Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-91
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Börn
- Barnavernd
- Refsiheimild
- Refsinæmi
- Stjórnarskrá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 30. apríl 2025 leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 139/2024: Ákæruvaldið gegn X. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili var ákærður fyrir brot gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa sýnt brotaþola, sem þá var tíu ára að aldri, yfirgang og vanvirðandi og ruddalega háttsemi þegar hann hljóp á eftir honum inn í svefnherbergi, læsti dyrunum og sneri brotaþola niður gegn vilja hans í hjónarúmi herbergisins og batt hann þar á höndum og fótum, fyrir aftan bak, settist klofvega yfir hann þar sem hann lá á maganum og kitlaði hann þótt drengurinn bæði hann margsinnis um að hætta. Í ákæru kom jafnframt fram að gagnaðili hefði ekki látið af háttseminni fyrr en brotaþoli náði að snúa sér við og hrækja í andlit hans.
4. Gagnaðili var sýknaður með dómi héraðsdóms. Landsréttur taldi að ekki væri komin fram nægileg sönnun fyrir því að hann hefði setið klofvega á brotaþola og ekki hætt að kitla hann fyrr en brotaþoli náði að snúa sér við og hrækja í andlit hans. Þá rakti Landsréttur að þegar tekin væri afstaða til þess hvort sú háttsemi gagnaðila sem hann hafði gengist við yrði heimfærð undir fyrrgreind ákvæði barnaverndarlaga yrði að horfa til þess að beiting refsiákvæða væri háð takmörkunum samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar. Landsréttur leit meðal annars til framburðar gagnaðila, brotaþola og tveggja vitna um að þau hefðu verið í leik þar sem börnin kitluðu ýmist gagnaðila eða hann þau. Var ekki talið hafið yfir skynsamlegan vafa að háttsemi gagnaðila hefði verið vanvirðandi í garð brotaþola eða hann hefði með henni sýnt yfirgang eða ruddalegt athæfi í skilningi barnaverndarlaga. Var hinn áfrýjaði dómur um sýknu gagnaðila og frávísun einkaréttarkröfu brotaþola því staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi telur mjög mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort gagnaðili hafi með þeirri háttsemi sem hann hefur gengist við fyrir dómi sýnt brotaþola yfirgang og vanvirðandi og ruddalega háttsemi í skilningi 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Telur leyfisbeiðandi ljóst að sú háttsemi sem gagnaðili hefur gengist við sé almennt til þess fallin að vekja ótta og vanlíðan hjá barni enda hafi brotaþoli málsins borið svo um. Það sé afar þýðingarmikið út frá sjónarmiðum um vernd barna að fá úrlausn um hvort fullorðinn einstaklingur geti skýlt sér á bak við að um leik hafi verið að ræða þegar augljósum aðstöðu- og aflsmuni sé beitt. Að mati leyfisbeiðanda blasi við að um yfirgang og vanvirðandi ruddalega háttsemi hafi verið að ræða af hálfu gagnaðila í garð brotaþola. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að staðhæfing Landsréttar um að hvorugt vitna hafi lýst því að brotaþoli hafi beðið gagnaðila að hætta sé röng og ætla megi að mat Landsréttar á framburði brotaþola hefði verið á annan veg ef nefnd rangfærsla hefði ekki komið til.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.