Hæstiréttur íslands

Mál nr. 565/2015

Viðhald og nýsmíði ehf. (Sigurður G. Guðjónsson hrl.)
gegn
Graníthöllinni ehf. (Hilmar Magnússon hrl.)

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir

Reifun

Með afsals- og kaupsamningi milli G ehf. og B ehf. var rekstrartækjum og vörulager G ehf. ráðstafað til B ehf. Var hluti kaupverðsins greiddur með því að B ehf. yfirtók skuld G ehf. við V ehf. Í málinu krafðist GH ehf., kröfuhafi í þrotabúi G ehf., að greiðslunni yrði rift og að V ehf. yrði gert að greiða þrotabúinu samsvarandi fjárhæð. Eigendur V ehf. voru jafnframt eigendur G ehf. og því nákomnir í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hafði greiðslan farið fram innan frests samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laganna. Talið var að þegar greiðslan væri virt bæri að líta til þess í hvaða formi hún hefði farið frá skuldaranum en ekki í hvaða formi hún hefði borist kröfuhafa. Var fallist á með GH ehf. að um óvenjulegan greiðslueyri hefði verið að ræða samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og að G ehf. hefði verði ógjaldfært á þeim tíma er samningurinn var gerður. Voru kröfur GH ehf. því teknar til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. ágúst 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við aðalmeðferð málsins í héraði var teflt fram þeirri málsástæðu að áfrýjandi hefði ekki fengið þá greiðslu sem kröfur um riftun og endurgreiðslu eftir reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. lúta að. Héraðsdómur hafnaði málsástæðunni að réttu lagi þar sem hún kom fram of seint, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þeim sökum kemur hún ekki til álita við úrlausn málsins.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var rekstrartækjum og vörulager Graníthússins ehf. ráðstafað til Best Buy ehf. með afsals- og kaupsamningi 30. nóvember 2012. Samkvæmt samningnum var hluti kaupverðsins greiddur með því að kaupandi yfirtók skuld að fjárhæð 8.000.000 krónur við áfrýjanda. Þegar greiðslan er virt ber að líta til þess í hvaða formi hún fór frá skuldaranum en ekki í hvaða mynd hún barst kröfuhafa, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í máli nr. 120/1986, sem birtist í dómasafni árið 1987, blaðsíðu 961, og í máli nr. 2/1996, sem birtist í dómasafni það ár, blaðsíðu 2684. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur, þar með talið um dráttarvexti en áfrýjandi hefur ekki andmælt upphafsdegi þeirra.   

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Viðhald og nýsmíði ehf., greiði stefnda, Graníthöllinni ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 2. júní 2015.

Mál þetta, sem var dómtekið 5. maí 2015, var höfðað 13. október 2014. Stefnandi er Graníthöllin ehf., Bæjarhrauni 26, Hafnarfirði. Stefndi er Viðhald og nýsmíði ehf., Helluhrauni 2, Hafnarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að rift verði greiðslu á skuld þrotabús Graníthússins ehf. við stefnda að fjárhæð 8.000.000 kr., sem fram fór með yfirtöku Best buy ehf. samkvæmt 3. gr. d-liðar afsals- og kaupsamningi, dags. 30. nóvember 2012, milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf. Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða þrotabúi Graníthússins ehf. 8.000.000 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 30. nóvember 2012 til greiðsludags. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

Stefndi gerir kröfu um að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og þar með hafnað riftun á d-lið 3. gr. afsals- og kaupsamnings, dags. 30. nóvember 2012, á milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf., svo og greiðslu 8.000.000 kr., auk dráttarvaxta úr hendi stefnda. Til vara er þess krafist að stefndi fái að afhenda til þrotabúsins, eða stefnanda, samning þann sem gerður var við Best buy ehf. til að uppfylla skyldur samkvæmt dómi lögum samkvæmt. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.  

I.

Málsatvik eru þau að Graníthúsið ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 30. janúar 2014, en stefnandi var skiptabeiðandi. Harpa Hörn Helgadóttir hdl. var skipaður skiptastjóri. Á skiptafundi 13. október 2014 var stefnanda veitt heimild af skiptastjóra til að reka í eigin nafni til hagsbóta búinu, á eigin kostnað og áhættu, mál til riftunar greiðslu skuldar þrotabúsins við stefnda, á grundvelli 130. gr. laga nr. 21/1991.

Graníthúsið ehf. mun hafa verið stofnað af Heiðari Steinssyni, eiganda stefnanda, Graníthallarinnar ehf., og var tilgangur félagsins steinsmíði ýmiss konar, einkum með granít.  

Með kaupsamningi, dags. 6. desember 2005, keypti stefndi, Viðhald og nýsmíði ehf., 50% hlut í Graníthúsinu ehf. Eigendur stefnda eru Guðni Freyr Sigurðsson og Brynjar Guðmundsson. Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsettri sama dag, var Guðni Freyr stjórnarmaður Graníthússins ehf. en Heiðar var varamaður í stjórn. Brynjar mun hafa síðar verið ráðinn sem framkvæmdastjóri Graníthússins ehf. Stefnandi kveður að það hafi verið eftir að Heiðari hafi verið bolað frá störfum. Í samþykktum félagsins hafi verið mælt fyrir um að stjórnarmaður og varamaður rituðu firma þess saman, en það hafi verið gert í þeim tilgangi að tryggja aðkomu beggja fyrirsvarsmanna eigenda Graníthússins ehf. við töku og framkvæmd á öllum meiri háttar ákvörðunum og skuldbindingum sem félagið tæki á sig, enda hafi félagið verið í jafnri eigu stefnanda og stefnda, Viðhalds og nýsmíði ehf.

Stefnandi kveður að samstarf aðila hafi verið ágætt til að byrja með en um mitt ár 2011 hafi Heiðari verið bönnuð koma á vinnustað Graníthússins ehf., en félag hans, Graníthöllin ehf., hafi þá átt verulegar fjárkröfur á hendur Graníthúsinu ehf. vegna verktöku, sem hafi falist í vinnuframlagi Heiðars við steinsmíðar fyrir Graníthúsið ehf.

Stefndi mótmælir því að Heiðari hafi verið bolað frá störfum, heldur hafi hann hætt að mæta til vinnu og ekkert náðst í hann en hann hafi verið farinn að vinna að rekstri eigin félags, Graníthallarinnar ehf., stefnanda málsins. Stefnandi hafi verið í beinni samkeppni við Graníthúsið ehf., nánast í næsta húsi, og rekstrarafkoma Graníthússins ehf. hafi því versnað mikið. Stefndi kveðst hafa, ásamt Magna ehf., lánað Graníthúsinu ehf. verulegar fjárhæðir, bæði í vörum og peningum. Greiddar hafi verið niður skuldir félagsins um leið og peningur hafi komið inn á reikning félagsins. Í kröfuskrá skiptastjóra komi fram að stefndi og Magni ehf. séu stærstu kröfuhafarnir. Brynjar og Guðni Freyr hafi reynt allt sem þeir gátu til að forða félaginu frá gjaldþroti. Í stað þess að velja þá leið hafi þeir reynt að greiða úr erfiðri rekstrarstöðu Graníthússins ehf. og ákveðið, með afsals- og kaupsamningum 30. nóvember 2012 og 12. júní 2013, að selja eignir til að mæta skuldum. Þeir hafi talið þetta góða sölu sem hafi getað bjargað Graníthúsinu ehf.

Í september 2012 höfðaði stefnandi mál á hendur Graníthúsinu ehf. til greiðslu á 4.569.729 kr., en krafan var byggð á reikningum Heiðars fyrir vinnu í þágu Graníthússins ehf. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 23. júlí 2013 var fallist á kröfur stefnanda og var Graníthúsið ehf. dæmt til að greiða stefnanda 4.232.234 kr. auk dráttarvaxa og málskostnaðar.

Á grundvelli framangreinds dóms var að beiðni stefnanda gert árangurslaust fjárnám hjá Graníthúsinu ehf. hinn 19. september 2013, auk þess sem fjárnám var gert í lausafé í eigu félagsins. Stefnandi kveður að þá fyrst hafi komið fram upplýsingar um að tiltekið lausafé væri ekki lengur í eigu gerðarþola en engum kaupsamningum hafi verið framvísað, þótt þeir hafi átt að vera löngu gerðir. Það hafi svo verið fyrst með endurupptöku meints kaupanda á umræddri fjárnámsgerð, hinn 22. janúar 2014, að kaupsamningum hafi verið framvísað þar sem tæki og tól Graníthússins ehf. virðist hafa verið seld ásamt rekstri og lager til Best buy ehf., með samningum 30. nóvember 2012 og 12. júní 2013. Heiðar hafi ekki ritað undir samningana enda alls ókunnugt um efni þeirra og engin ákvörðun hafi verið tekin á hluthafafundi um sölu á rekstri félagsins. Fjárnámi hafi verið lokið sem árangurslausu og umræddir lausafjármunir leystir undan fjárnámi.

Stefnandi krafðist þess svo fyrir Héraðsdómi Reykjaness, með beiðni dags. 19. desember 2013, á grundvelli hins árangurslausa fjárnáms, að Graníthúsið ehf. yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Stefnandi lýst kröfu sinni í búið með kröfulýsingu, dags. 4. mars 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi kröfuskrá skiptastjóra lýstu einnig Viðhald og nýsmíði ehf. og Magni ehf. kröfum í búið. 

Við skýrslutöku skiptastjóra af fyrirsvarsmönnum stefnda, Brynjari og Guðna Frey, að viðstöddum lögmanni þeirra, hinn 25. febrúar 2014, staðfestu þeir eignarhald sitt á Viðhaldi og nýsmíði ehf., svo og Magna ehf. Þá greindu þeir frá því að Graníthúsið ehf. hefði verið með starfsemi fram til ársloka 2013 og eitthvað fram í janúar 2014. Starfseminni hefði ekki lokið með sölunni til Best buy ehf. í nóvember 2012 heldur hefði Graníthúsið ehf. gert leigusamning við Best buy ehf. um afnot af tækjum og tólum sem Graníthúsið ehf. hefði selt Best buy ehf. Stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn í málinu um þetta leigusamband. Inntir eftir því hvort kaup­samningarnir við Best buy ehf. hefðu verið efndir svaraði Brynjar: „Já.“ Spurðir hvort beiðni um gjaldþrotaskipti á hinu gjaldþrota félagi hafi áður verið lögð fram svaraði Brynjar neitandi, en sagði að umræða hefði átt sér stað milli hans og Guðna Freys um það hvort taka ætti félagið til gjaldþrotaskipta. Beiðni hefði hins vegar ekki verið lögð fram. Í gögnum málsins liggur aftur á móti fyrir beiðni um gjaldþrot félagsins, sem móttekin var fyrir Héraðsdómi Reykjaness 9. nóvember 2012, undirrituð af Guðna Frey, en beiðnin var afturkölluð 18. nóvember 2012.

Framangreindur samningur, dags. 30. nóvember 2012, sem ber yfirskriftina afsals- og kaupsamningur, milli Graníthúsins ehf. og Best buy ehf., var undirritaður af Guðna Frey f.h. Graníthúsins ehf. sem seljanda og Eggerti Arngrími Arasyni f.h. Best buy ehf. sem kaupanda. Í 1. gr. kaupsamningsins segir að seljandi lofi að selja og kaupandi að kaupa hluta af rekstri seljanda eða þá rekstrareiningu sem kallist plötusmíði, ásamt tækjum og áhöldum sem notuð væru í rekstrareiningunni. Samkvæmt samnignum var kaupverðið 23.600.000 kr. Í 3. gr. var kveðið á um að kaupverðið skyldi greiðast með eftirfarandi hætti: a) Með yfirtöku veðskuldar við Landsbanka Íslands hf. með veði í vélum, að fjárhæð ca 3.900.000 kr. b) Með yfirtöku yfirdráttarskuldar í Landsbanka Íslands hf. á tilteknum hlaupareikningi að fjárhæð ca 5.500.000 kr. c) Með yfirtöku hluta skuldar við Magna ehf. ca 6.200.000 kr. d) Með yfirtöku hluta skuldar við Viðhald og Nýsmíði ehf. ca 8.000.000 kr. e) Kæmi fram mismunur í fjárhæðum í liðum a-c skyldi hann koma til hækkunar eða lækkunar á lið d. Þá var ákvæði í samningnum að uppgjöri og afstemmingu milli aðila skyldi lokið eigi síðar en 31. desember 2013.

Samkvæmt afsals- og kaupsamningi, dags. 12. júní 2013, sem Guðni Freyr og Brynjar undirrituðu f.h. Graníthússins, seldi Graníthúsið ehf. Best buy ehf. rafmangslyftara og bílkrana ásamt vökvabúnaði.  

Stefnandi kveður að engar peningagreiðslur hafi gengið milli aðila við umræddan kaupsamning frá 30. nóvember 2012 og ekki hafi falist í samningnum uppgjör eða greiðslur á öðrum skuldum Graníthússins ehf. Þá segir stefnandi að með viðbótarsamningi milli Graníthúsins ehf. og Best buy ehf., dags. 12. júní 2013, hafi Best buy ehf. verið tryggt eignarhald á nánar tilteknu lausafé, sem ekki hafi verið getið í fyrri samningi, en um sama lausafé hafi verið að ræða og stefnandi hafi tekið fjárnámi í september 2013. 

Stefnandi höfðar mál þetta í því skyni að rift verði greiðslu á skuld þrotabús Graníthússins ehf. við stefnda að fjárhæð 8.000.000 kr., samkvæmt d-lið 3. gr. kaupsamningsins frá 30. nóvember 2012, og stefnandi gerir jafnframt kröfu um að stefndi verði dæmdur til að greiða þrotabúi Graníthússins ehf. sömu fjárhæð.

II.

Stefnandi byggir kröfu sína um riftun aðallega á 134. gr. laga nr. 21/1991 og til vara einnig á 141. gr., sbr. og 142. gr., vegna endurgreiðslukröfu sem höfð er uppi í málinu. Stefndi í málinu teljist nákominn þrotamanni í skilningi gjaldþrotaréttar, einkum 5. tl 3. gr. laganna, en stefndi, sem sé í eigu Brynjars og Guðna Freys, eigi 50% hlut í Graníthúsinu ehf. Af þessum sökum eigi riftunarfrestir í 2. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga við í máli þessu. Greiðsla á þeirri skuld sem krafist sé riftunar á sé innan frests samkvæmt ákvæðinu en um hlutlægan mælikvarða sé að ræða á frestinum.

Stefnandi telur að fyrirsvarsmenn þrotamanns, sem jafnframt séu fyrirsvars­menn stefnda, hafi með samningi við Best buy ehf. selt allar eigur Graníthússins ehf. og með því kippt undan félaginu rekstrargrundvelli þess í því skyni að tryggja greiðslur á skuldum þrotamanns við félög í þeirra eigu. Þá hafi gerningur þessi einnig leitt til þess að yfirdráttur félagsins hafi verið gerður upp, en fyrirsvarsmenn stefnda hafi verið þar í persónulegum ábyrgðum. Með greiðslu yfirdráttarins hafi þeir því losnað úr ábyrgð á kostnað annarra kröfuhafa.

Hafi gerningar þessir auk þess verið óheimilir að mati stefnanda en ekki hafi verið leitað eftir undirritun Heiðars, þótt það hafi verið nauðsynlegt þar sem undirritun bæði varamanns og stjórnarmanns hafi þurft til að rita firmað. Telur stefnandi að sala á öllum eigum félagsins og rekstri falli þar undir. Kaupanda hafi átt og mátt vera þetta ljóst, þar sem um opinberar upplýsingar sé að ræða. Þrátt fyrir þessar opinberu upplýsingar hafi kaupandi látið til viðskiptanna leiðast á eigin áhættu og þar með gerst þátttakandi í því að koma eigum félagsins undan svo og að búa svo um hnútana að kröfur stefnda á hendur þrotamanni greiddust af söluandvirðinu, en aðrar ekki utan áhvílandi veðskuldar á hinu selda og yfirdráttar. Kaupandi hafi greitt hluta kaupverðsins beint að því er virðist inn á yfirdrátt þrotamanns.

Stefnandi bendir á að stjórnarmaður Graníthússins ehf., Guðni Freyr, hafi óskað eftir því að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta og beiðni lögð fram í héraðsdómi í því skyni, aðeins þremur vikum áður en kaupsamningur er sagður gerður. Stefnandi hafi verulegar efasemdir um að umræddir samningar hafi verið gerðir á þessum tíma, enda efni þeirra mjög óvenjulegt svo ekki sé meira sagt. Þar sé kaupanda gefið rúmt ár til að efna samninginn, og á þeim tíma hafi kaupandi leigt hið keypta til seljanda allt fram til ársloka 2013, þrátt fyrir sölu á rekstrinum. Það sé vandséð hvernig hagsmuna Graníthússins ehf. hafi verið gætt með slíkum samningum, en lögmaður stefnanda sendi fyrirsvarsmönnum Graníthússins ehf. bréf þann 7. nóvember 2013 þar sem þessar ráðstafanir voru gagnrýndar og taldar ganga m.a. gegn 44., 48., 51. og 52. gr. laga nr. 138/1994. Byggir stefnandi á því að fyrirsvarsmenn Graníthússins ehf. hafi brotið umrædd lagaákvæði Graníthúsinu ehf. til tjóns en stefnda til hagsbóta, en á því beri þeir einir ábyrgð.

Þá byggir stefnandi á því að þrotabúið hafi ekki verið gjaldfært á þeim tíma sem samningarnir eru sagðir gerðir eða þeir að minnsta kosti skert greiðslugetu þrotamanns verulega, enda hafi það einnig verið mat fyrirsvarsmanna félagsins sjálfs, sbr. gjaldþrotaskiptabeiðni þeirra til héraðsdóms nokkrum dögum áður. Ekkert í málinu sýni að félagið hafi þá eða síðar verið gjaldfært og beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða. Það hafi líka farið svo að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta, sem styðji fullyrðingar stefnanda um ógjaldfærni félagsins. Þannig sé skilyrði 2. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 fullnægt til að riftun nái fram að ganga.

Þá byggir stefnandi á því að skuldir þær sem kaupandi yfirtók og greiddi hafi verið gamlar skuldir sem hafi komið fram í ársreikningum félagsins og því hafi ekki verið um staðgreiðsluviðskipti að ræða. Við yfirtöku og greiðslu á skuldum Graníthússins ehf. við stefnda hafi stefndi þannig fengið uppgerðar skuldir sínar umfram aðra kröfuhafa félagsins og skekkt með því það jafnræði sem ríkja eigi á milli kröfuhafa, þ.m.t. stefnanda. Í stað þess að 8.000.000 kr. yrðu greiddar til félagsins hafi eingöngu stefndi notið greiðslunnar að fullu, á kostnað annarra kröfuhafa og Graníthússins ehf. sem með samningum hafi afsalað sér öllum eigum sínum. 

Stefnandi telur að stefndi hefði aldrei fengið þessa skuld greidda úr þrotabúinu þegar horft sé til þess að búið sé nær eignalaust en þeir fjármunir sem fengist hafa nægi ekki til að greiða skiptakostnað, sbr. framlagða kröfuskrá. Komi það líka ekki á óvart að ekki væru til neinar eignir að ráði í þrotabúinu þegar horft sé til þeirra kaupsamninga sem liggi fyrir.

Stefnandi byggir á því að greiðsla kaupanda hafi þannig verið greidd með óvenjulegum greiðslueyri og einnig á því að með greiðslunni hafi greiðslugeta þrotamanns skerst verulega. Greiðslan og sá háttur sem hafður hafi verið á henni geti aldrei talist venjuleg eftir atvikum og sæti því riftun skv. 2. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga.

Í viðskiptum sé eðlilegt að greitt sé með peningum, enda sé greiðsla með yfirtöku á skuld þriðja manns við seljanda óvenjuleg og líkleg til þess að verið sé að hygla viðkomandi kröfuhafa á kostnað annarra. Með gerningnum sé stefndi í raun að fá kröfu sína á hendur Graníthúsinu ehf. greidda af andvirði seldra eigna þrotamanns en slíkur greiðslueyrir sé óvenjulegur. Við matið á greiðslueyri beri að horfa til þess hvernig greiðslan sé tilkomin en ekki með hvaða hætti hún greiðist að lokum til kröfuhafans. Með gerningnum hafi krafa stefnda á hendur þrotamanni í raun verið greidd með tækjum og tólum og lager, en það sé óvenjulegt.

Að minnsta kosti verði að gera skýra kröfu til þess að kaupandi kanni með ítarlegum hætti stöðu seljanda þegar um svo óvenjulega greiðslu og greiðslumáta sé að ræða. Eigi það einkum við þegar um greiðslu á skuld sé að ræða vegna félaga sem séu jafnframt í eigu fyrirsvarsmanna seljanda, en um það hafi kaupanda mátt vera kunnugt hafi hann sinnt lágmarksaðgæslu við samningagerðina. Þá hafi á þessum tíma mál stefnanda verið fyrir héraðsdómi en kaupanda hafi einnig mátt vera kunnugt um það. Um grandsemi stefnda þurfi vart að fjölyrða og að með samningum hafi greiðslugeta þrotamanns verið skert verulega, enda hafi greiðslan ekki verið venjuleg eftir atvikum. Beri stefndi sönnunarbyrðina fyrir því að þrotamaður hafi verið gjaldfær þrátt fyrir að afhenda með kaupsamningum öll rekstartæki, viðskiptavild og lager án þess að fá í staðinn reiðufé til að geta staðið skil á öðrum þeim skuldum og gjöldum sem á þrotamanni hvíldi, utan skulda við stefnda.

Stefnandi vísar einnig til stuðnings kröfum sínum til 141. gr. laga nr. 21/1991, en það sé hin almenna riftunarregla gjaldþrotalaga. Með ákvæðinu sé heimilt að krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra. Þetta eigi við leiði ráðstafanirnar til þess að eignir þrotamanns séu ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

Stefnandi telur að aðstæður þær sem uppi séu í málinu fullnægi í hvívetna þeim skilyrðum sem fram komi í ákvæðinu, þ.e. að ráðstöfunin hafi verið kröfuhafa, þ.e. stefnda, til hagsbóta á kostnað annarra og leitt til þess að eignir þrotamanns hafi ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum.

Hinn umþrætti kaupsamningur hafi leitt sannanlega til þess að eignir þrotamanns hafi ekki verið til fullnustu kröfuhöfum og að endurgjald það sem gefið hafi verið hafi leitt til þess að stefndi, sem hafi verið einn af kröfuhöfum í þrotabúið, hafi fengið kröfu sína greidda að því marki sem kveðið sé á um í samningnum umfram aðra kröfuhafa, utan krafna Magna ehf. og Landsbanka Íslands. Eigi þetta sérstaklega við um greiðslu yfirdráttar sem hafi einungis verið tryggður með ábyrgð fyrirsvarsmanna stefnda. Með greiðslu yfirdráttarins hafi öðrum kröfuhöfum verið mismunað jafnframt þeirri mismunun sem hafi falist í því að kröfur stefnda greiddust að stórum hluta og því verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa með ótilhlýðilegum hætti. Ráðstafanir þessar feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa, enda bendi ekkert til þess að nauðsynlegt hafi verið að greiða stefnda þessar upphæðir á þessum tíma, meðan ekkert hafi verið greitt til annarra almennra kröfuhafa. Þá liggi ekkert fyrir um hvernig skuld Graníthússins ehf. við stefnda hafi orðið til og því mögulegt að hún sé ekki á rökum reist. Stefnandi telur því líkur til þess að eina markmið með greiðslunni hafi verið að koma eignum undan gjaldþrotaskiptum.

Stefnandi telur jafnframt að gerningurinn hafi verið ótilhlýðilegur. Við mat á því beri m.a. að líta til fyrri háttsemi þegar metin sé sú háttsemi sem talin er riftanleg. Skuld við stefnda hafi að því er virðist verið til staðar í nokkuð langan tíma þegar umræddur gerningur var gerður. Telur stefnandi að ef þrotamaður ráðstafar fjármunum til hagsbóta fyrir einn kröfuhafa, sem sé líka nátengdur félaginu, teljist slík ráðstöfun alltaf ótilhlýðileg. Það eigi einnig við ef með gerningnum hafi eignir þrotamanns ekki verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Ef ekki er talið að greiðslur til nákomins aðila á eldri skuld rétt fyrir gjaldþrot, þegar fjárhagsstaða félagsins sé slæm, séu ótilhlýðilegar sé vandséð hvers konar greiðslur geti talist ótilhlýðilegar með hliðsjón af 141. gr.

Einnig séu almennt meiri líkur til þess að greiðslur séu ótilhlýðilegar þegar langt sé um liðið síðan þær féllu í gjalddaga, en ekkert sé komið fram í málinu annað en að skuldin hafi verið viðvarandi og nánast ekkert inn á hana greitt og alls ekki í þeim mæli sem gert hafi verið með kaupsamningum.

Þá telur stefnandi, sbr. það sem áður er rakið, að þegar samningurinn hafi verið gerður hafi þrotamaður verið ógjaldfær, eins og yfirlýsing fyrirsvarsmanna stefnda sjálfra gefi til kynna, en hafi þrotamaður ekki þá þegar verið ógjaldfær hafi hann að minnsta kosti orðið það með gerningum, enda hafi ekkert reiðufé komið fyrir hið selda og verulegar skuldir hvílt á Graníthúsinu ehf.  Þegar yfirlýsingin hafi verið gefin í nóvember 2012 hafi fyrirsvarsmenn Graníthússins ehf. mátt vita að verulegt áframhaldandi tap hafi verið á rekstrinum líkt og ársreikningur 2012 staðfesti og eigið fé verið neikvætt um 22.213.458 kr. í árslok þess árs. Það sé vandséð af hverju stjórnendur félagsins hafi dregið gjaldþrotaskiptabeiðni félagsins til baka, nema í þeim tilgangi að koma eignum undan til að greiða kröfur félaga í þeirra eigu á hendur þrotamanni. Engin rök bendi til þess að félagið hafi verið gjaldfært á þessum tíma og að minnsta kosti hafi það orðið ógjaldfært með umræddum gerningum, en stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.

Þá telur stefnandi það hafið yfir allan vafa að stefndi hafi verið grandsamur um stöðu þrotamannsins, enda hafi sömu aðilar verið í fyrirsvari fyrir þrotamann og stefnda. Stefnda hafi ekki getað dulist að með því að selja rekstur þrotamanns án þess að reiðufé kæmi í staðinn myndi það leiða til gjaldþrots þrotamanns, líkt og raunin hafi verið á. Bendir stefnandi á að þegar meint sala hafi verið gerð hafi hann þegar stefnt félaginu til greiðslu á mjög hárri skuld og ljóst að ef krafan næði fram að ganga gæti þrotamaður vart greitt þá skuld. Sé kaupsamingurinn skoðaður í því ljósi sé ljóst að stefndi hafi vitað vel að þær aðstæður sem leiddu til ráðstöfunarinnar væru ótilhlýðilegar.

Um endurgreiðslukröfu byggir stefnandi á 142. gr. laga nr. 21/1991, annars vegar 1. mgr. varðandi riftunarkröfu byggða á 134. gr. laganna og hins vegar 3. mgr. varðandi riftunarkröfu þá sem byggist á 141. gr. gjaldþrotalaga.

Varðandi endurgreiðslukröfu samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 telur stefnandi að yfirtaka kaupanda og greiðsla á kröfu stefnda á hendur þrotabúinu, þ.e. Graníthúsinu ehf., með 8.000.000 kr., hafi komið honum að notum með þeirri fjárhæð sem kaupandi greiddi fyrir hið selda, en sú fjárhæð sé jöfn þeirri fjárhæð er nemi tjóni þrotamanns. Kröfunni sé beint að þeim sem hag hafi haft af hinni riftanlegu ráðstöfun og ávallt megi miða við að stefndi hafi notið þeirrar fjárhæðar að fullu sem nam greiðslu kaupanda.

Varðandi endurgreiðslukröfu samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi á 3. mgr. 142. gr. sömu laga og fari því eftir almennum reglum. Endurgreiðslukrafan sé byggð á meginreglu skaðabótaréttar og sakarreglunni og telur stefnandi að efnisatriði reglunnar séu uppfyllt, en orsakatengsl séu á milli tjóns stefnanda og greiðslu á kröfu stefnda og tjónið sennileg afleiðing greiðslunnar. Stefnandi telur að stefndi hafi ekki verið í góðri trú þegar hann hafi fengið kröfu sína greidda með þeim hætti sem kveðið var á um í samningi og því bæði ólögmæt og saknæm. Stefnandi hafi þannig orðið fyrir tjóni sem nemi fjárhæð þeirrar greiðslu sem stefndi hafi fengið í sinn hlut, sem sé endurgreiðslufjárhæð sem getur í dómkröfu.

Dráttarvaxta er krafist af stefnufjárhæð og byggt á því tímamarki er stefndi hafi fengið greiðslu á kröfu sinni með yfirtöku kaupanda á skuldinni, þ.e. á kaupsamningsdegi 30. nóvember 2012, sbr. 9. gr. samningsins.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991, einkum 3. gr., og ákvæða XX. kafla, einkum 134. gr. og 141. gr. um riftun og 142. gr. um endurgreiðslukröfu. Þá er vísað til laga nr. 138/1994, eftir því sem við eigi í málinu.

Krafa um vexti er studd við ákvæði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Þá er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, XXI. kafla um málskostnað.

III.

                Í greinargerð stefnda segir að aðgerðir og sala eigna hafi byggst á brýnni nauðsyn og þörf, allt í þágu hins gjaldþrota félags. Brynjar og Guðni Freyr hafi talið að uppgreiðsla yfirdráttar og uppgreiðsla skuldabréfs samkvæmt a- og b- lið 3. gr. samningsins frá 30. nóvember 2012 hafi á engan hátt mismunað kröfuhöfum eða eigendum nema síðar sé.

Þá kemur þar fram að skuldbindingar kaupanda, Best buy ehf., samkvæmt a- og b-lið 3. gr. hafi reynst honum mjög erfiðar og gengið mjög nærri fjárhagsstöðu hans á þeim tíma og því hafi honum verið gefinn aukinn frestur til að ganga frá skuldunum og átt að hafa lokið því eigi síðar en 1. október 2013. Þær skuldir sem hafi verið eftir hafi nánast eingögnu verið við eigendur þess.

Einnig segir í greinargerð stefnda að einum kröfuhafa hafi ekki verið hampað fram yfir aðra. Stefndi sé einn af stærstu kröfuhöfum í búið og ekkert óeðlilegt við að hið gjaldþrota félag hafi greitt inn á skuldir stærstu kröfuhafa þegar búið var að greiða niður skuldir félagsins.

Stefndi byggir á því að Graníthúsið ehf. hafi verið gjaldfært allar götur fram að því að gjaldþrot hafi verið knúið fram af stefnanda. Félagið hafi verið í rekstri, leigt aðstöðu, tæki og tól fyrir hagstætt verð og hefði átt að geta rétt úr kútnum ef stefnandi hefði gefið félaginu tækifæri.

                Stefndi telur að sala eigna félagsins hafi verið eðlileg og nauðsynleg, eins og staða félagsins hafi verið á tíma eignasölunnar, svo og uppgjör og greiðsla skulda. Þeir gerningar sem gerðir hafi verið hafi verið tilhlýðilegir og greiðslueyrir og greiðslufyrirkomulag eðlilegt, eins og á hafi staðið, enda hafi söluverð verið óvenju hátt og umtalsvert hærra en aðrir áhugasamir aðilar hafi viljað greiða fyrir hinar seldu eignir.

                Samningarnir um sölu eigna hafi verið gerðir í góðri trú og þetta hafi verið félaginu fyrir bestu og verið eina tækifæri þess til að koma fjármálum sínum á réttan kjöl.

                Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna sölu eigna Graníthússins ehf. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins sem styðji þá fullyrðingu. Stefndi mótmælir því að umrædd sala hafi leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Ekki verði annað séð en að kröfur stærstu kröfuhafa hafi minnkað og því engin skuldaaukning sem eigi sér stað.

                Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig vísar stefndi í meginreglur kröfuréttar.

                Krafa um málskostnað er studd við 129. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Í máli þessu reisir stefnandi kröfu sína um riftun aðallega á 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem um greiðslu með óvenjulegum greiðslueyri sé að ræða, en til vara á 141. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 er það skilyrði eitt sér nægilegt til að rifta megi greiðslu að greiðslueyrir hafi verið óvenjulegur ef greiðslan hefur farið fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag, nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Í 2. mgr. 134. gr. er kveðið á um að krefjast megi riftunar slíkrar greiðslu til nákominna sex til tuttugu og fjórum mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir greiðsluna. Eigendur stefnda voru jafnframt eigendur að Graníthúsinu ehf. og voru því nákomnir í skilningi 5. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991. Riftunarfrestir 2. mgr. 134. gr. eiga því við í máli þessu og fór greiðsla fram innan frests samkvæmt téðu ákvæði.

Umrædd greiðsla sem krafist er riftunar á er samkvæmt afsals- og kaupsamningi, dags. 30. nóvember 2012, milli Graníthússins ehf. sem seljanda og Best buy ehf. sem kaupanda á hluta af rekstri Graníthússins ehf. Undir samninginn ritaði Guðni Freyr Sigurðsson, sem var stjórnarformaður Graníthússins. Guðni Freyr er jafnframt eigandi stefnda, Viðhalds og nýsmíði ehf., og Magna ehf. ásamt Brynjari Guðmundssyni.

Kaupverðið, sem var að fjárhæð 23.6000.000 kr., átti ekki að greiðast með peningum, heldur yfirtöku veðskuldar við Landsbanka Íslands hf. og yfirdráttarskuldar við bankann, og yfirtöku á skuld við Magna ehf., 6.200.000 kr., og yfirtöku á 8.000.000 kr. skuld við stefnda, Viðhald og nýsmíði ehf. Uppgjöri milli kaupanda og seljanda átti að vera lokið 31. desember 2013. Óljóst er hvaða skuld þetta var við stefnda og hvernig hún var tilkomin, alla vega var ekki um staðgreiðsluviðskipti að ræða eins og haldið var fram í málflutningsræðu lögmanns stefnda.

Þegar litið er til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu verður að telja Graníthúsið ehf. ógjaldfært á þeim tíma sem umræddur samningur frá 30. nóvember 2012 var gerður, en í sama mánuði, hinn 9. nóvember, lagði Guðni Freyr fram kröfu fyrir Héraðsdómi Reykjaness um gjaldþrotaskipti á Graníthúsinu ehf. Engu breytir þótt krafan hafi verið afturkölluð 18. nóvember 2012, enda hefur stefndi ekki sýnt fram á að í millitíðinni hafi fjárhagsstaða félagsins breyst til betri vegar og ársreikningur félagsins árið 2012 styður að félagið var ógjaldfært.

Samkvæmt umræddum samningi losnuðu Guðni Freyr og Brynjar úr persónulegum ábyrgðum fyrir veðskuldinni við Landsbankann hf. og yfirdráttar­skuldinni. Með samningnum var því jafnframt þannig komið fyrir að teknar voru yfir skuldir við félög í eigu Guðna Freys og Brynjars, þ.e. stefnda og Magna ehf. Var kröfuhöfum Graníthússins ehf. því mismunað.

Með vísan til alls framangreinds, og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar, s.s. í málum nr. 120/1986 og 277/2010, verður fallist á með stefnanda að um óvenjulegan greiðslueyri hafi verið að ræða og að Graníthúsið hafi verið ógjaldfært á þeim tíma sem umræddur samningur var gerður. Eru því fyrir hendi skilyrði til að rifta greiðslu á skuld þrotabús Graníthússins ehf. við stefnda, að fjárhæð 8.000.000 kr. samkvæmt afsals- og kaupsamningi, dags. 30. nóvember 2012, milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf., á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991.

Endurgreiðslukrafa stefnanda er byggð á 142. gr. laga nr. 21/1991. Við aðalmeðferð málsins var því haldið fram af hálfu stefnda að stefndi hafi ekki fengið greiðslu frá Best buy ehf. og að samningurinn hafi að þessu leyti verið vanefndur. Stefndi hefur ekkert lagt fram um meintar vanefndir Best buy ehf. og þessi fullyrðing stefnda stangast á við skýrslu sem Brynjar og Guðni Freyr gáfu hjá skiptastjóra 24. febrúar 2014, að viðstöddum þáverandi lögmanni þeirra, en þar kom fram að samningurinn hefði verið efndur. Kröfulýsing stefnda og listi yfir hreyfingar lánardrottna Graníthússins ehf. styðja að greiðslan hafi farið fram. Í greinargerð stefnda er ekki byggt á þessari málsástæðu heldur verður þvert á móti að skilja málatilbúnað stefnda þannig að greiðslan hafi verið efnd. Auk þess er þessi málsástæða stefnda of seint fram komin, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.          

Með vísan til framangreinds og 142. gr. laga nr. 21/1991 ber að fallast á endurgreiðslukröfu stefnanda þannig að stefndi verður dæmdur til að greiða þrotabúi Graníthússins ehf. 8.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. nóvember 2012 til greiðsludags.         

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn miðað við  umfang málsins 900.000 krónur.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Rift er greiðslu á skuld þrotabús Graníthússins ehf. við stefnda, Viðhald og nýsmíði ehf., að fjárhæð 8.000.000 króna, sem fram fór með yfirtöku Best buy ehf.  samkvæmt 3. gr. d-liðar afsals- og kaupsamningi, dags. 30. nóvember 2012, milli Graníthússins ehf. og Best buy ehf.

Stefndi greiði þrotabúi Graníthússins ehf. 8.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 30. nóvember 2012 til greiðsludags.        

Stefndi greiði stefnanda, Graníthöllinni ehf., 900.000 krónur í málskostnað.