Hæstiréttur íslands

Mál nr. 328/2010


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Óvenjulegur greiðslueyrir
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 24. febrúar 2011.

Nr. 328/2010.

Þrotabú Tækja, tóla og byggingavara ehf.

(Steinunn H. Guðbjartsdóttir hrl.)

gegn

Alexander Ólafssyni ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Óvenjulegur greiðslueyrir. Kröfugerð.

A ehf. og T ehf., sem áður hét M ehf., voru í reikningsviðskiptum um langt skeið og hinn 10. apríl 2008 afsalaði M ehf. til A ehf. tveimur íbúðum til greiðslu á viðskiptaskuld. T ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 30. júlí 2008. Þb. T ehf. höfðaði mál þetta gegn A ehf. til riftunar á framangreindri greiðslu með vísan til 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Fyrir Hæstarétti láðist þb. T ehf. að gera einnig kröfu um greiðslu fjárhæðar samhliða kröfu um riftun, eins og gert var í héraði. Hæstiréttur taldi þb. T ehf. allt að einu hafa lögvarða hagsmuni af að fá leyst úr kröfu um riftun, þótt henni fylgdi ekki krafa um greiðslu úr hendi A ehf. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að sá sem hag hefði af riftanlegri ráðstöfun eftir 134. gr. laga nr. 21/1991 skyldi greiða þrotabúi fjárhæð sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hefði orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem næmi tjóni þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. laganna. Þótt viðskipti félaganna hefðu haldið áfram eftir að greiðslan var innt af hendi gætu ákvæði 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að slík viðskipti kæmu í veg fyrir að krafa þb. T ehf. um riftun næði fram að ganga á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laganna og breytti þá engu hvort þau yllu því að skuldastaða hækkaði eða lækkaði. Var krafa þb. T ehf. um riftun á greiðslu til handa A ehf. því tekin til greina.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. maí 2010. Hann krefst þess að rift verði greiðslu á viðskiptaskuld hans við stefnda, samtals að fjárhæð 83.600.000 krónur, sem fram fór með afsölum dagsettum 10. apríl 2008 á tveimur íbúðum að Grandahvarfi 3 í Kópavogi með fastanúmer 229-3999 og 229-4000, en greiðslurnar hafi verið færðar í bókhaldi áfrýjanda 30. apríl 2008. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var bú Tækja, tóla og byggingavara ehf., sem áður hét Mest ehf., tekið til gjaldþrotaskipta 30. júlí 2008. Áfrýjandi höfðaði mál þetta á hendur stefnda 19. mars 2009 og krafðist riftunar á greiðslu eins og að framan greinir, en jafnframt að stefnda yrði gert að greiða sér 83.600.000 krónur með dráttarvöxtum frá 10. apríl sama ár til greiðsludags og málskostnað. Stefndi var sýknaður af þessum kröfum með hinum áfrýjaða dómi. Í áfrýjunarstefnu og greinargerð fyrir Hæstarétti gerði áfrýjandi þær kröfur, sem áður er getið, en ekki kröfu um greiðslu eins og gerð var í héraði. Ekki verður fallist á með áfrýjanda að hann geti komið þeirri kröfu aftur að í málinu, svo sem hann leitaðist við að gera við munnlegan flutning þess fyrir Hæstarétti. Áfrýjandi hefur allt að einu lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr kröfu um riftun, þótt henni fylgi ekki krafa um greiðslu úr hendi stefnda, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 30. apríl 1998 í máli nr. 309/1997.

Um kröfu sína hefur áfrýjandi vísað aðallega til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara til 141. gr. sömu laga. Óumdeilt er að stefndi og Mest ehf. voru í reikningsviðskiptum um langt skeið eins og rakið er í héraðsdómi. Hinn 10. apríl 2008 seldi og afsalaði félagið til stefnda framangreindum tveimur íbúðum og var kaupverð þeirra sagt vera samtals 83.600.000 krónur. Afsölum var þinglýst 6. maí sama ár. Frestdagur við gjaldþrotaskipti áfrýjanda er 29. júlí 2008. Með hinum áfrýjaða dómi var fallist á með áfrýjanda að afsöl á þessum tveimur íbúðum hafi verið greiðsla á skuld með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og að fyrir lægi að greiðslan hafi farið fram innan sex mánaða fyrir frestdag, eða 10. apríl 2008. Á hinn bóginn hafi viðskipti þessara tveggja félaga haldið áfram eftir þann tíma og samkvæmt framlögðum yfirlitum um viðskiptin hafi skuld Mest ehf. við stefnda vegna vöruúttekta á tímabilinu frá 10. apríl 2008 og fram að úrskurði um gjaldþrotaskipti á félaginu numið 99.509.054 krónum, þegar tekið hafi verið tillit til úttekta stefnda á vörum hjá því. Þar sem síðar tilkomin skuld félagsins við stefnda hafi numið hærri fjárhæð en kaupverð íbúðanna komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að fallast á kröfu áfrýjanda um riftun, enda yrði það í andstöðu við meginsjónarmið 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Þá taldi héraðsdómur að ákvæði 141. gr. sömu laga breyttu engu um þessa niðurstöðu.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að greiðsla á skuld Mest ehf. við stefnda með afsali fyrir umræddum íbúðum sé riftanleg eftir ákvæðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Eftir undirstöðurökum 140. gr. laga nr. 21/1991 verður að miða við að greiðslan hafi farið fram 6. maí 2008, er afsölum var þinglýst. Samkvæmt bókhaldsgögnum beggja félaganna nam skuld Mest ehf. við stefnda á þeim degi hærri fjárhæð en söluverði umræddra íbúða, eða rúmlega 110.000.000 krónum þegar tekið er tillit til víxla, sem félagið hafði samþykkt til greiðslu og stefndi leysti til sín frá viðskiptabanka í lok maí 2008.

sem hag hefur af riftanlegri ráðstöfun eftir 134. gr. laga nr. 21/1991 skal greiða þrotabúi fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins, sbr. 1. mgr. 142. gr. laganna. Þótt viðskipti félaganna hafi haldið áfram eftir að greiðslan var innt af hendi geta ákvæði 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að slík viðskipti komi í veg fyrir að krafa áfrýjanda um riftun nái fram að ganga á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laganna og breytir þá engu hvort þau valdi því að skuldastaða hækki eða lækki.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti um riftun á afsölum Mest ehf. 10. apríl 2008 til stefnda fyrir umræddum tveimur íbúðum að Grandahvarfi 3 í Kópavogi.

Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er afsölum Mest ehf. 10. apríl 2008 til stefnda, Alexanders Ólafssonar ehf., fyrir tveimur íbúðum að Grandahvarfi 3 í Kópavogi með fastanúmer 229-3999 og 229-4000.

Stefndi greiði áfrýjanda, þrotabúi Tækja, tóla og byggingavara ehf., samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 9. mars 2010.

I.

Mál þetta, sem upphaflega var dómtekið 21. janúar sl. en endurupptekið 18. febrúar sl. með heimild í 104. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og dómtekið að nýju 2. mars sl., var höfðað fyrir dómþinginu af þrotabúi Tækja, tóla og byggingavara ehf., Reykjavík, gegn Alexander Ólafssyni ehf., Grandatröð 4, Hafnarfirði, með stefnu birtri 19. mars 2009.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1.       Að rift verði með dómi greiðslu á viðskiptaskuld Tækja, tóla og byggingavara ehf. að fjárhæð 83.600.000 við stefnda. Greiðslan fór fram 10. apríl 2008 á eftirfarandi hátt:

                Með afsali íbúðar að Grandahvarfi 3, Kópavogi, fastanúmer 229-3999-kr.40.800.000.

                Með afsali íbúðar að Grandahvarfi 3, Kópavogi, fastanúmer 229-4000-kr. 42.800.000.

2.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 83.600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 10. apríl 2009 til greiðsludags.

3.       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað auk virðisaukaskatts samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins og að málskostnaðurinn beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

                Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að fjárkrafa stefnanda verði lækkuð verulega. Bæði í aðal- og varakröfu krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málkostnað að skaðlausu.

II.

Stefnandi kveður helstu málavexti vera þá að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 30. júlí 2008 hafi bú Tækja, tóla og byggingavara ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stjórnar félagsins og Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. verið skipuð skiptastjóri búsins. Innköllun til kröfuhafa var gefin út 5. ágúst 2008 og birtist í fyrsta sinn í Lögbirtingablaði 6. ágúst 2008 og kröfulýsingarfresti lauk 6. október sama ár. Frestdagur við skiptin er 29. júlí 2008 en við munnlegan málflutning leiðrétti lögmaður stefnanda tilgreiningu á frestdegi í stefnu sem var ranglega sögð vera 28. júlí 2008. Tæki, tól og byggingavörur ehf. hét áður Mest samsteypan ehf. og var tilgangur félagsins rekstur steypustöðva, vinnsla jarðefna, inn- og útflutningur, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Félagið rak meðal annars steypustöð að Malarhöfða og verslun að Norðlingabraut 12 í Reykjavík. Félagið var rekið með stórfelldu tapi árið 2008 og í kröfu stjórnar félagsins um gjaldþrotaskipti kemur fram að eigið fé félagsins samkvæmt milliuppgjöri fyrstu fjóra mánuði ársins 2008 hafi verið neikvætt um 1.548.155,427 krónur.

Fyrsti skiptafundur var haldinn 30. október 2008 en samtals námu lýstar kröfur í búið 3.368.257,240 krónum. Að mati skiptastjóra er líklegt að forgangskröfur greiðist að öllu eða mestu leyti en engin eða óveruleg úthlutun verði upp í almennar kröfur.

Í stefnu kemur fram að stefnandi átti kröfu á JB byggingafélag ehf. að fjárhæð 88.268.953 krónur og greiddi JB byggingafélag ehf. félaginu kröfuna með afsali íbúða að Grandahvarfi 3 og eru fastanúmer íbúðanna 229-3999 og 229-4000. Samkvæmt afsölum var umsamið verð íbúðanna samtals 83.600.000 krónur. Stefnandi afsalaði íbúðunum til stefnda með afsölum dagsettum 10. apríl 2008 og nam tilgreint verð þeirra samtals 83.600.000 krónur.

Óumdeilt er að aðilar málsins höfðu átt í viðskiptum um árabil. Kemur fram í greinargerð stefnda að stefndi hafi selt stefnanda jarðefni til nota við framleiðslu á steypu til byggingaframkvæmda og hellugerðar. Samkvæmt bókhaldi búsins var krafa stefnda gerð upp 10. apríl 2008 og fór uppgjörið fram þannig að stefnandi afsalaði til stefnda framangreindum tveimur íbúðum að Grandahvarfi 3 í Kópavogi með afsölum dagsettum þann sama dag. Með afsali dagsettu 16. maí 2008 seldi stefndi íbúðina með fastanúmeri 229-4000 á 41.000.000 krónur en íbúðina með fastanúmeri 229-3999 seldi stefndi með afsali dagsettu 4. júní sama ár og nam söluverðið 42.000.000 krónum. 

Með bréfi dagsettu 10. mars 2009 tilkynnti skiptastjóri þrotabús Tækja, tóla og byggingavara ehf. um riftun á framangreindum greiðslum og gerði jafnframt kröfu um endurgreiðslu. Lögmaður stefnda ritaði skiptastjóra bréf dagsett 16. mars 2009 og óskaði eftir gögnum sem riftunarkrafan væri byggð á. Stefna í þessu máli var gefin út 17. sama mánaðar og birt 19. sama mánaðar.

Í greinargerð stefnda er rakið að stefnandi hafi ekki safnað upp birgðum af þeim jarðefnum, sem hann keypti af stefnda, heldur hafi hann á hverjum tíma aðeins verið með efni til framleiðslu á steypu í einn eða tvo daga. Þá hafi afhending efnanna til stefnanda ætíð farið fram eftir þörfum félagsins sem hefði getað reitt sig á örugga afhendingu hvenær sem var. Þá segir í greinargerð stefnda að stefnandi hafi um árabil selt stefnda ýmsa þjónustu vegna rannsóknar á jarðefnum sem stefndi framleiðir og selur, steypu, hellur og bretti til byggingastarfsemi stefnda, tæki, svo sem rafstöðvar, hjólaskóflu o.fl. sem stefndi noti í námustarfsemi sinni og til endursölu. Viðskipti félaganna hafi að mestu verið í reikning og gegn gjaldfresti og tilhögunin ætíð verið sú að viðskiptaskuld stefnda á hverjum tíma væri skuldajafnað á móti viðskiptaskuld stefnanda við stefnda eins og framlagðir hreyfingalistar félagsins í bókhaldi stefnda beri með sér. Að öðru leyti hafi stefnandi greitt viðskiptaskuld sína við stefnda ýmist með peningum eða víxlum.

Stefndi kveður kaup stefnanda af stefnda hafa verið margfalt meiri en kaup stefnda af fyrirtækinu og hefði stefnandi því jafnan staðið í mikilli skuld við stefnda. Hvorki fyrr né á þeim tíma sem stefnandi ráðstafaði umræddum íbúðum til stefnda, hefði stefnda verið kunnugt um að fyrirtækið gæti ekki þá eða innan skamms greitt skuld sína við stefnda í peningum. Forsvarsmenn stefnanda hefðu fullvissað stefnda um að engin fjárhagsvandræði eða vöntun á peningum stæðu því í vegi að fyrirtækið gæti greitt skuld sína við stefnda með peningum að öðru leyti en því sem hún var og skyldi greidd með umsömdum skuldajöfnuði.

Í febrúar 2008 hefðu forsvarsmenn aðila hist til að fara yfir stöðu viðskiptasambands þeirra. Hefði stefnandi þá óskað eftir að stefndi tæki tvær íbúðir af sér sem fyrirframgreiðslu upp í efniskaup fyrirtækisins hjá stefnda næstu mánuði en á þessum tíma hefði stefnandi selt mikið af steypu. Ástæða þessarar óskar forstjóra stefnanda hefði verið sú að honum hefði borist beiðni þess efnis frá JB byggingafélagi ehf. um að stefnandi tæki tvær íbúðir sem greiðslu vegna skulda byggingafélagsins við stefnanda. Forstjóri stefnanda hefði tjáð framkvæmdastjóra stefnda að hann væri í erfiðri stöðu og kvaðst ekki taka við þessari greiðslu nema hann gæti ráðstafað henni áfram til stefnda. Stefndi hefði samþykkt að taka íbúðirnar sem fyrirframgreiðslu vegna úttekta stefnanda hjá stefnda næstu mánuði á verði, sem miðað var við markaðsverð íbúðanna á þeim tíma að mati fasteignasölunnar Kletts ehf. Ástæður þessa samkomulags hefðu einkum verið þær að með því hefði stefnanda verið fært að fá skuld JB byggingafélags ehf. greidda án þess að það skapaði fordæmi, auk þess sem fyrirtækið gæti haldið áfram sölu á steypu til byggingarfélagsins. Þá myndi samningurinn auka sölu stefnda til stefnanda á jarðefnum í steypu. Hefði komist á bindandi samkomulag milli stefnda og stefnanda í febrúar 2008 um heimild stefnanda til að taka í framhaldi af því út jarðefni hjá stefnda sem næmi andvirði íbúðanna. Eins og áður myndi stefndi skuldajafna úttektum sínum hjá stefnanda upp í viðskiptaskuld hans við stefnda og fyrirtækið greiða viðskipaskuld sína að öðru leyti með peningum. Stefndi hefði hins vegar einnig fallist á að taka við íbúðunum vegna hagnaðarvonar.

Úttektir stefnanda hjá stefnda á grundvelli framangreinds samkomulags hafi frá og með 16. febrúar 2008 verið eftirfarandi:

Reikningur 16.2.2008

kr. 33.709.771- kr. 22.491.560

kr. 11.218.211

Reikningur 29.2.2008

kr. 34.495.112 - kr. 24.983.5151

kr.   9.511.598

Reikningur 16.3.2008

kr. 33.622.367 – kr. 22.070.486

kr. 11.551.881

Reikningur 31.3.2008

kr. 41.642.364 – kr. 33.622.367

kr.   8.019.997

Reikningur 16.4.2008

kr. 55.592.383 – kr. 41.642.364

kr. 13.950.019

Reikningur 30.4.2008 

kr. 67.919.221 – kr. 55.592.383

kr. 12.326.838

Reikningur 16.5.2008

kr. 70.232.618 – kr. 59.899.224

kr. 11.333.394

Reikningur 31.5.2008

kr. 45.196.080 – kr. 24.629.449

kr. 20.566.631

Reikningur 30.6.2008

kr. 64.867.183 – kr. 27.654.859

kr. 37.212.324

Reikningur 8.7.2008

kr. 39.059.526 – kr. 30.464.733

kr.   8.594.793

Reikningur 18.7.2008

kr.      764.200

Samtals

kr.145.049.885

                Af hálfu stefnda voru eftir endurupptöku málsins 18. febrúar sl. lagðir fram frekari útreikningar vegna varakröfu hans. Samkvæmt þeirri samantekt nam skuld stefnanda við stefnda þann 10. apríl 2008 38.767.655 krónum. Þá virðist sem stefnandi hafi, á tímabilinu frá 10. apríl 2008 fram að gjaldþroti fyrirtækisins, tekið út vörur hjá stefnda fyrir 99.509.054 krónur eftir að frá eru dregnar úttektir stefnda hjá stefnanda.

III.

Stefnandi byggir riftunarkröfu sína aðallega á ákvæðum 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., og endurgreiðslukröfu á 142. gr. sömu laga.

Samkvæmt 134. gr. gjaldþrotalaga sé heimiluð riftun á greiðslu skuldar ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem úrslitum réð um gjaldfærni þrotamanns, nema greiðslan hafi virst eðlileg eftir atvikum. Skilyrðin séu sjálfstæð þannig að það nægi að einu þeirra sé fullnægt. Þá sé reglan hlutlæg og sett til að skapa greiða leið til að rifta greiðslum á skuldum sem inntar séu af hendi með þeim hætti að almennt megi ætla að eitthvað sé athugavert við ráðstöfunina og ætla megi að hún hefði ekki verið gerð, a.m.k. ekki með þessum hætti, ef fjárhagur skuldara hefði verið eðlilegur.

Hlutlægum skilyrðum ákvæðis 134. gr. gjaldþrotalaga sé fullnægt í þessu máli. Um sé að ræða greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Greiðslan hafi farið fram með afsali á tveimur íbúðum að Grandahvarfi 3 í Kópavogi sem teljist í báðum tilvikum vera óvenjulegur greiðslueyrir. Greiðslan hafi verið innt af hendi á þennan hátt þar sem aðrir kostir hafi ekki verið til staðar vegna bágs fjárhags stefnanda. Ljóst sé að tilgangurinn með ráðstöfuninni hafi verið sá að greiða skuld hins gjaldþrota félags en stefndi hafi fengið skuldina greidda umfram aðra kröfuhafa stefnanda með riftanlegum hætti.

Stefnandi vísar til þess að greiðslan hafi ekki verið venjuleg eftir atvikum. Engin venja hefði ríkt í viðskiptum aðila þess efnis að greiða skyldi skuldir á þennan hátt. Þá styður stefnandi riftunarkröfu sína jafnframt á því að greiðslan hafi á ótilhlýðilegan hátt orðið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og sé riftanleg með vísan til 1. mgr. 141. gr. gjaldþrotalaga.

Einnig er á því byggt að greiðslan sé óheimil með vísan til fyrrnefndra lagaákvæða. Þegar í óefni var komið, hefði verið gripið til þess ráðs að greiða stefnda skuldina á framangreindan hátt en ráðstöfunin hafi verið brot á jafnræðisreglum skuldaskilaréttar. Greiðsla skuldarinnar hefði átt sér stað á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag og verið ívilnandi fyrir stefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Ekki sé ástæða til að ætla að samið hefði verið um greiðslu skuldarinnar með þessum hætti, áður en til hennar var stofnað.

Stefnandi kveðst byggja fjárkröfu sína á 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga að því leyti sem riftunarkrafan byggist á 131. – 138. gr. sömu laga en á 2. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan er reist á 141. gr. laganna.

Um lagarök vísar stefnandi að því er varðar riftunarkröfurnar og kröfur um endurgreiðslu til m.a. 134., 136. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 142. gr. sömu laga. Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla  laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkröfu við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að almenn skilyrði gjaldþrotaréttar til riftunar umræddrar ráðstöfunar íbúðanna séu ekki uppfyllt. Stefnandi hafi verið gjaldfær á þeim tíma. Hafi stefnandi verið kominn í slíka fjárhagsörðugleika í febrúar til apríl 2008, sem byggt sé á af hálfu stefnanda, hafi stefnandi haft lögverndað svigrúm til þess að gera allar heiðarlegar og eðlilegar ráðstafanir til að rétta af rekstur sinn og freista þess að bjarga sér frá gjaldþroti. Við mat á því hvort riftunarreglur gjaldþrotalaga geti komið til álita í málinu, verði að taka fullt tillit til grundvallarreglunnar um frelsi manna og fyrirtækja til þess að ráðstafahagsmunum sínum með löggerningum. Byggir stefndi á því að umrædd ráðstöfun íbúðanna gegn áframhaldandi úttektum hjá stefnda, og einnig þótt talið verði að um greiðslu skuldar, sem þegar hafi verið til staðar, hafi verið að ræða, falli hér undir og hafi orðið til þess eða verið til þess fallin að auka gjaldfærni stefnanda og forða því frá enn meira tjóni en ella hefði orðið, teljist ráðstöfunin á annað borð hafa haft tjón í för með sér í þeim skilningi sem hér skiptir máli, en því sé mótmælt sem ósönnuðu. Þegar af þessum ástæðum sé útilokað að fallast á riftunarkröfu stefnanda á grundvelli riftunarreglna gjaldþrotalaga.

Þá byggir stefndi á því að í umræddu tilviki hafi stefnandi ekki afhent stefnda verðmæti á kostnað annarra kröfuhafa sinna. Á þessum tíma hefði staðið yfir hagræðing og endurskipulagning á starfsemi félagsins og fjárhag þess. Fyrirsvarsmönnum stefnanda hefði á þessum tíma þótt þessi ráðstöfun hagstæð í alla staði og tryggt hagsmuni sína og lausafjárstöðu með því að taka íbúðirnar sem greiðslu frá JB byggingafélagi ehf. sem þá hefði átt í fjárhagsvandræðum. Í sama tilgangi hefði íbúðunum síðan verið ráðstafað áfram til stefnda í sjálfstæðum viðskiptum sem fyrirframgreiðslu upp í frekari efniskaup. Slæm fjárhagsstaða JB byggingafélags ehf. hefði ráðið ákvörðun stefnanda um að taka við íbúðunum sem greiðslu en fjárhagsstaða stefnanda hefði engu ráðið um ráðstöfun íbúðanna til stefnda. Stefndi hefði ekki haft vitneskju um að fjárhagsstaða stefnanda væri slæm.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að með ráðstöfun íbúðanna til sín hefði stefnandi greitt skuld, sem þá hefði þegar verið til staðar, þar sem aðrir kostir hefðu ekki verið í boði vegna bágs fjárhags stefnanda eða að slíkt hefði verið tilgangur ráðstöfunarinnar. Þvert á móti hefði verið um að ræða þátt í eðlilegum viðskiptum milli aðila. Stefnandi hefði þurft að fá greiðslur frá JB byggingafélagi ehf. og orðið að taka við greiðslunni í umræddu formi frá félaginu án þess að hafa þörf fyrir íbúðirnar. Um hefði verið að ræða eðlilegan þátt í starfsemi stefnanda og stefnda og eðlilega viðskiptahætti án þvingunar eða þrýstings frá stefnda. Viðskipti aðila hefðu haldið áfram með líkum hætti og áður en þó mjög aukin og skuld stefnanda við stefnda hefði aldrei verið greidd upp og því enn verið veruleg þegar félagið varð gjaldþrota.

Verði ekki fallist á að íbúðunum hafi verið ráðstafað til stefnda sem fyrirframgreiðslu, byggir stefndi á því að í ráðstöfuninni hafi ekki verið fólgin greiðsla skuldar með óvenjulegum greiðslueyri heldur hafi greiðslan virst venjuleg eftir atvikum, sbr. 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga og þegar litið sé heildstætt til allra aðstæðna og atvika. Greiðsla með öðru en peningum og skuldajöfnuði hefði verið algeng og venjuleg í viðskiptum málsaðila. Þá hefði verðmæti íbúðanna ekki verið ákvarðað jafnt viðskiptaskuld stefnanda heldur hefði það verið miðað við markaðsverð. Þá hafi stefnandi tekið við íbúðunum sem greiðslu upp í viðskiptaskuld og sama greiðsla gengið áfram til stefnda. Ráðstöfun greiðslunnar í sama formi og á sama verði sé ekki greiðsla með óvenjulegum greiðslueyri heldur í alla staði venjuleg og eðlileg eftir atvikum og auk þess hagstæð fyrir stefnanda. Það hafi ekki verið tilgangur málsaðila að greiða stefnda skuld með óvenjulegum greiðslueyri en hvorugur þeirra hefði haft sérstaka þörf fyrir íbúðirnar. Þá séu fasteignir algengur og venjulegur greiðslueyrir milli aðila sem tengjast byggingamarkaði fasteigna og aldrei eins og í þenslu síðustu ára.

Einnig byggir stefndi á því að í viðskiptum aðila hafi lengi tíðkast uppgjör með skuldajöfnuði eins og hér hafi verið lýst. Uppgjör með skuldajöfnuði hefðu verið almennur og venjulegur greiðslumáti. Viðskiptin með íbúðirnar hefðu verið sama eðlis og lengi hefði tíðkast að því undanskildu að ekki hefðu áður komið þar við sögu fasteignir. Stefndi hefði ekki alltaf haft sérstaka þörf fyrir viðkomandi hluti sem hann keypti af stefnanda allt fram í júlí 2008. Slæm fjárhagsstaða stefnanda hefði hér engin áhrif haft og allar standi þær greiðslur óhaggaðar og viðurkenndar af stefnanda. Sé þannig viðurkennt af stefnanda að uppgjör í viðskiptum málsaðila færi fram með skuldajöfnuði eins og þörf var á á hverjum tíma.

Stefndi byggir á því að fjárhagsvandræði stefnanda hafi enga þýðingu haft að þessu leyti og að greiðslan hefði farið fram allt að einu. Hér virðist eingöngu hafa komið til fjárhagsvandræði JB byggingafélags ehf. og sá hagstæði kostur stefnanda og skilyrði fyrir móttöku greiðslunnar að ráðstafa henni beint áfram til stefnda. Mótmælir stefndi því að með þessari ráðstöfun hafi stefnandi ívilnað stefnda á kostnað annarra kröfuhafa eða gengið það til. Hafi svo verið, hafi stefnda verið það ókunnugt og ekkert slíkt vakað fyrir stefnda. Engin ástæða sé til að ætla að framangreind greiðsla sé varhugaverð og ósannað að hún verði rakin til fjárhagsvandræða stefnanda enda hafi stefnandi greitt stefnda verulegar fjárhæðir í reiðufé á sama tíma og einnig síðar. Mótmælir stefndi því að ákvæði 1. mgr. 134. gr. og 1. mgr. 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga eigi hér við. Stefndi hafi hvorki vitað né mátt vita um ógjaldfærni stefnanda á þeim tíma eða um aðstæður sem gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

Loks byggir stefndi á því að verði ráðstöfun íbúðanna til hans talin greiðsla skuldar hafi í henni verið fólgið uppgjör að sama marki með skuldajöfnuði sem uppfylli öll gildisskilyrði 1. mgr. 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í málinu hafi stefnandi ekki uppi kröfu um riftun umræddrar ráðstöfunar sem skuldajafnaðar og þá séu skilyrði 136. gr. til þess ekki uppfyllt. Enginn grundvöllur sé til þess að rifta ráðstöfuninni á þeim grundvelli sem stefnandi krefst og dæma til greiðslu fjárkröfu til stefnanda, enda eignist stefndi þá samsvarandi fjárkröfu á hendur þrotabúinu, sbr. niðurlagsákvæði 143. gr. gjaldþrotaskiptalaga með rétti til skuldajafnaðar að sama marki.

Verði fallist á riftunarkröfu stefnanda á grundvelli 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga byggir stefndi á því að stefnandi eigi aðeins rétt á endurgreiðslu samkvæmt auðgunarreglu 1. mgr. 141. gr. sömu laga og við mat á tjóni stefnanda verði aðeins horft til þess hvort Glitnir banki hf. hafi orðið fyrir tjóni vegna hennar, þar sem allir vörureikningar stefnanda hafi verið veðsettir bankanum. Byggir stefndi á því að bankinn hafi ekki orðið fyrir tjóni vegna ráðstöfunarinnar heldur þvert á móti hafi hún reynst hagstæð fyrir hann vegna þeirra veðtrygginga, sem hann hafi notið í steypuþætti rekstrar stefnanda. Stefndi hafi ekki auðgast á nokkurn hátt þegar tillit sé tekið til áframhaldandi úttekta stefnanda hjá honum alls að fjárhæð 139.810.740 krónur og kröfu stefnda í þrotabúið að fjárhæð 21.277.582 sem taka beri fullt tillit til í þessu mati og einnig þess kostnaðar og tjóns sem móttaka íbúðanna hafði í för með sér. Til frádráttar fjárkröfu stefnanda krefjist stefndi 1.858.785 króna vegna kostnaðar við endursölu íbúðanna, 2.000.000 króna vegna lægra söluverðs bifreiðar sem stefndi hafi tekið sem greiðslu á söluverði íbúðar, sem merkt er FMR 229-3999, og 600.000 króna vegna lægra söluverðs íbúðanna og í að minnsta kosti 21.277.582 vegna viðskipta aðila eftir ráðstöfunina. Samkvæmt 1. mgr. 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga verði stefnandi að sanna tjón það, sem hin riftanlega ráðstöfun olli honum. Sé því haldið fram að stefnandi hafi hvorki sannað að hún hafi leitt til slíks tjóns, sem lagagreinin byggir á, né heldur að tjón hans í umræddum skilningi nemi stefnufjárhæðinni.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega, þ.m.t. vaxtafæti og upphafstíma vaxta. Dráttarvextir verði ekki dæmdir frá fyrra tímamarki en uppkvaðningu héraðsdóms, einkum vegna þess að stefndi hafi ekki átt þess kost, fyrir útgáfu stefnu, að svara riftunar- og kröfubréfi skiptastjóra. Málskostnaðarkrafa stefnda auk álags á málskostnað sé byggð á sömu ástæðum og því að sá, sem tapi máli í öllu verulegu, skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Stefnandi hafi höfðað mál þetta að tilefnis- og þarflausu og haft uppi kröfur og staðhæfingar sem hann hafi vitað eða mátt vita að væru rangar eða haldlausar. Þá sé málskostnaðarkrafan einnig reist á því að stefnandi hafi vanrækt að uppfylla þá lagaskyldu 7. gr. innheimtulaga nr. 95/2008 að senda stefnda þar greinda viðvörun og gefa stefnda kost á skýringum af sinni hálfu fyrir útgáfu stefnu.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna gjaldþrota- og skuldaskilaréttar og 100. gr., 134. gr., 136., 141. og 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Þá er vísað til innheimtulaga nr. 95/2008, einkum 7. gr. og 6. gr. reglugerðar um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. nr. 37/2009. Málskostnaðarkröfu sína byggir stefndi á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. gr., 1. mgr. 130. gr., a- og c- liðum 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr.

V.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Ellert Alexandersson, framkvæmdastjóri stefnda, Hjalti Már Bjarnason, fyrrverandi forstjóri Mest ehf., Kai Westphal, gæðastjóri Mest ehf., Jón Óskar Þórhallsson, fyrrverandi fjármálastjóri Mest ehf., Kári Steinar Lúthersson, fyrrverandi framkvæmdastjóri sölusviðs Mest ehf. og Pétur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Mest ehf.

Í forflutningi við upphaf aðalmeðferðar málsins gerði lögmaður stefnda grein fyrir nýrri málsástæðu stefnda sem laut að því að skiptastjóri í búi stefnanda sæti í skilanefnd Glitnis og væri því vanhæfur til að fara með ákvörðun um riftun sem og málið sjálft sem forsvarsmaður stefnanda, einkum þar sem niðurstaða málsins varðaði hagsmuni sem skilanefndin færi með. Lögmaður stefnanda mótmælti hinni nýju málsástæðu sem of seint fram kominni og benti jafnframt á að skipastjóri í búi stefnanda ætti sæti í slitastjórn Glitnis auk þess sem krafa í þessu máli hefði verið flutt yfir í nýja bankann ásamt málefnum hins gjaldþrota félags í heild sinni. Gegn mótmælum stefnanda verður hin nýja málsástæða stefnda ekki tekin til greina, sbr. ákvæði 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Fyrir liggur að bú Tækja, tóla og byggingarvara ehf., sem áður hét Mest samsteypan ehf., var tekið til gjaldþrotaskipta 30. júlí 2008 en frestdagur við skiptin er 29. júlí sama ár. Samkvæmt gjaldþrotaskiptabeiðni stjórnar félagsins var umtalsvert tap á rekstri þess á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2008 og eigið fé neikvætt um 1.548.155.427 krónur. Þá kom fram hjá þeim Hjalta Má Bjarnasyni, fyrrverandi forstjóra Mest ehf., Jóni Óskari Þórhallssyni, fyrrverandi fjármálastjóra Mest ehf., og Pétri Guðmundssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Mest ehf., að undirbúningur endurskipulagningar fyrirtækisins hefði verið hafinn í byrjun árs 2008. Kvað Pétur endurskipulagninguna hafa átt að felast í hlutafjáraukningu og síðan, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, frekari lánafyrirgreiðslu. Þeir Hjalti Már og Jón Óskar kváðu félagið hafa verið fært um að greiða kröfu stefnda með peningum en það hefði þýtt að þá hefði ekki verið hægt að greiða einhverjum öðrum kröfuhöfum sínar kröfur, þ.e. að þá yrði að forgangsraða. 

Óumdeilt er að aðilar þessa máls höfðu átt viðskipti um langt skeið og keypti stefnandi af stefnda efni til steypuframleiðslu en stefndi tók út hjá stefnanda vörur og þjónustu sem hann gat notað í starfsemi sinni. Þá kom fram í framburði Ellerts Alexanderssonar, framkvæmdastjóra stefnda, hér fyrir dóminum að yfirleitt hefði verið skuldajafnað vegna viðskipta aðila í gegnum viðskiptamannareikning. Er óumdeilt að stefnandi stóð í skuld við stefnda í apríl 2008. Þann 10. apríl sama ár afsalaði JB byggingafélag ehf. tveimur íbúðum við Grandahvarf 3 í Kópavogi, fastanúmer 229-3999 og 229-4000, að umsömdu kaupverði samtals 83.600.000 krónur, til stefnanda og er óumdeilt og sýnt fram á með gögnum að þeim íbúðum afsalaði stefnandi síðan til stefnda á sama verði með afsölum dagsettum sama dag. Verður að miða dagsetningu umþrættrar greiðslu stefnanda til stefnda við það tímamark og er það í samræmi við það, sem fram kemur í stefnu, um að samkvæmt bókhaldi þrotabús stefnanda hafi krafa stefnda verið gerð upp 10. apríl 2008 með afsali framangreindra íbúða til stefnda.

Ljóst er af gögnum og framburði þeirra Ellerts Alexanderssonar, framkvæmdastjóra stefnda, og Hjalta Más Bjarnasonar, fyrrverandi forstjóra stefnanda, fyrir dómi að það tíðkaðist ekki í viðskiptum aðila að greiða með íbúðum. Þá var ekki upphaflega samið um að greiðslur þeirra í milli væru í þessu formi. Jafnframt er komið fram að sala fasteigna var ekki hluti af daglegum rekstri stefnanda en stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir slíkri venju. Engin gögn styðja því þá fullyrðingu að íbúðirnar hafi verið venjulegur greiðslueyrir. Verður því að fallast á með stefnanda að framangreind greiðsla með afsali á áðurnefndum tveimur íbúðum hafi verið greiðsla til stefnda með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 en fyrir liggur að greiðslan fór fram á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. 

Í málinu liggja fyrir yfirlit um viðskipti aðila eftir afsal á framangreindum íbúðum frá stefnanda til stefnda. Af þeim má ráða að skuld stefnanda við stefnda vegna vöruúttekta á tímabilinu frá 10. apríl 2008 fram að gjaldþroti stefnanda hafi numið 99.509.054 krónum þegar tillit hefur verið tekið til þess, sem stefndi tók út af vörum hjá stefnanda. Hefur þeim útreikningi ekki verið haggað og þá hefur stefnandi ekki mótmælt honum með öðrum hætti en þeim, að kröfugerð stefnda í varakröfu sé óskiljanleg og vanreifuð. Það er því mat dómsins að miða þurfi við framlögð gögn að þessu leyti. Þegar litið er til þess að framangreind skuld stefnanda við stefnda nemur samkvæmt framlögðum gögnum hærri fjárhæð en stefnandi greiddi stefnda með framangreindum tveimur íbúðum, þykir ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um riftun enda væri það í andstöðu við þau meginsjónarmið, sem fram koma í ákvæðum 1. mgr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga um að sá sem hefur hag að riftanlegri ráðstöfun skuli ekki greiða þrotabúinu hærri fjárhæð en sem nemur tjóni búsins. Verður stefndi því, þegar af þeirri ástæðu, sýknaður af öllum kröfum stefnanda og því óþarft að fjalla um málsástæður stefnanda sem byggja á ákvæðum 1. mgr. 141. gr. gjaldþrotalaga sem og aðrar málsástæður stefnda.

Með vísan til niðurstöðu málsins og meginreglunnar í 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Stefndi, Alexander Ólafsson ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, þrotabús Tækja, tóla og byggingarvara ehf.

                Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.