Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2014


Lykilorð

  • Fíkniefnalagabrot
  • Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
  • Sakhæfi
  • Aðfinnslur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. febrúar 2015.

Nr. 85/2014.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Þórarni Einarssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Fíkniefnalagabrot. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Sakhæfi. Aðfinnslur.

Með dómi héraðsdóms var Þ sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 1049,72 g af kókaíni, 2,59 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 g af hassi og umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti óskaði Þ eftir því að dómkvaddur yrði matsmaður til að meta sakhæfi sitt. Voru niðurstöður hennar í megindráttum þær að Þ væri sakhæfur og að geðræn einkenni hans útilokuðu ekki að refsing kæmi að gagni. Að virtu því mati og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða héraðsdóms staðfest um sakfellingu Þ og honum gert að sæta fangelsi í 18 mánuði. Þá var hann sviptur ökurétti í 12 mánuði og gerð upptæk þau fíkniefni sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega að honum verði ekki gerð refsing, en til vara að hún verði milduð.

Undir rekstri málsins fyrir Hæstarétti óskaði ákærði dómkvaðningar matsmanns sem falið yrði að meta sakhæfi ákærða, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða hvort að ætla mætti, með hliðsjón af andlegu heilsufari hans, að refsing myndi bera árangur, sbr. 1. mgr. 16. gr.  sömu laga. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2014 var Sigurður Páll Pálsson geðlæknir dómkvaddur til þess að framkvæma matið. Hann skilaði matsgerð sinni 11. desember 2014, en megin niðurstöður hans voru þær að ákærði væri sakhæfur samkvæmt 15. gr. almennra hegningarlaga og geðræn einkenni hans útilokuðu ekki að refsing kæmi að gagni, sbr. 16. gr. sömu laga. Að teknu tilliti til þessarar niðurstöðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu, heimfærslu til refsiákvæða, upptöku á haldlögðum fíkniefnum og sviptingu ökuréttinda ákærða.

Í hinum áfrýjaða dómi er ranglega á því byggt að ákærði hafi ekki áður sætt refsingu en með hliðsjón af því að langt er um liðið síðan ákærða var síðast gerð refsing hafa fyrri brot hans ekki áhrif við ákvörðun refsingar. Skal sú refsing sem honum var gerð með hinum áfrýjaða dómi standa óröskuð.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugast að rannsókn þess þáttar málsins sem varðar fíkniefnalagabrot ákærða sýnist að mestu hafa verið lokið í ársbyrjun 2012. Þrátt fyrir það var ekki ákært í málinu fyrr en 12. júlí 2013. Þá er þess jafnframt að gæta að áfrýjunarstefna var sem áður segir gefin út 31. janúar 2014, en fram er komið að Héraðsdómur Reykjaness sendi 17. febrúar sama ár dómsgerðir í málinu til ríkissaksóknara, sem afhenti ekki Hæstarétti málsgögn fyrr en 17. október 2014. Engar haldbærar skýringar hafa komið fram á framangreindum og ítrekuðum drætti sem er aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 886.943 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. janúar 2014.

                Mál þetta, sem var dómtekið 13. desember síðastliðinn, er höfðað með ákæru útgefinni af Ríkissaksóknara 12. júlí 2013 á hendur Þórarni Einarssyni, kennitala [...],[...],[...], „fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 22. desember 2011 staðið að innflutningi á 1049,72 g af kókaíni, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin, sem unnt er að framleiða um 1913 g af efni úr miðað við 21,4% meðalstyrkleika, flutti ákærði til Íslands sem farþegi með flugi HCC-904A frá Kaupmannahöfn, falin í plasthliðum á ferðatösku ákærða, en hann var handtekinn við komu til Keflavíkurflugvallar. Jafnframt með því að hafa á sama tíma flutt inn 2,59 g af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 g af hassi í ferðatösku sinni.“

                Er þetta talið varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að upptæk verði gerð ofangreind fíkniefni sem hald var lagt á samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

                Mál númer S-804/2013, sem höfðað var á hendur ákærða með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 16. september 2013, var einnig tekið fyrir og sameinað þessu máli, sbr. heimild í 1. mgr. 169. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Er málið höfðað á hendur ákærða „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, þriðjudaginn 12. mars 2013, ekið bifreiðinni [...], undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði (í blóði ákærða mældist 4,8 ng/ml af tetrahýdrókannabínóli) og því óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega suður Hringbraut, uns lögregla stöðvaði akstur ákærða á Sólvallargötu, á móts við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Reykjanesbæ. Enn fremur sem eigandi bifreiðarinnar, vanrækt vátryggingaskyldu hennar, en bifreið ákærða var óvátryggð er lögregla hafði afskipti ákærða umrætt sinn.“

                Er þessi háttsemi ákærða talin varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a, og 1. mgr. 93. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66/2006. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 5. gr. laga nr. 66/2006.

                Hvað varðar fyrrnefnda ákæru krefst ákærði þess aðallega að honum verði ekki gerð refsing eða að hún verði látin niður falla. Til vara krefst ákærði þess að refsing verði með vægasta móti og skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst ákærði vægustu refsingar vegna sakargifta samkvæmt síðarnefndu ákærunni. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þar með talin þóknun verjanda ákærða.

I

                Þann 22. desember 2011 hafði Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli afskipti af ákærða í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komu hans til landsins frá Kaupmannahöfn. Var ákærði með tvær töskur, eina stóra og aðra minni. Við skoðun tollvarða á stærri töskunni fannst í henni ætlað kókaín falið í plasthliðum töskunnar sem vigtaði 6,55 kíló tóm. Itemiser strokusýnavél gaf til kynna mjög háa svörun á kókaín. Í viðræðum við tollverði kvaðst ákærði halda að um 750 grömm af amfetamíni væri í töskunni. Þá var ákærði einnig með neysluskammta af kannabisefnum við komuna til landsins og fundust þau efni í stærri töskunni. Ákærði var handtekinn af lögreglu í þágu rannsóknar málsins og færður á lögreglustöð.

                Í skýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að við vigtun og greiningu efnisins hafi fundist samtals 1.049,72 grömm af kókaíni í hliðarspjöldum ferðatöskunnar sem ákærði hafi komið með til landsins. Í matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 11. janúar 2012 segir að efnasýni hafi innihaldið 39% kókaín, sem samsvari 44% af kókaínklóríði. Þá segir í útreikningum G verkefnastjóra að unnt væri að framleiða 1.913 grömm af kókaíni sem væri 21,4% að styrkleika úr 1.049,72 grömmum.

                Enn fremur segir í skýrslu tæknideildar að við vigtun og greiningu hafi fundist 2,59 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 grömm af hassi í farangri ákærða, svo og 1,95 grömm af kannabisefnum á heimili ákærða. 

                Ákærði greindi frá því í yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hefði farið til útlanda vegna þrýstings frá öðrum manni til þess að sækja eitthvað hressandi. Hefði hann grunað að um fíkniefni væri að ræða þegar talað hefði verið um 700 til 800 grömm. Ákærði kvað aðilann hafa hótað sér því að ef hann tæki þetta ekki að sér þá yrði búin til fölsk nauðgunarkæra. Þá greindi ákærði frá því að hann ætti von á sanngirnisbótum frá ríkinu og hefði honum einnig verið hótað því að hann fengi ekki þá peninga. Kvaðst ákærði ekki vita hver hefði hótað honum en hann hefði látið undan þessum þrýstingi tveimur dögum fyrir brottförina og hafi hann verið látinn kaupa farmiða sama dag. Rætt hefði verið við hann í síma en hann myndi ekki númerin sem hringt hefði verið úr. Ákærði kvaðst hafa flogið til Kaupmannahafnar þar sem hann hefði fengið fíkniefnin afhent og hafi sá sem það gerði talað íslensku. Greindi ákærði frá því að hann ætti að fá 500.000 krónur fyrir að koma með töskuna til landsins og hefði hann fengið hana afhenta á lestarstöð. Hann hefði sjálfur skoðað í töskuna en fundist eins og ekkert væri í henni og því hefði hann ekki getað vitað hvar fíkniefnin væru í töskunni. Spurður um það hvaða fíkniefni hefðu verið falin í ferðatösku hans kvaðst ákærði ekki hafa vitað það en sig hafi grunað að það væri spítt þegar talað hafi verið um hressingu.

                Ákærði kvaðst einnig hafa fengið afhentar 100.000 krónur sem hafi verið skildar eftir í kompu í sameign á stigagangi á heimili hans. Hann kvaðst einnig hafa fengið síma afhentan og hafi hann átt að kaupa símkort í Danmörku. Hafi hann sent vinkonu sinni SMS með dönsku símanúmeri. Þá greindi ákærði frá því að lagðar hefðu verið inn á reikning hans 70.000 krónur vegna breytinga á farmiða hans og 75.000 krónur vegna ferðarinnar. Þá kom fram hjá ákærða að hann hefði fengið þau skilaboð eða menn myndu bíða eftir honum við heimkomuna og hefðu þau skilaboð komið frá aðilanum sem bað hann um að fara í ferðina.

II

                Ákærði lagði fram greinargerð í málinu samkvæmt heimild í 1. mgr. 165. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Vísar ákærði til þess að í ljósi geðheilbrigðissögu hans og atvika málsins sé verulegur vafi á því hvort refsing muni bera árangur. Til að rannsaka það nánar og athuga ástand ákærða á þeim tíma sem hann hafi flutt efnin inn og hvernig hann leit á þær hótanir sem honum hafi borist sé nauðsynlegt að fá sálfræðing eða geðlækni til að leggja mat á hugarástand ákærða á þeim tíma sem hann hafi komið með efnin til landsins. Margt bendi til þess að dómgreind ákærða og raunveruleikamat hafi verið verulega brenglað á þeim tíma.

                Fari svo og að ákvæði 15. og 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga verði ekki talin eiga við um ákærða sé á því byggt að refsing skuli látin niður falla í samræmi við 2. mgr., sbr. 6. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða hafi verið hótað öllu illu færi hann ekki í ferðina að sækja fíkniefnin. Þessar hótanir hafi vakið hjá honum ótta um líf hans og heilbrigði og velferð sinna nánustu. Hafi sá ótti ákærða átt við rök að styðjast þar sem gengið hafi verið í skrokk á honum skömmu eftir að hann hafi farið í ferðina. Kveðst ákærði byggja á því að með þeim þvingunum sem hann hafi sætt í formi hótana sé verknaður hans refsilaus og beri að láta refsingu falla niður í samræmi við það. Til vara krefjist ákærði þess að refsing verði með vægasta móti og skilorðsbundinn að öllu leyti.

III

                Í vottorði A, sérfræðings í heimilislækningum, 13. október 2013 kemur fram að ákærði hafi átt við langvarandi þunglyndi að stríða og eftir höfuðhögg 1999 hafi líðan hans verið slæm. Hafi taugasjúkdómalæknir metið það svo að töluvert væri um geðræn einkenni að ræða eftir slysið og hafi ákærði verið sendur til geðlæknis sem hafi talið ákærða þjást af þunglyndi, einkum miklum kvíða, áhugaleysi, doðakennd og svefntruflunum, þar með talin einkenni sem bentu til breytinga á persónuleika eins og pirringi, stundum stuttum kveikjuþræði, hvatvísi og skapofsaköstum.

                Kveðst læknirinn hafa hitt ákærða alls í 24 skipti á síðustu 2 ½ ári. Ljóst sé af samtölum við ákærða að hann hafi átt við mikil andleg veikindi að stríða og stór hluti vanlíðunar hans sé hversu lítið hann geti gert sínum málum. Hann lifi í raun í núinu og geri ekki áætlanir. Hann hafi átt verulega erfiða ævi sem sé mótuð af veru hans á upptökuheimili og uppeldisaðstæðum. Þá segir að ákærði sé haldinn miklum kvíða og beyg og sé í raun hræddur við margt. Muni fangelsisvist ekki hafa nein áhrif á hann til bata heldur líklega valda honum meiri skaða og réttara væri að hann fengi viðunandi læknishjálp á viðhlítandi stofnun. Ástæður þess séu eftirfarandi: 1. Persónuleikatruflun eftir höfuðhögg, það er vefrænn skaði á heilavef; 2. Viðvarandi þunglyndi og kvíði og 3. Engin aðstaða í hefðbundnu fangelsi til að vista hann þar sem hann sé með lítið sjálfsmat og auðvelt að stýra honum. Engin sérfræðiaðstoð finnist í hefðbundnu fangelsi til að veita honum viðunandi meðferð.

                Vottorði A fylgdu eldri læknisfræðileg gögn þar á meðal tvö læknabréf B, dagsett 16. júní 2008 og 3. júní 2009, og læknisvottorð C sérfræðings í geðlækningum dagsett 16. febrúar 2001. Í vottorðinu segir meðal annars að allt bendi til að ákærði hafi orðið fyrir varanlegum geðrænum skaða af völdum vinnuslyss sem komi fram í alvarlegu þunglyndi, félagsfælni, persónuleikabreytingum, ofneyslu áfengis og miklum breytingum á félagslegri stöðu. Þá hafi skaðinn leitt til algjörrar óvinnufærni frá slysdegi og séu ekki horfur á veigamiklum breytingum hvað það varði.

IV

                Framburður ákærða og vitna fyrir dómi:

                Ákærði kannaðist við það fyrir dómi að hafa komið með fíkniefni til Keflavíkur frá Kaupmannahöfn 22. desember 2011. Hafi honum verið sagt að um væri að ræða kókaín en þegar hann hafi verið neyddur í ferðina hafi honum verið sagt að um fjörefni eða eitthvað örvandi væri að ræða og því hafi hann talið að efnið væri amfetamín. Þá gekkst ákærði við því að hafa haft með sér lítilræði af kannabisefni. Hvað varðaði kókaínið í töskunni þá kvaðst ákærði ekki hafa hugmynd um hvernig frá því hefði verið gengið. Tilurð þess að ákærði fór í ferðina til Kaupmannahafnar kvað hann hafa verið þá að aðili hafi beðið hann um að fara, fyrst með góðu, en hafi síðan haft í hótunum við hann þegar hann hafi ekki viljað fara. Ákærði kvað aðilann hafa hótað sér og fjölskyldu sinni líkamsmeiðingum og að ljúga upp nauðgun þannig að hann yrði kærður fyrir slíkan verknað. Einnig að sanngirnisbætur sem ákærði kvaðst hafa fengið frá ríkinu vegna dvalar á barnaheimili yrðu teknar af honum. Ákærði kvaðst ekki vita hver hefði hringt í hann enda hefði sá aldrei kynnt sig með nafni. Honum hefði verið sagt að fara til Kaupmannahafnar og bíða þar eftir fyrirmælum en þetta myndi enda með því að hann fengi tösku í hendur sem hann ætti að koma með til Íslands. Komið hafi verið til hans peningum með þeim hætti að þeir hafi verið settir í rafmagnskompu í sameign á heimili ákærða, einnig síma, en hann hafi verið látinn kaupa í hann símkort. Ákærði kvaðst hafa talið að hann ætti að koma með 700 grömm af örvandi efni eins og amfetamíni og hafi hann gert sér grein fyrir að um ólögleg fíkniefni væri að ræða. Ákærði kvaðst hafa fengið efnin afhent á brautarstöð við hliðina hótelinu sem hann hafi búið á eftir að hafa fengið með símtali fyrirmæli um að fara þangað. Þegar til Íslands væri komið hafi verið meiningin að taka á móti ákærða á flugvellinum. Ákærði kvaðst að átt að fá peninga fyrir að koma með efnin til landsins. Það hafi komið þannig til að hann hafi ætlað að draga sig út úr þessu en þá hafi honum verið hótað og boðnir peningar, en það hafi ekki haft nein áhrif á þá ákvörðun ákærða að bíða lengur heldur hótanirnar. Ákærði kvaðst ekki hafa leitt hugann að því hvað gert yrði við efnin þegar þau væru komin til landsins. Þá kvaðst ákærði ekki rengja framlagðar matsgerðir varðandi magn og styrkleika þeirra efna sem hann kom með til landsins.

                Ákærði kvaðst vera öryrki eftir vinnuslys og búa í leiguhúsnæði. Hafi hann fengið stóran og þungan spýtubattning í höfuðið úr 17 metra hæð og hlotið heilaskaða af. Þá kvaðst ákærði hafa fengið sanngirnisbætur frá ríkinu fyrir vist í Reykjahlíð og á unglingaheimili ríkisins vegna ofbeldis sem hann hafi verið beittur í Reykjahlíð af hálfu manns sem þar vann. Einnig kvaðst ákærði hafa orðið 18 ára unnustu sinni að bana og setið í gæsluvarðhaldi í átta og hálfan mánuð þótt rannsókn málsins væri lokið innan mánaðar. Hafi hann verið í lausagæslu í hegningarhúsinu og þar hafi hann orðið ruglaður af lyfi sem hann hafi fengið og farið að rífast við forstöðumanns fangelsisins og slegið til hans. Fangaverði hafi drifið að og hann verið hand- og fótjárnaður og haldið í einangrun í litlum klefa í fimm sólarhringa, járnaður við gólf og veggi og í framhaldinu hafður í rúma fimm mánuði til viðbótar í Síðumúlafangelsinu. 

                Vitnið D tollsérfræðingur greindi frá því að hann hafi haft afskipti af ákærða þegar hann hafi komið til landsins í desember 2011 og fundið fíkniefni í hliðunum á ferðatösku sem ákærði var með. Stungið hafi verið á hliðar töskunnar og þá hafi hvítt efni dottið út sem hafi verið mælt og gefið háa svörun við kókaíni. Það hafi verið falið í hliðarramma töskunnar. Viðbrögð ákærða hafi verið þau að um spýtt væri að ræða, líklega um 700 grömm. Haft hafi verið samband við lögreglu sem hafi tekið við rannsókn málsins.

                Vitnið E rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa haldið utan um rannsókn málsins og stýrt helstu þáttum hennar. Vitnið kvað ákærða hafa frá upphafi greint frá því að hann hafi verið neyddur í ferðina og hafi ákærði aðstoðað við rannsóknina eins og hann gat. Ekkert hafi þó komið fram sem bent hafi til þess að ákærði hafi verið neyddur í ferðina og ekkert hafi heldur komið fram sem hafi afsannað það. Ekki hafi tekist að hafa upp á þeim aðila sem hringdi í ákærða og hótaði honum. Vitnið taldi að viðkomandi hefði verið með leyninúmer. Útilokað væri að ákærði hafi sjálfur staðið að innflutningnum en verið dæmigert burðardýr sem hafi verið að bjarga sér. Vitnið taldi að lögregla hefði ekki náð utan um málið í heild sinni. Rannsókn lögreglu hefði miðað að því að finna skipuleggjanda innflutningsins sem hefði þrýst á ákærða að fara í ferðina. Tveir aðilar hafi lagt peninga inn á reikning ákærða og haft sömu sögu að segja um það hvers vegna það hafi verið gert.

                Vitnið F rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóm og greindi frá því að lögregla hefði tekið við rannsókn málsins eftir að tollverðir höfðu stöðvað ákærða í flugstöð. Var ákærði færður í fangaklefa á Hringbraut meðan tæknideild lögreglu rannsakaði tösku sem ákærði var með sem þótti óeðlilega þung af tómri tösku að vera. Vitnið kvað ákærða hafa sagt að hann hefði verið neyddur til að fara í ferðina og talið hefði verið að hann hefði ekki skipulagt innflutning efnanna. Ákærði hefði ekki gefið neinar skýringar á því hver hefði neytt hann til að fara í ferðina.

                Vitnið G verkefnisstjóri gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá rannsóknum rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði á efnasýnum sem rannsökuð voru að beiðni lögreglu vegna málsins. Um hafi verið að ræða kókaín og tetramísól og hafi styrkur efnisins verið 39% sem hafi verið heldur lægri og aðeins undir meðallagi af því sem rannsóknarstofan fái til rannsóknar. Einnig hafi verið beðið um rannsókn á því hversu mikið magn kókaíns í neyslustyrk megi vinna úr 1.049,72 grömmum af því efni sem sýnið hafi verið tekið úr. Það hafi verið 1.913 grömm af efni sem væri 21,4% af styrk. Væri þá miðað við neyslustyrkleika kókaínklóríðs í Danmörku að meðaltali árið 2010.

                Vitnið A læknir kom fyrir dóm og kvaðst hafa hitt ákærða 24 sinnum á síðustu tveimur árum. Ákærði hafi orðið fyrir heilaskaða af völdum höfuðmeiðsla í vinnuslysi 1999. Eftir það hafi hann orðið óvinnufær og átti erfitt með einbeitingu. Verið með vaxandi einkenni kvíða og þunglyndis með árunum og frá 19 ára aldri hafi ákærði fengið sjálfsvígshugmyndir undir álagi. Hann kvað ákærða eiga erfitt með að setja sér markmið og fylgja þeim. Vitnið kvaðst upplifa ákærða sem kjarklítinn og lítinn í sér og þurfi lítið til að honum líði illa. Breyting á persónuleika hafi komið fram hjá ákærða og dómgreindarskortur. Vegna sjúkdómseinkenna ákærða sé hann hræddur og því auðvelt að fá hann til að gera hluti sem hann myndi annars ekki gera. Vitnið staðfesti læknisvottorð sem þann vann fyrir verjanda ákærða.

                Vitnið H læknir gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að í matsgerð 29. apríl 2013 sem vitnið vann komi fram niðurstaða rannsóknar á blóði og þvagi sem lögregla hafi óskað eftir. Óskað hafi verið eftir leit að ólöglegum ávana og fíkniefnum og samkvæmt beiðninni hafi komið fram að viðkomandi hafi tekið inn lyf samkvæmt læknisráði, meðal annars parkódin forte. Fundist hafi í þvagsýni kannabínóíðar, amfetamín og kódein Í blóðsýni hafi fundist tetrahýdrókannabínól: 4,8 ng/ml en hvorki amfetamín né kódein hafi verið í mælanlegu magni. Vitnið bar að því væri ekki kunnugt um að önnur lyf gætu haft áhrif á mælingu á tetrahydrókannabínól í blóði. Um væri að ræða sérhæfða mælinu gerða með gasgreini og massaskynjara og ekkert annað gæti truflað þá mælinu. Þá kvaðst vitnið hafa svarað fyrirspurn lögreglu með bréfi 23. september 2013 um það hvort 4,8 ng/ml geti mælst í blóði vegna óbeinna reykinga. Vitnið kvað útilokað að óbeinar reykingar geti haft slík áhrif vegna þess að mælingin 4,8 ng/ml væri svo há. Útilokað væri að óbeinar reykingar hafi áhrif samkvæmt þeim rannsóknum sem vitninu væri kunnugt um. Slíkar rannsóknir hafi ekki verið gerðar hér á landi. Væri 0,5 ng/ml í blóði sá mæliþröskuldur sem notaður væri af rannsóknarstofunni en þetta magn væri langt yfir því viðmiði. Lægri mælingar væru ekki gefnar upp en svo há tala, það er 4,8 ng/ml, bendi til eigin neyslu. Vitnið staðfesti efni matsgerðar 29. apríl 2013 og bréfs 23. september sama ár.

V

                Ákæra útgefin 12. júlí 2013. 

                Ákæra er gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 1.049,72 grömmum af kókaíni sem unnt væri að framleiða um 1.913 grömm af efni úr miðað við 21,4% meðalstyrkleika. Er háttsemi ákærða talin varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við þingfestingu málsins 28. ágúst 2013 neitaði ákærði sök í málinu. Kvaðst hann neita því að hafa staðið að innflutningum og ætlað að koma efnunum í söludreifingu. Ákærði kvaðst hafa farið í ferðina og komið með efnin til Íslands vegna hótana og þvingana annars aðila. Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði frá því að hann hefði fengið símtal frá manni sem hann vissi hvorki nafnið á né úr hvaða símanúmeri hefði verið hringt. Hefði sá sem hringdi beðið hann að fara til Kaupmannahafnar og sækja örvandi efni sem hann taldi vera amfetamín. Þegar ákærði hafi ekki orðið við beiðninni hafi honum og fjölskyldu hans verið hótað líkamsmeiðingum, röngum sakargiftum og að hann yrði sviptur sanngirnisbótum. Lýsti ákærði aðdraganda að ferðinni til Kaupmannahafnar, dvöl hans þar og afhendingu á tösku sem hann hafi átt að flytja til Íslands. Kvaðst ákærði hafa talið að hann hefði átt að koma með til landsins 700 grömm af örvandi efni eins og amfetamíni. Hefði hann gert sér grein fyrir því að um ólögleg fíkniefni væri að ræða. Þá bar ákærði að þegar til Íslands væri komið yrði tekið á móti honum á flugvellinum. Var framburður ákærða fyrir dómi og hjá lögreglu sá sami í öllum meginatriðum.

                Samkvæmt þessu liggur fyrir að ákærði hefur gengist við því að hafa komið með ferðatösku til landsins 22. desember 2011 sem innihelt fíkniefni. Samkvæmt framburðum vitnanna D tollsérfræðings, sem hafði afskipti af ákærða við komu hans til landsins og E rannsóknarlögreglumanns sem stýrði rannsókn málsins voru fíkniefnin falin í hliðarspjöldum töskunnar. Í efnaskýrslu lögreglu segir að heildarmagn kókaíns í töskunni hafi reynst vera 1.049,72 grömm. Einnig voru 2,59 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 grömm af hassi í farangri ákærða sem hann gekkst við að hafa flutt til landsins.

                Í matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 11. janúar 2012 segir að með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnaprófum hafi komið í ljós að sýnið hafi innihaldið kókaín og tetramísól. Efnapróf hafi bent til þess að kókaínið væri að mestu á formi kókaínklóríðs. Styrkur kókaíns í sýninu hafi verið 39% sem samsvari 44% af kókaínklóríði. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum óskaði eftir því við Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði að reiknað yrði út hversu mikið af kókaíni í neyslustyrkleika megi vinna úr efninu sem lagt var hald á, það er 1.049,72 grömm. Í matsgerð rannsóknarstofunnar 21. febrúar 2012 segir að úr 1.049,72 grömmum af dufti, sem inniheldur 39% kókaín megi búa til 1.913 grömm af efni sem væri 21,4% af styrk miðað við að efnið væri þynnt með óvirku efni eins og laktósa og að ekkert fari til spillis í aðgerðinni. Ekki hafa verið gerðar athugasemdir við matsgerðir þessar af hálfu ákærða og hafa þær ekki verið vefengdar.

Þrátt fyrir þá neitun ákærða að hann hafi flutt fíkniefnin til landsins „ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni“ og þá afstöðu ákærða að um væri að ræða 700 grömm af amfetamíni telur dómurinn að kominn sé fram lögfull sönnun fyrir því að ákærði hafi flutt fíkniefnin til landsins og verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða. Breytir engu þótt ákærði hafi haldið að efnin væru af annarri tegund og magn þeirra minna en raun var en ákærði bar fyrir dómi að hann hafi gert sér grein fyrir því að um ólögleg fíkniefni væri að ræða. Að mati dómsins var ákærða eða mátti vera kunnugt um að fíkniefnin væru ætluð til sölu hér á landi í ágóðaskyni.

                Ákæra útgefin 16. september 2013.

                Ákærði hefur játað brot það sem hann var ákærður fyrir með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 16. september 2013. Þar er ákærða gefið að sök umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni [...] undir áhrifum ávana- og fíkniefna 12. mars 2013 suður Hringbraut uns lögregla stöðvaði aksturinn á Sólvallagötu í Reykjanesbæ. Varðandi málavexti er vísað til ákærunnar. Við upphaf aðalmeðferðar 3. desember síðastliðinn áréttaði ákærði þá afstöðu sína að hann játaði sakargiftir samkvæmt ákærunni en vildi þó taka fram að hann hefði ekki fundið til neinna vímuáhrifa við aksturinn og nefndi sem hugsanlega skýringu að áhrif frá lyfinu tafíl gætu hugsanlega haft áhrif niðurstöðu rannsóknarinnar. Einnig lyfin parkódín forte og immovan sem hann tæki samkvæmt læknisráði við kvíða.

                Í frumskýrslu lögreglu 15. mars 2013 vegna málsins kemur fram að ákærði hafi neitað því að hafa notað fíkniefni. Í matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 29. apríl 2013 segir að í blóðsýni númer 67235 hafi mælst tetrahýdrókannabínól: 4,8 ng/ml. Efnið sé í flokki ávana- og fíkniefna, sem séu óheimil á íslensku forráðasvæði og teljist ökumaður hafa verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið hafi verið tekið. Þá liggur fyrir að lögregla beindi fyrirspurn til rannsóknarstofunnar um það hvort áðurgreint magn af tetrahýdrókannabínól gæti mælst í blóði viðkomandi vegna óbeinna reykinga. Í svarbréfi H 23. september 2013 er það talið útilokað þar sem ekki sé kunnugt um að efnið hafi mælst yfir 0,5 ng/ml eftir „óbeinar reykingar.“ Fyrir dómi staðfesti vitnið H læknir tilvitnaða matsgerð rannsóknarstofunnar og efni bréfsins.

                Samkvæmt þessu þykir ekkert það fram komið í málinu sem rennir stoðum undir þá fullyrðingu ákærða að tilgreind lyf, sem hann kvaðst fyrir dómi taka að læknisráði, geti haft áhrif á niðurstöðu rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði samkvæmt matsgerð 29. apríl 2013 og verður játning ákærða, sem á sér viðhlítandi stoð í gögnum málsins, ekki dregin í efa. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem greinir í ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum 16. september 2013 og sviptur ökurétti eins og greinir í dómsorði.

                Ákvörðun refsingar.

                Ákærði krefst þess aðallega að honum verði ekki gerð refsing og vísar í því sambandi til 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum til 15. gr. laganna. Þá vísar ákærði enn fremur til 2. mgr., sbr. 6. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga í því sambandi að refsing skuli falla niður.

                Í 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að hafi sá sem vann verkið verið andlega miður sín svo sem vegna vanþroska, hrörnunar, kynferðislegs misþroska eða annarrar truflunar, en ástandið er ekki á eins háu stigi og í 15. gr. getur, skal honum þá refsað fyrir brotið ef ætla má eftir atvikum og eftir að læknisumsagnar hefur verið leitað, að refsing geti borið árangur. Í áðurnefndu læknisvottorði A sérfræðings í heimilislækningum segir að af kynnum hans af ákærða telji hann að fangelsisvist muni ekki hafa nein áhrif á hann til bata heldur líklega valda honum meiri skaða. Ljóst er að verknaður ákærða átti sér nokkurn aðdraganda og stóð yfir í nokkurn tíma. Að mati dómsins verði ekkert ráðið af nefndu læknisvottorði eða öðrum gögnum málsins um andlegt ástand ákærða á verknaðartímanum og er því ekki unnt að fallast á það að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, það er að refsing ákærða geti ekki borið árangur. Þá eru sjónarmið ákærða um að refsing skuli látin falla niður, sbr. heimild 2. mgr., sbr. 6. töluliðar 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga ekki studd viðhlítandi gögnum og verður ekki fallist á að fella beri niður refsingu ákærða. Það er mat dómsins að þrátt fyrir að ákærði kunni að hafa verið beittur þrýstingi og honum hótað færi hann ekki til að sækja efnin og flytja þau til landsins, en orð ákæra um það eru ekki dregin í efa, voru önnur úrræði tiltæk fyrir ákærða en að láta undan greindum þrýstingi og vinna verkið. 

                Ákærði er fæddur í janúar 1959. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur honum ekki verið gerð refsing áður. Ákærði hefur að mestu játað brot sín en ekki upplýst um það hver hafi fengið hann til að sækja efnin og flytja þau til landsins. Þá hefur ákærði neitað því að hafa flutt efnin til landsins til söludreifingar og í ágóðaskyni. Ákærði fullyrðir að hann hafi verið neyddur til þess að sækja efnin og að haft hafi verið í ýmsum hótunum við hann og hafi honum meðal annars verið hótað líkamsmeiðingum færi hann ekki í ferðina. Framburður ákærða um þetta er í sjálfu sér ekki ótrúverðugur en á hitt er að líta að brot ákærða beindist að mikilsverðum hagsmunum enda flutti ákærði til landsins verulegt magn af hættulegu fíkniefni sem hann vissi eða mátti vita að var ætlað til söludreifingar hér á landi. Horfir það til refsiþyngingar, sbr. 1. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar er litið til þess að ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins gengist greiðlega við sínum þætti málsins og hefur ekki áður sætt refsingu svo kunnugt sé. Er litið til þáttar ákærða sem „burðardýrs“ en ekki skipuleggjanda brotsins. Er það virt ákærða til mildunar refsingar.

                Með vísan til styrkleika efnisins og dómaframkvæmdar telur dómurinn hæfilega refsingu ákærða vera fangelsi í 18 mánuði. Í ljósi alvarleika brotsins þykja engin efni vera til að skilorðsbinda refsingu ákærða. Gæsluvarðhald er ákærði sætti vegna rannsóknar málsins kemur til frádráttar refsingunni með fullri dagatölu, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og greinir í dómsorði.  

                Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 skal ákærði sæta upptöku til ríkissjóðs á 1.049,72 grömmum af kókaíni, 2,59 grömmum af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 grömmum af hassi. 

                Fram er komið að ákærði verður sakfelldur umferðarlagabrot, það er fyrir akstur bifreiðarinnar UV-039 undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Samkvæmt reglugerð nr. 930/2006 um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim, sbr. breytingu með reglugerð nr. 328/2009 verður ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.  

                Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærða gert að greiða allan sakarkostnað málsins 1.433.461 krónu. Þar af greiði ákærði þóknun skipaðs verjanda síns, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu hans fyrir dómi og sem tilnefndur verjandi ákærða við lögreglurannsókn málsins. Þykir þóknun verjandans, sem ákveðin er í einu lagi, hæfilega ákveðin 1.004.000 krónur, svo 50.000 krónur í útlagðan kostnað verjanda og 41.736 krónur í aksturskostnað. Tekið hefur verið tillit til  virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar.

                Stefanía Guðrún Sæmundsdóttir settur saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið. 

                Jón Höskuldsson héraðsdómari dæmir málið.

D ó m s o r ð:

                Ákærði, Þórarinn Einarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.  

                Til frádráttar refsingu ákærða komi gæsluvarðhald sem ákærði sætti frá 22. desember 2011 til 11. janúar 2012.

                Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dóms þessa að telja.

                Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 1.049,72 grömm af kókaíni, 2,59 grömm af tóbaksblönduðu kannabisefni og 2,33 grömm af hassi sem lögregla lagði hald á við rannsókn á málinu.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 1.433.461 krónu, þar með talda þóknun skipaðs verjanda hans, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 1.004.000 krónur, 50.000 krónur í útlagðan kostnað og 41.736 krónur í aksturskostnað.