Hæstiréttur íslands
Mál nr. 327/2002
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sönnunarmat
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 14. nóvember 2002. |
|
Nr. 327/2002. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Hermanni Agnari Sverrissyni (Róbert Árni Hreiðarsson hdl.) |
Líkamsárás. Sönnunarmat. Meðdómendur. Ómerking héraðsdóms.
H var gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa í átökum við Á slegið hann í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Var hann sakfelldur í héraðsdómi og dæmdur til að sæta fangelsi í einn mánuð, en sú refsing skilorðsbundin. Jafnframt var Á ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. sömu laga og var hann einnig sakfelldur fyrir brotið en ekki gerð sérstök refsing. Við rannsókn lögreglunnar voru teknar skýrslur af H og Á en jafnframt af tveimur vitnum, sem voru í för með H umrætt sinn. Sömu menn gáfu skýrslur fyrir dómi, auk dyravarðar á veitingahúsinu þar sem atvikin áttu sér stað. Talið var að eins og málið væri vaxið hafi héraðsdómara frá öndverðu mátt vera ljóst að niðurstaða þess mundi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Að auki hafi staðið svo á að enginn hafi fyrir dómsmeðferð málsins borið um að H hafi slegið Á í andlitið, annar en Á sjálfur, og málið hafi heldur ekki verið upplýst frekar að þessu leyti fyrir héraðsdómi. H væri borinn sökum um brot, sem varðað gæti þungri refsingu. Að þessu öllu athuguðu hefði að réttu lagi borið að neyta í héraði heimildar laga um meðferð opinberra mála til að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Var óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði látin falla niður eða hún milduð.
Lögreglustjórinn í Reykjavík höfðaði mál þetta með ákæru 3. júlí 2001. Var ákærða gefið þar að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa að morgni sunnudagsins 12. mars 2000 í átökum við Árna Gunnarsson á veitingahúsinu Kaffi Thomsen við Hafnarstræti í Reykjavík slegið Árna í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Sami lögreglustjóri höfðaði jafnframt mál 3. júlí 2001 á hendur Árna Gunnarssyni fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga með áorðnum breytingum með því að hann hafi á fyrrgreindum stað og tíma slegið ákærða í þessu máli í átökum með þeim afleiðingum að hann marðist og bólgnaði í andliti. Þessi tvö mál virðast hafa verið rekin samhliða fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og dómar kveðnir upp í þeim 6. júní 2002. Í dóminum á hendur Árna var hann sakfelldur fyrir brotið, sem í ákæru greindi, en honum ekki gerð sérstök refsing. Með hinum áfrýjaða dómi í þessu máli var ákærði jafnframt sakfelldur samkvæmt ákæru. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í einn mánuð, en sú refsing bundin skilorði. Þá var honum gert að greiða sakarkostnað, svo og að greiða Árna skaðabætur, allt eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi.
Við rannsókn lögreglunnar á framangreindum atvikum voru teknar skýrslur af ákærða og Árna Gunnarssyni, en jafnframt af tveimur vitnum, sem voru í för með ákærða umrætt sinn. Annað þessara vitna mun vera náið skyldmenni ákærða, en hitt vitnið að sögn í engum tengslum við hann, heldur í vinfengi við fyrrnefnda vitnið. Var haft eftir Árna í frumskýrslu lögreglunnar um málið að ákærði hafi að undangengnum stuttum orðaskiptum þeirra á áðurnefndu veitingahúsi slegið sig í andlitið með þeim afleiðingum að nef hans hafi brotnað. Í framhaldi af því hafi hann hrint ákærða frá sér, sparkað í hann og kýlt, þar til dyraverðir á veitingahúsinu skildu þá að. Var frásögn, sem lögreglan hafði í sömu skýrslu eftir ákærða, á sama veg um átök þeirra að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa slegið Árna í andlitið. Vitnin, sem áður er getið, sögðust báðir hafa verið að ræðast við á veitingahúsinu þegar þeir urðu þess varir að ákærði átti rétt hjá þeim í útistöðum við annan mann. Sá hafi slegið ákærða þannig að hann féll í gólfið, en dyraverðir komið strax og skilið þá að. Frekari gagna var ekki aflað fyrir útgáfu ákæru um átök ákærða við Árna og aðdraganda þeirra.
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi gáfu skýrslur sömu menn og áður er getið. Var frásögn þeirra efnislega á sama veg og fyrir lögreglu, en þó ítarlegri. Kom meðal annars fram hjá vitnunum tveimur að þeir hafi ekki séð samskipti ákærða við Árna Gunnarsson fyrr en vitnin urðu varir við háreysti tveimur eða þremur metrum frá sér. Þeir hafi þá litið við og séð Árna slá ákærða í andlitið, þannig að hann féll í gólfið, en rakleitt eftir það hafi fjöldi manna komið til að skilja þá að. Kvaðst hvorugt vitnið hafa orðið vart við að ákærði hafi áður slegið Árna. Fyrir héraðsdómi var leitt eitt vitni enn, sem virðist ekki hafa verið nefnt til sögunnar þegar málið var til rannsóknar hjá lögreglunni. Kvaðst maður þessi hafa verið við störf sem dyravörður á veitingahúsinu umrætt kvöld. Hann bar ekki um átökin sem slík milli ákærða og Árna, en greindi á hinn bóginn meðal annars frá komu Árna á veitingahúsið og því hvernig hann ásamt öðrum dyraverði hafi farið með þá Árna og ákærða út fyrir húsið eftir að þeir höfðu verið skildir að.
Eins og mál þetta var vaxið samkvæmt framansögðu mátti héraðsdómara frá öndverðu vera ljóst að niðurstaða þess mundi ráðast af mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi. Að auki stóð svo á að enginn hafði fyrir dómsmeðferð málsins borið um að ákærði hafi slegið Árna Gunnarsson í andlitið, annar en Árni sjálfur, sem var þó um leið ákærður fyrir afleiðingarnar af sínum þætti í átökunum. Varð málið heldur ekki upplýst frekar að þessu leyti við meðferð þess fyrir héraðsdómi. Í málinu var ákærði borinn sökum um brot, sem varðað getur þungri refsingu. Að þessu öllu athuguðu hefði að réttu lagi borið að neyta í héraði heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum til að þrír dómarar skipuðu dóm í málinu. Með því að þess var ekki gætt er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins í héraði frá og með því stigi, sem munnleg skýrsla var tekin af ákærða í þinghaldi 18. desember 2001. Verður málinu heimvísað til löglegrar meðferðar.
Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða á báðum dómstigum, sem ákveðin eru í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur ásamt meðferð málsins í héraði frá þinghaldi 18. desember 2001. Er málinu heimvísað til löglegrar meðferðar.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Hermanns Agnars Sverrissonar, á báðum dómstigum, Róberts Árna Hreiðarssonar héraðsdómslögmanns, samtals 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2002.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. maí sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík hinn 3. júlí 2001 á hendur Hermanni Agnari Sverrissyni, kt. 130974-5899, Stúfholti 1, Reykjavík, fyrir líkamsárás með því að hafa að morgni sunnudagsins 12. mars 2000, í veitingahúsinu Kaffi Thomsen, Hafnarstræti 17, Reykjavík, í átökum við Árna Gunnarsson, kt. 181268-5149, slegið Árna í andlitið með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði.
Þetta er talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 111. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá krefst Árni Gunnarsson þess að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 198.555 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. mars 2000 og dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr. sömu laga frá 12. apríl 2000.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins og af skaðabótakröfu, en til vara krefst hann þess að refsing ákærða verði felld niður eða honum dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að skaðabótakrafa verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málsvarnarlauna sem greidd verði úr ríkissjóði.
Aðalmeðferð í máli þessu fór fram samhliða aðalmeðferð í sakamáli nr. 1395/2001: Ákæruvaldið gegn Árna Gunnarssyni og voru aðila- og vitnaskýrslur í báðum málunum teknar í einu lagi.
Málsatvik og málsástæður
Samkvæmt lögregluskýrslum er upphaf máls þessa það, að klukkan 04:20, aðfaranótt sunnudagsins 12. mars 2000 hafi lögreglu borist tilkynning um átök tveggja manna við veitingastaðinn „Rex“, við Austurstræti í Reykjavík. Á vettvangi hafi hist fyrir tveir menn, Árni Gunnarsson og Hermann Agnar Sverrisson, ákærði í máli þessu. Hafi þeir ekki verið í átökum þegar lögreglu bar að. Samkvæmt skýrslunni kom Árni að máli við lögreglu og sagðist ætla að kæra ákærða fyrir líkamsárás. Hefði Árni borið, að hann væri nú „á skilorði síðan í apríl“ eftir að hafa setið í fangelsi í níu mánuði fyrir nauðgun. Árni og ákærði væru gamlir vinnufélagar en milli þeirra hefðu verið ýfingar eftir að báðir höfðu lagt ást til sömu konu. Hefðu þeir mæst fyrir utan veitingastaðinn og ákærði þá tekið að hrópa ýmis ókvæðisorð að Árna og meðal annars kallað hann „nauðgara“. Hefði Árni þá gengið brott en ákærði ráðist á sig. Árna hefði hins vegar fljótt tekist að taka ákærða niður.
Samkvæmt lögregluskýrslu viðurkenndi ákærði að hafa kallað Árna „nauðgara“ en bar að Árni hefði ráðist á sig og kýlt sig.
Samkvæmt annarri lögregluskýrslu bar það við kl. 06:49 hina sömu nótt að lögregla var kvödd að skemmtistaðnum „Kaffi Thomsen“ við Hafnarstræti í Reykjavík. Hittust þar enn fyrir ákærði og áðurnefndur Árni Gunnarsson en auk þeirra þeir Jón Ágúst Hermannsson og Pétur Lúðvík Lentz. Samkvæmt skýrslunni höfðu þeir Árni og ákærði verið að slást þar á staðnum. Er í skýrslunni haft eftir Árna að hann hefði rekist á ákærða á dansgólfi staðarins og ákærði þegar tekið til að við hrópa að sér ókvæðisorð. Árni hefði þá spurt ákærða hvort framhald yrði á þessum hrópum hans en verið svarað með höggi beint á nefið. Hefði Árni þá hrundið ákærða frá sér og sparkað og kýlt í höfuð hans en skömmu síðar hefðu dyraverðir skilið þá að.
Samkvæmt skýrslunni bar ákærði fyrir sitt leyti að hann hefði hitt Árna þarna á staðnum og tekið að hreyta í hann fúkyrðum. Hefði Árni þá sparkað og kýlt í höfuð sitt og þeir slegist þar til dyraverðir hefðu gengið á milli.
Eftir þeim Jóni Ágústi og Pétri Lúðvík er það haft að þeir hafi séð Árna ráðast að ákærða og sparka og kýla í höfuð hans. Báðir hafi þó tekið fram að þeir hafi ekki séð upptök slagsmálanna.
Í málinu liggur fyrir vottorð Einars Thoroddsens læknis á háls- nef- og eyrnadeild Borgarspítala þess efnis að hinn 14. mars 2000 hafi Árni Gunnarsson komið á deildina, nefbrotinn eftir að hafa verið kýldur aðfaranótt 12. mars.
Þá liggur fyrir vottorð Ólafs R. Ingimarssonar læknis á slysadeild Borgarspítala og segir þar að ákærði hafi komið á deildina að morgni 12. mars 2000 bólginn undir öðru auga og með mar á andliti.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði, Hermann Agnar Sverrisson, bar að hann hefði verið ásamt tveimur vinum sínum á „Kaffi Thomsen“ og hefði Árni Gunnarsson þá komið að sér og tekið að ausa sig svívirðingum sem ákærði hefði þá reynt að svara með sama hætti. Skyndilega hefði Árni slegið ákærða í andlitið. Ákærði hefði reynt að svara í sömu mynt en hálfgert vindhögg orðið úr og gæti hann enga skýringu gefið á nefbroti Árna. Hugsanlega hefði Árni dottið á andlitið þegar þeir hefðu farið í gólfið. Þá hefði Árni hrint sér í jörðina og sparkað einu sinni í höfuð sér og í maga. Ákærði sagði, sérstaklega spurður, að hann hefði fallið aftur fyrir sig í gólfið en ekki dottið á pallinn eða á borð. Er dyraverðir hefðu komið og skilið þá að hefði Árni verið að leggjast ofan á ákærða í gólfinu. Ákærði var spurður hver hefðu verið tildrög þess að Árni hefði slegið ákærða og taldi ákærði sig sennilega hafa sagt eitthvað sem Árna hefði ekki líkað. Ákærði fullyrti hins vegar að það hefði verið Árni sem hefði hafið bæði svívirðingar og slagsmál þeirra í millum, en svívirðingarnar hefðu að sönnu gengið á báða bóga.
Vitnið Árni Gunnarsson bar að umrætt kvöld hefði hann verið að koma frá vinnu sinni á veitingastaðnum „Einari Ben“. Þegar hann hefði verið kominn í Austurstræti við veitingastaðinn „Rex“ hefði hann mætt ákærða sem hefði stöðvað sig og viljað „tala um þetta“ eins og ákærði hefði orðað það. Í ljós hefði komið að þar ætti ákærði við refsidóm er vitnið hefði hlotið og hefði ákærði tekið að svívirða vitnið og meðal annars kallað það nauðgara. Vitnið hefði ekki talið sig þurfa að standa ákærða skil á sínum málum og hefði kurteislega beðið hann um að láta af þessu. Vitnið hefði því næst gengið brott en þá séð útundan sér að ákærði ætlaði að ráðast á sig. Hefði sér þá tekist einhvern veginn að snúa hann niður og halda honum. Því næst hefði vitnið hringt á lögreglu sem hefði komið og rætt við þá en að því búnu hefði vitnið haldið sína leið. Vitnið tók fram, að það sjálft hefði verið allsgátt en ákærði ölvaður.
Nokkrum klukkustundum síðar hefði vitninu verið gengið inn á skemmtistaðinn „Kaffi Thomsen“ og strax er inn var komið hefði það rekist á ákærða. Sá hefði þegar tekið að svívirða vitnið á nýjan leik og fullyrt að það hefði nauðgað hinum og þessum konum. Vitnið hefði spurt hvaða efni ákærði hefði á slíkum aðdróttunum og sagt að ákærði og hans fjölskylda hefðu nú engin efni á slíku. Þau væru bara fyllibyttur. Jafnskjótt hefði vitnið fengið högg og svo séð blóð spýtast um allt. Skyrta sín hefði þannig öll orðið blóðug. Vitnið hefði þá fengið „kannski eitthvað svona kast“ og hrint ákærða frá sér eða kýlt hann í bringuna. Svolítil upphækkun hefði verið þar sem þeir stóðu og þar hefðu verið stólar og borð. Taldi vitnið að ákærði hefði fyrst dottið með andlitið á þessa upphækkun og myndi það skýra áverka á andliti hans. Ákærði hefði legið í gólfinu og vitnið hefði „danglað“ einu sinni eða tvisvar í bringuna á honum en svo komið tveir dyraverðir og skilið þá að. Vitnið tók fram, að það væri ekki visst hvort það hefði slegið til ákærða eða aðeins ýtt honum frá sér en það hefði hvorki slegið né sparkað í höfuð hans. Vitnið sagðist hafa óskað eftir því að lögregla yrði kvödd á staðinn en dyraverðirnir hefðu ekki viljað það en farið út með vitninu. Þar hefði vitnið hringt á lögreglu og hún komið með eftirgangsmunum. Lögregla hefði yfirheyrt ákærða og vitnið og flutt þá á slysavarðstofu. Í ljós hefði komið að vitnið var nefbrotið.
Vitnið neitaði því sérstaklega að það hefði slegið ákærða að fyrra bragði. Vitnið hefði setið í fangelsi og verið búið að búa sig undir að fá að heyra eitt og annað þegar út kæmi og myndi ekki fara að lemja menn þó þeir segðu eitthvað miður fallegt um sig. Þá hefði vitnið verið allsgátt. Enn fremur lagði vitnið áherslu á það, að það hefði verið það sem tvívegis kallaði lögreglu á vettvang eftir skipti þeirra ákærða. Þá nefndi vitnið að þegar það hefði komið til lögreglu og kært ákærða fyrir líkamsárás hefði það óskað eftir því að fundnar yrðu myndbandsupptökur frá Austurstrætinu þar sem þær myndu sýna að ákærði hefði átt upptökin að snerru þeirra þar.
Vitnið sagði, að fyrir mörgum árum hefði það farið að skemmta sér með kunningja sínum og hefðu þeir hitt tvær konur og tekið að dansa við þær. Vitnið hefði svo keyrt þær heim en daginn eftir hefði það sent annarri þeirra blóm, enda hefði það ekki vitað til þess að hún væri neinum lofuð. Á daginn hefði hins vegar komið að hún hefði verið unnusta ákærða og hefði ákærði ekki tekið þessu betur en svo að er þeir hefðu hist fyrir tilviljun á skemmtistað nokkrum vikum síðar hefði hann hótað að drepa vitnið ef það sendi konunni aftur blóm eða hefði uppi aðra tilburði við hana. Væri þetta það eina sem vitnið taldi geta skýrt misklíð þeirra.
Ákærði og vitnið Árni voru samprófaðir og hélt hvor fast við sinn framburð.
Vitnið Pétur Lúðvík Lentz flugmaður kvaðst hafa verið statt á „Kaffi Thomsen“ umrædda nótt og verið að ræða við mann að nafni Jón Hermannsson þegar vitnið hefði heyrt einhver orðaskipti fyrir aftan sig. Vitnið hefði snúið sér við og séð að slegið var í andlit ákærða sem hefði baðað út höndum, eflaust til þess að verjast, og fallið í gólfið, til hliðar að því er vitnið minnti. Hópur fólks hefði svo komið og skilið bardagamenn að. Vitnið hefði farið af staðnum mjög fljótt eftir að þetta hefði gerst og „í sjálfu sér“ ekki átt nein samskipti við ákærða en þó séð að hann hefði verið eitthvað bólginn í andliti. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða slá til árásarmanns síns og ekki kvaðst vitnið hafa séð blóð á þeim er sló ákærða. Vitnið kvaðst hafa staðið á að giska tvo til þrjá metra frá vettvangi og ekkert sérstakt hefði skyggt á. Vitnið var nánar spurt um þau orð sín að það hefði ekki séð blóð á þeim er sló ákærða og sagði vitnið þá að það hefði ekki séð framan í hann. Vitnið sagðist hafa séð manninn á hlið. Er vitnið var enn frekar spurt taldi það sig þó hafa séð framan í manninn en enga áverka á honum séð.
Vitnið var sérstaklega spurt hvort verið gæti að árásarmaðurinn hefði hrint ákærða en ekki slegið hann og bar vitnið að það hefði séð ákærða sleginn og höggið hefði komið í andlitið en vitnið treysti sér ekki til að fullyrða að slegið hefði verið með krepptum hnefa.
Vitnið kvaðst aldrei hafa séð ákærða sparka í árásarmanninn og ekki séð hann hafa nokkra tilburði til að slá hann. Árásarmaðurinn hefði hins vegar verið æstur.
Vitnið var spurt hvort það hefði séð upphaf átakanna og sagði vitnið að þeir hefðu staðið „það nálægt að mér finnst það vera víst“.
Vitnið Jón Ágúst Hermannsson úrsmiður, móðurbróðir ákærða, sagðist hafa verið á „Kaffi Thomsen“ og verið að ræða við Pétur Lentz er þeir hefðu heyrt rifrildislæti. Þeir hefðu snúið sér við og vitnið þá séð hvar Árni Gunnarsson hefði ráðist að ákærða og kýlt hann í andlitið. Læti hefðu orðið og fólk drifið að. Árni hefði haldið áfram og ráðist að ákærða þar sem hann lá í gólfinu og sagði vitnið að sig minnti að Árni hefði sparkað í ákærða. Þó treysti vitnið sér ekki til að fullyrða að Árni hefði sparkað í ákærða en vitnið taldi hins vegar að Árni hefði lagst yfir ákærða. Dyraverði hefði borið að og þeir skilið ákærða og Árna að og fylgt Árna út, en hann hefði verið æstur og mikill æsingur verið í fólki. Ákærði hefði hins vegar frekar verið í varnarstöðu og reynt að jafna sig eftir höggið. Vitnið sagðist hafa farið að ákærða og reynt að hindra að frekari átök kæmu upp. Vitnið taldi að þeir Pétur hefðu verið tvo til þrjá metra frá átökunum. Vitnið sagðist ekki hafa séð ákærða gera neitt á móti.
Vitnið sagðist ekki muna til þess að hafa séð blóð á Árna en sérstaklega spurt sagðist vitnið engan veginn átta sig á því hvort áverkar hefðu verið á honum eða ekki.
Vitnið var sérstaklega spurt hvort það hefði séð upphaf átakanna og svaraði vitnið því svo til, að það hefði heyrt háreysti, snúið sér við og þá séð Árna slá í andlit ákærða. Vitnið sagði að sér þætti „afskaplega ólíklegt“ að ákærði hefði verið búinn að slá til Árna þegar vitnið sneri sér að þeim.
Vitnið Einar Ingi Marteinsson öryggisfulltrúi sagðist hafa starfað á „Kaffi Thomsen“ þegar umræddir atburðir gerðust. Vitnið sagðist hafa verið við inngang staðarins þegar sér hefði verið tilkynnt að „einhver vandræði“ væru inni á staðnum og hefði vitnið hlaupið þangað. Hefði vitnið þá séð Árna Gunnarsson og tvo eða þrjá aðra stráka og allir nema Árni verið mjög æstir. Hefðu menn þessir verið „greinilega fullir og undir einhverjum áhrifum“ og vitnið og annar dyravörður beðið menn um að koma með sér út í port þar sem útilokað hefði verið að ræða saman fyrir hávaða inni á staðnum. Er vitnið var nánar spurt út í ástand mannanna sagði það að þeir hefðu virst vera drukknir eða undir einhvers konar áhrifum. Er út hefði verið komið hefði vitnið séð að blæddi úr nefi Árna og hefði hann sagst hafa verið sleginn og hefði Árni beðið um að kallað yrði á lögreglu. Hefði Árna verið mjög áfram um að lögregla yrði kvödd til. Hinir mennirnir hefðu verið mjög æstir og hefði þurft menn til að halda þeim frá Árna svo þeir ekki rykju í hann. Árni hefði ekki verið æstur þegar þetta var en ákærði og félagar hans hefðu verið mjög æstir og hefðu þeir alls ekki viljað að kallað væri á lögreglu.
Vitnið sagði, að er það hefði komið að hefði Árni gengið aftur á bak að vegg en hinir verið þrír fyrir framan hann og allir með reidda hnefa. Einn þeirra, ákærði, hefði haft sig manna mest í frammi. Hinir tveir hefðu verið á svipuðu reki og hann og grannvaxnir. Menn þessir hefðu tilheyrt því sem kallað hefði verið „skopparahópur“, menn í hvítum fötum með hvítt aflitað hár, og yfirleitt slagsmál eða önnur vandræði í kringum þá.
Vitnið sagði að Árni Gunnarsson hefði oft komið á „Kaffi Thomsen“, ætíð verið allsgáður og þægilegur í framgöngu. Vitnið kvaðst hafa hitt Árna er hann kom á staðinn skömmu áður en átökin urðu og hefði þá ekkert blóð verið á honum.
Niðurstaða
Óumdeilt er að ýfingar urðu með ákærða og Árna Gunnarssyni umrædda nótt, fyrst með orðum einum en síðar urðu átök þeirra í millum. Deilt er hins vegar um upptök og umfang átakanna. Árni ber að ákærði hafi ítrekað kallað sig nauðgara og ákærði hefur fyrir dómi viðurkennt að hafa haft ýmsar óskilgreindar svívirðingar um Árna. Þá segir í lögregluskýrslu, sem gerð er eftir að lögregla hafði afskipti af ákærða og Árna í Austurstræti fyrr um nóttina, að ákærði hafi viðurkennt að hafa kallað Árna nauðgara. Þá er ekki ágreiningur um að Árni hafi mælt niðrandi orð um ákærða og fjölskyldu hans. Ákærða og Árna greinir á um upptök deilna sinna á „Kaffi Thomsen“ en hvor segir hinn hafa ausið sig svívirðingum að fyrra bragði. Framburður vitna hefur ekki orðið til að taka af öll tvímæli um þetta atriði. Árni hefur borið að hann sjálfur hafi verið allsgáður en ákærði drukkinn og sá framburður hans fær allnokkra stoð í framburði vitnisins Einars Inga Marteinssonar, en vitnið bar að Árni hefði verið rólegur en ákærði æstur og virst drukkinn eða undir öðrum áhrifum. Ummæli vitnisins um „skopparahóp” þykja þó ekki geta átt við ákærða og vitnin Pétur Lúðvík og Jón Ágúst. Einnig verður að líta á orð vitnisins um æsing ákærða í því ljósi að vitnið ber um ástand ákærða eftir að átökin höfðu átt sér stað.
Vitnið Einar Ingi Marteinsson hefur borið að ekki hafi verið blóð á Árna er hann kom á „Kaffi Thomsen“ en er Árni fór út skömmu síðar, og hafði þá lent í átökum við ákærða, hafi hann verið blóðugur í andliti. Upplýst er að ákærði og Árni lentu í átökum inni á staðnum. Þeir voru báðir fluttir á Slysadeild í beinu framhaldi samkvæmt skýrslu lögreglu. Fyrir liggur vottorð Einars Thoroddsens læknis þess efnis að Árni hafi verið greindur nefbrotinn og segir þar: „Beinpýramidi nefsins var dældaður niður vinstra megin og færður út yfir til hægri. Þetta var lagfært í staðdeyfingu og virtist takast ágætlega. Honum var uppálagt að koma aftur ef hann væri ekki ánægður með útlit nefsins.” Með framburði ákærða, vætti Einars Inga, því að Árni segir lögreglu stax að hann sé nefbrotinn, hann fer beint á Slysadeild og með áverkavottorði þykir sannað að Árni hafi nefbrotnað í átökum við ákærða, enda hefur ekki komið fram önnur skynsamleg skýring á meiðslum hans.
Ákærði viðurkennir að hafa slegið til Árna, en fullyrðir að það högg geti ekki hafa valdið nefbroti, heldur hafi verið einhverskonar vindhögg. Vitnin Pétur Lúðvík Lentz og Jón Ágúst Hermannsson sögðust hafa fylgst með þeim ákærða og Árna frá því Árni sló til ákærða og þar til þeir voru skildir að, og sögðust vitnin aldrei hafa séð ákærða slá til Árna. Telur Pétur Lúðvík sig hafa séð upphaf átakanna og Jón Ágúst telur ólíklegt að ákærði hafi verið búinn að slá Árna. Engu að síður þykir það geta samræmst framburði þeirra að átökin hafi verið byrjuð þegar þeir líta til, enda bera báðir að þeir hafi heyrt einhver rifrildislæti og þá snúið sér við. Þá sjá þeir báðir Árna slá ákærða. Þetta samræmist þeirri fullyrðingu Árna að ákærði hafi kýlt hann áður en Árni sló til ákærða og ákærði viðurkennir að hafa slegið til Árna. Áflogin voru stöðvuð af dyravörðum og fylgdi vitnið Einar Ingi aðilum út þar sem lögregla var kölluð til. Sú skýring að Árni hafi hlotið meiðslin við að reka sig í þykir vera langsótt Þykir með öllu þessu fram komin fullnægjandi sönnun þess, þrátt fyrir neitun ákærða, að hann hafi veitt Árna högg það sem leiddi til nefbrots hans og með því gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru og er þar rétt færð til refsiheimilda.
Eins og áður segir þykir dóminum ekki fyllilega sannað hvor þeirra ákærða og Árna hafði frumkvæði að gagnkvæmum svívirðingum þeirra. Allt að einu er það álit dómsins, að ákærði hafi haft um Árna orð sem líkleg eru til að hafa verið Árna afar þungbær og eins og áður sagði telur dómurinn að ákærði hafi verið fyrri til að slá Árna. Dómurinn telur hins vegar sannað að þá hafi Árni verið búinn að mæla niðrandi um ákærða og fjölskyldu hans. Þykir dóminum sem það megi verða til þess að milda refsingu ákærða með vísan til 3. mgr. 218. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði er fæddur árið 1974, hann gekkst á árinu 1990 tvisvar undir sátt vegna smávægilegra brota gegn fíkniefnalöggjöf og umferðarlögum. Sakarferill hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar. Þegar á alla málavexti er litið þykir refsing ákærða hæfileg eins mánaðar fangelsi. Fresta skal fullnustu refsingar ákærða og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Skaðabótakrafa
Skaðabótakrafa Árna Gunnarsonar að fjárhæð 198.555 krónur ásamt vöxtum var kynnt ákærða af lögreglu 1. febrúar 2001 og hafnaði hann henni. Krafan var reifuð við aðalmeðferð málsins. Hún sundurliðast þannig: miskabætur 150.000 krónur og lögfræðiaðstoð 48.555 krónur. Er hún rökstudd með tilvísun til málsatvika og afleiðinga háttsemi ákærða sem staðfest er með áverkavottorði Einars Thoroddsens læknis. Í kröfubréfi lögmanns brotaþola frá 30. janúar 2001 er bótakrafan síðan rökstudd með því að um ólögmæta meingerð hafi verið að ræða gagnvart brotaþola sem ákærði beri ábyrgð á og hafi valdið honum þjáningum og miska. Hann hafi þurft að fara í aðgerð til að lagfæra nefbrotið. Sé því krafist miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig sé með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 krafist skaðabóta vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfunni
Ákærði hefur gerst skaðabótaskyldur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga með háttsemi þeirri sem hann er sakfelldur fyrir. Þykja miskabætur samkvæmt dómvenju hæfilega ákvarðaðar 100.000 krónur. Kostnaði vegna lögfræðiaðstoðar er í hóf stillt og er krafan 48.555 krónur tekin til greina. Almennir vextir skulu greiddir frá brotadegi 12. mars 2000, sbr. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, en dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. mars 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá þeim tíma til greiðsludags.
Ákærði skal greiða allan sakarkostnað af máli þessu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Róberts Árna Hreiðarssonar, héraðsdómslögmanns, sem ákvarðast 85.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Katrínu Hilmarsdóttur fulltrúa lögreglustjórans í Reykjavík.
Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Hermann Agnar Sverrisson, sæti fangelsi í einn mánuð. Fullnustu refsingarinnar skal fresta og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði sakarkostnað allan, þar með talin málsvarnarlaun verjanda, Róberts Árna Hreiðarssonar, héraðsdómslögmanns., 85.000 krónur.
Ákærði greiði Árna Gunnarssyni, kt. 181268-5149, skaðabætur að fjárhæð 148.555 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. mars 2000 til 1. mars 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga 25/1987, sbr. vaxtalög 38/2001, frá þeim tíma til greiðsludags.