Hæstiréttur íslands

Mál nr. 428/2005


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Sekt
  • Lagaskil
  • Vararefsing


Dómsatkvæði

 

Fimmtudaginn 30. mars 2006.

Nr. 428/2005.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari)

gegn

Ólafi Ólafssyni og

Sigþóri Sigurjónssyni

(Hlöðver Kjartansson hrl.

 Ólafur Eiríksson hdl.)

 

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Lagaskil. Vararefsing.

Ó og S, sem báðir voru skráðir framkvæmdastjórar félagsins M ehf, voru sakfelldir fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 með því að hafa á árinu 2003 ekki staðið réttilega skil á 29.402.558 krónum í virðisaukaskatt og 26.086.405 krónum í staðgreiðslu opinberra gjalda. Greitt hafði verið inn á skuldir félagsins og kom því til álita hvort staðin hefði verið skil á verulegum hluta skattfjárhæðanna í skilningi 2. málsl. greinanna þannig að fyrirmæli þeirra um fésektarlágmark ættu ekki við. Talið var að þessi undantekning frá sektarlágmarkinu næði einungis til þeirra gjaldatímabila, sem greidd hefðu verið að fullu eða verulegu leyti fyrir útgáfu ákæru, en ekki til þeirra, sem eftir stæðu. Lagt var til grundvallar að fjárhæðum, sem ráðstafað hafði verið til greiðslu álags á vanskilafé og á staðgreiðslu opinberra gjalda Ó og S, ættu að skoðast sem innborgun inn á höfuðstól og dráttarvexti skuldanna. Að teknu tilliti til þessa var talið að fésektarlágmark 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 næði ekki til vanskila virðisaukaskatts frá fyrsta og öðru gjaldatímabili 2003. Sá hluti af þriðja gjaldatímabilinu, sem taldist greiddur, náði ekki þeim þriðjungi skuldarinnar, sem til þurfti svo hún teldist greidd að verulegum hluta. Varð því að líta svo á að sektarlágmarkið næði til vanskila á öllum gjöldum þess tímabils svo og tveggja annarra gjaldatímabila sem vangoldin voru. Þá var talið að fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 næði einungis til vanskila á opinberum gjöldum starfsmanna félagsins fyrir júlí til desember 2003. Samkvæmt þessu náði fésektarlágmark ákvæðanna til vanskila á gjöldum er námu samtals 32.631.516 krónum. Með hliðsjón af þessari fjárhæð var talið óhjákvæmilegt að líta svo á að brotin væru meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Voru Ó og S því dæmdir í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi, auk þess sem þeim var hvorum um sig gert að greiða 34.000.000 krónur í sekt en sæta ella fangelsi í 7 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur en til vara, komi til sýknu annars ákærðu, verði fangelsisrefsing hins staðfest en fésekt hans þyngd.

Ákærðu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara er þess krafist að ákærði Sigþór Sigurjónsson verði sýknaður og refsing ákærða Ólafs Ólafssonar milduð, en til þrautavara að refsing ákærða Sigþórs verði milduð.

I.

Engin haldbær rök eru fyrir frávísunarkröfu ákærðu og er henni hafnað.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi gaf ríkislögreglustjóri út ákæru 22. desember 2004 á hendur ákærðu báðum sem framkvæmdastjórum og ákærða Sigþóri sem stjórnarmanni Merkingar ehf., sem fékk heitið Meco ehf. á árinu 2004, fyrir að hafa ekki staðið tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti félagsins á tímabilunum frá janúar til október 2003, samtals 29.402.558 krónur, og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið hafi verið eftir af launum starfsmanna félagsins, annarra en ákærðu, á öllum gjaldatímabilum sama árs, samtals 26.086.405 krónur. Fyrir liggur í málinu að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 16. apríl 2004.

Ákærði Sigþór styður sýknukröfu sína með því að hann hafi hvorki starfað sem framkvæmdastjóri né stjórnarmaður Merkingar ehf., þrátt fyrir að hafa verið skráður sem slíkur í hlutafélagaskrá.

Ákærðu styðja kröfur sínar um mildun refsingar við ákvæði 8. og 9. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo og 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005, sem breytt hafi 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Eftir þessar breytingar sé mælt svo fyrir að fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt skilagrein eða virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Ágreiningslaust sé í máli þessu að staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur hafi réttilega verið tilgreindur í skilagreinum og skýrslum til innheimtumanns ríkissjóðs og það skilyrði laganna sé því uppfyllt. Annað skilyrði laganna sé að staðin hafi verið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur séu miklar. Samkvæmt ákæru hafi skuld ársins 2003 vegna staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatts numið samtals 55.488.963 krónum. Eftir málatilbúnaði ákæruvaldsins hafi samtals 26.482.938 krónur af þeirri fjárhæð verið greiddar eftir gjalddaga og fyrir útgáfu ákæru, en ákærðu telji að um hærri fjárhæð sé að ræða. Þar vanti bæði greiðslu að fjárhæð 3.997.085 krónur, sem innheimtumaður hafi ráðstafað inn á önnur opinber gjöld, auk þess sem rúmlega 3.000.000 krónur af því, sem ákæruvaldið telur vangreitt af virðisaukaskatti, hafi átt rætur að rekja til reikninga félagsins, sem ekki hafi fengist greiddir. Hvort heldur sé miðað við hina lægri eða hærri fjárhæð telja ákærðu að skilyrði laganna um verulegan hluta skattfjárhæðar sé fullnægt.

II.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu fyrir brot gegn 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Með 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005 var eins og áður greinir bætt nýjum málsliðum við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Þeir eru efnislega samhljóða á þá leið að fésektarlágmark samkvæmt þessum málsgreinum eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindri staðgreiðslu opinberra gjalda samkvæmt skilagrein eða virðisaukaskatti samkvæmt virðisaukaskattskýrslu, „enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar.“ Af athugasemdum, sem fylgdu upphaflegu lagafrumvarpi sem leiddi til þessarar breytingar á ákvæðunum, má ráða að hún hafi verið gerð sökum þess að rétt hafi þótt að gera greinarmun á viðurlögum vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti, sem rakin verði til greiðsluerfiðleika, og öðrum brotum, sem 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 taka til.

Samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga ber, hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn og til þess er dómur gengur, að dæma eftir nýrri löggjöf bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Verður þá að taka afstöðu til þess hvort ákærðu hafi fullnægt því skilyrði hinna breyttu lagaákvæða að hafa staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða hvort málsbætur séu miklar.

Þegar virt er hvað löggjafinn hafi átt við með orðunum „verulegum hluta skattfjárhæðar“ verður ekki annað ráðið af lögskýringargögnum en að skýra beri orð þessara lagaákvæða eftir hljóðan þeirra. Líta verður til þess að samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og henni var breytt með 1. gr. laga nr. 134/2005, gildir sú nýja regla, sem þar var leidd í lög, um tilvik, þegar brot felst í því einu að standa ekki skil á réttilega tilgreindum gjöldum samkvæmt skilagrein, og er síðastgreint orð haft þar í eintölu. Eins er um ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, en breyting sú, sem gerð var á því með 3. gr. laga nr. 134/2005, einskorðast við brot, sem felast í því að hafa ekki staðið skil á gjöldum „samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu“. Af þessu verður að álykta að skoða verði gjöld samkvæmt hverri skilagrein vegna staðgreiðslu opinberra gjalda eða hverri virðisaukaskattsskýrslu fyrir sig með tilliti til þess hvort þau hafi verið greidd eftir eindaga að öllu leyti eða einhverju. Orðin „verulegum hluta skattfjárhæðar“ eiga þannig við hvert gjaldatímabil fyrir sig og fjárhæðina, sem þá bar að greiða, en sú undantekning frá fésektarlágmarki, sem nú er mælt fyrir um, sbr. 1. gr. og 3. gr. laga nr. 134/2005, nær þá til þeirra gjaldatímabila, sem greidd hafa verið að fullu eða að verulegu leyti fyrir útgáfu ákæru, og ekki til þeirra, sem eftir standa.

Í ákæru er miðað við að virðisaukaskattur Merkingar ehf. hafi á fimm gjaldatímabilum frá janúar til október 2003 numið samtals 29.402.558 krónum. Frá 5. júní til 19. desember 2003 hafi félagið alls greitt 11.757.180 krónur upp í virðisaukaskatt frá þessum tímabilum. Af þeirri fjárhæð hafi verið gerð skil á höfuðstól skuldar tveggja fyrstu tímabilanna, samtals 9.269.346 krónur, og 982.236 krónur greiðst inn á höfuðstól þess þriðja. Eftirstöðvum innborgana, 1.505.598 krónum, hafi verið ráðstafað til greiðslu 10% álags samkvæmt 27. gr. laga nr. 50/1988 og dráttarvaxta af ógreiddum virðisaukaskatti tveggja fyrstu tímabilanna. Standi þá eftir skuld vegna fjórða og fimmta gjaldatímabils 2003, samtals að höfuðstól 11.328.889 krónur, svo og ógreiddur hluti höfuðstóls frá þriðja tímabilinu, 7.822.087 krónur, eða alls 19.150.976 krónur. Þá er í ákæru miðað við að staðgreiðsla opinberra gjalda starfsmanna félagsins á tólf gjaldatímabilum frá janúar til desember 2003 hafi samtals verið 29.634.131 króna. Af þeirri fjárhæð hafi staðgreiðsla vegna ákærða Ólafs verið 1.660.635 krónur, en ákærða Sigþórs 1.887.091 króna. Ákærðu eru ekki bornir sökum fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu eigin opinberra gjalda og tekur ákæran því til 26.086.405 króna, sem varða aðra starfsmenn félagsins. Á tímabilinu frá 19. júní til 16. október 2003 greiddi félagið samtals 14.725.758 krónur inn á staðgreiðslu opinberra gjalda á því ári. Þar af ráðstafaði innheimtumaður samtals 12.754.046 krónum til greiðslu á höfuðstól skuldarinnar vegna mánaðanna frá janúar til og með maí 2003, þar á meðal staðgreiðslu opinberra gjalda ákærðu, alls 1.469.032 krónur. Eftirstöðvum innborgana, 1.971.712 krónum, var varið til greiðslu 10% álags af vanskilafé samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og dráttarvaxta af skuld vegna staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir janúar til maí 2003. Af hálfu ákæruvaldsins er því litið svo á að staðgreiðsla opinberra gjalda annarra starfsmanna Merkingar ehf. en ákærðu fyrir mánuðina frá júní til desember, samtals 14.801.391 króna, sé samkvæmt þessu ógreidd.

Samkvæmt fordæmum við úrlausn refsimála vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda og virðisaukaskatti ber að leggja til grundvallar að innborgun á slíkar skuldir verði þar ekki ráðstafað til greiðslu álags á vanskilafé eða staðgreiðslu opinberra gjalda þess, sem ákærður er, heldur komi til lækkunar á höfuðstól skuldarinnar og dráttarvaxta af henni. Því til samræmis verður að líta svo á að álag, sem Merking ehf. greiddi vegna vanskila á virðisaukaskatti tveggja fyrstu gjaldatímabila ársins 2003, samtals 926.934 krónur, eigi að skoðast sem innborgun væri inn á höfuðstól skuldar vegna þriðja gjaldatímabilsins, sem áðurnefndar 982.236 krónur greiddust að öðru leyti inn á. Virðisaukaskattur félagsins á því tímabili var að höfuðstól 8.804.323 krónur, sem telst samkvæmt þessu greiddur að því er varðar 1.909.170 krónur. Sú fjárhæð nær ekki þeim þriðjungi skuldarinnar, sem til þyrfti svo að hún teldist greidd að verulegum hluta í skilningi 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 134/2005. Verður því að líta svo á að undir fésektarlágmark þessa ákvæðis falli viðurlög vegna vanskila á öllum gjöldum frá þriðja, fjórða og fimmta gjaldatímabili 2003 að fjárhæð samtals 20.133.212 krónur. Þá verður til samræmis við áðurgreint að líta svo á að álag, sem Merking ehf. greiddi vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna frá janúar til maí 2003, samtals 1.275.403 krónur, eigi að skoðast sem innborgun á höfuðstól skuldar vegna júnímánaðar á sama ári. Eins verður að fara með staðgreiðslu opinberra gjalda ákærðu frá fimm fyrstu mánuðum ársins, áðurnefndar 1.469.032 krónur. Til samans nema þessar fjárhæðir 2.744.435 krónum, sem nægja til þess að skuld vegna næsta gjaldatímabils, sem var að höfuðstól 2.303.087 krónur, megi hér teljast að fullu greidd. Það, sem eftir stendur af fyrrnefndu fjárhæðinni, gæti á hinn bóginn ekki talist greiðsla á verulegum hluta skuldar vegna sjöunda gjaldatímabils ársins 2003, sem var að höfuðstól 1.755.986 krónur. Undir fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2005, falla viðurlög vegna vanskila á allri staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins, annarra en ákærðu, fyrir júlí til desember 2003, en þau námu samtals 12.498.304 krónum.

Samkvæmt framansögðu gildir fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um vanskil á gjöldum, sem í máli þessu nema samtals 32.631.516 krónum. Verður því að taka mið af þessari fjárhæð þegar ákærðu er ákveðin sekt, enda verður ekki séð að niðurlagsorð ákvæðanna um sérstakar málsbætur eigi hér við. Til viðbótar verður að ákveða ákærðu sekt vegna vanskila á þeim gjöldum, sem greidd voru eftir eindaga en fyrir útgáfu ákæru, en samkvæmt framansögðu teljast þau alls 24.326.479 krónur.

Vegna þeirrar fjárhæðar á vanskilum virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna Merkingar ehf., sem ekki hafði greiðst fyrir útgáfu ákæru, er óhjákvæmilegt að líta svo á að brot ákærðu hafi verið meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Ber af þeim sökum að ákveða þeim fangelsisrefsingu, sem er hæfilega ákveðin 4 mánuðir og verður hún bundin skilorði eins og í dómsorði segir. Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hvorum ákærða fyrir sig gert að greiða sekt að fjárhæð 34.000.000 krónur innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Ákærðu greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun á báðum dómstigum, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Ólafur Ólafsson og Sigþór Sigurjónsson, sæti hvor um sig fangelsi í 4 mánuði, en fresta skal fullnustu þeirrar refsingar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði hvor um sig 34.000.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 7 mánuði.

Ákærðu greiði sameiginlega sakarkostnað málsins i héraði og fyrir Hæstarétti, 696.453 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns á báðum dómstigum, Hlöðvers Kjartanssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 659.850 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkislögreglustjóra 22. desember 2004 á hendur Ólafi Ólafssyni, Kjarrvegi 5, Reykja­vík, kennitala [...] og Sigþóri Sigurjónssyni, Nesbala 120, Seltjarnar­nesi, kennitala [...].

 

I.   Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærðu báðum sem framkvæmdastjórum og ákærða Sigþóri sem stjórnarmanni Merk­ingar ehf. / Meco ehf., kt. 691079-0589, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni Merkingar ehf. á árinu 2003 samtals að fjárhæð kr. 29.402.558 og sundurliðast sem hér greinir:

 

Uppgjörstímabil:

Árið 2003

Janúar - febrúar

kr.

3.236.192

Mars - apríl

kr.

6.033.154

Maí - júní

kr.

8.804.323

Júlí - ágúst

kr.

5.700.547

September - október

kr.

5.628.342

Samtals:

kr.

29.402.558

 

Þetta er talið varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

 

II.   Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þá er ákærðu gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Tollstjóranum í Reykja­vík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfs­manna Merkingar ehf. /Meco ehf., á árinu 2003 samtals að fjárhæð kr. 26.086.405 og sundurliðast sem hér segir:

 

Greiðslutímabil:

Árið 2003

Janúar

kr.

2.106.198

Febrúar

kr.

1.908.189

Mars

kr.

2.181.499

Apríl

kr.

2.587.222

Maí

kr.

2.501.906

Júní

kr.

2.303.087

Júlí

kr.

1.755.986

Ágúst

kr.

1.710.325

September

kr.

2.127.105

Október

kr.

2.255.355

Nóvember

kr.

2.139.245

Desember

kr.

2.510.288

Samtals:

kr.

26.086.405

 

Þetta er talið varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995 og 139. gr. laga nr. 82/1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.

Verjandi ákærðu krefst þess að ákærða Ólafi verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa en að ákærði Sigþór verði sýknaður af refsikröfu ákæruvalds. Þá er þess krafist að málsvarnarlaun greiðist úr ríkissjóði.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins 13. september 2004 var málefnum einka­­hluta­félagsins Meco, áður Merkingar ehf., vísað til opinberrar rannsóknar hjá ríkis­lögreglustjóra. Er gerð grein fyrir því að bú félagsins hafi verið tekið til gjald­þrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2004 og að skiptum væri á þeim tíma ekki lokið. Nafni félagsins virðist hafa verið breytt 5. maí 2004 úr Merkingu ehf. í Meco ehf. Tilefni rannsóknar skattrannsóknarstjóra hafi mátt rekja annars vegar til athugunar skattrannsóknarstjóra á skilum afdreginnar staðgreiðslu opin­berra gjalda og innheimtum virðisaukaskatti og hins vegar tilkynningar Toll­stjórans í Reykjavík til skattrannsóknarstjóra um vanskil á vörslusköttum. Formlega hafi rannsókn skattrannsóknarstjóra hafist með bréfi 19. janúar 2004. Samkvæmt upp­lýsingum frá hlutafélaga­skrá hafi ákærði Sigþór verið skráður stjórnarmaður og ákærði Ólafur varamaður í stjórn. Hafi þeir jafnframt báðir verið skráðir framkvæmdastjórar félagsins og prókúruhafar. Rannsókn skattrann­sóknarstjóra hafi leitt í ljós að fyrir­svarsmenn Merkingar ehf. hafi ekki staðið innheimtumanni skil á staðgreiðslu opin­berra gjalda launamanna félagsins vegna júní til og með desember 2003. Samtals hafi vangoldin afdregin staðgreiðsla til innheimtumanns 19. janúar 2004 numið 16.880.085 krónum, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að staðgreiðsluskilagreinum hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma. Háttsemin kunni að varða refsingu samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. og 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940. Innheimtum virðis­auka­skatti vegna upp­gjörstímabilanna maí – júní, júlí – ágúst og september – október 2003 hafi ekki verið skilað. Samtals hafi vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur 19. janúar 2004 numið 20.133.212 krónum, auk álags, dráttarvaxta og kostnaðar. Þá hafi rannsóknin leitt í ljós að virðisaukaskattskýrslu fyrir eitt tímabil hafi ekki verið skilað á lög­mæltum tíma. Háttsemi að þessu leyti kunni að varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. og 1. mgr. 262. gr. laga nr. 19/1940.

Með bréfi skattrannsóknarstjóra fylgdi skýrsla embættisins frá 17. maí 2004. Á meðal gagna hennar er skýrsla er tekin var af ákærða Ólafi hjá embættinu 15. mars 2004. Við það tilefni greindi hann svo frá að hann hafi verið einn af eigendum einka­hlutafélagsins Merkingar á þeim tíma er rannsókn skattrannsóknar­stjóra hafi tekið til og verið framkvæmdastjóri félagsins. Hafi hann séð um daglegan rekstur félagsins. Staðfesti hann að fundir hafi verið haldnir í stjórn Merkingar ehf., en þeir hafi verið bókaðir í gerðarbók. Er undir ákærða var borið fylgiskjal rannsóknarinnar merkt 3.1, útprentun úr hlutafélagaskrá, kvað ákærði þær upplýsingar er þar kæmu fram vera réttar, en gat þess að þó svo meðákærði hafi einnig verið skráður sem framkvæmda­stjóri hafi ákærði séð um daglega stjórn. Er undir hann voru borin ljósrit af stað­greiðslu­skilagreinum Merkingar ehf. vegna þeirra tilvika er voru í rannsókn kvaðst ákærði kannast við skilagreinarnar. Þær hafi verið byggðar á stimpilklukku eða tíma­skráningu starfsmanna. Gæfu þær rétta mynd af rekstri félagsins. Tilgreindur starfs­maður hjá fyrirtækinu hafi annast útreikning launa og afdreginnar staðgreiðslu opinberra gjalda. Ekki kvaðst ákærði vita hver fjárhæð staðgreiðsluskuldar skatt­aðilans hafi verið er skýrslutakan fór fram. Ekki hafi verið til peningar hjá félaginu til að standa skil á staðgreiðslunni á lögmæltum tíma, en fjárhagsstaðan hafi verið erfið vegna óseldrar fasteignar félagsins. Kvaðst ákærði telja að sumarleyfi hafi verið ástæða þess að skýrslu hafi ekki verið skilað fyrir júlí 2003. Er undir hann var borið að skuld félagsins við innheimtumann væri 16.880.085 krónur kvaðst ákærði reikna með að fjárhæðin væri rétt. Kvaðst hann hafa gert munnlegt samkomulag við tilgreindan starfsmann tollstjóra um greiðslu á skuldinni. Hafi það samkomulag gengið út á að greiða 15 milljónir króna fyrir árslok 2003 og hafi félagið á þeim tíma er skýrslutakan fór fram greitt 8 milljónir króna. Stefnt hafi verið að því að gera eftirstöðvar skuldarinnar upp í janúar, febrúar og mars 2004 en starfsstöð félagsins hafi verið lokað og því ekki unnt að greiða upp eftirstöðvarnar. Afdregin staðgreiðsla hafi farið í rekstur félagsins. Laun hafi hins vegar verið greidd að fullu og á réttum tíma. Er undir ákærða voru bornar virðisauka­skattskýrslur Merkingar ehf. á þeim tíma er rannsóknin tók til kvaðst ákærði kannast við skýrslurnar. Sami starfsmaður Merkingar ehf. og annast hafi gerð staðgreiðsluskilagreina hafi haft með höndum bókhald og séð um gerð virðisaukaskattskýrslna. Kvaðst ákærði telja að skýrslurnar gæfu rétta mynd af rekstri félagsins. Ekki kvaðst hann vita hver heildarfjárhæð vangoldins virðisaukaskatts væri. Kvaðst hann telja að sumarleyfi hafi orsakað að skýrslu hafi ekki verið skilað á réttum tíma fyrir maí – júní 2003. Ekki kvaðst hann vilja tjá sig um heildarniðurstöðu rannsóknar skattrannsóknarstjóra um að vangoldin innheimtur virðisaukaskattur hafi numið 20.133.212 krónum. Fjárhagslegu erfiðleikarnir vegna hinnar óseldu fasteignar hafi orsakað að innheimtum virðisaukaskatti hafi ekki verið skilað. Munnlegt sam­komu­lag hafi verið gert við tollstjóra um greiðslu á skuldinni. Reyna hafi átt að greiða 15 milljónir króna fyrir árslok 2003 en félagið hafi verið búið að greiða 8 milljónir. Stefnt hafi verið að því að greiða eftirstöðvarnar í janúar, febrúar og mars 2004. Starfsstöð félagsins hafi verið lokað og því ekki unnt að greiða eftirstöðvarnar. Ákærði hafi tekið ákvörðun um að skila ekki innheimtum virðisaukaskatti en fjármunir hafi farið í rekstur félagsins. 

Ákærði var aftur yfirheyrður af starfsmönnum skattrannsóknarstjóra 22. mars 2004. Við það tækifæri var leitað eftir upplýsingum frá ákærða um með hvaða hætti hann hafi óskað eftir því við innheimtumann að greiðslum yrði ráðstafað. Kvaðst hann hafa óskað eftir því að greiðslum yrði ráðstafað inn á höfuðstól í virðisaukaskatti. Hafi hann leitað upplýsinga hjá starfsmanni tollstjóra um hvort skattaðili gæti ekki greitt upp nýjustu tímabil í staðgreiðslu og virðisaukaskatti á gjalddaga til að halda þeim greiðslum í skilum og síðan upp í eldri vanskil. Viðkomandi starfsmaður hafi sagt að greiðslur yrðu að fara inn á elstu skuldir. Eftir að starfsstöð félagsins hafi verið lokað hafi deildarstjóri hjá innheimtudeild tollstjóra upplýst að skattaðilum hafi verið heimilt að borga inn á nýjasta tímabil í stað þeirra elstu til að halda nýjustu tímabilunum í skilum og til að forðast viðurlög. Allar þessar fyrirspurnir hafi verið munnlega gerðar. Kvaðst ákærði líta svo á að tollstjóri hafi ekki gætt jafnræðis og samræmis er málið hafi verið kært til skattrannsóknarstjóra. Þannig hafi ekki verið kærð til embættisins önnur tilvik þar sem vanskil hafi numið hærri fjárhæðum og eldri vanskilum en í tilviki Merkingar ehf.

Ákærði Sigþór var yfirheyrður af starfsmönnum skattrannsóknar­stjóra. Í skýrslu er hann gaf 22. mars 2004 kvaðst hann vera eigandi Merkingar ehf. að hluta og eiga sæti í stjórn félagsins. Kvað hann meðákærða hafa verið framkvæmdastjóra og séð um daglegan rekstur. Ekki hafi ákærði hins vegar komið nærri daglegum rekstri, en hafa tengst sölu- og markaðsmálum félagsins. Kvað hann upplýsingar frá hluta­félagas­krá um félagið vera réttar. Kvað hann fundi hafa verið haldna í stjórn Merkingar ehf. en ekki vera viss um hvort þeir hafi verið bókaðir í gerðarbók. Er undir hann voru borin ljósrit af staðgreiðsluskilagreinum fyrir Merkingu ehf. vegna þeirra tímabila er voru í rannsókn kvaðst hann ekkert hafa haft með þær skilagreinar að gera, en vinnsla þeirra gagna hafi alfarið verið í höndum meðákærða. Starfsmaður í fyrirtækinu hafi annast launaútreikning og útreikning á afdreginni staðgreiðslu undir stjórn meðákærða. Ekki kvaðst hann vita af hverju skilagrein hafi ekki verið skilað fyrir júní 2003, né hver fjárhæð staðgreiðsluskuldar við innheimtumann væri. Þá kvaðst hann ekki vita af hvaða ástæðum afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað til innheimtumanns, né hvernig afdreginni staðgreiðslu hafi verið ráðstafað. Undir ákærða voru borin ljósrit af virðisaukaskattskýrslu Merkingar ehf. Kvaðst ákærði ekkert hafa haft með þau gögn að gera, en það hafi alfarið verið í höndum meðákærða að annast gerð skýrslnanna. Kvaðst ákærði þess vegna ekki vita af hverju virðisauka­skattskýrslu hafi ekki verið skilað fyrir tímabilið maí – júní 2003, né hver fjárhæð vangoldins innheimts virðisaukaskatts væri við innheimtumann. Þá kvaðst hann ekki vita af hverju innheimtum virðisaukaskatti hafi ekki verið skilað.

Embætti ríkislögreglustjóra tók saman yfirlit um afdregna staðgreiðslu af launum launþega Meco ehf., áður Merkingar ehf., vegna ársins 2003. Samkvæmt niðurstöðum þess yfirlits nemur vangoldin afdregin staðgreiðsla eftir eindaga samtals 26.086.405 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar 14.725.758 krónur og vangoldin staðgreiðsla 10. september 2004 því samtals 14.801.391 króna. Þá hafi laun ákærðu verið dregin frá fjárhæðinni. Þá var tekið saman yfirlit um vangoldinn virðisaukaskatt vegna félagsins vegna rekstrartímabilsins janúar til og með október 2003. Samtals hafi vangoldinn virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga numið 29.402.558 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar 11.757.180 krónur og vangoldinn virðisaukaskattur 10. september 2004 því samtals 19.150.976 krónur. 

Ákærði Ólafur gaf skýrslu hjá lögreglu 25. nóvember 2004 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Kvað hann vottorð hlutafélagaskrár frá 16. janúar 2004 varðandi stjórn og starfsemi Merkingar ehf. til og með 15. janúar 2004 vera rétta að forminu til, en þar kemur fram að ákærði hafi verið framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn Merkingar ehf. á þessu tímabili. Fyrir lögreglu greindi ákærði frá því að ákærðu hafi tekið þá ákvörðun að bera báðir ábyrgð á rekstri Merkingar ehf. á þeim tíma er væri til rannsóknar. Þeir hafi stofnað félagið saman og átt það til helminga og báðir lagt allt sitt undir í rekstrinum. Ákærði hafi borið ábyrgð á daglegri fjármálastjórn, en meðákærði séð um sölumál og ekki komið að daglegri fjármálastjórn. Rekstrarformi Merkingar hafi verið breytt á árinu 1995 með tilkomu nýrra laga um einkahlutafélög. Hafi nýjum samþykktum verið skilað inn fyrir félagið á þeim tíma. Endurskoðandi félagsins hafi haft gerð skjalanna með höndum og aðstoðað ákærðu við verkið. Ekki kvað ákærði ástæðu til annars en að reikna með að réttar væru niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldna afdregna staðgreiðslu fyrir rekstrar­tímabilið janúar til desember 2003 með vangoldið eftir eindaga 26.086.405 krónur, en vangoldið 10. september 2004 14.801.391 króna. Kvaðst hann þó vilja taka fram að hann hafi þegar greiðslur hafi verið inntar af hendi óskað eftir því að þær gengju til greiðslu þess höfuðstóls sem nýjastur hafi verið í skuld. Eftir því hafi ekki verið gengið hjá innheimtumanni eins og greiðslur inn á vanskil hafi borið vitni um. Ákærði hafi hins vegar fengið þær upplýsingar hjá yfirmanni innheimtudeildar tollstjóra eftir að fyrirtækinu hafi verið lokað að heimilt hafi verið að semja um að greiðslur færu inn á nýjasta höfuðstól hverju sinni. Erfiðleika í rekstri hafi mátt rekja til þess að félagið hafi setið uppi með húsnæði að verðmæti um 80 milljónir króna, sem ekki hafi tekist að selja. Fjárhagsvandræðin hafi leitt til vanskilanna en ákærði hafi þó gert samkomu­lag við tollstjóra um hvernig greitt væri af skuldinni. Allir þeir fjármunir er hafi komið inn í fyrirtækið hafi farið í rekstur þess. Er ákærði var inntur eftir því við yfirheyrslu hjá lögreglu hvort meðákærða hafi verið ljóst að afdreginni staðgreiðslu hafi ekki verið skilað á lögmæltum tíma kvaðst ákærði kjósa að svara þeirri spurningu ekki. Fyrir dómi bar hann að meðákærða hafi verið kunnugt um erfiða stöðu félagsins og að einhver vanskil hafi verið uppi, þó svo hann hafi ekki haft fullkomna vitneskju um fjárhæð vanskilanna á hverjum tíma. Er undir ákærða voru bornar niðurstöðutölur yfirlits embættis ríkislögreglustjóra um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt eftir lögboðinn eindaga fyrir 2003, að heildarfjárhæð 29.402.558 krónur, en vangoldið 10. september 2004 19.150.976 krónur kvaðst ákærði vísa til sömu svara og varðandi vangoldna afdregna staðgreiðslu. Allur innheimtur virðisaukaskattur hafi farið inn í rekstur félagsins.

Ákærði Sigþór kvaðst hafa verið einn af tveim eigendum Merkingar ehf. Kvað hann rétta hina formlegu skráningu hlutafélagaskrár í stjórn Merkingar ehf. til og með 15. janúar 2004. Hann hafi hins vegar aldrei verið framkvæmdastjóri félagsins, heldur hafi meðákærði alla tíð starfað sem slíkur og haft fjármálastjórn félagsins á sinni hendi, þ.m.t. að annast útreikning launa og greiðslu afdreginnar staðgreiðslu og gerð virðisaukaskattskýrslna og skil skattsins. Hefði ákærði enga skýringu á því af hverju þeir hafi báðir verið skráðir framkvæmdastjórar hjá félaginu, en það hlyti að hafa verið vegna misskilnings eða mistaka. Ákærði kvaðst sjálfur alla tíð hafa sinnt sölumennsku fyrir félagið. Af þeim ástæðum geti hann ekki borið um vanskil á afdreginni stað­greiðslu eða innheimtum virðisaukaskatti eða skilum á skilagreinum í staðgreiðslu eða virðisaukaskattskýrslum. Kvaðst ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir vanskilum félagins fyrr en undir það er tollstjóri hafi lokað rekstri félagsins í upphafi árs 2004. Þó hafi honum verið ljóst að félagið hafi átt við einhverja fjárhagslega erfiðleika að etja um hríð. Kvaðst hann hafa haft aðgang að bókhaldi fyrirtækisins ef hann hefði leitað eftir því.

Ómar Kristjánsson löggiltur endurskoðandi kvaðst hafa unnið að ársuppgjöri og ársreikningum fyrir Merkingu frá 1982, auk þess að vera ákærðu til almennrar ráðgjafar varðandi fyrirtækið. Á árinu 1995 hafi verið gerðar breytingar á formi félagins í kjölfar gildistöku nýrra laga um einkahlutafélög. Hafi Ómar annast gerð þeirra skjala er hafi verið útbúin við þessar aðstæður. Kvaðst hann staðfesta að sam­kvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár hafi ákærði Ólafur verið skráður framkvæmda­stjóri félagsins, auk þess sem hann hafi átt sæti í stjórn. Ákærði Sigþór hafi einnig verið skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður. Ákærðu hafi ásamt öðrum verið eigendur að félaginu. Kvaðst Ómar telja að hann hafi sett upp bréf sem sent hafi verið hlutafélagaskrá 20. desember 1995. Hugmyndir að skipan stjórnar hafi sennilega komið frá ákærða Ólafi, þó svo vitnið myndi það ekki fyllilega. Á þessum tíma hafi mörg félög fært form sín í að vera einkahlutafélög og stöðluð form verið notuð í þeim efnum. Kvaðst hann muna að staðlað form hafi verið notað er tilkynning hafi verið send vegna Merkingar ehf. Kvaðst Ómar að langmestu leyti hafa átt samskipti við ákærða Ólaf um rekstur félagsins, en hann hafi séð um fjármálin, þ.á m. bókhald. Að sama skapi hafi samskipti við ákærða Sigþór verið lítil um reksturinn.

Svo sem áður er rakið hefur embætti ríkislögreglustjóra tekið saman yfirlit um afdregna staðgreiðslu af launþegum Merkingar ehf. vegna rekstrarársins 2003. Nemur afdregin en vangoldin staðgreiðsla fyrir janúar – desember 2003 samtals 26.086.405 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar 14.725.758 krónur og vangoldin afdregin staðgreiðsla fyrir tímabilið því 14.801.391 króna. Í þessu yfirliti hafa laun ákærðu verið dregin frá upphæðinni. Fjárhæðir í ákæru byggja á þessu yfirliti. Skatt­rann­sóknar­­stjóri hefur í erindi sínu til lögreglu greint frá þeirri niðurstöðu sinni að vangoldin afdregin staðgreiðsla til innheimtumanns, að teknu tilliti til greiðslna inn á höfuðstól, hafi numið 16.880.085 krónum. Mismunur á heildarniðurstöðu ríkislög­reglu­stjóra og skattrannsóknarstjóra skýrist af því að ríkislögreglustjóri miðar við að ákærðu hafi fullframið brot gegn ákvæðum laga um staðgreiðslu opinberra gjalda varðandi tímabilin janúar til maí 2003 með því að greiða afdregna staðgreiðslu eftir lögboðinn eindaga. Fær sú niðurstaða stoð í ákvæðum laga nr. 45/1987, en dómstólar hafa áður skorið úr um að brot gegn þessum lögum séu fullframin hafi lögboðnar greiðslur ekki verið inntar af hendi á eindaga. Ákærðu hafa ekki rengt þessar tölulegu niðurstöður og verða þær lagðar til grundvallar í málinu. Þá hefur embætti ríkis­lögreglustjóra tekið saman yfirlit um vangoldinn innheimtan virðisaukaskatt fyrir janúar til og með október 2003. Samkvæmt yfirlitinu nemur vangoldinn innheimtur virðisaukaskattur eftir lögboðinn eindaga samtals 29.402.558 krónum. Eftir eindaga hafi verið greiddar samtals 11.757.180 krónur og vangoldinn virðisaukaskattur því 19.150.976 krónur. Fjárhæðir þessar liggja til grundvallar ákæru. Skattrannsóknarstjóri hefur í sínu erindi til lögreglu greint frá þeirri niðurstöðu sinni að vangoldinn virðis­aukaskattur til innheimtumanns, að teknu tilliti til greiðslna inn á höfuðstól, hafi numið 20.133.212 krónum. Mismunur á heildarniðurstöðu ríkislögreglustjóra og skatt­rann­sóknarstjóra skýrist sem fyrr af því að ríkislögreglustjóri miðar við að ákærðu hafi fullframið brot gegn ákvæðum laga um virðisaukaskatt varðandi öll uppgjörstímabil ársins 2003 með því að greiða innheimtan virðisaukaskatt að því marki sem hann var greiddur eftir lögboðinn eindaga. Fær sú niðurstaða stoð í ákvæðum laga nr. 50/1988, en dómstólar hafa áður skorið úr um að brot gegn þessum lögum séu fullframin hafi lögboðnar greiðslur ekki verið inntar af hendi á eindaga. Ákærðu hafa ekki heldur rengt þessar tölulegu niðurstöður yfirlits ríkislögreglustjóra og verða þær lagðar til grundvallar niður­stöðu.

Ákærði Sigþór byggir varnir sínar á því að mistök eða misskilningur hafi leitt til þess að hann hafi á sínum tíma verið skráður í stjórn Merkingar ehf. Hann hafi hvorki átt að vera skráður framkvæmdastjóri félagsins eða í stjórn þess. Ákærði Ólafur hefur játað sök en heldur þó uppi vörnum að hluta til og þá á grundvelli þess að honum hafi verið synjað um heimild til að leggja afdregna staðgreiðslu og innheimtan virðisaukaskatt inn á höfuðstól þeirrar fjárhæðar er væri í gjalddaga hverju sinni. Fyrst eftir að starfsemi Merkingar ehf. hafi lagst af hafi honum verið tjáð að slíkt væri heimilt væri eftir því leitað. Þá tekur vörn ákærða að einhverju leyti einnig mið af því að félagið hafi átt útistandandi umtalsverðar skuldir hjá viðskiptavinum sem ekki hafi reynst unnt að innheimta. Hefur vörnin lagt fram dskj. nr. 7 til að varpa ljósi á þessar skuldir.  

Fram er komið að ákærðu stofnuðu í sameiningu félagið Merkingu og áttu það að jöfnum hlut. Þá er komið fram að er lög um einkahlutafélög tóku gildi hafi verið ákveðið að færa rekstrarform félagsins yfir í að vera einkahlutafélag. Ómar Kristjánsson löggiltur endurskoðandi hefur staðfest þetta, en hann aðstoðaði ákærðu við breytingar á félagaforminu á árinu 1995. Vottorð úr hlutafélagaskrá ber með sér að samþykktum hafi verið skilað inn fyrir Merkingu ehf. og að þær hafi verið dagsettar 20. desember 1995. Er ákærði Sigþór skráður framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í félaginu. Ákærði Ólafur er einnig skráður framkvæmdastjóri og varamaður í stjórn. Hafa þeir báðir prókúruumboð fyrir félagið samkvæmt skráningunni. Undir til­kynningu til hlutafélagaskrár um þessa skipan mála hefur ákærði Ólafur ritað 20. desember 1995. Þá hafa verið lagðar fram upplýsingar frá hlutafélagaskrá um að hlut­hafa­fundur í Merkingu ehf. hafi 14. janúar 2004 samþykkt að breyta heimilisfangi félagsins. Þá hafi ný stjórn verið kosin þann dag. Samkvæmt tilkynningu hafi ákærði Ólafur þá verið kosinn stjórnarformaður og með prókúruumboð en ákærði Sigþór verið kosinn varamaður í stjórn. Á skjalið er handritað að enginn framkvæmdastjóri hafi verið ráðinn hjá félaginu. Þá liggur fyrir tilkynning til hlutafélagaskrár um að á hlutahafafundi í Merkingu ehf. 16. janúar 2004 hafi verið samþykkt að breyta nafni félagsins í Meco ehf. Hafa nýjar samþykktir fyrir Meco ehf. verið undirritaðar þann sama dag. Ákærðu hafa við rannsókn og meðferð málsins borið að skráning í hluta­félagaskrá varðandi einkahlutafélagið Merkingu hafi verið rétt. Er ekki fyrr en við aðalmeðferð málsins fyrir dómi að ákærði Sigþór ber að skráning hans sem fram­kvæmdastjóra og stjórnarmanns í Merkingu ehf. hafi komið til vegna mistaka og sé röng. Ákærðu voru aðaleigendur Merkingar ehf. frá upphafi og unnu báðir hjá félaginu. Hafa þeir báðir jafnframt borið að stjórnarfundir hafi verið haldnir í Merkingu ehf., svo sem lög gera ráð fyrir. Á þessum grundvelli og með vísan til þess fram­burðar Ómars Kristjánssonar löggilts endurskoðanda félagsins að hann kannist ekki við ranga tilkynningu til hlutafélagaskrár verður slegið föstu, að ákærða Sigþóri hafi alla tíð verið ljóst að hann væri skráður sem annar af tveim framkvæmdastjórum Merkingar ehf., auk þess að vera skráður stjórnarmaður í félaginu. Hefur honum frá árinu 1995 veist ríkulegt ráðrúm til að gera breytingar á þessari stöðu sinni innan stjórnar, ef hann taldi mistök liggja að baki skráningu hennar. Ákærði Ólafur hefur fullyrt að hann hafi að mestu séð um daglega stjórn félagsins og haft fjármál þess á hendi. Engin efni eru til að draga þá fullyrðingu hans í efa, sem sækir jafnframt stoð í framburð meðákærða og Ómars Kristjánssonar endurskoðanda. Það breytir hins vegar ekki þeirri stöðu að ákærði Sigþór var skráður framkvæmdastjóri fyrir félagið og bar þar með ábyrgð á rekstri þess í samræmi við þá stöðu sína.

Ákærðu miða við að innheimtumanni hafi borið að fara að óskum þeirra um að innborganir á staðgreiðslu og virðisaukaskatti færu fyrst upp í höfuðstól nýjustu skuld­ar­innar á hverjum tíma. Þeim hafi ávallt verið synjað um slíkar óskir, en eftir að rekstur félagsins hafi verið stöðvaður hafi þeim verið tjáð að unnt væri að semja um slíkt. Í dómi Hæstaréttar Íslands frá 22. júní 2000, sem birtur var í dómasafni þess árs á bls. 2387 var slegið föstu að það leiddi af eðli máls og væri í samræmi við lög að skattgreiðslur gengju fyrst upp í eldri skuldir, en álag og dráttarvextir væru lögboðnar greiðslur, sem greiða bæri eftir ákveðnum reglum og yrðu hluti viðkomandi skatt­skuldar. Var sú niðurstaða áréttuð í dómi Hæstaréttar 2. október 2003 í málinu nr. 27/2003, þar sem ágreiningur var um tilhögun innborgana á innheimtan virðisauka­skatt. Verður ekki annað ráðið af dómum þessum en að innheimtumanni sé óheimilt annað en að ráðstafa innborgunum með þeim hætti að þær gangi upp í elstu skatt­skuldir á hverjum tíma. Í þessu máli ráðstafað innheimtumaður innborgunum á skatt­skuldir Merkingar ehf. í samræmi við lög. Stoðar ákærðu því ekki að bera fyrir sig varnir á þessum grundvelli. Þá verður við það miðað hér að ákærðu sé ekki heldur hald í dskj. nr. 7 sem á að sýna skuldir helstu skuldunauta Merkingar ehf. Yfirlit þetta fær engu breytt um að Merkingu ehf. bar hverju sinni að standa innheimtumanni skil á þeim virðisaukaskatti er félagið hafði innheimt. Þó svo einhverri leiðréttingu yrði eftir atvikum komið við síðar sökum ógjaldfærni skuldara var brot gegn lögum nr. 50/1988 fullframið með því að innheimtum skatti var ekki skilað á eindaga.

Í 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er mælt fyrir um þær ríku skyldur ákærðu sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanns einkahlutafélagsins Merk­ingar í skjóli stöðu sinnar að afla sér glöggrar vitneskju um rekstur félagsins, þar á meðal um hvort félagið stæði í skilum með greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna svo og að annast um að starfsemi félagsins væri jafnan í réttu og góðu horfi. Getur ákærði Sigþór af þeim ástæðum ekki reist kröfu sína um sýknu á því að hann hafi ekki haft vitneskju um hversu slæm fjárhagsstaða félagsins hafi verið á þeim tíma er hér skiptir máli. Ákærði Ólafur hefur viðurkennt að honum hafi verið vanskilin ljós. Félagið átti við fjárhagslega erfiðleika að etja á þessum tíma, en það lagði ríkar skyldur á herðar ákærðu að fylgjast með og tryggja að félagið innti af hendi innheimtan virðisaukaskatt og afdregna staðgreiðslu. Fjárhagsstaða félagsins var í reynd slík að hún leiddi til þess að bú Meco ehf., áður Merkingar ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2004. Með aðgerðarleysi sínu í þessum efnum hefur ákærði Ólafur sem framkvæmdastjóri af ásetningi vanrækt þær skyldur sem hvíldu á honum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Ákærði Sigþór hefur sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður vanrækt af stórkostlegu hirðuleysi þær skyldur sem hvíldu á honum samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda til að hlutast til um að afdregin staðgreiðsla yrði greidd. Með sama hætti hefur ákærði Ólafur af ásetningi en ákærði Sigþór með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt til að hlutast til um að virðisaukaskatturinn yrði greiddur. Með háttsemi sinni hafa ákærðu því báðir gerst sekir um þau brot sem tilgreind eru í ákæru, en þau verður að telja stórfelld. Eru brotin því rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. 

Ákærðu hafa hvorugur áður sætt refsingum svo kunnugt sé. Með hliðsjón af þeim brotum er ákærðu hafa verið sakfelldir fyrir og dómvenju á þessu sviði þykir refsing þeirra hvors um sig hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, sem verður bundið skilorði með þeim hætti er í dómsorði greinir. Við ákvörðun refsingar hefur verið tekið tillit til greiðslna er bárust inn á ógreiddan virðisaukaskatt og ógreidda staðgreiðslu eftir lögboðinn tíma.

Með vísan til 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, er kveður á um sektarlágmörk vegna brota á þeim lögum og dómvenju um skiptingu sektargreiðslna greiði ákærðu hvor um sig 53.400.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella hvor um sig fangelsi í 7 mánuði. Er vararefsing ákveðin með sama hætti og í dómi Hæstaréttar 18. febrúar 1999 í máli nr. 327/1998. Við ákvörðun sektarrefsingar hefur verið höfð hlið­sjón af reglum um frádrátt álags.

Um málsvarnarlaun fer svo sem í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Helgi Magnús Gunnarsson saksóknari.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

 

D ó m s o r ð:

Ákærðu, Ólafur Ólafsson og Sigþór Sigurjónsson, sæti hvor um sig fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar beggja ákærðu og hún falla niður að liðnum 3 árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærðu hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærðu greiði hvor um sig 53.400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella hvor um sig fangelsi í 7 mánuði.

Ákærðu greiði í félagi málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hlöðvers Kjartans­sonar hæstaréttarlögmanns, 280.000 krónur.