Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2003
Lykilorð
- Bifreið
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Örorka
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 12. júní 2003. |
|
Nr. 8/2003. |
Þóra Jónsdóttir(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl.) |
Bifreiðir. Skaðabætur. Líkamstjón. Örorka. Gjafsókn.
Þ höfðaði mál á hendur vátryggingafélaginu V hf. til greiðslu bóta vegna umferðarslyss sem hún lenti í í októbermánuði 1990. Í málinu lá fyrir að Þ hafði einnig lent í umferðarslysum í júnímánuði sama árs svo og í janúarmánuði 1991. Mat læknirinn J varanlega örorku Þ samtals 15% vegna slysanna frá árinu 1990 og taldi að sú örorka skiptist jafnt milli þeirra. Var niðurstaða yfirmatsmanna einnig að varanleg örorka Þ vegna seinna slyssins á árinu 1990 væri 7,5% og að tímabært hafi verið að meta afleiðingar þess í árslok 1991. Voru þessar niðurstöður nánast einvörðungu byggðar á frásögn Þ, en ekki læknisfræðilegum gögnum. Þótti Þ vegna þessa ekki hafa sýnt fram á að hún hafi við slysið í októbermánuði 1991 orðið fyrir varanlegu tjóni sem V hf. bæri ábyrgð á. Var V hf. því sýknað af kröfu Þ.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2003. Hún krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 3.557.750 krónur, en til vara 3.034.625 krónur, með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 1. janúar 1993 til 19. september 2000 og með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún hefur notið á báðum dómstigum.
Stefndi krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður að fallast á það með héraðsdómara að áfrýjanda hafi ekki tekist að sýna nægilega fram á að hún hafi orðið fyrir því líkamstjóni, sem hún leitar í málinu bóta fyrir, í umferðarslysi 7. október 1990. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þóru Jónsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. október 2002.
Mál þetta var þingfest 19. september 2000 og dómtekið 20. september sl.
Stefnandi er Þóra Jónsdóttir, Vatnsholti 4a, Keflavík.
Stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Dómkröfur
Þess er aðallega krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda óskipt 3.557.750 krónur en til vara 3.034.625 krónur auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, þ.e. 1% frá 1. janúar 1993 til 11. ágúst 1993, 1,25% frá þeim degi til 11. nóvember 1993, 0,5% frá þeim degi til 1. júní 1995, 0,65% frá þeim degi til 1. október 1996, 0,75% frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. maí 1997, 1% frá þeim degi til 1. apríl 1998, 0,7% frá þeim degi til 21. október 1998, 0,6% frá þeim degi til 11. apríl 1999, 0,7% frá þeim degi til 21. janúar 2000, 1% frá þeim degi til 19. september 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla nefndra laga frá þeim degi til 1. júlí 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt IV. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og þess krafist að tildæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyld. Þá er þess krafist að málskostnaður verði dæmdur eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál
Dómkröfur Vátryggingafélags Íslands hf. eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.
Málavextir
Mál þetta höfðar stefnandi til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir þann 7. október 1990 er hún lenti í umferðarslysi á Hafnargötu í Keflavík. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var ökumaður bifreiðarinnar R-32773 þegar bifreiðinni JA-758 var ekið aftan á bifreið stefnanda. Bifreiðin R-32773 var skylduvátryggð hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.
Stefnandi kveðst hafa fengið mikinn hnykk á líkamann við áreksturinn og hafi strax fundið til mikilla óþæginda frá hálsi, hægri öxl og mjóbaki. Hún hafi verið með öryggisbelti spennt við áreksturinn og kveðst hún hafa fengið þungt högg á háls og bak af því.
Áður, eða þann 3. júní 1990, kveðst stefnandi hafa lent í umferðarslysi á Vesturlandsvegi. Hún hafi verið verið farþegi í bifreið sem annarri bifreið hafi verið ekið aftan á. Við þann árekstur hafi hún einnig fengið hnykk á háls, bak og axlir, auk þess sem hún hafi hlotið högg frá öryggisbelti. Hafi hún langt í frá verið búin að jafna sig af þeim meiðslum þegar hún hafi lent í slysinu 7. október en við það hafi öll fyrri einkenni hennar ýfst upp og aukist.
Stefnandi kveðst hafa leitað til lækna í Keflavík vegna eymsla eftir árekstrana, m.a. til háls- nef- og eyrnalæknis, auk þess sem dregnar hafi verið úr henni tennur í því skyni að bæta líðan hennar, en án árangurs. Hún hafi fengið verkjatöflur hjá heimilislækni en verkirnir hafi haldið áfram að hrjá hana. Hafi þeir komið fram sem þreyta og verkir í hálsi sem leitt hafi út í herðar og jafnvel niður í báða handleggi, sem og út í höfuð. Þessu hafi svo fylgt þreytuverkir í mjóbaki sem leitt hafi niður í báða ganglimi við álag.
Vegna þessara einkenna hafi stefnandi átt í vaxandi erfiðleikum með störf sín en hún hafi starfað í fiskvinnslu og við afgreiðslustörf. Hafi svo farið að henni hafi verið sagt upp störfum um áramótin 1990-1991.
Þann 18. janúar 1991 hafi stefnandi enn lent í umferðaróhappi er hún sem ökumaður bifreiðar missti stjórn á bifreiðinni svo að hún valt.
Í örorkumati Júlíusar Valssonar læknis kemur fram að stefnandi hafi lent í miklum félagslegum og sálrænum erfiðleikum í æsku sem hafi valdið því að hún hafi orðið mjög andlega bæld og niðurdregin. Sjálfsmat hennar hafi verið mjög lélegt vegna þessa og sjálfsálit og sjálfstraust í lágmarki. Hafi þetta háð henni mikið í samskiptum hennar við annað fólk og stuðlað að því að hún hafi lítið leitað til lækna og annarra meðferðaraðila. Vegna þessa hafi stefnandi þurft að leita sér hjálpar hjá sálfræðingi. Af þessum sökum hafi stefnandi kvartað lítt undan verkjum vegna umferðarslysanna og ekki leitað til lækna strax eftir slysin. Skýri þetta hvers vegna ekki liggi fyrir ítarlegri læknisfræðileg gögn í málinu, einkum fyrst eftir slysin.
Sigurjón Stefánsson læknir mat örorku stefnanda vegna greiðslu örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins þann 1. apríl 1996 og komst að þeirri niðurstöðu að hún væri 65% öryrki á tímabilinu l. janúar 1996 til 31. mars 1997.
Sigurjón mat örorku stefnanda aftur þann 3. júní 1996 og komst þá að þeirri niðurstöðu að örorka hennar væri 65% frá 1. janúar 1996 til 30. apríl 1996 en meiri en 75% frá 1. maí 1996 til 30. apríl 1997.
Í vottorði Arnbjörns H. Arnbjörnssonar læknis, dags. 2, júlí 1996, kemur fram að framkvæmd hafi verið röntgenmyndataka og segulómun af stefnanda og komi þar fram byrjandi slitbreytingar á hrygg.
Í vottorði Jóns B. G. Jónssonar læknis, dags. 5. maí 1997, kemur m.a. fram að stefnandi þjáist af mjög miklum eymslum í baki sem leiði út í hægri hönd og fót, sem og miklum verkjum í hálshrygg.
Þann 28. maí 1997 mat Vigfús Magnússon læknir örorku stefnanda vegna greiðslu örorkubóta frá Tryggingastofnun ríkisins og taldi hana vera 75% frá l. maí 1997 til 31. október 1997 en 65% frá 1. nóvember 1997 til 31. október 1998.
Þann 13. ágúst 1997 mat Sigurjón Stefánsson örorku stefnanda aftur og taldi atvinnumöguleika stefnanda mjög skerta vegna verkja í baki. Var stefnandi því metin með meira en 75% örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins frá l. nóvember 1997 til 31. október 1998.
Í vottorði Jóns Benediktssonar læknis frá 11. ágúst 1998 kemur fram að heilsa stefnanda sé slæm, hún þjáist mjög af verkjum í baki, hreyfing sé minnkuð í hægri öxl og mikil eymsli séu í herðum, hnakka og mjóbaki sem leiði út í hægri síðu og hægri fót.
Vigfús Magnússon mat örorku stefnanda enn fyrir Tryggingastofnun ríkisins þann 14. september 1998 og taldi hana vera meira en 75% á tímabilinu l. nóvember 1998 til 31. október 1999.
Sigurjón Sigurðsson bæklunarlæknir ritaði í desember 1998 vottorð um heilsufar stefnanda í kjölfar umferðarslyssins og orsakir bakverkjanna. Kemur þar fram að stefnandi sé haldin miklum eymslum í nær allri hægri hlið líkamans og séu umferðarslys stefnanda árið 1990 meginorsakir þeirra. Sigurjón telur það langt liðið frá slysunum að borin von sé til að heilsa stefnanda batni að ráði.
Júlíus Valsson læknir mat varanlega örorku stefnanda vegna umferðarslysanna í júní og október 1990 og janúar 1991, sbr. örorkumat hans, dags. 10. maí 2000. Júlíus telur slysin frá 1990 vera meginorsök örorku stefnanda en erfitt sé að greina á milli þeirra þar sem slysin urðu með svipuðum hætti og afleiðingar þeirra svipaðar. Slysið frá því í janúar 1991 hafi aftur lítil sem engin áhrif á varanlega örorku stefnanda. Júlíus telur varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slysanna 3. júní 1990 og 7. október 1990 vera 7,5% vegna afleiðinga hvors slyss, samtals 15%.
Undir meðferð málsins voru, að beiðni stefnda, dómkvaddir læknarnir Brynjólfur Jónsson og Torfi Jónsson til þess að meta heilsufarlegt ástand stefnanda. Er matsgerð þeirra dags. 14. maí 2001. Þá voru einnig dómkvaddir að beiðni stefnda Grétar Guðmundsson taugalæknir, Ísak G. Hallgrímsson endurhæfingarlæknir og Stefán Carlsson bæklunarlæknir til þess að framkvæma yfirmat.
Í máli þessu er eingöngu krafist skaðabóta vegna umferðarslyss stefnanda þann 7. október 1990. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., hefur alfarið neitað kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún hafi orðið fyrir miklu varanlegu heilsutjóni vegna þeirra umferðarslysa sem hún lenti í árið 1990. Engar aðrar orsakir virðist vera fyrir þessum einkennum sem hún hafi hlotið eftir slysin, hvorki meðfæddir veikleikar í baki eða sjúkdómar.
Um bótarétt stefnanda á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga, og vátryggingarsamnings um slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar R-32773 samkvæmt nefndri lagagrein, sem var í gildi við félagið er slysið átti sér stað. Beri félagið því skaðabótaábyrgð á því tjóni sem stefnandi varð fyrir við áreksturinn.
Stefnandi byggir á því að við ákvörðun bótafjárhæðar beri að líta til ólögfestra reglna íslensks skaðabótaréttar um mat á fjárhæðum skaðabóta fyrir líkamstjón, enda hafi slysið gerst fyrir gildistöku skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 28. gr. laganna.
Þessar reglur séu skýrar og séu byggðar á áralangri dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og uppgjörum vátryggingafélaganna, byggðum á þeirri dómvenju. Dómstólar hafi jafnan byggt á örorkumati sérfróðs læknis sem metið hafi afleiðingar tiltekins áverka á framtíðaraflahæfi þess slasaða. Mörg fordæmi Hæstaréttar á síðustu árum styðji þessa dómvenju.
Stefnandi byggir kröfur sínar á örorkumati Júlíusar Valssonar læknis frá 10. maí 2000 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi í slysinu 7. október 1990 hlotið 7,5% varanlega læknisfræðilega örorku. Einungis sé krafist bóta fyrir varanlegt tjón stefnanda, enda hafi stefnandi ekki misst úr vinnu að ráði vegna slyssins, heldur hafi henni verið sagt upp störfum nokkrum mánuðum eftir slysið vegna fjarvista sökum veikinda.
Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur hafi reiknað út tekjutap stefnanda vegna varanlegrar örorku hennar, með hliðsjón af örorkumati Júlíusar Valssonar, þ.e. 7,5% örorku. Samkvæmt því sundurliðist krafan þannig:
1. Varanleg örorka 7,5% 4.145.400 kr.
2. 25% frádráttur vegna skattfrelsis
og eingreiðsluhagræðis 1.036.350 kr.
3. Töpuð lífeyrisréttindi 248.700 kr.
4. Miskabætur 200.000 kr.
Samtals 3.557.750 kr.
Um l. tölulið.
Um forsendur hér sé vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings en hann byggi niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum, m.a. um 4,5% framtíðarávöxtun.
Stefnandi hafi unnið ýmis störf fyrir slysið, sem öll hafi byggt á líkamlegu atgervi hennar, án þess að stefnandi hafi nýtt vinnugetu sína til fulls til öflunar tekna. Tjónsútreikningur byggi á meðaltekjum iðnaðarmanna, enda gefi þær tekjur besta mynd af möguleikum stefnanda til tekjuöflunar fyrir slysið, og hafi sú venja skapast að leggja þær tekjur til grundvallar tjónsútreikningi í sambærilegum málum.
Um 2. tölulið.
Frádráttur þessi sé vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Sé hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Um 3. tölulið.
Hér sé aftur vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar, en samkvæmt honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, eins og dómvenja sé um.
Um 4. tölulið.
Miskabótakrafan sé byggð á dómvenju í íslenskum skaðabótarétti og sett fram með stoð í þágildandi 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Eftir slysið hafi stefnandi þjáðst af vaxandi verkjum í höfði og hálsi hægra megin og verkjum í öxl og handlegg. Öll þessi einkenni versni við minnsta álag. Þá finni stefnandi fyrir verkjaleiðni niður alla höndina og allt fram í fingurgóma, auk stirðleika í hálsi. Stefnandi eigi til að missa hluti úr hægri hönd, hún geti tæplega unnið upp fyrir sig, og eigi t.a.m. afar erfitt með að hengja upp gardínur. Verkir stefnanda hafi einnig valdið því að hún hafi ekki getað haldið á barni sínu frá unga aldri þess. Þá megi nefna að samkvæmt læknisráði hafi stefnandi látið draga úr sér tennur í von um bata, en án árangurs. Með hliðsjón af þessu hljóti miskabótakröfunni að teljast mjög í hóf stillt.
Varakrafa
Forsendur varakröfu byggja á því að dómurinn telji að ekki sé grundvöllur fyrir því að leggja meðaltekjur iðnaðarmanna til grundvallar við útreikning líkamstjóns stefnanda. Þess í stað sé hér miðað við meðaltekjur stefnanda á árunum 1988 til 1990. Til viðbótar því sé gerð krafa um greiðslu á skaðabótum vegna tapaðs verðmætis vinnu stefnanda við heimilisstörf. Samkvæmt því sundurliðist varakrafa stefnanda á eftirfarandi hátt:
1. Varanleg örorka 7,5% á grundvelli
meðaltekna árin 1988 1990 2.119.900 kr.
2. Varanleg örorka 7,5% á grundvelli
verðmætis heimilisstarfa 1.490.000 kr.
3. 25% frádráttur frá liðum 1, og 2.
vegna skattfrelsis og
eingreiðsluhagræðis - 902.475 kr.
4. Töpuð lífeyrisréttindi 127.200 kr.
5. Miskabætur 200.000 kr.
Samtals 3.034.625 kr.
Um 1. og 2. tölulið.
Um forsendur hér sé vísað til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings en hann byggir niðurstöðu sína á hefðbundnum forsendum, m.a. um 4,5% framtíðarávöxtun.
Stefnandi hafi verið með tvö börn á heimili er slysið varð og hafi ekki nýtt vinnugetu sína að öllu leyti til öflunar tekna. Vegna þessa sé lagt til grundvallar, að auk skaðabóta vegna tekjutaps í launaðri vinnu sinni, eigi stefnandi rétt til bóta vegna skerðingar á verðmæti vinnu hennar við heimilisstörf í framtíðinni. Séu útreikningar þessa þáttar byggðir á útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings og fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Útreikningar á meðaltekjum stefnanda á árunum 1988 - 1990 byggi á skattframtölum hennar vegna þeirra tekjuára og útreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings.
Um forsendur að öðru leyti vísist til þess sem hér segi að framan um forsendur varakröfu stefnanda að því er varði viðmiðunartekjur við útreikning framtíðartekjutaps stefnanda vegna afleiðinga slyssins.
Um 3. tölulið.
Frádráttur þessi sé vegna skattfrelsis og eingreiðsluhagræðis. Sé hann byggður á fordæmum Hæstaréttar Íslands.
Um 4. tölulið.
Hér vísist aftur til útreiknings Jóns Erlings Þorlákssonar, en samkvæmt honum sé verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda vegna slyssins áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti taps af varanlegri örorku, eins og dómvenja sé um.
Um 5. tölulið.
Um forsendur þessa þáttar vísist til umfjöllunar um 4. tölulið aðalkröfu.
Vaxtakrafa stefnanda sé byggð á vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 67/1989. Krafist er dráttarvaxta á grundvelli III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi málsins, enda hafi þá legið fyrir öll nauðsynleg gögn sem stefnda hafi verið þörf á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. og meginreglu 15. gr. vaxtalaga.
Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á 1. mgr. 129. gr. og l. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyld og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
Málsástæður stefnda og lagarök
Sýknukrafa stefndu er byggð á því að ekki sé sannað að stefnandi hafi orðið fyrir nokkru líkamstjóni af völdum aftanákeyrslunnar þann 7. október 1990. Enn fremur er sýknukrafan byggð á því að bótakrafa stefnanda sé löngu fyrnd samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. umfl. nr. 50/1987 eða fyrir tómlæti.
Um bótaábyrgð á slysi stefnanda fari eftir almennum skaðabótareglum. Hvíli sönnunarskyldan óskipt á stefnanda um bótaskyldu stefnda og meint tjón. Hvað varðar afleiðingar slyssins sé á það bent að engar sönnur hafi verið leiddar að því að stefnandi hafi orðið fyrir tímabundinni eða varanlegri örorku vegna óhappsins. Þess hafi ekki verið getið í tjónstilkynningu um umferðaróhappið að slys hafi orðið á fólki eins og skýrt komi þó fram að gera eigi. Þá hafi stefnandi ekki leitað til læknis vegna slyssins og engar upplýsingar liggi fyrir um slys frá árinu 1990 hjá Sjúkrahúsi Suðurnesja í vottorði því sem Hrafnkell Óskarsson læknir hafi tekið saman að beiðni stefnanda.
Stefnandi hafi verið 26 ára á slysdegi og þriggja barna móðir. Hún hafi, samkvæmt læknisvottorði Hrafnkels Óskarssonar yfirlæknis, oft leitað sér læknishjálpar. Geti hún því ekki borið fyrir sig að félagslegir og sálrænir erfiðleikar í æsku hafi stuðlað að því að hún hafi ekki leitað til lækna strax eftir slysið eða „af persónulegum ástæðum ekki leitað mikið til lækna eða annarra meðferðaraðila vegna einkenna sinna” eins og Júlíus Valsson orði það í örorkumati sínu. Þannig hafi stefnandi leitað til læknis aðeins þremur mánuðum fyrir umferðaróhappið, eða í júní 1990, vegna verkja frá vöðvum í brjóstkassa sem hún hafi verið með í einhverja mánuði og hafi það verið greint við skoðun sem millirifjagigt. Hins vegar hafi stefnandi ekki leitað til læknis vegna óhappsins þann 7. október 1990. Þá liggi það fyrir að stefnandi hafi leitað sér læknishjálpar vegna þess umferðaróhapps sem hún var völd að í janúar 1991.
Samkvæmt þessu sé ekki annað að sjá en afleiðingar aftanákeyrslunnar 7. október hafi verið þær einar að valda stefnanda nokkrum óþægindum um skamma hríð.
Bendi ekkert til þess að það hafi valdið stefnanda nokkru tjóni, hvorki tímabundið né varanlega. Fullyrðingar í örorkumati um að stefnandi hafi fundið strax til óþæginda i hálsi, hægri öxl og mjóbaki beri því að hafna sem röngum og órökstuddum.
Þá sé því algerlega mótmælt sem óstaðfestu að stefnandi hafi verið heilsuhraust fram að óhappinu 7. október 1990, enda styðjist það væntanlega einungis við fullyrðingar stefnanda þegar áverkavottorð Sigurjóns Sigurðarsonar hafi verið gefið að kröfu stefnanda, átta árum eftir hið umstefnda slys.
Örorka hennar af völdum þunglyndis, vöðvabólgu og þursabits sé hins vegar bifreiðaóhappinu og stefnda alls óviðkomandi. Beiðni um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins vegna þessara sjúkdóma stefnanda og örorkumat vegna þeirra séu hins vegar engin sönnun þess að heilsuvandamál þessi sé að rekja til aftanákeyrslu sem hafi verið sex árum áður en umsókn um örorkubætur átti sér stað.
Séu stefnukröfur alfarið byggðar á einhliða örorkumati Júlíusar Valssonar læknis um 7,5% varanlega örorku stefnanda og tjónsútreikningi Jón Erlings Þorlákssonar tryggingafræðings, sem aftur byggi á þessu sama örorkumati. Örorkumat Júlíusar sé hins vegar ekki fullnægjandi sönnunargagn um örorku stefnanda af völdum slyssins, enda gefið út til bráðabirgða, en þar segi: „Endanlegar niðurstöður matsins kunna því að breytast ef frekari og/eða nákvæmari gögn berast.” Þá hafi matið farið fram tæpum tíu árum eftir hið umstefnda slys og sé matið bersýnilega byggt á fullyrðingum stefnanda sjálfs um afleiðingar slyssins ásamt læknisfræðilegum gögnum vegna beiðna um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins á grundvelli sjúkdóms stefnanda. Er matinu sérstaklega mótmælt.
Að sama skapi verði ekki höfð nein hliðsjón af tjónsútreikningi Jóns Erlings tryggingafræðings þar sem forsendur útreikningsins séu rangar. Sé rangt að nota meðaltekjur iðnaðarmanna sem viðmiðunartekjur við útreikning bóta fyrir varanlega örorku eins og gert sé í tjónsútreikningi. En stefnandi hafi hvorki verið iðnaðarmaður né í launuðu iðnnámi þegar umferðaróhappið varð, heldur hafi hún unnið í fiski og við afgreiðslustörf í verslun. Beri því annaðhvort að nota árslaun stefnanda sjálfs sem viðmiðunartekjur við bótaákvörðun, sbr. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga eða meðaltekjur fólks í fiskvinnslu eða meðaltekjur afgreiðslufólks. Kröfu um bætur vegna tapaðs verðmætis við heimilisstörf beri að hafna alfarið, enda geti stefnandi ekki bæði miðað við fulla vinnu við heimilisstörf og utan heimilis.
Þá beri að hafna miskabótakröfu stefnanda þar sem ósannað sé að verkir þeir sem stefnandi þjáist af eða að sú staðreynd að tennur hafi verið dregnar úr henni séu afleiðingar af umstefndu slysi. Beri í þessu sambandi að benda á þá staðreynd að stefnandi hafi lent í þremur öðrum slysum og þjáist að auki af þursabiti og vöðvabólgu sem telja verði orsök verkjanna.
Hið umstefnda slys varð þann 7. október 1990 en stefna hafi ekki verið birt fyrr en 29. maí 2000 eða tæpum tíu árum síðar. Sé þó ljóst af fyrirliggjandi læknagögnum að stefnandi fullyrði að heilsufarslegt ástand sitt eftir slysið hafi verið orðið stöðugt þegar í byrjun árs 1991. Hafi stefnandi þá getað látið meta örorku sína af völdum slyssins, reikna út tjón sitt og leita fullnustu kröfu sinnar. Hafi fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. umfl. þannig hafist við árslok 1991 og hafi runnið út í árslok 1995. Ekkert hafi hindrað stefnanda í að leita fullnustu kröfu sinnar áður en fjögurra ára fyrningarfresturinn rann út. Beri því einnig að sýkna stefnda á þeim forsendum að krafa stefnanda sé fyrnd.
Vaxtakröfu stefnanda er sérstaklega mótmælt, en eldri vextir en fjögurra ára frá birtingardegi stefnu séu fyrndir, sbr. 2. mgr. 3. gr. l. nr. 14/1905. Krafa stefnanda um dráttarvexti eigi heldur ekki rétt á sér eins og hér standi á og sé henni mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.
Niðurstaða.
Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem hún telur sig hafa orðið fyrir í umferðarslysi 7. október 1990. Hún var þá ökumaður bifreiðarinnar R-32773 en bifreiðinni JA 758 var ekið aftan á hana. Bótakröfur stefnanda á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. eru byggðar á 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og vátryggingarsamningi um slysatryggingu ökumanns bifreiðarinnar R-32773 sem í gildi var á þessum tíma.
Kröfur sínar í málinu byggir stefnandi á örorkumati Júlíusar Valssonar læknis, dags. 10. maí 2000, sem unnið var að beiðni lögmanns stefnanda. Í örorkumati hans er einnig getið um umferðarslys er stefnandi varð fyrir 6. júní 1990 er hún var farþegi í bifreið sem önnur bifreið ók aftan á. Þá er og getið um umferðarslys sem stefnandi lenti í 18. janúar 1991 en þá var stefnandi ökumaður bifreiðar er valt á Hafnarfjarðarveginum.
Í örorkumatinu segir að stefnandi hafi lýst árekstrinum 7. október 1990 sem hörðum og bifreiðin sem hún ók hafi skemmst talsvert. Hún hafi verið með töluverð óþægindi í hálsi og hægri handlegg fyrir þetta slys vegna afleiðinga slyssins í júní 1990. Hún muni hafa leitað til lækna í Keflavík og fengið þar skoðun og meðferð. Einnig hafi henni verið vísað til háls,- nef- og eyrnalæknis vegna verkja í eyra og höfði hægra megin. Einnig hafi verið dregnar úr henni tennur, þó án þess að einkenni hyrfu. Hafi hún átt í vaxandi erfiðleikum með starf sitt og hafi endað með því að henni hafi verið sagt upp störfum um áramótin 1990/1991 en þá hafi hún verið búin að vinna á sama vinnustað samfleytt frá árinu 1984.
Í örorkumatinu er vísað til læknisvottorðs Sigurjóns Sigurðssonar sérfræðings í bæklunarsjúkdómum, sem er ódagsett en áritað um móttöku 22. desember 1998, þar sem segir að einkenni tjónþola vegna slyssins í júní 1990 hafi ýfst upp við seinna slysið í október 1990. Hún hafi fengið verkjatöflur hjá heimilislækni en verkirnir hafi þó haldið áfram og komið fram sem þreyta og verkir í hálsi og hafi leitt út í herðar og jafnvel niður í báða handleggi og einnig upp í höfuð.
Í samantekt og niðurstöðum í örorkumati Júlíusar Valssonar læknis segir að lögmaður stefnanda hafi beðið hann um að leggja mat á afleiðingar þeirra umferðarslysa sem stefnandi lenti í á árinu 1990 og 1991. Segir að gögn málsins séu fremur takmörkuð og þar sem mögulegt sé að frekari gögn eigi eftir að koma fram sé hér um að ræða bráðabirgðaörorkumat. Endanlegar niðurstöður matsins kunni því að breytast ef frekari og/eða nákvæmari gögn eigi eftir að berast.
Telur læknirinn að erfitt sé að greina á milli afleiðinga umferðarslysanna sem stefnandi hafi lent í í júní og október 1990 þar sem slysin hafi orðið með svipuðum hætti og afleiðingar þeirra hafi orðið svipaðar. Er niðurstaða hans að hefðbundin læknisfræðileg örorka vegna þessara tveggja slysa sé 15% og sú örorka skiptist jafnt á milli þeirra.
Að beiðni stefnda voru í mars 2001 voru dómkvaddir þeir Brynjólfur Jónsson bæklunarskurðlæknir og Torfi Magnússon heila- og taugalæknir til þess að skoða og meta heilsufarlegt ástand stefnanda.
Varðandi slysið 7. október segir í matsgerð þeirra að engin gögn frá heilsugæslu eða sjúkrahúsi virðist fyrirliggjandi um þetta slys þótt stefnandi segist hafa ítrekað leitað læknis í kjölfar þess. Hún kveðst síðan hafa verið sífellt meira frá vinnu og hafi það leitt til uppsagnar á vinnustað þar sem hún hafi unnið um nokkurra ára skeið. Engin vottorð séu fyrirliggjandi um vinnu hennar á þessu tímabili, fjarvistir frá vinnu eða tilefni uppsagnarinnar. Sé því eingöngu hægt að styðjast við frásögn stefnanda hvað þetta varði en stefnandi hafi sagt að hún hafi hætt störfum vegna afleiðinga slyssins um áramót 1990/1991.
Matsmenn telja mestar líkur á að einkenni og líkamlega hömlun stefnanda megi rekja til slysanna tveggja sem urðu á árinu 1990 og hafi hún af þeim hlotið 20% varanlega örorku. Meta þeir læknisfræðilega örorku stefnanda vegna slyssins 7. október 1990 10%.
Í september 2001 voru að beiðni stefnda dómkvaddir þrír yfirmatsmenn til þess að meta það sama og að framan greinir. Dómkvaddir voru Grétar Guðmundsson taugalæknir, Ísak G. Hallgrímsson endurhæfingarlæknir og Stefán Carlsson bæklunarlæknir. Er matsgerð þeirra dags. 13. febrúar 2002.
Um umrætt slys segir í yfirmatsgerðinni að matsmenn hafi engar heimildir um slysið er það átti sér stað svo sem lögregluskýrslu eða læsilega tjónaskýrslu. Ekki hafi dómkvaddir matsmenn upplýsingar um umferðaróhappið frá þeim tíma er það átti sér stað hvað varðar andlega eða líkamlega áverka hennar. Fyrstu rituðu heimildir um slysið, hvað varðar einkenni stefnanda, virðist vera frá 24. mars 1994 en þá sé, samkvæmt vottorði Hrafnkels Óskarssonar, sem dags. er 20. júní 1996, fært í sjúkraskrá stefnanda að hún reki verki til aftanákeyrslu fjórum árum áður.
Á matsfundi kvaðst stefnandi margsinnis hafa leitað lækna og fengið til sín vaktlækna vegna þjáninga eftir umferðarslysið í október 1990. Hún hafi misst úr vinnu dag og dag eftir umferðarslysið í júní 1990 en viku og viku eftir slysið í október og hafi því verið sagt upp um áramótin en hafi fengið laun fyrstu þrjá mánuði 1991. Segir þar og að matsmenn hafi engin vottorð um óvinnufærni frá þessum tíma eða umsögn vinnuveitanda. Heimildir matsmanna séu því fyrst og fremst matsþoli sjálfur og ritaðar heimildir sem skráðar séu löngu eftir það umferðarslys sem hér sé fjallað um.
Í yfirmatsgerðinni segir að stefnandi virðist, í slysunum í júní og október 1990, hafa fengið talsverða áverka og að svo virðist sem flest af þeim einkennum sem hrjái hana nú megi rekja til þessara slysa. Þessi slys virðist samkvæmt lýsingu í öllum meginatriðum svipaðs eðlis og hafa valdið ámóta miklu heilsutjóni.
Í niðurstöðu yfirmatsmanna segir að læknisfræðileg örorka stefnanda vegna slyssins 7. október 1990 þyki hæfilega metin 7,5%. Þá segir að stefnandi segi líðan sína og óþægindi eftir slysið 7. október 1990 óbreytta frá áramótum 1990-1991 og að matsmenn telji ekki ástæðu til þess að rengja það. Þá segir að matsmenn telji að tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyss þess sem hér er til umfjöllunar í árslok 1991.
Fyrir liggur, samkvæmt framlögðum gögnum, að stefnandi á við talsverða vanheilsu að stríða. Fram er komið að Júlíus Valsson læknir og yfirmatsmenn meta varanlega örorka stefnanda vegna slyssins 7. október 1990 7,5%. Kemur skýrt fram í örorkumati Júlíusar og yfirmatsgerð að þessar niðurstöður byggjast ekki á læknisfræðilegum gögnum frá þeim tíma heldur nánast einvörðungu á frásögn stefnanda, en eins og rakið er hér að framan eru engin læknisfræðileg gögn sem liggja fyrir um slys stefnanda hinn 7. október 1990 og stafa frá þeim tíma er slysið varð. Stefnandi leitaði til lækna í Keflavík eftir slysið en virðist ekki hafa minnst á slysið og voru afleiðingar þess því ekki kannaðar. Stefnandi byggir kröfur sína á örorkumati Júlíusar Valssonar læknis sem gert var tæpum 10 árum eftir slysið. Segir hann í matsgerðinni að gögn séu takmörkuð og lítur hann á matið sem bráðabirgðamat. Þegar framanritað er virt þykir, gegn andmælum stefnda, ekki hafa verið sýnt fram á að stefnandi hafi við slysið 7. október 1990 orðið fyrir varanlegu tjóni sem stefndi beri bótaábyrgð á.
Samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987 fyrnast bótakröfur samkvæmt XIII. kafla laganna, bæði á hendur þeim sem ábyrgð ber og vátryggingafélagi, á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem kröfuhafi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar.
Með hliðsjón af frásögn stefnanda telja yfirmatsmenn að tímabært hefði verið að meta afleiðingar slyssins í árslok 1991. Að því gefnu að stefnandi hefði þurft einhvern tíma til þess að undirbúa kröfugerð sína gagnvart stefnda þykir eðlilegt að miða við að krafa stefnanda hefði byrjað að fyrnast í árslok 1992 og hafi því fyrningarfresti lokið í árslok 1996, sbr. áðurnefnda 99. gr. Mál þetta var þingfest 19. september 2000. Bótakrafa stefnanda á hendur stefnda var því löngu fyrnd er mál þetta var höfðað.
Ber því samkvæmt framansögðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 340.930 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málfutningsþóknun lögmanns stefnanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 250.000 krónur. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Þóru Jónsdóttur.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 340.930, krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 250.000 krónur.