Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 8

 

Föstudaginn 8. janúar 2010.

Nr. 9/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. janúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. janúar 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. janúar 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [...] verði á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til þriðjudagsins 12. janúar 2010, kl. 16.00. Þá er gerð krafa um að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gærmorgun 4. janúar 2010 kl. 9.39 hafi lögregla verið kölluð að íbúðarhúsnæði að A. Þar hafði verið farið inn í íbúðarhúsnæði með því að spenna upp glugga og höfðu heimilismenn komið að einum aðila við þjófnaðinn. Sá aðili hafi horfið af vettvangi. Höfðu íbúar heyrt í fleirum og bentu ummerki til þess. Samkvæmt upplýsingum kæranda höfðu verið teknar fartölvur, skartgripir, úr, sjónvarpsflakari, utanáliggjandi harður diskur og USB lyklar. Lögregla hafi þegar hafið eftirgrennslan og handtekið aðila gær kl. 10.39 og hafi lýsing á þeim aðila komið heim og saman við lýsingu kæranda á þeim aðila sem hann kom að við  innbrotið fyrr um morguninn. 

Lögregla hafi tekið skýrslu af einum kærða, sem handtekinn hafi verið í gærmorgun og hafi hann játað aðild sína að innbrotinu og bent á fleiri aðila, þar á meðal kærða sem handtekinn hafi verið í gær kl. 14.39. Einnig hafi vitni bent á að hann hafi séð fjóra aðila, skammt frá vettvangi á hlaupum á milli húsa með poka með sér. Kærði hafi verið yfirheyrður í gær og neiti aðild sinni að innbrotinu. Ekki hafi tekist að endurheimta allt þýfið og neiti kærði að upplýsa hvar það sé.  Að mati lögreglu sé nauðsynlegt að taka frekari skýrslu af kærða en vitni hafi borið að fleiri  aðilar hafi verið að verki.

Að mati lögreglu sé gæsluvarðhald nauðsynlegt til að unnt verði að vinna að rannsókn málsins án þess að kærði nái að tala við ætlaða vitorðsmenn og spilla sönnunargögnum. Einnig eigi eftir að taka skýrslur af vitni eða vitnum og frekari skýrslutöku af kærða.

                Rannsókn lögreglu sé á frumstigi og þurfi lögreglan ráðrúm til að vinna að rannsókn málsins og að mati lögreglu séu miklir hagsmunir af því að orðið verði við kröfum hennar.

                Sé kærði sé grunaður um brot gegn 244. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og  b-liðar 1. mgr. 99. gr. nr. 88/2008, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé sett fram.

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varðað geti fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og er fallist á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hann laus. Þegar litið er til framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga  88/2008, um meðferð sakamála, og er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði,  Þá er með sömu rökum fallist á að kærði sæti einangrun skv. b. c. d. og e. liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 12. janúar nk. kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.