Hæstiréttur íslands

Mál nr. 708/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Kröfulýsing
  • Réttindaröð
  • Slit


                                     

Mánudaginn 18. nóvember 2013.

Nr. 708/2013.

Newcastle Building Society

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Réttindaröð. Slit.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa N við slit fjármálafyrirtækisins L hf. var viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Vísað var til þess að í 2. mgr. 117. gr. sömu laga væri meðal annars áskilið að í kröfulýsingu skyldi tiltaka svo skýrt sem verða mætti hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð og að í því fælist að greina þyrfti sérstaklega frá því í kröfulýsingu ef ef kröfuhafi æskti þess að kröfu hans yrði skipað í réttindaröð við slit skuldara á annan veg en sem almennri kröfu. Þar sem í kröfulýsingu N var einungis tiltekið að krafa hans væri innstæðukrafa á grundvelli heildsöluinnlána, var að virtum dómum Hæstaréttar ekki talið að hún hefði fullnægt fyrrgreindum áskilnaði 117. gr. laga nr. 21/1991 á þann veg að unnt væri að taka til greina kröfu N um að lýst krafa hans yrði viðurkennd sem forgangskrafa.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. október 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á því að krafa hans á hendur varnaraðila að fjárhæð 11.164.613,69 sterlingspund njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en kröfunni skipað í réttindaröð við slitin samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrgreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að skipa kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila að fjárhæð 11.164.613,69 sterlingspund í réttindaröð við slitin sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 3. mgr. 99. gr. sömu laga, sbr. 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 skal krafan á hendur varnaraðila í erlendum gjaldmiðli færð til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi 22. apríl 2009, þegar varnaraðili var tekinn til slita.

Ákvæði úrskurðar héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er krafa sóknaraðila, Newcastle Building Society, við slit varnaraðila, LBI hf., að fjárhæð 11.164.613,69 sterlingspund og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Gengi framangreinds erlends gjaldmiðils miðast við sölugengi hans 22. apríl 2009.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 250.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2013.

                Þetta mál, sem barst dóminum, 7. febrúar 2013, með bréfi slitastjórnar LBI hf., var þingfest 15. febrúar og tekið til úrskurðar 7. október 2013.

                Sóknaraðili, Newcastle Building Society, Portland House, New Bridge Street, New­castle upon Tyne, Bretlandi, krefst þess að viðurkennd fjárkrafa hans við slita­með­ferð varnaraðila, LBI hf., 11.164.613,69 bresk pund, njóti stöðu í réttindaröð sem for­gangs­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

                Sóknaraðili krefst enn fremur málskostnaðar úr hendi varnaraðila að við­bættum virðisaukaskatti á málskostnað.

                Varnaraðili, slitabú LBI hf., kt. 540291-2259, Álfheimum 74, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst varnaraðili þess að stað­fest verði sú afstaða slitastjórnar að viðurkenna fjárkröfu sóknaraðila, 11.164.613,69 bresk pund sem umreiknast í kröfuskrá sem 2.133.334.384 krónur, sem almenna kröfu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu.

Málavextir

                Landsbanki Íslands hf. tilkynnti Fjármálaeftirlitinu, 19. janúar 2005, í sam­ræmi við 36. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, að bankinn hygðist stofna og reka útibú í Lundúnum, Englandi. Þá tilkynnti bankinn, 29. júní 2005, að hann hygðist færa út starfsemi útibúsins þannig að það tæki einnig við inn­lánum, þar á meðal heild­sölu­inn­lánum sem aflað yrði fyrir milli­göngu Heritable Bank Ltd.

                Landsbanki Íslands hf. og Heritable Bank Ltd. gerðu, í nóvember 2005, samn­ing um þessa milli­göngu og þar með varð það hluti af starfsemi útibúsins og jafn­framt bank­ans að taka við svonefndum heild­sölu­inn­lánum (e. whole­sale deposit) frá við­skipta­vinum. Megineinkenni slíkra innlána var að aðilar sömdu sérstaklega um skil­mála lánanna, það er fjárhæðir, vexti, gjalddaga og önnur kjör. Inn­lánin byggðust því alfarið á samningum aðila sem aftur réðust af aðstæðum á markaði hverju sinni.

                Sóknaraðili er breskt byggingarfélag (e. building society) sem starfar sam­kvæmt breskum lögum og lýtur eftirliti breska fjármálaeftirlitsins. Aðalstarfsemi hans felst í ráðgjöf og þjónustu á fjármálasviði, einkum veitingu fasteignalána og trygginga til almennings.

                Sókn­ar­aðili og Landsbanki Íslands hf. gerðu með sér neðangreinda þrjá samn­inga um heild­sölu­inn­láns­við­skipti á tímabilinu frá 14. júlí til 1. september 2008 þar sem sókn­ar­aðili lagði fé inn á reikning útibús Landsbanka Íslands hf. í Lundúnum til ávöxt­unar:

  1. Heildsöluinnlán, 14 júlí 2008, að höfuðstólsfjárhæð GBP 2.000.000, sem átti að vera laust til útborgunar 15. október 2008 og skyldi bera 5,9% vexti.
  2. Heildsöluinnlán, 7. ágúst 2008, að höfuðstólsfjárhæð GBP 5.000.000, sem átti að vera laust til útborgunar, 7. nóvember 2008, og skyldi bera 5,86% vexti.
  3. Heildsöluinnlán, 1. september 2008, að höfuðstólsfjárhæð GBP 4.000.000, sem átti að vera laust til útborgunar, 5. desember 2008, og skyldi bera 5,83% vexti.

                Krafa sóknaraðila í slitabúið byggist á þessum þremur heildsöluinnlánum sam­tals að fjár­hæð 11.000.000 breskra punda. Með samningsvöxtum nemur fjár­hæðin sam­tals 11.164.613,69 breskum pundum, sem samsvarar 2.133.334.384 krónum miðað við gengi krónu gagnvart bresku pundi, 22. apríl 2009. Aðilar deila hvorki um eðli þessara inn­láns­viðskipta né einstakar fjár­hæðir.

                Fjármálaeftirlitið tók, 7. október 2008, yfir vald hluthafafundar Landsbankans og skipaði honum skilanefnd í samræmi við ákvæði 100. gr. a laga um fjár­mála­fyrir­tæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sér­stakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Bankanum var, 5. desember 2008, veitt heim­ild til greiðslu­stöðvunar og 29. apríl 2009 var honum skipuð slitastjórn sam­kvæmt 4. mgr. 101. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölu­lið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitastjórn veitti kröfuhöfum frest til 30. októ­ber 2009 til að lýsa kröfum sínum í slitabúið.

                Sóknaraðili lýsti kröfu sinni, 20. maí 2009, og kveðst hafa lýst henni sem inn­stæðu­kröfu og lét fylgja skjöl því til stað­festingar. Sókn­ar­aðili vék ekki berum orðum að stöðu kröfunnar í skuldaröð í kröfu­lýsingu, og tekur fram að honum hafi hvorki verið um það skilyrði varnar­aðila kunn­ugt né hafi honum verið greint frá því. Sókn­ar­aðili telur ekki fara milli mála, þegar kröfu­lýs­ing ásamt fylgiskjölum sé skoðuð, að krafa hans sé vegna innlána, enda hafi varnar­aðili sjálfur litið svo á frá upp­hafi.

                Varnaraðili gerði ekki athugasemdir við kröfulýsingu sóknaraðila á þeim rúm­lega fimm mánuðum sem liðu frá því að kröfunni var upphaflega lýst, 20. maí 2009, og þar til að kröfulýsingarfrestur rann út 30. október sama ár. Varnaraðili til­kynnti sókn­ar­aðila í það minnsta þrívegis að hann þyrfti að fresta því að taka afstöðu til kröfu sókn­ar­aðila.

                Áður en varnaraðili tók formlega afstöðu til kröfu sóknaraðila var hún skráð í kröfu­skrá ásamt öðrum lýstum kröfum. Sóknaraðili telur að ráðið verði af skráningu í kröfu­skrá að varnar­aðili hafi flokkað kröfuna sem almenna kröfu þrátt fyrir að formleg afstaða lægi ekki enn fyrir. Sóknaraðili mótmælti sérstaklega þessari framsetningu í kröfu­skrá með bréfi, 27. októ­ber 2010.

                Varnaraðili tók formlega afstöðu til kröfu sóknaraðila, 22. nóvember 2010, og sam­þykkti hana sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti. Sókn­ar­aðili áréttaði af því tilefni fyrri mótmæli sín gegn röðun kröf­unnar og lagði þau fram á kröfuhafafundi, 1. desember sama ár.

                Fundur vegna ágreinings um afstöðu slitastjórnar til stöðu kröfunnar í kröfu­röð, var haldinn 6. júlí 2011. Þar bókaði slitastjórn að hún teldi kröfu­lýs­ingu á ábyrgð og áhættu kröfuhafa. Slitastjórnin tók fram að krafa sóknaraðila um forgang, sam­kvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem væri í sam­ræmi við þann áskilnað 2. mgr. 117. gr. laganna að lýsa skuli hvaða stöðu sé krafist í skulda­röð, hefði ekki borist fyrir lok kröfulýsingarfrests. Sú krafa sóknaraðila væri því of seint fram komin og fallin niður gagnvart varn­ar­aðila. Fund­inum var frestað til þess að sóknaraðili gæti rætt framhald málsins við umbjóðanda sinn. Þegar fundi var fram haldið, 22. ágúst 2011, óskaði lög­maður sóknar­aðila eftir að frestað yrði um ótiltekinn tíma að beina ágreiningi máls­ins til úrlausnar Héraðs­dóms Reykjavíkur, á meðan beðið væri niðurstöðu í sam­bæri­legu máli, Motor Insurer´s Bureau á hendur varnaraðila, sem hafði verið vísað til úrlausnar dómstóla og féllst slita­stjórn á það.

                Með dómi Hæstaréttar, 6. september 2012, var öllum kröfum Motor Insurer´s Bureau á hendur varnaraðila hafnað. Daginn eftir, 7. september 2012, óskaði slita­stjórn eftir afstöðu sóknaraðila til framhalds málsins. Lögmaður hans tilkynnti slita­stjórn, 4. febrúar 2013, að sóknaraðili hefði ákveðið að halda til streitu mótmælum sínum gegn afstöðu slita­stjórnar til röðunar kröfunnar í kröfuröð. Þar sem ekki tókst að jafna ágrein­ing um kröf­una ákvað slita­stjórn, í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykja­víkur eftir ákvæðum 171. gr. laganna.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að kröfulýsing hans hafi verið nægilega skýr til að sam­þykkja bæri kröfu hans eins og henni var lýst, sem innstæðukröfu sem njóti stöðu í rétt­inda­röð, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjár­málafyrirtæki. Til stuðnings kröfu sinni færir sóknaraðili svofelld rök:

                Í fyrsta lagi sé ótvírætt að kröfur vegna svokallaðra heildsöluinnlána, á borð við kröfu sóknaraðila, njóti forgangsréttar við slitameðferð föllnu bankanna, þar á meðal varn­ar­aðila. Þetta hafi ítrekað verið staðfest af dómstólum og slitastjórn varn­ar­að­ila sé sama sinnis. Krafa sóknaraðila sé því óumdeilt forgangskrafa sam­kvæmt efni sínu.

                Í öðru lagi leiki ekki nokkur vafi á því að sóknaraðili lýsi, í kröfulýsingu sinni, kröfu vegna innstæðu. Þannig segi til dæmis undir 3. tölulið í kröfu­lýs­ing­ar­form­inu, þar sem spurt sé um eðli kröfu (e. nature of debt), að kröfuhafinn sé heild­sölu­inn­láns­hafi (e. wholesale depositor). Jafnframt staðfesti fylgigögnin ótvírætt að krafan sé vegna inn­stæðu, en þeirra á meðal séu staðfestingar bankans fyrir mót­töku hvers inn­láns fyrir sig (e. deposit confirmation). Af kröfulýsingunni sjáist því skýrt að lýst sé for­gangs­kröfu á hendur varnaraðila.

                Sóknaraðili telur markmið 117. gr. laga nr. 21/1991 það að tryggja að kröfu sé lýst nægi­lega skýrt þannig að skiptastjóra, og eftir atvikum slita­stjórn, sé kleift að taka afstöðu til kröfunnar og skipa henni á við­eigandi stað í kröfu­röð miðað við efni hennar. Kröfulýsing sóknar­aðila ásamt fylgi­gögnum hafi ótvírætt upp­fyllt þetta mark­mið og skilyrði ákvæðisins.

                Í þriðja lagi, og til marks um skýrleika kröfulýsingar sóknaraðila, hafi slita­stjórn varnaraðila verið það fullljóst frá því hún tók við kröfunni að hún væri komin til vegna heildsöluinnlána og væri af þeim sökum forgangskrafa. Þessu til sönnunar megi meðal annars benda á afstöðuskýrslu slitastjórnar frá 23. nóvember 2009. Þar sé getið afstöðu slitastjórnar til heild­sölu­inn­lána hjá útibúi varnaraðila í London. Frá því sé greint að kröfur hafi ýmist verið sam­þykktar eða þeim hafnað að hluta eða í heild sinni. Meðal annars komi fram að sjö kröfum vegna heildsöluinnlána hafi verið hafnað vegna ófullnægjandi kröfu­lýs­ingar, með vísan til 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Lang­flestar kröfurnar hafi verið sam­þykktar sem forgangskröfur með breyt­ingum.

                Það veki athygli að í síðustu málsgreininni segi að slitastjórn hafi ákveðið að fresta því að taka afstöðu til 13 heildsöluinnlána í eigu átta kröfuhafa í ljósi þess að ýmist hafi ekki verið krafist forgangsstöðu í kröfulýsingu eða krafist hafi verið stöðu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ætla verði að krafa sóknaraðila sé ein þeirra krafna sem þarna sé vísað til.

                Þetta staðfesti tvennt. Annars vegar það að slitastjórn hafi verið ljóst frá upp­hafi að krafa sóknaraðila væri innstæðukrafa sem bar með réttu að njóta for­gangs­stöðu. Hins vegar að slitastjórn hafi ekki litið svo á að sóknaraðili hefði lýst kröfu sinni á ófull­nægj­andi hátt samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Hefði svo verið hefði hún hafnað kröfunni á þeim grundvelli á sama hátt og hún hafnaði áðurnefndum sjö kröfum. Það hafi hún ekki gert. 

                Í fjórða lagi, og þrátt fyrir þessa vitneskju slitastjórnar, hafi hún staðfest að hafa tekið við kröfu­lýsingu sóknaraðila án þess að gera við hana nokkra athugasemd. Jafn­framt hafi slitastjórnin, að minnsta kosti þrisvar sinnum eftir það, þurft að til­kynna sókn­ar­aðila að hún frestaði því að taka afstöðu til kröfunnar. Með vísan til upp­lýs­inga í fyrr­greindri afstöðuskýrslu frá 23. nóvember 2009 verði að ganga út frá því að frest­unin hafi stafað af því að sóknar­aðili vísaði ekki berum orðum í for­gangs­stöðu kröf­unnar.

                Þrátt fyrir þetta hafi slitastjórn hvorki beint athygli sóknaraðila að því að hún teldi upp­lýs­ingar vanta um rétthæð kröfunnar né hvaða afleiðingar slíkt kynni að hafa. Telja verði að það hefði verið eðlilegt í ljósi þessarar vitneskju slitastjórnar, ekki síst þegar tekið sé mið af því að sóknaraðili lýsti kröfu sinni rúmlega fimm mán­uðum áður en formlegur kröfulýsingafrestur rann út.

                Í fimmta lagi verði að halda því til haga að sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu sinni sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í bréfi slitastjórnar, þar sem ágreiningnum sé vísað til dómsins, sé því rangt að slitastjórn hafi samþykkt kröf­una „eins og henni var lýst“ sem almennri kröfu á grundvelli 113. gr. laga um gjald­þrota­skipti.

                Hið rétta sé að sóknaraðili hafi ekki vikið sérstaklega að stöðu kröfunnar í rétt­inda­röð, enda hafi honum hvorki verið kunnugt um að það væri áskilið né hafi slita­stjórnin upplýst hann um það. Það sé ekki það sama og að krefjast stöðu samkvæmt 113. gr. og verði að gera skýran greinarmun á þessu tvennu.

                Sóknaraðili hafi fengið þær upplýsingar frá varnaraðila að kröfuhafar hefðu frjálsar hendur með form kröfulýsingar sinnar. Sóknaraðili hafi því ákveðið að nota staðlað enskt kröfulýsingarform (e. Insolvency Claim Form). Eins og gefi að skilja geri formið ekki ráð fyrir því að fylltar séu inn upplýsingar um rétthæð sam­kvæmt íslenskum gjaldþrotalögum. Slitastjórn hafi hins vegar ekki gert neinar athuga­semdir við þessa framsetningu eins og áður greini.

                Í sjötta og síðasta lagi liggi fyrir að sóknaraðili hafi brugðist við um leið og hann varð þess áskynja að varnaraðili hygðist flokka innstæðukröfuna sem almenna kröfu, áður en formleg afstaða slitastjórnar lá fyrir, eins og greini í kafla um máls­atvik. Sóknaraðili hafi mótmælt þessu strax með rökstuddu bréfi, 27. október 2010, og áréttað mótmæli sín jafnframt á síðari stigum.

                Með vísan til alls framangreinds telur sóknaraðili að fallast beri á kröfu hans eins og henni var lýst, sem innstæðukröfu sem njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Máli sínu til stuðnings vísar sóknaraðili til laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti o.fl., laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 125/2008 um heimild til fjár­veit­ingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Að auki vísar hann til megin­reglna gjaldþrota-, samninga- og kröfuréttar. Krafa hans um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt á málskostnað.

Málsástæður varnaraðila

                Varnaraðili vísar fyrst til þess að ekki sé deilt um það að í kröfulýsingu sóknar­aðila komi hvergi fram að fjárkrafa hans eigi að njóta forgangsstöðu í rétt­inda­röð við slita­með­ferð varn­ar­aðila, hvorki ótilgreint eða almennt né með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Slitastjórn hafi því tekið afstöðu til kröfunnar á grund­velli 113. gr. laga nr. 21/1991 í samræmi við ákvæði 2. mgr. 117. gr. laganna og meg­in­reglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við búskipti. Sóknaraðili hafi fyrst kraf­ist stöðu kröfunnar í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 í bréfi sínu til varn­ar­aðila, 27. október 2010. Þar sem kröfu­lýs­ing­ar­frestur hafi runnið út 30. október 2009, og krafa sókn­ar­aðila um forgangsröðun kröf­unnar sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 hafi borist eftir það, hafi sóknaraðili ekki lýst for­gangs­kröfu við slit varn­ar­aðila innan kröfulýsingarfrests. Af þessum sökum komist sú krafa ekki að við slitameðferð varnaraðila, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991. Til frekari stuðnings vísar varnaraðili til 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 en sam­kvæmt því ákvæði skuli sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi, og geti ekki fylgt henni eftir samkvæmt 116. gr. laganna, lýsa henni fyrir skiptastjóra. Þá komi fram í 2. mgr. 117. gr. laganna að í kröfulýsingu skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Sóknaraðili hafi ekki krafist þess, fyrir lok kröfulýsingarfrests, að krafa hans nyti stöðu for­gangs­kröfu við slitameðferðina. Af þessum sökum mót­mæli varn­ar­aðili því að forgangskrafa sóknaraðila komist að við slitameðferðina.

                Varnaraðili vísar jafnframt til 118. gr. laga nr. 21/1991, þar sem segi að sé kröfu á hendur þrotabúi ekki lýst fyrir skipta­stjóra áður en fresti samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laganna ljúki, og ekki sé unnt að fylgja henni fram gagnvart því samkvæmt 116. gr., falli hún niður. Varn­ar­aðili tekur fram að ekkert undantekningarákvæða 118. gr. lag­anna eigi við um kröfu sóknaraðila. Hann vísar jafnframt til meginreglu gjald­þrota­réttar um jafnræði kröfu­hafa við gjald­þrota­skipti. Krafa sóknaraðila sé of seint fram komin og því fallin niður gagnvart varnar­aðila samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu sóknar­aðila um forgang sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili bendir á að efni kröfulýsingar sóknaraðila geti ekki leitt til þess að sam­þykkja beri kröfu hans um stöðu í kröfuröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 þurfi kröfu­hafi að láta í ljós í kröfulýsingu hvaða stöðu hann telji kröfu sína eiga að njóta í skulda­röð eða rétt­inda­röð, ekki sé nóg að vísa til þess hvers eðlis eða efnis krafan sé, svo sem að kröfu­hafi sé heildsöluinnlánshafi. Væri fall­ist á slíka mála­færslu hefði enga þýðingu það skilyrði 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að lýsa þurfi stöðu kröfu í skuldaröð. Varnaraðili vísar til þess að efni kröfu sóknaraðila geti ekki leitt sjálf­krafa til þess að hún njóti stöðu forgangskröfu í rétt­inda­röð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og að engin krafa um forgang verði leidd af kröfulýsingu sókn­ar­aðila. Fram­an­greint fái stoð í dómum Hæstaréttar í málum nr. 506/2012, nr. 763/2012 og nr. 182/2013, sem varnaraðili telji for­dæmi fyrir úrlausn málsins.

                Varnaraðili byggir enn fremur á því, að þar sem ekkert komi fram í kröfu­lýs­ingu hverrar stöðu sé krafist í réttindaröð verði að líta svo á, í ljósi áskilnaðar 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, að slitastjórn (skiptastjóra) beri að færa kröfuna inn á kröfu­skrá sem almenna kröfu. Skiptastjóra sé ekki skylt að eigin frumkvæði að gæta að sér­stöðu rétt­inda til hagsbóta fyrir kröfuhafa enda sé kröfulýsing á ábyrgð og áhættu kröfu­hafa. Með öðrum orðum verði hreint og beint að taka fram í kröfulýsingu ætlist kröfu­hafi til þess að krafa hans njóti annarrar stöðu í réttindaröð en almennrar kröfu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Af þessum sökum geti varnaraðili ekki fallist á þá málsástæðu sókn­ar­aðila að hann hafi lýst kröfu sinni sem innstæðukröfu með stöðu í réttindaröð sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Þá mótmælir varnaraðili því að tilvísun sóknaraðila til fylgigagna kröfu­lýs­ing­ar­innar geti á einhvern hátt haft þýð­ingu í þessu efni.

                Sóknaraðili vísi til þess að kröfur vegna svonefndra heild­sölu­inn­lána njóti for­gangs­réttar við slitameðferð föllnu bankanna og því sé krafa sókn­ar­aðila óumdeilt for­gangs­krafa samkvæmt efni sínu. Varnaraðili bendir á að með lögum nr. 125/2008, sbr. lög nr. 44/2009, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, hafi inn­stæðum verið veittur for­gangs­réttur samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Virðist sókn­ar­aðili byggja á því að vegna framangreindrar laga­breyt­ingar sé honum nægjan­legt að vísa til eðlis kröfu sinnar sem innstæðu til þess að henni verði veittur forgangur sam­kvæmt til­greindu ákvæði laga nr. 21/1991.

                Varnaraðili mótmælir þessari túlkun sóknaraðila og byggir á því að skýra verði ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til samræmis við önnur ákvæði lag­anna sem og lög nr. 21/1991. Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gildi ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitameðferð varnaraðila. Ágrein­ings­laust sé að LBI hf. sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð þar sem tilgreind ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi við.

                Í XVIII. kafla laganna sé áðurnefnd 117. gr. laganna. Varnaraðili byggir á því að hið sama gildi um inn­stæðu­kröfur og um allar aðrar lýstar kröfur við slitameðferð varnaraðila, þ.e. að kröfu­hafi þurfi að láta í ljós í kröfulýsingu hvaða stöðu hann telji sig eiga að njóta í rétt­inda­röð. Önnur túlkun brjóti í bága við meginreglu gjald­þrota­rétt­ar­ins um jafnræði kröfu­hafa við búskipti. Varnaraðili byggir á því að þrátt fyrir að sókn­ar­aðili hafi ekki krafist þess berum orðum að krafa hans nyti stöðu sem almenn krafa sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 verði ekki ráðið af kröfu­lýs­ingu hans að hann krefjist for­gangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slita­með­ferð varn­ar­aðila og hafi slík krafa ekki komið fram fyrir lok kröfulýsingarfrests.

                Sóknaraðili telji það til marks um meintan skýrleika kröfu­lýs­ingar sinnar, að slita­stjórn varnaraðila hafi verið ljóst frá því hún tók við kröfu­lýs­ing­unni að krafan væri til komin vegna heildsöluinnlána og væri af þeim sökum for­gangs­krafa. Því til stuðn­ings sé vísað til skýrslu varnaraðila um afstöðu til viðurkenningar krafna. Varn­ar­aðili mót­mælir þessari málsástæðu sóknaraðila enda verði ekki séð hvernig hún geti leitt til þess að krafa sókn­ar­aðila verði viður­kennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Varn­ar­aðili vísar til þess að allir kröfuhafar í sambærilegri stöðu hafi verið meðhöndl­aðir á sama hátt við slita­með­ferð varnaraðila. Þannig hafi slita­stjórn varn­ar­aðila viður­kennt kröfur þeirra heild­sölu­innlánskröfuhafa sem lýstu kröfum sínum með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem forgangs­kröfum sam­kvæmt til­greindu lagaákvæði við slitameðferð varn­ar­aðila. Jafn­framt hafi slita­stjórn varnar­aðila viðurkennt kröfur þeirra heild­sölu­inn­láns­kröfu­hafa sem annað­hvort lýstu kröfum sínum með vísan til 113. gr. laga nr. 21/1991 eða án þess að til­greina stöðu kröfu í réttindaröð sem almennra krafna sam­kvæmt 113.gr. laga nr. 21/1991 við slita­með­ferð­ina.

                Þeirri málsástæðu sóknaraðila að slitastjórn varnaraðila hafi ekki upplýst sókn­ar­aðila að áskilið væri í lögum að lýsa þyrfti stöðu kröfunnar í rétt­inda­röð, og að staðlað kröfulýsingarform frá slitastjórn varnaraðila hefði ekki verið aðgengi­legt kröfu­höfum frá innköllun, sé mótmælt í heild sinni enda hafi hún ekki laga­stoð. Varn­ar­aðili byggir á því að sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni á hendur varnar­aðila á eigin ábyrgð og áhættu. Það hafi endanlega verið á ábyrgð sóknaraðila, sem kröfu­lýs­anda, að lýsa kröfu sinni á þann hátt að hún stæðist kröfur íslenskra laga, þar á meðal 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi sjálfur borið ábyrgð á því að útbúa kröfu­lýs­ingu sína og verði því sjálfur að bera ábyrgð á meintum mistökum við gerð hennar. Varnaraðili vísar til þess að um slitameðferð LBI hf. gildi íslensk lög sam­kvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002. Hann áréttar ákvæði 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 þar sem segi að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um gjald­þrota­skipti gildi um meðferð krafna á hendur fjár­mála­fyrir­tæki við slit þess, sbr. meðal ann­ars 117. og 118. gr. laga nr. 21/1991. Ekki stoði fyrir sóknar­aðila að bera fyrir sig van­þekk­ingu á íslenskum gjaldþrotarétti enda hafi sóknaraðila verið í lófa lagið að leita sér ráð­gjafar um tegundir og rétthæð krafna á hendur varnaraðila. Engar þær skyldur, sem sóknar­aðili byggi á, verði lagðar á slitastjórn varnaraðila, eða skiptastjóra almennt. Þá vísar varnaraðili til þess sem greinir í kröfulýsingu sókn­ar­aðila að kröf­unni hafi verið lýst í samræmi við tilkynningu sem birt var á vefsíðu varn­ar­aðila 8. maí 2009. Í þeirri frétt hafi verið tekið fram að 117. gr. laga nr. 21/1991 ætti við um form og efni krafna sem lýst væri á hendur varnaraðila. Þá hafi verið tekið fram að ekki væri skilyrði að kröfu­lýsing þyrfti að vera á ákveðnu formi en hún þyrfti að upp­fylla nánar tilgreind skil­yrði samkvæmt 117. gr. laga nr. 21/1991, þar á meðal þyrfti kröfu­hafi að taka fram hvaða stöðu í kröfuröð hann krefðist að krafa hans nyti. Varn­ar­aðili vísar jafn­framt til innköllunar sinnar þar sem fram komi að efni kröfu­lýs­ingar skuli vera í samræmi við fyrirmæli 2. og 3. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Auk fram­an­greinds vísar varnaraðili til þess að ekki sé til lagastoð fyrir því að krafa sóknaraðila njóti stöðu forgangskröfu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, á grundvelli til­greindra máls­ástæðna sóknaraðila.

                Þá mótmælir varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann hafi brugð­ist við um leið og hann hafi orðið þess áskynja að varnaraðili hygðist flokka kröf­una sem almenna kröfu, áður en formleg afstaða slitastjórnar til kröfunnar lá fyrir. Til­greind máls­ástæða hafi ekkert með það að gera hvort viðurkenna beri kröfu sókn­ar­aðila í mál­inu. Þá vísar varnaraðili til þess að krafa sóknaraðila um rétthæð sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 hafi fyrst komið fram í bréfi sóknaraðila til varnar­aðila, dags. 27. októ­ber 2010. Eins og ítrekað hafi komið fram hafi kröfu­lýs­ing­ar­frestur við slita­með­ferð varnaraðila runnið út 30. október 2009. Krafa sókn­ar­aðila um for­gang samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 hafi því þegar verið fallin niður fyrir van­lýs­ingu þegar varn­ar­aðila barst bréf sóknaraðila, 28. október 2010. Varnaraðili bendir á að slita­stjórn bar ekki fyrr en að kröfulýsingarfresti loknum að gera skrá um þær kröfur sem höfðu komið fram og taka afstöðu til þeirra, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991. Í sam­ræmi við allt framangreint hafi slitastjórn verið ófært, á grund­velli meg­in­reglu laga nr. 21/1991 um jafnræði kröfuhafa við búskipti, að sam­þykkja aðra rétthæð en sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 þegar hún tók afstöðu til lýstrar kröfu sókn­ar­aðila.

                Varnaraðili mótmælir að öðru leyti öllum málsástæðum sóknaraðila fyrir kröfu um rétthæð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem ósönnuðum og/eða tilhæfulausum. Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er þess krafist að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

                Varnaraðili vísar til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki með síðari breyt­ingum, laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sér­stakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og laga nr. 98/1999, um inn­stæðu­tryggingar og trygg­inga­kerfi fyrir fjárfesta. Þá vísar varnaraðili til almennra meginreglna gjald­þrota­skipta­laga og skuldaskilaréttar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Niðurstaða

                Málsaðilar deila hvorki um fjárhæð kröfu sóknaraðila né að fjárkrafa hans grund­vallist á inn­lánum sem séu innstæður í þeirri merkingu sem það orð hefur í lögum nr. 98/1999 um innstæðu­trygg­ingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og ætti því, sam­kvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, að njóta rétthæðar sam­kvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjald­þrotaskipti o.fl., væru önnur skil­yrði uppfyllt.

                Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti o.fl. um meðferð krafna á hendur fjármála­fyrir­tæki við slit þess. Í XVIII. kafla laga nr. 21/1991 er 117. gr. Þar segir meðal annars að kröfu­lýs­ing skuli vera skrifleg og tekið fram í hvers þágu hún sé gerð, svo ekki verði um villst. Í henni skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð.

                Í fræðum og framkvæmd hefur verið talið að í þessu ákvæði fælist að kröfuhafi yrði að taka berum orðum fram ætlaðist hann til þess að krafa hans nyti annarrar stöðu í kröfuröð en almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

                Sóknaraðili telur kröfulýsingu sína afdráttarlaust uppfylla skilyrði 117. gr. þrátt fyrir að hann hafi ekki tilgreint sérstaklega hvaða stöðu hann teldi kröfu sína eiga að njóta við slit varnaraðila. Hann telur slitastjórn hafa frá upphafi vitað og litið svo á að hann hefði lýst forgangskröfu samkvæmt 112. gr., meðal annars þar sem hann taki fram í kröfulýsingunni að hann sé heild­sölu­inn­láns­hafi/heild­sölu­láns­veit­andi (e. whole­sale depositor).

                Hæstiréttur hefur í þremur málum, þar sem reyndi á sambærileg málsatvik, hafnað því að tegund fjárkröfunnar sem forgangskröfu og efnisleg tilgreining hennar í kröfu­lýsingu, til dæmis sem heild­sölu­inn­stæðu/­heild­sölu­inn­láns (wholesale deposit) eða að hún byggist á innstæðusamningi (the claim concerns a deposit agreement) geti vegið upp þann annmarka að kröfuhafa láðist að taka sér­stak­lega fram að kröfunni væri lýst sem forgangskröfu eða vísa til 112. gr. laga nr. 21/1991.

                Í ljósi þessara dóma, og þá einkum dóms Hæstaréttar í máli nr. 182/2013, þykir sú tilgreining sóknaraðila í kröfulýsingu að hann sé heildsöluinnlánshafi ekki full­nægja þeim kröfum 117. gr. að tilgreint sé í kröfulýsingu hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í kröfu­röð. Fylgi­gögn með kröfulýsingunni geta ekki bætt þar úr skák. Hér getur ekki heldur haft þýðingu þótt slitastjórn hafi litið á innlán sem forgangs­kröfur og flokkað þau með þeim þegar þeirri stöðu lánanna í forgangsröð krafna var rétti­lega lýst. Jafnframt er ekki fallist á að slitastjórn hafi borið að benda sóknaraðila á ann­marka á kröfugerð áður en kröfulýsingarfrestur rann út enda hefði slitastjórnin þá gróf­lega brotið gegn regl­unni um jafnræði kröfuhafa gagnvart þeim sem lýstu kröfum sínum á ófull­nægj­andi hátt á síðustu dögum frestsins. Þegar sóknaraðili reyndi að bæta úr annmarka á kröfu­lýsingunni með bréfi til slitastjórnar, 27. október 2010, var nánast liðið ár frá því að kröfulýsingarfrestur rann út 30. október 2009. Leiðrétting sóknar­aðila á kröfu hans um röðun fjárkröfunnar í kröfuröð gat því ekki þá komið til álita.

                Af þessum sökum er fallist á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki í kröfu­lýs­ingu sinni til­greint hvaða stöðu hann teldi kröfu sína eiga að njóta við slitin og því verði hún flokkuð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Sam­kvæmt þessu verður einnig staðfest afstaða slitastjórnar til kröfunnar.

                Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveð­inn 750.000 krónur en við ákvörðun hans var tekið tillit til þingfestingargjalds sem varnaraðili greiddi ríkissjóði svo og skyldu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

                Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Newcastle Building Society, að fjárkrafa hans á hendur varnaraðila, LBI hf., 11.164.613,69 bresk pund, njóti, við slitameðferð varn­ar­aðila, stöðu í kröfuröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Staðfest er að krafan njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga 21/1991.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 750.000 krónur í málskostnað.