Hæstiréttur íslands

Mál nr. 228/2000


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Fíkniefnalagabrot
  • Ítrekun
  • Svipting ökuréttar


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2000.

Nr. 228/2000.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Sólrúnu Axelsdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

                                                   

Ölvunarakstur. Fíkniefnalagabrot. Ítrekun. Svipting ökuréttar.

S var ákærð fyrir að hafa í fjögur skipti ekið undir áhrifum áfengis og fyrir vörslu fíkniefna. Um var að ræða ítrekaðan ölvunarakstur. Dómur héraðsdóms um sakfellingu og upptöku fíkniefna var staðfestur, en refsing var ákveðin fangelsisvist í 30 daga í stað sektar. Þá var dæmd ævilöng svipting ökuréttar í stað sviptingar til fimm ára.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. maí 2000 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd og hún dæmd til ævilangrar sviptingar ökuréttar.

Ákærða krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæru 1. febrúar 2000 og II. kafla ákæru 24. sama mánaðar, auk þess að refsing, sem henni var ákveðin í héraðsdómi, verði milduð.

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök að hafa í fjögur skipti ekið bifreið undir áhrifum áfengis og auk þess að hafa haft í fórum sínum 0,49 g af amfetamíni. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sakfelling ákærðu af öllum ákæruefnum og eru brot hennar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Með dómi 20. mars 1998 var ákærðu gert að greiða sekt fyrir brot á 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum. Þá hlaut hún einnig sekt fyrir dómi 28. nóvember 1996 fyrir brot á 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. sömu laga. Hefur nefnd viðurlagaákvörðun ítrekunaráhrif þegar ákveðin er svipting ökuréttar vegna þeirra brota á umferðarlögum, sem ákært er fyrir í máli þessu, sbr. 3. mgr. 102. gr. umferðarlaga. Að virtum brotum ákærðu nú og sakaferli hennar er hæfileg refsing fangelsi í 30 daga. Þá verður hún dæmd til að sæta sviptingu ökuréttar ævilangt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og upptöku verða staðfest. Ákærða skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Sólrún Axelsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga.

Ákærða er svipt ökurétti ævilangt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og upptöku skulu vera óröskuð.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 35.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2000.

   Mál þetta sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi þann 27. apríl sl. er höfðað með þremur ákærum, þar sem lögreglustjórinn í Reykjavík höfðar opinbert mál á hendur Sólrúnu Axelsdóttur kt. 241174-4849, Hringbraut 111, Reykjavík:

I.                     Ákæra dagsett 14. desember 1999

“fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni UY-343, að morgni laugardagsins 13. nóvember 1999, undir áhrifum áfengis frá Hringbraut 111 í Reykjavík, uns lögregla stöðvaði aksturinn á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku.

Þetta telst varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”

II.                   Ákæra dagsett 1. febrúar 2000

“fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni IV-704 föstudaginn 15. október 1999, undir áhrifum áfengis um Flókagötu í Reykjavík.

Þetta telst varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.”

III.                 Ákæra dagsett 24. febrúar 2000

“fyrir eftirtalin brot árið 1999:

Umferðarlagabrot með því að hafa undir áhrifum áfengis ekið bifreiðinni IV-704 um götur í Reykjavík, svo sem hér er rakið:

1)       Aðfaranótt föstudagsins 17. desember austur Hringbraut, uns lögregla stöðvaði aksturinn á móts við Háskóla Íslands.

M.010-1999-300376

     2)    Aðfaranótt miðvikudagsins 29. desember frá Laugavegi að mótum Eiðisgranda og Keiluranda, þar sem lögreglan stöðvaði aksturinn.

M. 010-1999-31158

Telst þetta varða við 1. mgr. sbr. 2. mgr. 45. gr. sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997 og 3. gr. laga nr. 57/1997.

II

   Fíkniefnabrot aðfaranótt miðvikudagsins 29. desember 1999, með því að hafa haft í fórum sínum 0,49 g af amfetamíni í bifreiðinni IV-704 á mótum Keilugranda og Eiðisgranda.

   M.010-1999-31158

   Þetta telst varða við 2. gr. sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. 9. gr. laga nr. 75/1982, sbr. lög nr. 13/1985, og 2. gr. sbr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16/1986 sbr. auglýsingu nr. 84/1986.

   Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar, til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998, og til þess að sæta upptöku á framangreindu amfetamíni, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 16/1986.”

Ákærða hefur játað sakargiftir hvað snertir ákæru dagsetta 14. desember 1999 og lið I í ákæru dagsettri 24. febrúar 2000.  Hún hefur hins vegar neitað sök varðandi lið II í ákæru dagsettri 24. febrúar 2000 og sök samkvæmt ákæru dagsettri 1. febrúar 2000.

Málin voru sameinuð.

Við aðalmeðferð málsins krafðist verjandi þess að ákærða yrði sýknuð af þeim brotum í ákæru sem hún hefur neitað að hafa framið.  Þá krafðist hann vægustu refsingar vegna þeirra brota sem hún hefur viðurkennt að hafa framið auk málsvarnarlauna.

Málavextir

   Eins og framan er rakið er í máli þessu fjallað um þrjár ákærur og hefur ákærða viðurkennt hluta þeirra sakargifta sem þar greinir.  Hvað snertir ákæru sem dagsett er 14. desember 1999 og lið I í ákæru dagsettri 24. febrúar þá hefur ákærða játað að hafa gerst sek um þá háttsemi sem þar er lýst og verður látið við það sitja að vísa til ákæranna um málavexti.  Verður nú fjallað um þau ákæruatriði sem ekki eru viðurkennd af hálfu ákærðu.

Ákæra dagsett 1. febrúar 2000

   Föstudaginn 15. október 1999 kl. 18.42 kom lögreglan að Flókagötu vegna tilkynningar um að maður hefði sparkað í spegil á bifreið og væri maður þessi staddur við bifreiðina IV-704 sem væri lagt við vegkant á Flókagötu.

   Þegar lögreglan kom á staðinn þar sem bifreiðin IV-704 stóð við Flókagötu 7 og voru 3 farþegar í bifreiðinni auk ökumanns.  Kemur fram í frumskýrslu lögreglu að fyrir utan bifreiðina hafi Garðar Garðarsson staðið og verið verulega ölvaður.  Hafi hann og fólkið í bifreiðinni greinilega þekkst og einhver ágreiningur orðið milli þeirra.  Hafi vél bifreiðarinnar verið í gangi og lögreglan haft tal af ökumanni, sem hafi verið ákærða og hafi sterkan áfengisþef lagt frá henni.  Hafi hún verið handtekin, grunuð um ölvun við akstur.  Var hún færð fyrir varðstjóra sem tók af henni skýrslu en hún neitaði að skrifa undir þá skýrslu.

   Í skýrslunni segir jafnframt að ákærða hafi borið að hafa ekið bifreiðinni nokkra metra eftir götunni og að hún hafi drukkið áfengan bjór fyrir aksturinn.  Hafi hún gefið öndunarprufu sem sýnt hafi 3 stig.  Var ákærðu ekið á lögreglustöðina þar sem tekin var af henni skýrsla og öndunarprufa þar sem niðurstaðan sýndi 1,35 prómill.  Að lokinni skýrslutöku var tekið blóðsýni úr ákærðu á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Niðurstaða blóðrannsóknar sýndi að í blóði ákærðu var 1,32 prómill alkóhóls.  

   Tekin var skýrsla af ákærðu hjá lögreglu þann 15. nóvember 1999 og kemur þar fram að ákærða hafi ekki verið tilbúin að tjá sig um sakarefnið án lögfræðings.  Kemur og fram í skýrslu þessari að hún hafi neitað á sínum tíma að skrifa undir varðstjóraskýrslu vegna þess að hún hafi verið pirruð vegna aðstæðna sem hefðu skapast er hún hafi verið tekin við að aka bifreið undir áhrifum áfengis.

   Verða nú raktir framburðir ákærðu og vitna fyrir dómi varðandi þetta sakarefni.

   Fyrir dómi bar ákærða að hún hefði umrætt sinn verið með sambýlismanni sínum Garðari Garðarssyni.  Hún hafi ekið bifreið sinni, IV-704 að Flókagötu þar sem þau hafi farið í hús, en hún mundi ekki númer hvað húsið var.  Hún hafi ekki verið undir áhrifum áfengis þá.  Þegar þau komu í umrætt hús hafi hún drukkið áfengi.   Þau hafi síðan farið þaðan og hafi Garðar sest undir stýri og ekið bifreiðinni stuttan spöl, en þar sem bifreiðin hafi verið eitthvað biluð hafi hann stöðvað hana, opnað húddið og kannað hvað væri að.  Hún hafi þá sest undir stýri til að reyna að koma bílnum í gang.   Lögreglan hafi svo komið að þegar hún sat undir stýri.  Aðspurð um hvers vegna hún hafi borið hjá lögreglu að hún hefði ekið bílnum,  kvaðst hún hafa verið að hlífa Garðari en útskýrði það ekkert frekar.

   Vitnið Aðalsteinn Aðalsteinsson lögreglumaður kvað að tilkynnt hefði verið um skemmdaverk á bifreið við Flókagötu.  Hafi lögreglan farið á staðinn og þá hafi bifreið ákærðu verið staðsett út í vegkanti um það bil til móts við Flókagötu 7.  Hafi bifreiðin verið í gangi og ákærða setið undir stýri.  Hafi hún viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni fáeina metra og að hafa drukkið áfengi fyrir aksturinn.   Hafi hún verið handtekin í kjölfarið.  Kvaðst vitnið einnig hafa talað við vitnið Kára Steinar Karlsson sem hafi verið þarna á staðnum.  Hann hafi upplýst lögregluna um að hafa séð ákærðu aka bifreiðinni fáeina metra áður en hún stöðvaði hana.

   Vitnið Aðalsteinn Bernharðsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst ekki muna sérstaklega eftir máli þessu og treysti sér ekki til að tjá sig um atburðinn.

   Vitnið Garðar Garðarsson, sambýlismaður ákærðu kvaðst hafa farið ásamt ákærðu í gleðskap í hús við Flókagötu umræddan dag.  Hann kvaðst hafa verið á róandi lyfjum en ekki verið að neyta áfengis.  Þó kvað hann að það gæti verið að hann hafi verið að drekka bjór í þessum gleðskap, en minnti að svo hafi ekki verið.  Þegar þau hafi ætlað að fara frá Flókagötu hafi annaðhvort hann eða vitnið Örn Þór Kristínarson sest undir stýri á bifreið ákærðu og þá hafi komið í ljós að bíllinn var í ólagi.  Hafi hann og líklega vitnið Örn verið að stimpast á um hvor ætti að keyra.  Hafi bifreiðinni verið ekið nokkra metra eftir götunni og hafi hún síðan drepið á sér.  Þeir hafi síðan opnað húdd bifreiðarinnar til að kanna hvað væri að og hafi ákærða þá sest undir stýri bifreiðarinnar til að setja bifreiðina í gang og þá hafi bifreiðin komist í lag og farið í gang.  Kvaðst vitnið síðan hafa lokað húddinu og þá hafi lögreglan verið komin að og ákærða komin í lögreglubíl.  Aðspurður kvaðst hann líklega hafa verið sá sem ók bifreiðinni þessa metra en það gæti líka hafa verið vitnið Örn en hann myndi það ekki fyrir víst enda langt um liðið.

Aðspurður um skýrslu þá sem hann gaf hjá lögreglu þann 8. janúar 2000 þar sem haft er eftir honum orðrétt: “Ég óska eftir að þurfa ekki að bera vitni í þessu máli, ég var sjálfur fullur þarna og man þetta ekki vel”, kvaðst vitnið ekki muna eftir að hafa gefið þá skýrslu og hafi hann örugglega verið undir áhrifum áfengis þegar hún var gefin enda bæri undirskrift hans á skýrsluna þess merki. 

Vitnið Kári Steinar Karlsson kvaðst hafa verið að að horfa út um eldhúsgluggann hjá sér og séð tvo menn stimpast hinum megin við götuna við Flókagötu nr. 11.  Hafi annar þessara manna sparkað í spegil bifreiðar sem þarna stóð og hafi hann brotnað af.  Hafi hann þá hringt úr GSM síma sínum í lögregluna sem komið hafi nokkrum mínútum síðar.  Á meðan hann hafi talað við lögregluna hafi hann horft út og fylgst með hvað væri að gerast.  Hafi hann séð að mennirnir hafi gengið í átt að Gunnarsbraut.  Hafi svo bifreið ákærðu verið ekið vestur Flókagötu frá húsi nr. 13 og stöðvað hjá mönnum þessum og sýndist honum sem þeir sem í bílnum voru hafi verið að reyna að fá menn þessa inn í bílinn.  Hann kvaðst hafa séð að ákærða hafi verið sú sem ók bifreiðinni.  Hafi engin tilfærsla átt sér stað frá því að bifreiðinni var ekið eftir götunni og þar til lögreglan handtók konuna sem sat undir stýri.  Hann kvaðst hafa séð greinilega að þetta var sami aðilinn.  Minnti vitnið að fleiri hafi verið í bifreiðinni en ákærða en þorði ekki að fullyrða hversu margir það hafi verið, líklega einn í viðbót.

Vitnið Jóna Sigurveig Guðmundsdóttir kvaðst lítið muna eftir umræddum atburði.  Kvaðst hún ekki geta staðfest að ákærða hafi keyrt bifreiðina umrætt sinn, en það hafi verið kona sem ók.  Hún kvaðst aldrei hafa séð konu þessa áður.  Mundi hún eftir að í bifreiðinni auk hennar hafi verið Vitnið Örn, frændi vitnisins og líklega vitnið Garðar.     Kvaðst hún hafa setið í aftursæti bifreiðarinnar.  Vitnið kvaðst hafa verið á “pillufylliríi” á þessum tíma og verið að þvælast um.  Muni hún lítið frá þessum degi og dögunum í kring.

Aðspurð um lögregluskýrslu sína sem hún gaf þann 17. janúar sl. kvaðst hún aldrei hafa sagt við lögreglu að ákærða væri sú sem hafi verið að aka bifreiðinni.  Henni hafi verið sagt að ákærða hefði verið búin að játa að hafa ekið bifreiðinni og því hafi hún talið að hún væri sú sem ók.  Hún kvaðst aldrei hafa nafngreint hana enda þekki hún hana ekki.

   Vitnið Örn Þór Kristínarson kvaðst hafa á þessum tíma búið á Flókagötu nr. 13.  Hann kvaðst vita að ákærða hafi ekki verið drukkin umrætt sinn.  Hann kvaðst hafa verið inni í húsinu þegar umræddir atburðir hafi átt sér stað og því ekki séð hvað fram fór fyrir utan.  Hann mundi síðan eftir að hann hafi verið úti umrætt sinn.  Hafi ákærða ekki ekið bifreiðinni.  Hafi hann örugglega verið sá sem ók bifreiðinni eftir Flókagötu umrætt sinn nokkra metra.   Hann kvaðst muna eftir að hafa ekið bifreiðinni en ekki hvort eitthvað hafi verið að bifreiðinni.  Taldi hann mjög líklegt að hann hefði verið bílstjórinn umrætt sinn, hann væri eiginlega hundrað prósent viss.  Fullyrti vitnið að hann myndi aldrei hleypa drukknum ökumanni undir stýri bifreiðar þar sem hann væri farþegi.

Liður II í ákæru dagsettri 24. febrúar 2000

   Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að þann 29. desember sl. hafi ákærða verið stöðvuð á bifreið sinni við Eiðsgranda.   Hafi fundist nokkur áfengisþefur frá vitum hennar.  Hefur ákærða viðurkennt að hafa umrætt sinn ekið bifreið undir áhrifum áfengis.    Þegar hún var flutt á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur til blóðtöku veitti hún lögreglunni heimild til leitar í handtösku sinni.  Við þá leit fannst hvítt efni, ætlað fíkniefni, vafið inn í bréf.  Var efnið haldlagt og fært í fíkniefnaskáp lögreglunnar.  Samkvæmt efnaskrá lögreglunnar er umrætt efni,  hvítt duft, 0,49 g af amfetamíni.  Kvaðst ákærða ekki vita hvernig umrædd efni voru komin í handtösku hennar og kvaðst hún ekki kannast við að eiga þau          

Ákærða bar á sömu lund fyrir dómi og neitaði því að hafa átt umrædd efni.   Taldi hún að einhver hljóti að hafa komið þeim fyrir í tösku hennar án hennar vitundar.  Hún kvaðst hafa tekið fólk upp í bílinn fyrr um kvöldið.

Niðurstaða

   Eins og áður hefur verið rakið hefur ákærða játað að hafa framið þá háttsemi sem henni er að sök gefin í ákæru dagsettri 14. desember 1999 og í lið I í ákæru dagsettri  24. febrúar 2000.  Með skýlausri játningu ákærðu sem studd er öðrum gögnum málsins, þykir sannað að hún hafi gerst sek um brot þau sem henni eru þar að sök gefin og þar eru rétt heimfærð til refsiákvæða.   Endanlegar niðurstöður rannsóknar á blóðsýni ákærðu, sem tekin voru vegna gruns um ölvunarakstur,  sýndu að þann 13. nóvember sl. mældist áfengismagn í blóði ákærðu 0,85 prómill, þann 17. desember sl. mældist áfengismagn í blóði hennar 0,85 prómill og þann 29.desember sl. mældist áfengismagn í blóði hennar 0,92 prómill. 

Ákærða var undir áhrifum áfengis er hún var handtekin þann 15. október 1999 grunuð um ölvunarakstur.  Kom í ljós að áfengismagn í blóði hennar var 1,32 prómill. Þegar hún var handtekin játaði hún að hafa ekið umræddri bifreið nokkra metra eftir götunni.  Hún dró síðan játningu sína til baka fyrir dómi og kvaðst hafa sagt þetta við lögregluna til að hlífa sambýlismanni sínum, vitninu Garðari.  Engar frekari skýringar gaf hún á þessum breytta framburði sínum.   Vitnið Garðar bar að annaðhvort hann eða vitnið Örn hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn og vitnið Örn taldi mjög líklegt að hann hefði ekið bifreiðinni.  Framburðir vitnanna Garðars og Arnar eru mjög á reiki og ótrúverðugir.   Framburður vitnisins Kára hefur hins vegar verið stöðugur og trúverðugur.  Hann hefur fullyrt að hann hefði séð ákærðu aka umræddri bifreið.  Vitnið Jóna Sigurbjörg kvað ökumann umrætt sinn hafa verið konu og ekki liggja fyrir upplýsingar um að fleiri konur en ákærða og vitnið Jóna Sigurbjörg hafi verið á staðnum þegar meintur atburður átti sér stað. Skýring ákærðu á breyttum framburði verður að teljast hæpin og fær breyttur framburður hennar ekki næga stoð í gögnum málsins og því að engu hafandi.  Af því sem nú hefur verið rakið þykir komin fram lögfull sönnun, sem hafin er yfir allan skynsamlegan vafa, að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er að sök gefin í ákæru dagsettri 1. febrúar 2000 og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ekki er ágreiningur um að ákærða var með í tösku sinni þann 29. desember 1999 hvítt efni, sem samkvæmt efnaskrá tæknideildar Lögreglunnar í Reykjavík reyndist vera 0,49 g af amfetamíni.    Hefur ákærða haldið því fram að hún ætti ekki efnið og vissi ekki hvernig stóð á því að það væri í tösku hennar.  Sem eigandi töskunnar hlýtur ákærða að verða talin ábyrg fyrir því sem í tösku hennar finnst nema sérstakar ástæður leiði til annars.  Sú staðreynd að fíkniefni fundust í tösku hennar hlýtur því að hafa áhrif á sönnunarstöðu í máli þessu.  Þykja engin gögn fram komin sem styðja þá fullyrðingu ákærðu að einhver hafi komið efnum þessum fyrir án hennar vitundar og þykir því ekki varhugavert að telja að komin sé fram lögfull sönnun þess að hún hafi gerst sek um háttsemi þá sem greinir í ákærunni.

   Samkvæmt sakavottorði ákærðu hefur hún hlotið dóm fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga og gengist undir sátt þann 28. nóvember 1996 fyrir brot gegn 1. sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga og var hún svipt ökurétti í 12 mánuði frá 7. mars 1996.   Með brotum sínum nú hefur hún ítrekað gerst sek um ölvunarakstur.  Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærðu hæfilega ákvörðuð 420.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 44 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja.  Þá verður ákærða svipt ökurétti í 5 ár frá birtingu dómsins.  Þá skulu gerð upptæk 0,49 g af amfetamíni.

   Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda,  Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 50.000 krónur.

   Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð

   Ákærða, Sólrún Axelsdóttir greiði 420.000 króna sekt til ríkissjóðs innan 4 vikna frá birtingu dómsins að telja en sæti ella fangelsi í 44 daga.

Ákærða er svipt ökurétti í 5 ár frá birtingu dómsins að telja.

Upptæk skulu gerð 0,49 g af amfetamíni.

   Ákærða greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 50.000 krónur.