Hæstiréttur íslands

Mál nr. 364/2015

Gullhamrar veitingahús ehf. (Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)
gegn
Íslandsbanka hf. (Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldamál
  • Skuldajöfnuður

Reifun

Í hf. krafði G ehf. um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. G ehf. mótmælti ekki fjárkröfu Í hf. en taldi sig eiga gagnkröfur til skuldajafnaðar á móti kröfu Í hf. með vísan til þess að starfsmenn Í hf. hefðu millifært af reikningum félagsins án heimildar, inn á reikning og til greiðslu skulda annars félags, GH2 ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að af framburði fyrirsvarsmanns, prókúruhafa og eiganda beggja félaganna fyrir héraðsdómi mætti ráða að G ehf. hefði greitt leigu til GH2 ehf. Þá hefði bókari G ehf. greint frá því að þær millifærslukvittanir, sem um ræddi í málinu, hefði verið að finna í bókahaldi félagsins. Loks hafði G ehf., sem væri fyrirtæki í atvinnurekstri og bókhalds- og ársreikningsskylt samkvæmt lögum nr. 145/1994 og lögum nr. 3/2006, ekki sýnt fram á að gerðar hefðu verið athugasemdir við millifærslurnar fyrr en félagið skilaði greinargerð í héraði, eða tæpum þremur árum eftir að síðasta færslan átti sér stað. Var því lagt til grundvallar að millifærslurnar hefðu verið framkvæmdar með vitund og vilja G ehf. og staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að hafna kröfu G ehf. um skuldajöfnuð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. maí 2015. Hann krefst þess aðallega að til skuldajafnaðar á móti kröfu stefnda að fjárhæð 16.979.066 krónur komi gagnkrafa sín að fjárhæð 9.453.666 krónur, en til vara 3.362.577 krónur, hvort tveggja með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. febrúar 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að til frádráttar kröfu sinni komi innborgun áfrýjanda 24. apríl 2015 að fjárhæð 4.108.254 krónur.

Hinn 1. janúar 2007 yfirtók BYR sparisjóður allar skyldur og réttindi Sparisjóðs Kópavogs, en með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 tók Byr hf. við eignum hins fyrrnefnda. Stefndi tók síðan við réttindum og skyldum Byrs hf. samkvæmt samrunatilkynningu sem birt var í Lögbirtingablaðinu 5. desember 2011.

Sönnunarbyrði hvílir á fjármálafyrirtækjum um heimild starfsmanna sinna til einstakra ráðstafana fyrir hönd viðskiptamanna, en um sönnun fer eftir almennum reglum, sbr. dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 381/2015. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi fóru þær millifærslur af reikningum áfrýjanda hjá BYR sparisjóði og Byr hf., sem áfrýjandi reisir kröfur sínar um skuldajöfnuð við óumdeilda kröfu stefnda á, fram á tímabilinu frá 9. febrúar til 9. nóvember 2010. Í skýrslu fyrirsvarsmanns áfrýjanda, sem jafnframt var fyrirsvarsmaður GH2 ehf. og prókúruhafi á reikningum beggja félaganna í BYR sparisjóði og síðar Byr hf., auk þess að vera aðaleigandi þeirra, fyrir dómi kom fram að áfrýjandi greiddi leigu til GH2 ehf. vegna reksturs síns í fasteign síðarnefnda félagsins. Þá greindi bókari áfrýjanda frá því fyrir dómi að þær millifærslukvittanir, sem um ræðir í málinu, hafi verið að finna í bókhaldi félagsins.

Áfrýjandi, sem er fyrirtæki í atvinnurekstri og bókhalds- og ársreikningsskylt samkvæmt lögum nr. 145/1994 um bókhald og lögum nr. 3/2006 um ársreikninga, hefur ekki sýnt fram á að gerðar hafi verið af hans hálfu athugasemdir við áðurnefndar millifærslur fyrr en með greinargerð hans í héraði, sem lögð var fram í þinghaldi 31. október 2013, eða tæpum þremur árum eftir að sú síðasta átti sér stað. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að millifærslurnar hafi verið gerðar með vitund og vilja áfrýjanda, eins og byggt er á af hálfu stefnda. Eftir að héraðsdómur gekk greiddi áfrýjandi 4.108.254 krónur 24. apríl 2015 inn á kröfu stefnda.

Samkvæmt framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gullhamrar veitingahús ehf., greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 16.979.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. mars 2013 til greiðsludags, svo og samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, allt að frádreginni innborgun á 4.108.254 krónum 24. apríl 2015.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. apríl 2015.

Mál þetta var höfðað 3. september 2013, þingfest 12. sama mánaðar og tekið til dóms 24. mars sl. að loknum munnlegum málflutningi.

Stefnandi er Íslandsbanki hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík.

Stefnt er Lúðvík Thorberg Halldórssyni, kt. [...], Beykihlíð 25, Reykjavík, stjórnarformanni Gullhamra veitingahúss ehf., kt. [...], Þjóðhildarstíg 2-6, Reykjavík, fyrir hönd félagsins og Jónu Sigríði Þorleifsdóttur, kt. [...] Beykihlíð 25, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda Gullhömrum veitingahúsi ehf., verði gert að greiða stefnanda 16.979.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. mars 2013 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að stefnanda verði heimilað að færa dráttarvexti upp á höfuðstól skuldarinnar á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 27. mars 2014, sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001. Stefnandi krefst að auki málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi, Gullhamrar veitingahús ehf., krefst þess aðallega að staðfest verði, til skuldjafnaðar á móti kröfu stefnanda, gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð 9.453.666 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 af 1.500.000 krónum frá 9. febrúar 2010 til 7. júní 2010, af 3.400.000 krónum frá þeim degi til 30. september 2010, en af 4.329.089 krónum frá þeim degi til 7. október 2010, en af 6.991.089 krónum frá þeim degi til 18. október 2010, en af 7.991.089 krónum frá þeim degi til 26. október 2010, en af 8.591.089 krónum frá þeim degi til 9. nóvember 2010 og af 9.453.666 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara gerir stefndi þá dómkröfu að staðfest verði til skuldajafnaðar, á móti kröfu stefnanda, gagnkrafa stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð 3.362.577 krónur sem beri dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 af 1.500.000 krónum frá 9. febrúar 2010 til 18. október 2010, af 2.500.000 krónum frá þeim degi til 9.nóvember 2010, og varakröfunni til skuldajafnaðar, 3.362.577 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er þess krafist að stefnda verði heimilað að höfuðstólsfæra dráttarvexti á 12 mánaða fresti, bæði í tilviki aðalkröfu og varakröfu sinnar, í fyrsta skipti 9. nóvember 2011. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Upphaflega beindi stefnandi málshöfðun þessari einnig að Jónu S. Þorleifsdóttur, Beykihlíð 25, Reykjavík, en við upphaf aðalmeðferðar málsins 24. mars sl. felldi stefnandi niður kröfur sínar á hendur henni samhliða breytingum á kröfugerð sinni.

I.

Málsatvik

Stefnandi hefur höfðað mál þetta til  innheimtu skuldar á tékkareikningi nr. 1135-26-635 hjá stefnanda, en reikningur þessi mun hafa verið stofnaður hjá stefnanda í nafni stefnda 12. janúar 2006. Samkvæmt framlögðum skjölum nemur skuld á reikningnum alls 16.979.066 krónum. Stefndi hefur tekið til varna, m.a. á þeim grundvelli að úttektir af reikningnum hafi verið án leyfis stefnda og er krafa stefnda um skuldajöfnuð sett fram með vísan til þessa. 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst greiðslu ofangreindrar skuldar og vísar til þess að stefnandi hafi ekki greitt kröfuna þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir. Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttar um skyldu til greiðslu fjárskuldbindinga. Vaxtakröfu sína styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. þeirra laga. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á ákvæði 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Varnir sínar grundvallar stefndi á því að félagið hafi verið með tvo bankareikninga hjá forvera stefnanda, Sparisjóði Kópavogs sem síðar varð hluti af Byr sparisjóði, sem síðan var tekinn yfir af stefnanda, Íslandsbanka hf. Þetta hafi verið reikningar númer 1135-26-17517 og 1135-26-635. Forverar stefnanda, fyrst Sparisjóður Kópavogs í eitt skipti og síðan Byr í sjö skipti á árinu 2010 hafi ráðstafað fjárhæðum út af þessum tveimur reikningum, alls 9.453.666 krónum, án heimildar og án samþykkis stefnda GV. Hinn 9. febr. 2010 voru millifærðar 1.500.000 kr. af reikningi nr. 635 inn á reikning 1135-26-5312. Sá reikningur hafi verið í eigu annars fyrirtækis, GH 2 ehf. Hinn 7. júní 2010 hafi 1.900.000 kr. verið færðar af reikningi nr. 17517 yfir á reikning nr. 5312. Hinn 30. september 2010 hafi 929.089 kr. verið teknar út af reikningi nr. 17517 og ráðstafað annars vegar inn á reikning nr. 5312 (500.000 kr.) og hins vegar upp í greiðslu á skuldabréfi á nafni GH2 (429.089 kr.). Þá hafi 162.000 kr. verið ráðstafað 1. október 2010 af reikningi nr. 17157 til greiðslu inn á skuldabréf á nafni GH2 ehf. Hinn 7. október 2010 er 2.500.000 kr. ráðstafað af reikningi stefnda, nr. 17517, inn á reikning GH2, nr. 5312. Hinn 18. október 2010 hafi 1.000.000 kr. verið millifærðar af reikningi stefnda inn á reikning GH2, nr. 5312. Enn hafi verið ráðstafað 600.000 kr. 26. október 2010 af reikningi stefnda nr. 635 og lagt inn á reikning nr. 5312. Síðasta úttektin hafi verið framkvæmd 9. nóvember 2010 þegar stefnandi færði samtals 862.577 kr. af reikningi stefnda nr. 635 og ráðstafaði fjárhæðinni annars vegar inn á reikning GH2, reikning nr. 5312,

(147.000 kr.) og hins vegar til greiðslu á skuldabréfi vegna sama þriðja aðila, (715.477 kr.).

Af hálfu stefnda er því haldið fram að allar framangreindar „ráðstafanir og úttektir“ af reikningum á nafni stefnda hafi verið án heimildar stefnda og félagið hafi aldrei samþykkt þær. Við hverja heimildarlausa úttekt hafi stofnast krafa stefnda á hendur stefnanda um leið og viðkomandi úttekt hafði átt sér stað. Stefndi skuldi því stefnda 9.453.666 krónur auk dráttarvaxta. Gagnkröfur stefnda til skuldjafnaðar við kröfu stefnanda samsvari þessari fjárhæð, auk dráttarvaxta. Skilyrði til skuldajafnaðar eru uppfyllt. Kröfur aðila eru gagnkvæmar, hvor á kröfu á hinn, kröfur beggja séu gjaldkræfar, gildar og hæfar til að mætast. Loks eiga kröfurnar sér sömu rót, stefnandi líkt og forverar hans SPK og BYR veiti bankaþjónustu og stefndi hafi verið í viðskiptum við stefnanda á þeim grunni og af þeim viðskiptum stafi kröfur beggja. Reikningur stefnda hjá stefnanda nr. 1135-26-17517 hafi verið veltureikningur vegna „kröfukaupaviðskipta“ aðila. Stefndi hafi gert stefnanda grein fyrir tilteknum útistandandi kröfum sem hann ætti á hverjum tíma vegna þeirrar þjónustu sem hann seldi og að greiðendum krafnanna hefði verið tilkynnt um að þeim bæri að greiða þær inn á reikning 1135-26-17517. Á grundvelli þessa kveðst stefndi hafa notið tiltekinna yfirdráttarheimilda hjá stefnanda en sjálfur ekki haft aðgang að reikningnum. Það breyti þó ekki því að það sem var til ráðstöfunar á reikningnum á hverjum tíma skyldi aðeins ráðstafað í þágu stefnda, sbr. millifærslur af reikningi nr. 17517 yfir á annan reikning stefnda hjá stefnanda eins og reikningsyfirlit sýni. Önnur notkun á því sem til ráðstöfunar var á hverjum tíma á reikningi nr. 171517, hafi verið óheimil án leyfis stefnda.

Verði talið að stefnanda hafi verið heimilar þær úttektir sem hann framkvæmdi af reikningi nr. 17517, byggir stefndi á því að hið sama hafi ekki gilt um reikning hans nr. 1135-26-635 sem hafi verið hefðbundinn viðskiptareikningur fyrirtækis sem stefndi hafi einn haft óskoraðan rétt yfir og einn haft rétt til að ráðstafa innstæðum og heimildum þar á hverjum tíma. Á þessu grundvallar stefndi varakröfu sína, sem er sú að stefndi eigi gagnkröfur til skuldajafnaðar við kröfu stefnanda á hendur sér, sem nemi alls 3.362.577 kr., (auk umkrafinna dráttarvaxta), sem rekja megi til óheimilla og ósamþykktra úttekta stefnanda af reikningi stefnda nr. 1135-26-635. Hluta hinnar meintu yfirdráttaskuldar sem stefnandi hefur stefnt vegna sé því ekki að rekja til úttekta stefnda, heldur úttekta stefnanda sjálfs af reikningi 1135-26-635 og ráðstöfunar á því sem tekið var út í þágu annars aðila en stefnda, án samþykkis hans eða beiðni. Með þeirri háttsemi hefur stefnandi stofnað til skuldar við stefnda sem stefndi á kröfu á að fá endurgreidda frá stefnanda án tafar og öðlaðist stefndi rétt til endurgreiðslu á útteknum fjárhæðum um leið og úttektirnar fóru fram. Úttektirnar sem um er að ræða séu þessar: Hinn 9. febr. 2010, 1.500.000 kr., hinn 18. október 2010, 1.000.000 kr. og hinn 9. nóvember 2010 862.577 kr. eða alls 3.362.577 kr. Skilyrði til skuldajafnaðar eru uppfyllt, sbr. það sem segir um málsástæður aðalkröfu.

                Stefndi byggir dómkröfur sínar á almennum reglum kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Um vaxtakröfu er vísað til laga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað er studd vísan til 130. gr., sbr. 129. gr. l. nr. 91/1991.

IV.

Skýrslur við aðalmeðferð

Lúðvík Thorberg Halldórsson, fyrirsvarsmaður stefnda, Beykihlíð 25 í Reykjavík, kom fyrir dóm og gaf aðilaskýrslu við aðalmeðferð málsins. Staðfesti hann að vera stjórnarformaður og aðaleigandi stefnda. Jafnframt staðfesti hann að hann færi með prókúruumboð fyrir hönd stefnda. Í skýrslu Lúðvíks kom að öðru leyti m.a. fram að hann hefði á sama tíma jafnframt verið í fyrirsvari fyrir annað félag, GH2 ehf., sem einnig hafi verið í reikningsviðskiptum hjá stefnanda. Fyrirtæki þessi hafi verið rekin hvort undir sinni kennitölunni og löngum verið í farsælu viðskiptasambandi við stefnanda og forvera þess fjármálafyrirtækis. Stefndi hafi haft yfirdráttarheimild hjá bankastofnun þeirri þar sem stefndi var í reikningsviðskiptum. Hitt félagið, GH2 ehf., hafi lent í skuldavanda við bankahrunið 2008 og orðið gjaldþrota í kjölfarið. Rekstur þessara tveggja félaga, þ.e. GH2 ehf. og stefnda, hafi verið alveg aðskilinn. Yfirdráttarskuld hafi safnast upp á viðskiptareikningi stefnda nr. 1135-26-635. Kvaðst Lúðvík hafa stjórnað úttektum af reikningnum í gegnum heimabanka og að aðrir hafi ekki haft heimild til úttekta af greindum reikningi. Bankinn hafi þó skuldfært af reikningnum vegna vaxta af yfirdráttarláni. Að sögn Lúðvíks var stefndi einnig með vörslureikning í sama útibúi stefnanda, þ.e. reikning nr. 17517, og að stefnandi hafi einn haft aðgang að þeim reikningi. Staðhæfði Lúðvík að á grundvelli „kröfukaupasamnings“ við bankann hafi verið dregið á síðarnefnda reikninginn samkvæmt kröfum sem Lúðvík kvaðst hafa stofnað á „viðskiptavini sína.“ Bak við þetta hafi bæði verið samningur og veð í kröfunum. Lúðvík sagði úttektum af þessum reikningi, nr. 17517, hafa verið „mest háttað þannig að það var bara beðið um að það yrði millifært og það var gert.“ Að meginstefnu hafi einungis átt að millifæra inn á reikning nr. 635, en ekki gat Lúðvík bent á neitt í gögnum málsins þessu til staðfestingar. Lúðvík staðfesti að í framkvæmd hafi einnig verið greitt inn á aðra reikninga. Lúðvík var spurður um dómskjöl nr. 10 og 11 sem sýna millifærslur af öðrum bankareikningi stefnda, nr. 1135-26-17517. Staðfesti hann að gögn þessi væru úr bókhaldi stefnda og að þar kæmi m.a. fram að 7. júní 2010 hafi 1.900.000 krónur verið greiddar inn á reikning nr. 5312 sem verið hafi í eigu GH2 ehf. Einnig staðfesti hann greiðslu til sama félags að fjárhæð 500.000 krónur 30. september 2010. Lúðvík sagðist ekki hafa samþykkt þær úttektir af reikningnum sem fram koma á dómskjölum 10 og 11, en „tuðað“ við útibússtjórann og ekki talið sig hafa verið í stöðu til að „hafa mjög hátt.“ Úttektirnar hafi verið ákveðnar og framkvæmdar af starfsmönnum bankans. Ekki gat Lúðvík vísað til skriflegra gagna um mótmæli hans við ráðstöfunum bankans. Hann staðfesti að hafa einnig verið með prókúruumboð hjá GH2 ehf. Í ljósi þeirra ummæla Lúðvíks sem hér hefur verið greint frá var hann spurður að því hvers vegna hann hefði ekki greitt til baka af reikningi GH2 ehf. þá fjármuni sem þangað bárust af reikningi stefnda nr. 635 eða óskað eftir endurgreiðslu. Lúðvík viðurkenndi að hafa „ekki haft hugsun á því“.

Þá kom fyrir dóm og gaf vitnaskýrslu Ásta Hólm Birgisdóttir, starfsmaður hjá stefnanda, Dalseli 25, Reykjavík. Voru henni einnig sýnd áðurnefnd dómskjöl nr. 10 og 11. Sagði hún viðskiptin við stefnda hafa gengið þannig fyrir sig að Lúðvík hefði gert samning við sparisjóðsstjórann um að keyptar yrðu viðskiptakröfur af stefnda. Sérstakur tékkareikningur hafi verið stofnaður í þessu skyni, nr. 17517. Lúðvík eða bókari félagsins hafi stofnað kröfur í heimabankanum og svo hringt til að óska eftir greiðslu frá bankanum. Stofnaður hafi verið yfirdráttur á reikningi 17517 á þessum grunni og svo millifært yfir á reikning stefnda nr. 635. Færslurnar hafi ávallt verið gerðar samkvæmt símtali og kvaðst Ásta ekki minnast þess að tölvupóstar hafi gengið á milli aðila í þessu samhengi. Stundum hafi Lúðvík falið henni að borga inn á reikning nr. 5312 sem var í eigu GH2 ehf. eða að borga inn á skuldabréf ef þau voru í vanskilum. Kvittanir vegna millifærslna hafi alltaf verið prentaðar út og sendar í pósti til stefnda. Ásta kvaðst ekki minnast þess að Lúðvík hafi nokkru sinni kvartað yfir millifærslum þessum. Yfirlit hafi verið send út og þar veittur 30 daga athugasemdafrestur, en engar athugasemdir borist frá Lúðvík á þeim árum sem þetta verklag var viðhaft. Ásta kvaðst a.m.k. hafa gert ráð fyrir að yfirlit vegna reikninga stefnda, væru póstlögð með reglubundnum hætti, en auk þess hafi Lúðvík haft aðgang að þessum upplýsingum í gegnum heimabankann. Árlega hafi sjálfkrafa verið send yfirlit yfir alla tékkareikninga. Ásta lýsti verklaginu nánar þannig að peningar hefðu verið millifærðir á grundvelli símtala og leyninúmer yfirleitt gefið upp nema fyrirtækjafulltrúi bankans hafi þekkt vel rödd og símanúmer þess sem rætt var við. Stundum hafi hún þurft að neita bókara stefnda um millifærslu þar sem hann hafi ekki haft prókúruumboð. Símtöl hafi ekki verið hljóðrituð hjá Byr − sparisjóði. Fram kom í skýrslu Ástu að færslur á dómskjölum 10 og 11 hafi verið gerðar að beiðni Lúðvíks. Sjálf hafi hún enga hagsmuni haft af því að millifæra þessa fjármuni.

Fyrir dóminn kom og gaf vitnaskýrslu Pétur Guðmundsson, Snælandi 4 í Reykjavík, en Pétur kvaðst hafa starfað sem bókari fyrir bæði þau félög Lúðvíks Thorberg Halldórssonar, sem áður voru nefnd. Fram kom m.a. í skýrslu hans að fjárhagur þessara félaga hafi verið aðskilinn. Staðfesti Pétur að dómskjal nr. 10 væri úr bókhaldi stefnda og að hann hafi sjálfur handskrifað inn á það skjal tölurnar 5312, en það hafi verið númer þess bankareiknings sem viðkomandi millifærsla, þ.e. 1.900.000 kr. hafi verið lögð inn á 7. júní 2010.

Að lokum kom fyrir dóm og gaf vitnaskýrslu Guðrún Katrín Jónína Gísladóttir, útibússtjóri hjá stefnanda, Dynskógum 5, Reykjavík. Fram kom í skýrslu hennar að hún hafi áður starfað sem útibússtjóri hjá Byr – sparisjóði í Kópavogi. Voru henni sýnd dómskjöl nr. 10 og 11. Ekki kvaðst hún minnast þess að henni hefðu borist athugasemdir eða mótmæli frá fyrirsvarsmanni stefnda vegna millifærslna af reikningi félagsins. Stefndi hafi átt tengilið hjá útibúinu og hafi sá tengiliður, öðru nafni fyrirtækjafulltrúi, annast um millifærslur samkvæmt erindum sem þangað bárust. Að öðru leyti er ekki ástæða til að rekja framburð hennar.

V.

Niðurstaða

Óumdeilt er með málsaðilum að stefnandi hefur sem bankastofnun tekið við bæði réttindum og skyldum gagnvart stefnda.

Stefndi mótmælir ekki fjárkröfum stefnanda, en telur sig eiga gagnkröfur til skuldajafnaðar með vísan til þess að bankinn hafi í heimildarleysi tekið upp á því að millifæra af tilgreindum tékkareikningi nr. 635 til greiðslu á skuldum félagsins GH2 ehf. Við mat á þessu atriði verður ekki fram hjá því litið að fyrirsvarsmaður stefnda, Lúðvík Thorberg Halldórsson, staðfesti í framburði sínum hér fyrir dómi að hafa á þeim tíma sem hér um ræðir verið prókúruhafi bæði hjá stefnda og GH2 ehf. Jafnframt liggur fyrir að GH2 ehf. var skráð fyrir áðurnefndum reikningi nr. 5312 og staðfest hefur verið með framlögðum gögnum og skýrslum við aðalmeðferð að það félag veitti viðtöku hluta þeirra fjármuna sem greiddir voru út af bankareikningi stefnda nr. 635 sem mál þetta lýtur að.

Við aðalmeðferð komu fyrir dóm og gáfu skýrslu tveir starfsmenn stefnda sem lýstu því verklagi sem viðhaft hafði verið við millifærslur af hálfu stefnda. Stefndi hefur í greinargerð sinni til héraðsdóms gert athugasemdir við alls átta millifærslur af reikningum stefnda sem framkvæmdar voru á tímabilinu 9. febrúar 2010 til 9. nóvember sama ár, samtals að fjárhæð 9.453.666 kr. Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að millifærslum þessum hafi verið mótmælt gagnvart stefnanda og forverum hans. Þrátt fyrir að tímabil úttekta þeirra sem hér um ræðir nái yfir alls níu mánuði á árinu 2010 verður ekki séð að leitast hafi verið við það af hálfu stefnda að ná fram leiðréttingu, t.d. með skriflegum athugasemdum eða mótmælum. Gögn málsins bera raunar með sér að sjónarmiðum í þessa veru hafi fyrst verið sannanlega hreyft af hálfu stefnda með framlagningu greinargerðar í máli þessu 31. október 2013. Með hliðsjón af þeim fjárhæðum sem fluttar voru af reikningi nr. 635 á umræddu tímabili hafði stefndi þó fullt tilefni til að hreyfa slíkum mótmælum fyrr, hafi félagið á annað borð eitthvað haft við millifærslur þessar að athuga.

Í ljósi þess ábyrgðarhlutverks sem títtnefndur Lúðvík gegndi í þeim félögum sem hér hafa verið nefnd til sögunnar þykir verða að leggja til grundvallar að hann hafi vitað eða mátt vita um þær millifærslur sem í máli þessu hafa verið gerðar að umtalsefni. Það að hann hafi „ekki haft hugsun á“ að bregðast við með því að færa fjármuni til baka með þeim hætti sem hann nú virðist telja rétt, leysir hann ekki undan ábyrgð í þessu tilliti. Í þessu samhengi er til þess að líta að Lúðvík lýsti því sjálfur yfir við aðalmeðferð málsins að hann hafi haft aðgang að reikningsupplýsingum stefnda í gegnum heimabanka. Engin gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnda sem stutt geta fullyrðingar stefnda í þá veru að andmælum hafi verið komið á framfæri við stefnanda á fyrri stigum. Af framangreindu leiðir að stefndi verður sjálfur að bera hallann af þessum sönnunarskorti.

Með því að stefndi hefur ekki sýnt fram á að úttektir af tékkareikningi stefnda nr. 635 hafi verið án samþykkis félagsins kemur ekki til álita að fallast á kröfu stefnda um skuldajöfnuð. Verða kröfur stefnda því teknar til greina og stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað eins og í dómsorði greinir.

                Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, Gullhamrar veitingahús ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., 16.979.066 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. mars 2013 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 kr. í málskostnað.