Hæstiréttur íslands
Mál nr. 531/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
|
Þriðjudaginn 12. október 2010. |
|
Nr. 531/2010. |
Fjarðarhóll ehf. (Bjarni G. Björgvinsson hrl.) gegn Fjöl ehf. (Hilmar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð.
FJ kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu hans um að fá hjólhýsi tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum F og fengið sér. FJ kvaðst hafa keypt umrætt hjólhýsi af þrotabúi T og kaupsamningur væri undirritaður af skiptastjóra þrotabúsins. F hafði tekið að sér að gera við hjólhýsið og hafði þriðji maður beðið um viðgerðina fyrir hönd S, eiganda hjólhýsisins. F bar því við að hjólhýsið, sem stæði á lóð félagsins, væri í eigu S og því kæmi ekki til greina að afhenda það til annars aðila án samþykkis fyrirsvarsmanns S. Talið var að FJ bæri sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum um eignarhald á hjólhýsinu, sem krafist væri yfirráða yfir. Af framlögðum gögnum mætti ráða að FJ hefði keypt hjólhýsi af þrotabúi T með nánar tilgreint auðkennisnúmer. Hins vegar væri ekkert í skjallegum gögnum sem styddi að það væri hjólhýsið sem stæði á lóð F. Ekki lægi fyrir nein sönnun um að hjólhýsið bæri auðkennisnúmer það sem skráð væri í framlögð gögn. Var því talið að FJ hefði ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann væri eigandi hjólhýsisins sem stæði á lóð F og F kvað í eigu S. Var því hafnað kröfu FJ um að gerðin næði fram að ganga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 14. júní 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að honum yrði heimilað að fá hjólhýsi af nánar tilgreindri gerð tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengið sér. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að sér verði veitt heimild til framangreindrar aðfarargerðar og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Fjarðarhóll ehf., greiði varnaraðila, Fjöl ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 14. júní 2010.
Mál þetta varðar aðfararbeiðni, sem barst héraðsdómi 8. apríl 2010, og var það tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 20. maí 2010.
Sóknaraðili er Fjarðarhóll ehf. Austurvegi 17b, Seyðisfirði.
Varnaraðili er Fjöl ehf., Lyngási 5-7, Egilsstöðum.
Sóknaraðili krefst dómsúrskurðar um að hjólhýsi af gerðinni North Star Country, auðkenni 040529001, verði tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengið gerðarbeiðanda.
Varnaraðili krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar.
I
Sóknaraðili kveður í beiðni sinni að með kaupsamningi 5. febrúar 2010 hafi hann keypt umrætt hjólhýsi af þrotabúi Tærgesen ehf. og sé kaupsamningur undirritaður af skiptastjóra þrotabúsins, en Tergesen ehf. hafi keypt það árið 2004. Tærgesen ehf. hafi verið úrsurðað gjaldþrota 13. nóvember 2007 og hafi hjólhýsið verið talið til eigna félagsins við gjaldþrot þess. Hafi sóknaraðili óskað eftir því við fyrirsvarsmenn varnaraðila að fá húsið afhent úr vörslum varnaraðila en þeirri málaleitan hafi verið hafnað. Hafi tækjum verið lagt fyrir hjólhýsið, þannig að gerðarbeiðanda sé ekki unnt að fjarlægja það af staðnum nema með því að fara inn á lóð varnaraðila og færa þar til eignir hans eða annarra sem hindri aðgang að hjólhýsinu, en sóknaraðili telji sér það ekki heimilt og geti því ekki nálgast eign sína. Forsvarsmaður varnaraðila hafi bent lögreglu á, þegar eftir hafi verið leitað, aðila sem hann telji eiga hjólhýsið en sá aðili hafi neitað því að eiga það.pp hafi þá komið að fyrirtækið Stjörnublástur ehf. telji sig hafa keypt umrætt hjólhýsi af fyrirtækinu DT-menn ehf., sennilega á árinu 2007. Staðfest sé af skiptastastjóra þb. Tærgesen ehf. að í gögnum þrotabúsins og skýrslu fyrirsvarsmanns þess fyrir skiptastjóra hafi ekkert komið fram um að Tærgesen ehf. hafi selt lausafé úr rekstri sínum til DT-manna ehf. eða annarra aðila. Ótvíræð skráning hjólhýsisins meðal eigna þb. Tærgesen ehf. staðfesti að skiptastjóri einn hafi ráðstöfunarheimild á hjólhýsinu og kaupsamningur milli gerðarbeiðanda og skiptastjóra staðfesti heimild sóknaraðila til þess að krefjast innsetningar í tilgreinda eign.
Sóknaraðili byggi rétt sinn á fyrrgreindum kaupsamningi, sem hann hafi efnt að fullu. Þar sem honum hafi verið meinað að fá eign sína afhenta sé þess krafist að honum verði fengin umráð hjólhýsisins með beinni aðfarargerð á grundvelli 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Gerð þessi fari fram á ábyrgð sóknaraðila en á kostnað varnaraðila.
II
Varnaraðili kveður málsatvik þau í greinargerð sinni að hann hafi tekið að sér að gera við hjólhýsi það sem krafa sóknaraðila lúti líklega að vorið 2009. Rétt sé þó að taka fram að varnaraðili hafi engar forsendur til að meta hvort um sama hjólhýsi sé að ræða, en byggi málsatvikalýsingu upp eins og það sé talið hafið yfir vafa. Ástæða sé þó til að koma því á framfæri að af hálfu Stjörnublásturs ehf. hafi því verið haldið fram við varnaraðila að alls óvíst sé að um sama hjólhýsi sé að ræða.
Varnaraðili hafi fengið beiðni þessa um viðgerð frá þriðja manni, sem hefði tekið að sér fyrir eiganda hjólhýsisins, Stjörnublástur ehf. að fá slíka viðgerð. Hjólhýsið hafi þá verið staðsett nálægt Urriðavatni og hafi varnaraðili sótt það. Viðgerðin hafi einkum falist í því að undirvagninn hafi verið tekinn í gegn, sett hafi verið á hjólhýsið músa- og flugnanet, það einangrað og fleira. Viðgerðin hafi tekið tvær til þrjár vikur og hafi átt að greiða fyrir hana með vinnuskiptum/reikningaskiptum við eiganda hússins. Því hafi verið ákveðið að varnaraðili vistaði húsið þar til uppgjör hefði farið fram og að beðið yrði með útgáfu reiknings þar til báðir aðilar hefðu innt sína vinnu af hendi. Hafi hjólhýsið því staðið á lóð varnaraðila í fullri sátt eiganda hússins, Stjörnublástur ehf., og hafi varnaraðili litið á þá stöðu sem tryggingu fyrir efndum eiganda hjólhýsisins, enda haldsréttur til staðar. Í ljósi óvissu um eignarhald sem mál þetta hafi skapað hafi varnaraðili útbúið reikning án tilgreiningar á greiðanda sem lagður sé fram í málinu til sönnunar haldsréttarkröfu varnaraðila.
Varnaraðili telji hjólhýsi það sem standi á lóð félagsins í eigu Stjörnublásturs ehf. og því komi ekki til greina að afhenda það til einhvers annars án samþykkis Sævars Jónssonar fyrirsvarsmanns Stjörnublásturs. Telji varnaraðili furðulegt, ef unnt sé að fá dómsúrskurð um yfirráð yfir hjólhýsinu, án þess að sá er varnaraðili telji eiganda þess fái að tjá sig milliliðalaust í málinu.
Af hálfu varnaraðila hafi verið leitað til skipstjóra þb. Tærgesen ehf. til að afla gagna er taki af allan vafa um það hvort um sama hjólhýsi sé að ræða. Samkvæmt upplýsingum skiptastjóra sé ekki frekari gögnum til að dreifa en eignaskrá ársins 2004 sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu. Engar myndir séu til staðar og skiptastjóri hafi aldrei séð hjólhýsið sjálf, sé rétt eftir henni haft.
Kröfu sína um að kröfu sóknaraðila verði hafnað kveðst varnaraðili í fyrsta lagi byggja á því að ósannað sé að um sama hjólhýsi sé að ræða. Fram komi í aðfararbeiðninni sjálfri að umrætt tæki sé ekki skráð í ökutækjaskrá og teljist því vera óskráð lausafé. Ekkert liggi fyrir í málinu sem staðfesti að um sama hjólhýsið sé að ræða. Að mati varnaraðila sé í öllu falli varhugavert að álykta sem svo, í máli sem sá er hann telur vera eiganda eigi ekki aðild að, að hafið sé yfir allan vafa, eða svo augljóst sem 78. gr. laga nr. 90/1989 áskilji, að um sama hjólhýsi sé að ræða. Sönnunarbyrðin í þessum efnum hvíli á sóknaraðila.
Þá byggir varnaraðili í öðru lagi á að aðild málsins sé ábótavant, en eins og fram komi í málavaxtalýsingu telji varnaraðili sig ekki vera eiganda hjólhýsisins. Þar sem sóknaraðili byggi ekki á aðfararheimild skv. 1. gr. laga nr. 90/1989, verði að gera þá kröfu að hann hagi málatilbúnaði sínum þannig, að aðilum sem hann viti að telji sig eiga rétt sem sé ósamrýmanlegur rétti hans, sé gefinn kostur á að taka til varna í málinu. Því hefði sóknaraðili átt að hafa Stjörnublástur ehf. meðal gerðarþola í máli þessu, sbr. 3. gr. laga nr. 90/1989, enda hafi sóknaraðila verið fullljóst, sbr. sjálfa aðfararbeiðnina, að til staðar væri aðili sem teldi sig réttan eiganda hjólhýsisins. Máli þessu sé því annað hvort beint að röngum aðila, eða aðild málsins sé svo ábótavant, að ekki sé hægt að taka efnislega afstöðu til kröfu sóknaraðila.
Í þriðja lagi byggi varnaraðili á því að lágmarksskilyrðum 12. kafla laga nr. 90/1989 sé ekki fullnægt. Sóknaraðili byggi kröfu sína á 78. gr. laganna um aðför án undangengins dóms eða réttarsáttar. Í lagaákvæðinu séu þau skilyrði sett, að aðila sé með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjái sig eiga og telji svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum sem aflað verði skv. 83. gr. sömu laga.
Málsástæða þessi tengist að hluta þeirri málsástæðu að ósannað sé að um sama hjólhýsi sé að ræða. Að auki telji varnaraðili það ekki fullnægja skýrleikakröfu 78. gr. laga nr. 90/1989 að byggja á kaupsamningi þegar fyrir liggi að annar aðili geri slíkt hið sama. Megi í þessu sambandi benda á, sé lagt til grundvallar að um sama hjólhýsi sé að ræða, að báðir aðilar leggi fram samskonar heimild fyrir rétti sínum, þ.e. kaupsamning. Óumdeilt sé að engin opinber skráning sé til staðar á hjólhýsinu og því hljóti að vera varhugavert að gerðin nái fram að ganga, án þess að aðfararheimildar sé fyrst aflað með eðlilegum hætti. Rétt sé að benda á að sóknaraðili virðist hafa keypt hjólhýsið vitandi um möguleikann á því að annar aðili ætti það, eins og sjá megi í gögnum málsins. Hann hafi því verið grandsamur við kaupin um að annar aðili en Tærgesen ehf. hafi talið sig eiga hjólhýsið, þegar hann hafi gert samning við skiptastjóra þann 5. febrúar 2010.
Með vísan til 2. ml. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989 beri því að hafna aðfararbeiðninni. Vísi varnaraðili m.a í ummæli í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi er orðið hafi að lögum nr. 90/1989, einkum í athugasemdir við 78. og 79. gr. frumvarpsins. Komi þar m.a. fram að í fræðikenningum og dómaframkvæmd hafi löngum verið byggt á því að það sé skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé svo skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðandi sé það ljóst að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana. Með 1. mgr. 78. gr., með hliðsjón af fyrirmælum 83. gr. sé gerð tillaga um stuttorða lögfestingu á skilyrðum beinna aðfarargerða samkvæmt dómvenju.
Þá byggir varnaraðili á því í fjórða lagi að hann njóti haldsréttar í því hjólhýsi sem standi á lóð hans og gangi sá réttur framar rétti sóknaraðila. Verði talið að sóknaraðili beini máli þessu að réttum aðila, málið snúist um hjólhýsi það sem sé á lóð varnaraðila og að réttur sóknaraðila sé ótvíræður þá sé á því byggt að hjólhýsið verði ekki fjarlægt án samþykkis varnaraðila nema krafa hans vegna viðgerðar á hjólhýsinu hafi verið gerð upp. Eins og málið snúi að gerðarþola þá hafi reikningur ekki verið gefinn út á Stjörnublástur ehf. Til að taka af öll tvímæli sé hins vegar lagt fram yfirliti yfir vinnuna og uppkast að reikningi. Varnaraðili njóti haldsréttar, sbr. 6.tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og geti á þeim grundvelli hafnað afhendingu hjólhýsisins með lögmætum hætti.
Kröfu sína um málskostnað kveðst varnaraðili byggja á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
III
Í 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför segir að ef manni er með ólögmætum hætti aftrað að neyta réttinda, sem hann tjáir sig eiga og telur svo ljós, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður skv. 83. gr. sé honum heimilt að beina til héraðsdómara beiðni um að skyldu þess efnis er geti í 72. eð a73. gr., verði fullnægt með aðfarargerð þótt aðfararheimild skv. 1. gr. liggi ekki fyrir.
Sönnunarfærsla í málum sem á framangreindri heimild byggja er takmörkum háð á þann hátt að vitnaleiðslur fara að jafnaði ekki fram og ekki verður heldur aflað mats- eða skoðunargerða. Er lagt til grundvallar að réttur gerðarbeiðanda verði að vera það skýr að ekki þurfi flóknari sönnunarfærslu en þannig er heimil til að sýna fram á tilvist hans.
Í máli þessu verður í samræmi við framangreint að líta til þeirra sönnunargagna sem sóknaraðili hefur fært fram hér fyrir dómi til stuðnings fullyrðingum sínum um eignarhald sitt á hjólhýsi því sem óumdeilt er að stendur á lóð varnaraðila. Er engum vafa undirorpið að sóknaraðili ber sönnunarbyrði fyrir fullyrðingum sínum um eignarhald á þeim hlut sem hann krefst yfirráða yfir.
Sóknaraðili leggur í málinu fram kaupsamning um hjólhýsi af gerðinni North Star Country, kaupár 2004 og með auðkennisnúmerinu 040529001, sbr. nánar greint fylgiskjal með skattframtali Tærgesen ehf. árið 2004. Kaupsamningur þessi er gerður við skiptastjóra þrotabús framangreinds félags. Kemur að auki fram í samningnum að hjólhýsið sé selt í því ástandi sem það sé og beri seljandi enga ábyrgð á því en skiptastjóri hafi ekki haft hjólhýsið í sínum vörslum og þekki á engan hátt ástand þess. Seljanda sé og ekki kunnugt um áhvílandi veðskuldir á hjólhýsinu.
Í tilvitnuðu fylgiskjali með skattframtali fyrrgreinds félags, 4.01 Eignarskrá árið 2004, sem ber með sér að varða skattframtal ársins 2005, kemur fram að meðal eigna félagsins sé hjólhýsi sem keypt hafi verið á 3.500.000 krónur árið 2004. Er þar tilgreind kennitala seljanda og undir liðnum auðkenni er skráð númerið 040529001, sem er sama númer og kemur fram á framangreindum kaupsamningi. Ekki kemur fram í fylgiskjalinu hverrar gerðar hjólhýsið er.
Í málinu liggur ekki fyrir að það hjólhýsi sem stendur á lóð varnaraðila beri það auðkennisnúmer sem fram kemur í framangreindum gögnum. Reyndar liggur heldur ekki fyrir að það sé af þeirri gerð sem nefnd er í kaupsamningi.
Meðal gagna málsins er tölvubréf fyrirsvarsmanns sóknaraðila til fyrirsvarsmanns varnaraðila þar sem hann fullyrðir að á planinu hjá varnaraðila standi hjólhýsi sem skiptastjóri þrotabús Tærgesen ehf. hafi leitað að um árabil en húsið hafi horfið frá Reyðarfirði eftir gjaldþrot félagsins árið 2007. Þá upplýsir hann fyrirsvarsmann varnaraðila um kaup sín á hjólhýsinu af þrotabúinu og að hann óski afhendingar þess. Meðal gagna málsins eru einnig tölvubréf milli fyrirsvarsmanns Stjörnublásturs ehf. og skiptastjóra Tærgesen ehf. þar sem deilt er um eignarhald á umræddu hjólhýsi.
Af framangreindum gögnum má ráða að sóknaraðili keypti hjólhýsi af þrotabúi Tærgesen ehf. með nánar tilgreint auðkennisnúmer. Hins vegar er ekkert í skjallegum gögnum sem styður að þetta sé það hjólhýsi sem stendur á lóð varnaraðila. Liggur ekki fyrir nein sönnun um að hjólhýsið beri auðkennisnúmer það sem skráð er í umrædd gögn. Þá verður ekki hjá því litið að hið selda hjólhýsi var meðal eigna Tærgesen ehf. árið 2004, en bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2007 og kaupsamningur skiptastjóra um hjólhýsið við sóknaraðila gerður í upphafi árs 2010. Liggur það eitt fyrir að skiptastjóri hefur haldið því fram í rafbréfi til fyrirsvarsmanns Stjörnublásturs ehf. að hvergi komi fram í gögnum þrotabúsins, bókhaldi eða skýrslu af forsvarsmanni að lausafé hafi verið selt út úr rekstrinum til DT manna ehf. eða annarra. Voru þetta viðbrögð skiptastjóra við fullyrðingu fyrirsvarsmanns Stjörnublásturs ehf. að hjólhýsi það sem standi á lóð varnaraðila hafi verið meðal muna sem félagið hafi keypt af DT mönnum 28. september 2007.
Það liggur því ekki fyrir skjalleg sönnun þess að hjólhýsi það sem stendur á lóð varnaraðila og sóknaraðili vill fá afhent sé það hjólhýsi sem sóknaraðili keypti. Má enda sjá það af þeim samskiptum málsaðila, fyrirsvarsmanns Stjörnublásturs ehf. og skiptastjóra þrotabús Tærgesen ehf. sem lögð hafa verið fram í málinu að deilt er um eignarhaldið.
Með vísan til framanritaðs er það mat dómsins að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hann sé eigandi að hjólhýsi því sem stendur á lóð varnaraðila og varnaraðili kveður í eigu Stjörnublásturs ehf. Verður því talið varhugavert að gerðin nái fram að ganga og verðu þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu hans.
Með hliðsjón af greindum málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Halldór Björnsson dómstjóri kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Fjarðarhóls ehf. um að hjólhýsi af gerðinni North Star Country, auðkenni 040529001, verði með beinni aðfarargerð tekið úr vörslum varnaraðila, Fjalar ehf. og fengið sóknaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.