Hæstiréttur íslands
Mál nr. 502/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Aðfinnslur
|
|
Mánudaginn 17. september 2012. |
|
Nr. 502/2012. |
EON ehf. (Gunnar Árnason fyrirsvarsvarsmaður) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Elvar Örn Unnsteinsson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Aðfinnslur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að nauðungarsala tiltekinnar bifreiðar væri lögmæt. Hæstiréttur taldi að uppfyllt hefðu verið skilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og staðfesti því úrskurð héraðsdóms. Fundið var að því að sá héraðsdómari sem leysti úr málinu hefði ekki farið með það á undirbúningsstigi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag, og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. júní 2012, þar sem staðfest var sú ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 24. ágúst 2011 að nauðungarsala tiltekinnar bifreiðar væri lögmæt. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega „að úrskurður verði ómerktur og að málinu verði vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar“, en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Einnig krefst hann þess „að verða sýknaður af öllum dómkröfum [varnaraðila], þar með talið vegna dæmds málskostnaðar í héraði.“ Þá krefst hann „ómaksþóknunar“.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms með heimild í XIII. kafla laga nr. 90/1991 um þá ákvörðun sýslumanns að nauðungarsala bifreiðar í eigu sóknaraðila skyldi ná fram að ganga. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði gaf Galtagil ehf. þann 9. desember 2005 út skuldabréf að fjárhæð 3.637.770 krónur til varnaraðila, en af gögnum málsins verður ráðið að um lán til bifreiðakaupa hafi verið að ræða. Samkvæmt skuldabréfinu var skuldin tryggð með veði í bifreið þeirri sem varnaraðili krefst að verði seld nauðungarsölu. Skuldabréfið var afhent til þinglýsingar 16. desember 2005 og því þinglýst 18. júlí 2006. Í skilmálum þess kemur fram að nauðungarsala megi fara fram á hinni veðsettu eign, það er bifreið þeirri sem nú er í eigu sóknaraðila, til fullnustu skulda samkvæmt veðskuldabréfinu, án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, skv. 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga um nr. 90/1991. Prókúruhafi Galtagils ehf. undirritaði bréfið fyrir þess hönd, en í fyrirtækjaskrá kemur fram að tilgangur félagsins hafi meðal annars verið „kaup og sala bifreiða“. Í ljósi þessa og umfangs viðskiptanna verður að hafna þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi stofnast til kröfu samkvæmt skuldabréfinu vegna umboðsskorts. Þá undirritaði Hlédís Sveinsdóttir, sem var skráður eigandi hinnar veðsettu bifreiðar 16. desember 2005, skuldabréfið um samþykki sitt sem veðþoli. Í ljósi alls þessa eru uppfyllt skilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Í þingbók héraðsdóms vegna meðferðar málsins kemur fram að það var þingfest 21. október 2011 af tilteknum héraðsdómara. Sá dómari tók málið fyrir þrettán sinnum eftir það fram að aðalmeðferð, en við þessar fyrirtökur voru lögð fram ýmis skjöl sem og kvaddur til matsmaður sem skilaði matsgerð um tiltekinn þátt málsins að beiðni sóknaraðila. Af þingbók málsins verður ráðið að annar héraðsdómari hafi haldið dómþing er aðalmeðferð fór fram og að sá dómari hafi síðan kveðið upp hinn kærða úrskurð.
Í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er lögfest sú regla að öflun sönnunargagna skuli að jafnaði fara fram fyrir þeim dómara sem með mál fer. Í ákvæðinu eru tvær undantekningar frá þessari meginreglu, en þær koma hér ekki til álita. Í ljósi þessa verður að ætlast til þess að dómari sem leysir úr máli fari með það á undirbúningsstigi fyrir aðalmeðferð. Eins og að framan er rakið var þessi háttur ekki hafður á við meðferð máls þessa í héraði. Þá var hvorki bókað í þingbók hvaða ástæður lágu að baki því að annar dómari tók við málinu við aðalmeðferð þess né að fyrirsvarsmanni sóknaraðila, sem er ólöglærður, hafi verið gefinn kostur á andmælum. Var meðferð málsins aðfinnsluverð að þessu leyti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, EON ehf., greiði varnaraðila, Tryggingamiðstöðinni hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 29. júní 2012.
Mál þetta var þingfest 21. október 2011 og tekið til úrskurðar 31. maí sl. Málið var endurupptekið 29. júní 2011 og tekið til úrskurðar á ný.
Sóknaraðili er EON ehf., kt. 501299-2279, Nóatúni 17, Reykjavík, fyrirsvarsmaður Gunnar Árnason, kt. 040569-3919, Naustabryggju 36, Reykjavík.
Varnaraðili er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að verða sýknaður af öllum dómkröfum varnaraðila í máli þessu. Sóknaraðili krefst þess að dómurinn felli úr gildi úrskurð Sýslumannsins í Reykjavík, dagsettan 24. ágúst 2011, um að nauðungarsala bifreiðarinnar OZ-656, sé lögmæt, mál númer 011-2010-00094, dagsett 10. febrúar 2010, hjá embættinu.
Þá er krafist ómaksþóknunar að mati réttarins.
Varnaraðili gerir þær dómkröfur að staðfest verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 24. ágúst 2011, um að nauðungarsala bifreiðarinnar OZ-656 nái fram að ganga og að lagt verði fyrir sýslumann að vörslusvipta bifreiðina.
Þá er krafist málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.
I
Þann 9. desember 2005, var gefið út skuldabréf að fjárhæð 3.637.770 krónur, af Galtagili ehf., 470205-0750, Meðalholti 17, Reykjavík, til Tryggingamiðstöðvarinnar hf., kt. 660269-2079. Í bréfinu kemur fram að skuldin sé tryggð með veði í bifreið, af gerðinni BMW Z lína, árgerð 2002, með númerið OZ 656. Undir bréfið skrifar Hlédís Sveinsdóttir, kt. 020565-3659, samþykki sitt sem veðþoli. Þá skrifar Elías Hákonarson, kt. 030157-7449, undir bréfið sem sjálfskuldarábyrðaraðili. Skuldabréfið átti að endurgreiða með 72 jöfnum mánaðarlegum greiðslum, í fyrsta sinn 6. desember 2006.
Í 9. tölulið skuldabréfsins er svohljóðandi ákvæði um vanskil:
Aðför má gera til fullnustu skv. skuldabréfi þessu án undangengins dóms eða réttarsáttar skv. 7. tölulið 1. málsgreinar 1. gr. laga nr. 90/1989. Nauðungarsala má fara fram á hinni veðsettu eign, til fullnustu skuldar skv. veðbréfi þessu, án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, skv. 2. tölulið 1. málsgreinar 6. gr. laga nr. 90/1991.
Þremur dögum eftir útgáfu skuldabréfsins, 12. desember 2005, er dagsett skuldskeyting. Samkvæmt forskráðum texta skjalsins á félagið EON arkitektar ehf. að taka við sem skuldari í stað Galtagils ehf. Í línu, sem ætluð er fyrir undirritun EON arkitekta ehf., er ritað nafn félagsins og kennitala en ekki nöfn þeirra tveggja stjórnarmanna sem mega skuldbinda félagið. Framkvæmdastjóri félagsins, Hlédís Sveinsdóttir, ritar undir skjalið sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Í skuldskeytingarskjalinu segir að það sé óaðskiljanlegur hluti hins upphaflega veðskuldabréfs sem að öðru leyti sé óbreytt.
EON arkitektar ehf. greiddu af bréfinu frá fyrsta gjaldaga þess 6. febrúar 2006 allt til 6. júlí 2008 er greiðslufall varð, eða í 28 skipti.
Þar sem innheimtutilraunir varnaraðila báru ekki árangur fól hann lögmanni innheimtu bréfsins, sem óskaði aðfarar hjá Hlédísi Sveinsdóttur, þar sem ekki hafði tekist að finna hina veðsettu bifreið og EON arkitektar ehf., eigandi hennar frá 1. september 2008, vildi ekki afhenda hana né upplýsa hvar hún væri.
Sýslumaður hafnaði því að gera aðför hjá Hlédísi með þeim rökum að varnaraðili hefði ekki nægjanlega skýra aðfararheimild. Var sú ákvörðun sýslumanns staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 13. maí 2011. Í forsendum úrskurðarins segir að á skuldskeytingarskjalinu séu aðeins rituð nafn og kennitala EON arkitekta ehf. en ekki nöfn þeirra stjórnarmanna sem heimilt er að skuldbinda félagið. Í máli þessu verði ekki tekin afstaða til þess hvaða áhrif það kunni að hafa að í 28 skipti hafi verið greitt af skuldabréfinu en skuldskeytingarsjalið, svona undirritað, þyki ekki veita sóknaraðila skýra heimild til aðfarar gagnvart EON arkitektum ehf. Af sömu ástæðu þyki sóknaraðili ekki heldur hafa með skuldabréfinu og skuldskeytingunni skýra aðfararheimild gagnvart varnaraðila, þ.e. Hlédísi Sveinsdóttur.
Varnaraðili óskað eftir nauðungarsölu á bifreiðinni OZ-656 11. janúar 2009. Í framhaldinu veitti Sýslumaðurinn í Reykjavik varnaraðila heimild til að taka vörslur bifreiðarinnar til að koma henni á uppboðsstað. Varnaraðili hefur ítrekað reynt að fá bifreiðina afhenta frá sóknaraðila sem hefur neitað að afhenda hana og/eða upplýsa hvar hún er niðurkomin. Þann 18. janúar 2010 endurnýjaði varnaraðili nauðungarsölubeiðni sína og Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti varnaraðila heimild til að taka vörslur bifreiðarinnar. Ekki tókst að fá bifreiðina afhenta. Enn á ný sendi varnaraðili nauðungarsölubeiðni til Sýslumannsins í Reykjavík 13. janúar 2011. Varnaraðili fékk í framhaldinu heimild til að taka vörslur bifreiðarinnar en ekki hefur tekist að fá sóknaraðila til að afhenda bifreiðina.
Þann 24. ágúst 2011 hafi verið haldinn mótmælafundur vegna nauðungarsölu bifreiðarinnar hjá Sýslumanninum í Reykjavík og á þeim fundi ákvarðaði fulltrúi sýslumanns að nauðungarsala bifreiðarinnar væri lögmæt.
II
Sóknaraðili byggir á aðildarskorti samanber 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekkert samningssamband sé á milli sóknaraðila og varnaraðila.
Sóknaraðili byggir á að skuldabréf það sem varnaraðili byggi veðrétt sinn á, sé ekki skuldbindandi fyrir útgefanda bréfsins, Galtagil ehf., þar sem undirritun fyrir hönd félagsins skorti, samanber samþykktir félagsins og ákvæði laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Meintum veðrétti varnaraðila hafi verið ætlað að tryggja skuld Galtagils ehf. við varnaraðila, sem aldrei hafi stofnast til með lögformlegum hætti. Varnaraðili hafi vitað eða mátt vita að til skuldarinnar hafi ekki stofnast með lögformlegum hætti, enda hafi varnaraðili sýnt tómlæti í málinu hvað varðar innheimtu og kröfulýsingu gagnvart útgefanda bréfsins og sjálfskuldarábyrgðaraðila þess, Elíasi Hákonarsyni.
Skuldabréfið hafi ekki verið tækt til þinglýsingar þar sem undirritun fyrir hönd útgefanda hafi vantað. Móttökustimpill Sýslumannsins í Reykjavík 10. desember 2010, sé því til sönnunar. Sóknaraðili vísar hér til 16. gr. samþykkta Galtagils ehf. og stofngerðar, dagsettri 21. janúar 2005 og tilkynningar um breytingu á stjórn og prókúru, dagsettri 25. október 2005. Þá vísar sóknaraðili til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög varðandi daglegan rekstur og ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Sóknaraðili vísar til g. liðs 2. mgr. 6. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 varðandi frávísun skjals þegar skjal skortir undirritun útgefanda. Þá hafi skjalinu ekki verið þinglýst með athugasemd, sbr. 3. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga, heldur hafi þinglýsingu skjalsins verið hafnað.
Þá hafi undirritun skráðs eiganda, veðþola, skort á skuldabréfið. Því til sönnunar sé eigendaskráning Umferðastofu. Óumdeilt sé að eignarheimild samkvæmt ökutækjaskrá sé ófrávíkjanlegt skilyrði. Skráður eigandi bifreiðarinnar, Árni Ágúst Brynjólfsson, kt. 211075-5389, hafi ekki skrifað undir skuldabréf Galtagils, útgefið 9. desember 2005.
Þá heldur sóknaraðili því fram að lántaka Galtagils ehf., samkvæmt skuldabréfinu falli ekki undir skilgreiningu laga á daglegum rekstri, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.
Sóknaraðili áréttar að hann sé ekki tengdur útgefanda bréfsins á nokkurn hátt og að skuldabréfið sé sér óviðkomandi.
Þá byggir sóknaraðili á vitneskju sinni um ófullkomleika skuldabréfsins. Varnaraðili hafi gert ráðstafanir til að fá sóknaraðila til að yfirtaka skuld samkvæmt skuldabréfinu.
Sóknaraðili vísar til þess að engin veðbönd hafi hvílt á bifreiðinni OZ-656 þegar Galtagil ehf., afhenti sóknaraðila hana. Bifreiðin hafi verið veðbandalaus þar til 18. júlí 2006, þegar skuldabréfinu, sem varnaraðili byggir rétt sinn á, var þinglýst á bifreiðina, án vitundar sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar í úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Y-6/2010 þar sem staðfestur hafi verið úrskurður Sýslumannsins í Reykjavík um að ekki hefði verið um nægilega skýra aðfaraheimild að ræða á hendur Hlédísi Sveinsdóttur. Niðurstaðan hafi byggst á því að ekki hefði stofnast til skuldbindingar af hálfu sóknaraðila í máli þessu gagnvart varnaraðila í máli þessu með skuldskeytingu 15. desember 2005. Varnaraðili hafi með skuldskeytingunni reynt að fá sóknaraðila til að yfirtaka skuld samkvæmt skuldabréfinu.
Varnaraðili hafi ekki sýnt fram á að útborgun láns varnaraðila til Galtagils ehf., á grundvelli skuldabréfsins, hafi verið greitt inn á bankareikning Galtagils ehf. eða verið ráðstafað í þágu félagsins með öðrum hætti. Hafi útborgun láns frá varnaraðila til Galtagils ehf. átt sér stað, hafi það verið eftir að skuldabréfinu hafi verið þinglýst 18. júlí 2006 eða eftir að fulltrúi sýslumanns hafi hafnað þinglýsingu skjalsins. Þetta sé til þess fallið að setja réttindi samkvæmt almennum reglum um viðskiptabréf í uppnám. Þá hafi sóknaraðili hafi ekki þegið lánafyrirgreiðslu af varnaraðila á grundvelli skuldabréfsins.
Þá vísar sóknaraðili til þess að veðandlagi sé ætlað að tryggja tiltekin réttindi. Þar sem ekki hafi stofnast til skuldbindingar af hálfu Galtagils ehf. gagnvart varnaraðila, verði óstofnuðum rétti ekki haldið óskertum og sem gildur væri, að grandlausum þriðja aðila. Í skuldabréfinu sé ákvæði um að aðför megi geri til fullnustu skuldabréfsins án undangengins dóms eða réttarsáttar. Forsenda þess að fullnusturéttur skapist sé að misbrestur verði á greiðslum samkvæmt skilmálum skuldabréfsins þannig að um sé að ræða vanefnd af hálfu útgefanda/skuldara eða ábyrgðarmanns. Um vanefnd geti ekki verið að ræða af hálfu útgefanda eða sjálfskuldarábyrgðaraðila þar sem ekki hafi stofnast til skuldbindingar með lögformlegum hætti. Varnaraðili hafi aldrei gert ráðstafanir til þess að krefja Galtagil ehf., né sjálfskuldarábyrgðaraðila þess, Elías Hákonarson, um greiðslu bréfsins.
Sóknaraðili áréttar að þrátt fyrir að Hlédís Sveinsdóttir hafi í ágúst 2006 byrjað að greiða af skuldabréfinu fyrir hönd sóknaraðili, þá hafi engin viðurkenning á greiðsluskyldu falist í því.
Galtagil ehf. hafi verið úrskurðarð gjaldþrota í desember 2007. Varnaraðili hafi ekki lýst kröfu í búið vegna skuldabréfs Galtagils ehf., en hafi lýst kröfum vegna fjórtán annarra skuldabréfa. Sóknaraðili heldur því fram að tómlæti varnaraðila varðandi kröfulýsingu og innheimtuaðgerðir sé staðfesting á því að varnaraðili vissi að hann gæti ekki byggt neina kröfu á hendur Galtagili ehf., á grundvelli skuldabréfsins.
Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðili stundi meðal annars lánastarfssemi og starfi samkvæmt lögum nr. 56/2010 um vátryggingastarfsemi. Gera verði þá kröfu til varnaraðila að hann sjái til þess að öll skjöl séu réttilega útfyllt og undirrituð. Varnaraðili beri sjálfur hallann sé skjölum ábótavant. Sóknaraðili vísar til 32. gr., 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfu sína um ómaksþóknun styður varnaraðili við 4. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III
Varnaraðili byggir kröfu sína á því að með skuldabréfi, dagsettu 9. desember 2005, hafi bifreiðin OZ-656 verið sett að veði til tryggingar skuldar Galtagils ehf. við varnaraðila. Seinna hafi farið fram skuldskeyting þar sem sóknaraðili hafi tekið við skuldbindingum Galtagils ehf. Í skilmálum bréfsins komi fram að heimilt sé að selja eignina nauðungarsölu til fullnustu skuldarinnar, án undangengis dóms, sáttar eða fjárnáms, ef skuldari vanefni samninginn. Skuldabréfið fullnægi skilmálum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 og því sé ljóst að nauðungarsala á veðandlaginu eigi að ná fram að ganga.
Varnaraðili byggir á því að eigendaskipti að veðandlaginu hafi átt sér stað áður en skuldabréfið hafi verið móttekið til þinglýsingar. Nýr eigandi bifreiðarinnar hafi undirritað bréfið sem veðþoli ásamt því að útbúin hafi verið skuldskeyting þar sem sóknaraðili hafi verið gerður að skuldara. Skuldabréfið hafi verið móttekið til þinglýsingar 16. desember 2005 sem hafi verið eftir að eigendaskipti að bifreiðinni fóru fram. Skilyrði þess að veðsali hafi heimild til að veðsetja eign sé yfirleitt fólgin í eignarrétti og hafi Hlédís Sveinsdóttir sannarlega verið eigandi veðandlagsins þegar eignin var veðsett.
Þá vísar varnaraðili til þess að þegar Galtagil ehf. óskaði eftir láni þá hafi forseta lánveitingarinnar verið sú að varnaraðili fengi veð í bílnum. Galtagil ehf. hafi svo stuðlað að því að Hlédís Sveinsdóttir, sem þá var eigandi bifreiðarinnar, undirritaði skuldabréfið sem veðþoli áður en það hafi farið í þinglýsingu. Því hafi sóknaraðila ekki geta dulist að verið var að veðsetja bifreiðina.
Varnaraðili mótmælir þeirri málsástæðu sóknaraðila að varnaraðili sé ekki með veð í bifreiðinni því annmarkar hafi verið á undirskrift upphaflegs skuldara samkvæmt skuldabréfinu. Það sé alveg ljóst að skuldabréfinu hafi verið þinglýst um leið og búið hafi verið að bæta úr þeim annmarka og skuldabréfið þar með réttilega undirritað. Undirskrift veðþola sé alveg jafn gild. Ljóst sé að gildi skuldabréfs sé ekki háð þinglýsingu þó að réttarvernd samkvæmt því sé það. Veðréttur öðlist réttarvernd við þinglýsingu, skilyrði þess sé að fjárhæð veðkröfu sé tilgreind í því skjali sem stofnar til veðréttarins. Skuldabréfið uppfylli sannanlega það skilyrði.
Varnaraðili áréttar að ekki skipti máli hver raunverulegur skuldari skuldabréfsins sé. Ljóst sé að skuldabréfið sé í vanskilum og að til tryggingar greiðslu samkvæmt því sé bifreiðin OZ-656 sett að veði.
Varnaraðili áréttar að þrátt fyrir niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Y-6/2010 telji hann enn að sóknaraðili sé skuldari samkvæmt skuldabréfinu enda hafi í því máli einungis verið tekist á um það hvort varnaraðili hefði nægilega skýra aðfararheimild til að mega gera fjárnám hjá Hlédísi Sveinsdóttur sem ábyrgðarmanni.
Varnaraðili segir ranga þá fullyrðingu sóknaraðila að varnaraðili hafi vitað að hann gæti ekki byggt neina kröfu á hendur Galtagili ehf. á grundvelli skuldabréfsins. Ástæða þess að varnaraðili beindi kröfu sinni að sóknaraðila var sú að varnaraðili taldi hann vera skuldara, enda hafi verið útbúin skuldskeyting þar sem skuldaraskipti fóru fram. Þá bendir varnaraðili á að skiptastjóri þrotabús Galtagils ehf. hafi lokið skiptum á búinu 10. desember 2008, án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, samanber 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Kröfulýsing í þrotabúið sé ekki skilyrði þess að varnaraðili geti gengið að veðinu.
Um lagarök vísar varnaraðili til meginregla samninga-, kröfu- og veðréttar. Vísað er til laga nr. 75/1997 um samningsveð og laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Málskostnaðarkrafa varnaraðila byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 77. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölur og krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Þar sem varnaraðili reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi sé honum nauðsynlegt að þessarar skyldu sé gætt við ákvörðun málskostnaðar.
IV
Í skuldabréfi útgefnu af Galtagili ehf. 9. desember 2005 kemur fram að skuldin sé tryggð með veði í bifreið, af gerðinni BMW X línan árgerð 2002, með númerið OZ- 656. Undir bréfið skrifar Hlédís Sveinsdóttir samþykki sitt sem veðþoli en hún keypti bifreiðina 15. desember 2005 og var skráður eigandi hennar 16. sama mánaðar. Hún var því skráður eigandi bifreiðarinnar þegar skjalið var afhent til þinglýsingar 16. desember 2005. Sóknaraðili er núverandi eigandi bifreiðarinnar, þ.e. frá 9. desember 2008.
Sóknaraðili höfðar mál þetta með heimild í XIII. kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, þar sem sóknaraðili sættir sig ekki við þá ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík að nauðungarsala bifreiðarinnar OZ-656 sé lögmæt og eigi að ná fram að ganga. Í máli þessu er því einungis til úrlausnar hvort að nauðungarsala á bifreiðinni geti farið fram á grundvelli skuldabréfs Galtagils ehf.
Varnaraðili, Tryggingamiðstöðin hf., er kröfuhafi umrædds skuldabréfs en með skuldskeytingu, 12. desember 2005, tók sóknaraðili, EON ehf. við sem skuldari í stað Galtagils ehf.
Sóknaraðili er skráður eigandi bifreiðar þeirrar sem málið snýst um og er því aðildarskorti ekki til að dreifa í málinu. Þá þykir ekki skipta máli hvað varðar úrlausn ágreinings í máli þessu hvaða lögskipti lágu að baki útgáfu bréfsins.
Fyrir liggur að EON arkitektar ehf. greiddu af bréfinu frá fyrsta gjaldaga þess 6. febrúar 2006 allt til 6. júlí 2008 er greiðslufall varð. Þá liggur fyrir að fjárnáms var krafist til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfinu með aðfararbeiðni 21. maí 2010 og að máli sem reis vegna aðfararmálsins lauk ekki fyrr en með úrskurði dómsins 13. maí 2011. Þegar af framangreindum ástæðum þykir ekki koma til álita að varnaraðili hafi sýnt tómlæti við innheimtu skuldar samkvæmt bréfinu.
Fyrir liggur að skuldabréfið er í vanskilum og að upphaflegur skuldari þess, Galtagil ehf., hefur verið úrskurðaður gjaldþrota.
Í skilmálum skuldabréfsins kemur fram að nauðungarsala megi fara fram á hinni veðsettu eign, þ.e. bifreiðinni OZ-656, til fullnustu skulda samkvæmt veðskuldabréfinu, án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms, skv. 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, en þar er kveðið á um að til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu megi krefjast nauðungarsölu á eign samkvæmt þinglýstum samningi um veðrétt í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu, ef berum orðum er tekið fram í samningnum að nauðungarsala megi fara fram til fullnustu kröfunni án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms.
Skilyrði þess að veðsali hafi heimild til að veðsetja eign byggir á eignarrétti en fyrir liggur að Hlédís Sveinsdóttir var eigandi veðandlagsins þegar skuldabréfið var móttekið til þinglýsingar og að sóknaraðili er núverandi eigandi hennar. Fyrir liggur því þinglýstur samningur um veðrétt í bifreiðinni OZ-656 til tryggingar greiðslu samkvæmt skuldabréfinu með þeim réttaráhrifum sem því fylgir. Er því uppfyllt skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. nauðungarsölulaga fyrir því að nauðungarsala á bifreiðinni megi fara fram. Meintir ágallar á undirritun Galtagils ehf. undir skuldabréfið hafa ekki áhrif þar á.
Verður því staðfest sú ákvörðun sýslumanns, 24. ágúst 2011, að nauðungarsala bifreiðarinnar OZ-656, sé lögmæt.
Eftir niðurstöðu málsins verður sóknaraðili úrskurðaður til að greiða varnaraðila 200.000 krónur í málskostnað.
Úrskurðinn kveður upp Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Staðfest er sú ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 24. ágúst 2011, að nauðungarsala bifreiðarinnar OZ-656 sé lögmæt.
Sóknaraðili, EON ehf., greiði varnaraðila, Tryggingamiðstöðinni hf., 200.000 krónur í málskostnað.