Hæstiréttur íslands

Mál nr. 97/2004


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Ábyrgð stjórnarmanna
  • Gjaldþrotaskipti
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. október 2004.

Nr. 97/2004.

Þrotabú Nólós ehf.

(Jón G. Briem hrl.)

gegn

Umboðssölunni Art ehf. og

Georg Kristjánssyni

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Hlutafélög. Ábyrgð stjórnarmanna. Gjaldþrotaskipti. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

 

Í lok febrúar 2001 keypti N 10% hlut U í fyrirtækinu S. Gengi hlutabréfanna var mun hærra en annarra bréfa í S, sem N hafði keypt, en N greiddi fyrir bréfin með því að lækka skuld U við N, og var hún nánast jöfnuð út. Fór svo að bú N var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2002 og S í febrúar 2003. Af hálfu þrotabús N var því haldið fram að fyrrnefnd viðskipti N og U, sem voru tengd félög, væru riftanleg með vísan til 141. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var, að N hafi í raun engin verðmæti fengið í sinn hlut í staðinn fyrir eftirgjöf skuldar U við félagið. Verðmæti bréfanna hafi ekki verið metið af sérfróðum aðilum fyrir kaupin og samningur um kaupin ekki lagður fram. Umrædd viðskipti aðila hafi bersýnilega verið stefndu til hagsbóta en jafnframt brotið í bága við hagsmuni N. Hafi viðskiptin því, eins og á stóð, verið ótilhlýðileg og stefndu hafi mátt vera það ljóst. Þrotabú N var hins vegar ekki talið hafa sýnt fram á stöðu félagsins á þeim tíma, sem skipti máli. Var málið því svo vanreifað, að óhjákvæmilegt var að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. mars 2004. Hann krefst þess, að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða sér 12.700.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. mars 2001 til greiðsludags og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og fram kemur í héraðsdómi varðar mál þetta viðskipti milli Nólós ehf., sem flutti inn skó og fatnað, (áður HPH ehf.) og stefnda Umboðssölunnar Arts ehf., sem fram fóru 28. febrúar 2001, er Nóló ehf. keypti hlutabréf hins stefnda félags í Spé hf. (áður Hnjótum hf.). Framkvæmdastjóri Nólós ehf. var Valdemar Jónasson og var hann einnig framkvæmdastjóri Spés hf. Í stjórn Nólós ehf. áttu sæti fyrrgreindur Valdemar, stefndi Georg Kristjánsson og Pétur Þór Halldórsson, og í stjórn Spés hf. sátu Valdemar, Pétur Þór og Úlfar Steindórsson. Aðaleigandi og framkvæmdastjóri stefnda Umboðssölunnar Arts ehf. var stefndi Georg, sem einnig var eini stjórnarmaðurinn í því félagi.

Árið 1999 keypti Nóló ehf. 30% hlut Úlfars Steindórssonar í Spé hf. að nafnverði 1.200.000 krónur fyrir 7.850.000 krónur. Í viðskiptunum 28. febrúar 2001 keypti Nóló ehf. 30% hlut Valdemars Jónassonar í Spé hf. að nafnverði 1.188.000 krónur fyrir 2.000.000 krónur, 30% hlut Péturs Þórs Halldórssonar að nafnverði 1.188.000 krónur fyrir 19.300.000 krónur og 10% hlut stefnda Umboðssölunnar Arts ehf. að nafnverði 396.000 krónur fyrir 12.700.000 krónur. Gengi bréfanna var því mjög mismunandi, frá 1,68 til 32,07. Var Nóló ehf. orðinn einn eigandi allra hlutabréfa í Spé hf., en félagið hafði yfirtekið rekstur Spés hf., og þar með vörumerki og umboð, frá ársbyrjun 1999 og keypt allar vörubirgðir þess fyrir 10.118.275 krónur. Bú Spés hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 28. febrúar 2003.

Bú Nólós ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 3. maí 2002. Í máli þessu krefst áfrýjandi þess, að stefndu greiði honum 12.700.000 krónur, sem var kaupverð hlutabréfa Umboðssölunnar Arts ehf. í Spé hf.

Framangreindir hluthafar í Spé hf. stóðu allir í skuld við Nóló ehf., Pétur Þór skuldaði 19.579.453 krónur, Valdemar 16.096 krónur og hið stefnda félag 13.199.917 krónur. Greiðsla hlutabréfanna fólst í því að lækka skuld seljendanna við Nóló ehf. og var hún nánast jöfnuð út.

Viðskipti þessi voru kynnt hluthöfum Nólós ehf. á aðalfundi félagsins 15. mars 2001, og var í fundargerð vísað til samnings, sem mun ekki hafa fundist í gögnum félagsins.

II.

Áfrýjandi heldur því fram, að framangreindur gerningur sé riftanlegur með vísan til 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með honum hafi verið komið í veg fyrir, að eignir Nólós ehf. hafi verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, þar sem kröfum félagsins á hendur seljendum hafi að mestu verið eytt með gerningnum. Hér hafi því verið um ótilhlýðilegan gerning að ræða og hafi stefndu vitað að svo væri. Þá byggir áfrýjandi á því, að Nóló ehf. hafi verið orðið ógjaldfært, þegar viðskiptin fóru fram, eða orðið það vegna viðskiptanna, og að stefndu hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Nólós ehf. á þessum tíma. Nauðsynlegt hefði verið að fá mat á verðmætunum eða mikilvægi þeirra fyrir félagið, sérstaklega þar sem sömu aðilar voru beggja megin borðsins, en hér hafi verið um að ræða viðskipti milli nákominna í skilningi 3. gr. laga nr. 21/1991. Stefndu hafi ekki getað dulist, að verðmæti þau, sem um var að tefla, voru lítil sem engin. Umboðin, sem stefndu segist hafa ætlað að tryggja, að áfrýjandi fengi með viðskiptunum, hafi ekki komið honum að neinu gagni, en þau hafi farið til nýs hlutafélags, Spors ehf., sem nokkrir stjórnarmanna stofnuðu með mökum sínum. Grunsamlegt væri, að verðið á hlutabréfunum hefði verið látið passa um það bil alveg við skuld hins stefnda félags og gengið á bréfum þess hafi verið allt annað og hærra en gengi á bréfum hinna tveggja, sem seldu sín bréf um leið. Allt bendi til þess, að ekki hafi verið um raunveruleg hlutabréfaviðskipti að ræða heldur hafi tilgangurinn verið að tryggja hagsmuni stjórnarmanna Nólós ehf. með því að slétta út skuldir þeirra eða hlutafélaga þeirra við Nóló ehf.

Áfrýjandi bendir á framburð Tómasar Hallgrímssonar útibússtjóra í Landsbankanum hf. um ógjaldfærni Nólós ehf., þar sem fram kom að vanskil félagsins við bankann hafi byrjað síðla árs 2000 og verið komin í 7 – 10.000.000 krónur á þeim tíma, er viðskiptin áttu sér stað. Bankareikningum félagsins hafi verið lokað í janúar 2002 og bú þess tekið til gjaldþrotaskipta 3. maí sama ár. Telur áfrýjandi, að það hefði skipt félagið verulegu máli að eiga 34.000.000 króna kröfur á hendur seljendum hlutabréfanna.

Áfrýjandi telur, að stefndi Georg sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum skaðabótareglum fyrir þátt sinn í gerningnum. Hafi hann bersýnilega verið til þess fallinn að afla honum eða einkahlutafélagi hans ótilhlýðilegra hagsmuna og valdið Nóló ehf., og síðar kröfuhöfum í bú þess, tjóni. Hann hafi verið stjórnarmaður í Nóló ehf. og staðið þar að því að semja við stefnda Umboðssöluna Art ehf., þar sem hann hafi verið framkvæmdastjóri og aðaleigandi, en hann hafi átt 99,8% hlut í því félagi og eiginkona hans 0,2%. Hafi hann brotið 48. gr. og 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Verð hlutabréfanna hafi verið allt of hátt miðað við hag Spés hf., en samkvæmt ársreikningi félagsins 2000 var eigið fé neikvætt um tæpar 88 milljónir króna, og endurskoðandi félagsins hafði ritað athugasemd á ársreikninginn, að vafi gæti leikið á rekstrarhæfi þess.

III.

Stefndu hafna því, að 141. gr. laga nr. 21/1991 geti átt við um þau viðskipti, sem hér um ræðir, þar sem allt hafi verið í blóma hjá Nóló ehf., er þau fóru fram og hafi þau engin áhrif haft á það, sem síðar gerðist í rekstri félagsins. Nóló ehf. hafi tekið við rekstri Spés hf. í byrjun árs 1999, er hið síðarnefnda félag seldi hinu fyrrnefnda allar vörubirgðir sínar og vörumerki og umboð, en ekki hafi verið greitt sérstaklega fyrir vörumerki og viðskiptavild. Frá ársbyrjun 1999 hafi starfsemi  Spés hf. eingöngu verið fólgin í þjónustu fyrir Nóló ehf., en Spé hf. hafi séð um fjármál, bókhald og útkeyrslu á vörum fyrir Nóló ehf., en það félag séð um sölu og innflutning á vörunum. Á þessum tíma hafi yfirfæranlegt skattalegt rekstrartap Spés hf. verið orðið verulegt og því hafi starfsemi félagsins verið haldið áfram með framangreindum hætti. Um mitt ár 2000 hafi verið byrjað að huga að því að fá inn nýja hluthafa í Nóló ehf. og hafi allt frá byrjun verið ráðgert, að Spé hf. „væri inni í heildarpakkanum“ til þess að unnt væri að nýta yfirfæranlegt rekstrartap félagsins. Eftir viðræður við hugsanlega fjárfesta hefði þótt heppilegast, að Nóló ehf. keypti öll hlutabréf í Spé hf., þannig að nýir hluthafar gætu útfært samrunann eftir sínu höfði. Til grundvallar verðmati á hlutabréfunum hafi verið tekið mið af yfirfæranlegu skattalegu tapi félagsins og tekið tillit til vörumerkja, sem höfðu verið hjá Spé hf. en Nóló ehf. hafði nú yfirtekið. Verðmæti hlutafjárins, sem Nóló ehf. keypti af hluthöfum Spés hf., hafi verið ákveðið út frá þeim umboðum, sem viðkomandi hluthafi hafði aflað og í raun lagt félaginu til með því að starfa þar. Einnig hafi verið horft til viðskiptastöðu hvers aðila og menn verið sammála um, að óeðlilegt væri, að einn hluthafi fengi greiðslu í peningum meðan aðrir stæðu í skuld. Hagsmunir Nólós ehf. hefðu verið fólgnir í því að halda áfram sambandinu við hluthafa í Spé hf., enda voru verðmætustu umboðin þeim tengd. Í ársbyrjun 2001 hafi hluthafar í Nóló ehf. talið að bjart væri framundan hjá félaginu. Forsendur fyrir áframhaldandi rekstri félagsins hefðu verið þær, að aukið hlutafé kæmi inn í félagið og að það héldi þeim viðskiptasamböndum, sem fylgdu eigendum félagsins. Forsenda þess hafi verið að halda hluthafahópnum saman og liður í því að færa endanlega viðskiptavild Spés hf. yfir í Nóló ehf. með kaupum á hlutafénu. Með þessum gerningi hafi Nóló ehf. fengið viðskiptasambönd inn í félagið með tryggum hætti án þess að fórna nokkrum hagsmunum í staðinn. Greiðslan fyrir hlutabréfin hafi falist í eftirgjöf kröfu Nólós ehf. á hið stefnda félag, sem hafi verið ógjaldfært á þessum tíma. Það hafi því verið góð og gegn viðskiptaákvörðun hjá Nóló ehf. að festa kaup á hlutafénu í Spé hf. með þeim hætti sem gert var. Því sé ekki um riftanlega ráðstöfun að ræða á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.

Stefndi Georg byggir sýknukröfu sína aðallega á aðildarskorti, þar sem hann hafi ekki verið persónulegur aðili að þeim viðskiptum, sem mál þetta fjalli um. Þá hafi viðskipti þessi ekki verið óeðlileg eða skemmandi fyrir Nóló ehf. heldur forsenda fyrir áframhaldandi rekstri félagsins. Ekkert tjón hafi orðið í Nóló ehf. við þessi viðskipti og hafi þau engan þátt átt í gjaldþroti félagsins.  Að því er varði 48. gr. og 51. gr. laga nr. 138/1994 þá séu þær settar til verndar þeim hluthöfum, sem ekki komi að ákvarðanatöku í félaginu, en í þessu tilviki hafi öllum hluthöfum verið kunnugt um viðskiptin og samþykkt þau. Allir hluthafar í Nóló ehf. hafi verið sammála um, að endurgjald fyrir bréfin skyldi vera með framangreindum hætti. Umboðin, sem fylgdu hverjum hluthafa, hafi verið talin mismunandi verðmæt og samkomulag um, að allir kæmu út á sléttu, hvað það varðaði, og enginn myndi enda með skuld við félagið meðan aðrir væru skuldlausir.

IV.

Eins og að framan er lýst keypti Nóló ehf. 70% hlutafjár í Spé hf. 28. febrúar 2001, þar af 10% hlutafjárins af stefnda Umboðssölunni Art ehf., fyrir samtals 34.000.000 krónur. Greiðslan fyrir hlutabréfin til stefnda og hinna tveggja seljendanna fór fram með skuldajöfnuði, en allir skulduðu seljendurnir Nóló ehf. fé, sem nam um það bil kaupverði hlutabréfanna. Á þessum tíma var eigið fé Spés hf. neikvætt um tæpar 88 milljónir króna og tap ársins 2000 var tæpar 16 milljónir króna. Stefndu kveða verðmæti hlutafjárins hafa verið ákveðið út frá þeim umboðum, sem viðkomandi hluthafi hafði aflað og lagt félaginu til með því að starfa þar, en fram er komið að umboðin voru ekki eign Spés hf. heldur „fylgdu“ hluthöfunum í Nóló ehf. Þá hafi það einnig legið til grundvallar verðmati bréfanna, að Nóló ehf. gæti nýtt sér skattalegt hagræði af yfirfæranlegu tapi Spés hf.

Málatilbúnaður stefndu verður ekki skilinn á annan veg en þann, að við kaup Nólós ehf. á hlutafénu í Spé hf. hafi umboð og vörumerki fylgt með í kaupunum þrátt fyrir að jafnframt sé haldið fram að þau hafi „fylgt“ hluthöfum í Nóló ehf. Er fjárhæð kaupverðsins, 34.000.000 krónur, öðrum þræði skýrð með því. Við gjaldþrot Nólós ehf. rúmu ári síðar höfðu umboðin og vörumerkin hins vegar, án endurgjalds til Nólós ehf., verið færð yfir á nýtt félag, Spor ehf., sem stofnað var af nokkrum stjórnarmönnum fyrrnefnda félagsins og mökum þeirra. Verður ekki ráðið að nein verðmæti hafi að þessu leyti runnið til Nólós ehf. við kaupin á hlutafénu í Spé hf.

Að því er varðar verðmæti það, sem fólst í skattalegu hagræði af yfirfæranlegu tapi Spés hf., þá liggur ekkert fyrir um það að félögin hafi verið sameinuð eins og kveðið er á um í IV. kafla laga nr. 138/1994 svo að unnt væri að notfæra sér heimild skattalaga um skattalegt hagræði vegna samrunans.

Samkvæmt framansögðu er ljóst, að Nóló ehf. fékk í reynd engin verðmæti í sinn hlut í staðinn fyrir eftirgjöf á 12.700.000 króna skuld stefnda Umboðssölunnar Arts ehf. við félagið. Eins og að framan er lýst var verðmæti bréfanna ekki metið af sérfróðum aðilum fyrir kaupin og samningur um viðskiptin hefur ekki verið lagður fram. Hafa ber í huga, að fjárhæð allra hlutabréfanna, 34.000.000 krónur, nam meira en fimmföldu eigin fé Nólós ehf. Þessi viðskipti aðila voru stefndu bersýnilega til hagsbóta, en brutu jafnframt í bága við hagsmuni Nólós ehf. Voru viðskipti þessi því, eins og á stóð, ótilhlýðileg og mátti stefndu vera það ljóst

Í máli þessu liggja ekki fyrir gögn um skuldbindingar Nólós ehf. við aðra, hvenær gjalddagi þeirra var og um hvaða fjárhæðir var að tefla á þeim tíma, sem hlutaféð í Spé ehf. var keypt. Ekkert hefur heldur verið lagt fram til samanburðar um tekjuöflun félagsins, stöðu á bankareikningum, heimild til yfirdráttar á þeim, hvort það hafi átt eignir, sem ganga hefði mátt á til að afla fjár, eða hvort það hafi annars átt kost á lánsfé. Áfrýjandi hefur því ekki sýnt fram á stöðu félagsins á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Er málið því svo vanreifað, að óhjákvæmilegt er að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 6. janúar 2004.

             Stefnandi er Þrotabú Nólós ehf (áður H.P.H. ehf.), kt. 710197-3189, Akralind 2, Kópavogi, en stefndu eru Umboðssalan Art ehf., kt. 660695-2309, Fífulind 9, Kópavogi og Georg Kristjánsson, kt. 240265-4439, sama stað.

             Umboðsmaður stefnanda er Jón G. Briem hrl., en umboðsmaður stefndu er Helgi Jóhannesson hrl.

             I.          Dómkröfur.

1.          Stefnandi krefst þess að rift verði viðskiptum milli Nólós ehf. (áður H.P.H. ehf.) og Umboðssölunnar Art ehf., um kaup stefnanda á hlutabréfum Umboðssölunnar Art ehf í Spé hf. (áður Hnjótur ehf.)  Þess er jafnframt krafist að stefndu verði in solidum dæmdir til að endurgreiða stefnanda kaupverðið 12.700.000 krónur auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38,2001 frá 1. mars 2001 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu að mat dómsins.

            

2.          Af hálfu stefndu er þess krafist að þeir verði alfarið sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað að mati réttarins.

             II.         Málavextir.

            Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 3. maí 2002 var bú Nólós ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og var Jón G. Briem hrl. skipaður skiptastjóri þess.  Félagið flutti inn skó pg fatnað m.a. fyrir íþróttaiðkendur og var til húsa í leiguhúsnæði að Akralind 2, Kópavogi, en það húsnæði var í eigu þeirra aðila sem voru eigendur að stefnanda, sem eru Unnur Kristinsdóttir, Pétur Halldórsson og Georg Kristjánsson.

 

             Forsaga þeirra viðskipta sem riftunar er krafist á, er þau að því er fram kemur hjá stefndu, að árinu 1999 seldi félagið Hnjótur ehf. (síðar Spé ehf.) allar vörubirgðir sínar til H.P.H. ehf. (Síðar Nóló ehf.) fyrir rúmar 10 milljónir og hætti félagið eftir það hefðbundnum rekstri sínum og var starfsemi Spé ehf. frá ársbyrjun 1999 eingöngu fólgin í ýmiskonar þjónustu fyrir Nóló ehf. og annað annað félag.  Spé ehf. hafði séð um fjármál, bókhald og útkeyrslu á vörum fyrir Nóló ehf. meðan Nóló ehf. sá um eiginlega sölu og innflutning á vörum.  Þessi yfirfærsla á eiginlegum rekstri Spés ehf. yfir í Nóló hafa einkum verið tilkomin vegna þrýstings frá Sparisjóði Kópavogs.  Hluthafar í Nóló ehf. höfðu fengið umboð fyrir Ecco skó hér á landi á árinu 1997 og höfðu keypt Reebock umboðið 1998 og voru þessi umboð forsenda fyrir áframhaldandi reksti Nólós ehf.

             Á þessum tíma var yfirfæranlegt skattalegt rekstrartap Spés ehf. orðið verulegt, hljóp á tugum milljóna króna.  Starfsemi félagsins hafði samt verið haldið áfram með því að þjónusta þess til hinna félaganna var seld með álagi, en ákveðin verðmæti voru talin vera fólgin í hinu yfirfæranlega tapi.  Um mitt ár 2000 hafði verið hugað að því að fá inn nýja hluthafa í Nóló ehf. og hafði Tómas Hansson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka hf., verið fenginn til liðs við félagið auk þess framkvæmt var verðmat á því af Prince Waterhouse Coopers ehf. í nóvember 2000.  Hafði alltaf verið gengið út frá því, að Spé ehf. væri inni í heildarpakkanum, til þess að unnt væri að nýta yfirfæranlegt rekstrartap félagsins, sem þá var verulegt.

             Málið hafði verið kynnt fyrir hugsanlegum fjárfestum með hliðsjón af rekstraráætlun félagsins og yfirtöku skuldar Spés ehf.. Á síðari hluta árs 2001 og fyrri hluta árs 2001 höfðu verið í gangi viðræður við ýmsa aðila um innkomu í félagið.

             Í ársbyrjun 2001 voru viðræður þessar taldar komnar það langt að ekki yrði beðið að taka afstöðu til samruna Nólós ehf. og Spés ehf.  Eftir nánari skoðun þótti heppilegast að Nóló ehf. keypti öll hlutabréfin í Spé ehf. svo að nýjir hluthafar gætu útfært samrunan eftir sínu höfði.  Þau viðskipti fóru fram 28. febrúar 2001 samkvæmt bókhaldi stefnanda og var ákvörðun um þau tekin af stjórn stefnanda og tilkynnt hluthöfum á aðalfundi sem haldinn var 18. mars 2001.

             Stefnandi átti fyrir 30% hlutafjár í Spé ehf., 10% voru í eigu stefnda Umboðssölunnar Art ehf., 30% voru í eigu Vála ehf. og 30% í eigu P. Halldórssonar og Co ehf. og keypti stefnandi hlutabréfin af þessum félögum, en eigendur þeirra eða stjórnarmenn voru allir í stjórn Nólós ehf. Um einn hlutaflokk á bréfum var að ræða, en gengið þeirra var misjafnt við kaupin.  Þannig var verð á bréfunum, sem stefnandi keypti af stefnda Umboðssölunni Art ehf.  á 12.700.000 króna svo að kaupgengið var 32,07, af  P. Halldórssyni og Co ehf. voru bréfin keypt fyrir 19.300.000 krónur, en þau voru að nafnverði 1.188.000 krónur og gengið á þeim 16,25, og af Vála voru bréfin keypt fyrir 2.000.000 króna, en nafnverð þeirra var 1.188.000 krónur svo að kaupgengið var 1,68 á þeim.

             Þegar viðskipti þessi fóru fram voru framangreind félög í skuld við stefnanda, þannig var skuld P. Halldórssonar og Co ehf. 19.579.453 krónur, skuld stefnda Umboðssölunnar Art ehf. 13.199.917 krónur og skuld Vála ehf eða Valdimars St. Jónassonar 16.096 krónur.  Kaupverð bréfanna, sem stefnandi átti fyrir og voru keypt á árinu 2000 var 7.850.000 krónur en þau voru að nafnverði 1.188.000 krónur og kaupgengið 6,61 króna.  Kaupverð bréfanna samkv. viðskiptum 28. febrúar 2001 var greitt með þeim hætti að því var skuldajafnað við skuld félaganna við stefnanda að því marki er kaupverðinu nam, en skuld stefnda umboðssölunnar Art ehf. og P. Halldórssonar og Co ehf. voru nálægt því að vera sömu upphæðar og kaupverðið og kemur fram hjá stefnanda að mismunandi gengi bréfanna ráðist af skuldastöðu félaganna við Nóló ehf. fyrir árið 2000, en samkvæmt honum hafi heildartekjur félagsins verið 8.902.424 krónur, tap ársins 15.873.455 krónur og eigið fé verið neikvætt um 87.803.066 krónur.  Þá er vitnað í það, sem fram komi í áritun löggilts endurskoðanda á ársreikningum, en þar segir:  "Við endurskoðunina kom í ljós, að eigið fé félagsins er neikvætt um tæpar 88 milljónir króna og getur því leikið vafi á rekstrarhæfi þess".  Þá er vísað í áritun löggilts endurskoðanda á Nóló ehf. frá 28/2 2001, en þar segi: "Í ljós hefur komið að meðal fastafjármuna í efnahagsreikningi eru hlutabréf, (áhættufjármunir), sem metin eru á kaupverði 7.850.000 krónur.  Mat þessara eigna getur verið ofmetið, þar sem eiginfjárstaða þess félags er neikvæð", en þarna hafi verið vísað í bréfin, sem keypt voru á árinu 2000 í Spé ehf.  Verð fyrir félagið væri m/v gengið sem Nóló ehf. keypti hlutabréfin á árið 2000, 26.175.600 krónur, en er 48.710 krónur ef miðað er við gengið sem bréfin voru seld á í febrúar 2001.

             Hjá stefndu hefur hinsvegar komið fram að til grundvallar þessu verðmati á hlutabréfunum í Spé ehf. hafi verið tekið mið af yfirfæranlegu skattalegu tapi félagsins, sem numið hafi í árslok 2000 um 98,5 milljónum króna.  Skattspörun fyrir Nóló ehf. hafi verið metin á 29,5 milljónir króna.  Þá hafi og verið tekið tillit til vörumerkja, sem verið höfðu hjá Spé ehf., en Nóló ehf. hafði yfirtekið sbr. það sem fram komi í fundargerðum aðalfunda þess allt frá 1999, en verðmæti þessara viðskiptasambanda hafi verið metin á 30-40 milljónir króna, en veltan á bak við merkin hafi verið yfir 100 milljónir króna sem þýði framlegð á bilinu 30-40%.  Verðmæti hlutafjárins í Spé hafi þannig verið ákvarðað út frá þeim umboðum sem viðkomandi hluthafi í Spé ehf. hafði aflað og í raun komið með til Nólós ehf. með því að starfa þar.  Þá höfðu menn verið sammála um að óeðlilegt væri að einum hluthafa væri greitt út í peningum meðan annar stæði í skuld m/v viðskiptastöðu.  Augljóst hafi verið að hagsmunir Nólós ehf. hafi verið fólgnir í því að halda áfram sambandinu við hluthafana í Spé ehf., en verðmætustu umboðin hafi verið tengd þeim og fyrirsjáanlegt að rekstrargrundvöllur Nólós ehf myndi bresta ef hluthafarnir færu hver sína leið.

             Stefndu vísuðu til þess að í ársbyrjun 2002 hafi verið bjart fram undan hjá Nóló ehf. og áætlanir gert ráð fyrir góðum rekstri á komandi árum og verðmat P.W.C. á því verið jákvætt og fullur þungi verið í viðræðum Tómasar Hanssonar að fá fjárfesta til liðs við félagið.

             Ástæðan fyrir því, að ekki hafi komið inn nýjir hluthafar og að félagið varð svo gjaldþrota, hafi verið sú að Landsbanki Íslands, sem hafði haft hug á því, að  koma inn með 20 milljónir hafi hætt við, en það hafði verið forsenda annarra að hann yrði með í pakkanum.  Þetta hafi þá ekki verið komið í ljós, er hlutabréfin voru keypt í Spé ehf.

             III.        Málsástæður og lagarök.

             1. Stefnandi byggir á því að um riftanlegan gerning hafi verið að ræða er hlutabréfin voru keypt.  Hann byggir á því að í raun hafi verið um greiðslu skuldar að ræða með óvenjulegum greiðslueyri. Seljandinn, stefnda Umboðssalan Art ehf., hafi greitt upp í skuld sína við stefnanda með hlutabréfum sem hér teljist óvenjulegt.  Þá byggir hann líka á því að með gerningnum hafi verið komið í veg fyrir að eignir þb. Nólós hafi verið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, þar sem kröfum á hendur seljanda var að mestu eytt með gerningnum.  Byggt er á því að stefndu hafi vitað að um óhlýðilegan gerning hafi verið að ræða og einnig að um viðskipti milli nákominna í skilningi 3. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991.  Um þetta vísast annars til meginreglna gþl. um riftun ráðstafana þrotamanns sérstaklega til 134,141 og 142. gr.   Þá er byggt á því að stefndi Georg sé skaðabótaskyldur samkvæmt almennum skaðabótareglum fyrir þátt sinn í gerningnum.  Hann hafi brotið gegn ákvæðum 48. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 með því að taka þátt í meðferð málsins af hálfu Nólós ehf. þótt hann hefði verulegra persónulegra hagsmuna að gæta. Hann hafi einnig brotið gegn 51. gr. sömu laga, þar sem ráðstöfunin hafi bersýnilega verið til þess fallin að afla ákveðnum hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna og valdið stefnanda þannig tjóni.  Það er byggt á því að hann og aðrir stjórnarmenn í Nóló ehf. hafi ekki átt að samþykkja viðskiptin nema fá mat sérfróðra á verðmæti bréfanna, þar sem hér var greinilega um áhættusamning að ræða.  Einnig hafi samningurinn verið stór miðað við umsvif stefnanda og eignir, en upphæð hans hafi numið meira en fimmföldu eigin fé hans.  Það kallar enn frekar á varkárni við gerð hans og að leita eftir áliti sérfræðinga áður en hann væri gerður.  Að mati stefnanda benda mörg atriði til þess að gerningur sá, sem um er fjallað, hafi vísvitandi verið gerður til að hafa fé af stefnanda í þágu stefnda.  Byggt er á því að verðmæti umræddra hlutabréfa í viðskiptum þessum hafi augljóslega verið allt of hátt og að stefndu beri ekki sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða.  Verðmat hlutabréfanna hafi greinilega ekki verið í neinu samræmi við rekstur eða eignastöðu Spés hf.  Það sér athyglisvert að verðið virðist látið passa u.þ.b. nákvæmlega við skuld seljanda þegar frá þessu er gengið.  Það sé einnig athyglisvert að gengið á bréfum stefnda var annað en gengi á bréfum hinna tveggja sem "seldu" sín bréf um leið.  Fyrir slíku séu engin rök og bendi það með örðu til þess að leikurinn hafi aðeins verið til þess gerður að slétta út skuld stefnda Umboðssölunnar Art ehf. við umbj.m.  Enn skuli bent á að samkvæmt yfirlitum endurskoðenda um tilurð skuldar stefnda Umboðssölunnar Art ehf. og hinna aðilanna tveggja sem seldu bréf sín um leið, komi fram að þær voru ýmist vegna eigendanna persónulega, eða vegna félaga þeirra, en því hafi öllu verið blandað saman á viðskiptareikningum.  Meðal annars hafi verið um beinar peningagreiðslur að ræða frá stefnanda til eigendanna persónulega, hér stefnda Georgs og það verið fært sem skuld félags þeirra (hér Umboðssölunnar Art ehf.) sem síðan hafi verið gert upp með umræddum hlutabréfaviðskiptum.  Samkvæmt 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 séu lánveitingar félaganna til stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra óheimilar.  Greiðsla Umboðssölunnar Art ehf. gæti ekki leitt til annars en að stefndi Georg skuldi félaginu það sem félagið greiddi fyrir hann, það er hann hafi fengið upphæðina að láni hjá því og þar með einnig brotið gegn þessu lagaákvæði.

             Samningur um þessi viðskipti finnist ekki í bókhaldi stefnanda.

             Um skaðabótaskyldu stefnda Georgs vísast líka til 108. gr. laga nr. 38/1994.

             Til upplýsinga skal þess getið að sams konar mál og þetta er höfðað gegn Hall ehf. og Pétri Þór Halldórssyni.

             Um málskostnað vísast til ákærða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            

2.          Af hálfu stefndu er málsástæðum og lagarökum stefnanda alfarið hafnað.  Umrædd viðskipti með hlutabréfin í Spé ehf. hafi átt sér stað þegar ekkert blasti við annað en björt framtíð í Nóló ehf.  Það hafi verið að freista þess að ná inn nýjum hluthöfum í félagið og ekkert í spilunum sem bent hafi til þess þá, þ.e. í byrjun árs 2001, að félagið væri á leið í þrot, enda það ekki vera fyrr en tæpu einu og hálfu ári síðar, eftir að Landsbanki Íslands hf. hafði dregið að sér hendur með að setja hlutafé inn í félagið svo sem áður segir.

Stefnandi byggir m.a. á 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.  Ekki verði séð að þessi lagagrein geti með nokkru móti átt við um viðskipti þau sem stefnandi vill gera athugasemdir við.  Greinin heimili riftun á greiðslu skuldar sem innt hafi verið af hendi af hálfu þrotamanns með óvenjulegum greiðslueyri.   Í þeim viðskiptum sem hér séu til umfjöllunar hafi ekki verið um greiðslu á neinni skuld að ræða hjá hinu gjaldþrota félagi.  Það sem um hafi verið að ræða var einungis að Nóló ehf. keypti hlutabréf í Spé ehf. af stefnda Art ehf. og greiddi fyrir það hlutafé með því að gefa eftir kröfu sem Nóló ehf. átti á Art ehf.  Hið gjaldþrota félag, Nóló ehf., hafi þannig ekki losnað við neinar skuldir með gerningnum.  E.t.v. megi á hinn bóginn túlka það svo að Art ehf. hafi með gerningnum verið að greiða skuldir, en það veiti þrotabúi Nóló ehf. engan rétt til að höfða riftunarmál á grundvelli framangreindrar lagagreinar.

Ekki sé gerð sérstök frávísunarkrafa af hálfu stefndu, en vissulega megi hreyfa því hvort dómari eigi að frávísa málinu ex officio vegna vanreifunar af ofangreindum sökum.

Af hálfu stefndu er því alfarið hafnað að 141. gr. laga nr. 21, 1991  geti átt við í þessu sambandi.  Viðskipti þau sem um ræðir hafi átt sér stað þegar allt var í blóma hjá félaginu og höfðu nákvæmlega engin áhrif á það sem síðar gerðist í rekstrinum.   Á þessum tíma hafi það einkum verið tvær forsendur fyrir því að félagið gæti haldið áfram rekstri.  Í fyrsta lagi að aukið hlutafé kæmi inn í félagið, en verið var að vinna að því hörðum höndum svo sem að framan greini.  Í annan stað hafi það verið algerlega nauðsynlegt fyrir félagið að halda þeim viðskiptasamböndum sem fylgdu eigendum félagsins.  Forsenda þess var að halda hluthafahópnum saman og liður í því var að færa endanlega viðskiptavild Spé ehf. yfir í Nóló ehf. með kaupum á hlutafénu af hluthöfum í Spé ehf., þ.m.t. stefnda Art ehf.  Þetta hafi í raun verið lokahnykkurinn á því sem ávallt hafði verið stefnt að og t.a.m. verðmat PWC á félaginu gerði ráð fyrir, þ.e. að uppsafnað rekstrartap í Spé ehf. gæti nýst í rekstri Nóló ehf.

Nóló ehf. fékk með gerningnum viðskiptasambönd inn í félagið með tryggum hætti, en þau voru félaginu lífsnauðsynleg.  Þetta hafi verið gert án þess að fórna með því nokkrum hagsmunum í staðinn.  Greiðslan fyrir hlutabréfin hafi verið eftirgjöf kröfu Nóló ehf. á Art ehf., sem hafi verið ógjaldfært félag á þeim tíma (sjá meðf. ársreikning).

Með vísan til þess sem að framan greini sé augljóst að það hafi á þessum tíma góð og gegn viðskiptaákvörðun hjá Nóló ehf. að festa kaup á hlutafénu í Spé ehf. með þeim hætti sem um ræðir.  Það geti því ekki með nokkru móti komið til að um riftanlega ráðstöfun sé að ræða á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. 

Hin huglægu og hlutlægu sönnunarskilyrði fyrir beitingu 141. gr. laganna skortir alfarið í máli þessu.  Í þessu sambandi megi geta þess að því hafi verið haldið fram í riftunarmálum við gjaldþrot að 141. gr. laganna verði ekki beitt einni sér, heldur sé hann til stuðnings öðrum hlutlægum riftunarreglum laganna, sem ekki sé hægt að beita í máli þessu svo sem að framan greinir.

Með vísan til þess sem að framan greinir um 134. gr. laganna verður ekki séð að hægt sé að beita endurgreiðslureglunni í 142. gr. í máli þessu. Sú grein sé bundin við riftun sem byggir á 131-138. gr. laganna, en eins og áður segir geti riftunin aldrei byggt á 134. gr. þó á henni sé byggt í stefnu.  Þegar af þessari ástæðu komi endurgreiðslukrafa ekki til greina skv. þessari grein.

Að öðru leyti sé endurgreiðslukröfunni hafnað á sömu forsendum og að framan greinir í umfjöllun um 141. gr. laganna, auk þess sem endurgreiðslukrafan vegna riftunar á grundvelli þeirrar lagareglu sé vanreifuð.

Um stefnda Georg Kristjánsson er byggt á því, að hann hafi ekki verið persónulega aðili að þeim viðskiptum sem skiptastjóri freistar nú að rifta.  Þó hann hafi vissulega verið tengdur báðum félögunum með stjórnarsetu eða starfi framkvæmdarstjóra breyti það ekki grundvallarreglum um takmarkaða ábyrgð í einkahlutafélögum.  Af þessum sökum er sýknukrafa Georgs aðallega byggð á aðildarskorti.

Stefnandi byggir kröfu sína á stefnda Georg á því að hann hafi með aðkomu sinni að viðskiptunum skapað sér persónulega bótaábyrgð, annars vegar á grundvelli almennra skaðabótareglna og hins vegar á grundvelli 48. gr. og 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. 

Í þessu sambandi er við almennu skaðabótaregluna fyrst til þess að taka að viðskipti þau sem um ræðir voru á engan hátt óeðlileg eða skemmandi fyrir Nóló ehf. eins og áður hefur verið lýst, heldur voru í eðlilegu samhengi við það sem var að gerast í félaginu á þeim tíma og í raun forsenda fyrir áframhaldandi rekstri Nóló ehf. sbr. það sem fram hefur komið.  Algerlega sé óhugsandi er að almenna skaðabótareglan geti tekið til máls þessa, enda skortir öll skilyrði fyrir því að henni verði beitt í máli þessu.  Það hafi t.d. ekkert tjón orðið í Nóló ehf. við viðskiptin.  Framlögð gögn í málinu sem og það sem fram hefur komið í greinargerð þessari sýni svo ekki verður um villst að hlutabréfaviðskiptin sem um er fjallað í máli þessu áttu á engan hátt þátt í gjaldþroti Nóló ehf. og megi á engan hátt rekja tap kröfuhafa í þb. Nóló ehf. til þeirra viðskipta sem fjallað er um í máli þessu. 

Svo sem fyrr greinir byggi stefnandi ennfremur á 48. og 51. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.  Til að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri í félagi geti orðið persónulega ábyrgur gagnvart félaginu eða hluthöfum þess verður að sýna fram á að hann hafi brotið alvarlega gegn félaginu eða hluthöfunum þess.  Í þeim tilvikum verði væntanlega að sýna fram á að hann hafi t.a.m. farið út fyrir umboð sitt eða framkvæmt eitthvað sem hafi verið í óþökk annarra hluthafa eða félagsins. 

Þær lagagreinar sem stefnandi vitni í séu settar til verndar þeim hluthöfum sem ekki komi  að ákvarðanatöku í félaginu.  Greinarnar banni á engan hátt að stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri taki þátt í samningagerð sem honum tengist, nema hagsmunir hans fari í bága við hagsmuni félagsins.  Þá sé skylt að upplýsa aðra hluthafa um atvik af þessu tagi.

Í því máli sem hér sé til umfjöllunar skorti grundvallarskilyrði fyrir því að hægt sé að halda því fram að stefndi Georg sé persónulega ábyrgur.  Í fyrsta lagi var öllum hluthöfum í þeim félögum sem að komu kunnugt um viðskiptin, samþykktu þau og töldu þau bæði Nóló ehf., Spé ehf. og Art ehf. til hagsbóta.  Þegar af þessari ástæðu sé óhugsandi að stefndi Georg hafi skapað sér persónulega ábyrgð í málinu, enda ákvarðanatakan einróma samþykkt og þar með lögmæt ákvörðun í Nóló ehf.

Í annan stað hafi ekki verið um að ræða viðskipti sem verið hafi stefnda Georg til hagsbóta á kostnað Nóló ehf. eða hluthafa í því félagi.  Það hafi verið samkomulag um að viðskiptin væru í raun hagkvæm fyrir alla aðila og forsenda fyrir áframhaldandi rekstri Nóló ehf.  Af þessum sökum getur aldrei komið til persónuleg ábyrgð stefnda Georgs því það hafi allir verið sammála auk þess sem ekkert tjón hafi orðið af viðskiptunum fyrir Nóló ehf.

Allir hluthafar í Nóló ehf. hafi sammála um að endurgjald fyrir bréfin í Spé ehf. skyldu vera með þeim hætti sem raunin varð.  Ástæða þess að um mismunandi háa fjárhæð var að ræða sem hluthafar í Spé ehf. fengu fyrir félagið var að umboðin sem sannanlega fylgdu hverjum hluthafa hafi verið talin mismunandi verðmæt og samkomulag um að allir kæmu út á sléttu hvað þetta varðaði og enginn myndi enda uppi með að skulda Nóló ehf. meðan aðrir væru skuldlausir.   Slík ákvörðun hafi að sjálfsögðu verið lögmæt, enda samþykkt af öllum hluthöfum svo sem áður segir.

Inneign Nóló ehf. hjá Art ehf. sem notuð hafi verið til að greiða hlutaféð í Spé ehf. hafi eingöngu verið til komin vegna viðskipta milli Nóló ehf. og Art ehf. en ekki vegna persónulegra þátta tengdum stefnda Georg.  Nóló ehf. hafi þannig ekkert greitt fyrir stefnda Georg eins og haldið sé fram í stefnu.   Meginmálið sé ennfremur að hluthafar í Nóló ehf. hafi verið sammála um að sú viðskiptakrafa sem afskrifuð hafi verið á móti hlutafénu var ásættanlegt verð fyrir hlutaféð.  Enginn hafi verið hlunnfarinn í því sambandi.

Vísað er til laga nr. 21/1991, einkum 134. gr., 141. gr., 142. gr. og 143. gr. og nr. 138/1994, einkum 48. gr., 51. gr., 55. gr.,  79. gr. og 108. gr.  Þá er ennfremur vísað í almennar reglur félagaréttar um ábyrgð í hlutafélögum.Þá er vísað til almennu skaðabótareglunnar.Varðandi sýknukröfu vegna aðildarskorts stefnda Georgs er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Málskostnaðarkrafan byggist á 130. gr. síðastnefndu laga.

             IV.  Sönnunarfærsla.

             Í málinu gaf Georg Kristjánsson, kt. 240265-4439, Melahvarfi 5, Kópavogi, fyrirsvarsmaður stefnda skýrslu og vitni báru Tómas Hallgrímsson, kt. 011063-7139,

Einarsnesi 20, Reykjavík, útibústjóri, Breiðholtsútibús Landsbanka Íslands, Theodór S. Sigmundsson, endurskoðandi á vegum skiptastjóra stefnanda, kt. 060459-3049, Haðalandi 11, Reykjavík, Tómas Hansson, hagfræðingur, kt. 270365-3459, endurskoðandi, kt. 240560-3809, Bollagörðum 27, Seltjarnarnesi, sem endurskoðaði á vegum Princewaterhouse Cooper ehf. ársreikninga árið 2002 fyrir Hnjóta hf. og H.P.H. ehf., Pétur Þór Halldórsson, kt. 200264-5339, Lindarbraut 27, Seltjarnarnesi sem var stjórnarmaður í Nóló ehf. og Spé ehf. og Valdimar St. Jónasson, kt. 050552-2179, Núpabakka 7, Reykjavík, sem var framkvæmdastjóri og verður rakið úr framburðum þessum, það sem máli skiptir í niðurstöðukaflanum hér á eftir.

             V.   Niðurstöður.

             Í stefnunni kemur fram að samskonar mál og hér er til umfjöllunar, hafi verið höfðað gegn Hall ehf. og Pétri Þór Halldórssyni og dómur í því máli, sem kveðinn var upp 28. maí s.l. verið lagður fram í málinu.  Atvik og aðstæður í því máli eru mjög á sama veg og í þessu máli og ágreiningsefnið svipað.

             Í málinu liggja fyrir skýrslur endurskoðendanna Gerðar Guðjónsdóttur og Theodórs Sigurbergssonar um skoðun á viðskiptareikningum tengdum stjórnendum og eigendum Nólós ehf. og yfirlit um hlutabréfaviðskipti félagsins og hefur Theodór staðfest þessar skýrslur, en þau unnu þessa endurskoðun fyrir skiptastjóra þrotabúsins.  Fram kom hjá Theodóri að búið væri að þrengja reglur skattalaga um möguleikann á því að nota rekstrartap eins fyrirtækis til skattahagræðingar fyrir annað fyrirtæki, en hann kvað Spé ehf. ekki hafa verið með neina starfsemi og eignastaða þess hafi verið þannig að ekki hafi verið skilyrði til þess að stefnandi nyti skattahagræðis skattalaga með kaupunum á hlutafénu í félaginu, sem metið hafi verið á allt of hátt verð við kaupin.  Hann gat þó ekki sýnt fram á að bannað væri að nota tapið til frádráttar, en til þess þyrfti samþykki ríkisskattstjóra.  Þá skýrði hann greiðslur stefnanda til stefnda Art ehf., sem skoða bæri sem greiðslu á einkaneyslu stefnda Georgs eða lán til hans.

             Í fundargerð um aðalfund H.P.H. ehf. nú Nóló ehf. frá 1. mars 1999 kemur fram, að þá var samþykkt að yfirtaka rekstur Hnjóta hf. síðar Spé ehf. frá og með ársbyrjun 1999, þ.e. vörumerki og umboð þau sem Hnjótar höfðu verið með undanfarin ár.  Jafnframt var samþykkt að greiðsla fyrir umboðin yrði ákvörðuð síðar, þegar í ljós væri komið hvort H.P.H. héldist á umboðunum, þó þannig að endanlegt endurgjald fyrir umboðið og vörumerki Hnjóta lægi fyrir í síðasta lagi í árslok 2002.  Jafnframt var samþykkt að kaupa allar vörubirgðir af Hnjótum fyrir 10.118.275 krónur sem færðist á viðskiptareikning árið 1999.

             Af ársreikningi Hnjóta hf. fyrir árið 2000, kemur fram að vörubirgðir félagsins fyrir það ár voru engar en voru 10.118.275 krónur í árslok árið á undan, svo að kaupin hafa gengið eftir, en ekki verður annað af honum ráðið en að greitt hafi verið fyrir vörubirgðirnar á  árinu 1999, sbr. liðurinn óreglulegar tekjur, en ekki verður séð að stefnanda hafi verið skuldfærður fyrir þessar greiðslu.

             Hnjótar hf. hefur því verið innflutningsfyrirtæki með afnotarétt yfir mörgum umboðum og vörumerkjum fyrir skó, sem þó fylgja eigendum þeirra félaga  sem voru hluthafar félagsins og þó aðallega Pétri Þór Halldórssyni og Georg Kristjánssyni.  Inneign stefnda og Nóló ehf. og fleiri hjá Hnjótum, virðist því hafa myndast vegna kostnaðar og útgjalda þessa fyrirtækis o.fl. við að selja og dreifa þeim vörum sem Hnjótar hf. voru með umboð fyrir samkv. sérstökum afnotasamningi og svo greiðslu fyrir afnotaréttindum.  Umboð þessi voru samt persónubundin og þegar hafður er áskilnaður um það í fundargerðum aðalfundar H.P.H. fyrir árið 1999, að á það verði að reyna hvort Nóló ehf. haldist á umboðunum áður en ákveðin er greiðsla fyrir þau, er líklegast verið að láta á það reyna hvort hinir erlendu eigendur vörumerkis Ecco, samþykki, að ekki sé rekið sérstakt félag um innflutning á vörum með þessu merki, svo sem sett hafði verið að skilyrði, en hagkvæmara þótti að hafa sameiginlegan rekstur um öll umboðin. Það hafði þannig komið til álita hvot umboðin fengjust skráð á H.P.H. ehf. eða Nóló ehf. eftir yfirtökurnar, en ella varð að að tryggja að eigendur umboðanna, sem Hnjótar voru með afnotarétt á kæmu að rekstrinum.

             Þegar ársreikningur stefnanda H.P.H. hf. fyrir árið 2000 er virtur, kemur í ljóst að veltufjármunir félagsins eru töluvert miklir eða 169.379.126 krónur og vörusala nam 280.791.595 krónur en hins vegar er eigið fé fremur lítið eða 6.122.229 krónur.  Skuldir félagsins námu 178.456.784 krónur.

             Rekstrarerfiðleikar voru hjá félaginu sem jukust á árinu 2001 og kemur fram í vitnisburði Tómasar Hallgrímssonar útibússtjóra Landsbanka Íslands í Mjódd, sem var viðskiptabanki stefnanda frá febrúar 2000, en þar var stefnandi með tékkareikninga og bankinn veitti honum innflutningsábyrgðir og innheimtuþjónustu, að farið hafi að bera á vanskilum hjá félaginu síðsla árs 2000 og þau vaxið síðar svo að innflutningsábyrgðir féllu á félagið fengust ekki greiddar.Forsvarsmönnum félagsins hafi verið gert grein fyrir, eftir að innflutningsábyrgðirnar fóru í vanskil, að  breyting yrði að verða á rekstrinum t.d. með því að fá nýtt hlutafé og lokað yrði á viðskiptin nema úr yrði bætt og skilum komið á.  Vorið 2001 hafði svo bankanum eða Framtaki ehf. sem var fjárfestingafélag á vegum bankans verið tilkynnt að verið væri að fá nýja hluthafa í félagið og um verðmat á því í því sambandi.

             Til þess að sjá um endurskipulagningu á félaginu með það í huga að auka umsvif þess og auka tekjur var fenginn Tómas Hansson hagfræðingur, sem rak ráðgjafafyrirtæki og hafði áður starfað hjá Íslandsbanka hf. við rekstrarráðgjöf.  Í vitnisburði hans kemur fram að tilgangurinn með kaupum á hlutafé í Spé ehf. hafi verið að fá nokkra aðila, sem stóðu í innflutningi og sölu á skóm saman í einn rekstur.  Hugmyndin hafi verið að útvíkka og stækka reksturinn og að félagið tæki að sé stærri verkefni fyrir smásöluna innanlands og tæki einnig að sér verkefni erlendis.  Vitnið kvað það forsendu fyrir því, að nýtt fé fengist í félagið að félögin sameinuðust í eitt félag sem hefði sameiginlega hagsmuni gagnvart nýjum aðilum sem komu inn í félagið.  Vitnið kvað ekki hafa verið blikur á lofti fyrir Nóló ehf. í ársbyrjun 2001.  Viðræður hafi verið í gangi við Farmaco ehf., Lyfju hf., Málningu hf. og Wernerfjölskylduna um að koma að félaginu.  Þeir hafi verið áhugasamir og allt gengið vel og verið sterkar líkur á að þetta gengi eftir, en þetta svo strandað á því að umhverfið á fjárfestingar og hlutabréfamarkaðnum hafi breyst til hins verra, svo að menn hafi orðið íhaldssamir í ákvörðunartökum og kippt að sér hendinni.  Þá hafi það verið forsenda þeirra, sem ætlað hafi að koma að nýir í félagið, að Landsbankinn kæmi að málinu, en það dregist að fá svör frá þeim.  Það kvað hafa verið ljóst, ef ekki kæmu nýir hluthafar að félaginu að það stefndi í gjaldþrot, en kvaðst samt ekki sjá nein tengsl milli gjaldþrots félagsins og kaupa þess á hlutabréfum í Spé ehf.

             Í sama streng tók vitnið Rögnvaldur Dofri Pétursson endurskoðandi, sem gert hafði á vegum Princewaterhouse Coopers ehf. ársreikninga fyrir árið 2000 fyrir stefnanda og Hnjóta ehf.  Það kvað Nóló ehf. í reynd hafa verið búið að yfirtaka rekstur Hnjóta ehf. er það keypti vörubirgðir Hnjóta ehf. og einungis hafi verið eftir að ganga frá því endanlega gagnvart erlendum aðilum. 

             Það kvað það hafa verið kröfu þeirra, sem ætluðu að koma nýir að Nóló ehf. að Spé ehf. yrði sameinað því svo að hluthafarnir þrír, sem stóðu að Spé ehf., væru inn í Nóló með þau umboð sem tengdust þeim persónulega og væri jafnframt skuldlausir við félagið.

             Það kvað hafa verið langt frá því að Nóló ehf. væri gjaldþrota er kaupin á hlutabréfum í Spé ehf. áttu sér stað.  Þetta hafi verið bjartasti tíminn, sem félagið hafði búið við um langt skeið, þegar litið var til þess sem var í gangi, þ.e. viðræður við nýja hluthafa og um viðskiptasambönd við Baug eða Top Shop og álíka rekstur fyrir Baug á Norðurlöndum.  Það kvað hafa farið að halla undan fæti fyrir Nóló ehf. seinni hluta árs 2001 og ástæðan verið sú, að rekstur Baugs á Norðurlöndum hafi ekki farið á stað eins og til stóð og væntanlegir hluthafar hafi ekki komið til liðs við félagið, en skilyrði þess, hafi verið að Landsbanki Íslands kæmi að málinu með skilnaðarbreytingu á láni, en hann ekki orðið við beiðni þar um.

            Vitnið var þess fullvisst, að nýta hafi mátt tap Spés ehf. til skattahagræðingar fyrir Nóló ehf., án þess að það væri véfengt af skattayfirvöldum, en félögin hafi verið í sambærilegum rekstri, en sameining félagsins hefði ekki mátt dragast á langinn ef það átti að fá skattatap metið.  Vitnið hafði séð samninginn um kaup Nólós ehf. á hlutabréfum í Spé ehf af stefnda Art ehf. o.fl.  Það kvað hið mismunandi gengi á bréfunum í Spé ehf. hafi miðast nokkuð við að jafna út skuldir félagsins við Nóló ehf., þannig að eigendur þess væru skuldlausir við Nóló ehf. en kostnaður við umboðin og viðskiptasamband við erlenda aðila hafi ráðið verulegu um að bréfin voru metin mishátt eftir eigendum.

             Georg, eigandi stefnda Umboðssölunnar Art ehf. hefur borið mjög á sama veg um þetta sem og Pétur Þór Halldórsson og Valdimar Jónasson, sem hafa borið vitni um þetta efni.

            Það er mat réttarins að þegar virtur er ársreikningur stefnanda fyrir árið 2000, vætti vitnanna Tómasar Hanssonar, Rögnvaldar Dofra Péturssonar og Valdimars Jónassonar framkvæmdastjóra, að stefnandi var vel gjaldfært  í ársbyrjun 2001 og þó að rekstrarerfiðleikar væru fyrir hendi horfði þá ekki til gjaldþrots hjá honum.  Ljóst er sbr. vætti Tómasar Halldórssonar að það er síðla árs 2001, sem staða stefnanda tekur að versna verulega og blasti þá við að félagið yrði gjaldþrota, ef ekki tækist að endurskipuleggja reksturinn og koma á þeirri sameiningu á stefnanda og Spé ehf. sem fyrirhuguð var allt frá árinu 1999.  Spé ehf. hafði afnotarétt að þeim umboðum og vörumerkjum sem stefnanda voru nauðsynleg í sambandi við þau markmið sem stefnt var að með endurskipulagningu á rekstri hans.  Fyrir liggur að rétturinn yfir þessum umboðum og vörumerkjum var persónubundinn og aðalhluthafar félaganna sem voru hluthafar í Spé ehf. höfðu yfirráðarétt yfir þeim og að þessir aðilar höfðu öll tök á að taka umboðin og vörumerkin með sér, ef þeir vildu ekki taka þátt í endurskipulagningunum og sameiningunni.  Það hafði því verulega fjárhagslega þýðingu fyrir stefnanda og áframhaldandi rekstur hans, að hann tryggði sér aðgang að þessum umboðum og tryggja  aðild þeirra einstaklinga, sem yfir þeim höfðu að ráða að stefnanda enda skilyrði af hálfu þeirra fjárfesta, sem rætt hafði verið við um þátttöku í endurskipulagningu stefnanda sbr. vætti Tómasar Hanssonar og Rögnvaldar Dofra.

             Í málinu hefur komið fram, að við verðmat á hlutabréfunum í Spé ehf. verði að líta til þess, að rektrartap þess hafi getað nýst stefnanda til skattahagræðingar, og þykir ekki hafa verið sýnt fram á að það sé útilokað.  Þá þykir það ekki ósennilegt að mismunandi gengi bréfanna hafi ráðist af hversu mörg og verðmæt umboð voru í eigu hlutaðeigandi hluthafa. Þá ber og að líta til þess að hluti skuldar stefnda við stefnanda gætu verið vegna umboðslauna, sem formlega tilheyri Spé ehf. en hún er ekki nákvæmlega sundurliðuð, en í ársreikningnum fyrir árið 2000  er hún líklega felld undir skammtímalán vegna kostnaðar, sem umboðslaunin geta verið innifalin í.

             .  Þegar litið er til ársreiknings stefnda árið 2000 og það sem fram er komið hjá vitnum og stefnda Georg, má fallast á að fremur litlar líkur hafi verið á að stefndi Art ehf. hafi getað greitt skuld sína við stefnanda, en ekki er um mikla veltu að ræða og er allt sem bendir til þess, að hluthafar stefnanda hafi ekki beðið fjárhagslegt tjón af kaupum stefnanda á 30% hlutafjár í Spé ehf.

             Við gjaldþrot stefnanda hafði það svo gengið eftir, sem vísað var til hér að framan að afnotarétturinn  yfir umboðunum sem stefnandi öðlaðist við hlutabréfakaupin færðist yfir á félagið Spor ehf., sem tengist fyrri eigendum Nólós án þess að nýtast Nóló ehf.

             Í málinu verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á, að stefnandi hafi verið í skuld við stefnda umboðssöluna Art ehf. og þeir hafi greitt skuldina með óeðlilegum greiðslueyri.  Ekki hafði verið gengið endanlega frá sölu Spé ehf. á umboðum og vörumerkjum til stefnanda, verður því ekki talið að hann hafi gengist undir greiðslu ákveðinnar upphæðar til Spés ehf., sem samsvaraði kaupverði hlutabréfanna milli aðila um kaup stefnanda á hlutabréfum stefnda Umboðssölunni Art ehf. í Spé ehf. og verður þeim ekki rift með vísan í 134. gr. laga nr. 21/1991.

             Þegar allt er virt sem fram er komið í málinu og rakið er hér að framan, þykir enn bresta sönnun um að framangreind viðskipti með hlutabréfin í Spé ehf. á þeim tíma er þau voru gerð hafi verið ótilhlýðileg háttsemi sem riftanleg sé samkv. 141. gr. laga nr. 21/1991.

             Ráðstöfunin verður, þó að um sé að ræða töluverðan hluta af bókfærðri eign félagsins að teljast eðlileg ráðstöfun miðað við aðstæður og nauðsynlega endurskipulagningu á rekstri stefnanda, en við hana voru bundnar vonir stefnanda um að halda velli og auka og stækka reksturinn í framtíðinni.

             Af þessari niðurstöðu leiðir að þátttaka stefnda Georgs, sem stjórnarmanns stefnanda í umræddum viðskiptum telst ekki fara í bága við XV. kafla laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 eða almenna skaðabótareglu, en þau voru á sínum tíma er þau áttu sér stað talin eðlileg og hagstæð félaginu og þar með hluthöfum þess og sem fyrr segir nauðsynleg aðgerð í endurskipulagningu og rekstri félagsins og telst samræmast  49. og 51. gr. laganna.

             Kaupverð bréfanna var skv. kaupsamningi aðila ráðstafað til stefnda Art ehf. og hafi það gengið að hluta til inn á bankareikning stefnda Georgs, þ.e. 862.225 krónur fyrir 1. mars 2001, samkvæmt samantekt á dskj. nr. 3, og þær jafnframt merktar stefnda Umboðssölunni Art ehf., þannig að líta verður á þetta sem uppgjör á vegum stefnanda og stefnda Umboðssölunnar Art ehf. og það sé mál  innan Umboðssölunnar Art ehf. að þessar greiðslur inn í félagið og þykir stefnandi ekki eiga aðild að því máli.

             Samkvæmt þessu eru stefndu sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og eftir þeim úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað.

             Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.

 

DÓMSORÐ

            Stefnda, Umboðssalan Art ehf. og stefndi, Georg Kristjánsson, eru sýknuð af kröfu stefnanda, þrotabús Nóló ehf.

             Stefnandi greiði stefndu 150.000 krónur í málskostnað.