Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2016

Guðmundur Runólfsson hf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Fullnaðarkvittun
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Fjármálafyrirtæki
  • Viðbótarkrafa

Reifun

G hf. og L hf. deildu um hvort L hf. hefði við endurútreikning á þremur lánssamningum, sem höfðu verið bundnir ólögmætri gengistryggingu, verið heimilt að reikna vexti á gjalddaga sem gjaldfallið hefðu fyrir endurútreikninginn eftir 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að við heildarmat á öllum aðstæðum yrði að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefði á efnahag G hf. og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni. Var talið að þegar litið væri til stærðar G hf. og umsvifa félagsins væru áhrif viðbótarkröfunnar á G hf. svo veruleg að L hf. yrði sjálft að bera þann vaxtamun sem um var deilt í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. febrúar 2016. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 999.670.150 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2014 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi lýtur mál þetta að þremur lánssamningum sem áfrýjandi og G.R. útgerð ehf., er síðar sameinaðist áfrýjanda, gerðu við Landsbanka Íslands hf. Nánar tiltekið var um að ræða samning 15. nóvember 2004 að jafnvirði 625.000.000 krónur, 8. desember sama ár að jafnvirði 970.000.000 krónur og 31. ágúst 2005 upphaflega að fjárhæð 165.000.000 krónur. Fyrri tveir samningarnir voru bundnir erlendum gjaldmiðlum í tilteknum hlutföllum en þriðja samningnum var myntbreytt 11. apríl 2006 þannig að hann tæki mið af erlendum gjaldmiðlum í ákveðnum hlutföllum. Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var samningum þessum ráðstafað til stefnda.

Stefndi taldi að lánssamningarnir hefðu að geyma ólögmæta bindingu við gengi erlendra gjaldmiðla. Því endurreiknaði hann lánin til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 18. gr. þeirra laga, og tilkynnti áfrýjanda það með bréfum 3. október og 20. desember 2011 og 9. febrúar 2012. Samkvæmt þeim útreikningum lækkaði lánssamningur 15. nóvember 2004 úr 1.074.231.711 krónum í 908.942.006 krónur eða um 15,39%, lánssamningur 8. desember sama ár úr 1.263.456.340 krónum í 998.041.014 krónur eða um 21,01% og lánssamningur 31. ágúst 2005 úr 232.681.414 krónum í 161.657.179 krónur eða um 30,52%. Samkvæmt þessu lækkuðu eftirstöðvar samninganna um samtals 501.729.266 krónur. Við þessa útreikninga var tekið tillit til viðbótarkröfu vegna vaxta fyrir liðna tíð samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001.

Með bréfi 14. mars 2013 krafðist áfrýjandi þess að stefndi endurreiknaði eftirstöðvar lánssamninganna að því gættu að ekki bæri að reikna afturvirkt hærri vexti en hann hefði staðið skil á. Nokkru síðar eða 23. maí það ár sendi stefndi bréf til áfrýjanda og fleiri fyrirtækja, sem tekið höfðu gengistryggð lán, þar sem fram kom að bankinn væri að bíða eftir dómum í nokkrum málum þar sem reyndi á rétt hans til að hafa uppi viðbótarkröfu vegna vaxta. Yrði leitast við að hraða þeim málarekstri eins og kostur væri en í kjölfarið mætti vænta viðbragða bankans.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur áfrýjandi gert lánssamningana upp að fullu. Hefur hann aflað útreiknings á fjárhæð þeirrar viðbótarkröfu sem hann hefur staðið stefnda skil á vegna mismunar á umsömdum vöxtum og vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 þar til stefndi endurútreiknaði lánin. Krafa áfrýjanda á hendur stefnda svarar til þeirrar fjárhæðar og er ekki tölulegur ágreiningur með aðilum.

II

Áfrýjandi hefur höfðað málið til endurgreiðslu á því sem hann telur sig hafa ofgreitt við uppgjör fyrrnefndra lánssamninga sem bundnir voru ólögmætri gengisviðmiðun. Stefndi hefur borið því við að óskráðar reglur um endurheimtu ofgreidds fjár komi í veg fyrir að krafa áfrýjanda verði tekin til greina. Um þá málsástæðu er þess að gæta að stefndi átti sjálfur frumkvæði að því að taka skuldarsambandið upp með endurútreikningi lánanna en með því viðurkenndi hann í verki rétt áfrýjanda til leiðréttingar eftir því sem lög stóðu til. Getur stefndi því ekki borið fyrir sig að reglur um endurheimtu ofgreidds fjár hindri að krafa áfrýjanda verði tekin til greina. Verður heldur ekki talið skipta máli í þessu sambandi þótt áfrýjandi hafi ekki gert sérstakan fyrirvara við endurútreikninga stefnda, enda lýsti hann því yfir með fyrrgreindu bréfi 23. maí 2013 að til frekari leiðréttingar gæti komið í ljósi úrlausna dómstóla í hliðstæðum málum. Vegna þessara viðbragða stefnda getur engu skipt þótt áfrýjandi hafi ekki gert fyrirvara við endurútreikningana þegar þeir bárust honum. Að þessu gættu ráðast úrslit málsins af því hvort stefnda hafi verið heimilt við endurútreikning lánanna að reikna með viðbótarkröfu vegna þess vaxtamunar sem krafa áfrýjanda um endurgreiðslu lýtur að.

 Svo sem Hæstiréttur hefur ítrekað slegið föstu er það meginregla kröfuréttar að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann á rétt til úr hendi skuldara, eigi tilkall til viðbótarkröfu. Frá þeirri meginreglu hefur verið viðurkennt að gera verði undantekningar við sérstakar aðstæður. Í þeim efnum hefur einkum komið til greina að víkja frá meginreglunni þegar skuldari hefur með réttu getað miðað við að lögskiptunum sé endanlega lokið og hann síðan í samræmi við það hagað ráðstöfunum sínum í góðri trú. Við mat á þessu verður einnig að líta til eðlis skuldarsambandsins, aðstöðu bæði kröfuhafa og skuldara og hvorum þeirra stóð nær að ganga úr skugga um að efndir væru fullnægjandi eða bera áhættuna af mistökum sem leiddu til vangreiðslu. Þá verður viðbótarkröfu frekar hafnað ef kröfuhafi hefur sýnt af sér tómlæti við að hafa uppi kröfu um leiðréttingu. Að baki undantekningum frá meginreglunni búa sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en viðbótarkrafa getur haft í för með sér mikla röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara. Á það sérstaklega við þegar viðvarandi skuldarsamband til lengri tíma er tekið upp hvað fortíðina varðar og skuldara í framhaldinu gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum, þvert á væntingar skuldara um hið gagnstæða miðað við það sem aðilar hafa fram að því lagt til grundvallar í lögskiptum sínum. Eftir því sem óhagræði skuldara er meira af viðbótarkröfunni því sterkari eru rökin til að víkja frá meginreglunni.

Þegar virt er staða aðila í skuldarsambandi, með tilliti til þess hvort fallist verði á viðbótarkröfu, hefur í dómaframkvæmd verið talið skipta máli hvort skuldari er annars vegar einstaklingur, lítið fyrirtæki eða fámennt sveitarfélag eða hins vegar stórt fyrirtæki. Að því er varðar fyrirtæki var viðbótarkröfu hafnað í dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 og 30. janúar 2014 í máli nr. 544/2013, en þar áttu í hlut smáfyrirtæki. Aftur á móti var viðbótarkrafa tekin til greina í dómum réttarins 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 og 13. október 2016 í máli nr. 34/2016 en þar var um að ræða mjög stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Í dómi 6. nóvember 2014 í máli nr. 110/2014 og í dómum 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015 reyndi hins vegar á tvö fyrirtæki, sem ekki voru jafn stór en með þó nokkur umsvif. Þar var hafnað viðbótarkröfu á hendur öðru fyrirtækinu, en hún tekin til greina á hendur hinu. Samkvæmt þessu er ekki útilokað að vikið verði frá meginreglunni þótt í hlut eigi meðalstór og jafnvel stærri fyrirtæki, en þá þarf eðli máls samkvæmt meira að koma til svo það verði gert. Er þess þá að gæta að stærri fyrirtæki búa að jafnaði yfir meiri þekkingu á sviði fjármála eða eiga í öllu falli auðveldara með að afla sér hennar en þau sem smærri eru. Af þeim sökum verða gerðar ríkari kröfur til aðgæslu stærri fyrirtækja gagnvart afleiðingum þeirra skuldbindinga sem þau gangast undir. Af þessu leiðir að því aðeins verður vikið frá meginreglunni um rétt kröfuhafa til fullra efnda, þegar stærri fyrirtæki eiga í hlut, að beiting reglunnar leiði til svo verulegrar röskunar á hagsmunum skuldara og jafnvægi í skuldarsambandinu að ekki verði við unað.

Hvort sem litið er til hlutfalls viðbótarkröfu stefnda af höfuðstól lánanna, að teknu tilliti til hækkunar verðlags frá því lánin voru tekin, heildarfjárhæðar vaxtagreiðslna eða aðeins fjárhæðar viðbótarkröfunnar, er öldungis ljóst að hún er umtalsverð. Verður einnig að fallast á með héraðsdómi að lítið hlutfall afborgana breyti því ekki að skapast hafi næg festa við framkvæmd lánssamninganna. Jafnframt verður lagt til grundvallar að báðir aðilar gengu út frá því að gengistrygging höfuðstóls lánanna væri gild og eru því engin efni til að telja að áfrýjandi hafi ekki verið í góðri trú um að greiðslur hans á vöxtum hverju sinni fælu í sér fullar efndir. Mæla þessi atriði með því að krafa áfrýjanda verði tekin til greina, án þess þó að þau ein og sér geti ráðið úrslitum. Að þessu gættu verður við heildarmat á öllum aðstæðum að líta til þess hvaða áhrif viðbótarkrafan hefur á efnahag áfrýjanda og óhagræði hans af því að þurfa að standa skil á henni.

Eins og áður greinir var áfrýjanda tilkynnt um endurútreikninga stefnda á lánunum með bréfum 3. október og 20. desember 2011 og 9. febrúar 2012, en þeir tóku mið af því að stefndi ætti viðbótarkröfu vegna vangreiddra vaxta fyrir liðna tíð. Samkvæmt ársreikningi áfrýjanda 2011 námu rekstartekjur hans 1.478.041.135 krónum eftir að tekið hafði verið tillit til niðurfærslu að fjárhæð 595.851.497 krónur vegna aflaverðmætis til eigin vinnslu. Rekstarhagnaður þess árs fyrir skatta og fjármagnsliði nam 291.071.587 krónum og var eigið fé neikvætt um 89.392.858 krónur. Samkvæmt þessu nemur viðbótarkrafan riflega tveimur þriðju hlutum tekna ársins eða rétt tæpum helmingi eftir því hvort tekið er tillit til niðurfærslu vegna afla til eigin vinnslu. Þá nemur viðbótarkrafan ríflega þreföldum rekstarhagnaði ársins og hún ein skiptir sköpum um hvort eignir áfrýjanda hrökkva fyrir skuldum á því ári. Að öllu þessu virtu eru áhrif viðbótarkröfunnar á áfrýjanda svo veruleg að stefndi verður sjálfur að bera þann vaxtamun sem deilt er um í málinu og leiðir af því að lánin voru bundin ólögmætri gengistryggingu. Var stefnda því óheimilt að taka tillit til viðbótarkröfunnar við endurútreikning lánanna og ber að standa áfrýjanda skil á fjárhæð er svarar til hennar. Fá ákvæði laga nr. 151/2010, sem breyttu lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, ekki haggað þeirri niðurstöðu, svo sem Hæstiréttur hefur ítrekað lagt til grundvallar í dómum sínum um viðbótarkröfur vegna vaxta af gengistryggðum lánum, sbr. dóm réttarins 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 og fleiri dóma sem gengu í kjölfarið. Verður krafa áfrýjanda á hendur stefnda því tekin til greina með dráttarvöxtum frá þingfestingu málsins í héraði í samræmi við kröfu áfrýjanda, en hann á rétt á þeim vöxtum frá málshöfðun, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi á báðum dómstigum eins og í dómsorði greinir.      

Dómsorð:

Stefndi, Landsbankinn hf., greiði áfrýjanda, Guðmundi Runólfssyni hf., 999.670.150 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. maí 2014 til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2016.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 16. apríl 2014 og dómtekið að lokinni aðalmeðferð 8. desember sl. Stefnandi er Guðmundur Runólfsson hf., Sólvöllum 2, Grundarfirðir. Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér 999.670.150 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. maí 2014 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara lækkunar á kröfum stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áður en dómur var kveðinn upp.       

Helstu ágreiningsefni og yfirlit um málsatvik.

Meginágreiningur aðila snýr að því hvort við endurútreikning þriggja gengistryggðra lána, sem stefnandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. á árunum 2004 og 2005 og nánar er gerð grein fyrir síðar, hafi borið að taka tilliti til fullnaðarkvittana vegna þeirra samningsvaxta sem stefnandi hafði þá greitt. Atvik málsins eru að meginstefnu ágreiningslaus og er ekki um það deilt að umrædd lán hafi verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Ekki er lengur um að ræða tölulegan ágreining með aðilum. Þá liggur fyrir að stefndi hefur tekið við réttindum og skyldum lánveitanda af Landsbanka Íslands hf. vegna umrædds láns, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, og er því réttilega stefnt til varnar.

Landsbanki Íslands hf. var um árabil viðskiptabanki stefnanda sem fæst við útgerð og fiskverkun. Hjá fyrirtækinu starfa á bilinu 77-85 manns, eftir árstíðum, þar af tveir við skrifstofuhald. Stefnandi tók á árunum 2004 og 2005 þrjú lán hjá bankanum sem hér segir:

  1. Lánssamningur nr. 0106-36-2150, dagsettur 15. nóvember 2004, upphaflega að jafnvirði 625 milljónir króna, bundinn við gengi evru (30%), sterlingspunda (10%), svissneskra franka (25%), japanskra jena (15%) og bandaríkjadala (20%). Lánstíminn var 5 ár og endurgreiðsluskilmálar þeir að einungis bar að greiða vexti á þriggja mánaða fresti fram til lokagjalddaga 15. desember 2009, en þá skyldi lánið greitt upp með einni afborgun. Vextir skyldu vera svonefndir LIBOR vextir auk 3% álags. Lánið var upphaflega veitt öðru félagi sem síðar var sameinað stefnanda. Skilmálabreyting var gerð 26. janúar 2010 sem miðaðist við að lánið skyldi greitt upp 15. júní 2010. Hinn 16. ágúst 2010 var gerður viðauki við lánssamninginn sem fól í sér að lánið skyldi greitt upp á fimm árum, með 20 afborgunum, á þriggja mánaða fresti, fyrst 15. desember 2010, og skyldi greiða 1/68 hluta höfuðstóls á fyrstu 19 gjalddögum, en á lokagjalddaga 15. september 2015 skyldi greiða 49/68 hluta.
  2. Lánssamningur nr. 0106-36-2314, dagsettur 8. desember 2004, að jafnvirði 970 milljónir krónur, bundinn við gengi evru (30%), sterlingspunda (10%), svissneskra franka (30%), japanskra jena (20%) og bandaríkjadala (10%). Lánstíminn var 15 ár og skyldi greiða lánið með 90 jöfnum afborgunum á tveggja mánaða fresti. Vextir, sem  greiðast skyldu á sömu gjalddögum, skyldu vera svonefndir LIBOR vextir með 1,5% álagi. Hinn 6. apríl 2009 var gerður viðauki við lánssamninginn, þar sem greiðslu afborgana var frestað til 15. nóvember 2009, og lokagjalddagi færður aftur. Hinn 16. september 2009 var enn gerður viðauki við lánssamninginn, þar sem lánsmyntum var m.a. breytt, auk þess sem greiðsluskilmálar urðu þeir að eftirstöðvar lánsins skyldu greiðast á fimm árum, með 30 afborgunum á tveggja mánaða fresti, þannig að 1/102 hluti þess skyldi greiddur á fyrstu 29 gjalddögunum, en á lokagjalddaga skyldi greiða 73/102 hlutar lánsfjárhæðarinnar.
  3. Lánssamningur nr. 0106-36-4832, dagsettur 31. ágúst 2005, að fjárhæð 165 milljónir krónur. Lánið var verðtryggt og bundið vísitölu neysluverðs og skyldi greiðast upp á fimm árum með 20 jöfnum afborgunum á þriggja mánaða fresti, þannig að á fyrstu 19 gjalddögunum skyldi greiða 1/60 hluta skuldarinnar en á lokagjalddaga, 10. nóvember 2010 41/60 hluta. Vextir skyldu vera svonefndir kjörvextir, sem þá numi 4,6%, auk álags. Hinn 5. apríl 2006 var láninu myntbreytt samkvæmt heimild í samningnum og var lánið, sem á þeim tíma nam jafnvirði 165.473.581 krónu, myntbreytt í kanadadollar (30%), japönsk jen (10%) og svissneska franka (60%). Var lánssamningi þessum skilmálabreytt 6. apríl 2009, 13. október 2010 og 15. desember 2010, síðast þannig að eftirstöðvar lánsins skyldu greiddar með 20 afborgunum á þriggja mánaða fresti, og lokagjalddagi yrði 10. ágúst 2015. Á fyrstu 19 gjalddögum skyldi greiða 1/68 hluta lánsins en á lokagjalddaga 49/68 hluta.

Með bréfum 3. október 2011, 20. desember þess árs og 9. febrúar 2012 tilkynnti stefndi stefnanda að hann hefði endurreiknað lánasamningana í samræmi við ákvæði laga nr. 151/2010. Í öllum tilvikum lækkuðu eftirstöðvar lánanna.

                Í stefnu er vísað til þess að stefnandi hafi átt í samskiptum við stefnanda um frekari leiðréttingu og vísað meðal annars til dóms Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011. Segir jafnframt að svo virðist sem stefnandi hafi komið sér upp þeirri vinnureglu í kjölfar dóms Hæstaréttar 12. desember 2013 í máli nr. 463/2013 að fyrirtæki sem væru með ársveltu yfir 1,5 milljarði skyldu ekki fá frekari leiðréttingu. Þá segir í stefnu að í ljósi afstöðu stefnda hafi stefnandi aflað útreiknings sérfræðings á endurgreiðslukröfu sinni. Eru þeir útreikningar, sem ekki er ástæða til að rekja sérstaklega, dagsettir 7. apríl 2014.

Við aðalmeðferð málsins gaf aðilaskýrslu Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri stefnanda. Í skýrslu hans kom meðal annars fram að lánasamningar fyrirtækisins við Landsbanka Íslands hf. hefðu verið gerðir á grundvelli kynninga starfsmanna bankans og annarra upplýsinga sem bankinn hefði veitt fyrirtækinu. Í kjölfar hruns á fjármálamörkuðum haustið 2008 hefði stefnandi átt við verulega fjárhagserfiðleika að stríða, ekki síst vegna gjaldmiðlaskiptasamninga sem gerðir hefðu verið við Landsbanka Íslands hf. Samkomulag hefði verið gert við bankann um þessa samninga og einnig hefði verið gert samkomulag um skuldaaðlögun við stefnanda sem tekið hafði yfir lán Landsbanka Íslands hf. 

Helstu málsástæður og lagarök aðila

                Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að fullnægt sé öllum þeim skilyrðum, sem mótuð hafi verið í dómaframkvæmd, til þess að hann geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum vegna greiðslu vaxta framangreindra lána. Stefnandi hafi þannig verið í góðri trú um að með vaxtagreiðslum til stefnda væri hann að efna að fullu skyldur sínar að þessu leyti. Hann vísar til þess að viðbótarkrafa stefnda vegna lánanna hafi verið veruleg og festa hafi verið í framkvæmd samninganna. Hafi því verið um að ræða verulega röskun á stöðu stefnanda sem meðal annars hafi komið fram í því að stefnandi gekk að afarkostum stefnda við skuldaaðlögun haustið 2008. Að því er varðar stöðu aðila vísar stefnandi til þess að hann hafi enga sérþekkingu á gengismálum og alls ekki þekkingu sem jafna megi við þekkingu fjármálafyrirtækis. Lögð er á það áhersla að staða stefnanda sé gerólík því sem fjallað hafi verið um dómum Hæstaréttar vegna stærri fyrirtækja. Stefnandi sé lítið sjávarútvegsfyrirtæki, sem um fjármögnun og hvernig henni skyldi hagað hverju sinni, hafi reitt sig á viðskiptabanka sinn og sérfræðinga hans sem hafi samið alla lánasamninga og önnur skjöl sem tengdust lántökum stefnanda.

                Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi rétt á endurgreiðslu á grundvelli reglna um endurheimt ofgreidds fjár, enda lagaskilyrði fyrir slíkum endurheimturétti ekki til staðar. Endurútreikningur í október og desember 2011 og febrúar 2012 hafi í reynd falið í sér að stefndi endurgreiddi stefnanda það sem talið var nema inneign stefnanda vegna ólögmætrar gengisbindingar, í formi lækkunar lánsskuldbindinganna, en stefndi hafi dregið þá endurgreiðslu frá kröfu sinni um viðbótarvexti af lánunum. Vísað er til þess að stefnandi hafi ekki haft uppi mótmæli eða fyrirvara við þetta tækifæri eða þegar lánin voru að fullu greidd upp. Með vísan til þessa og að teknu tilliti til þess að lánsskuldbindingarnar áttu að sönnu að bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, verði ekki séð að grunnskilyrði endurheimturéttar, þ.á m. um ofgreiðslu skuldbindingar, séu uppfyllt. Þannig sé meðal annars ljóst að stefndi hafi engan veginn „auðgast“ á kostnað stefnanda við endurútreikningana. Þvert á móti verði að líta svo á að endurheimtukrafan, sem miðast við að reiknaðir væru lágir erlendir vextir af íslenskri óverðtryggðri lánsfjárhæð, teljist frekar fela í sér auðgun stefnanda, á kostnað stefnda.

                Komi til álita að stefnandi geti byggt kröfu á reglum um fullnaðarkvittanir vísar stefndi til þess að ekki hafi verið sýnt fram á að skilyrðum þar að lútandi sé fullnægt, en stefnandi beri sönnunarbyrðina að þessu leyti. Stefndi leggur áherslu á að stefnandi sé stórt útgerðarfyrirtæki sem hafi tekjur að verulegu leyti í erlendum myntum. Þá hafi höfuðstóll lána stefnanda lækkað verulega við endurútreikning stefnda. Á árinu 2011 hafi tekjur af aðalstarfsemi félagsins þannig numið 2,1 milljörðum króna og eignir verið alls um 2,9 milljarðar króna. Hafi á engan hátt verið sýnt fram á eða sannað að fjárhæðir viðbótarkrafna vegna vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi valdið stefnanda sérstakri röskun.

Stefndi bendir einnig á að um sé að ræða tiltölulega gömul lán. Skilmálar lána stefnanda hafi ekki falið í sér mikla greiðslubyrði fyrir stefnanda meginþorra lánstímans og hafi stefnandi á umsömdum lánstíma fyrst og fremst greitt vexti. Því hafi ekki verið komin sérstök festa á greiðslu lánanna. Ef litið sé til raunvirðis lánanna (miðað við vísitölu neysluverðs) á endurútreikningsdegi þá verði heldur ekki séð að viðbótarkröfur stefnanda hafi getað talist vera íþyngjandi. Stefndi telur einnig að framreikna eigi höfuðstól lána þegar hlutfall viðbótarkröfu sé metið.

Þá er á því byggt að stefnandi hafi verið í samningsstöðu til að hafa áhrif á einstök atriði í skilmálum lánssamninganna og hafi hann jafnframt haft brýnt tilefni til að leita sér nauðsynlegrar sérfræðiaðstoðar við samningsgerðina. Ekki verði heldur talið að stefnandi hafi getað verið í góðri trú um, er hann greiddi afborganir og/eða vexti, að vextir væru endanlega greiddir þó að sá þáttur skuldarinnar, þ.e. lánsmyntin, sem ótvírætt var forsenda vaxtanna, ætti eftir að sæta endurskoðun. Stefnanda hafi þannig, með tilliti til stærðar og umfangs, og sérfræðiþekkingar á gjaldeyrisviðskiptum, vart getað dulist samhengi milli mynttilgreiningar og vaxtaviðmiðunar, en slíkt hljóti, eins og annað, að skipta máli við heildarmat á þýðingu fullnaðarkvittana.  Að lokum er til þess vísað að stefndi hafi haft uppi viðbótarkröfur sínar um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 án ástæðulausra tafa. 

Niðurstaða

                Dómurinn telur fram komið að hlutfall viðbótarkröfu stefnda vegna afturvirks útreiknings vaxta samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 hafi í sjálfu sér verið umtalsvert hvort sem litið er til höfuðstóls fyrrgreindra lána, heildarvaxtagreiðslna eða einungis þeirra fjárhæða sem hér var um að ræða. Þá verður ekki á það fallist með stefnda að lítið hlutfall afborgana af höfuðstól leiði til þess að líta beri svo á að ekki hafi myndast nægileg festa í lögskiptum aðila að þessu leyti. Sömuleiðis verður ekki talið að sú staðreynd að vaxtagreiðslur höfðu átt sér stað um nokkuð langt skeið, með þeim afleiðingum að viðbótarkröfur stefnda um vexti urðu tiltölulega hátt hlutfall af höfuðstól, mæli gegn því að stefnandi geti byggt rétt á fullnaðarkvittunum.

Í málinu er hins vegar til þess að líta að árið 2011, þegar endurútreikningur fyrstu tveggja lánanna fór fram, námu rekstrartekjur stefnanda 2,1 milljarði króna en eignir 2,9 milljörðum. Er af þessu, svo og öðrum gögnum málsins, ljóst að stefnandi getur ekki talist lítið fyrirtæki á íslenskan mælikvarða. Einnig verður að leggja til grundvallar að stefnandi, sem að meginstefnu framleiðir neysluvöru til sölu á erlendum mörkuðum, hafi í krafti fjárhagslegs styrkleika síns verið í aðstöðu til að leggja mat á kosti og galla þess að taka lán sem fylgdi gengi erlendra gjaldmiðla eða þá afla sér sjálfstæðrar ráðgjafar um það efni. Umfram annað verður þó að horfa til þess að endurútreikningur stefnda leiddi ekki til þess að stefnandi væri skyndilega krafinn um auknar greiðslur heldur var þvert á móti um það að ræða að umsaminn höfuðstóll lána væri færður niður, í flestum tilvikum verulega, á grundvelli endurútreiknings stefnda. Er og ekki komið fram í málinu að greiðslubyrði stefnanda hafi aukist í framhaldi af endurútreikningi stefnda. Þá liggur fyrir að stefnandi greiddi áfram af lánum sínum án fyrirvara við endurútreikningi stefnda og greiddi lánin loks upp með töku nýrra lána.

Að virtum framangreindum atriðum þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að áskilnaður stefnda um vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laga nr. 38/2001 til samræmis við ákvæði laga nr. 151/2010 hafi valdið honum svo verulegri og óvæntri röskun á fjárhagslegri stöðu að það standi stefnda nær að bera áhættuna af þeim vaxtamun sem áður er lýst, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 15. október 2015 í málum nr. 34 og 35/2015. Eru því ekki uppfyllt skilyrði til að víkja frá téðum fyrirmælum laga nr. 38/2001 viðvíkjandi endurútreikningi gengistryggðra lána með vísan til fyrrgreindra ákvæða 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1995, og áðurlýstrar reglu fjármunaréttar um fullnaðarkvittanir. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.

                Með hliðsjón af vafaatriðum málsins þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigurður G. Guðjónsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti máli Andri Andrason hdl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Guðmundar Runólfssonar hf.

                Málskostnaður fellur niður.