reifun kröfunnar sem valda eigi frávísun hennar. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi að því er þessa kröfu varðar og lagt fyrir héraðsdóm að taka hana til efnislegrar meðferðar.
Miðað við þessi úrslit málsins verður kærumálskostnaður látinn niður falla.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um frávísun á viðurkenningarkröfu sóknaraðila, Guðjóns Bjarna Sigurjónssonar.
Lagt er fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar kröfu sóknaraðila um miskabætur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdómi Reykjavíkur föstudaginn 18. júní 2010.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda þriðjudaginn 1. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Guðjóni Bjarna Sigurjónssyni, kt. 160468-4919, Efstahjalla 11, Kópavogi, með stefnu birtri 7. september 2009, á hendur Landhelgisgæzlu Íslands f.h. íslenzka ríkisins.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði, að stefndi hafi, með því að ganga fram hjá stefnanda við ráðningu þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæzlu 20. nóvember 2007, bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda, og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur, að fjárhæð kr. 500.000 með dráttarvöxtum frá 15. janúar 2009. Þá er krafizt málskostnaðar að mati réttarins, auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að máli þessu verði vísað frá dómi og stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins. Til vara er þess krafizt, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins. Til þrautavara er þess krafizt, að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður verði látinn niður falla.
II
Málavextir
Í ágúst 2007 birtist auglýsing frá Landhelgisgæzlu Íslands, þar sem auglýst var eftir þyrluflugmönnum til starfa, sbr. dskj. nr. 3. Um hæfiskröfur var þess getið, að umsækjendur þyrftu að hafa gilt, íslenskt, eða JAA, atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu með blindflugsáritun, ásamt því að hafa lokið stúdentsprófi eða öðru sambærilegu námi. Tekið var fram, að æskilegt væri, að viðkomandi hefði lokið bóklegu námskeiði í áhafnarsamstarfi (MCC), auk þess sem umsækjendur þyrftu að standast kröfur Landhelgisgæzlunnar um andlegt og líkamlegt atgervi.
Alls sóttu þrettán um störfin. Þrír voru ráðnir í störfin, þau Andri Jóhannesson, Brynhildur Ásta Bjartmarz og Marion Andrée Simone Herrera.
Stefnandi telur, að við ráðningar framangreindra þyrluflugmanna hafi verið brotið á ýmsan hátt gegn stjórnsýslureglum og þar með á rétti stefnanda, svo skaðabótaskylt sé, en hann hafi talið ljóst, að hann stæði umræddum aðilum framar í öllum þeim skilgreindu, hlutlægu mælikvörðum, sem leggja mætti á í tengslum við ráðningu í umrætt starf. Nám hans sé sízt minna en MCC nám, sem nefnt hafi verið í auglýsingunni og lagt hafi verið upp úr í ráðningarferlinu. Hann hafi fengið einkaflugmannsréttindi árið 1999, atvinnuflugmannsréttindi árið 2002 og atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu með blindflugsáritun árið 2002. Árið 1994 hafi hann jafnframt lokið 3. stigs skipstjórnarprófi og hafi starfað um 1000 daga á sjó. Að auki hafi hann sótt ótal hagnýt námskeið. Hann hafi haft um 380 flugtíma á þyrlu, þegar hann sótti um starf hjá Landhelgisgæzlunni.
Stefnandi kveður Andra Jóhannesson hafa, eftir því sem næst verði komizt, búið að 365 fartímafjölda á þyrlu, en hann hafi aldrei starfað sem flugstjóri á fjölstjórnarþyrlum, eins og þeim, sem Landhelgisgæzla Íslands hagnýti. Brynhildur Ásta Bjartmarz hafi aldrei starfað sem flugmaður, hvorki á flugvélum né þyrlum, og muni hafa búið að 180 fartíma reynslu. Marion Herrera muni hafa búið að 170 fartímum á þyrlu, en hafi á hinn bóginn sinnt atvinnuflugi á þotum. Stefnandi hafi því búið að meiri flugreynslu á þyrlu en öll þrjú, sem ráðin hafi verið sem þyrluflugmenn í því tilviki, sem um ræði.
Stefnandi kveður orðróm hafa verið á kreiki um, að í það minnsta sumir þeirra, sem ráðnir voru, hefðu notið ætternis eða kunningsskapar við starfsmenn Landhelgisgæzlu, þegar ákvörðun um ráðningu var tekin.
Með bréfi til Landhelgisgæzlunnar, dags. 17. desember 2007, var óskað rökstuðnings fyrir ráðningu þeirra einstaklinga, sem störfin hlutu, auk þess sem óskað var eftir afriti umsóknargagna og annarra nauðsynlegra gagna, sem lágu afgreiðslu umsóknanna til grundvallar. Þá var einnig óskað eftir upplýsingum um, hvort þeir umsækjendur, sem ráðnir voru, tengdust á einhvern hátt þeim starfsmönnum Landhelgisgæzlunnar sem lögðu hönd á plóg við ráðningu þeirra.
Svar barst þann 14. janúar 2008, þar sem gerð var grein fyrir ráðningunum og ráðningarferlinu. Þess var í upphafi getið, að ekki hefði verið farið fram á reynslu, þar sem ekki sé fyrir fram hægt að fullyrða, að reynsla á aðrar þyrlutegundir en Landhelgisgæzlan hafi til afnota, komi til góða. Landhelgisgæzlan hafi lagt áherzlu á aðra þætti. Þá sagði í bréfinu, hvaða starfsmenn Landhelgisgæzlunnar hefðu tekið þátt í því að fara yfir umsóknir og umsóknargögn, með tilliti til þess, hvort umsækjendur fullnægðu skilyrðum, sem nefnd væru í auglýsingu, og tekið þátt í ráðningarviðtölum. Þess var getið, að í viðtölunum hefði verið nýttur staðlaður spurningalisti. Þá var getið um áherzlu Landhelgisgæzlunnar á líkamlegt og andlegt atgervi, og að umsækjendur hefðu lokið bóklegu námskeiði í áhafnarsamstarfi. Um andlega atgervið var vísað til þess, að mikil nauðsyn væri á samskiptahæfileikum, hæfileikum til að starfa í hóp, og að nýtt hefði verið sálfræðipróf við mat á þessum þætti. Þeir, sem ráðnir voru, hafi skarað fram úr öðrum umsækjendum, hvað þennan þátt í sálfræðiprófinu snerti. Ekki hefðu þó allir þeir verið kallaðir í slíkt próf, sem áður hefðu undirgengizt það vegna eldri umsókna. Fram kom, að þetta atriði, frammistaða þeirra, sem starfið hlutu í sálfræðiprófinu og í viðtölum við forstjóra Landhelgisgæzlunnar, hafi ráðið úrslitum við mat á því, hversu líklegir umsækjendur væru til að starfa vel í hópi. Taldi Landhelgisgæzlan því markmiði náð að ráða hæfustu umsækjendurna, meðal annars með tilliti til jafnréttissjónarmiða.
Varðandi tengsl umsækjenda við starfsmenn Landhelgisgæzlunnar kom fram, að tveir þeirra yfirmanna, sem hlut áttu að ráðningarviðtölum, tengdust umsækjendum. Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri er barnsmóðir Benónýs Ásgrímssonar flugmanns hjá stofnunni, en hann er fósturfaðir Brynhildar Ástu Bjartmarz, og Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri tengdist Andra Jóhannessyni fjölskylduböndum. Sjálfar ráðningarnar hefði forstjóri Landhelgisgæzlunnar afráðið, svo ekki væri unnt að draga hlutleysi stofnunarinnar í efa vegna þessara tengsla.
Engin gögn, önnur en umsóknargögn þeirra, sem æsktu rökstuðnings, voru látin í té. Fullyrt var, að Landhelgisgæzlan gæti ekki afhent afrit af samanburðargögnum úr sálfræðiprófum, þar sem slík afhending myndi brjóta gegn lögum um persónuvernd. Ekki var minnzt á önnur gögn, svo sem staðlaðan spurningalista eða gögn tengd ráðningarviðtölunum.
Stefnandi kveður svarbréfið hafa um margt vakið fleiri spurningar en það svaraði, og hafi stofnuninni því á ný verið ritað bréf, dags. 4. febrúar 2008, og óskað frekari upplýsinga og gagna, m.a. gagna, sem lutu að ráðningarviðtölunum og gagna sálfræðings um stefnanda og kollega hans.
Fyrirspurnum þessum var svarað 21. febrúar s.á., þar sem öllum kröfum um gögn var ýmist vísað á bug, þar sem gögnum hefði verið eytt, um væri að ræða vinnugögn, sem ekki þyrfti að afhenda, þar sem þau hefðu ekki verið nýtt, eða að þau féllu undir undantekningarreglu, sem takmarkaði aðgang almennings og einstaklinga að umsóknargögnum. Þá sagði í svarbréfinu, að sálfræðiprófanir féllu undir reglu 21. gr. stjórnsýslulaga, sem kvæði á um, að ekki þyrfti að rökstyðja einkunnir. Loks var greint frá því, að umsækjendur hefðu undirgengizt skrifleg krossapróf, þar sem spurningarnar væru flestar sóttar í JAR-prófgagnabanka. Skilgreint var, hvernig stefnandi og þeir aðrir, sem gert höfðu athugasemdir við ráðninguna, hefðu staðið sig hlutfallslega og hvar þeir hefðu raðast, en í engu var vikið að þeim, sem ráðnir voru.
Stefnandi kveður hafa þótt fullreynt að óskir um afhendingu gagna myndu skila frekari árangri. Landhelgisgæzlunni var því ritað bréf, dags. 4. júní 2008, þar sem settar voru fram rökstuddar athugasemdir, sem lutu að tregðu stofnunarinnar til að afhenda gögn, sem dygðu til að varpa ljósi á, hvernig staðið hefði verið að ráðningarferlinu og ráðningu þeirra sem tilkynnt var, að hefðu verið ráðnir 20. nóvember 2007. Þá var gerð athugasemd við vanhæfi starfsmanna Landhelgisgæzlunnar til að koma að undirbúningi ráðninganna og athugasemd við hæfi forstjóra til að taka ákvörðun um ráðningarnar. Sagði þar, að forstjórinn væri sérstaklega vanhæfur til að fjalla um umsókn Brynhildar Ástu Bjartmarz. Hún hefði opinberlega birt staðhæfingar um, að forstjórinn hefði átt hlut að umræðu um ráðningu hennar, áður en hún hóf nám í þyrluflugi, og ráðning í starf hjá Landhelgisgæzlunni hefði við það tækifæri verið bundin fastmælum.
Þessum athugasemdum var svarað 16. júní 2008, þar sem þeim var öllum vísað á bug. Engin frekari gögn voru kynnt, en þess getið að reynsla af þyrluflugi hefði verið óþörf, þar sem fyrir hefði legið, að þeir sem ráðnir yrðu, myndu helzt fljúga sem aðstoðarflugmenn á starfsævi sinni. Athugasemdum þessum var svarað og kynnt, að stefnandi og þeir aðrir, sem staðið hefðu með honum að þessum athugasemdum, myndu ekki við una, heldur leita fulltingis dómstóla.
Stefnandi kveður, að vegna undirbúnings málsóknar hafi Landhelgisgæzlu verið sent erindi 28. ágúst 2008 og ítrekað 12. september s.á., þar sem innt hafi verið eftir blindflugsréttindum Marion Herrera, en uppi hafi verið kvittur um, að hún hefði ekki fullnægt því ráðningarskilyrði að vera handhafi slíkra réttinda. Svar barst 23. september, þar sem því var svarað til, að hún hefði haft gilt íslenzkt atvinnuflugmannsskírteini á þyrlu með blindflugsáritun, sem hefði verið útrunnin, en einungis hefði þurft eitt hæfnispróf til að sú áritun öðlaðist gildi á ný. Jafnframt var tekið fram, að það væri mat stofnunarinnar, að réttindi Marion féllu algerlega innan þeirra skilyrða, sem sett hefðu verið í auglýsingunni um starfið.
Stefndi kveður þannig staðið að ráðningum flugmanna hjá Landhelgisgæzlunni, að unnið sé eftir viðurkenndum reglum, sem notazt sé við almennt hjá flugrekendum, þegar flugmenn séu ráðnir. Sálfræðilegt próf sé lagt fyrir af óháðum aðila, sem leggi mat á umsækjendur og spái fyrir um líkur þess, hvernig hæfileikar viðkomandi séu til áhafnarsamstarfs, töku ákvarðana og fleira. Þá sé lagt fyrir bóklegt próf, sem meti þekkingu umsækjenda á flugmálum.
Alls hafi 12 manns sótt um auglýst þyrluflugmannsstörf, en einn hafi dregið umsókn sína til baka. Í fyrstu hafi verið byrjað á því að kanna, hvort umsækjendur uppfylltu kröfur um menntun og réttindi, sem gerðar voru í auglýsingu. Þrír umsækjendur hafi ekki uppfyllt þær kröfur, en hafi þó verið kallaðir í viðtöl og próf, til að gefa þeim færi á að skýra stöðu sína betur. Þeir umsækjendur, sem voru ráðnir, hafi uppfyllt allar kröfur, sem gerðar voru í auglýsingu, og það hafi stefnandi einnig gert.
Í auglýsingunni sé sérstaklega tekið fram, að æskilegt sé, að umsækjandi hafi lokið bóklegu námskeiði í áhafnarsamstarfi, og kveðið á um andlegt og líkamlegt atgervi samkvæmt kröfum Landhelgisgæzlunnar. Krafan um andlega atgervið feli fyrst og fremst í sér kröfu um samskiptahæfileika, þ.e. hæfileika til að starfa í hópi, í flugáhöfn, sem vinna þurfi vel saman við erfiðar aðstæður. Hafi verið stuðzt við sálfræðipróf við mat á þessum þætti. Umsækjendur hafi allir þreytt sálfræðipróf hjá Dr. Eiríki Arnari Arnarssyni, forstöðusálfræðingi sálfræðiþjónustu LSH, endurhæfingarsviði, og dósent í sálfræði við læknadeild H.Í., en hann hafi starfað fyrir helztu flugfélög landsins við mat á umsækjendum um flugmannsstörf. Hann hafi séð um sálfræðiprófin fyrir Landhelgisgæzluna undanfarin ár og hafi borið saman niðurstöður úr þeim í ráðningarferlum. Sumir umsækjendur hefðu farið í sálfræðipróf vegna fyrri umsókna og hafi því ekki verið kallaðir aftur í slík próf.
Dr. Eiríkur Örn hafi gert gögnin úr sálfræðiprófinu samanburðarhæf með skýrslu, sem Landhelgisgæzlan hafi notað, þegar ákvörðun um ráðningu var tekin. Með skýrslunni hafi fylgt munnlegar skýringar Dr. Eiríks Arnar. Í sálfræðiprófinu sé lagt mat á greind, rökræna hugsun, minni, bæði sjónrænt og yrt, auk þess sem persónuleiki sé prófaður til að skima út geðræn vandamál og kanna, hvort viðkomandi sé jafnlyndur, raunsær, áræðinn, yfirvegaður, sjálfsöruggur og kvíðalaus, svo dæmi séu tekin. Tekið sé fram, hvort viðkomandi sé félagslyndur eða fáskiptinn og svo frv. Umsækjendur séu m.a. bornir saman með súluriti.
Að sögn sálfræðingsins, Eiríks Arnar Arnarsonar, hafi umsækjendur að jafnaði komið vel út úr sálfræðiprófunum. Umsækjendurnir hafi flestir verið frambærilegir, en þeir, sem ráðnir voru, hafi talizt skara fram úr á þeim sviðum, sem helzt hafi verið lögð áherzla á.
Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri, Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri og Sigurður Heiðar Wiium yfirflugstjóri hafi séð um að taka viðtöl við alla umsækjendur, en Þórarinn Ingi Ingason þyrluflugmaður hafi einnig verið viðstaddur sum viðtöl, þar sem Sigurður hafi þurft að fara til útlanda, meðan á ráðningarferlinu stóð. Umsækjendur hafi allir verið spurðir sömu spurninga samkvæmt stöðluðum spurningalista, og hafi starfsmannastjóri ritað hjá sér í stikkorðum svör þeirra.
Auk viðtala og sálfræðiprófa hafi verið lögð bókleg próf fyrir umsækjendur. Þeir, sem hefðu tekið prófið haustið 2006 hafi ekki verið látnir endurtaka þau, en nýir umsækjendur hafi verið prófaðir að þessu sinni, enda um nákvæmlega sama prófið að ræða í öllum tilfellum. Prófið sé 60 spurninga krossapróf og eingöngu einn réttur svarmöguleiki við hverja spurningu, þannig að ekki sé unnt að leggja huglægt mat á niðurstöðuna. Spurningar á prófinu séu nær allar fengnar úr JAR- prófgagnabanka. Þar sé námsefninu skipt niður í flokka (siglingafræði, veðurfræði, talstöðvarsamskipti, flugeðlisfræði) og þess gætt að hafa spurningar úr öllum flokkum. Alls hafi 10 umsækjendur þreytt framangreint krossapróf, annaðhvort í þetta skiptið eða síðast, þegar þyrluflugmannsstörf voru auglýst á árinu 2006. Þetta próf hafi þó ekki ráðið úrslitum, enda mikil áherzla lögð á þætti, sem sálfræðimat tók til.
Fimm umbjóðendur Mandats lögmannsstofu hafi raðazt með eftirfarandi hætti á bóklega prófinu, og hafi þeim öllum verið gefinn kostur á að skoða sitt próf. Karl Jóhann Guðmundsson, sem ekki hafi uppfyllt skilyrði um próf, sem jafngilti stúdentsprófi, hafi verið í 4.-5. sæti og deilt þeim sætum með öðrum umsækjanda, en báðir hafi verið með 77% rétt svör. Snorri Geir Steingrímsson, hafi verið í 6. sæti með 72% rétt svör. Sverrir Bragi Sverrisson hafi verið í 7. sæti með 70% rétt svör. Stefnandi, Guðjón Bjarni Sigurjónsson, hafi verið í 8. sæti með 67% rétt svör og Guðmundur Kr. Unnsteinsson, sem ekki hafi uppfyllt skilyrði um að hafa tekið blindflugspróf, hafi verið í 10. sæti með 52% rétt svör.
Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri hafi stjórnað þessu ráðningarferli í umboði Georgs Kr. Lárussonar forstjóra, og notið aðstoðar Geirþrúðar Alfreðsdóttur, Sigurðar Heiðars Wiium og Þórarins Inga Ingasonar við flokkun umsókna og viðtöl. Svanhildur hafi verið viðstödd öll viðtölin og hafi því haft heildaryfirsýn yfir hópinn. Í ráðningarferlinu hafi komið upp spurning um hæfi Sigurðar Heiðars Wiium yfirflugstjóra vegna venzla við einn umsækjandann, Andra Jóhannesson. Þau tengsl séu milli Sigurðar Heiðars Wiium yfirflugstjóra og Andra Jóhannessonar, að Andri sé kvæntur Karin, dóttur Varðar Traustasonar, en Vörður sé bróðir Sólveigar Traustadóttur, móður Sigurðar. Sigurður og Karin, kona Andra, séu því systkinabörn og eigi sameiginlegan afa og ömmu. Forstjórinn hafi ekki vitað af venzlatengslum Sigurðar og Andra, fyrr en eftir að ráðningarferlið var hafið, en hann hafi þá kannað sérstaklega, hvort þau leiddu til vanhæfis.
Enn fremur hafi risið spurning um hæfi Geirþrúðar Alfreðsdóttur flugrekstrarstjóra gagnvart umsækjandanum, Brynhildi Ástu Bjartmars. Benóný Ásgrímsson flugstjóri og Geirþrúður Alfreðsdóttir flugrekstrarstjóri eigi barn saman, en hafi aldrei verið í sambúð. Hann sé nú kvæntur Kristínu, móður Brynhildar Ástu Bjartmarz. Benóný Ásgrímsson flugstjóri hafi hins vegar ekkert komið nálægt vali á umsækjendum eða samningu prófa, sem lögð voru fyrir umsækjendur.
Ekki sé vitað um önnur tengsl, sem skipt geti máli. Hins vegar hafi tveir umsækjendur, þau Sverrir Bragi Sverrisson og Marion Herrera, átt barn saman.
Vegna stöðu sinnar í flugdeild Landhelgisgæzlunnar hafi þau Geirþrúður og Sigurður þannig komið að undirbúningi ráðninga með þeim hætti, sem að framan sé lýst. Forstjórinn hafi ákveðið að taka ákvörðun um ráðningu þyrluflugmanna, án þess að ráðgast við starfsmenn, sem hætta hafi verið talin á, að yrðu metnir vanhæfir. Þetta hafi verið gert af varúðarástæðum, fremur en af vissu um, að þau væru vanhæf, a.m.k. hvað varðaði Geirþrúði Alfreðsdóttur. Hann hafi því hvorki ráðfært sig við Geirþrúði né Sigurð, er hann tók ákvörðun um ráðningu.
Haustið 2006 hafi allir umbjóðendur Mandats lögmannsstofu, þ.á m. stefnandi, sótt um þyrluflugmannsstarf, auk þeirra umsækjenda, sem nú urðu fyrir valinu, að Marion frátalinni. Þá hafi Benóný Ásgrímsson verið yfirflugstjóri, en hann hafi látið af því starfi í janúar 2007. Vegna tengsla hans við Brynhildi hafi þá verið fenginn utanaðkomandi aðili til að leggja mat á umsækjendur. Engar athugasemdir hafi þá verið gerðar um hæfi Geirþrúðar gagnvart Brynhildi, hvorki af hennar hálfu né annarra umsækjenda. Hafi forstjórinn þá valið á milli umsækjenda með aðstoð utanaðkomandi aðila, Hallgríms Jónssonar frá Icelandair, þannig að forstjórinn hafi þekkt fyrir til flestra umsækjendanna, m.a. stefnanda og umsækjenda, sem ráðnir voru að þessu sinni, að Marion frátalinni.
Að lokum hafi það verið Svanhildur Sverrisdóttir starfsmannastjóri, sem tekið hafði þátt í öllu ferlinu, sem hafi rætt um umsækjendur við forstjóra Landhelgisgæzlunnar, Georg Kr. Lárusson. Starfsmannastjóri hafi talið, að frammistaða þeirra umsækjenda í viðtölum, sem ráðnir voru, hafi komið heim og saman við niðurstöðu sálfræðings. Þau hafi komið afskaplega vel fyrir, virzt jákvæð og félagslynd og átt auðvelt með að tjá sig, og hafi hún kynnt það mat sitt fyrir forstjóranum, áður en hann tók ákvörðun, en hann hafi jafnframt haft samanburðarmat sálfræðingsins hjá sér.
Forstjórinn hafi kynnt sér umsóknargögnin, rætt við Svanhildi um umsækjendur, sálfræðimatið og frammistöðu þeirra að öðru leyti. Þar sem mikil áherzla sé lögð á áhafnarsamstarf og samstarfshæfileika, hafi forstjórinn sjálfur tekið tvo umsækjendur aftur í viðtal, sem sálfræðipróf hafi sýnt, að sköruðu fram úr að þessu leyti, þau Marion Herrera og Andra Jóhannesson. Brynhildur Bjartmarz hafi einnig verið með framúrskarandi niðurstöðu, en forstjórinn hafi ekki talið nauðsynlegt að kalla hana í viðtal, þar sem hann hefði verið búinn að ræða við hana áður vegna umsóknar hennar um þyrluflugmannsstarf haustið 2006, og Svanhildur hefði tekið viðtal við hana vegna umsóknar nú. Í samráði við Svanhildi og í ljósi framangreindra gagna og sjónarmiða hafi hann afráðið að ráða framangreinda þrjá einstaklinga sem þyrluflugmenn hjá Landhelgisgæzlunni.
Brynhildur hafi hafið störf 13. nóvember 2007, en Andri og Marion hafi komið til starfa 10. janúar 2008. Þau þrjú hafi staðizt allar kröfur á reynslutímabili og öll verið fastráðin frá og með 13. júlí 2008. Vegna hagræðingar í rekstri í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 hafi hins vegar þurft að segja þeim upp, og hafi það verið gert með uppsagnarbréfi, dags. 24. febrúar 2009. Hafi þau látið af störfum hjá Landhelgisgæzlunni í lok ágúst s.á.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því, að Landhelgisgæzla Íslands, sem er ein af stofnunum stefnda, íslenska ríkisins, hafi með ólögmætum og saknæmum hætti sniðgengið stjórnsýslureglur við ráðningu þriggja þyrluflugmanna, sem tilkynnt var um 20. nóvember 20507.
Stefnandi byggir á því, að við ráðningu flugmannanna hafi verið gengið á svig við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að raða beri hæfasta umsækjandanum í það starf, sem ráðstafa skuli hverju sinni. Samkvæmt hlutlægu mati hafi stefnandi sjálfur verið hæfari til starfans, en af hálfu stefnda virðist á því byggt, að hæfni umsækjenda hafi verið metin fyrst og fremst á grundvelli „samstarfshæfileika“. Stefndi hafi þó neitað að láta í té nein þau gögn, sem sýnt gætu, hvernig nefndir „samstarfshæfileikar“ hafi verið metnir. Þá sé ekki unnt að sjá, að auglýsing um störfin hafi borið með sér, að þessi áherzla yrði lögð á við ráðningu í þau.
Við alla stjórnsýslu þurfi að gæta þess, að starfsmenn sem að ákvarðanatöku komi, séu ekki vanhæfir til afskipta af viðkomandi málefni. Þess þurfi að gæta í umfjöllun um ráðningar, að þær séu afráðnar í samræmi við fyrir fram þekktar forsendur, og að málefnaleg sjónarmið séu lögð til grundvallar. Sé kallað eftir rökstuðningi og gögnum, vegna ákvörðunar af hálfu málsaðila, beri stjórnvaldi að verða við því, svo glöggva megi sig á, að málefnalega hafi verið staðið að ákvarðanatöku. Að mati stefnanda hafi Landhelgisgæzla Íslands brugðizt í öllum þessum atriðum.
Vanhæfi:
Það sé upplýst, og á því byggt af hálfu stefnda, að tveir þeirra starfsmanna, sem komu að málsmeðferðinni, hafi verið vanhæfir til þess. Það sé upplýst, að þetta hafi verið yfirmönnum Landhelgisgæzlunnar ljóst, áður en tilkynnt hafi verið, hverjir voru ráðnir. Viðbrögðin við þessu þekkta vanhæfi hafi hins vegar verið algerlega ófullnægjandi. Málsmeðferðin hafi verið farin úrskeiðis af þessum sökum og það eitt, að forstjórinn tæki endanlega ákvörðun um að ráða þá þrjá einstaklinga, sem ráðnir voru, breyti engu. Upplýst sé, að hann hafi einungis tekið tvo umsækjendur af þremur í viðtal, en við þann þriðja hafi hann fyrr rætt vegna annarrar starfsumsóknar. Forstjórinn sýnist þannig hafa brugðizt rannsóknarskyldu samkvæmt 10. gr. laga nr. 37/1993, þegar hann hafi kosið að leggja afmörkun, sem vanhæfir starfsmenn hafi staðið að, til grundvallar því, við hverja af umsækjendum hann ræddi.
Forstjórinn hafi og mátt vita, að 6. tl. 3. gr. laga nr. 37/1993 ætti við um hann sjálfan varðandi einn umsækjandann, Ástu Brynhildi Bjartmarz, enda birt á opinberum vettvangi á hennar vegum umfjöllun um aðkomu hans sjálfs að ráðagerðum um ráðningu hennar í stöðu þyrluflugmanns, áður en hún hóf nám sem þyrluflugmaður, sbr. dskj. nr. 11. Forstjóranum hafi í síðasta lagi verið kunnugt um þessa umfjöllun, og þar með að ofangreind tilvísun til stjórnsýslulaga ætti við, þegar athygli hafi verið vakin á þessari opinberu umfjöllun þann 13. desember 2006, sbr. dskj. nr. 17.
Því hafi verið haldið fram við stefnanda, að fósturfaðir eins umsækjandans, Ástu Brynhildar Bjartmarz, Benóný Ásgrímsson, flugstjóri hjá Landhelgisgæzlunni, hafi átt hlut að máli við að semja bóklegt próf, sem umsækjendur þreyttu. Um þetta hafi ekki verið upplýst, en sé það rétt, sé þar enn einu vanhæfistilvikinu til að dreifa, sbr. 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993.
Ómálefnaleg synjun um aðgang að gögnum:
Fyrir liggi, að Landhelgisgæzla Íslands hafi neitað að afhenda nokkur gögn. Engin gögn hafi verið afhent, önnur en ráðningargögn þeirra þriggja, sem standi að sams konar málum eins og stefnandi. Að mati stefnanda orki ekki tvímælis, að þessi synjun sé að ólögum, enda á því byggt af hálfu stefnda, að framúrskarandi umsækjendur hafi verið ráðnir, umsækjendur sem hafi skarað fram úr öðrum, verið hæfastir. Enginn möguleiki sé að glöggva sig á réttmæti þessara staðhæfinga, þegar ekkert hafi verið lagt fram þeim til stuðnings. Á því leiki ekki vafi, að mati stefnanda, að hann eigi, skv. 15. gr. laga nr. 37/1993, rétt til aðgangs að þeim gögnum, sem lögð hafi verið til grundvallar við ákvörðun um ráðningu þyrluflugmanna, sem tilkynnt hafi verið um þann 20. nóvember 2007. Hvorki ákvæði 3. tl. 16. gr. sömu laga takmarki þann rétt, né heldur upplýsingalögin nr. 50/1996, enda sérstaklega tekið fram, að þau lög eigi ekki við um aðgang að gögnum samkvæmt stjórnsýslulögum, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna. Þá reyni ekki heldur á lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga í máli þessu, enda því lýst yfir frá öndverðu af hálfu stefnanda, að ekki sé gerð nein krafa um persónulegar upplýsingar annarra umsækjenda, sem leynt eigi að fara og séu málefninu óviðkomandi.
Þrátt fyrir þetta hafi Landhelgisgæzlan skellt skollaeyrum við kröfum stefnanda, sem leiði ekki til annarrar ályktunar en þeirrar að mótmæla verði sem röngum og óstaðfestum fullyrðingum stefnda um, að þeir, sem ráðnir hafi verið, hafi komið bezt út úr prófunum og viðtölum og hafi skarað fram úr. Slíkt sé algerlega ósannað og verði því ekki annað lagt til grundvallar en að staðið hafi verið að ráðningunum með ólögmætum og saknæmum hætti, sem leiði til bótaskyldu stefnda.
Ómálefnaleg sjónarmið lögð ti1 grundvallar:
Að mati stefnanda breyti engu, hvort meintar uppgefnar ráðningarástæður stefnda hafi í raun verið lagðar til grundvallar eða um eftirárökstuðning ómálefnalegra klíku- og ættingjaráðninga hafi verið að tefla. Uppgefnar ástæður séu ekki haldbærar og málefnalegar. Úr því hafi ítrekað verið leyst og um fjallað á vettvangi dómstóla og af umboðsmanni Alþingis, hvernig veitingarvaldshafa beri að halda á meðferð umsókna og ákvörðun um ráðningu í starf. Það sé grundvallaratriði, að Landhelgisgæzlunni hafi borið skylda til að velja þá umsækjendur, sem voru hæfastir til að gegna starfi þyrluflugmanns. Kjarnaatriði sé, að fram þurfi að fara heildstæður samanburður á framkomnum umsóknum, þar sem lögð sé megináherzla á atriði, sem geti varpað ljósi á væntanlega frammistöðu í starfi, áður en afstaða sé tekin til þess, hverjum verði veitt starfið. Ekki hafi verið lögfestar almennar reglur, sem kveði á um, hvaða sjónarmið eigi að leggja til grundvallar við ráðningu í opinber störf, og því hafi stefndi vissulega nokkurt svigrúm til að afráða, hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við ákvörðun. Þessu svigrúmi séu hins vegar reistar afdráttarlausar skorður. Val á sjónarmiðum verði að vera málefnalegt og gæta verði að jafnræði umsækjenda. Beri einkum að líta til menntunar, sérstaklega þeirrar, sem nýtist í starfi, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum þeirra persónulegu eiginleika, sem máli geti skipt við rækslu starfans.
Ekki orki tvímælis, að menntun og starfsreynsla vegi hvað þyngst. Mjög veigamikil rök verði að vera til þess að víkja frá þessum hlutrænu mælikvörðum. Almennt sé óvéfengt, að starfsreynsla eigi að vera umsækjanda til framdráttar og henni verði ekki vikið til hliðar, nema svo hátti til, að menntun umsækjenda annars vegar og starfsreynsla hins vegar leiði hvor til sinnar niðurstöðu. Þá geti verið málefnalegt að líta fram hjá reynslunni, sérstaklega ef viðkomandi starf sé þess eðlis, að kalli fremur á milda þekkingu en reynslu. Svo hátti ekki til í því máli, sem hér sé til umfjöllunar.
Í fyrsta lagi liggi ekkert fyrir um, að þeir, sem ráðnir hafi verið, hafi búið að frekari menntun en stefnandi, en stefnandi hafi búið að reynslu sem þyrluflugmaður. Í annan stað sé öll réttindaávinnsla þyrluflugmanna, eins og annarra flugmanna, háð fjölda fartíma. Því sambandi megi nú vísa til reglugerðar nr. 402/2008.
Áherzla á persónulega eiginleika geti aldrei rutt úr vegi þeirri grunnreglu, að ráðningu verður að stofni til að grundvalla á hlutlægu mati á starfsreynslu og menntun. Eins og hér hátti til, hafi engin gögn verið kynnt eða sýnd, sem styðji, að sérsjónarmið um samskiptahæfni hafi í raun verið það, sem stefndi hafi lagt til grundvallar. Að auki liggi ekkert fyrir um, að þessi hæfileiki hafi verið sérstaklega rannsakaður markvisst hjá öllum umsækjendum. Loks liggi engin gögn eða upplýsingar fyrir, sem styðji, að þeir, sem ráðnir hafi verið, hafi skarað fram úr öðrum umsækjendum í þessum efnum. Þá skorti algerlega fullnægjandi rökstuðning fyrir því, að þetta tiltekna sjónarmið eigi að ráða úrslitum við ráðninguna. Sjónarmiðið snúi að þröngt afmörkuðum þætti í starfi þyrluflugmanna en virðist eigi að síður hafa verið tekið fram yfir hæfni og reynslu af þyrluflugi. Þessa sjónarmiðs hafi og verið í engu getið í auglýsingu um starfið. Samskiptahæfni verði ekki mæld á hlutlægan mælikvarða. Stefndi hafi neitað að upplýsa allt, er lúti að mati sínu í þessu efni, í skjóli persónuverndar. Fallist dómstólar á, að slík stjórnsýsla fái staðizt, jafngildi það því að afnema kröfur um málefnalega stjórnsýsluhætti, enda gætu stjórnvöld þá hagað málum eftir geðþótta, vísað á mat á persónulegum eiginleikum og neitað að fjalla um málið frekar eða sýna forsendur matsins.
Að mati stefnanda geti kyn tveggja þeirra, sem ráðnir hafi verið, ekki ráðið úrslitum í máli þessu honum í óhag. Það sé meginregla íslenzks réttar, að karlar og konur njóti jafnræðis. Sú sérregla jafnréttislaga, sem útfærð hafi verið með dómvenju og feli í sér, að því kyni, sem sé í minnihluta á viðkomandi starfssviði, skuli tryggður forgangsréttur til starfa, eigi því aðeins við, að umsækjendur um starf séu jafnhæfir. Það sjónarmið eigi ekki við í þessu máli.
Miskabótakrafa:
Að mati stefnanda sé ekki blöðum um það að fletta, að stefndi hafi, með framgöngu sinni, brotið freklega gegn lögvörðum rétti stefnanda til réttrar og lögmætrar meðferðar umsóknar hans. Svo freklega stríði framganga stefnda gegn þessum réttindum stefnanda, að á b. lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 reyni. Sé enda ótvírætt, að um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda sé að ræða, með því að skipa honum skör lægra sem fagmanni við þyrluflug, eins og stefndi hafi gert.
Lagarök:
Stefnandi vísar til almennra reglna stjórnsýsluréttar og laga 37/1993, máli sínu til stuðnings, auk laga um persónuvernd nr. 50/1996. Mál þetta sé rekið sem viðurkenningarmál í krafti heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi krefst þess, að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað fyrir þennan þátt málsins sérstaklega.
Málsástæður stefnda
Aðalkrafa stefnda er sú, að málinu verði vísað frá dómi, og er sá þáttur þess einungis hér til umfjöllunar.
Frávísunarkröfu sína kveðst stefndi reisa á því, að kröfugerð og málatilbúnaður stefnanda sé svo vanreifaður og óljós að varði frávísun málsins frá dómi.
Krafa stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sé óljós og vanreifuð í stefnu, þannig að varði frávísun hennar, sbr. 1. og 2. mgr. 25. gr. og ákvæði d- og e- liða 80. gr. laga um meðferð einkamála. Enga umfjöllun sé yfirhöfuð að finna um hana, eða um grundvöll hennar í umfjöllun um málsástæður og lagarök í stefnu, og ekki einu sinni leitazt við að vísa þar til viðeigandi skaðabótareglna, sem stefnandi telji, að geti grundvallað þá kröfu sína. Eina umfjöllunin í stefnu um viðurkenningu skaðabótaskyldu sé í lok málavaxtalýsingar, þar sem vísað sé til mismunar á launum og hlunnindum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæzlunni og þeirra launa, sem hann njóti í starfi sem leigubílstjóri hjá Hreyfli. Um ætlaðan mismun, og í hverju hann eigi að felast, sé hins vegar ekkert fjallað, og sé stefnanda þó fullkomlega ljóst, hver launakjör hafi gilt um þá, sem ráðnir hafi verið, sbr. dskj. nr. 50.
Krafa um viðurkenningu á skaðabótaskyldu, með heimild í 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála, leysi stefnanda máls ekki undan þeirri skyldu að gera grein fyrir því, að skilyrði til áfalls skaðabótaskyldu séu uppfyllt. Óhjákvæmilegt skilyrði slíkrar málsóknar sé, að sýnt sé fram á tjón, í hverju það sé fólgið, og á hvern hátt það hafi orsakazt af þeim atvikum, sem talin séu hafa valdið bótaábyrgð. Engri slíkri umfjöllun sé fyrir að fara í stefnu eða reifað ætlað tjón. Úr slíkum annmörkum verði ekki bætt, eftir að stefndi hafi lagt fram greinargerð.
Sömu ágallar séu á reifun stefnanda á miskabótum. Stefnandi rökstyðji kröfu um miskabætur, sem hann styðji við b- lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, eingöngu svo, að ekki sé „að mati stefnanda blöðum um það að fletta að stefndi hefur með framgöngu sinni brotið freklega gegn lögvörðum rétti hans til réttar lög og lögmæltrar meðferðar umsóknar hans.“ Um rök fyrir b- lið 1. mgr. 26. gr. segi aðeins: „Er enda ótvírætt um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda að skipa honum skör lægra sem fagmanni við þyrluflug eins og stefndi gerði.“ Reifun stefnanda á miskabótakröfu sé þannig illskiljanleg og vanreifuð, hvernig sem á sé litið.
IV
Forsendur og niðurstaða
Krafist er í málinu viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda, auk miskabóta.
Skilyrði þess, að skaðabótaskylda verði talin fyrir hendi, er að sýnt sé fram á, að tjón hafi orðið. Í kafla um málsástæður stefnanda er hvergi að því vikið, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, eða í hverju meint tjón hans sé fólgið. Í lok kafla um málavexti vísar stefnandi hins vegar til stuðnings viðurkenningarkröfu sinni til þess mismunar á launum og hlunnindum þyrluflugmanna hjá Landhelgisgæzlunni og þeirra launa, sem hann nýtur í starfi sem flugmaður hjá Norðurflugi, án þess að tilraun sé gerð til þess að skýra það nánar, hver sá munur sé, eða í hverju hann felist.
Með því að stefnandi hefur ekki leitast við að færa rök að því, að hann hafi orðið fyrir tjóni af ástæðum, sem hann byggir málsókn sína á, er ekki unnt að taka afstöðu til þess, hvort bótaskylda hafi stofnazt af hálfu stefnda gegnvart stefnanda, eins og krafa hans lýtur að, og er ekki fallizt á, að nægi að vísa til launamismunar, sem ekki liggur fyrir hvort er fyrir hendi eða hver hann er. Fullnægir þessi málatilbúnaður stefnanda varðandi þennan kröfulið ekki skilyrðum 1. og 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála og fer jafnframt í bága við d- og e-liði 80. gr. sömu laga.
Umfjöllun í stefnu um miskabótakröfuna er svohljóðandi:
Að mati stefnanda er ekki blöðum um það að fletta að stefndi hefur með framgöngu sinni brotið freklega gegn lögvörðum rétti hans til réttar lög og lögmæltrar meðferðar umsóknar hans (sic í stefnu). Svo freklega (sic. í stefnu) stríðir framganga stefnda gegn þessum réttindum stefnanda að á b. lið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 reynir. Er enda ótvírætt um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda að skipa honum skör lægra sem fagmanni við þyrluflug eins og stefndi gerði.
Einungis er þarna vísað til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1993 og þess, að um ólögmæta meingerð gegn æru og persónu stefnanda sé að ræða með því að skipa honum „skör lægra“ sem fagmanni við þyrluflug, án þess að skýrt sé nánar við hvað sé átt. Þá eru málsreifun þessi illskiljanleg samkvæmt orðanna hljóðan. Er því fallizt á það með stefnda, að reifun kröfunnar fari í bága við e-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Samkvæmt framangreindu ber að vísa málinu frá dómi í heild sinni.
Eftir þessum úrslitum ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 150.000 krónur.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Guðjón Bjarni Sigurjónsson, greiði stefnda, Landhelgisgæzlu Íslands f.h. íslenzka ríkisins, kr. 150.000 í málskostnað.