Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2017

Héraðssaksóknari (Ásmunda B. Baldursdóttir settur saksóknari)
gegn
X (Saga Ýrr Jónsdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. b. lið 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta farbanni til 14. apríl 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, til vara að hann haldi frelsi sínu gegn því að setja tryggingu í formi reiðufjár, en að því frágengnu að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. mars 2017.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...], verði gert að sæta farbanni til 14. apríl 2017, kl. 16:00.

                Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að embættið fari með rannsókn á máli X, kt. [...], á grundvelli vísunar málsins frá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Rannsókn málsins lýtur að skattskilum X tekjuárin 2012-2016, auk skattskila A ehf., kt. [...] og B ehf., kt. [...].

                Samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra sé grunur um að raunverulegt eignarhald A ehf. hafi verið í höndum X en því hafi verið haldið leyndu vegna málaferla hans við Landsbankann. Hafi móðir hans því verið skráður eigandi félagsins. Aðspurður um eignarhald í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra hafi hann ekki viljað tjá sig, né heldur um hver hefði fengið útgreiddan arð félagsins. A sé til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra eftir að ábending hafi borist um að tilhæfulausir reikningar hefðu verið gjaldfærðir í rekstri félagsins, samtals að fjárhæð kr. 161.090.890 á árunum 2013-2016. Ábendingaraðilinn hafi verið útgefandi sölureikninganna.

                Samkvæmt framburði ábendingaraðila muni hann hafa fengið 10% af hverjum reikningi sem hann hafi gefið út á hendur A en hann hafi svo farið í bankann og tekið 90% út í reiðufé og látið X eða rekstrarstjóra A ehf., hafa það. Skattaðili búi að miklu leyti erlendis og hafi ábendingaraðili upplýst að hann hefði einnig sent fjármuni á sambýliskonu skattaðila og systur hennar. Aðspurður hafi ábendingaraðili einnig sagst hafa gefið út tilhæfulausa reikninga á hendur félaginu B ehf., kt. [...], sem einnig sé til rannsóknar, og sé X talinn vera daglegur stjórnandi þess.

                Rannsókn málanna beinist að því hvort X hafi sem daglegur stjórnandi A ehf. og B ehf. gjaldfært rekstrarkostnað og talið fram innskatt á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga. Þá sé einnig grunur um að laun X hafi einungis að litlum hluta verið gefin upp til skatts. Meint brot geti varðað 6 ára fangelsi sbr. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

                Við meðferð málsins hjá skattrannsóknarstjóra hafi verið kyrrsettar eignir hjá X að fjárhæð 65.000.000 kr., hjá móður hans C, að fjárhæð 16.375.007 kr. og hjá A að fjárhæð 98.300.000 kr.

                Fram kemur í greinargerðinni að X sé nú giftur D, [...] ríkisborgara, og fyrirhugi að flytjast til [...] þar sem nú sé búið að ganga frá sölu á A ehf. Aðspurður hjá skattrannsóknarstjóra hafi hann ekki sagst vita hvenær hann kæmi aftur til Íslands og hann muni fara af landi brott á sunnudaginn 19. mars nk.

                Með vísan til framangreinds sé talið nauðsynlegt að X sæti farbanni í þágu rannsóknar málsins, þar sem ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Fyrir liggi, samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra, að X muni fara af landi brott á sunnudaginn 19. mars nk. Fyrirhugað sé að taka aðra skýrslu af X og sé því mikilvægt að hann sé á landinu. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að X sæti farbanni.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.  

Niðurstaða dómara:

       Héraðssaksóknari fer nú með rannsókn á máli X, kt. [...], á grundvelli vísunar málsins frá skattrannsóknarstjóra ríkisins. Rannsókn málsins lýtur að skattskilum X tekjuárin 2012-2016, auk skattskila A ehf., kt. [...] og B ehf., kt. [...].

         Rannsókn málanna beinist að því hvort varnaraðili hafi sem daglegur stjórnandi A ehf. og B ehf. gjaldfært rekstrarkostnað og talið fram innskatt á grundvelli tilhæfulausra sölureikninga samtals að fjárhæð kr. 161.090.890 á árunum 2013-2016.  Þá sé einnig grunur um að laun  varnaraðila hafi einungis að litlum hluta verið gefin upp til skatts. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu er rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og meint brot ef sök er sönnuð getur varðað 6 ára fangelsi.

         Í greinargerð héraðssaksóknara kemur að varnaraðili sé nú giftur [...] ríkisborgara, og fyrirhugi að flytjast til [...] þar sem nú sé búið að ganga frá sölu á A ehf.

                Með vísan til framangreinds er fallist á að nauðsynlegt sé að varnaraðili sæti farbanni í þágu rannsóknar málsins, þar sem ætla megi að hann muni reyna að komast úr landi eða koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar. Fyrir liggi, samkvæmt upplýsingum frá skattrannsóknarstjóra, að varnaraðili muni fara af landi brott á sunnudaginn 19. mars nk. Fyrirhugað sé að taka aðra skýrslu af honum og sé því mikilvægt að hann sé á landinu. Þyki þannig nauðsynlegt að vernda rannsóknarhagsmuni málsins með því að varnaraðili sæti farbanni. Fyrir liggur að eftir er að afla margvíslegra gagna og telja verður að við tímalengd farbanns sé gætt meðalhófs.

                Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna er fallist á að uppfyllt séu skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála og því fallist á kröfu héraðssaksóknara eins og hún er fram sett.

                Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Varnaraðila, X kt. [...], er gert að sæta farbanni til 14. apríl 2017, kl. 16:00.