Hæstiréttur íslands
Mál nr. 763/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 11. nóvember 2015. |
|
Nr. 763/2015.
|
Lögreglustjórinn á Austurlandi (Helgi Jensson fulltrúi) gegn X (Gísli M. Auðbergsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 2. desember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að varnaraðili sæti áfram gæsluvarðhaldi þann tíma sem kveðið er á um í héraðsdómi. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. nóvember 2015.
Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur með beiðni dagsettri þann 3. nóvember sl. krafist þess að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að X, fæddum [...], kærða í máli þessu, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi í fjórar vikur, frá miðvikudeginum 4. nóvember 2015, kl. 16.00, til miðvikudagsins 2. desember sama ár, kl. 16:00, eða þar til dómur gengur í máli hans.
Krafan er byggð á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað. Til vara er þess krafist að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði sé grunaður um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sbr. mál lögreglu nr. 317-2015-[...]. Nánar tiltekið með því að hafa þriðjudaginn 8. september sl. flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA, falið í [...] húsbifreiðinni [...], en bifreiðin hafi komið áðurnefndan dag kl. 09:00 til hafnar á [...] með [...]. Telur lögreglustjóri þá háttsemi varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kl. 10:00 umræddan dag hafi kærði ekið framangreindri bifreið frá borði og farið um grænt tollhlið. Í farþegasæti frammí hafi Y, fædd [...], setið, en hún sé einnig kærð í málinu. Tollgæslan hafi ákveðið að taka bifreiðina og kærðu í svokallaða úrtaksleit og við þá leit hafi fundist gríðarlegt magn af MDMA eða Extacy, falið í varadekki, tveimur gaskútum og í 14 niðursuðudósum, sem í bifreiðinni voru. Þegar grunur hafi vaknað um að fíkniefni væru í bifreiðinni hafi lögregla handtekið kærðu Y kl. 13:25 og kærða kl. 13:30, og hafi nákvæmari leit farið fram í bifreiðinni. Kærði hafi játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna, en staðhæft að kærða Y, sem hefur neitað að hafa vitað um efnin, hafi ekki vitað um tilvist þeirra. Þá hafi kærði einnig vísað lögreglu á felustað efnanna. Segir í kæru lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnalagabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Þá sé ætlað brot kærða, vegna hins mikla magns af fíkniefnum, þess eðlis að almannahagsmunir krefjist þess að kærði sæti varðhaldi þar til dómur gengur í máli hans. Fram kemur að rannsókn málsins sé á lokastigi en lögreglustjóri getur þess að rannsókn málsins teygi sig til annarra landa.
Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi upphaflega verið úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur, eða til miðvikudagsins [...]. september sl. kl. 16:00 með úrskurði Héraðsdóms Austurlands sem kveðinn var upp þann [...]. september sl. Gæsluvarðhaldið hafi síðan verið framlengt í tvær vikur með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann [...]. september sl. Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum [...]. október sl. hafi gæsluvarðhaldið verið framlengt til dagsins í dag kl. 16:00. Hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015. Kærði sé nú vistaður í fangelsinu á Litla-Hrauni og sé krafa um framlengingu gæsluvarðhalds nú lögð fyrir Héraðsdóm Suðurlands með heimild í 49. gr. laga nr. 88/2008, til hagræðis og flýtis, svo ekki þurfi að flytja kærða austur til Egilsstaða til að koma fyrir dóm.
Samkvæmt framlögðum rannsóknargögnum, þar á meðal gögnum frá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, liggur fyrir að í bifreið þeirri sem kærði kom í til landsins með [...] var gríðarlegt magn af fíkniefninu MDMA, meðal annars í töfluformi. Þá liggur fyrir að kærði hefur í yfirheyrslu hjá lögreglu játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna. Að framansögðu virtu, þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargögnum að öðru leyti, er fallist á það með lögreglustjóra að kærði sé undir sterkum grun um að hafa flutt til landsins gríðarlegt magn fíkniefnisins MDMA, en slík háttsemi varðar við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Liggur allt að 12 ára fangelsi við slíku broti ef sök sannast. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, um alvarleika brota sem sterkur grunur er um að kærði hafi framið, er því að mati dómsins uppfyllt í máli þessu. Meðal skilyrða þess að gæsluvarðhaldi verði beitt samkvæmt ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er að brot sé þess eðlis að ætla megi að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Kærði er grunaður um stórfelldan innflutning fíkniefna. Hið ætlaða brot er mjög alvarlegt og þess eðlis að það kynni að valda hneykslun í samfélaginu og sært réttarvitund almennings, ef kærði gengi laus áður en máli hans lýkur með dómi. Með vísan til þessa, eðlis ætlaðs brots kærða og framangreinds dóms Hæstaréttar í máli kærða, verður að telja að enn séu uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því fallist á þá kröfu lögreglustjóra að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, fæddur [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 2. desember 2015, klukkan 16:00.