Mál nr. 388/2016
- Ríkisstarfsmenn
- Slysatrygging
Í málinu krafðist B bóta úr hendi Í vegna áverka sem hún varð fyrir er hún lenti í árekstri á bensínstöð á heimleið frá vinnustað sínum. Talið var að viðkoma B á umræddri bensínstöð hefði verið nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili hennar þannig að reglur nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, ættu við um slys hennar. Var því fallist á kröfu B.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2016. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Atvikum málsins, sem eru óumdeild, er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var stefnda á heimleið frá vinnustað sínum 3. október 2012. Ók hún bifreið sinni þá leið sem hún var vön að aka og inn á bensínstöð í nágrenni heimilis síns til þess að kaupa eldsneyti á bifreiðina sem hún kvað hafa verið að verða eldsneytislausa. Í þeim erindagjörðum lenti hún í árekstri og slasaðist.
Samkvæmt 1. málsgrein 4. greinar reglna nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna samkvæmt kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, taka þær til slysa sem sá sem tryggður er, sbr. 3. grein, verður fyrir í starfi sínu eða á eðlilegri leið frá heimili til vinnustaðar síns og frá vinnustað til heimilis. Snýst ágreiningur aðila um hvort slíkt rof hafi orðið á leið stefndu umrætt sinn, er hún kom við á bensínstöðinni, að hún teljist ekki hafa verið á eðlilegri leið frá vinnustað til heimilis síns þannig að reglur þessar eigi ekki við um slys stefndu.
Stefnda heldur því fram sem fyrr segir að hún hafi ákveðið að kaupa eldsneyti á heimleiðinni þar sem bifreið hennar hafi verið eldsneytislítil og verður þeirri fullyrðingu hennar ekki hafnað. Eins og hér háttar til var það nauðsynlegur og eðlilegur þáttur í akstri bifreiðarinnar frá vinnustað að heimili stefndu að kaupa eldsneyti á bifreiðina. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Brynju Jónu Gísladóttur, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2016.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 28. maí 2015 og dómtekið 22. febrúar 2016 að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er Brynja Jóna Gísladóttir, Flétturima 9, Reykjavík. Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.
Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 3.580.614 krónur, aðallega með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. júní 2014 til greiðsludags, en til vara með vöxtum samkvæmt 4. gr. laganna frá 30. júní 2014 til 21. júní 2015, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.357.164 krónur 30. júní 2014. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara lækkunar, auk málskostnaðar.
Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika
Atvik málsins eru óumdeild. Er ágreiningur aðila takmarkaður við það hvort stefnandi eigi rétt á bótum samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi með vísan til þess að hún hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis skv. 1. mgr. 4. gr. reglnanna þegar hún varð fyrir slysi 3. október 2012. Ekki er deilt um afleiðingar umrædds slyss, en stefnandi var metin til 18% varanlegs miska og 15% varanlegrar örorku vegna þess með matsgerð 14. maí 2014. Eftir að stefnandi lækkaði kröfugerð sína við aðalmeðferð málsins er ekki lengur tölulegur ágreiningur með aðilum.
Nánari atvik málsins eru þau að stefnandi, sem starfaði í fullu starfi hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi, var ökumaður bifreiðarinnar EB-511 á leið heim úr vinnu 3. október 2012. Stefnandi ók sem leið lá frá starfstöð sinni á Landspítalanum austur Miklubraut og beygði upp á Höfðabakkabrú og þar til norðurs yfir Gullinbrú. Við gatnamót Gullinbrúar og Fjallkonuvegar beygði stefnandi til hægri og því næst inn á þjónustustöð Olís. Samkvæmt stefnu var ástæða þess sú að bifreiðin var að verða bensínlaus. Þegar stefnandi var nýbúin að keyra inn á stæði við þjónustumiðstöðina var bifreiðinni YD-574 skyndilega bakkað á bifreið stefnanda svo árekstur varð um kl. 16. Við áreksturinn kastaðist stefnandi til og varð fyrir áverkum á hálsi og baki. Er ekki deilt um afleiðingar slyssins, svo sem áður greinir.
Eftir að fyrrgreint örorkumat lá fyrir 14. maí 2014 gerði lögmaður stefnanda kröfu 16. maí 2014 um að stefndi greiddi stefnanda slysabætur samkvæmt reglum nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Stefndi greiddi stefnanda slysabætur 30. júní 2014 í samræmi við niðurstöðu fyrrgreindrar matsgerðar en samkvæmt reglum nr. 31/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir utan starfs. Eftir ítrekanir lögmanns stefnanda fékk hann þau svör frá stefnda í símtali í byrjun febrúar 2015 að litið væri svo á að með því að taka bensín hefði stefnandi gert rof á beinni leið til og frá vinnu svo slysið ætti undir reglur nr. 31/1990 en ekki reglur nr. 30/1990. Var kröfu stefnanda því hafnað.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Helstu málsástæður og lagarök aðila.
Stefnandi byggir á því að hún hafi verið ríkisstarfsmaður á slysdegi og tryggð samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Stefnandi telur því að hún hafi verið á eðlilegri leið milli vinnustaðar síns og heimilis skv. 1. mgr. 4. gr. reglnanna. Stefnandi byggir á því að hún hafi orðið fyrir varanlegri örorku í skilningi 10. gr. reglnanna og eigi rétt til bóta samkvæmt 10. og 11. gr. reglnanna. Stefnandi leggur á það áherslu að það rúmist innan eðlilegrar ferðar milli vinnustaðar og heimilis að taka bensín, ef svo ber undir, og það teljist ekki slíkt rof á eðlilegri leið að hinn tryggði teljist þá falla utan gildissviðs reglna nr. 30/1990 og falli eingöngu undir gildissvið reglna nr. 31/1990. Játa verði tryggðum ákveðið svigrúm í skilningi ákvæðisins til að velja sér leið og komast heim til sín.
Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá uppgjörsdegi en þá hafi stefndi þegar gert sér grein fyrir greiðsludegi og tilvist kröfunnar og ákveðið gjalddaga hennar samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Sé ekki fallist á aðalkröfu er gerð krafa um dráttarvexti frá 21. janúar 2015, þegar lögmaður stefnanda ítrekaði kröfuna í þriðja skipti og tilkynnti um fyrirhugaða málshöfðun.
Stefndi mótmælir sjónarmiðum stefnanda. Hann vísar til þess að fyrrgreindar slysatryggingar snúist um að starfsmaður hafi verið í starfi á starfsstað, í nauðsynlegum erindum og ferðum sem farnar séu í þágu vinnuveitanda, eða nauðsynlegum ferðum milli heimilis og vinnustaðar. Það sé ekki tilgangur þessara trygginga að veita starfsmanni vernd þegar hann sinni einkaerindum, svo sem að taka eldsneyti, fara í banka, verslun, o.s.frv. Eðlileg leið samkvæmt 1. mgr. 4. gr. fyrrgreindra reglna vísi því til óslitinnar farar í þeim tilgangi að komast í þágu og vegna vinnu milli heimilis og vinnustaðar. Ekki sé krafist farar um stystu loftlínu eða götukorti, enda nýti starfsmenn sér ýmsa kosti við samgöngur og taka þurfi tillit til færðar og annarra aðstæðna. Stefnandi hafi gert rof á för sinni til að sinna einkaerindum þegar hún tók krók á leið sinni. Hafi hún því ekki átt rétt á bótum eins og hún hafi verið í starfi. Hafi hún því fengið réttilega uppgerðar bætur og eigi ekki því ekki frekari kröfu í málinu. Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um almenna vexti og upphafstíma dráttarvaxta.
Niðurstaða
Óumdeilt er að venjuleg leið stefnanda, frá vinnu til heimilis hennar að Flétturima 9, lá um Gullinbrú, fram hjá gatnamótum við Fjallkonuveg, í áttina að gatnamótum Gullinbrúar og Hallsvegs. Þá liggur fyrir að í stað þess að halda beint áfram norður Gullinbrú á leið sinni 3. október 2012 ákvað stefnandi að beygja inn á þjónustustöð Olís sem liggur á horni götunnar og Fjallkonubrautar.
Af gögnum málsins verður ráðið að frá umræddri þjónustustöð, sem ekið er að frá Fjallkonubraut, er hægt að aka beint aftur inn á Gullinbrú. Þótt stefnandi hafi samkvæmt þessu þurft að beygja inn á Fjallkonubraut og aka eftir henni spölkorn til þess að geta beygt til vinstri inn á þjónustustöðina, gat hún að því búnu haldið áfram venjulegri leið sem fyrr greinir. Verður háttsemi stefnanda í umræddu tilviki þannig fyllilega jafnað til þess þegar ökutæki er ekið inn á þjónustu- eða bensínstöð sem liggur samsíða götu eða vegi, svo sem algengt er bæði í þéttbýli og dreifbýli.
Alkunna er að bílstjórum getur verið nauðsynlegt að koma við á þjónustustöðvum olíufélaga, svonefndum bensínstöðvum, svo sem til að taka eldsneyti eða sinna bifreiðum sínum, en einnig getur verið um að ræða ýmsar náttúrulega þarfir ökumannsins sjálfs. Verður að líta á stöðvanir við slíkar stöðvar sem órjúfanlegan þátt í notkun bifreiða. Þótt ökumaður rjúfi för sín í stuttan tíma og víki nokkra tugi metra frá því sem annars myndi vera venjulegur ferill hans á leið milli vinnustaðar og heimilis verður af þessum ástæðum að telja hann eftir sem áður á eðlilegri leið milli umræddra staða. Er af þessum ástæðum þýðingarlaust þótt einungis liggi fyrir einhliða frásögn stefnanda um það í hvaða erindagjörðum nákvæmlega hún stöðvaði för sína í umrætt sinn. Er þar af leiðandi einnig fullnægt skilyrði 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 30/1990 um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi, til þess að stefnandi teljist hafa verið tryggður samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglnanna.
Við endanlega kröfugerð sína hefur stefnandi tekið mið af athugasemdum stefnda um rétta viðmiðunarfjárhæð slysatryggingabóta, en aðilar deila ekki um mat á afleiðingum fyrrgreinds slyss. Er því ekki lengur ágreiningur um höfustól kröfu stefnanda eða innborgun og því engin efni til þess að lækka kröfu stefnanda, svo sem stefndi gerir enn kröfu um.
Af málatilbúnaði stefnanda verður ráðið að hann miði við fjárhæð slysatryggingabóta eins og þær voru í júní 2014. Varakrafa stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 er órökstudd, en ekki er krafist vaxta samkvæmt 8. gr. laganna. Í ljósi atvika málsins verða dráttarvextir dæmdir frá málshöfðun eða 28. maí 2015 með vísan til lokaorða 9. gr. laga nr. 38/2001 sem hér þykir eiga við.
Við ákvörðun málskostnaðar verður að taka nokkurt tillit til þess að stefndi hefur lækkað kröfu sína umtalsvert til samræmis við málatilbúnað stefnda. Eftir úrslitum málsins og þessu athuguðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til málskostnaðar.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ingólfur Kristinn Magnússon hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Eiríkur Áki Eggertsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Brynju Jónu Gísladóttur, 3.580.614 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2015 til greiðsludags, allt að frádregnum 1.357.164 krónum 30. júní 2014.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.