Hæstiréttur íslands

Mál nr. 56/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Dómsatkvæði

 

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003.

Nr. 56/2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Helga Leifsdóttir hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. B liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til „fimmtudagsins 21. mars 2003“. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. mars 2003 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2003.

          Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, f. [...]1965, pólskum ríkisborgara, með dvalarstað að [...], Reykjavík, verði á grundvelli b liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir en lýkur í dag kl. 16.00 uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. mars 2003 kl. 16.00. Til vara er þess krafist að kærða verði bönnuð för frá Íslandi allt til fimmtudagsins 21. mars 2003 kl. 16.00.

          [...]

          Þann 15. janúar sl. var gefin út ákæra á hendur mönnunum fjórum og í henni eru þeir ákærðir fyrir að hafa framið í félagi þjófnað, tilraun til þjófnaðar og nytjastuld, aðfaranótt 1. desember sl.  Nemur heildarverðmæti hinna stolnu muna í ákærunni rúmlega 1,2 milljónum króna.  Ákæran verður þingfest 18. febrúar nk.

          Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 9. janúar sl. nr. R-9/2003 var fallist á kröfu um gæsluvarðhald yfir ákærða, enda væru skilyrði b liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála fyrir hendi. Telja verði þetta lagaskilyrði enn fyrir hendi.

          Ákærði sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo um og brot gegn 244. sbr. 20. gr. og 259. gr. sömu laga.

          Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.

          Um heimild til farbanns er vísað til 110. gr. laga nr. 19/1991, sbr. b lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga.

          Samkvæmt rannsóknargögnum er rökstuddur grunur fyrir hendi um að ákærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geta hann fangelsisrefsingu ef sannast.  Í Volkswagen bifreiðinni, sem ákærðu voru á, fundust munir sem raktir voru til innbrots að Böðvarsholti á Snæfellsnesi.  Ákærði hefur neitað sakargiftum í málinu. Skýringar hans hjá lögreglu um ferðir og tilvist þýfis, sem fannst í vörslum hans og félaga hans eru ótrúverðugar. Er ýmislegt í gögnum málsins sem styður þær grunsemdir lögreglunnar að ákærðu stundi skipulagða brotastarfsemi.  Rannsókn málsins er lokið og gefin hefur verið út ákæra vegna brota sem varðað geta ákærða fangelsisrefsingu. Skýringar ákærða á hvarfi vegabréfs sem og því hvernig vegabréf hans komst skyndilega í vörslu hans á ný sl. laugardag eru ekki trúverðugar.  Þá telur lögregla sig hafa ástæðu til að ætla að hinir ákærðu kunni að hafa fleiri en eitt vegabréf falin einhvers staðar. Með hliðsjón af öllu framansögðu, þykir kominn fram nægilega rökstuddur grunur um að ætla megi að ákærði kunni að reyna að komast úr landi gangi hann laus. Þykir nauðsynlegt að tryggja nærveru ákærða vegna fyrirhugaðrar dómsmeðferðar málsins. Ekki verður talið að farbann samkvæmt. 110. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægjandi úrræði til þess að hefta ferðafrelsi hans. Samkvæmt framansögðu er því fullnægt skilyrði b liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um áframhaldandi gæsluvarðhald ákærða. 

          Með vísan til þessa og rannsóknargagna málsins er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um gæsluvarðhald ákærða, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. 

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

          Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 21. mars 2003 kl. 16.00.