Hæstiréttur íslands

Mál nr. 119/2005


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Varanleg örorka
  • Almannatryggingar
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. október 2005.

Nr. 119/2005.

Atli Sigurðsson

(Lilja Jónasdóttir hrl.)

gegn

Erni Thorstensen

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Varanleg örorka. Almannatryggingar. Gjafsókn.

Við útreikning á skaðabótum til A var deilt um hvort heimilt væri að draga frá bótunum eingreiðsluverðmæti væntanlegra lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins til 67 ára aldurs. Hafði A verið metinn til 75% örorku hjá tryggingastofnun í febrúar 2003 og skyldi endurmat fara fram í janúar 2006. Vísað var til þess að við eingreiðslu skaðabóta væru bætur fyrir varanlega örorku greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá þeim skyldu að sama skapi dregnar áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum, eins og gert væri ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Yrði að miða við að mat tryggingastofnunar á örorku A myndi ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki væri unnt að draga uppreiknaðar bótagreiðslur frá stofnuninni frá skaðabótum til hans þó að örorka hans samkvæmt almannatryggingalögum yrði endurmetin í janúar 2006. Enn fremur var deilt um hvort heimilt hafi verið að ganga út frá því við uppgjörið að A myndi framvegis eiga rétt til tekjutryggingar frá tryggingastofnun. Vísað var til þess að tekið hefði verið tillit til þess við uppgjörið að líkindatekjur A myndu lækka tekjutryggingu um 4%. Talið var að þar sem bætur til A hefðu með hans samþykki verið gerðar upp miðað við þá forsendu að hann nyti lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum gæti hann í þessu máli ekki reiknað með hærri launum í framtíðinni. Var Ö því sýknaður af kröfum A. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. mars 2005. Hann krefst þess aðallega að stefndi greiði sér 6.858.333 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, að frádregnum 35.313 krónum, sem réttargæslustefndi hafi innt af hendi 14. september 2004. Áfrýjandi krefst þess til vara, að stefndi greiði sér 4.425.000 krónur með sömu vöxtum og sama frádrætti sem í aðalkröfu. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt til réttargæslu.

I.

Krafa áfrýjanda á rætur að rekja til alvarlegs slyss er hann varð fyrir 3. júní 2000, þá sextán ára gamall, er hann féll af svölum húss stefnda, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Enginn ágreiningur er um bótaskyldu stefnda og réttargæslustefndi hefur viðurkennt greiðsluskyldu úr vátryggingu stefnda hjá félaginu. Samkomulag varð um að leita mats tveggja lækna á örorku og miska áfrýjanda og una aðilarnir við niðurstöðu þess örorkumats frá 29. október 2002. Áfrýjandi var metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins 3. febrúar 2003 og skal endurmat fara fram í janúar 2006. Hinn 13. janúar 2004 greiddi réttargæslustefndi vegna tjóns áfrýjanda bætur að fjárhæð 14.946.333 krónur, en við útreikning þeirra dró hann eingreiðsluverðmæti lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins til áfrýjanda til 67 ára aldurs hans, samtals 9.213.000 krónur, frá bótum fyrir varanlega örorku á grundvelli 1. málsliðs 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999. Lýtur ágreiningur aðila að þessum frádrætti.

II.

Áfrýjandi hefur í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti fært fram þau rök, að mat Tryggingastofnunar ríkisins hafi einungis verið tímabundið til 31. janúar 2006 og sé því ekki mat á varanlegri örorku hans. Þess vegna sé útilokað að réttargæslustefndi getið dregið frá skaðabótum til hans 2/3 hluta uppreiknaðs höfuðstólsverðmætis áætlaðra greiðslna allt til 67 ára aldurs, enda hafi mat stofnunarinnar aðeins gildi til þess tíma er hann verði rétt tæplega 22 ára. Ekkert mat sé til eftir þann tíma og svo mikil óvissa um greiðslur frá stofnuninni að slíkur frádráttur eigi sér ekki lagastoð. Tjón hans sé því verulega vanbætt með því uppgjöri sem réttargæslustefndi hafi boðið, enda segi í 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fær frá almannatryggingum. Óvissa sé um starfsgetu hans í framtíðinni, eins og fram komi í mötum þeim sem lögð hafi verið fram í málinu, og sé því óvíst hvort hann fái nokkuð greitt frá almannatryggingum eftir gildistíma hins tímabundna mats 31. janúar 2006. Ráða megi af þeim gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu að ástæða þess að mat tryggingastofnunar hafi verið tímabundið sé að hún ráðgeri að áfrýjandi komist út á vinnumarkaðinn. Þegar einnig sé haft í huga að það mat og mat samkvæmt skaðabótalögum séu byggð á ólíkum forsendum telji áfrýjandi útilokað að fullyrða á grundvelli þeirra upplýsinga um stöðu hans og framtíðarhorfur, sem lágu fyrir á stöðugleikapunkti 3. júní 2001, að þá hafi verið ljóst að hann fengi varanlegt 75% örorkumat frá stofnuninni og greiðslur frá henni til 67 ára aldurs.

Áfrýjandi leggur áherslu á að dómur Hæstaréttar í máli nr. 520/2002 frá 18. september 2003, þar sem deilt hafi verið um túlkun á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, stangist með engu móti á við dómkröfu hans heldur renni stoðum undir hana. Vísar hann einkum til þess að þar hafi enginn vafi verið um að tjónþola hefði til frambúðar verið metin varanleg örorka samkvæmt almannatryggingalögum. Örorkumat áfrýjanda sé aftur á móti tímabundið og miklar líkur séu fyrir því að honum takist að komast út á vinnumarkaðinn, sem gæti leitt til þess að greiðslur frá almannatryggingum yrðu felldar niður. Sé því hvorki fyrrgreindur dómur né dómur í máli nr. 223/2003 frá 27. nóvember 2003 fordæmi sem beri að leggja til grundvallar í máli áfrýjanda.

 Varakröfu sína styður áfrýjandi þeim rökum að bætur til örorkulífeyrisþega skiptist í tvo hluta, örorkulífeyri og tekjutryggingu. Grunnörorkulífeyririnn byrji að skerðast hafi lífeyrisþegi 145.721 krónu í mánaðarlaun og falli alveg niður við 230.721 krónu. Tekjutrygging lífeyrisþega byrji að skerðast við 47.381 krónu mánaðarlaun og við hverjar 1.000 krónur lækki tekjutryggingin um 450 krónur og falli niður við 142.221 krónu. Slíkar launagreiðslur myndu þó ekki skerða grunnörorkulífeyri. Áfrýjandi mótmælir því að unnt sé að gera ráð fyrir að hann eigi rétt til greiðslu tekjutryggingar út starfsævina og sé útreikningi og frádrætti stefnda að þessu leyti hafnað. Í varakröfu krefjist hann því bóta sem nemi núvirði tekjutryggingarinnar til 67 ára aldurs, enda séu engar líkur til þess að hann muni fá hana greidda.

Stefndi andmælir málsrökum áfrýjanda og bendir á að ekki sé eðlismunur á mati Tryggingastofnunar á varanlegri örorku hans í þessu máli og í fyrrnefndum málum nr. 520/2002 og nr. 223/2003. Enda þótt núgildandi örorkumat stofnunarinnar skuli koma til endurskoðunar í janúar 2006 sé heilsufar áfrýjanda þannig að ekki sé að vænta neinna breytinga á matinu á þeim tíma. Ekkert bendi því til þess að þær bætur sem hann njóti nú frá almannatryggingum muni skerðast í framtíðinni og hafi því uppgjör réttargæslustefnda verið í samræmi við skaðabótalög og nefnd fordæmi Hæstaréttar, enda málin alveg sambærileg. Enginn lagagrundvöllur sé til að fara öðruvísi að í máli áfrýjanda en í þeim málum sem fjallað var um í framangreindum dómum.

III.

Þegar litið er til fordæma réttarins í málum nr. 520/2002 og 223/2003 og þau borin saman við mál áfrýjanda er ljóst að munurinn er sá, að þar voru ekki bornar brigður á að tjónþola yrði til frambúðar metin örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins og greiðslur frá henni því dregnar frá reiknuðum bótum samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í máli þessu hefur slíkt varanlegt mat ekki farið fram og í því felst nokkur óvissa, sem ekki var fyrir hendi í þeim málum.

Áfrýjandi fór fram á að tjón hans yrði bætt af réttargæslustefnda og var það gert með eingreiðslu í uppgjöri 13. janúar 2004, þar sem miðað var við stöðugleikapunkt áfrýjanda 3. júní 2001. Forsendur slíkrar eingreiðslu eru að skaðabætur fyrir varanlega örorku vegna slyss séu greiddar fyrir líkindatjón fram í tímann og að frá skaðabótum dragist að sama skapi áætlaðar framtíðargreiðslur frá almannatryggingum vegna slyssins, eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Enda þótt endurmeta skuli varanlega örorka áfrýjanda hjá Tryggingastofnun ríkisins í lok janúar 2006 verður vegna þessara forsendna fyrir tjónsuppgjöri að miða við að mat stofnunarinnar muni ekki breytast í þeim mæli í framtíðinni að ekki sé unnt að draga þessar uppreiknuðu bótagreiðslur frá metnum skaðabótum. Að þessu athuguðu og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður að fallast á niðurstöðu hans um aðalkröfu áfrýjanda.

Í varakröfu sinni mótmælir áfrýjandi því að unnt sé að gera ráð fyrir að hann eigi rétt til tekjutryggingar frá Tryggingastofnun ríkisins út starfsævina. Við tjónsuppgjörið var talið að líkindatekjur áfrýjanda hefðu ekki áhrif á örorkulífeyri frá stofnuninni, en þær myndu lækka tekjutryggingu um 4%. Reiknaðir 2/3 hlutar höfuðstólsverðmætis þessara greiðslna voru 95.000 krónum lægri en gengið var út frá í tjónsuppgjöri. Réttargæslustefndi greiddi áfrýjanda mismuninn ásamt vöxtum frá stöðugleikapunkti til greiðsludags og hefur áfrýjandi dregið þessa fjárhæð frá kröfu sinni. Verður að fallast á með stefnda að þar sem tjón áfrýjanda hafi verið gert upp með hans samþykki miðað við þær forsendur að hann nyti lágmarkslauna samkvæmt skaðabótalögum geti hann ekki í máli þessu reiknað með hærri launum í framtíðinni en því nemur.

Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Atla Sigurðssonar, fyrir Hæstarétti, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2004.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember 2004 var höfðað 20. apríl 2004.  Stefnandi er Atli Sigurðsson, [...], Dunhaga 18, Reykjavík en stefndi er Örn Thorstensen, [...]. Vátryggingarfélagi Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík er stefnt til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 8.645.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004. 

1. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.992.000 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004.

2. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 5.432.800 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004.

3. varakrafa stefnanda er að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 2.668.900 krónur með 4,5% vöxtum frá 3. júní 2000 til 13. febrúar 2004 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags að frádreginni greiðslu vaxta að fjárhæð 35.313 krónur sem greiddist inn á þá kröfu 14. september 2004.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður.  Til vara gerir hann þær dómkröfur að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

Ekki eru gerðar kröfur á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

II

Málavextir eru þeir að stefndi slasaðist alvarlega þann 3. júní 2000 er hann féll fram af svölum, niður um tvo metra og lenti á gangstétt.  Hann var gestkomandi að Furuhjalla 14, Kópavogi og hafði brugðið sér út á svalir og hallað sér að svalahandriði sem gaf sig undan þunga hans.  Hann var fluttur með sjúkrabifreið á sjúkrahús til aðhlynningar.  Við slysið hlaut hann brot á höfuðkúpu með brotalínu í klettsbein vinstra megin og blæddi inn í vinstra miðeyra og hlust.  Hann fékk skerta heyrn á vinstra eyra með suði og lömun á vinstri andlitstaug sem þó gekk til baka að mestu leyti.  Alvarlegasti áverkinn sem stefnandi hlaut var framheilaskaði sem hafði í för með sér einbeitingarskort, athyglisbrest, eirðarleysi, skapsveiflur, félagsfælni og svefntruflanir.

Ekki er deilt um skaðabótaskyldu stefnda og hefur réttargæslustefndi viðurkennt bótaskyldu úr húseigendatryggingu stefnda hjá félaginu. Réttargæslustefndi og stefnandi komu sér saman um að óska eftir mati læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar á afleiðingum slyssins á heilsu stefnanda og er matsgerð þeirra dagsett 29. október 2002.  Eru niðurstöður matsmanna þær að við slysið hafi stefnandi orðið fyrir eftirfarandi skaða með hliðsjón af skaðabótalögum nr. 50/1993:

 

1. Tímabundið atvinnutjón 100% í tólf mánuði

2. Þjáningabætur; rúmliggjandi frá 3. júní 2000 til 7. júní 2000, batnandi án þess að vera rúmliggjandi frá 8. júní 2000 til 3. júní 2001

3. Stöðugleikapunktur 3. júní 2001

4. Varanlegur miski 40%

5. Varanleg örorka 70%

6. Hefðbundin varanleg læknisfræðileg öroka 40%

 

Stefnandi var metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins og í bréfi stofnunarinnar 3. febrúar 2003 kemur fram að af fyrirliggjandi gögnum megi ráða að stefnandi eigi erfitt með samskipti við aðra og að ljúka verkefnum.  Færni hans teljist mikið skert til almennra starfa.  Séu læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris uppfyllt frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006 og skuli endurmat fara fram í janúar 2006.

Í framhaldinu var Jón Erling Þorláksson, tryggingafræðingur, fenginn til að reikna úr höfuðstólsverðmæti bótagreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.  Af hálfu stefnanda var þess óskað að reiknað yrði út höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og í útreikningum sínum 17. febrúar 2004 miðar tryggingafræðingurinn við að örorkulífeyrir hafi greiðst frá desember 2002 og hafi hann þá verið 19.900 krónur á mánuði.  Höfuðstólsverðmæti slíks lífeyris til 67 ára aldurs reiknast honum að sé 4.689.000 og 2/3 hlutar þess séu 3.126.000 krónur.  Þá reiknar tryggingafræðingurinn enn fremur út, samkvæmt kröfu stefnanda, höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris frá desember 2002 til janúar 2006 og er höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris miðað við þær forsendur 709.000 krónur og 2/3 hlutar 473.000 krónur.  Við útreikning höfuðstólsverðmætis notar tryggingafræðingurinn 4,5% vexti og vaxtavexti og miðar mið að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1991 til 1995.

Af hálfu réttargæslustefnda var óskað eftir útreikningum Jóns Erlings miðað við eftirtaldar greiðslur sem stefnanda voru ákvarðaðar af Tryggingastofnun ríkisins 12. febrúar 2003:

 

Örorkulífeyrir    20.630

Tekjutrygging   38.280

Samtals              58.910

Skattar                22.710

Útborgað           36.200

 

Í útreikningum Jóns Erlings 24. febrúar 2004 er niðurstaðan sú að til 67 ára aldurs sé höfuðstólsverðmæti 58.910 krónur, 13.820.000 krónur og 2/3 hlutar 9.213.000 krónur. Við útreikninginn notar Jón Erling 4,5% vexti og vaxtavexti og gerir ráð fyrir að dánarlíkur fari eftir reynslu áranna 1996-2000.

Þann 13. janúar 2004 greiddi réttargæslustefndi stefnanda bætur vegna tjónsins en dró frá bótum vegna varanlegrar örorku 9.213.000 krónur vegna eingreiðsluverðmætis lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins með vísan til 4. mgr. 5. gr. skaða­bótalaga.  Stefnandi tók á móti greiðslum þessum með fyrirvara um útreikning Jóns Erlings, miskastig og framangreindan frádrátt.

Réttargæslustefndi óskaði enn á ný eftir útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar þar sem óskað var eftir að kannað yrði hverju það myndi breyta varðandi bætur Tryggingastofnunar ríkisins ef gert væri ráð fyrir því að stefnandi hefði 508.050 krónur á ári fyrir vinnu miðað við að hann hafi 30% vinnugetu.  Kemur fram í útreikningum Jóns Erlings frá 29. ágúst 2004 að tekjurnar hefðu engin áhrif á örorkulífeyri en tekjutrygging myndi lækka.  Nýr útreikningur um höfuðstólsverðmæti bóta yrði því þannig:

Höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris væri óbreyttur frá útreikningi 24. febrúar 2003 en höfuðstólsverðmæti tekjutryggingar yrði 8.621.000 eða höfuð­stólsverðmæti bóta væri samtals 13.461.000 krónur og 2/3 væri 8.974.000 krónur.  Enn á ný óskaði réttargæslustefndi eftir útreikningi Jóns Erlings á höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar í stöðugleikapunkti þann 3. júní 2001. Kemur fram í útreikningum tryggingafræðingsins 4. september 2004 að í framhaldi af útreikningi 29. ágúst 2004 sé höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris og tekjutryggingar í stöðugleikapunkti 3. júní 2001 eftirfarandi:

 

      Mánaðargreiðsla                Höfuðstólsverðmæti                 2/3 hlutar

Örorkulífeyrir                             20.630                                      4.918.000                      3.278.000

Tekjutrygging                           36.750                                      8.760.000                      5.830.000

Samtals                                       57.380                                    13.678.000                     9.118.000

 

Í framhaldinu greiddi réttargæslustefndi stefnanda þann 14. september 2004 95.000 krónur auk vaxta og kostnaðar sem er mismunur á því sem hann hafði dregið frá bótum áður að fjárhæð 9.213.000 krónur og framangreindri niðurstöðu tryggingarfræðingsins að fjárhæð 9.118.000 krónur.

Eins og rakið hefur verið er ekki deilt um skaðabótaskyldu stefnda.  Þá er ekki deilt um umfang tjóns stefnanda heldur hvernig fara skuli með frádrátt greiðslna úr almannatryggingum samkvæmt 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eftir breytingu sem gerð var á því ákvæði með 4. gr. laga nr. 37/1999.  Stefnandi fékk leyfi til gjafsóknar 11. júní 2003.

III

Stefnandi kveður að hvorki í frumvarpi laga nr. 37/1999 sem breytti 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 né öðrum lögskýringargögnum sé skýrt hvernig fara skuli með og reikna út frádrátt þann sem um sé deilt í máli þessu.  Verði ekki séð að með vísan til þessa lagaákvæðis sé heimild til þess að reikna greiðslur eins og þær hafi verið þann 1. desember 2002 til 67 ára aldurs stefnanda og draga þær frá bótum til hans, þar sem örorkumat frá Tryggingastofnun ríkisins sem lagt sé til grundvallar nái aðeins til 31. janúar 2006.

 Telur stefnandi að frádráttur með þessum hætti stríði gegn þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar að stefnandi eigi rétt á því að fá fullar bætur fyrir tjón sitt og eigi frádráttur réttargæslustefnda á varanlegum örorkubótum stefnanda með þeim hætti sem gert hafi verið sér enga lagastoð og standist frádrátturinn sem slíkur ekki almennar lögskýringarreglur.

Aðalkrafan um greiðslu 8.645.000 króna auk vaxta sé mismunurinn á frádrætti réttargæslustefnda að fjárhæð 9.118.000 króna og 473.000 krónum sem séu 2/3 hlutar höfuðstólsverðmætis þeirrar greiðslu sem Jón Erlingur Þorláksson telji vera höfuð­stólsverðmæti örorkulífeyris Tryggingastofnunar frá því í desember 2002 til janúar 2006.

Liggi fyrir að stefnanda hafi einungis verið metin 75% örorka hjá Trygginga­stofnun ríkisins með örorkumati lífeyristrygginga frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006.  Geti stefndi ekki reiknað með því að stefnandi verði metinn áfram 75% öryrki út ævina á grundvelli þessa mats ekki síst þar sem það sé mun hærri örorka en sú örorka sem réttargæslustefndi hafi notað til uppgjörs til stefnanda.  Ástæða þess að stefnanda sé einungis metin örorka í þrjú ár sé sú að Tryggingastofnun ríkisins telji ekki ljóst að stefnandi muni verða metin svo há örorka í framtíðinni og jafnvel að stefnandi eigi möguleika á því að ná frekari bata. 

Mat Tryggingastofnunar ríkisins sé mun hærra en mat það er uppgjör réttar­gæslustefnda byggi á þar sem 75% örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins samsvari 100% örorku í mati samkvæmt skaðabótalögum en ekki sé unnt að fá hærra mat hjá Tryggingastofnun en 75%.

Mat samkvæmt ákvæðum laga um lífeyristryggingar byggi á reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.  Þar komi fram í fylgiskjali nr. 1. að matinu sé skipt upp í tvo hluta, fjalli fyrri hluti þess um líkamlega færni og síðari hluti lúti að andlegri færni. Beri matið þannig verulegan keim af því að vera að stórum hluta sambærilegt og mat á miska samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en stefnanda hafi aðeins verið metinn 40% miski.

Telur stefnandi rétt að geta þess að greinarmunur sé á mati hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna lífeyristrygginga samkvæmt II. kafla laga um almannatryggingar nr. 117/1993 með síðari breytingum og mati samkvæmt III. kafla sömu laga þar sem fjallað sé um slysatryggingar.  

Telur stefnandi að allsendis óvíst sé hvort hann muni halda greiðslum frá Trygginga­stofnun ríkisins eftir 1. janúar 2006 og verði að túlka allan vafa hvað þetta snerti honum í hag. 

Stefnandi telur að frádráttur réttargæslustefnda feli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og ólögmæta skerðingu á aflahæfi stefnanda sem njóti verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og tak­mörkun á stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til aðstoðar frá ríkinu samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar sbr. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu sbr. einnig ákvæði laga nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu. 

Skýra verði 72. gr. stjórnarskrárinnar og allar reglur sem skerði bótarétt tjónþola þröngt og þannig ekki heimilt að draga hugsanlegar bætur sem stefnandi kunni að eiga rétt á í framtíðinni frá bótum til hans.  Stefnandi telur að þetta brjóti einnig freklega gegn rétti hans samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem þess séu ekki önnur dæmi um að hugsanlegur réttur manna til bóta úr almannatryggingum sé dreginn frá skaðabótakröfu þeirra.  Eigi stefnandi ekki rétt á neinum greiðslum úr lífeyrissjóði en samkvæmt 4. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga komi fram að einungis skuli draga frá skaðabótakröfu 40% af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.

Stefnandi mótmælir þeirri reikniaðferð og frádrætti á grundvelli hennar sem fram komi í útreikningi Jóns Erlings og dagsettur er 24. febrúar 2004.  Telur stefnandi ólíklegt að hann eigi rétt á tekjutryggingu í framtíðinni.  Í dag sé hann að reyna fyrir sér í námi og hafi þannig ekki haft tök á því að starfa á hinum almenna vinnumarkaði.  Stefnandi sé nýorðinn tvítugur og telji allar líkur á að hann muni hafa tekjur í framtíðinni.   Tekjutrygging örorkulífeyrisþega byrji að skerðast við 47.381 krónu og við hverjar 1.000 krónur lækki tekjutryggingin um 450 krónur þannig að skerðingar­prósentan sé 45% og falli niður við 142.221 krónu á mánuði.  Slíkar launagreiðslur myndu þó ekki skerða grunnörorkulífeyri.

Hafi stefnandi alla möguleika til þess að geta unnið einhver létt störf að mati lækna og sérfræðinga og sé þannig verulega ólíklegt að hann haldi framangreindri tekjutryggingu og styðji mat það sem réttargæslustefndi byggi uppgjör til stefnanda á einnig þá niðurstöðu þar sem það geri ráð fyrir því að hann hafi 30% vinnufærni. Komi fram í matsgerð að stefnandi muni ekki geta verið á vinnumarkaði nema tekið sé tillit til fötlunar hans og eftirlit sé haft með honum en matsmenn geri þó ráð fyrir að slíkir starfsmöguleikar kynnu þó að koma upp.

Þessu til stuðnings sé einnig bent á bréf 13. apríl 2004 frá Guðrúnu Karlsdóttur endurhæfingarlækni á Endurhæfingardeild Grensáss.  Þar komi fram að stefnandi hafi verið í mati vegna einkenna í mars 2004, þar sem meðal annars hafi verið gert taugasálfræðilegt mat og fengið mat sjúkraþjálfara.  Niðurstaðan hafi verið sú að enn væru til staðar merki um afleiðingar heilaskaða með skertri einbeitingu, athygli, eirðarleysi, hvatvísi og skapsveiflum.  Fram komi að í samráði við geðlækni hafi verið ákveðið að reyna lyfjameðferð vegna framheilaeinkenna.  Þá hafi stefnanda verið ráðlagt að fara í nám en ljóst sé að hann þurfi á töluverðum stuðningi að halda og því hafi verið ákveðið að sækja um starfsnám/starfsendurhæfingu í gegnum Tryggingar­stofnun ríkisins.  Þá hafi stefnanda verið ráðlagt að athuga með vinnu við tiltölulega einföld eða afmörkuð störf og boðið upp á eftirfylgd/stuðning frá meðferðaraðilum á Grensás þar að lútandi.

Með vísan til útreiknings Jóns Erlings frá 17. febrúar 2004 sé höfuðstólsverðmæti örorkulífeyris miðað við að örorkulífeyrir hafi verið greiddur frá desember 2002 og hafi verið að fjárhæð 19.990 krónur, 4.689.000 krónur og 2/3 hlutar 3.126.000 krónur. Fjárhæð 1. varakröfu sé því mismunur 3.126.000 og 9.118.000 króna sem réttargæslustefndi hafi dregið frá bótum til stefnanda eða 5.992.000 krónur.

Varðandi 2. varakröfu sína kveður stefnandi að með örorkumati 29. október 2002 hafi stefnandi verið metinn 40% varanlegur miski.  Hafi uppgjör réttargæslustefnda byggt á þeim grundvelli.  Með mati Tryggingarstofnunar ríkisins hafi stefnandi verið metinn 75% öryrki sem svari til 100% örorku hjá stofnuninni.    Eins og fyrr hafi verið vikið að og með vísan til reglugerðar 379/1999 sé byggt á því að mat Tryggingarstofnunar ríkisins sé nær því að vera mat á miska heldur en varanlegri örorku.  Telur stefnandi að stefndi geti þannig ekki dregið frá bótum til hans hærri fjárhæð en sem nemi sambærilegri prósentutölu og réttargæslustefndi  byggi uppgjör til hans á.  Á þessum grunni krefjist stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu 5.432.800 króna sem séu 60% af þeirri fjárhæð sem stefndi hafi dregið af honum við lokauppgjör eða mismunur á 100% þ.e. mati Tryggingastofnunar og 40% miska samkvæmt mati sem stefndi hafi byggt uppgjör til stefnanda.

Varðandi 3. varakröfu stefnanda þá kveður stefnandi að komið hafi fram að stefnandi hafi verið metinn 70% varanlegur öryrki og sé þannig gert ráð fyrir því að vinnufærni hans nemi 30%. Örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins miðist hinsvegar við 100% óvinnufærni og sé frádráttur réttargæslustefnda miðaður við fulla tekjutryggingu og örorkulífeyri.  Stefnandi telur þannig að ekki sé samræmi á milli frádráttar og þess örorkumats sem réttargæslustefndi noti til uppgjörs örorkubóta.   Sé því krafist greiðslu á 2.668.900 króna sem nemi 30% af  þeirri fjárhæð sem réttar­gæslustefndi hafi dregið af stefnanda við lokauppgjör.

Stefnandi vísar til sömu raka varðandi varakröfur sínar og hann gerir varðandi aðalkröfu sína.

IV

Stefndi kveðst byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að með þeim greiðslum er réttargæslustefndi hafi þegar greitt stefnanda og þeim greiðslum sem stefnandi njóti vegna afleiðinga slyssins frá Tryggingastofnun ríkisins, sé hið umstefnda tjón fullbætt og því eigi stefnandi ekki rétt til frekari bóta úr hendi stefnda.

Stefndi kveður ágreining málsins einkum lúta að túlkun á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, þ.e. að hve miklu leyti skuli draga greiðslur sem stefnandi fái frá almannatryggingum frá skaðabótakröfu hans á hendur stefnda.

Með lögum nr. 37/1999 hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á skaða­bótalögum nr. 50/1993.  Hafi meginbreytingin falist í því að margföldunarstuðull laganna sé nú við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku. Hafi margföldunarstuðull fyrri útgáfu skaðabótalaga verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni, til dæmis almannatryggingum. Samhliða breytingu margföldunar­stuðuls hafi því með lögum nr.  37/1999 verið gerð sú breyting á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur er tjónþoli fái frá almannatryggingum og 40% eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.  Miðist breytingin við að tjónþoli fái tjón sitt að fullu bætt, en ekki ofbætt, eins og reyndin yrði ef greiðslur þessar væru ekki dregnar frá.  Í engu sé hróflað við þeirri reglu að bætur skerðist ekki vegna bótaúrræða sem tjónþoli hafi sjálfur kostað með greiðslu iðgjalda eða sambærilegum hætti. Með framangreindri breytingu skaðabótalaga sé því í raun horfið aftur til þeirra reglna um frádrátt greiðslna frá þriðja aðila frá skaðabótakröfu, er gilt hafi fyrir gildistöku skaðabótalaga.

Eftir slysið hafi stefnandi verið metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins.  Veiti það honum rétt til tvenns konar greiðslna frá stofnuninni, örorkulífeyris og tekjutryggingar.  Líti stefndi svo á að réttindi þessi hafi virkjast við slysið.  Í greinargerð með 4. gr. l. 37/1999 segi að til frádráttar bótum samkvæmt skaða­bótalögum eigi að koma greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar.  Sé því ljóst að draga beri eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna frá skaðabótakröfu stefnanda. 

Samkvæmt yfirlýsingu Tryggingastofnunar ríkisins 12. febrúar 2003 muni stefnandi vera með 58.910 krónur á mánuði vegna 75% örorku.  Sé þar um að ræða samtölu örorkulífeyris og tekjutryggingar.  Hafi réttargæslustefndi fengið Jón Erling Þorláksson tryggingafræðing til að reikna út eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og sé niðurstaða hans sú að eingreiðsluverðmæti örorku­lífeyris sé 3.278.000 krónur og tekjutryggingar 5.840.000 krónur eða samtals 9.118.000.  Þegar af þeirri ástæðu sé augljóst að stefnandi hafi fengið tjón sitt að fullu bætt með þeim greiðslum sem þegar hafi verið inntar af hendi.

Haldi stefnandi því fram í aðalkröfu sinni að ekki sé hægt með vísan til 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að reikna greiðslur eins og þær hafi verið þann 1. desember 2002 til 67 ára aldurs hans og draga frá bótum til hans, þar sem örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem lagt sé til grundvallar gildi einungis til 31. janúar 2006.  Þessari túlkun stefnanda á lagaákvæðinu mótmælir stefndi.  Samkvæmt orðalagi ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laganna,  tilgreindum lögskýringagögnum svo og dómum Hæstaréttar í málum nr. 520/2002 og 223/2003 verði lögin ekki öðruvísi skýrð en að miða eigi framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli geti ekki vænst frekari bata.  Verði það ekki gert nema mið sé tekið af því hvernig mál tjónþola standi á þeim tíma og ætla út frá því hvernig mál þróist í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu.  Þá skuli áréttað að í greinargerðinni með 4. gr. frumvarps til laga um breytingu á skaðabótalögum nr. 50/1993, eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, komi fram að margföldunarstuðullinn í skaðabótalögum sé annars eðlis en hann hafi verið í upphafi samkvæmt skaða­bótalögum nr. 50/1993.  Stuðullinn, eins og honum hafi verið breytt með lögum nr. 37/1999, meti heildartekjutap tjónþola, sem leiði til þess að draga verði frá hinni reiknuðu bótakröfu greiðslur af félagslegum toga frá 3ja manni, þ.á.m. greiðslur frá almannatryggingum.  Að öðrum kosti myndu bætur til tjónþola vera hærri en raunverulegt fjártjón hans. 

Mat á líkamstjóni séu engin nákvæmnisvísindi og með engu móti sé hægt að segja til um með einhverri vissu eða nákvæmni hvernig heilsu tjónþola verði háttað í framtíðinni.   Að mati stefnda myndi ríkja mikil óvissa í málum af þessum toga ef taka þyrfti mat á líkamstjóni upp á nokkurra ára fresti vegna tímabundinna örorkumata Tryggingastofnunar ríkisins.  Þá bendir stefndi á að stefnandi virðist í aðalkröfugerð sinni ganga út frá því að hann verði með lægri örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins eftir 31. janúar 2006.  Sé þar með ljóst að samhliða því þyrfti að endurskoða  matsgerð læknanna Atla Þórs Ólasonar og Ragnars Jónssonar er snúi að örorku og miska samkvæmt skaðabótalögum.  

Í útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar sé réttilega miðað við metna 30% vinnugetu stefnanda til frambúðar og að meðalárslaun hans verði 508.050 krónur.  Ekki sé deilt um viðmiðunartekjur í þessu máli og hafi tjónið verið gert upp á grundvelli lágmarkslauna 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Útreikningur bóta til stefnanda, eins og hann hafi verið ákveðinn með skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999 sé því ekki í andstöðu við 65., 72. og 76. gr. stjórnaskrárinnar.  Hafi þessum málsástæðum jafnframt verið hafnað í áðurnefndum dómum Hæstaréttar.  Hafi lögin verið sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola yrði fullbættur og samkvæmt þeim sé farið eins með alla tjónþola, sem eins hátti til um að þessu leyti. 

Þá sé varakröfum stefnanda mótmælt með sömu rökum og fram komi gegn aðalkröfu hans.  Eigi þær það allar sammerkt, líkt og aðalkrafa hans, að eiga sér enga lagastoð.   Varðandi varakröfur stefnanda skuli ennfremur bent á eftirfarandi:

Í 1. varakröfu sinni gangi stefnandi út frá því að hann muni ekki halda tekjutryggingunni frá Tryggingastofnun ríkisins því hann hafi 30% vinnugetu samkvæmt áliti matsmanna, Ragnars og Atla Þórs. Hafi réttargæslustefndi látið trygginga­fræðing reikna út eingreiðsluverðmæti þessara greiðslna á stöðugleika­tímapunkti einmitt miðað við þær forsendur að hann héldi 30% lágmarkstekjum samkvæmt skaðabótalögum og hafi tjónið verið gert upp á þeim grundvelli.  Þar sem tjón stefnanda hafi verið gert upp með hans samþykki á lágmarkslaunum samkvæmt skaðabótalögum geti hann ekki gefið sér að hann myndi hafa hærri laun í framtíðinni en sem því nemi.  Þá megi þess að lokum geta að útreikningar Jóns Erlings geri ráð fyrir smávægilegri skerðingu á tekjutryggingu frá Tryggingastofnun ríkisins.

Varðandi 2. varakröfu stefnanda sé mikilvægt að leggja ekki að jöfnu miska samkvæmt skaðabótalögum annars vegar og örorku Tryggingastofnunar ríkisins sem sé sambland af læknisfræðilegum og félagslegum þáttum og byggi á reglugerð 379/1999 hins vegar.  Beri samkvæmt 4. mgr. 5. gr. að draga frá allar greiðslur sem stefnandi fái frá almannatryggingum.  Því eigi það sér enga lagastoð að nota miskaprósentuna sem sé 40% við frádráttinn.

Í 3. varakröfu sinni byggi stefnandi á því að einungis hafi átt að draga frá bótunum 70% eingreiðsluverðmætis greiðslna Tryggingarstofnunar ríkisins þar sem örorkumat stofnunarinnar miðist við 100% óvinnufærni.  Í því sambandi skuli bent á að ekki megi leggja að jöfnu örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem sé sambland af læknisfræðilegum og félagslegum þáttum og varanlegri fjárhagslegri örorku samkvæmt skaðabótalögum.  Það eigi sér því enga lagastoð að nota prósentustig varanlegrar örorku við frádráttinn.

Verði ekki fallist á aðalkröfur stefnda sé þess krafist að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega með vísan til þeirra röksemda sem að framan séu raktar varðandi aðalkröfu stefnda og að málskostnaður verði þá látinn niður falla.  Þá sé kröfu um dráttarvexti mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

V

Eins og rakið hefur verið er hvorki deilt um bótaskyldu né fjárhæð bóta vegna örorku stefnanda heldur snýst ágreiningur aðila um það hvaða greiðslur skuli koma til frádráttar útreiknuðum bótum.  Lýtur meginágreiningur aðila að skýringu á 1. málslið 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eins og henni var breytt með 4. gr. laga nr. 37/1999 en þar segir meðal annars að frá skaðabótakröfu vegna líkamstjóns dragist greiðslur sem tjónþoli fái frá almannatryggingum.  Í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 37/1999 kemur fram að samkvæmt gildandi lögum dragist bætur frá almanna­tryggingum og lífeyrissjóði ekki frá bótum fyrir varanlega örorku.  Í greinargerð með frumvarpi skaðabótalaga nr. 50/1993 komi fram að margföldunar­stuðull laganna hafi öðrum þræði verið ákveðinn með hliðsjón af því að tjónþoli héldi óskertum rétti til bóta frá þriðja manni t.d. almannatryggingum og vátryggingum.  Þessi sjónarmið eigi ekki við í þessu frumvarpi.  Margföldunarstuðull 5. gr. frumvarpsins sé annars eðlis en í gildandi lögum og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt það tekjutap sem hann verði fyrir vegna varanlegrar örorku.  Vegna þess sé lagt til að til frádráttar bótum komi greiðslur af félagslegum toga sem komi í hlut tjónþola vegna örorkunnar.

Í athugasemd með 4. gr. frumvarps að lögum nr. 37/1999 varðandi breytingu á 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga segir meðal annars að breytingar á frádrætti séu tvenns konar.  Annars vegar sé gert ráð fyrir því í frumvarpinu að dregnar skuli frá bótum greiðslur frá almannatryggingum og hins vegar sé gerð tillaga um að frá bótum dragist 40% af verðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði.  Áður en skaðabótalögin hafi tekið gildi árið 1993 hafi dómstólar haft verðmæti örorkulífeyris til hliðsjónar við ákvörðun bóta án þess þó að verðmætið væri dregið frá að fullu við ákvörðunina.  Tekið skuli fram að almennt öðlist tjónþoli ekki rétt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóði nema varanleg örorka hans sé að minnsta kosti 40%. 

Þá kemur fram í athugasemdunum að hér sé lagt til að 60% verðmætis örorkulífeyris komi til frádráttar bótum.  Sé það í samræmi við það hlutfall sem algengast sé að vinnuveitandi greiði af iðgjaldi til lífeyrissjóðs.  Örorkulífeyrir sé skattskyldur eins og aðrar tekjur.  Tekjur sem stofn fyrir útreikning skaðabóta séu skertar um þriðjung vegna skattfrelsis og því þurfi að skerða örorkulífeyrinn sem komi til frádráttar með sama hætti.  Frádrátturinn verði því 40% eða 2/3 af 60%.  Þá sé nauðsynlegt við uppgjör bóta að reikna verðmæti örorkulífeyris til eingreiðslu og sé eðlilegt að sú fjárhæð sé fundin með sömu afvöxtunarprósentu og notuð sé til ákvörðunar á stuðlinum í 5. gr.

Í 6. gr. skaðabótalaga eins og henni var breytt með 5. gr. laga nr. 37/1999 er mælt fyrir um hvernig meta skuli varanlega örorku til fjárhæðar á grundvelli örorkustigs tjónþola, árslauna hans og margfeldisstuðuls sem þar er ákveðinn en eins og að framan er rakið er stuðull þessi annars eðlis eftir breytinguna en áður gilti og við það miðaður að tjónþoli fái að fullu bætt fjárhagslegt tekjutap vegna varanlegrar örorku og af þeim sökum skuli dregnar frá bótum greiðslur af félagslegum toga. 

Af því sem nú hefur verið rakið verður ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna ekki skýrt á annan veg en að bætur frá almannatryggingum sem stefnandi á rétt til komi til frádráttar bótagreiðslum.  Framangreind lög voru sett með stjórnskipulegum hætti með það í huga að fjárhagsskaði tjónþola verði fullbættur og samkvæmt þeim er farið eins með alla tjónþola sem eins háttar til um að þessu leyti. Er útreikningur bóta eins og hann hefur verið ákveðinn með skaðabótalögum nr. 50/1993 sbr. lög nr. 37/1999 því ekki í andstöðu við 65. gr., 72. gr. eða 76. gr. stjórnarskrárinnar eða Mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefnandi telur enga heimild fyrir stefnda að draga frá bótagreiðslum uppreiknaðar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá desember 2002 til 67 ára aldurs stefnanda þar sem örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins sem greiðslur stofnunarinnar grund­vallist á gildi aðeins til 31. janúar 2006.  Telur stefnandi að slíkur frádráttur stríði gegn þeirri grundvallarreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi rétt á því að fá fullar bætur fyrir tjón sitt.  Þá eigi frádrátturinn í þessari mynd sér enga lagastoð.

Með greindum ákvæðum skaðabótalaga er leitast við að bæta áætlað framtíðartjón tjónþola og er útreikningurinn reistur á örorkustigi hans á þeim tíma sem upphaf örorkunnar miðast við og tekjum fyrir slysdag en staðlaður að öðru leyti.  Samkvæmt orðalagi ákvæðis 4. mgr. 5. gr. laganna og framangreindum lögskýringargögnum verða lögin ekki skýrð á annan hátt en þann að miða beri framtíðarfrádrátt vegna greiðslna af félagslegum toga við þann tíma sem tjónþoli getur ekki vænst frekari bata eða við svokallaðan stöðugleikapunkt.  Verður það ekki gert nema mið sé tekið af því hvernig mál tjónþola standa á þeim tíma og ætla út frá því hvernig mál komi til með að þróast í framtíðinni samkvæmt meðaltalslíkindareglu. Tjón stefnanda var reiknað út á grundvelli niðurstöðu matsmanna um áhrif slyssins á heilsu stefnanda og var samkomulag milli aðila um viðmiðunartekjur í því sambandi.  Þá var í uppgjöri gert ráð fyrir að stöðugleikatímapunktur teldist vera 3. júní 2001, það er þegar ekki mátti vænta frekari bata í samræmi við niðurstöðu matsmanna.

Eins og rakið er í matsgerðinni telja matsmenn að núverandi einkenni stefnanda, tengd framheilaskaða með skorti á sjálfsstjórn, skipulagshæfni, einbeitingu og námsgetu, muni há honum verulega í allri framtíð.  Hann muni ekki geta náð eðlilegum þroska unglingsáranna og ekki geta verið á vinnumarkaðinum nema tekið sé tillit til fötlunar hans og eftirlit sé haft með honum.  Matsmenn gera þó ráð fyrir að slíkir starfsmöguleikar kunni að koma upp.  Í vottorði Guðrúnar Karlsdóttur endur­hæfingarlæknis 13. apríl 2004 kemur fram að ákveðið hafi verið í samráði við geðlækni að reyna lyfjameðferð á stefnanda vegna framheilaeinkenna og að stefnanda hafi verið ráðlagt að fara í nám þótt ljóst sé að hann þurfi á töluverðum stuðningi að halda.  Þá kemur fram í vottorði Gunnars Kr. Guðmundssonar endurhæfingalæknis að mælt sé með því að stefnandi fái atvinnu með stuðningi meðan hann er að fóta sig á vinnumarkaði.

                                                                         Stefnandi hóf nám til meiraprófs við Nýja ökuskólann 17. september 2004 en ekki liggja fyrir í málinu upplýsingar um hvar hann er staddur í því námi.

Af framangreindum gögnum verður ráðið að ef stefnandi kemur til með að fara út á vinnumarkaðinn, hvort sem hann lýkur því námi sem hann hefur hafið til meiraprófs í Nýja ökuskólanum eða ekki, er ljóst að hann þarf töluverðan stuðning til þess að það geti gengið upp enda hefur stefnanda verið metin 70% varanleg örorka.  Er því eins og staðan er í dag ólíklegt að stefnandi komi til með að vinna sér inn tekjur sem nemi hærra hlutfalli en samsvarar 30% af vinnugetu þeirri sem talið er að hann hafi eftir slysið.  Með vísan til þess að taka verður mið af því hvernig staða stefnanda var á stöðugleikatímapunkti, sem eftir því sem best verður séð er óbreytt í dag, verður að ætla samkvæmt meðaltalslíkindareglu að afar ólíklegt sé að bætur þær sem stefnandi fær í dag frá Tryggingastofnun ríkisins muni skerðast eftir 31. janúar 2006, en samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins voru læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris uppfyllt frá 1. desember 2002 til 31. janúar 2006 og endurmat skal fara fram í janúar 2006. Var stefnda því rétt með vísan til 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaganna að draga frá bótagreiðslum greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins uppreiknaðar miðað við stöðugleikapunkt þann 3. júní 2001 til 67 ára aldurs stefnanda. Þegar af þessari ástæðu nær útreikningur stefnanda á frádrætti samkvæmt aðalkröfu hans alltof skammt. Þá virðist í útreikningum tryggingafræðings sem stefnandi leggur til grundvallar aðalkröfu og 1. varakröfu einungis vera gert ráð fyrir að stefnandi fái greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en ekki tekjutryggingu auk þess sem viðmiðunarfjárhæð varðandi örorkulífeyri er lægri en stefnandi fær samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu. Eru forsendur þessara útreikninga því rangar. Hvað snertir 2. og 3. varakröfu stefnanda þá fær útreikningur stefnanda á frádrætti hvað þær snertir ekki stoð í 1. ml. 4. mgr. 5. gr. skaðabóta­laganna eða lögskýringargögnum með því ákvæði og er ekkert sem styður það að frádráttur vegna greiðsla sem tjónþoli fær frá almannatryggingum eigi að takmarkast við prósentustig varanlegs miska eða varanlegrar örorku sem metið hefur verið á grundvelli skaðabótalaga.

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið var rétt við útreikning höfuð­stólsverðmætis greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, sem stefnda var heimilt að draga frá bótagreiðslum til stefnanda, að miða við þær fjárhæðir sem óumdeilt er að stefnandi fær frá Tryggingastofnun ríkisins, stöðugleikapunkt þann 3. júní 2001, lágmarkslaun miðað við 30% starfsgetu og að stefnandi komi til með að fá þessar greiðslur til 67 ára aldurs. Eins og gert er ráð fyrir í útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, sem ekki hefur verið hnekkt, og stefndi byggir kröfur sínar á er upp­reiknað höfuðstólsverðmæti þessara greiðslna miðað við framangreindar forsendur 9.118.000 krónur sem er sú fjárhæð sem réttargæslustefndi dró frá bóta­greiðslum til stefnanda. Með þeim greiðslum sem réttargæslustefndi hefur þegar innt af hendi til stefnanda hefur hann því fengið að fullu bætt að tekjutap sem hann varð fyrir vegna þeirrar varanlegu örorku sem hann hlaut í slysinu 3. júní 2000 og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

Eftir atvikum þykir þó rétt að hvor aðili beri sinn hluta málskostnaðar. Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, sem þykir hæfilega ákveðin 660.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Lilja Jónasdóttir hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Sigurður B. Halldórsson hdl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Örn Thorstensen, er sýknaður af kröfum stefnanda, Atla Sigurðssonar.

Málskostnaður fellur niður.  Gjafsóknarkostnaður stefnanda sem er málflutnings­þóknun lögmanns hans, 660.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.